Hæstiréttur íslands
Mál nr. 545/2011
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Gjafsókn
- Skaðabætur
|
|
Miðvikudaginn 16. maí 2012. |
|
Nr. 545/2011. |
Þorsteinn
Ingi Jónsson (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) gegn þrotabúi
S12 bygginga ehf. og Sjóvá-Almennum
tryggingum hf. (Kristín Edwald hrl. |
Skaðabætur.
Vinnuslys. Líkamstjón. Gjafsókn.
Þ
krafði þrotabú S ehf. og S hf. um bætur vegna slyss sem hann varð fyrir við
fall úr tröppu er hann vann við kerfisloft í nýbyggingu í K. Þ var ekki
launamaður hjá S ehf. heldur gerði félaginu reikning fyrir þá vinnu sem hann
vann í þágu þess. Í umrætt sinn starfaði hann undir stjórn J, verkstjóra hjá S
ehf. Í málinu þótti ekki upplýst að umræddar tröppur hefðu ekki hentað til þess
verks sem Þ hafði verið falið að vinna. Þ var því ekki talinn hafa fært sönnur
á að rekja mætti líkamstjón hans til saknæmrar hegðunar verkstjórans eða
annarra starfsmanna S ehf. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms
um sýknu þrotabúsins og S hf. af skaðabótakröfu Þ.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 27. júlí 2011. Ekki varð
af fyrirhugaðri þingfestingu þess 7. september 2011 og áfrýjaði hann öðru sinni
5. október það ár samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála. Hann krefst þess að stefndu greiði sér óskipt 18.262.108
krónur með 4,5% ársvöxtum af 2.670.550 krónum frá 1. apríl 2008 til 14. janúar
2009 en af 18.855.863 krónum frá þeim degi til 12. desember 2009 en með
dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til 15. desember 2009 en af 18.262.108
krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til
gjafsóknar sem honum hefur verið veitt vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar
fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður
þá felldur niður.
Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var upplýst að nafni Riss ehf. hefði
verið breytt í S12 byggingar ehf. áður en bú
félagsins var tekið til gjaldþrotaskipa.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður
hann staðfestur.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður fyrir
Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður
ákveðinn eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur
skal vera óraskaður.
Málskostnaður
fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður
áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin
málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2011.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 31. mars sl., er höfðað 1.
febrúar 2010 af Þorsteini Inga Jónssyni, Vættarborgum 121 í Reykjavík, gegn
Risi ehf., Skeiðarási 12 í Garðabæ, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf.,
Kringlunni 5 í Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði
dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 18.262.108 krónur með 4,5% vöxtum
skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 2.670.550
krónum frá 1. apríl 2008 til 14. janúar 2009, en af 18.855.863 krónum frá þeim
degi til 12. desember 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 15. desember 2009, en af
18.262.108 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi
málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum ásamt 25,5% virðisaukaskatti.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda auk
málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins. Til
vara krefjast stefndu að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að
málskostnaður verði lækkaður verulega.
Undir rekstri málsins var stefndi, Ris ehf., tekinn til
gjaldþrotaskipta og tók þrotabú félagsins við aðild að málinu, sbr. 3. mgr. 23.
gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
II.
Málsatvik
Stefnandi er trésmiður og hafði unnið um árabil fyrir Ris
ehf. þegar hann slasaðist við vinnu sína 1. apríl 2008. Hann mun þá hafa verið
að vinna við uppsetningu kerfislofts í nýbyggingu að Hlíðarsmára 6 í Kópavogi
en Ris ehf. hafði reist húsið auk þess að taka að sér smíðavinnu innanhúss. Jón
Bjargmundsson, verkstjóri hjá Risi ehf., var byggingarstjóri við byggingu
hússins.
Lögregla var kölluð á vettvang þegar slysið átti sér stað og
kemur fram í lögregluskýrslu að hún hafi kallað til fulltrúa frá Vinnueftirliti
ríkisins. Lýsti stefnandi atvikinu þannig fyrir lögreglu á vettvangi að hann
hafi verið að vinna við snúrur í loftinu þegar honum hafi fundist eins og
trappan sem hann notaði hefði gefið sig og hún farið á hliðina. Hafi hann lent
illa á vinstri hliðinni og kvartaði undan eymslum í vinstri upphandlegg. Fram
kom í skýrslunni að stefnandi væri verktaki og væri að vinna fyrir Ris ehf. Þá
var í skýrsluni haft eftir Birni Pálssyni, eftirlitsmanni frá Vinnueftirliti
ríkisins, sem kom á vettvang, að umræddar tröppur hafi haft burðargetu fyrir
110 kg en stefnandi væri þrekvaxinn og kraftalegur í útliti. Stefnandi var
fluttur með sjúkrabifreið á slysa- og bráðadeild Landspítalns.
Í eftirlitsskýrslu eftirlitsmanns Vinnueftirlits ríkisins,
sem gerð var á slysdegi, kom fram sú athugasemd að vinnueftirlitið legði
áherslu á að starfsmenn notuðu tröppur við hæfi við vinnu sína.
