Hæstiréttur íslands

Mál nr. 594/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Erfðaskrá
  • Arfleiðsluhæfi


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. nóvember 2009.

Nr. 594/2009.

A

C

E

F

B

D

G og

H

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

K

J og

I

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðaskrá. Arfleiðsluhæfi.

A o.fl. kærðu úrskurð héraðsdóms, þar sem ógilt var erfðaskrá sem M hafði gert á  árinu 2007. Höfðu I, J og K reist kröfu sína um ógildingu erfðaskrárinnar frá 2007, og þá kröfu að leggja bæri eldri erfðaskrá frá árinu 2003 til grundvallar skiptum eftir M, á því að M hafi skort arfleiðsluhæfi í skilningi 2. mgr. 34. gr. laga nr. 8/1962. Í dómi Hæstaréttar var talið að vottun erfðaskrárinnar frá 2007 hafi ekki verið í samræmi við 42. gr. laganna. Að því virtu yrðu efnisatriði arfleiðsluvottorðsins að skoðast sem óskráð væru. Þar sem I, J og K hafi byggt á því að M hafi verið svo á sig komin sem áskilið sé í 2. mgr. 34. gr. laganna hafi A o.fl. borið, samkvæmt 2. mgr. 45. gr. þeirra, sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða. Þá sönnunarbyrði hafi þau ekki axlað og teldist erfðaskráin frá 2007 því ógild. Þá var talið að M hefði brostið andlegt hæfi til að standa að yfirlýsingu í þeirri erfðaskrá um að eldri erfðaskrá væri fallin úr gildi. Skyldi erfðaskrá M frá árinu 2003 því lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi hennar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2009, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um erfðaréttindi þeirra við opinber skipti á dánarbúi M. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hafnað verði kröfum varnaraðila um að erfðaskrá M 19. desember 2007 verði metin ógild og farið verði við skipti á dánarbúinu eftir erfðaskrá hennar 18. september 2003. Þá krefjast sóknaraðilar kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins var M fædd [..] og var hún einhleyp og barnlaus. Hún mun til ársins 1979 hafa búið ásamt tveimur einhleypum bræðrum sínum að Z og starfað þar sem bóndi, en eftir það munu þau hafa haldið saman heimili í Reykjavík. Haustið 2004 mun M hafa lærbrotnað og lagst af þeim sökum inn á sjúkrahús, en á þeim tíma mun annar fyrrnefndra bræðra hennar hafa verið látinn og hinn dvalist á hjúkrunarheimili. Eftir þá legu á sjúkrahúsi mun M hafa verið á öldrunarlækningadeild í rúman mánuð fram í janúar 2005 og gengist meðal annars undir rannsóknir vegna minnistaps, en farið eftir það aftur á heimili sitt. Í framhaldi af þessu mun M hafa af ýmsum ástæðum verið lögð inn á sjúkrahús í nokkur skipti á árinu 2005 og þótt þá eiga við vaxandi heilabilun að etja. Frá byrjun september til loka nóvember 2005 dvaldist M enn á öldrunarlækningadeild og aftur frá 19. desember á því ári, en í það sinn var hún þar samfellt til 1. febrúar 2006, þegar hún flutti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund. Samkvæmt framlögðu læknisvottorði var hún hjúkrunarsjúklingur á heimilinu „vegna blandaðrar vascular og Alzheimer dementiu.“ Þar dvaldist M til dánardags [...].

Fyrir liggur í málinu að M átti níu systkini og lifði hana eitt þeirra, sóknaraðilinn B. Fimm látinna systkina M láta ekki eftir sig niðja, en sóknaraðilarnir A, C, E og F eru börn látinnar systur M, S, og sóknaraðilarnir D, G og H synir látins bróður hennar, T. Varnaraðilinn K er dóttir látinnar systur M, O, og eru varnaraðilarnir J og I dætur K.

