Hæstiréttur íslands

Mál nr. 789/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                     

Fimmtudaginn 11. desember 2014.

Nr. 789/2014.

Ólafur Reynir Guðmundsson

(Reimar Pétursson hrl.)

gegn

Önnu Steinunni Þórhallsdóttur og

Hallgrími Þór Harðarsyni

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Undir rekstri máls vegna galla á fasteign óskaði Ó, kaupandi fasteignarinnar, að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta ástand hússins og kostnað við úrbætur. Í matsgerð kom meðal annars fram að matsmaður hefði skoðað undir baðkar í gegnum tvö göt sem Ó hafði látið gera og að engin merki um raka eða sveppagróður hefðu sést. Að beiðni Ó voru yfirmatsmenn dómkvaddir og komust þeir að sömu niðurstöðu hvað varðaði baðkarið. Við síðari framkvæmdir á fasteignina taldi Ó að greina mætti raka og myglu hjá baðkarinu sem hafi komið í ljós eftir að búið væri að losa það frá vegg. Lagði Ó fram beiðni um endurskoðun undirmatsgerðar á þeim grundvelli að skoðun matsmannsins hefði verið ófullnægjandi. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var beiðni Ó hafnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri ekki girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýrrar matsgerðar sem ætlað er að gefa ítarlegri upplýsingar um matsefnið en áður hefði fengist, eða að ný matsgerð tæki að einhverju leyti til annarra atriða en sú fyrri. Ætti þetta við um þá matsgerð sem Ó hefði nú óskað eftir, en yfirmats verði ekki leitað í því skyni, sbr. fyrri málslið 64. gr. laganna. Þá stæðu lög ekki í vegi þess að matsgerðar um efnið yrði aflað með að dómkveðja sama matsmann aftur til að endurskoða fyrri matsgerð sína á þessum grundvelli, auk þess sem ekki yrði fullyrt að ákvæði 3. mgr. 46. gr. laganna stæði því í vegi. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að verða við beiðni Ó um endurskoðun matsgerðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2014 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um endurskoðun á matsgerð. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja að nýju matsmanninn Hjalta Sigmundsson í samræmi við beiðni sóknaraðila. Þá krefst hann kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar með álagi.

I

Með kaupsamningi 4. september 2013 keypti sóknaraðili af varnaraðilum fasteign að Háteigsvegi 24 í Reykjavík, en um var að ræða efri hæð hússins og bílskúr. Kaupverðið var 36.500.000 krónur, sem greiða átti með 3.000.000 krónum við undirritun samnings og 25.000.000 krónum viku fyrir afhendingu 27. september 2013, en eftirstöðvar að fjárhæð 8.500.000 krónur átti að greiða eftir því sem sóknaraðili fengi greitt við sölu annarrar eignar, þó ekki síðar en 3. mars 2014. Sóknaraðili hefur greitt kaupverðið að öðru leyti en því að hann hefur haldið eftir hluta af lokagreiðslunni vegna þess að hann telur eignina gallaða. Varnaraðilar höfðuðu málið til heimtu eftirstöðva kaupverðsins en sóknaraðili hefur höfðað gagnsök á hendur þeim til heimtu skaðabóta eða afsláttar.

Undir rekstri málsins óskaði sóknaraðili eftir því að maður yrði dómkvaddur til að meta ástand hússins og kostnað við úrbætur. Til að gera matið var fyrrgreindur maður kvaddur 20. febrúar 2014 og skilaði hann matsgerð sinni 14. apríl sama ár. Í matsbeiðni var þess meðal annars óskað að matsmaður fjallaði um raka eða myglu í veggjum og gólfi. Um þann lið í matsgerðinni, að því er varðar baðherbergi íbúðarinnar, sagði að matsbeiðandi hefði látið gera tvö göt á timburvegg milli herbergis í norðausturhorni og baðherbergis þannig að hægt væri að skoða undir baðkar. Engin merki um raka eða sveppagróður hefðu sést undir baðkarinu. Timburveggurinn væri gerður úr tréstoðum með steinull milli þeirra og klæddur á báðum hliðum með rakaþolnum spónaplötum. Engin merki um raka eða sveppagróður hefði verið í plötunum eða veggnum utan að á stoð/reim sem fest væri á útvegg væri sýnilegur sveppagróður. Þá kom fram að ófrágenginn skápur væri við enda baðkarsins en þar hefðu ekki verið sýnileg merki um myglu.