Af hálfu Riss ehf. var slysið tilkynnt samdægurs til
Vinnueftirlits ríkisins. Í þeirri tilkynningu segir að stefnandi hafi verið að
vinna í tröppu og hafi fallið á steingólf úr u.þ.b. 1,5 til 2 m hæð.
Í málinu liggur fyrir umsögn fyrrgreinds eftirlitsmanns
Vinnueftirlits ríkisins um slysið, dags. 1. apríl 2008. Þar segir um aðstæður á
slysstað að þær hafi verið óbreyttar þegar rannsókn hafi farið fram. Herbergið
hafi verið bjart og þokkalega þrifalegt. Þar hafi verið lausar tröppur, sem
hafi verið merktar fyrir 110 kg, en aðrar upplýsingar ekki sjáanlegar. Um orsök
slyssins sagði orðrétt í umsögninni: „Hugsanleg orsök er að tröppurnar sem hinn
slasaði notaði voru orðnar slitnar og ekki gerðar fyrir nema 110 kg.“
Við röntgenmyndatöku á Landspítala kom í ljós þverbrot á
upphandleggsbeini stefnanda auk brots á úlnliðsbeini. Stefnandi gekkst undir
aðgerð sama dag og útskrifaðist heim til sín daginn eftir. Gifsumbúðir voru
fjarlægðar um miðjan maí. Við röntgenmyndatöku um haustið kom í ljós að
upphandleggsbrotið var gróið. Hins vegar var hreyfigeta í öxlinni skert og
þótti ljóst að rof hefði orðið í ofankambsvöðvasin. Stefnandi fór í aðgerð 15.
desember 2008 þar sem sinin var saumuð saman. Samkvæmt gögnum málsins virðist
hreyfigeta hafa aukist eftir það. Við skoðun hjá bæklunarskurðlækni 20. maí
2009 kvartaði stefnandi þó áfram yfir verkjum í öxlinni og í úlnlið auk sem
hann hefði skerta hreyfigetu.
Með beiðni frá 17. ágúst 2009 var af hálfu lögmanns
stefnanda og fulltrúa stefnda, Sjóvá Almennra trygginga hf., óskað eftir því að
læknarnir Guðmundur Björnsson og Atli Þór Ólason legðu mat á afleiðingar
slyssins. Í matsgerð þeirra frá 15. október 2009 var komist að þeirri
niðurstöðu að tímabundið atvinnutjón stefnanda væri 100% frá 1. apríl 2008 til
1. apríl 2009, þjáningatími teldist vera frá 1. apríl 2008 til 1. apríl 2009,
þar af tveir dagar rúmliggjandi. Stöðuleikapunktur var talinn vera 1. apríl
2009. Varanlegur miski vegna slyssins taldist hæfilega metinn 25 stig og
varanleg örorka 35%.
Af hálfu stefnanda var farið fram á það með kröfubréfi
12. nóvember 2009 að greiddar yrðu 20.404.623 krónur í skaðabætur úr
ábyrgðartryggingu Riss ehf. vegna tjóns stefnanda. Byggðist kröfugerð þessi á
niðurstöðu fyrrgreindrar matsgerðar. Bótaskyldu var hafnað af hálfu stefndu.
Undir rekstri málsins var farið fram á það af hálfu
stefndu að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta afleiðingar slyssins. Í
þinghaldi 8. júlí 2010 voru Guðjón Baldursson læknir og Jörundur Gauksson hdl.
dómkvaddir í þessu skyni. Óskað var eftir því að þeir legðu mat á eftirfarandi
atriði um afleiðingar slyssins á heilsu matsþola/stefnanda:
1. Hvort og þá hvenær
heilsufar matsþola hafi verið orðið stöðugt, sbr. 2. gr. laga nr. 50/1993 og því
tímabært að meta afleiðingar óhappsins á heilsu matsþola.
2. Hvenær ætla megi að
matsþoli hafi getað byrjað að vinna á ný í kjölfar óhappsins, sbr. 2. gr. laga
nr. 50/1993.
3. Hvert hafi verið
tímabil þjáninga í kjölfar óhappsins, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1993.
4. Hvort telja megi að matsþoli hafi orðið fyrir varanlegum
miska vegna óhappsins í skilningi 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þá hversu
mikill hann sé.
5. Hvort hugsanlegt sé
að umrætt óhapp hafi orsakað varanlega örorku matsþola í skilningi 5. gr.
skaðabótalaga nr. 50/1993 og þá hversu mikil hún sé með tilliti til þeirra
sjónarmiða sem síðastnefnt ákvæði byggir á.
Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna var lögð fram í þinghaldi
6. desember 2010. Svör þeirra við matsspurningum voru eftirfarandi:
„1. Stöðugleikapunktur 14.01.2009
2. Óvinnufærni 01.04.2008 til 28.04.2008
og 15.12.2008 til 14.02.2009
3. Veikindatímabil 01.04.2008 til 28.04.2008 og
15.12.2008 til 15.02.2009, þar af einn dag rúmliggjandi
4. Varanlegur
miski 23 stig
5. Varanleg örorka 40%“
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Í stefnu er því haldið fram að stefnandi hafi verið
starfsmaður hjá Risi ehf. og réttarsamband þeirra hafi verið ráðningarsamband.
Stefnandi hafi fengið greidd laun samkvæmt reikningi en í raun hafi hann unnið
eins og hver annar launþegi. Hann hafi stimplað sig inn og borið að hlýða
fyrirmælum um verkefni og framkvæmd þeirra. Þá hafi hann fengið laun samkvæmt
viðveru og þau hækkað þegar um yfirtíð hafi verið að ræða. Útilokað hafi verið
fyrir hann að láta aðra vinna fyrir sig eða ráða undirverktaka. Hafi Ris ehf.
útvegað stefnanda öll áhöld og verkfæri önnur en handverkfæri og hafi séð um
alla aðstöðu, þ. á m. tröppurnar sem stefnanda hafi verið lagðar til við vinnu
sína á slysdegi. Stefnandi telur þó að slysið sé bótaskylt úr ábyrgðartryggingu
Riss ehf., sem hafi borið ábyrgð á allri aðstöðu á vinnustaðnum, óháð því með
hvaða hætti réttarsambandi aðila hafi verið háttað.
Stefnandi vísar til þess að í umsögn Vinnueftirlits
ríkisins komi fram að hugsanleg orsök slyssins hafi verið að tröppurnar sem
stefnandi notaði hafi verið slitnar og ekki gerðar fyrir nema 110 kg. Ekki geti
verið ágreiningur um sök félagsins ef starfsmönnum þess séu lagðar til slitnar
tröppur við framkvæmd verka. Í umsögn vinnueftirlitsins um úrbætur komi fram að
yfirfara verði vinnubrögð og búnað sem notaður sé við vinnu í hæð hjá
fyrirtækinu með tilliti til öryggis starfsmanna. Þá hafi verkstjórinn jafnframt
verið upplýstur um staðla um tröppur og stiga. Ekki liggi fyrir að sérstök rannsókn
hafi verið gerð á tröppunni af stefnda Risi ehf. eða hún tekin úr umferð eftir
slysið.
Stefnandi vísar til þess að tröppur, sem séu til
iðnaðarnota, skuli uppfylla staðal EN-131-3:2007. Í a-lið gr. 7.4 í staðlinum
komi m.a. fram að ekki megi fara umfram hámarksþunga sem viðkomandi trappa
þoli. Þá skuli viðhald á tröppum vera í höndum fagaðila og í samræmi við
leiðbeiningar framleiðanda sem stefnandi telur að ósennilegt sé að hafi verið
sinnt með vísan til niðurstöðu vinnueftirlitsins um að trappan hafi verið
slitin.
Stefnandi vísar einnig til ákvæða laga nr. 46/1980 um
aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í því efni skírskotar stefnandi
einkum til þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnurekanda samkvæmt 37. gr. og 13.
gr. þeirra og samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Enn
fremur vísar stefnandi til leiðbeininga Vinnueftirlits ríkisins nr. 1/1991 þar
sem fjallað sé um tröppur og aðbúnað þeirra. Þar komi fram að við val á tröppu
þurfi að athuga vandlega að hún henti því verki sem eigi að vinna.
Stefnandi byggir á því að honum hafi verið látnar í té
tröppur af vinnuveitanda sínum sem ekki hafi hentað til verksins þar sem þær
hafi verið of stuttar og slitnar. Önnur eða betri tæki hafi ekki verið
aðgengileg á vinnustað hans. Þá hafi ekki verið mælst til þess að annar stigi
yrði notaður. Notkun trappanna hafi ekki verið bönnuð. Því sé ljóst að Ris ehf.
hafi gerst brotlegt við hátternisreglur um aðstöðu starfsmanna en sú aðstaða
hafi verið óforsvaranleg. Því verði hið stefnda félag að bera ábyrgð á tjóni
stefnanda. Það sé mat stefnanda að slysið verði ekki rakið til annars en að
tækjum og aðstöðu hafi verið ábótavant og aðstæður á slysstað hafi því verið
óásættanlegar og hættulegar öryggi stefnanda við framkvæmd vinnu sinnar.
Stefnandi vísar til þess að stefndu hafi haldið því fram
að slysið sé alfarið á ábyrgð stefnanda. Í því sambandi vísar stefnandi til
þróunar á reglum norræns réttar um mildara saknæmismat gagnvart tjónþola, þ.e.
að meira þurfi til að koma en áður svo að til álita komi að tjónþoli verði
talinn meðábyrgur.
