Hæstiréttur íslands
Mál nr. 314/2000
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
- Slysatrygging ökumanns
- Frádráttur
|
|
Fimmtudaginn 25. janúar 2001. |
|
Nr. 314/2000. |
Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Jeff Clemmensen (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Slysatrygging ökumanns. Frádráttur.
Deilt var um frádrátt frá skaðabótum til J vegna varanlegrar örorku, er hann hlaut af völdum slyss 2. apríl 1996, en V hf. hafði dregið greiðslu til J úr kjarasamningsbundinni atvinnuslysatryggingu frá við uppgjör bóta úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í málinu reyndi einkum á reglur 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, um frádrátt við uppgjör bóta fyrir varanlega örorku. Umrætt atvik gerðist áður en nefndri lagagrein var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999 um breyting á skaðabótalögum. Í dómi Hæstaréttar sagði að meginreglan um frádrátt kæmi fram í 1. málslið 4. mgr. 5. gr. laganna, en samkvæmt því drægust greiðslur frá þriðja manni, þar á meðal vátryggingarfélagi, ekki frá skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku. Talið var að undantekning 2. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga frá þessari meginreglu laganna yrði ekki skýrð rýmra en orð hennar mæltu beinlínis fyrir um. Vátrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga væri slysatrygging og yrði krafa J til greiðslu úr hendi V hf. vegna hennar ekki lögð að jöfnu við skaðabótakröfu launþega á hendur vinnuveitanda í skilningi fyrrnefnds undanþáguákvæðis skaðabótalaga. Þá var ekki talið að skýringar, sem fram komu í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga, styddu sjónarmið V hf. um frádrátt. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um greiðsluskyldu V hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2000 og krefst sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Í máli þessu deila aðilar um frádrátt frá skaðabótum til stefnda vegna varanlegrar örorku, er hann hlaut af völdum slyss 2. apríl 1996. Er í héraðsdómi nánar greint frá hvernig áfrýjandi dró greiðslu til stefnda úr kjarasamningsbundinni atvinnuslysatryggingu frá við uppgjör bóta úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Reynir í málinu einkum á ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem hefur að geyma reglur um frádrátt við uppgjör bóta fyrir varanlega örorku. Atvikið gerðist áður en nefndri lagagrein var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999 um breyting á skaðabótalögum, en með þeim voru meðal annars endurskoðuð ákvæði laganna um bætur fyrir varanlega örorku, þar á meðal um margfeldisstuðul til útreiknings skaðabóta, sem breytt var til hags fyrir tjónþola. Var þá jafnframt aukið við reglur 4. mgr. 5. gr. laganna um frádrátt frá skaðabótum, þar sem fleiri greiðslur til tjónþola komu eftir það til frádráttar en áður. Fer um uppgjör skaðabóta til stefnda samkvæmt lögunum, eins og þau voru á slysdegi. Ákvæði um frádrátt frá slysatryggingarbótum, sem bætt var inn í 92. gr. umferðarlaga með 2. gr. laga nr. 32/1998, skipta heldur ekki máli hér.
II.
Í hinum áfrýjaða dómi er rakið efni 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og greint frá ítarlegum skýringum við hana í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því, er varð að lögum nr. 50/1993. Meginreglan um frádrátt kemur fram í 1. málslið ákvæðisins, en samkvæmt því dragast greiðslur frá þriðja manni, þar á meðal vátryggingarfélagi, ekki frá skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku. Í athugasemdunum var þess getið að nýmæli fælust í greininni. Meðal röksemda fyrir því var tilfært að þegar um væri að ræða bætur fyrir varanlega örorku væri alltaf umdeilanlegt hversu mikið fé þyrfti til að gera hlut tjónþola jafnan því, sem verið hefði ef tjónsatburðurinn hefði ekki gerst. Í flestum eða öllum tilvikum væri því ekki unnt að slá föstu að tjónþoli hagnaðist á því að eiga óskertan skaðabótarétt þótt hann nyti jafnframt greiðslna frá þriðja manni. Var auk þess tekið fram að reglur frumvarpsins um margföldunarstuðul við útreikning bóta hafi öðrum þræði verið ákveðnar með hliðsjón af því að tjónþoli héldi almennt fullum rétti til skaðabóta samhliða óskertum rétti til greiðslna frá þriðja manni, svo sem vátryggingum. Frá nefndri meginreglu var síðan í 2. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga gerð sú undantekning að greiðslur úr samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega skyldu dregnar frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim, sem slysatrygginguna keypti. Í framangreindum athugasemdum var þessi tilhögun sögð helgast af því að reglur um rétt launþega til bóta frá atvinnuslysatryggingu séu yfirleitt reistar á þeim forsendum að atvinnurekandi, sem annast kaup á slysatryggingunni, skuli njóta góðs af henni, þegar líkamstjón verður rakið til atvika, er hann ber skaðabótaábyrgð á.