Að beiðni sóknaraðila voru yfirmatsmenn dómkvaddir 23. júní 2014 og skiluðu þeir mati sínu 26. september sama ár. Í yfirmatsbeiðni var þess farið á leit að kostnaður við úrbætur yrði metinn og tími til þeirra áætlaður. Var lagt til grundvallar í beiðninni að matsmenn styddust við niðurstöður undirmatsmanns um lýsingu á göllum og orsakir þeirra. Í yfirmatsgerðinni var tekið fram að matsmenn teldu, í ljósi matsbeiðni, að þeim bæri hvorki að rannsaka eðli þeirra galla sem undirmatsmaður taldi á eigninni né gera sjálfstæða rannsókn á því hvort um fleiri galla væri að ræða. Engu að síður bæri þeim að sannreyna umfang þeirra galla sem tilgreindir væru í undirmatsgerð og endurmeta úrbætur. Þetta fæli einnig í sér að skoða þau atriði þar sem undirmatsmaður kæmist að þeirri niðurstöðu að galli væri ekki fyrir hendi, enda fælist í því mat á umfangi galla. Þá kom fram að yfirmatsmenn væru sammála því sem fram kæmi í undirmatsgerð um að mygla eða raki hefði ekki fundist undir baðkari og ekki í veggjum sem liggja að baðkarinu nema á stoð við útvegg.

Þegar málið var tekið fyrir 19. nóvember 2014 lagði sóknaraðili fram beiðni um endurskoðun undirmatsgerðar. Um tilefni beiðninnar sagði að við síðari framkvæmdir sóknaraðila hefði komið í ljós umfangsmeiri og dreifðari mygla í húsinu en sú sem matsmaður greindi við skoðun sína. Þannig hefði raki og mygla fundist í baðherbergi, þar með talið í baðherbergisvegg, við baðkar og skilvegg milli baðkars og hillna. Til að greina þetta hefði verið nauðsynlegt að skoða betur innviði baðherbergisveggjar, skilveggjar og lista með því að losa svuntu frá baðkari, aðliggjandi skilvegg og grind baðherbergisveggjar. Við undirmatið hefði ekki verið búið að losa baðkarið frá vegg eða taka klæðningu af millivegg heldur hefði matsmaður aðeins getað litið í gegnum tvö göt, sem gerð höfðu verið neðarlega á baðherbergisvegg, ásamt því að skoða yfirborð baðherbergisveggjar og hvort mygla væri sjáanleg undir baðkari. Að þessu gættu taldi sóknaraðili að skoðun matsmanns hefði verið ófullnægjandi. Því væri þess farið á leit að matsmaðurinn yrði dómkvaddur til að endurskoða svör sín með tilliti til umfangs myglu og raka í og við baðherbergi, þar með talið í grind og klæðningu baðherbergisveggjar, skilvegg, listum á baði og undir þröskuldi við baðherbergi. Staðfesti undirmatsmaður aukið umfang galla var þess óskað að hann endurmæti matsliði sem lúta að kostnaði við úrbætur og hvert eðlilegt markaðsverðmæti eignarinnar hefði verið þegar hún var keypt 4. september 2013 að teknu tilliti til galla á henni. Með hinum kærða úrskurði var beiðninni hafnað.