Í samræmi við þessa þróun hafi nú verið bætt við nýju
ákvæði í skaðabótalögin, 23. gr. a, þess efnis að réttur starfsmanns til
skaðabóta vegna meðábyrgðar skerðist ekki nema hann hafi af stórkostlegu
gáleysi eða ásetningi átt þátt í að tjónsatburður varð. Reglan eigi ekki við í
þessu máli en í athugasemdum með lögunum komi fram að meðábyrgð tjónþola í
vinnuslysamálum sé þeim oft afar þungbær og brýn þörf hafi verið talin á því að
létta ábyrgð af starfsmönnum á kostnað vinnuveitenda sem flestir hafi
ábyrgðartryggingar til að taka á móti áföllum í starfseminni. Rétt sé að horfa
til þeirra sjónarmiða sem liggi að baki setningu ákvæðisins og þeirrar
réttarþróunar sem hafi átt sér stað í þá átt að draga úr vægi eigin sakar tjónþola
í vinnuslysum.
Þá heldur stefnandi því fram að jafnvel þó að fallist
yrði á að hann hafi að einhverju leyti verið meðvaldur að tjóni sínu vegna
einfalds gáleysis þá sé rétt að líta fram hjá því að nokkru eða öllu leyti,
líkt og gert sé ráð fyrir í 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga, í ljósi þess hversu
alvarlegar afleiðingar það hefur haft á hagi stefnanda.
Kröfugerð stefnanda tók upphaflega mið af matsgerð
læknanna Guðmundar Björnssonar og Atla Þórs Ólasonar frá 15. október 2009.
Samtals nam bótakrafan 19.819.868 krónum. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón,
sbr. 2. gr. skaðabótalaga, námu 4.321.531 krónu, en til frádráttar komu bætur
frá Vinnumálastofnun að fjárhæð 459.304 krónur. Þjáningabætur, sbr. 3. gr.
skaðabótalaga, námu 539.080 krónum. Bætur fyrir varanlegan miska, sbr. 4. gr.
skaðabótalaga, námu 1.935.024 krónum og bætur fyrir varanlega örorku námu
14.068.292 krónur, en til frádráttar kom eingreiðsla örorkubóta frá
Sjúkratryggingum Íslands að fjárhæð 593.755 krónur.
Við aðalmeferð málsins var bótakrafan af hálfu stefnanda
lækkuð og hún látin taka mið af matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna. Dómkröfur
stefnanda voru þá sundurliðaðar með eftirfarandi hætti:
1. Bætur skv. 2. gr.
skbl. kr.
1.522.292
Óvinnufærni:
frá 1. apríl til 28. apríl
2008
frá 15. desember 2008 itl 15.
febrúar 2009
Apríl 2008: 176 - 59 (greiddir
tímar) = 117 x 3.000 = 351.000 kr.
15. des. 2008 til 15. feb. 2009:
585.646 x2 = 1.171.292 kr.
(sjá útreikning að neðan)
Frádregnar bætur frá Vinnumálastofnun kr.
-278.622
(Ekki teknar með í vaxtaútreikningi)
Frádregin greiðsla frá SJ
Eignarhaldsfélagi kr. -485.437
(Ekki tekin með í vaxtaútreikning)
2. Bætur skv. 3. gr. skbl. kr.
132.095
88 x 1.470 = 129.360
1 x 2.735 = 2.735
3. Bætur skv. 4. gr. skbl. kr.
1.780.222
23% af kr. 8.062.600,- x 0,96
4. Bætur skv. 5.-7. gr. skbl. kr.
16.185.313
(2007) 4.321.531 x 1.08 / 319,8 x 355,4
= 5.186.810
(2006) 5.385.064 x 1,08 / 295,4 x 355,4
= 6.997.156
(2005) 3.703.961 x 1,08 / 268,0 x 355,4
= 5.304.846
17.488.812
17.488.812 / 3 x 6,941 x 40%
Að frádreginni eingreiðslu örorkubóta
frá Sjúkratryggingum Íslands þann 15.12.2009 að fjárhæð kr. 593.755
Samtals:
kr. 18.262.108
Af hálfu stefnanda er krafist 4,5% vaxta
vegna bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur og varanlegan miska frá
slysdegi 1. apríl 2008 fram að stöðugleikatímamarki 14. janúar 2009, en frá
þeim degi einnig af bótum vegna varanlegrar örorku, sbr. 16. gr. skaðabótalaga,
fram til 12. desember 2009 (mánuði eftir að kröfubréf var sent), en
dráttarvaxta frá því tímamarki, sbr. lög nr. 38/2001, til 15. desember 2009 er
stefnandi fékk eingreiðslu bóta frá Sjúkratryggingum Íslands, en síðan af
eftirstöðvum fram til greiðsludags.