Fram er komið að M gerði á árunum 1992 til 2007 fimm erfðaskrár. Í þeirri fyrstu, sem gerð var 20. maí 1992, mælti hún svo fyrir að O systir hennar skyldi taka að arfi tiltekinn sumarbústað í landi Ásmúla, en yrði O látin á undan henni skyldi varnaraðilinn K taka þann arf í O stað. Ekki var ákveðið í erfðaskrá þessari hvernig færi um aðrar eigur M. Aðra erfðaskrána gerði hún 18. mars 1994. Þar var mælt fyrir um að O skyldi taka að arfi allar eignir M, en yrði O látin kæmi varnaraðilinn K í hennar stað. Þess var jafnframt getið að erfðaskrá frá 20. maí 1992 félli niður. Þriðju erfðaskrána gerði M 18. september 2003, en systir hennar O mun hafa látist á árinu 2000. Samkvæmt þessari erfðaskrá áttu varnaraðilarnir K, J og I að taka allar eignir M að arfi og var tekið fram að erfðaskrá frá 18. mars 1994 félli niður. Þessar þrjár fyrstu erfðaskrár gerði M fyrir lögbókanda, en ekkert liggur fyrir í málinu um hvernig staðið var að öðru leyti að undirbúningi þessara ráðstafana. Fjórðu erfðaskrána gerði M 7. desember 2007. Þar sagði að eignir hennar ættu að skiptast í fjóra jafna hluti og ætti barn O að taka einn þeirra, börn T annan, sóknaraðilinn B en að henni frágenginni börn hennar þann þriðja og börn S þann fjórða. Þá var tekið fram að væri „önnur erfðaskrá til er hún hér með ógild.“ Erfðaskrá þessi var hvorki gerð fyrir lögbókanda né arfleiðsluvottum, en tveir vottar rituðu nöfn sín á skjalið, P og Q. Fimmtu og síðustu erfðaskrána gerði síðan M 19. desember 2007. Í þeirri erfðaskrá var mælt fyrir um ráðstöfun eigna hennar á sama hátt og í erfðaskránni frá 7. sama mánaðar, en börn látinna systkina hennar voru þó nafngreind og þess getið að ef einhver erfingjanna yrði ekki á lífi skyldu „börn viðkomandi og aðrir niðjar taka þann arf.“ Þá sagði einnig að væri til „eldri erfðaskrá er hún hér með afturkölluð og felld úr gildi.“ Á þessari erfðaskrá var svofellt vottorð, undirritað af P og R: „Við undirrituð, sem höfum verið kvödd til þess að vera við framanritaða arfleiðslugjörð, vottum það, að M ritaði nafn sitt undir erfðaskrána og játaði það vilja sinn er í henni stendur. Gerði hún það heil heilsu andlega, allsgáð og af fúsum og frjálsum vilja. Þetta erum við reiðubúin að staðfesta með eiði, ef krafist verður. Reykjavík, 19. desember 2007“.

Samkvæmt skýrslu, sem sóknaraðilinn A gaf fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, tók hann í byrjun árs 2006 við umsýslu fjármála M af varnaraðilanum K. Bróðir M, N, hafi látist í nóvember 2007 og hún verið einkaerfingi hans samkvæmt erfðaskrá, sem sóknaraðilinn hafi farið með til M og lesið upp fyrir hana. Hún hafi spurt hversu mikið hann teldi hana fá þar að arfi og hann svarað því til að það væri helmingshlutur í íbúð, sem hún átti að öðru leyti, og um 16.000.000 krónur í peningum. M hafi þá farið að velta vöngum yfir þessu og sagst svo vilja gera erfðaskrá. Eftir að sóknaraðilinn hafi svarað neitandi spurningu M um hvort nokkurt af skyldfólki hennar ætti við veikindi að stríða hafi hún lýst því að hún vildi láta eignir sínar ganga til ættingja á þann hátt, sem kveðið var á um í erfðaskránni frá 7. desember 2007, en texta hennar hafi sóknaraðilinn ritað sjálfur með hliðsjón af áðurnefndri erfðaskrá N. Hann hafi síðan farið til M og kynnt henni efni erfðaskrárinnar, sem hún hafi samþykkt, en þau hafi að því gerðu farið á skrifstofu hjúkrunarfræðingsins P, sem hafi svo kallað til annan starfsmann á dvalarheimilinu, Q. Þar hafi sóknaraðilinn lesið upp úr erfðaskránni, sem M hafi síðan undirritað ásamt vottunum tveimur. Sóknaraðilinn kvaðst hafa svo komist að því að erfðaskráin væri „ekki fullgild“ og leitað af þeim sökum til nafngreinds lögfræðings, sem hafi gert texta erfðaskrárinnar frá 19. desember 2007. Með þá erfðaskrá hafi sóknaraðilinn farið til M og sagt henni að fyrri erfðaskráin væri ekki gild en sú nýja væri sama efnis. Þau hafi svo farið á skrifstofu P, sem hafi kvatt til annan starfsmann, R, hann hafi sagt þeim hvers efnis erfðaskráin væri og hún hafi loks verið undirrituð. Aðspurður sagði sóknaraðilinn að M hafi getað verið gleymin, en við gerð erfðaskrárinnar hafi hún vitað „fullvel hvað hún var að gera.“ Hann greindi jafnframt frá því að hann hafi ekki vitað að M hefði áður gert erfðaskrá.