II

Eins og áður er rakið kom fram í undirmatsgerð 14. apríl 2014 að matsmaður hefði skoðað undir baðkar í gegnum tvö göt sem sóknaraðili hafði látið gera á timburvegg milli herbergis í norðaustur horni og baðherbergis. Þá sagði í matsgerðinni að enginn sveppagróður væri á plötunum eða í timburveggnum. Af yfirmatsgerð 26. september 2014 verður ráðið að athugun að þessu leyti hafi ekki verið umfangsmeiri við það mat enda var beinlínis miðað við í matsbeiðni að yfirmatsmenn styddust við niðurstöður undirmatsmanns um lýsingu á göllum og orsakir þeirra. Að þessu gættu tekur beiðni sóknaraðila til þess að fram fari ítarlegri skoðun í ljósi þess sem komið hefur fram eftir að undir- og yfirmats var aflað.

 Í lögum nr. 91/1991 er ekki girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýrrar matsgerðar, sem ætlað er að gefa ítarlegri upplýsingar um matsefnið en áður hafi fengist, eða að ný matsgerð taki að einhverju leyti til annarra atriða en sú fyrri. Á þetta við um þá matsgerð, sem sóknaraðili vill nú afla, en yfirmats verður ekki leitað í því skyni samkvæmt því sem berlega er tekið fram í fyrri málslið 64. gr. laga nr. 91/1991. Þá standa lög ekki í vegi þess að matsgerðar um efnið verði aflað með að dómkveðja sama matsmann aftur til að endurskoða fyrri matsgerð sína á þessum grundvelli. Loks verður ekki fullyrt á þessu stigi að bersýnilegt sé að endurskoðun matsgerðar eftir beiðni sóknaraðila skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, en af notagildi hennar yrði hann að bera áhættu samhliða kostnaði við öflun hennar. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að meina sóknaraðila að leita endurskoðunar á fyrri matsgerð um þau atriði sem beiðni hans tekur til. Verður því hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja matsmanninn til að endurskoða matsgerð sína í samræmi við beiðni sóknaraðila.

Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Lagt er fyrir héraðsdóm að dómkveðja matsmann í samræmi við beiðni sóknaraðila, Ólafs Reynis Guðmundssonar, um endurskoðun á fyrri matsgerð 14. apríl 2014.

Varnaraðilar, Anna Steinunn Þórhallsdóttir og Hallgrímur Þór Harðarson, greiði óskipt sóknaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2014.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 19. nóvember 2014, um kröfu stefnda í aðalsök um úrskurð um ágreining um beiðni hans um endurskoðun matsgerðar, var höfðað 15. nóvember 2013 af hálfu Önnu Steinunnar Þórhallsdóttur og Hallgríms Þórs Harðarsonar, Háaleitisbraut 47 í Reykjavík á hendur Ólafi Reyni Guðmundssyni, Lálandi 6 í Reykjavík, sem höfðaði gagnsakarmál á hendur aðalstefnendum 20. desember 2013.

Við fyrirtöku málsins 19. nóvember 2014 lagði lögmaður stefnda í aðalsök fram, með vísun til 66. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, beiðni um endurskoðun undirmatsgerðar sem fyrir liggur í málinu á þeim grundvelli að framkvæmd matsskoðunar hafi verið ábótavant og það hefði leitt til ófullnægjandi niðurstöðu undirmatsgerðar. Lögmaður stefnenda í aðalsök andmælti því að beiðnin yrði tekin til greina og krafðist lögmaður stefnda í aðalsök þess að dómari úrskurðaði um fram komna beiðni. Þessi ágreiningur er tilefni þessa úrskurðar.

Krefst stefndi í aðalsök þess í þessum þætti málsins að fallist verði á beiðnina og að undirmatsmanni verði gert að endurskoða matsgerð sína að hluta þannig að hann endurskoði svör sín við hluta fyrstu matspurningar, sem var um það hvort raka eða myglu í veggjum og gólfi megi finna í eigninni, nánar tiltekið um umfang raka og myglu í og við baðherbergi. Ef það endurmat leiðir til þess að matsmaður staðfesti aukið umfang ágalla er óskað endurmats á matsspurningum númer sjö og níu, en í því felst annars vegar endurmat á kostnaði við úrbætur úr ágöllum og hins vegar endurmat á markaðsverðmæti eignarinnar þann 4. september 2013 að teknu tilliti til ágalla.

