Hæstiréttur íslands

Mál nr. 821/2013

A (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Lykilorð

  • Slysatrygging
  • Líkamstjón
  • Gáleysi
  • Gjafsókn
  • Eigin sök


Slysatrygging. Líkamstjón. Gáleysi. Gjafsókn. Eigin sök.

A varð fyrir alvarlegu líkamstjóni er hann féll ofan í grunn viðbyggingar sumarhúss. Höfðaði A mál á hendur V hf. og krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hans til óskertra bóta úr frítímaslysatryggingu V hf. Með fyrri dómi Hæstaréttar hafði bótaábyrgð að hluta verið felld á byggingastjóra framkvæmdanna og eiganda fasteignarinnar. V hf. viðurkenndi rétt A til bóta að ¾ hlutum úr frítímaslysatryggingunni en taldi að skerða ætti þær að ¼ hluta. Talið var að A hefði með stórkostlegu gáleysi aukið hættuna á að því slysið yrði og að V hf. hefði því verið heimilt að lækka bætur til hans á grundvelli 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Var V hf. því sýknað af kröfum A.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2013. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur sinn til óskertra bóta úr frítímaslysatryggingu F-plús 3 fjölskyldutryggingar áfrýjanda hjá stefnda vegna þess tjóns sem áfrýjandi varð fyrir er hann féll niður í grunn viðbyggingar að […] aðfaranótt 22. nóvember 2009. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsástæðu áfrýjanda um að mælingar á áfengismagni í blóðsýni úr honum séu ómarktækar meðal annars vegna lyfja sem honum voru gefin í kjölfar slyssins var ekki hreyft í héraði. Er hún of seint fram komin, sbr.  2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur stefndi viðurkennt rétt áfrýjanda til bóta að ¾ hlutum úr frítímaslysatryggingunni en telur að skerða eigi þær að ¼ hluta á þeim grundvelli að áfrýjandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi og stuðlað með því að slys varð. Vísar stefndi til skilmála sem gilda um tryggingu þessa. Í þeim er ákvæði sem svarar til 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga, þar sem segir að hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en líftryggingum valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður  varð, eða afleiðingar hans urðu meiri en ella hefðu orðið, megi lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Hið sama eigi við ef vátryggður hafi af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn á þessum atriðum skuli litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.

Með dómi Hæstaréttar 28. febrúar 2013 í máli nr. 536/2012 var áfrýjanda gert að bera tjón sitt vegna slyssins að einum þriðja hluta sjálfur vegna eigin sakar. Með vísan til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er lagt til grundvallar sem segir í dóminum, að áfrýjandi hafi verið undir allnokkrum áfengisáhrifum er slysið varð og að orsakir þess væru að einhverjum hluta raktar til þeirra áhrifa. Í dóminum var litið til þess að áfrýjandi þekkti til aðstæðna í sumarhúsinu og hafði aðstoðað við byggingaframkvæmdir við það nokkrum klukkustundum áður en slysið varð. Einnig var talið sannað að áfrýjandi hafi fallið út um dyr á austurhlið hússins, en dyrunum hafði verið læst innan frá og hafði tveimur golfpokum með kylfum og einni golfkerru verið raðað upp fyrir framan hurðina.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvort áfrýjandi færði til golfpoka og golfkerru sem fyrir hurðinni voru, eða gekk milli þeirra, en sannað er að hann féll út um dyrnar niður í grunninn, eftir að dyrnar höfðu verið teknar úr lás og opnaðar. Í skýrslugjöf hans fyrir héraðsdómi kom fram að hann hefði vitað að búið var að taka úr pallinum fyrir framan dyrnar og að hættulegt væri að ganga þar út. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að slys áfrýjanda verði rakið til annars en þess að hann hafi sjálfur opnað dyrnar og fallið niður. Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. 

 Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2013.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var 19. september sl., er höfðað af A, […], á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf, Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 10. janúar sl.

Dómkröfur stefnanda eru þær að að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til óskertra bóta úr frítímaslysatryggingu F-plús 3 fjölskyldutryggingar stefnanda hjá stefnda vegna þess tjóns sem hann varð fyrir þá er hann féll ofan í grunn viðbyggingar að […] aðfaranótt 22. nóvember 2009. Þá er þess krafist að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað.

Af hálfu stefnda er þess krafist að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi.