Fram kemur að við útreikning á tímabundnu
atvinnutjóni í apríl 2008 sé miðað við laun fyrir fulla vinnu í apríl 2008 (176
tíma), en stefnandi hafi aðeins fengið greitt fyrir 59 tíma. Við útreikning á
tímabundnu atvinnutjóni frá 15. desember 2008 til 15. febrúar 2009 sé stuðst
við meðaltal launa síðustu þriggja mánaða á undan:
|
September 2008 |
866.220 kr. (án
vsk) |
|
Október 2008 |
578.718 kr. (án
vsk.) |
|
Nóvember 2008 |
312.000 kr. (án
vsk.) |
|
Samtals |
1.756.938 kr. |
|
Meðaltal: |
585.646 kr. |
Frá bótum vegna tímabundins atvinnutjóns
dregur stefnandi frá greiðslur sem stefnandi fékk á óvinnufærnistímabilinu.
Annars vegar sé hér um að ræða greiðslur frá Vinnumálastofnun í desember 2008
og febrúar 2009, samtals að fjárhæð 278.622 krónur, og hins vegar greiðslur frá
SJ Eignarhaldsfélagi í febrúar 2009 að fjárhæð 485.437 krónur. Nemi þessar
greiðslur samtals 764.059 krónum en þær komi ekki inn í vaxtaútreikning.
Stefnandi reisir kröfugerð um
þjáningatímabil, sbr. 3. gr. skaðabótalaga, einnig á matsgerð hinna dómkvöddu
matsmanna. Samkvæmt henni hafi stefnandi verið veikur í skilningi skaðabótalaga
frá 1. apríl 2008 til 28. apríl 2008 og frá 15. desember 2008 til 15. febrúar
2009, en þar af rúmliggjandi í einn dag. Þjáningabætur reiknist því í alls 89
daga, þar af rúmliggjandi í einn dag. Fjárhæðir séu uppfærðar miðað við
lánskjaravísitölu í nóvember 2009.
Kröfugerð stefnanda varðandi bætur fyrir
varanlegan miska kveður hann taka mið af sama mati og er fjárhæðin uppfærð
miðað við lánskjaravísitölu í nóvember 2009. Krafa um bætur fyrir varanlega
örorku taki einnig mið af matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna. Tekið sé mið af
launum stefnanda samkvæmt skattframtölum hans síðustu þrjú árin fyrir slysið,
sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Launin séu uppreiknuð miðað við
launavísitölu að stöðugleikapunkti 14. janúar 2009.
Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga
nr. 50/1993 með síðari breytingum og almennrar, ólögfestrar reglu íslensks
réttar um skaðabætur. Þá vísar stefnandi til 44. gr. laga um
vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Enn fremur vísar stefnandi til laga nr.
46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglna nr. 367/2006
um notkun tækja og staðals EN-131-3:2007. Um vaxtakröfuna vísar stefnandi
sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og um dráttarvaxtakröfuna til
1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað sé
vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130.
gr. þeirra. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili samkvæmt lögum nr.
50/1988 og því beri nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við
ákvörðun málskostnaðar.
2. Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu byggja á því að stefnandi hafi verið sjálfstæður
verktaki en ekki launþegi hjá Risi ehf. Hafna þeir því að tjón stefnanda skuli
bætt úr launþegatryggingu eða frjálsri ábyrgðartryggingu hins stefnda félags.
Þá hafna stefndu því að stefnandi hafi verið í svokallaðri „gerviverktöku“.
Um þetta atriði vísa stefndu til þess að stefnandi hafi
allt frá árinu 2005 tekið að sér verk fyrir Ris ehf. Frá upphafi hafi stefnandi
gefið út reikninga fyrir vinnu sinni ásamt virðisaukaskatti. Þá hafi stefnandi
staðið sjálfur skil á öllum launatengdum gjöldum. Skattframtöl beri það einnig
með sér að stefnandi hafi starfað sjálfstætt og raunar hafið slíka verktöku
áður en hann hafi byrjað að vinna fyrir Ris ehf. Stefnandi hafi ávallt útvegað
sjálfur öll helstu verkfæri til vinnu sinnar enda þótt hann hafi haft aðgang að
stærri verkfærum hjá Risi ehf. Vinnutilhögun hafi verið með þeim hætti að
stefnandi hafi mætt að morgni hjá verkstjóra Riss ehf. sem hafi úthlutað verkum
til hans sem undirverktaka. Stefnandi hafi svo haft sjálfdæmi um það hvernig
hann hafi leyst viðkomandi verkefni af hendi. Ekki sé ágreiningur um að haldið
hafi verið utan um tíma stefnanda með skráningu í stimpilklukku. Það hafi verið
gert báðum aðilum til hagræðis til að ekki kæmu upp deilur við yfirferð
reikninga. Í stefnu komi fram að laun stefnanda hafi hækkað þegar um „yfirtíð“
hafi verið að ræða. Stefndu telja ekki ljóst hvað átt sé við en árétta að
stefnandi hafi fengið greitt fyrir vinnu sína í samræmi við þann tíma sem hafi
farið í viðkomandi verk. Þá hafi stefnandi sjálfur ekki verið í neinum vafa um
réttarsamband sitt við Ris ehf. og um það vísað til þess sem fram komi í
matsgerð og lögregluskýrslu. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi sjálfur verið
tryggður almennri slysatryggingu en ekki tryggður slysatryggingu launþega af
hálfu Riss ehf.