Stefnendur í aðalsök krefjast þess að beiðni um endurskoðun matsgerðar verði hafnað.

Tilefni máls þessa er að samkvæmt kaupsamningi 4. september 2013 keypti stefndi í aðalsök (hér eftir stefndi) fasteign af stefnendum í aðalsök (hér eftir stefnendur) sem er efri sérhæð að Háteigsvegi 24 í Reykjavík, fyrir 36.500.000 króna. Samkvæmt kaupsamningnum skyldi lokagreiðsla kaupverðs, 8.500.000 krónur greiðast eins og greiðslur berist úr sölu eignar stefnda, þó eigi síðar en 3. mars 2014. Samkvæmt kauptilboði stefnda sem stefnendur samþykktu 23. júlí 2013 hafði söluverð verið 500.000 króna hærra, en það var lækkað í kjölfar samskipta aðila með milligöngu fasteignasala áður en kaupsamningur var gerður. Eignin var afhent stefnda 27. september 2013 og var þá lokagreiðsla samkvæmt kaupsamningi ógreidd.

Eftir að stefndi tók við eigninni varð hann var við raka- og mygluskemmdir á eigninni. Hann tilkynnti seljendum að hann teldi vera galla á eigninni og kallaði til fagaðila til að skoða hana. Eignin var metin óíbúðarhæf af fulltrúa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur við skoðun 28. október 2013 samkvæmt því sem greinir í gagnstefnu.

Stefndi greiddi stefndi stefnendum 5.000.000 króna þann 19. júní 2014. Stefnendur í aðalsök höfða málið til innheimtu eftirstöðva kaupverðsins en stefndi telur tjón sitt vegna ágalla á eigninni nema hærri fjárhæð og gerir sjálfur fjárkröfur á hendur stefnendum.

Helstu málsástæður stefnenda í aðalsök eru þær að stefnda beri að standa við gerðan samning og standa stefnendum skil á greiðslu samkvæmt því kaupverði sem um hafi verið samið fyrir eignina eða til vara greiðslum samkvæmt kaupsamningi.

Helstu málsástæður stefnda í aðalsök eru þær að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna galla á eigninni sem seljendur beri ábyrgð á og beri þeim að bæta honum tjónið. Því hafi honum verið rétt að halda eftir greiðslu kaupverðs sem því nemi. Þá byggir stefndi á því að umsamið kaupverð eignarinnar sé það verð sem í kaupsamningi greini.

Að beiðni stefnda 9. janúar 2014 var dómkvaddur matsmaður þann 20. febrúar s.á. til þess að meta ágalla á íbúðinni og leggja mat á kostnað af úrbótum. Hinn dómkvaddi matmaður skilaði stefnda matsgerð sinni 14. apríl s.á. og var hún lögð fram í þinghaldi í málinu 15. maí s.á. Taldi matsmaður að kostnaður matsbeiðanda af viðgerðum á húsnæði hans næmi 1.762.135 krónum. Í þinghaldi 10. júní s.á. lagði stefndi fram beiðni um yfirmat þar sem fram kemur að matsbeiðandi teldi liði í undirmatsgerð sem varði myglu á veggjum, lagnir í kjallara og ágalla á þaki of lágt metna þar sem umfang ágalla og kostnaður við úrbætur væri vanmetinn. Tveir yfirmatsmenn voru dómkvaddir 23. júní s.á. til að meta kostnað af úrbótum og úrbótatíma samkvæmt matsbeiðni þar sem tilteknir hlutar í undirmatsgerð skyldu með nánar tilteknum hætti lagðir til grundvallar. Yfirmatsgerð, dags. 26. september 2014, var lögð fram í þinghaldi í málinu 10. október s.á. og samkvæmt henni er kostnaður yfirmatsbeiðanda af viðgerðum á húsnæði hans metinn 3.872.015 krónur.