Sú undantekning frá þeirri meginreglu, sem að framan greinir, verður ekki skýrð rýmra en orð hennar mæla beinlínis fyrir um. Vátrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga er slysatrygging og verður krafa stefnda til greiðslu úr hendi áfrýjanda vegna hennar ekki lögð að jöfnu við skaðabótakröfu launþega á hendur vinnuveitanda í skilningi síðastgreinds ákvæðis skaðabótalaga. Skýringar, sem fram koma í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga og áður er getið, styðja heldur ekki sjónarmið áfrýjanda um frádrátt. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, Jeff Clemmensen, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2000.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 27. júní sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, birtri 2. febrúar 2000. Málið var þingfest 3. sama mánaðar.
Stefnandi er Jeff Clemmensen, kt. 010466-2029, Starmýri 3, Neskaupstað.
Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 681272-0469, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.726.188 krónur, með 2% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 2. apríl 1996 til 4. desember 1999, en með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins.
II
Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni
Þriðjudaginn 2. apríl 1996 ók stefnandi mjólkurflutningabifreið Mjólkursamlags Norðfirðinga, N-425, suður Norðfjarðarveg og niður Botnabraut á Eskifirði. Urðu þá hemlar bifreiðarinnar óvirkir, fór hún stjórnlaus á mikilli ferð þvert yfir Strandgötuna á Eskifirði ofan í Lambeyrará og lenti á steinvegg við ána. Gjöreyðilagðist bifreiðin og kom upp eldur í henni. Menn sem komu á vettvang slökktu eldinn og náðu stefnanda úr bílflakinu. Með stefnanda í bifreiðinni sem farþegi var bróðir hans Thor Björn Clemmensen. Bræðurnir mjaðmagrindarbrotnuðu báðir í slysinu og brenndust á fótum. Voru þeir fyrst fluttir á Sjúkrahús Norðfjarðar en síðan með þyrlu á Sjúkrahús Reykjavíkur. Stefnandi var fluttur á sjúkrahúsið á Neskaupstað til áframhaldandi meðferðar 29. maí 1996.
Samkvæmt skýrslu bifreiðaskoðunarmanns voru hemlar afturáss N-425 óvirkir vegna hlaups í hemlabúnaði og slits í hemlaborðum. Handhemill var einnig óvirkur að mestu og mótorbremsa óvirk. Óumdeilt er að slysið hlaust af biluðun í hemlabúnaði bifreiðarinnar.
Stefnandi var á slysdegi mjólkurbússtjóri hjá Mjólkursamlagi Norðfirðinga. Hann var í umrætt sinn að aka með undanrennu til Hornafjarðar og hafði boðið bróður sínum að koma með sér í ferðina.
Fram kemur í læknisvottorði Guðmundar Más Stefánssonar, dagsettu 3. nóvember 1996, að áverkar við komu á Sjúkrahús Reykjavíkur 2. apríl 1996 voru eftirfarandi. Lófastórt 2. gráðu brunasár var á húð yfir spjaldhrygg, auk 2. og 3. gráðu brunasára á vinstri kálfa, vinstri hnésbót og framan á vinstri sköflungi. Röntgenmyndir sýndu mjaðmargrindarbrot vinstra megin framanvert og í spjaldliðnum að aftanverðu.