Stefndu vísa enn fremur til þess að um ábyrgð stefnda
Riss ehf. fari samkvæmt almennu sakarreglunni. Sýknukrafan sé reist á því að
tjón stefnanda verði ekki með nokkru móti rakið til atvika sem stefndu beri
skaðabótaábyrgð á að lögum.
Um þetta atriði er í fyrsta lagi vísað til þess að á
slysdegi hafi stefnandi verið sjálfstæður verktaki og ekki lotið boðvaldi
stefnda Riss ehf. Hann hafi sjálfur ráðið tilhögun vinnu sinnar og að ljóst sé
að hann einn hafi tekið þá ákvörðun að nota umræddar tröppur þó að þær hafi
einungis haft burgðargetu fyrir 110 kg. Í þessu samhengi verði ekki litið fram
hjá þeirri staðreynd að á tjónsdegi hafi stefnandi verið yfir 100 kg að þyngd.
Í öðru lagi er á því byggt af hálfu stefndu að ekkert sé
fram komið um að tröppurnar hafi verið vanbúnar. Staðhæfingum um að trappan
hafi gefið sig eða svignað sé mótmælt sem ósönnuðum. Miðað við lýsingar á
óhappi stefnanda megi draga þá álykutn að hann hafi misst jafnvægið á tröppunum
og þær fallið á hliðina. Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins sé ekki fullyrt um
orsakir slyssins. Þó sé velt upp þeim möguleika að orsök þess kunni að hafa
verið slit trappanna og að þær hafi einungis burðargetu fyrir 110 kg. Stefndu
byggja á því að tilgreind burðargeta trappanna sé ekki til marks um neinn
vanbúnað. Stefndu mótmæla sérstaklega að stefndi, Ris ehf., hafi brotið gegn
ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglugerð
nr. 367/2006 um notkun tækja, staðal EN-131-3:2007 og leiðbeiningar um
vinnuvernd nr. 1/1991. Þær almennu varúðarreglur sem komi fram í framangreindum
reglum snúi helst að stefnanda sjálfum sem sjálfstæðum verktaka. Þar sé t.d.
átt við þá varúðarreglu að notuð séu tæki sem hæfi því verki sem verið sé að
vinna.
Í þriðja lagi reisa stefndu sýknukröfu sína á því að
enda þótt það teldist sannað að umræddar tröppur hafi verið vanbúnar þá geti
stefndu ekki borið ábyrgð á því. Vísa stefndu til þess að tröppurnar hafi ekki
komið frá Risi ehf. heldur rafverktaka sem hafi unnið við nýbygginguna. Ábyrgð
á tröppunum og viðhald þeirra hafi því ekki verið á könnu stefnda Riss ehf. Þá
hafi verið á staðnum margvíslegur léttibúnaður, þ.m.t. tröppur af ýmsum gerðum.
Hafi stefnandi talið að þær tröppur hentuðu ekki hafi hann þó í öllu falli
getað kallað eftir öðrum tröppum frá Risi ehf. Af einhverjum ástæðum hafi
stefnandi kosið að nýta ekki tröppur frá Risi ehf. heldur notast við tröppur
frá öðrum verktaka. Ef til vill hafi þær tröppur ekki hentað stefnanda eða því
verki sem hann hafi verið að vinna í umrætt sinn. Á þeirri ákvörðun stefnanda
geti stefndu ekki borið ábyrgð.
Stefndu byggja jafnframt á því að stefnandi verði að
bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Stefndu telja að ráða megi af
gögnum málsins að orsök tjónsins hafi verið óaðgæsla stefnanda sjálfs og ef til
vill óhappatilviljun. Ekki verði litið framhjá þeirri staðreynd að á slysdegi
hafi stefnandi verið yfir 100 kg að þyngd. Í ljósi þess hafi honum borið að
velja sér tröppu sem hentaði hans líkamsþyngd. Þá hafi honum borið að sýna
sérstaka aðgæslu við vinnu upp í tröppunum svo hann missti ekki jafnvægið.
Þannig hafi verið óvarlegt af stefnanda að notast við tröppur frá öðrum
verktaka nema kanna sérstaklega hvort þær hentuðu honum og því verki sem verið
var að vinna.
Þegar slysið átti sér stað hafi stefnandi verið 53 ára
og unnið um árabil sem sjálfstæður verktaki við trésmíðar. Hann hafi útskrifast
úr iðnskóla árið 1974 og unnið við fagið frá þeim tíma. Í ljósi aldurs
stefnanda, þekkingar hans og reynslu hafi honum mátt vera kunnugt að óvarlegt
hafi verið að notast við tröppur frá öðrum verktaka sem hugsanlega hentuðu ekki
líkamsþyngd hans. Vegna þessarar áhættutöku og gáleysis verði stefnandi að bera
tjón sitt að fullu sjálfur.
