Hæstiréttur íslands

Mál nr. 255/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Útivist
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Mánudaginn 22

 

Mánudaginn 22. maí 2006.

Nr. 255/2006.

STG Trading Group á Íslandi ehf.

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

Tollstjóranum í Reykjavík

(Edda Símonardóttir fulltrúi)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Útivist. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Við fyrirtöku beiðni T um gjaldþrotaskipti á búi S var ekki mætt af hálfu þess síðarnefnda. Brast S því heimild til kæru úrskurðar um gjaldþrotaskipti, sem upp var kveðinn í kjölfarið, og var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2006, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Ætla verður að sóknaraðili byggi heimild til kæru sinnar á 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að hann fái búið og eignir þess sér afhentar að nýju til fullra umráða og ráðstöfunar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur niður, þar sem kröfurnar sem að baki lágu séu nú greiddar. Hann krefst þess einnig að kærumálskostnaður verði felldur niður.

Sóknaraðili sótti ekki þing í héraði, þegar krafa varnaraðila um að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta var tekin fyrir í héraðsdómi 5. apríl 2006, þrátt fyrir lögmæta boðun til þinghaldsins. Þing var þá sótt af hálfu varnaraðila. Skýra ber ákvæði laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á þann veg að heimild bresti til kæru máls sem þessa þegar þannig stendur á, sbr. til dæmis dóma réttarins í dómasafni 2003 á blaðsíðu 2433 og 2004 á blaðsíðu 4211. Ber samkvæmt því að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2006.

Tollstjórinn í Reykjavík, [kt.], Tryggvagötu 19, Reykjavík, krafðist þess með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 14. mars 2006, að bú STG Trading Group á Íslandi ehf., [kt.], Fosshálsi 27, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Málið var tekið til úrskurðar 5. apríl sl. 

Skiptabeiðandi kveðst innheimta kröfu á hendur skuldaranum vegna ógreiddra opinberra gjalda. Í bréfi hans er skuldin sögð nema samtals 7.669.389 krónum. Fyrir liggur yfirlýsing skuldara um eignaleysi dags. 18. október 2005.

Af hálfu skuldara hefur ekki verið sótt þing þrátt fyrir lögmæta boðun og ber því með vísan til 2. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 að líta svo á að hann viðurkenni að fullyrðingar skiptabeiðanda séu réttar.  Er því fullnægt skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. sömu laga til að verða við kröfu skiptabeiðanda og er bú skuldarans tekið til gjaldþrotaskipta.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Bú STG Trading Group á Íslandi ehf., Fosshálsi 27, Reykjavík, er tekið til gjaldþrotaskipta.