II

Málavextir

Stefnandi varð fyrir alvarlegu líkamstjóni aðfaranótt 22. nóvember 2009 við sumarhús föður síns að […] en þá stóðu yfir framkvæmdir við sumarhúsið. Fólust þær í því að verið var að reisa viðbyggingu austan við sumarhúsið sem var með steyptum kjallara, sem m.a. skyldi nýttur sem vélageymsla, en ofan á kjallarann skyldi reisa íveruhús úr timbri sem tengt yrði við húsið sem fyrir var með sérstakri tengibyggingu. Var jafnframt gert ráð fyrir að tengibyggingin myndi þjóna hlutverki stigahúss niður í vélageymsluna. Á þessum tíma var búið að steypa upp kjallaraveggi viðbyggingarinnar. Hins vegar var ekki búið að reisa kjallaraveggi tengibyggingarinnar og var því einungis steypt botnplata og undirstöður þar sem hún skyldi rísa. Á austurhlið sumarhússins, þar sem nefnd viðbygging skyldi tengd við sumarhúsið samkvæmt framansögðu, voru útidyr þaðan sem gengt var út á pall sem lá með fram austurhlið hússins. Sökum þess að framkvæmdir voru hafnar hafði pallurinn framan við dyrnar verið fjarlægður að hluta þannig að þær opnuðust beint út í grunn tengibyggingarinnar, sem lá um 3,3 metrum þar fyrir neðan. Til varnar því að gengið yrði um dyrnar hafði golfsettum verið komið fyrir framan við þær að innanverðu. Féll stefnandi í umrætt sinn ofan á grunnplötu byggingar þeirrar sem tengja skyldi sumarhúsið við nýbyggingu sem þar var verið að reisa. Upp úr grunnplötu tengibyggingarinnar stóðu óvarin steypustyrktarjárn sem stefnandi féll á úr rúmlega þriggja metra hæð og stungust járnteinarnir víða í gegnum líkama hans. Alls gengu átta járn í gegnum stefnanda og þurfti að skera sjö þeirra í sundur með slípirokki, áður en unnt var að flytja hann með þyrlu af slysstað og fjarlægja járnin úr líkama hans í skurðaðgerð við komu á sjúkrahús í Reykjavík. Er stefnandi lamaður fyrir neðan brjóst af völdum slyssins og hlaut hann að auki margvíslega aðra áverka.

Fyrir liggur að að kvöldi 21. nóvember 2009 var stefnandi, sem þá var 37 ára, staddur í sumarhúsinu, en hann hafði verið að hjálpa til við framkvæmdirnar fyrr um daginn. Auk stefnanda sjálfs voru móðir hans og sonur einnig stödd í sumarhúsinu, en faðir stefnanda og bróðir höfðu brugðið sér af bæ fyrr um kvöldið. Um eða eftir miðnætti umrætt kvöld lagðist stefnandi til svefns í sumarhúsinu. Atburðarásin þaðan í frá er nokkuð óljós, enda man hann ekkert eftir því sem þá gerðist. Það er þó óumdeilt að einhvern tímann eftir miðnætti aðfaranótt 22. nóvember 2009 féll hann ofan á grunnplötu áðurnefndrar tengibyggingar og á steypustyrktarjárn sem þar stóðu upp úr undirstöðunum. Faðir stefnanda og bróðir sneru aftur heim þegar nokkuð var liðið á nóttina. Urðu þeir þess þá áskynja að hann hafði fallið ofan í grunninn og hringdu þegar eftir hjálp.

Stefnandi hefur höfðar mál þetta til að fá viðurkenningu á óskertum rétti til bóta úr frítímaslysatryggingu sinni hjá stefnda, sem er hluti af svokallaðri F+ fjölskyldutryggingu. Stefndi hefur þegar viðurkennt rétt hans til bóta að hluta en hefur skert þær um fjórðung á þeim grundvelli að stefndi hafi með stórfelldu gáleysi stuðlað að slysinu.