Að fengnu áliti örorkunefndar um örorku og miskastig var samkomulag með aðilum um að afla matsgerðar tveggja lækna um afleiðingar slyssins fyrir stefnanda og leggja það til grundvallar við bótauppgjör. Samkvæmt matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar frá 25. október 1999 var stefnandi 100% óvinnufær í 24 mánuði, varanleg fjárhagsleg örorka hans 35% og varanlegur miski 50%, auk þjáningartíma í tvö ár.
Stefnandi var á slysdeginum tryggður af vinnuveitanda sínum, Mjólkursamlagi Norðfirðinga, slysatryggingu launþega hjá hinu stefnda tryggingarfélagi. Greiddi stefndi stefnanda 23. nóvember 1999 fullar örorkubætur úr launþegatryggingunni samtals 4.070.392 krónur, auk 655.796 króna vegna dagpeninga. Sama dag var gengið frá uppgjöri bóta úr ökumannstryggingu bifreiðarinnar N-425. Í því uppgjöri voru örorkubætur úr slysatryggingu launþega dregnar frá bótum fyrir varanlega örorku. Af dagpeningagreiðslum voru 629.739 krónur dregnar frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón en 26.057 krónur frá öðrum bótaliðum. Stefnandi vildi ekki una þessum málalokum og tók því við greiðslunni með fyrirvara að því er varðar bætur fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku. Höfuðstóll stefnukröfunnar er jafn samtölu þeirra fjárhæða sem stefndi dró frá bótum til stefnanda við uppgjörið 23. nóvember 1999 eða samtals kr. 4.726.188.
Ágreiningur er með aðilum um hvort stefnda hafi verið heimilt að draga dagpeningagreiðslur og bætur vegna varanlegrar örorku úr slysatryggingu launþega frá bótum úr slysatryggingu ökumanns.
III
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi heldur því fram að lög standi hvorki til frádráttar á örorkubótunum né dagpeningum úr slysatryggingu launþega. Hvað sem öðru líði hafi stefnda verið óheimilt að draga frá dagpeninga úr launþegatryggingunni sem nam hærri fjárhæð en bótum fyrir tímabundið atvinnutjón. Þá sé átt við þá fjárhæð sem nefnd sé á uppgjörsyfirliti stefnda frá 23. nóvember 1999 sem "Ofbætt tímabundið atvinnutjón", 26.057 krónur, en sú fjárhæð sé raunverulega dregin frá öðrum bótaþáttum en bótum fyrir tímabundið atvinnutjón.
Um frádrátt frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón sé kveðið á í 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að draga dagpeningagreiðslur úr slysatryggingu launþega frá bótunum enda skýrt kveðið á um það í athugasemdum með 2. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 50/1993, að ekki hafi verið stefnt að því með frumvarpinu að breyta þeirri almennu reglu að dagpeninga, sem ekki séu taldir raunveruleg skaðabót, skuli draga frá skaðabótakröfu á hendur þeim sem ábyrgð ber á slysi. Orðið ábyrgð í athugasemdunum vísi til þeirra aðila sem beri skaðabótaábyrgð á grundvelli sakarreglunnar á hendur tjónþolanum, en ekki vátryggingafélags eins og stefnda þar sem ábyrgðin grundvallist á skylduslysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar sem tjónþolinn ók. Frádráttur vegna dagpeninganna hafi því verið óheimill.