Við fyrirtöku málsins 3. nóvember 2014 lagði lögmaður stefnda fram, með vísun til 66. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, beiðni um endurskoðun undirmatsgerðarinnar þannig að undirmatsmanni verði gert að endurskoða matsgerð sína að hluta. Var beiðnin studd þeim rökum að niðurstaða matsmannsins virtist vera röng að því er varðaði myglu á baðherbergi þar sem komið hefði í ljós mygla þar. Lögmaðurinn dró beiðni sína til baka í þinghaldinu að framkomnum mótmælum lögmanns stefnenda.  

Við fyrirtöku málsins 19. nóvember s.á. lagði lögmaður stefnda fram nýja beiðni um endurskoðun undirmatsgerðar með sama hætti og í fyrri beiðni, en nú á þeim grundvelli að framkvæmd matsskoðunar hefði verið ábótavant og hafi sá ágalli leitt til ófullnægjandi niðurstöðu undirmatsgerðar. Lögmaður stefnenda andmælti því að beiðnin yrði tekin til greina og lagði fram bókun með andmælum sínum. Krafðist lögmaður stefnda þess þá að dómari úrskurðaði um ágreining aðila um beiðnina. Lögmenn aðila lýstu sjónarmiðum sínum munnlega fyrir dóminum áður en þessi ágreiningur var tekinn til úrskurðar.

Sjónarmið stefnda í aðalsök, hér sóknaraðila, um ágreiningsefnið

Stefndi fer þess á leit að Hjalti Sigurmundsson byggingartæknifræðingur endurskoði að hluta undirmatsgerð sína í málinu. Óskað sé eftir skriflegu og rökstuddu áliti um þau atriði sem óskað sé endurmats á. Tilefni beiðninnar sé að í ljós hafi komið umfangsmeiri og dreifðari mygla í matsandlagi en staðfest hafi verið í undirmatsgerð. Þannig hafi raki og mygla fundist í baðherbergi, þ.m.t. í baðherbergisvegg, við baðkar og á skilvegg milli baðkars og hillna. Í undirmatsgerð hafi sérstaklega verið fjallað um vegg baðherbergis. Þar hafi því verið lýst að engin ummerki væru um raka eða sveppagróður í veggnum nema í stoð við útvegg.

Við framkvæmd undirmats virðist sem matsmaður hafi ekki náð að kanna nægilega vel ástand baðherbergisveggjar og gólfs við baðkar til að staðfesta hvort þar væri raka eða myglu að finna, enda hafi við skoðun matsmanns ekki verið búið að losa baðkar frá vegg eða taka klæðningu af millivegg. Matsmaður hafi einungis getað litið í gegnum tvö göt sem gerð hefðu verið neðarlega á baðherbergisvegginn, sbr. niðurstöðu matsfundar 17. mars 2014, til að meta ástand undir baðkari. Þessi göt hafi verið ófullnægjandi til að greina rétt umfang raka í baðherbergi, en fyrir hafi legið sterkur grunur um raka og myglu á þessu svæði.

Um framkvæmd matsskoðunar á baðherbergi sé fjallað í undirmatsgerð, af henni megi sjá að skoðun matsmanns hafi takmarkast að mestu leyti við yfirborð baðherbergisveggjar og hvort mygla væri sjáanleg undir baðkari. Til að greina þann raka og myglu sem nú sé vitað um hefði þurft að skoða betur innviði baðherbergisveggjar, skilveggjar og utanáliggjandi lista með því að losa svuntu frá baðkari, aðliggjandi skilvegg og grind baðherbergisveggjar. 