Samhliða máli þessu höfðaði stefnandi mál á hendur byggingarstjóra framkvæmdanna og skráðum húsasmíðameistara, verktaka og smiðs við framkvæmdirnar og eiganda fasteignarinnar, sem og stefnda sem vátryggjanda byggingarstjórans og eiganda fasteignarinnar. Í því dómsmáli krafðist stefnandi viðurkenningar á óskiptri bótaábyrgð framangreindra aðila vegna tjónsins á þeim grunni að slysið yrði rakið til óforsvaranlegra aðstæðna á og við framkvæmdasvæði viðbyggingarinnar Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 536/2012, sem kveðinn var upp 28. febrúar 2013, var viðurkennt að húsasmíðameistarinn, fasteignaeigandinn og smiður við framkvæmdirnar bæru sameiginlega ábyrgð að 2/3 hlutum gagnvart stefnda á því tjóni er hann varð fyrir vegna afleiðinga slyssins. Þá var jafnframt viðurkenndur réttur stefnanda til greiðslu að 2/3 hlutum úr ábyrgðartryggingu fasteignaeigandans hjá stefnda en að stefndi bæri að 1/3 hluta tjón sitt sjálfur vegna eigin sakar. Vísaði Hæstiréttur til þess að fyrir lægi í málinu að stefnandi þekkti til aðstæðna í sumarhúsinu og að hann hefði neytt áfengis skömmu fyrir slysið.

Meðferð máls þessa var samkvæmt sameiginlegri ósk aðila frestað þar til niðurstaða í framangreindu hæstaréttarmáli lægi fyrir. Að fenginni niðurstöðu óskaði stefnandi eftir því að dómur gengi í málinu. Byggir hann á því að þó að í dómi Hæstaréttar hafi verið fallist á að stefndi ætti að bera hluta tjóns síns sjálfur hefði í dómi Hæstaréttar ekki verið tekin afstaða til þess hvort um stórfellt gáleysi hafi verið að ræða.

III

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt að skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 laga um vátryggingasamninga, til skerðinga bóta séu ekki uppfyllt. Ákvörðun stefnda um lækkun bóta til handa stefnanda virðist einkum byggjast á því að stefnandi hafi neytt áfengis áður en slysið varð þótt einnig sé, án frekari rökstuðnings, vísað til þess hvernig slysið hafi borið að höndum. Stefnandi hafnar því hins vegar að áfengisneysla hans hafi gefið stefnda heimild til að takmarka ábyrgð sína enda hafi sú neysla engu skipt í því sambandi. Byggir stefnandi jafnframt á því að óheimilt sé að fella niður bætur til vátryggðs, hvort sem er í heild eða að hluta, nema að undangengnu heildstæðu mati á þeim atriðum sem nefnd séu í ákvæðinu. Af ákvæðinu, sem og greinargerð þeirri sem hafi fylgt með frumvarpi til laga nr. 30/2004, sé ljóst að það verði að fara fram heildstætt mat á þeim atriðum sem upp séu talin í greininni. Af framangreindu verður ráðið að líta verði til allra þeirra atriða sem fram koma í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004, þegar verið er að meta hvort vátryggingarfélagi sé heimilt að takmarka ábyrgð sína. Þannig sé beinlínis óheimilt að líta til eins atriðis, s.s. áfengisneyslu vátryggðs, og láta niðurstöðu um takmörkun ábyrgðar ráðast af því, enda sé þá horft fram hjá öðrum þeim atriðum sem taka verði tillit til samkvæmt ákvæðinu og leitt geti til annarrar niðurstöðu. Þar sem ekki hafi farið fram áskilið heildarmat af hálfu stefnda á þeim atriðum sem líta beri til við ákvörðun um lækkun bóta sé ákvörðun hans um takmörkun á ábyrgð sinni gagnvart stefnanda þá þegar ólögmæt. Verði þegar af þeirri ástæðu að taka kröfur stefnanda til greina.

Verði ekki fallist á framangreint byggir stefnandi á því að ekkert þeirra atriða, sem líta beri til við mat á því hvort hann hafi valdið slysinu með stórkostlegu gáleysi, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004, eigi við í tilviki stefnanda. Þvert á móti sé orsaka og ábyrgðar á slysinu að leita hjá öðrum en stefnanda og um gáleysi hans, hvað þá stórkostlegt gáleysi, geti ekki verið að ræða