Ágreiningur aðila varðandi frádrátt á örorkubótum úr launþegatryggingunni snúist um túlkun á 4. mgr. 5. skaðabótalaga nr. 50/1993, þ.e. þeim hluta ákvæðisins sem kveði á um, að bætur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega skuli dregnar frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem trygginguna keypti. Slysatrygging launþega sé vissulega samningsbundin atvinnuslysatrygging. Kjarni málsins sé hins vegar sá, að krafa stefnanda á hendur stefnda sé ekki skaðabótakrafa á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti, heldur krafa sem greiðist úr ökumannstryggingu bifreiðarinnar og sé þar af leiðandi á hendur stefnda. Af þeirri ástæðu hafi stefnda verið óheimilt að draga örorkubætur úr launþegatryggingunni frá kröfu stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram, að ef ætlun löggjafans hefði verið að skerða rétt tjónþola til bóta fyrir varanlega örorku, með þeim hætti sem stefndi hafi gert, hefði slíkt þurft að koma skýrt fram í lögunum. Slík skerðing verði ekki lesin út úr skýru orðalagi laganna. Ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993, eins og það ákvæði hafi verið á slysdegi, beri ekki með sér á nokkurn hátt að viðhafa megi slíkan frádrátt sem stefndi haldi fram. Í 2. ml. 4. mgr. 5. gr. sé einungis um að ræða undantekningarheimild til frádráttar skaðabótakröfu á hendur vinnuveitanda og engum öðrum. Stefndi í máli þessu hafi ekki verið vinnuveitandi stefnanda. Undantekningu þessa beri, samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum, að skýra þröngt.
Með lögum nr. 50/1993 hafi verið tekið upp það nýmæli að almennt skyldi ekki draga frá bótum fyrir varanlega örorku greiðslur er tjónþoli fengi frá öðrum vegna líkamstjóns, þ. á m. bætur frá almannatryggingum eða slysatryggingum sem tjónþoli eða einhver annar hefði keypt. Helstu rökin fyrir þeirri breytingu hafi verið þau, að þegar um væri að ræða bætur fyrir varanlega örorku eða missi framfæranda væri alltaf umdeilanlegt hversu mikið fé þyrfti til að gera hlut tjónþola jafnan því sem verið hefði, ef tjónsatburður hefði ekki gerst. Því væri ekki unnt að slá því föstu að tjónþoli hagnaðist á því að eiga óskertan skaðabótarétt þótt hann nyti jafnframt greiðslna frá þriðja manni.
Um ábyrgð stefnda vísar stefnandi til 88., 90., 91., 92., og 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Um bótakröfurnar og bótarétt sinn vísar hann til skaðabótalaga nr. 50/1993, auk almennra reglna skaðabótaréttarins. Um dráttarvexti er vísað til skaðabótalaga, einkum 16. gr. og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
IV
Málsástæður og lagarök stefnda
Sýknukrafa stefnda er á því byggð, að með þegar greiddum bótum sé stefnandi búinn að fá bætt allt það tjón, sem hann eigi rétt til úr hendi stefnda vegna slyssins.
Stefndi bendir á, að þótt vátrygging ökumanns samkvæmt 92. gr. umfl. sé slysatrygging fari um mat á tjóni og um ákvörðun fjárhæðar bóta úr tryggingunni eftir reglum skaðabótaréttar en ekki vátryggingaréttar. Sé það í takt við tilgang löggjafans með slysatryggingunni og tilskilið í 3. gr. skilmála tryggingarinnar. Beri því við bótauppgjör úr slysatryggingu ökumanns að draga frá bótunum greiðslur úr samnings- eða lögboðinni atvinnuslysatryggingu í takt við reglur skaðabótaréttarins um slíkan frádrátt á hverjum tíma. Einu gildi hvort ökumaðurinn hafi uppi skaðabótakröfu á hendur bótaábyrgum vinnuveitanda, sem sé eigandi bifreiðarinnar er ökumaðurinn slasaðist í, eða krefjist skaðabótanna úr ökumannstryggingu bifreiðarinnar.
Stefnandi hafi slasast í vinnu hjá vinnuveitanda sínum Mjólkursamlagi Norðfirðinga, eiganda N-425, og hafi átt skaðabótakröfu á hendur honum, þar sem slysið hafi orsakast af biluðum hemlum bifreiðarinnar og skorti á viðhaldi á þeim. Eigi ökumaður jafnan skaðabótarétt á hendur eiganda og ábyrgðartryggjanda bifreiðar, sem hann aki og slasist í, þegar slys verði af slíkum sökum. Hafi stefnandi því getað sótt skaðabætur fyrir slysið, hvort heldur úr ábyrgðatryggingu N-425 eða slysatryggingu ökumanns N-425. Þar sem stefnandi hafi þannig átt skaðabótakröfu á hendur vinnuveitanda sínum, sem atvinnuslysatrygginguna keypti og eiganda bifreiðar þeirrar sem slysinu olli, hafi í takt við reglur skaðabótaréttarins um ákvörðun skaðabóta borið að draga frá skaðabótunum til stefnanda úr ökumannstryggingu bifreiðarinnar þær bætur allar sem stefnandi fékk úr atvinnuslysatryggingu vinnuveitandans.