Í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi skýrði P svo frá að M hafi 7. desember 2007 komið á skrifstofu sína ásamt sóknaraðilanum A og hafi hann beðið P „um að votta það að ég horfði á M skrifa nafnið sitt.“ Þau hafi síðan komið öðru sinni 19. sama mánaðar, sóknaraðilinn hafi greint frá því að það hafi verið „einhver misskilningur“ í fyrra skiptið og beðið hana um „að votta þetta aftur“, en sökum þess að tvo votta hafi þurft hafi hún kvatt til samstarfskonu sína R. Aðspurð hvort hún hafi vitað að þetta væri erfðaskrá svaraði P með eftirfarandi orðum: „Nei. Ég las þetta ekki og ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta var. Hann bað okkur bara um að votta að M skrifaði nafnið sitt og ég gerði það.“ Texti skjalsins hafi ekki verið lesinn upp eða M verið spurð að því hvort þetta væri erfðaskrá hennar. Aðspurð um hvort hún hafi gert sér grein fyrir að hún væri með undirritun arfleiðsluvottorðs að staðfesta að M væri heil heilsu andlega sagði P: „Nei. Ég las ekki plaggið. Ég bar bara vott um það að konan skrifaði nafnið sitt. Ekki neitt annað.“ R bar fyrir héraðsdómi að 19. desember 2007 hafi P kallað sig inn á skrifstofu sína því að það „vantaði vott að undirskrift.“ Þangað hafi R farið og hafi auk P verið þar stödd „M og maður með pappíra“, sem hún hafi ekki þekkt. R kvaðst hvorki hafa lesið skjalið né hafi texti þess verið lesinn upp og hafi hún heldur ekki lesið vottorðið, sem hún ritaði undir, eða talið sig vera að votta um andlegt heilbrigði M.

Dánarbú M var tekið til opinberra skipta 18. apríl 2008 og reis þar ágreiningur milli málsaðila um erfðarétt eftir hana. Þessum ágreiningi var beint til héraðsdóms 22. september 2008 og var mál þetta þingfest af því tilefni 10. október sama ár. Í tengslum við málið fengu sóknaraðilar 9. október 2008 dómkvadda matsmenn til að svara fjórum nánar tilgreindum spurningum varðandi heilsufar M í desember 2007. Í hinum kærða úrskurði er gerð ítarleg grein fyrir matsgerð hinna dómkvöddu manna frá 8. desember 2008.


II

Samkvæmt 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962 skulu arfleiðsluvottar geta þess í vottorði að arfleiðandi hafi kvatt þá til að votta arfleiðslu sína, hann hafi undirritað erfðaskrána eða kannast við undirritun sína að þeim báðum viðstöddum og vottunum sé kunnugt um að gerningurinn sé erfðaskrá, en að auki skal þess getið hvort arfleiðandi hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá. Arfleiðsluvottum ber einnig að undirrita vottorð sitt svo fljótt sem tök eru á, staðsetja það og dagsetja, auk þess að greina nákvæmlega hvenær arfleiðandi hafi undirritað erfðaskrána eða kannast við undirritun sína.

