Hæstiréttur íslands
Mál nr. 2/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
|
|
Miðvikudaginn 4. janúar 2006. |
|
Nr. 2/2006. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn X(enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum og b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. janúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. janúar 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 16. janúar 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kröfu varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 14. nóvember 2005 vegna beiðni grískra yfirvalda um framsal hans, en dómsmálaráðherra tók ákvörðun um að verða við þeirri beiðni 15. desember 2005. Varnaraðili krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Var kröfu hans hafnað með úrskurði 2. janúar 2006 og kærði varnaraðili úrskurðinn til Hæstaréttar. Með dómi réttarins í dag í máli nr. 3/2006 var framangreindri kröfu varnaraðila vísað frá héraðsdómi þar sem beiðni um úrskurð barst ekki innan frests, sem kveðið er á um í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. janúar 2006.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, fd. 22. júní 1972, verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til mánudagsins 16. janúar 2006, kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að kærði hafi komið til landsins þann 20. september sl. og hafi hann þá þegar verið handtekinn fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum, vegabréfi og nafnskírteini. Kærði hafi þann 30. september sl. verið dæmdur í 45 daga fangelsi vegna brotsins og hafi lokið afplánun þess dóms þann 14. nóvember sl.
Þann 9. nóvember sl. hafi grísk yfirvöld farið fram á að kærði yrði framseldur til Grikklands en hann sé sakaður um að hafa skotið til bana A, albanskan ríkisborgara, í Þessalóníku í Grikklandi, þann 25. desember 2004. Samkvæmt framsalsbeiðninni þá sé brot kærða talin varða við 1. gr., 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 14. gr., 16.-18. gr., 1. mgr. 26. gr., 51.-52. gr., 59.-60. gr., 63. gr., 79. gr. og 1. mgr. 299. gr. grískra hegningarlaga. Ætlað brot teljist varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Kærði hafi setið í gæsluvarðhaldi síðan 14. nóvember sl.
Þann 15. desember sl. hafi dómsmálaráðuneytið ákveðið að verða við beiðni grískra yfirvalda um að framselja kærða. Kærði hafi nú borið þá ákvörðun ráðuneytisins undir Héraðsdóm Reykjavíkur, sbr. e-liður 2. gr. laga nr. 19/1991.
Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og til þess að tryggja nærveru kærða meðan framsalsmálið sé til meðferðar hjá dómstólum sé þess krafist með vísan til 15. gr. laga nr. 13/1984 og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til 16. janúar n.k.
Með vísan til 15. gr. laga nr. 13/1984 og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þyki nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi uns endanleg niðurstaða liggur fyrir í framsalsmálinu.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum fyrr í dag var staðfest sú ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 15. desember sl. að kærði skuli framseldur grískum yfirvöldum. Hefur kærði kært þann úrskurð dómsins til Hæstaréttar Íslands.
Kærði sætir gæsluvarðhaldi til kl. 16 í dag samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 544/2005.
Með vísan til 18. gr. laga nr. 13/1984, sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, og með hliðsjón af hinum alvarlega broti sem kærði er grunaður um að hafa framið í Grikklandi, verður kærða gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 16. janúar, kl. 16.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 16. janúar 2006, kl. 16.00.