Af hálfu stefnda er það talið andstætt bæði andstætt vilja löggjafans um ákvörðun bóta úr slysatryggingu ökumanns og í andstöðu við jafnræðissjónarmið og almenna réttarvitund að frádrætti megi ekki beita fyrir það eitt, að bæturnar komi úr slysatryggingu hjá vátryggingafélagi en ekki úr ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi. Ekki megi gleyma því að tilgangurinn með slysatryggingu ökumanns hafi verið sá að veita ökumönnum bótaréttarlega séð sambærilega stöðu og farþegum, sem slasist í ökutæki. Ákvarðist bætur úr slysatryggingu ökumanns því eftir reglum skaðabótaréttar en ekki vátryggingaréttar og eigi í eðli sínu að jafngilda skaðabótum. Sé ökumannstryggingin skaðatrygging en ekki summutrygging. Hins vegar eigi ökumaður bifreiðar ekki að vera betur settur bótaréttarlega séð en aðrir eða fá tjón sitt tvíbætt fyrir það eitt að geta sótt bæturnar úr slysatryggingu ökumanns. Séu kröfur stefnanda í andstöðu við jafnræðis- og réttlætissjónarmið og þá grundvallarreglu skaðabótaréttar, að tjónþoli skuli fá allt tjón sitt bætt, en heldur ekki meira.
Stefndi telur að bæði örorkubætur úr atvinnuslysatryggingunni og dagpeningar úr þeirri tryggingu hafi réttilega verið dregnar frá bótagreiðslum til stefnanda. Skoðist dagpeningar úr samnings- eða lögboðinni atvinnuslysatryggingu sem eins konar raunveruleg skaðabót í merkingu 2. mgr. 2. gr. skaðbótalaga og séu meðal þeirra frádráttarliða sem dragast eigi frá tímabundnu atvinnutjóni, sbr. athugasemdir með 2. gr. í frumvarpinu til skaðabótalaga. Séu því engin efni eru til þess að verða við dómkröfum stefnanda.
Dráttaravöxtum er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
V
Niðurstaða
Krafa stefnanda í máli þessu er krafa um bætur fyrir tímabundna og varanlega örorku úr slysatryggingu ökumanns sem vinnuveitandi hans, Mjólkursamlag Norðfirðinga, tók í hans þágu vegna bifreiðar þeirrar sem hann ók þegar hann varð fyrir slysi. Með aðilum hefur náðst samkomulag upp alla aðra þætti bótauppgjörs en frádrátt greiðslu úr samningsbundinni slysatryggingu launþega sem vinnuveitandi stefnanda keypti hjá stefnda í þágu stefnanda.
Bótakrafan hefur verið gerð upp að hluta en frá fullum bótum hefur stefndi dregið bótagreiðslur sem hann hefur þegar innt af hendi vegna framangreindrar slysatryggingar launþega að fjárhæð samtals 4.726.188 krónur. Tekið var við bótagreiðslum af hálfu stefnanda með fyrirvara um framangreindan frádrátt.
Óumdeilt er að þótt krafa stefnanda á hendur stefnda sé krafa um vátryggingarbætur fari um útreikning hennar og uppgjör eftir reglum sakaðabótaréttar. Taka skaðabótalög nr. 50/1993, eins og þau voru á þeim tíma sem slysið varð, til útreiknings bótafjárhæðarinnar og eigi þar með við um frádrátt frá bótum.
Með aðilum er einkum ágreiningur um eftirfarandi atriði:
1.Hvort stefnda hafi á grundvelli 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verið heimilt að draga dagpeningagreiðslur úr samningsbundinni slysatryggingu launþega frá bótum úr slysatryggingu ökumanns vegna tímabundinnar örorkum.
