Hæstiréttur íslands
Mál nr. 684/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. desember 2017 klukkan 13. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi frá 17. júní 2017 á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með héraðsdómi 28. september 2017 var honum gert að sæta fangelsi í 12 mánuði fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr., 1. mgr. 106. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 samkvæmt ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 12. júlí 2017 og ákæru héraðssaksóknara 28. sama mánaðar. Varnaraðili hefur á tímabilinu frá 6. desember 2004 til þessa dags verið dæmdur til að sæta óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu í hartnær sjö ár samkvæmt tíu dómum. Má því ætla að varnaraðili haldi áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið, sbr. c. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 26. október 2017
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á meðan dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli [...] er til meðferðar fyrir Hæstarétti uns dómur er þar upp kveðinn, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 21. febrúar 2018 kl. 13.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að dómfelldi hafi undanfarin misseri ítrekað komið við sögu lögreglu vegna ýmiss konar ætlaðra afbrota, ekki síst ofbeldisbrota. Þann 17. júní sl. hafi verið farið fram á gæsluvarðhald yfir dómfellda vegna síbrota og hættu á árásum skv. c. og d. lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Dómfelldi hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald samfleytt til dagsins í dag með úrskurðum nr. [...], [...], [...], [...]og [...].
Fram kemur í greinargerðinni að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi ákært dómfellda fyrir þrjár líkamsárásir þar af eina á unnustu sína, þjófnað úr íbúð og eignaspjöll með ákæru þann 12. júlí sl. Ákæra hafi einnig verið gefin út af embætti héraðssaksóknara þann 28. júlí sl. fyrir tvö valdstjórnarbrot, nánar tiltekið ofbeldi og síðan hótanir gagnvart opinberum starfsmönnum. Mál þessi hafi verið sameinuð fyrir dómi undir málsnúmer [...]. Dómfelldi hafi neitað sök að mestum hluta utan að hafa játað brot að hluta, samkvæmt ákærulið 1. í ákæru héraðssaksóknara. Aðalmeðferð málsins hafi hafist þann 5. september sl. og málið verið dómtekið eftir framhald aðalmeðferðar þann 12. september sl. Dómur í máli [...] hafi verið kveðinn upp þann 28. september sl. og hafi dómfelldi þá hlotið 12 mánaða fangelsi að frádregnu gæsluvarðhaldi frá 17. júní sl. Ríkissaksóknari hafi nú lýst yfir áfrýjun málsins og sent áfrýjunarstefnu til Hæstaréttar þann 25. október sl. Þá hafi ríkissaksóknari jafnframt falið lögreglustjóra að framlengja gæsluvarðhald dómfellda meðan á meðferð málsins standi fyrir Hæstarétti.
Dómfelldi hafi sem fyrr greinir verið ákærður fyrir brot gagnvart opinberum starfsmönnum þar sem hann hafi veist gróflega að forstöðumanni og starfsmönnum í [...], hvar hann hafi dvalið sem vistmaður, fyrst með ofbeldi og síðar með hótunum og eignaspjöllum. Starfsmennirnir hafi lýst mikilli hræðslu við dómfellda og farið m.a. fram á að nöfn þeirra kæmu ekki fram í lögregluskýrslum af ótta við hann. Hann hafi jafnframt verið ákærður fyrir líkamsárásir, þar af eina gagnvart unnustu sinni, þjófnað í íbúð, húsbrot og eignaspjöll. Þá hafi verið ákært fyrir mál nr. [...] vegna líkamsárásar, húsbrots og eignaspjalla þann 25. desember sl., ákæruliður III. í ákæru lögreglustjóra frá 12. júlí sl., en fallið hafi verið frá þeim ákærulið fyrir dómi eftir að brotaþoli hafi dregið kæru sína til baka.
Sakaferill dómfellda sé langur og hafi hann síðast hlotið 14 mánaða dóm [...] vegna margvísilegra brota, þ.á m. valdstjórnarbrot, ítrekaðra líkamsárása og hótana gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni. Brot dómfellda séu því margítrekuð og hafi hann ítrekað afplánað fangelsisrefsingu vegna þeirra en dómfelldi lauk síðast afplánun þann 15. september 2016. Brot þessi sem ákært hafi verið fyrir hafi því hafist fljótlega eftir að dómfelldi hafi lokið afplánun sinni. Hann hafi í gegnum tíðina verið í mikilli neyslu fíkniefna og sé gæddur verulegum takmörkunum sökum framheilaskaða. Hann hafi verið sviptur sjálfræði og stuttlega sætt öryggisvistun á vegum Reykjavíkurborgar í samstarfi við velferðarráðuneytið en verið vistaður í fangelsi meðan hann hafi sætt gæsluvarðhaldi. Fyrir liggi geðmat, dags. 21. mars 2017, hvar fram komi að dómfelldi sé talinn sakhæfur en að 16. gr. almennra hegningarlaga kunni að eiga við þar sem að honum gangi illa að samlagast fangelsislífi. Í niðurstöðum dóms í máli [..] hafi verið tekið fram að ekki þætti sýnt að refsing gæti ekki borið árangur gagnvart dómfellda.