Með þessum fyrirmælum er því ekki einu lýst hvers getið skuli í arfleiðsluvottorði, heldur einnig hvers verði að gæta þegar vottarnir rækja þetta hlutverk sitt. Þannig verður vottunum samkvæmt framansögðu ekki aðeins að vera kunnugt um að hinn vottfesti gerningur sé erfðaskrá, heldur verður og að vera hafið yfir tvímæli að arfleiðandanum sé þetta einnig ljóst, enda á hann að kveðja þá til að votta arfleiðslu sína. Eins og áður var rakið báru P og R fyrir héraðsdómi að þær hafi ekki vitað að skjalið, sem þær rituðu undir 19. desember 2007, væri erfðaskrá, sú fyrrnefnda kvað M ekki hafa verið spurða að því hvort skjalið, sem hún undirritaði, væri erfðaskrá hennar og báðar sögðust þær hafa verið beðnar um það eitt að votta að M hefði skrifað nafn sitt undir skjalið og annað hafi þær ekki gert. Hvorug þeirra kvaðst hafa lesið texta arfleiðsluvottorðsins og hvorug taldi sig hafa verið að votta um andlegt hæfi M til að gera erfðaskrá. Þá gat hvorug þeirra tjáð sig fyrir dómi um hvort M hafi í reynd verið fær til þessarar ráðstöfunar. Að þessu virtu verða efnisatriði arfleiðsluvottorðsins að skoðast sem óskráð væru. Varnaraðilar hafa reist málatilbúnað sinn á því að M hafi ekki 19. desember 2007 verið svo á sig komin sem áskilið er í 2. mgr. 34. gr. erfðalaga. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. sömu laga bera því sóknaraðilar sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða. Þá sönnunarbyrði hafa þau ekki axlað og telst því erfðaskráin ógild.

Sóknaraðilar hafa réttilega vísað til þess að í erfðaskrám M frá 7. og 19. desember 2007 hafi verið lýst yfir að eldri erfðaskrá, ef til væri, teldist fallin úr gildi, svo og að það leiði af 2. mgr. 48. gr. erfðalaga að við slíka yfirlýsingu þurfi ekki að gæta formskilyrða samkvæmt ákvæðum 40. til 43. gr. sömu laga. Til þess verður á hinn bóginn að líta að með matsgerð dómkvaddra manna, sem héraðsdómur skipaður sérfróðum meðdómsmönnum hefur samsinnt, er sannað að M brast á þessum tíma andlegt hæfi til að standa að slíkri ráðstöfun. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Við skipti á dánarbúi M, sem lést [...], skal erfðaskrá hennar frá 18. september 2003 lögð til grundvallar um erfðaréttindi.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðilar, A, C, E, F, B, D, G og H, greiði í sameiningu varnaraðilum, K, J og I, hverri fyrir sig 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2009.

Beiðni um úrskurð í máli þessu var móttekin við dómstólinn 22. september 2008 og málið þingfest 10. október sama ár. Málið var tekið til úrskurðar 2. september 2009.

Sóknaraðilar, I, J og K, krefjast þess að erfðaskrá M, kt. [...], sem lést [...],  dags. 19. desember 2007, verði metin ógild og að við dánarbússkipti eftir hana verði farið eftir erfðaskrá hennar, dags. 18. september 2003. Þá er þess krafist að varnaraðilum verði gert að greiða sóknaraðilum málskostnað að viðbættum virðis­aukaskatti.

Varnaraðilar krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þeir krefjast einnig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, auk virðisaukaskatts.

I.

Að því er fram kemur í gögnum málsins og greinargerðum aðila, lést M [...], níræð að aldri, en hún hafði dvalið á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund síðustu æviárin. M var einhleyp og barnlaus, en átti mörg systkini. Í málinu liggja frammi ljósrit af fimm erfðaskrám hennar. Sú fyrsta er dagsett 20. maí 1992 og samkvæmt henni er systir M, I, erfingi hennar, en verði I fallin frá skuli K, dóttir I, taka allan arf eftir M. Með erfðaskrá 18. mars 1994 eru gerðar breytingar á upptalningu eigna, en erfingjar eru þeir sömu. Þriðja erfðaskráin er dagsett 18. september 2003 og samkvæmt henni eru K, systurdóttir M, og dætur K, I og J, erfingjar. Nefndar erfðaskrár voru allar vottaðar af lögbókanda á skrifstofu hans. Tvær erfðaskrár, efnislega samhljóða, voru undirritaðar af M í desember 2007 en samkvæmt þeim skyldu eignir hennar skiptast í fjóra parta, til systur sem enn var á lífi og til barna þriggja látinna systkina. Fyrri erfðaskráin var undirrituð 7. desember 2007 og vottuð af tveimur starfsmönnum á Grund, en sú síðari 19. desember 2007, einnig undirrituð af tveimur starfsmönnum, en í það skipti með sérstökum arfleiðsluvottunartexta, sem ekki hafði verið við undirritun erfðaskrár 7. desember 2007.