Um varakröfu um verulega lækkun vísa stefndu
í fyrsta lagi til eigin sakar stefnanda, sbr. það sem fram hefur komið. Vísað
sé til þess að ákvæði 23. gr. a í skaðabótalögum hafi ekki tekið gildi þegar
slys stefnanda hafi átt sér stað. Tilvísun stefnanda til ákvæðisins hafi því
ekki neina þýðingu.
Í öðru lagi mótmæltu stefndu niðurstöðu
matsgerðarinnar frá 15. október 2009, þ. á m. kröfu um tímabundið atvinnutjón.
Niðurstöðu síðari matsgerðarinnar, sem lögð var fram 6. desember 2010, var ekki
mótmælt af hálfu stefndu.
Í þriðja lagi mótmæla stefndu
dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrra tímamarki en dómsuppsögudegi.
Um lagarök vísa stefndu til skaðabótalaga
nr. 50/1993 og 9. gr. laga nr. 36/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa
stefndu er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Niðurstaða
Eins og fram er komið slasaðist stefnandi
þegar hann var að störfum fyrir Ris ehf. en hann var þá að vinna við kerfisloft
að Hlíðarsmára 6 í Kópavogi. Byggingarfélag þetta hefur nú verið tekið til
gjaldrotaskipta og hefur þrotabú þess tekið við aðild málsins. Stefnandi var
ekki launamaður hjá Risi ehf. heldur gerði félaginu reglulega reikning fyrir þá
vinnu sem hann vann í þágu þess. Hvað sem því líður þá er ljóst að í umrætt
sinn starfaði stefnandi undir stjórn Jóns Bjargmundssonar, verkstjóra hjá Risi
ehf., sem jafnframt var byggingarstjóri við framkvæmdirnar að Hlíðarsmára 6.
Ekki er um það deilt að verkstjórinn hafði falið stefnanda að vinna við
kerfisloftið í húseigninni. Af framburði þeirra sem komu fyrir dóminn verður
ráðið að Ris ehf. hafi átt að útvega stefnanda allan þann búnað sem þurfti til
verksins, önnur en venjuleg handverkfæri, þar á meðal tröppur eða annan útbúnað
til að ná upp í þá hæð sem unnið var í. Verður að líta svo á að á Risi ehf.
hafi hvílt sú skylda að sjá til þess að sá búnaður, sem byggingarfélagið lagði
honum til í umrætt sinn, fullnægði þeim kröfum, sem lög nr. 46/1980 um aðbúnað,
hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og stjórnvaldsfyrirmæli, sem sett hafa
verið á grundvelli laganna, gera til slíks búnaðar.
Stefnandi lýsir atvikinu er hann slasaðist á
þann veg hann hafi verið að loka kerfislofti á fyrstu hæð hússins eftir að
rafvirkjar höfðu gengið frá raflögnum í kerfisloftinu. Hafi hann staðið í
þriðja eða fjórða þrepi í tröppunni í 80 til 90 cm hæð frá gólfi og unnið upp
fyrir sig. Hafi hann verið að „kíkja línuna“ og staðið kyrr þegar „allt í einu
brast eitthvað“ og hann hafi fallið á gólfið. Ekki voru vitni að atvikinu.
Slys þetta var tilkynnt af hálfu Riss ehf.
samdægurs og voru tildrög þess rannsökuð sama dag. Ber stefnanda að sýna fram á
að slysið hafi borið að með þeim hætti að stefndu beri á því skaðabótaábyrgð. Í
því efni vísar stefnandi einkum til umsagnar eftirlitsmanns Vinnueftirlits
ríkisins en af henni dregur hann þá ályktun að trappan, sem stefnanda voru
lagðar til í umrætt sinn, hafi ekki hentað til verksins þar sem hún hafi verið
of stutt og slitin. Í umsögn eftirlitsmannsins kemur fram að hugsanleg orsök
slyssins hafi verið að umrædd trappa hafi verið orðin slitin og ekki gerð fyrir
nema 110 kg.
Af hálfu stefndu er m.a. á því byggt að
trappan hafi ekki verið í eigu Riss ehf. heldur rafverktaka sem hafi verið að
vinna í byggingunni á sama tíma. Á staðnum hafi verið ýmis annar léttibúnaður
frá Risi ehf., þar með taldar ýmsar tröppur, sem stefnandi hafi getað notað við
vinnu sína. Verkstjórinn, Jón Bjargmundsson, og Magnús Jónsson, fyrrverandi
framkvæmdastjóri hjá Risi ehf., staðhæfðu enn fremur fyrir dómi að Ris ehf.
hafi ekki átt tröppur af þeirri gerð sem stefnandi notaði í umrætt sinn og
ljósmyndaðar voru við rannsókn Vinnueftirlits ríkisins. Taldi Magnús að þær
tröppur sem Ris ehf. hefði átt hafi allar verið með um 90 cm „brjóstvörn“ sem
umrædd trappa var ekki með. Á staðnum hafi hins vegar verið ýmsar tröppur sem
Ris ehf. hafi átt auk hjólapalla sem stefnandi hefði getað notað. Þegar
ljósmyndir af umræddri tröppu voru lagðar fyrir Heiðar P. Guðjónsson, sem
einnig starfaði sem undirverktaki hjá Risi ehf. við Hlíðasmára 6 þegar slysið
varð, taldi hann að tröppurnar frá Risi ehf. hafi margar verið „sterkbyggðari
og öðruvísi“. Treysti hann sér ekki til að fullyrða hvort Ris ehf. hafi átt
tröppur af þeirri gerð sem myndirnar voru af.