Byggt sé á því að framangreind framkvæmd matsmanns hafi leitt til ófullnægjandi niðurstöðu í undirmatsgerð. Síðari framkvæmdir af hálfu matsbeiðanda hafi leitt í ljós aukið umfang myglu sem með réttu hefði átt að vera tilgreint í undirmati, reynist grunur matsbeiðanda réttur. Svar matmanns við matsspurningu númer eitt skekki niðurstöður matsspurninga númer sjö um kostnað af úrbótum og númer níu varðandi verðmæti eignar við kaupsamning, sem óskað sé endurskoðunar á ef matsmaður staðfesti aukið umfang ágalla.

Sjónarmið stefnenda í aðalsök, hér varnaraðila, um ágreiningsefnið

Stefnendur mótmæli framkominni beiðni stefnda um endurskoðun matsgerðar og telji lagaskilyrði slíkrar beiðni ekki fyrir hendi, enda liggi yfirmat fyrir í málinu.

Í undirmati komi fram að engin merki séu um raka eða sveppagróður í vegg milli herbergis í norðausturhorni og baðherbergis, né undir baðkari. Við þá niðurstöðu sé stefndi bundinn og hafi sætt sig við hana með því að óska ekki endurmats á þessu atriði í yfirmati.

Í þinghaldi 3. nóvember sl. hafi lögmaður stefnda ítrekað upplýst að umræddur galli sé ný kominn fram. Stefndi hafi þar með viðurkennt með bindandi hætti að niðurstaða matsmanns sé rétt. Hafi mygla komið fram, eins og stefndi nú fullyrði, þá hafi það gerst eftir að matsmenn framkvæmdu skoðanir á matsandlaginu. Með bókun sinni í þinghaldi hafi lögmaður stefnda ráðstafað sakarefni málsins með bindandi hætti, sbr. 45. gr. laga um meðferð einkamála.

Það standist ekki að taka upp undirmat þegar yfirmat liggi fyrir og vafamál yrði þá hvort heldur ætti að taka mið af yfirmati eða nýju undirmati. Skoðun matsmanns hafi verið í samræmi við matsspurningu, veggur hafi verið opnaður og skoðað undir baðkar. Stefndi sé ekki að óska eftir endurskoðun á framkvæmd matsins í raun, hann sé kominn með yfirmat, en vilji aðeins fá nýja niðurstöðu.

Niðurstaða

Í 2. málslið 1. mgr. 66. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 segir að dómari geti úrskurðað um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar, svo sem hvort það hafi verið metið sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningu eða hvort matsgerð sé nægilega rökstudd, ef ágreiningur rís um kröfu um endurskoðun hennar eða endurmat.

Stefndi fer fram á endurskoðun undirmatsgerðar frá 14. apríl 2014, sem hann hefur aflað og lagt fram í málinu, með því að matsmanni þeim sem vann undirmatið verði gert að endurskoða matsgerð sína að hluta, þannig að hann endurskoði svör sín við hluta fyrstu matspurningar, sem var um það hvort raka eða myglu í veggjum og gólfi megi finna í eigninni, nánar tiltekið um umfang raka og myglu í og við baðherbergi. Ef það endurmat leiðir til þess að matsmaður staðfesti aukið umfang ágalla er óskað endurmats á matsspurningum númer sjö og níu, en í því felst annars vegar endurmat á kostnaði við úrbætur úr ágöllum og hins vegar endurmat á markaðsverðmæti eignarinnar þann 4. september 2013 að teknu tilliti til ágalla.