Að beiðni sýslumannsins í Reykjavík var dánarbú M tekið til opinberra skipta með úrskurði uppkveðnum 18. apríl 2008 og Þorbjörg Inga Jónsdóttir hrl. skipuð skiptastjóri þess sama dag. Í kröfu skiptastjóra um úrlausn héraðsdóms um ágreining við skiptin, með vísan til 53. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991, kemur fram að á skiptafundi sem haldinn var í dánarbúinu 18. júní 2008 hafi komið fram ágreiningur á milli erfingja hinnar látnu um gildi erfðaskrár og var ákveðið einróma á þeim fundi að vísa ágreiningi erfingjanna til úrskurðar héraðsdóms. Þá kemur fram að skiptastjóri leitaði eftir upplýsingum um heilsufar M síðustu æviárin og gaf lögmönnum aðila málsins umboð til að afla gagna og liggja frammi í málinu ýmis gögn um þetta.

Þann 10. október 2008 voru í málinu nr. M-151/2008, dómkvaddir matsmennirnir Tómas Zoëga, geðlæknir og Arna Rún Óskarsdóttir, öldrunarlæknir, á grundvelli matsbeiðni varnaraðila máls þessa. Var þeim falið að skoða og meta „Hvort M, … , hafi verið svo heil heilsu andlega, hinn 19. desember 2007, þegar hún undirritaði erfðaskrá, að hún hafi verið hæf til að gera slíkan gerning á skyn­samlegan hátt.“ Þá er í matsbeiðni beint eftirfarandi spurningum til matsmanna:

A.        Hann kanni og upplýsi hvort matsþoli hafi verið andlega veik á þeim tíma sem hún undirritaði erfðaskrána. Komist matsmaður að þeirri niðurstöðu að svo hafi verið er þess óskað að kannað verði og upplýst í hverju andleg veikindi hennar fólust.

B.         Hann kanni og upplýsi hvort matsþoli hafi verið á einhverjum lyfjum á þeim tíma er hún undirritaði erfðaskrána. Komist matsmaður að þeirri niðurstöðu að svo hafi verið er þess óskað að hann lýsi þeim áhrifum sem líklegt sé að lyfjagjöfin hafi haft á andlega líðan matsþola, hvort lyfjagjöfin var líkleg til að draga úr einkennum andlegra veikinda hennar og/eða hvaða áhrif slík lyfjagjöf hafi almennt á sjúklinga.

C.         Hann kanni og upplýsi hvort dagamunur hafi verið á andlegri líðan matsþola skömmu fyrir undirritun erfðaskrárinnar og þegar hún undirritaði hana. Komist matsmaður að þeirri niðurstöðu að svo hafi verið að kannað verði og upplýst hvort fyrirliggjandi gögn veiti upplýsingar um andlega líðan hennar þann dag sem erfðaskráin var undirrituð.