2.Hvort stefnda hafi,, á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, verið heimilt að draga bætur vegna varanlegrar örorku úr samningsbundinni slysatryggingu launþega frá samsvarandi bótum úr slysatryggingu ökumanns.
3.Hvort stefnda hafi verið heimilt að draga þann hluta dagpeningagreiðslna úr samningsbundinni slysatryggingu launþega sem ekki varð jafnað á móti bótum úr slysatryggingu ökumanns vegna tímabundinnar örorku, eða 26.057 krónur, frá öðrum bótaliðum.
Um frádrátt frá bótum vegna tímabundinnar örorku
Á þeim tíma sem tjónsatburður sá varð sem fjallað er um í málinu var ekki fjallað um áhrif annarra bótagreiðslna vegna slyss á rétt tjónþola til vátryggingarbóta á grundvelli 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. nú 5. mgr. 92. gr. sem kom inn í umferðarlög með lögum nr. 32/1998.
Í 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga er kveðið á um að frá skaðabótum skuli draga laun í veikinda- eða slysaforföllum, dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir tímabundið atvinnutjón og vátryggingabætur þegar greiðsla vátryggingafélags er raunveruleg skaðabót, svo og sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær.
Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum segir að ákvæðið feli ekki í sér breytingar frá gildandi rétti og að föst dómvenja sé um að draga hvers kyns laun og dagpeninga, sem tjónþoli fái frá þriðja manni vegna slyss, frá skaðabótakröfu hans á hendur hinum bótaskylda. Sama regla sé talin gilda um vátryggingabætur ef þær teljist raunveruleg skaðabót og er um það vísað til 3. málsliðs 2. mgr. 25. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954, sem féll úr gildi við gildistöku skaðabótalaga. Í athugasemdunum kemur ennfremur fram að þótt dagpeningar úr samningsbundinni- eða lögbundinni slysatryggingu teljist strangt til tekið ekki raunveruleg skaðabót í merkingu 25. gr. laga nr. 20/1954, væri ekki stefnt að því með frumvarpinu að breyta þeirri almennu reglu að dagpeninga þessa skuli draga frá skaðabótakröfu á hendur þeim sem ábyrgð beri á slysi. Segir síðan orðrétt í athugasemdunum: "Telja verður að dagpeningar samnings- og lögbundinna atvinnuslysatrygginga launþega séu "sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær.""
Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar Íslands 1998:1762 verður við skýringu á 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga að líta til þess að ákvæðið er reist á þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli skuli ekki eiga rétt á hærri bótum en sem svarar raunverulegu fjártjóni hans. Aðrar greiðslur sem tjónþoli njóti vegna tímabundins atvinnutjóns verði því að meginreglu dregnar frá kröfu tjónþola um skaðabætur fyrir það tjón.
Í máli þessu er fjallað um frádrátt á greiðslu úr samningsbundinni slysatryggingu launþega á grundvelli kjarasamnings. Tryggingin er þannig hluti af þeim heildarlaunakjörum sem stefnandi naut. Fyrir liggur hins vegar að vinnuveitandi stefnanda greiddi stefnda alfarið iðgjöld af tryggingunni og bætur úr slysatryggingunni því ekki háðar beinu endurgjaldi úr hendi stefnda.
Enda þótt greiðslur dagpeninga úr umræddri atvinnuslysatryggingu geti ekki talist raunveruleg skaðabót í skilningi 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga svipar þeim svo til skaðabóta að fella verður þær undir "sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær" í skilningi lokamálsliðar ákvæðisins. Með vísan til áður tilvitnaðrar athugasemda um 2. mgr. 2. gr. í frumvarpi til skaðabótalaga þykir skýr löggjafarvilji standa til þessarar skýringar á ákvæðinu. Þykir því hafa verið fyrir hendi lagaheimild til að draga 629.736 krónur af dagpeningum þeim sem stefndi greiddi stefnanda vegna slysatryggingar launþega, frá bótum vegna tímabundins atvinnutjóns. Ber því að sýkna stefnda af þessum hluta kröfunnar.