Samkvæmt 64. gr. laga um meðferð einkamála getur aðili krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem áður hafi verið metin. Stefndi óskaði yfirmats að fenginni undirmatsgerð og hefur lagt fram í málinu yfirmatsgerð frá 26. september 2014. Yfirmatsmenn skyldu svara matsspurningu sem er samhljóða spurningu númer sjö í undirmatsbeiðni um kostnað við úrbætur og auk þess svara því hversu langan tíma tæki að bæta úr ágöllum. Fyrir yfirmatsmenn var sérstaklega lagt af hálfu stefnda að leggja til grundvallar mati sínu niðurstöður matsmanns í undirmatsgerð um lýsingu á ágöllum samkvæmt spurningum númer eitt til fjögur, þar með er því talin fyrsta matspurningin um það hvort raka eða myglu í veggjum og gólfi megi finna í eigninni, sem hér er farið fram á endurskoðun á að hluta til. Í matsbeiðninni segir m.a. að umfang ágalla og kostnaður við úrbætur á þeim sé vanmetinn í undirmatsgerð. Vegna fyrirmæla stefnda til yfirmatsmanna í matsbeiðni er tekið fram í yfirmatsgerðinni að yfirmatsmenn líti svo á að þeir skuli sannreyna umfang þeirra galla sem undirmatsgerð tilgreini og endurmeta úrbætur. Slíkt feli einnig í sér skoðun á þeim atriðum þar sem undirmatsmaður hafi ekki fundið galla þar sem slíkt sé fólgið í mati á umfangi galla.

Yfirmatsmenn skoðuðu eignina 26. ágúst 2014 og lýsa í yfirmatsgerð niðurstöðum þeirrar skoðunar í máli og myndum og taka fram að hvaða leyti þeir séu sammála eða ósammála undirmatsmanni um hvert afmarkað atriði sem hann hafði tekið afstöðu til. Í fyrstu matsspurningu er spurt um raka eða myglu í veggjum og gólfi og voru yfirmatsmenn sammála undirmatsmanni um umfang myglu á veggjum í eldhúsi og á vegg í herbergi við hliðina á baðherbergi, en voru ósammála undirmatsmanni um að mygla í gólfi væri takmörkuð við parket í forstofu og töldu myglu á gólfum umfangsmeiri þannig að hreinsun á gólfum þyrfti að ná yfir eldhús, stofu, forstofu og herbergi. Beiðni stefnda um endurskoðun undirmatsgerðar sem hér er til úrlausnar takmarkast við raka eða myglu í veggjum og gólfi í baðherbergi, en undirmatsmaður hafði upplýst að engin mygla eða raki hefði fundist undir baðkari og ekki í veggnum sem liggur að baðkarinu nema á stoð að útvegg. Um þessa afmörkun myglu og raka í baðherbergi voru yfirmatsmenn sammála undirmatsmanni.

Í undirmatsgerð er framkvæmd matsins lýst, þar með talið athugun matsmanns á vettvangi, og eru niðurstöður matsgerðar rökstuddar. Í matsgerð kemur m.a. fram að matsmaður lét gera tvö göt á timburvegg milli baðherbergis og annars herbergis til þess að unnt væri að skoða undir baðker og sá matsmaður engin merki þar um raka eða sveppagróður og ekki heldur á rakaþolnum spónaplötum eða í vegg, en sveppagróður var sýnilegur á stoð/reim sem fest var á útvegg. Stefndi telur í beiðni sinni um endurskoðun matsgerðar að matsmaður hefði átt að skoða vettvang betur, en stefndi hefur að mati dómsins hvorki sýnt fram á það að matsmaður hafi ekki metið það sem hann skyldi meta né að hann hafi ekki rökstutt niðurstöðu sína á fullnægjandi hátt.

Fyrir liggur að með því yfirmati sem stefndi aflaði sjálfur hefur þegar farið fram raunverulegt endurmat á þeim þáttum undirmatsgerðarinnar, sem beiðni stefnda lýtur að því að verði endurskoðaðir. Það var stefndi sjálfur sem ákvað framsetningu matsspurninga til yfirmatsmanna, sem hagað var með þeim hætti að yfirmatsmenn endurskoðuðu með eigin athugun á vettvangi það sem hann nú óskar endurskoðunar á.

Þegar af þessari ástæðu verður hafnað fyrirliggjandi beiðni stefnda um að matsmaður endurskoði að hluta undirmatsgerð sína í máli þessu.

Aðilar krefjast ekki málskostnaðar í þessum þætti málsins sérstaklega.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Beiðni stefnda, Ólafs Reynis Guðmundssonar um endurskoðun matsgerðar er hafnað.