Hæstiréttur íslands

Mál nr. 411/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 1

 

Þriðjudaginn 1. ágúst 2006.

Nr. 411/2006.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Skilyrðum var talið fullnægt til að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála meðan mál hans var til meðferðar fyrir Hæstarétti, en gæsluvarðhaldi markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, en þó ekki lengur en til mánudagsins 18. desember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 frá 27. febrúar 2006 til 17. mars sama ár, en samkvæmt 2. mgr. 103. gr. frá þeim degi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2006 var varnaraðili dæmdur í fangelsi í tvö og hálft ár vegna brots gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrir liggur að Hæstiréttur hefur í dómi um gæsluvarðhald yfir varnaraðila 2. maí 2006 í máli nr. 228/2006 talið skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt. Ekki eru efni til að breyta því mati nú. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar þykir skilyrðum 2. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 vera fullnægt til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi, sem verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 2. nóvember 2006 kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 2006.

                Ár 2006, föstudaginn 28. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Páli Þorsteinssyni héraðsdómara kveðinn upp svofelldur úrskurður.

                Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans verður til meðferðar hjá Hæstarétti, þó eigi lengur en til mánudagsins 18. desember nk. kl. 16:00. 

                Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum hinn 14. þ.m. hafi dómfelldi verið sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og dæmdur til að sæta fangelsi í tvö og hálft ár. Dómfelldi hafi áfrýjað framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar og hafi áfrýjunarstefna í málinu verið gefin út 18. þ.m.

                Með hliðsjón af alvarleika sakarefnisins þykir ríkissaksóknara nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að dómfellda verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þess tíma er endanlegur dómur gengur í máli hans.

Vísað er til 2. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 27. febrúar sl. skv. heimild í 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí sl. var dómfelldi dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir brot á 173. gr. a laga nr. 19/1940 og broti á lögum um ávana- og fíkniefni. Dómfelldi hefur áfrýjað dómi héraðsdóms og var áfrýjunarstefna gefin út 18. þ.m.

                Svo sem áður greinir hefur ríkissaksóknari krafist þess að með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og með tilliti til almannahagsmuna að dómfellda verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.  Þykja full efni og lagaskilyrði vera til þess að verða við þeirri kröfu.

Úrskurðarorð:

                                Dómfelldi, X, skal sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti, þó eigi lengur en til mánudagsins 18. desember nk. kl. 16:00.