Um frádrátt frá bótum fyrir varanlega örorku
Fjallað er um frádrátt greiðslna sem tjónþoli fær frá þriðja manni frá bótum vegna varanlegrar örorku í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Á þeim tíma sem tjónsatburður sá varð sem fjallað er um í málinu gilti sú meginregla að greiðslur sem tjónþoli fékk frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem almannatryggingum, lífeyrissjóði eða vátryggingarfélagi skyldu ekki dragast frá skaðabótakröfu. Frá þessu voru þó tvær undantekningar í ákvæðinu og er deilt um skýringu á þeirri fyrri í máli en hún hljóðar svo: "Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega skulu þó dregnar frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti."
Ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999 í tengslum við hækkun á margföldunarstuðlum, sbr. 6. og 9. gr. laganna en þó ekki sá málsliður sem lítur að frádrætti greiðslna úr samnings- eða lögboðinni slysatryggingu.Fyrir liggur að stefndi hefur fengið greidd tryggingariðgjöld frá vinnuveitanda stefnanda vegna samningsbundinnar slysatryggingar launþega og slysatryggingar ökumanns. Ekki liggja fyrir í málinu neinir tryggingafræðilegir útreikningar á því hvort í forsendum fyrir útreikningi iðgjalda vegna slysatryggingar ökumanns sé gert ráð fyrir frádrætti greiðslna úr samningsbundnum slysatryggingum launþega. Í þessu máli er ekki fjallað um hvort rétt sé að draga greiðslur úr samningsbundnum slysatryggingum launþega frá skaðabótum til farþega í bifreið sem eignandi bifreiðar og tryggingarfélag ber ábyrgð á. Ekki þykir vera um sambærilegt réttarsamband að ræða og ekki liggja fyrir dómafordæmi hvort frádrætti beri að beita þegar um bætur til farþega í ábyrgðartryggðu ökutæki er að ræða. Af framangreindum ástæðum verður ekki fallist á að sýkna beri stefnda á grundvelli jafnræðis- eða réttlætissjónarmiða.
Í almennum athugasemdum í frumvarpi til skaðbótalaga kemur fram að það sé nýmæli að almennt skuli ekki draga frá bótum fyrir varanlega örorku eða missi framfæranda greiðslur er tjónþoli fær frá öðrum vegna líkamstjóns. Þau rök voru m.a. færð fyrir breytingunni að þegar um væri að ræða bætur fyrir varanlega örorku eða missi framfæranda væri alltaf umdeilanlegt hversu mikið fé þurfi til þess að gera tjónþola jafnan því sem verið hefði ef tjónsatburðurinn hefði ekki gerst. Því væri í flestum eða öllum tilvikum ekki unnt að slá því föstu að tjónþoli hagnaðist á því að eiga óskertan bótarétt þótt hann nyti jafnframt greiðslna frá þriðja manni. Þá var því haldið fram að reglur frumvarpsins um margföldunarstuðul sem notaður væri við útreikning bóta fyrir varanlega örorku og missi framfæranda væri öðrum þræði ákveðnar með hliðsjón af því að tjónþoli héldi almennt fullum rétti til skaðabótafjár samhliða óskertum rétti til greiðslna frá þriðja manni.
Um undantekningarákvæði það sem hér er ágreiningur um sagði í athugasemdunum að undantekningin helgaðist af því að reglur um rétt launþega til bóta frá atvinnuslysatryggingu væru yfirleitt reistar á þeim forsendum að atvinnurekandi, sem annaðist kaup á slysatryggingunni skyldi njóta góðs af henni þegar líkamstjón yrði rakið til atvika er hann bæri skaðabótaábyrgð á. Ekki þætti ástæða til að skerða með lögum það frelsi sem samtök launþega og atvinnurekenda hafa til að semja um efni og gildissvið atvinnuslysatrygginga.