Hvort sem umrædd trappa var í eigu Riss ehf.
eða annarra verktaka ber ofangreindum vitnum og stefnanda saman um að á staðnum
hafi verið ýmsar tröppur frá Risi ehf. ásamt hjólapöllum. Ekkert liggur fyrir
um að þeim búnaði hafi verið áfátt eða hann ekki hentað til þess verks sem
stefnandi vann í umrætt sinn. Stefnandi, sem lauk trésmíðanámi árið 1974, er
með langa reynslu af vinnu af þessu tagi og er ljóst af framburði vitna og
aðilaskýrslu að honum hafi verið treyst til að velja sér búnað við hæfi til að
leysa af hendi það verk sem honum hafði verið falið. Verður það ekki metið
verkstjóra eða öðrum starfsmönnum Riss ehf. til sakar ef stefnandi hefur valið
sér tröppu sem ekki var gerð fyrir líkamsþyngd hans. Þess ber þó að geta að
sjálfur bar hann fyrir dómi að hafa verið um 100 kg er slysið varð og því undir
þeim mörkum sem tilgreind voru á tröppunni sem hámarksþyngd þeirra.
Tröppunni, sem stefnandi stóð í þegar slysið
varð, er ekki lýst í umsögn Vinnueftirlits ríkisins, sem stefnandi vísar til í
málatilbúnaði sínum, en ljósmyndir af henni fylgdu umsögninni. Af þeim verður
ráðið að trappan er sex þrepa og frístandandi með jafnlöngum einingum er koma
saman í efsta þrepinu og því án stuðnings þegar staðið er í efstu þrepunum.
Virðist trappan óskemmd af myndunum að dæma og engin sérstök ummerki sjáanleg
um að hún hafi brostið. Í umsögninni er ekki lýst hvar eða hvernig trappan sé
slitin eða hvernig það megi hafa orsakað að stefnandi féll á gólfið. Ekkert
kemur þar fram um að trappan sé óstöðug. Hugleiðingar í umsögninni um að
hugsanlega megi rekja ástæðu slyssins til þess að tröppurnar hafi verið orðnar
slitnar verða því ekki taldar nægilega skýrar eða studdar þeim rökum að unnt sé
að leggja þær til grundvallar við sakarmat í málinu.
Eins og fram er komið má af ljósmyndum af
tröppunni sjá að hún er sex þrepa og sennilega rétt innan við 180 cm að hæð.
Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins um lofthæð í rýminu þar sem stefnandi var
að vinna í umrætt sinn. Sjálfur taldi hann að hæðin upp í kerfisloftið hafi
verið um 270 cm. Eins og vikið hefur verið að taldi stefnandi sig hafa þurft að
standa í þriðja eða fjórða þrepi, í um 80 til 90 cm hæð frá gólfi, til að geta
unnið við að loka kerfisloftinu. Það getur staðist miðað við lofthæðina sem
stefnandi taldi að hefði verið í rýminu. Samkvæmt því er óupplýst að þessar
tröppur hafi verið of stuttar til að stefnandi gæti unnið það verk sem fyrir
hann hafði verið lagt án þess að öryggi hans væri hætta búin. Þá hefur því ekki
verið haldið fram að tröppur af þessari gerð fullnægi ekki þeim kröfum er
búnaður af þessu tagi, sem ætlaður er til iðnaðarnota, verður almennt að
uppfylla, þó að stuðningur sé takmarkaður ef viðkomandi stendur í efstu
þrepunum. Ekki er því upplýst að þessar tröppur eða aðrar, sem stefnandi gat
notað við vinnu sína í umrætt sinn, hafi verið of stuttar eða að þær hafi ekki
hentað að öðru leyti til þess verks stefnanda hafði verið falið að vinna.
Með hliðsjón af framangreindu verður að
telja að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að rekja megi líkamstjón hans til saknæmrar
hegðunar verkstjóra Riss ehf. eða annarra starfsmanna byggingarfyrirtækisins.
Verður því að sýkna stefndu af skaðabótakröfu stefnanda. Með vísan til 3. mgr.
130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hver málsaðila
beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir héraðsdómi.
Af hálfu stefnanda flutti málið Guðbjörg
Benjamínsdóttir hdl.
Af hálfu stefndu flutti máli Guðjón
Ármannsson hdl.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp
dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, þrotabú Riss ehf. og Sjóvá-Almennar
tryggingar hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Þorsteins Inga Jónssonar.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.