Lögregla telji að verði ekki fallist á kröfu þessa og dómfelldi gangi laus þá sé viðbúið að hann muni ekki eingöngu brjóta af sér fljótlega á nýjan leik heldur muni hann valda sjálfum sér og/eða öðrum verulegu tjóni. Lögregla meti dómfellda sem verulega hættulegan einstakling sem lýsi sér í því að iðulega sé notast við sérsveit er afskipti séu höfð af honum enda hafi hann margítrekað gerst sekur um ofbeldisbrot líkt og að framan sé rakið og haft tilhneigingu til að bregðast illa við afskiptum lögreglu og annarra yfirvalda.
Lögregla hafi áður farið fram með kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli tilvísaðra ákvæða á hendur dómfellda. Í dómi Hæstaréttar nr. [...] frá 6. október 2015 hafi verið staðfest niðurstaða héraðsdóms um að dómfellda væri gert að sæta gæsluvarðhalds á grundvelli c- og d-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 sökum ætlaðra endurtekinna ofbeldisbrota.
Með vísan til framangreinds telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að hann muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna, sem og að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum af hans hálfu og því nauðsynlegt að dómfelldi sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæti dómsmeðferð fyrir æðri dómi. Það sé mat lögreglu að öll skilyrði gæsluvarðhalds séu fyrir hendi meðan málið sé til meðferðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. og d.-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. og 3. mgr. 97. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Eins og að framan greinir hefur dómfelldi undanfarin misseri ítrekað komið við sögu lögreglu vegna ýmiss konar ætlaðra afbrota, ekki síst ofbeldisbrota. Þann 17. júní sl. var dómfelldi hnepptur í gæsluvarðhald vegna síbrota og hættu á árásum skv. c. og d. lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Dómfelldi hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald samfleytt til 3. október nk. með úrskurðum þessa dómstóls nr. [...], [...], [...], [...] og [...].
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði dómfellda fyrir þrjár líkamsárásir þar af eina á unnustu sína, þjófnað úr íbúð og eignaspjöll með ákæru þann 12. júlí sl. Ákæra var einnig gefin út af embætti héraðssaksóknara þann 28. júlí sl. fyrir tvö valdstjórnarbrot, nánar tiltekið ofbeldi og síðan hótanir gagnvart opinberum starfsmönnum. Mál þessi voru sameinuð fyrir dómi undir málsnúmerinu [...]. Það mál var dómtekið 12. september sl. og í dag var kveðinn upp dómur í málinu þar sem dómfelldi var sakfelldur og dæmdur til 12 mánaða fangelsisvistar.
Ítarleg umfjöllun er í dómnum um sakhæfi dómfellda en hann gekkst undir geðheilbrigðisrannsókn undir rannsókn framangreindra mála. Niðurstaða fjölskipaðs dóms þar sem sat geðlæknir sem sérfróður meðdómari, var sú að enginn vafi var talinn leika á því að dómfelldi hefði verið sakhæfur þegar hann framdi brot þau sem hann var ákærður fyrir. Þá var ekkert talið hafa komið fram í málinu sem leiddi líkur að því að ástand dómfellda væri þannig að 16. gr. almennra hegningarlaga ætti við.
Dómnum hefur nú verið af hálfu ákæruvalds áfrýjað til Hæstaréttar þar sem krafist er refsiþyngingar.
Með vísan til þess sem fram kemur í kröfu lögreglunnar, sem og eðli brotanna er dómfelldi hefur verið dæmdur fyrir er á það fallist að líklegt sé að ákærði haldi áfram uppteknum hætti gangi hann laus og að nauðsynlegt sé að verja aðra fyrir árásum og ofbeldi dómfellda. Því verða talin uppfyllt skilyrði c. og d liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sbr. og 3. mgr. 97. gr. laganna, til þess að gera ákærða að sæta gæsluvarðhaldi. Með vísan til ábendinga verjanda í málflutningi um kröfuna, bæði með tilliti til hins áfrýjaða dóms, þeirra úrræða sem gætu verið nýtt við afplánun dómfellda á dómi hans og með hliðsjón af 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þykir rétt að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma. Er þá jafnframt litið til meðalhófs og á hinn bóginn til kröfu ákæruvalds í héraði um að ákærða yrði gerð fangelsisrefsing í tvö ár, en ákæruvaldið hefur áfrýjað héraðsdómi til þyngingar. Því verður dómfellda gert að sæta gæsluvarðhaldi til 21. desember nk.
Með vísan til framangreinds um andlegt ástand dómfellda verður úrræði 1 mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 ekki beitt, enda hefur dómfelldi verið metinn sakhæfur og engin gögn benda til þess að sú staða hafi breyst frá því að fjölskipaður dómur lagði mat á sakhæfi og það hvort skilyrðum 16. gr. almennra hegningar laga væri fullnægt. Verður því fallist á kröfu lögreglu með framangreindri breytingu.
Lárentsínus Kristjánsson kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Dómfelldi, X, kt. [...], skal á meðan mál hans er til meðferðar í Hæstarétti, sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. desember 2017 kl. 13:00.