Stefnandi byggir á því að ekkert liggi fyrir um það að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þegar hann hafi fallið ofan í umræddan grunn. Það að stefnandi hafi fallið ofan í grunninnleiði engan veginn sjálfkrafa til þess að stefnandi teljist hafa sýnt af sér sök í aðdraganda slyssins. Ábyrgðar á slysinu sé að leita hjá öðrum aðilum en stefnanda sem hafi með saknæmum og ólögmætum hætti orðið valdir að slysinu og því tjóni sem af hlaust. Hafi þeir átt að gæta þess að ekki stafaði hætta af framkvæmdunum sem stóðu yfir á þeim tíma sem um ræðir, bæði með því að sjá til þess að útganga um dyrnar á austurhlið sumarhússins og umferð um pallinn þar með fram væri útilokuð, sem og með því að koma í veg fyrir þá hættu sem stafaði af óvörðum steypustyrktarjárnum ofan í grunni tengibyggingarinnar, sem án alls efa sé meginorsök tjóns stefnanda. Jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hefði sýnt af sér einhverja sök í tengslum við slysið þá blikni sú sök í samanburði við þá saknæmu háttsemi sem þeir sem að framkvæmdunum hafi staðið hafi sýnt af sér. Samkvæmt því hafi stefnda verið óheimilt að takmarka ábyrgð sína gagnvart stefnanda.

Stefnandi hafnar því með öllu að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í tengslum við slysið. Ekkert bendi til þess að hann hafi sýnt af sér gáleysi, hvað þá stórkostlegt gáleysi, er hann féll niður í grunninn. Fyrir liggi að stefnandi hafi átti það til að ganga í svefni þegar hann var yngri. Þá kunni einnig að vera að stefnandi hafi vaknað um nóttina til þess að fara á salernið en ruglast á hurðum í svefndrunganum. Um þetta verði einfaldlega ekkert fullyrt og því ekki hægt að slá því föstu að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Þá verði ekki litið fram hjá því að milli saknæmrar háttsemi byggingarstjórans, smiðsins og eiganda fasteignarinnar og þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir, sé beint orsakasamband. Meginorsök þess líkamstjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir hafi komið til sökum þess að steypustyrktarjárn hafi stungist í gegnum líkama stefnanda er hann hafi fallið ofan í grunninn. Hvíldi þó sú lagaskylda á framangreindum að sjá til þess að ekki stafaði hætta af járnunum. Samkvæmt því geti stefndi heldur ekki haldið því fram að stefnandi hafi af stórkostlegu gáleysi valdið því að afleiðingar slyssins urðu meiri en ella, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/ 2004.

                Stefnandi hafnar því að sú staðreynd að hann hafi innbyrt áfengi áður en slysið varð hafi veitt stefnda heimild til að takmarka ábyrgð sína. Stefnandi áréttar að samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 sé áfengisneysla aðeins eitt þeirra atriða sem líta beri til við matið á því hvort til greina komi að gera vátryggðum að bera hluta tjóns síns sjálfur. Áfengisneysla ein og sér leiði hins vegar ekki sjálfkrafa til þess að vátryggingarfélag losni undan ábyrgð í heild eða að hluta. Í þessu sambandi tekur stefnandi sérstaklega fram að neysla áfengis ein og sér feli ekki í sér stórkostlegt gáleysi. Ekkert liggi fyrir um það að áfengisneysla hans hafi valdið umræddu slysi eða átt nokkurt þátt í því að slysið varð. Þvert á móti standi allar líkur til þess að slysið hefði orðið hvort heldur sem stefnandi hefði neytt áfengis eða ekki, enda verði orsakir slyssins raktar til ófullnægjandi frágangs og fallvarna á framkvæmdasvæðinu en á því báru aðrir en stefnandi ábyrgð.

                Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, einkum 27. og 90. gr. Þá vísar stefnandi til eldri laga um sama efni nr. 20/1954, sbr. einkum 20. gr. þeirra laga. Stefnandi vísar einnig til skaðabótalaga nr. 50/2003, sem og til meginreglna íslensks skaðabótaréttar, m.a. um sakarábyrgð. Stefnandi vísar jafnframt til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 51. og 52. gr. laganna og til laga um mannvirki nr. 160/2010, einkum 29. og 32. gr. laganna, sem og til byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. einkum 31., 32., 33., 37., 38. og 56. gr. Þá vísar stefnandi til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, sbr. einkum 1., 2., 12., 13., 36., 37., 41., 42. og 90. gr. laganna. Enn fremur er vísað til reglna um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum nr. 707/1995, sbr. einkum 1. og 3. gr. reglnanna, sbr. og 2. gr. I. viðauka þeirra, sem og til reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996, sbr. einkum 4., 7. og 8. gr. reglnanna og 1., 8., 27. og 33. gr. IV. viðauka þeirra. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við XXI., sbr. XX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt er studd við ákvæði laga um virðisaukaskatt nr. 50/988.