Við skýringu á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðið var á þeim tíma sem umrætt slys varð, verður að líta til þess að margföldunarstuðull 6. gr. laganna var þá 7,5 og beinlínis tekið fram í framangreindum athugasemdum að hann væri ekki hærri vegna þess að tjónþoli héldi almennt fullum rétti til skaðabótafjár samhliða óskertum rétti til greiðslna frá þriðja manni. Í athugasemdunum er einungis talað um að atvinnurekandi skuli njóta góðs af bótagreiðslum til tjónþola úr slysatryggingu launþega en ekki vikið að því einu orði að vátryggingarfélag njóti slíks frádráttar. Staða vinnuveitanda og tryggingarfélags er á margan hátt ólík þar sem vinnuveitandi er einmitt að tryggja sig fyrir fjárútlátum vegna slysa starfsmanna og greiðir í því skyni iðgjöld af tveimur tryggingum. Vátryggingarfélag tekur aftur á móti við iðgjöldum vegna tveggja sjálfstæðra trygginga gegn skuldbindingu um að greiða bætur.
Framangreindar athugasemdir með frumvarpi til skaðabótalaga styðja þannig eindregið þann lögskýringarkost að 4. mgr. 5. gr. laganna, eins og ákvæðið var fyrir gildistöku laga nr. 32/1999, beri að skýra eftir orðum sínum þannig að greinarmun skuli gera á frádrætti greiðslu úr samningsbundinni atvinnuslysatryggingu eftir því hvort kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku er beint að vinnuveitanda tjónþola eða tryggingarfélagi sem vinnuveitandi hefur keypt hjá ökumannstryggingu tjónþola til hagsbóta.
Framangreindur skýringarkostur getur vissulega leitt til þess að tjónþola sé hagfelldara að beina kröfu sinni um skaðabætur að vátryggingarfélagi á grundvelli slysatryggingar ökumanns en að vinnuveitanda sínum á grundvelli sakar. Með hliðsjón af skýru orðalagi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga þykir það þó ekki geta leitt til þess að stefndi geti krafist frádráttar vegna greiðslna úr slysatryggingu launþega.
Samkvæmt framansögðu þykir stefnandi hafa sýnt fram á að stefndi hafi ranglega dregið greiðslur úr samningsbundinni atvinnuslysatryggingu, að fjárhæð 4.070.392 krónur, frá bótum til stefnanda vegna varanlegrar örorku úr slysatryggingu ökumanns.
Um frádrátt frá öðrum bótaliðum
Í uppgjöri málsaðila vegna greiðslu bóta úr slysatryggingu ökumanns kemur ekki fram frá hvaða liðum svokallað "ofbætt tímabundið tekjutjón" að fjárhæð 26.057 krónur er dregið. Með vísan til þess og þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið varðandi 1. og 2. ágreiningsefni þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á að lagaheimild hafi verið til að draga þann hluta dagpeninga úr slysatryggingu launþega sem ekki varð dreginn frá bótum vegna tímabundins atvinnutjóns stefnanda frá öðrum bótaliðum. Ber stefnda því að greiða stefnanda 26.057 krónur sem dregnar voru frá bótum við bótauppgjör vegna þessa.
Samantekt
Samkvæmt framansögðu hefur verið fallist á að stefndi hafi ranglega dregið 4.096.449 krónur (4.070.392 + 26.057) frá bótum til stefnanda við uppgjör bóta úr slysatryggingu ökumanns. Sem fyrr segir tók stefnandi við greiðslu á grundvelli uppgjörsins með fyrirvara um réttmæti frádráttar. Ber stefnda því að greiða stefnanda framangreinda fjárhæð. Stefnandi hefur krafist dráttarvaxta frá 4. desember 1999 en þá var liðinn mánuður frá því að stefnda var sent kröfubréf vegna bótakröfunnar. Með þeim athugasemdum þykir rétt að dráttarvaxtakröfu stefnanda til greina.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndu greiði stefnanda málskostnað sem með hliðsjón af atvikum öllum þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af lögmannsþóknun.
Stefán Geir Þórisson hrl. flutti málið af hálfu stefnanda en Hákon Árnason hrl. af hálfu stefndu.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf. greiði stefnanda, Jeff Clemmensen, 4.096.449 krónur, með 2% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 2. apríl 1996 til 4. desember 1999, en með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá þeim degi til greiðsludags og 500.000 krónur í málskostnað.