Hæstiréttur íslands
Mál nr. 373/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 11. júní 2010. |
|
Nr. 373/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Erlendur Þór Gunnarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. júní 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í hinum kærða úrskurði er að finna endursögn á efni gæsluvarðhaldsbeiðni sóknaraðila. Segir að fingrafar varnaraðila hafi fundist á bjórflösku sem verið hafi að N. Þetta er ekki rétt. Umrætt fingrafar er í beiðni lögreglu sagt vera af öðrum manni.
Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2010.
Lögreglan hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 17. júní 2010 kl. 16:00. Er þess krafist að hann sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Lögregla kveðst rannsaka meinta ræktun kannabisplantna á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Er kærði grunaður um aðild að ræktun þessari ásamt Y. Telur lögregla að þeir hafi hóp manna á sínum snærum við þessa starfsemi. Lögreglu hefur enn ekki tekist að handtaka Y þennan.
Við leit fundust 600 plöntur og 2 kg af tilbúnu efni í húsnæði við M. Fyrir dómi játaði kærði að hann hefði staðið að þessari ræktun. Kvaðst hann hafa verið einn.
Þá er upplýst að ræktun var stunduð í N. Fundust þar fingraför kærða á bjórflösku. Þá benda ljósmyndir og myndbandsupptökur er fundust til þess að ræktað sé á a.m.k. tveimur öðrum stöðum, en þeir staðir hafa ekki fundist.
Kærði er undir rökstuddum grun um brot gegn lögum nr. 65/1974, sem hugsanlega yrði talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga. Nauðsynlegt er að upplýst verði um hugsanlega aðild hans að ræktun víðar en í M, en skýrar vísbendingar liggja fyrir um aðild hans að meiri ræktun en hann hefur játað.
Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Kærði er undir rökstuddum grun og varðhald hans er nauðsynlegt til að tryggja að hann nái ekki að spilla áframhaldandi rannsókn. Verður varðhaldinu markaður tími til 16. júní eins og í úrskurðarorði greinir. Þá verður að fallast á kröfu um að hann sæti einangrun.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærði X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. júní 2010, kl. 16.00.
Hann skal sæta einangrun.