Málsástæður stefnda

                Stefndi byggir kröfu sína á því að hann hafi þegar viðurkennt þá bótaskyldu vegna slyssins sem stefnandi eigi rétt á, þ.e. að ¾ hlutum. Fyrir liggi að stefnandi hafði drukkið áfengi áður en slysið átti sér stað. Séu gögn málsins skýr um að hann hafi verið undir verulegum áfengisáhrifum á þessum tíma. Því sé ekki óvarlegt að álykta að ölvun hafi haft áhrif á alla hans háttsemi og þannig átt stóran þátt í því að slysið varð og beint orsakasamband sé á milli ölvunarinnar og þess að hann féll niður í grunninn. Um heimild til að skipta sök vísar stefnandi til 9. gr. sameiginlegra skilmála fjölskyldutryggingarinnar nr. GH20 og 13. gr. sameiginlegra skilmála nr. YY10 sem gildi um allar vátryggingar félagsins, en ákvæði þessi grundvallist á 1. mgr. 90. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004.

                Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi gjörþekkt allar aðstæður í sumarbústaðnum, bæði að það hafi verið framkvæmdir í gangi, á hvaða stigi þær hafi verið og hvernig umbúnaður hafi verið. Hann hafi sjálfur verið að vinna við þetta, hann vissi sjálfur að það hefði verið búið að taka úr pallinum og að ekki átti að ganga um þessa hurð og í hvaða tilgangi hurðin var lokuð og golfsettum komið þar fyrir framan við hana. Hafi stefnandi fallið út um dyrnar sé ljóst að það gerðist ekki nema hann tæki meðvitað golfkylfurnar sem þar voru fyrir í burtu og opnaði læsta hurð. Megi af þessu sjá að mjög ósennilegt sé að fall stefnanda í grunninn hafi gerst af sjálfu sér og án þess að stefnandi aðhefðist eitthvað sem gæti leitt til fallsins. Það sé því beint orsakasamband á milli háttsemi hans í aðdraganda fallsins og slyssins og að augljóst sé að slík háttsemi teljist stórkostlega gálaus.

                 Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, vátryggingasamningalaga nr. 30/2004, vátryggingarskilmála VÍS nr. GH20 og YY10 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.           

IV

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um heimild stefnda til að lækka bætur til handa stefnanda til bóta úr svokallaðri F+ fjölskyldutryggingu, sem stefnandi hafði hjá stefnda, vegna slyss sem stefnandi varð fyrir 22. nóvember 2009. Í skilmálum vátryggingarinnar segir að um hana gildi ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Í 1. mgr. 90. gr. nefndra laga er kveðið á um að hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en líftryggingum valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður hafi orðið eða afleiðingar hans hafi orðið meiri en ella hefðu orðið megi lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Hið sama eigi við ef vátryggður hefur af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður hafi orðið með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn á þessum atriðum skuli litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.

Ekki er unnt að fallast á þá málsástæðu stefnanda að þar sem ekki hafi farið fram áskilið heildarmat af hálfu stefnda, á þeim atriðum sem líta beri til við ákvörðun um lækkun bóta, leiði það til þess að ákvörðun stefnda um takmörkun á ábyrgð sinni gagnvart stefnanda sé þá þegar ólögmæt. Standa ekki lög til þeirrar niðurstöðu og þá verður ekki annað séð en að stefndi hafi í raun framkvæmt heildarmat, sbr. rökstuðning sem fram kemur í bréfi hans til lögmanns stefnanda 12. janúar 2011, þess efnis að takmörkun á ábyrgð stefnda sé vegna áfengisneyslu stefnanda og hvernig slysið bar að.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 536/2012, sem kveðinn var upp 28. febrúar 2013, var fallist á rétt stefnanda til skaðabóta vegna slyssins úr hendi byggingarstjóra framkvæmdanna o.fl. á þeim grunni að aðstæður á og við framkvæmdasvæði byggingarinnar hefðu verið óforsvaranlegar. Bætur til stefnda voru skertar um þriðjung vegna eigin sakar. Um þátt stefnanda í slysinu segir þetta í dómi Hæstaréttar:

Þess er áður getið að engir sjónarvottar voru að slysi áfrýjanda [stefnanda] og er hann því einn til frásagnar um hvað gerðist umrætt sinn. Kann áfrýjandi þá skýringu eina á atburðum að hann hafi gengið í svefni um nóttina en til þess hafi hann átt vanda á yngri árum þegar hann var mjög þreyttur og eigi hið sama við um fleiri úr fjölskyldu hans, til dæmis bæði son hans og bróður. Móðir áfrýjanda staðfesti fyrir dómi að hann hefði átt það til að ganga í svefni á yngri árum þegar hann var þreyttur og hið sama hefði bróðir hans gert. Um áfrýjanda sagði hún að „sem barn gerði hann það, hann átti til með að vakna og ætla að fara á klósettið og þá opnaði hann skápinn kannski og pissaði þar óvart ... en ég var nú kannski ekki mikið vör við það þegar hann var unglingur“. Frekari gagna nýtur ekki við í málinu um svefngöngur áfrýjanda og er því útilokað að leggja á það mat hvort orsakir slyssins verði að einhverju leyti raktar til slíks háttalags.

Á hinn bóginn liggur fyrir eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi að áfrýjandi hafði neytt áfengis skömmu fyrir slysið. Er komið var með hann á sjúkrahús í Reykjavík um tveimur klukkustundum eftir slysið var honum tekið blóð og reyndist áfengismagn í því þá vera 28,8 mmól/l eða yfir 1,20‰. Áfrýjandi hefur skýrt svo frá að hann hafi neytt áfengis hóflega um kvöldið, en fallist er á með héraðsdómi að hvorki lýsing hans né annarra á þeirri neyslu fái samrýmst framangreindri niðurstöðu rannsóknar á blóðsýni úr honum. Þykir eins og í héraðsdómi greinir í öllu falli mega slá því föstu að áfrýjandi hafi verið undir allnokkrum áfengisáhrifum þegar slysið varð og að orsakir þess verði að einhverjum hluta raktar til þeirra áhrifa. Þá verður heldur ekki fram hjá því litið að áfrýjandi þekkti til aðstæðna í sumarhúsinu og hafði aðstoðað við framkvæmdir nokkrum klukkustundum áður en slysið varð og mátti því í ljósi vitneskju sinnar um aðstæður vita hver hætta var á ferðum ef dyrnar á austurhlið sumarhússins væru opnaðar. Hvað sem þessu líður verður að leggja til grundvallar að frumorsök slyssins sé að rekja til þess hvernig háttað var frágangi dyranna og steypustyrktarjárnanna og hve auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir það. Þegar allt þetta er virt þykja stefndu [B], [C] og [D] sameiginlega bera skaðabótaábyrgð að tveimur þriðju hlutum gagnvart áfrýjanda á tjóni því er hann varð fyrir en að áfrýjandi beri tjón sitt sjálfur að einum þriðja hluta vegna eigin sakar. Í samræmi við það er viðurkenndur réttur áfrýjanda til greiðslu úr ábyrgðartryggingu stefnda [B] hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna tjónsins.

Stefnandi telur að þótt Hæstiréttur hafi lagt til grundvallar að gáleysi hans hafi átt þátt í að slysið varð hafi það ekki verið stórfellt í skilningi ákvæðis 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefur dómur Hæstaréttar fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað. Verður því lagt til grundvallar að stefnandi hafi fallið niður í grunninn á austurhlið sumarbústaðarins. Þá verður lagt til grundvallar að ölvun hans haft haft áhrif á að slysið var. Enn fremur er byggt á því að stefnandi mátti, vegna vitneskju sinnar um aðstæður, gera sér grein fyrir hættunni ef dyrnar yrðu opnaðar. Til viðbótar við þessi atriði, sem fram koma í dómi Hæstaréttar, ber að líta til þess að til þess að falla út um dyraopið þurfti stefnandi að fara að hurðinni, taka golfpokana sem fyrir henni voru frá og opna hurðina. Þegar framangreint er metið heildstætt verður að telja að stefnandi hafi með stórkostlegu gáleysi aukið hættuna á því að slysið varð og var stefnda því heimilt að lækka bætur til hans, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda í máli þessu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 kr. og greiðist úr ríkissjóði. Tillit hefur verið tekið til virðisaukaskatts. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmönnum gjafsóknarhafa og verður því ekki tekin afstaða til útlagðs kostnaðar hans.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknað af kröfu stefnanda, A, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

 Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.