Hæstiréttur íslands
Mál nr. 282/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Miðvikudaginn 3. júní 2009. |
|
Nr. 282/2009. |
Sigurður Hilmar Ólason(Jón Gunnar Zoega hrl.) gegn Jökli Tómassyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Fjárnám sem gert var hjá S var ekki talið gefa rétta mynd af fjárhag hans og því ekki fullnægjandi grundvöllur gjaldþrotaúrskurðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Varnaraðila verður dæmdur kærumálskostnaður eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sigurður Hilmar Ólason, greiði varnaraðila, Jökli Tómassyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2009.
Mál þetta hófst með bréfi er barst dóminum 27. mars 2009 þar sem krafist var gjaldþrotaskipta á búi Jökuls Tómassonar. Við þingfestingu þess 29. apríl voru höfð uppi andmæli og þingfest sérstakt ágreiningsmál, sem tekið var til úrskurðar 11. þessa mánaðar.
Sóknaraðili, Sigurður Ólason, kt. 170855-3969, Tjaldanesi, Mosfellsbæ, krefst þess að bú varnaraðila, Jökuls Tómassonar, kt. 150665-3539, Bergstaðastræti 3, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Í kröfubréfi sóknaraðila kemur fram að hann eigi kröfu á hendur varnaraðila sem nemi samtals 6.448.069 krónum. Sé hún samkvæmt dómi héraðsdóms 6. mars 2009. Þá vísar sóknaraðili til fjárnámsgerðar er fram fór hjá varnaraðila að kröfu Saltfélagsins ehf. þann 12. febrúar 2009. Þar er bókað að varnaraðili sé mættur og að hann segist engar eignir eiga. Kröfu sína um gjaldþrotaskipti byggir sóknaraðili á 65. gr. laga nr. 21/1991.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að áðurgreindum héraðsdómi hafi verið áfrýjað. Áfrýjunarstefna hafi verið gefin út 22. apríl og birt fyrir sóknaraðila 26. apríl. Þá hafi hin árangurslausa fjárnámsgerð verið endurupptekin. Hefði hið árangurslausa fjárnám verið fellt niður, en fjárnám gert í fasteigninni Bergstaðastræti 3.
Varnaraðili kveðst byggja á því að skilyrði 65. gr. gjaldþrotalaga séu ekki uppfyllt. Hin árangurslausa fjárnámsgerð hafi verið endurupptekin og fjárnám gert í fasteign. Gerðin gefi því ranga mynd af fjárhag sínum.
Þá vísar varnaraðili til þess hann eigi eignir sem dugi til að hann geti að fullu staðið skil á skuldbindingum sínum gagnvart sóknaraðila. Tilgreinir hann í greinargerð fimm fasteignir sem hann eigi að hluta eða öllu leyti.
Sóknaraðili mótmælti því að áfrýjun dómsins eða endurupptaka fjárnámsgerðarinnar hefði nokkra þýðingu.
Forsendur og niðurstaða
Samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara sé tekið til gjaldþrotaskipta ef árangurslaust fjárnám hefur verið gert hjá skuldaranum á síðustu þremur mánuðum. Það skilyrði er uppfyllt hér og skiptir ekki máli þótt dómi um fjárkröfuna hafi verið áfrýjað og fjárnámsgerðin endurupptekin.
Í ákvæðinu er þó sleginn sá varnagli að ekki sé ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag skuldarans. Varnaraðili hefur hér sýnt fram á að hann er þinglýstur eigandi að fasteignum hér í borginni. Veðskuldir hvíla á eignunum, en nákvæmar heimildir um fjárhæð skulda eða verðmæti eignanna hafa ekki verið lagðar fram. Með þessu hefur varnaraðili þó sýnt að yfirlýsing sú er hann gaf við umrædda fjárnámsgerð er sennilega röng. Að líklegt sé að hann eigi eignir sem taka megi fjárnámi, sem leiða myndi til fullnustu krafna. Verður því að ætla að hin árangurslausa fjárnámsgerð gefi ekki rétta mynd af fjárhag varnaraðila. Verður að hafna kröfu um töku bús hans til gjaldþrotaskipta.
Aðilar kröfðust ekki málskostnaðar.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Sigurðar Ólasonar, um að bú varnaraðila, Jökuls Tómassonar, verði tekið til gjaldþrotaskipta.