D.        Hann gefi álit sitt á því með tilliti til allra fyrirliggjandi gagna um heilsu matsþola, hvort hægt sé með fullri vissu að staðhæfa að matsþoli hafi við undirritun erfðaskrár sinnar þann 19. desember 2007, að teknu tilliti til þeirrar meðferðar sem hún fékk, þ.m.t. í formi lyfjagjafar, ekki verið heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt, sbr. 2 mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Í matsgerðinni eru raktar fyrirliggjandi upplýsingar um heilsufar M. Þar koma fram upplýsingar um ýmis líkamleg veikindi hennar og lyfjagjöf fram til ársins 2004. Þá kemur fram að í október 2004 hafi M dottið og lærbrotnað og í framhaldi af því legið í nokkurn tíma á bæklunardeild Landspítala í Fossvogi, farið síðan í nokkra daga á Rauðakrosshótelið, síðan verið lögð inn til endurhæfingar á öldrunar­lækningadeild Landakots, L3, hinn 7. desember 2004 og legið þar til 13. janúar 2005. Fram kemur að um miðjan desember 2004 hafi verið lagt fyrir M minnispróf, svokallað MMSE-próf (Mini Mental State Examination). Þar hafi hún skorað lægra en læknar bjuggust við eða 17/30 og fram kemur að hún hafi ekki verið áttuð á ártali né mánaðardegi og nærminni hennar og reiknigeta var skert. Rúmum hálfum mánuði síðar var prófið endurtekið og hafði hún þá bætt sig umtalsvert og skoraði 24/30. Enn var framkvæmt MMSE próf þegar M kom á bráðamóttöku vegna þyngsla fyrir brjósti í júlí 2005 og var niðurstaða þess 16/30.

Fram kemur í matsgerð að vistunarmat hafi verið gert vegna M 10. september 2005. Í matinu komi fram að heilabilun sé vaxandi með tilhneigingu til rugls og að matsþoli sé óraunsæ á eigin getu. Samkvæmt matinu sé um að ræða væga heilabilun auk þess sem óróleiki er metinn vandamál. Matsþoli sé ekki talin geta búið ein. Niðurstaða matsins sé talsvert há eða 53 stig og matsþoli metinn í mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými. Í sjúkraskrá vegna legu M á öldrunarsviði Landakotsspítala 19. desember 2005 til 1. febrúar 2006 segi: „M er 88 ára kona sem er ógift og barnlaus. Hún útskrifaðist af L3 í nóvember s.l. Reynt var að láta reyna á útskrift heim með heimaþjónustu af hálfu heimahjúkrunar og heimilishjálpar. Aðstandendur telja hana engan veginn færa að vera heima. Hún er í hættu að fara sér að voða. Hún er dement. Nýlegt MMSE gaf 16/30, dementia hefur þó ekki verið greind nánar. Hún er einnig með talsverða hjartasögu, er með kransæðasjúkdóm, ósæðalokuþrengsli og hjartbilun. Hún mjaðmarbrotnaði í fyrra. Er einnig með mjög langt gengna aldurstengda hrörnun í augnbotnum auk cataracta. Hún sér mjög illa.“

M heitin fór beint af Landakoti á Grund, eða 1. febrúar 2006. Í matsgerð segir: „Við innlögn þar var rætt um vaxandi heilabilunareinkenni, nauðsyn þess að hún fái umönnun allan sólarhringinn. Blóðprufur voru í stórum dráttum eðlilegar. Engar breytingar voru gerðar á lyfjameðferð matsþola við flutninginn á Grund. Í upplýsingum sem liggja fyrir um heilsufar matsþola á Grund kemur fram í nótu John Benedikz læknis frá 10. apríl 2006 að engin heilsufarssaga fáist fram hjá M vegna dementiu og minnisskerðingar hennar. Í miðjum október 2006 metur John Benedikz að matsþoli hafi vaxandi heilabilun, enga innsýn í sín mál og er með ranghugmyndir og óróleg.“

Í matsbeiðni kemur fram að Kristinn Tómasson hafi metið ástand M og í nótu hans frá 21. október 2006 segi: „M er búin að vera hér á Grund frá því 1. febrúar 2006. Hún hefur verið með vaxandi óróleika og það hefur valdið nokkrum óþægindum. Hún hefur auk þess ekkert innsæi í getu sína og er á köflum óróleg og þá verður hún erfið í umgengni og nokkuð hvöss. Þegar rætt er við hana þá lýsir hún því að hún vilji alls ekki vera hérna. Segist vel geta séð um sig heima og kveðst eiga lögheimili austur í sveitum þó hún eigi húsnæði í [...]. Hún telur sjálfsagt að fólkið sitt geti annast hana, nefnir til frænku sína sem hún segir reyndar búa að [...]. Hún segist reyndar þurfa að fara um með göngugrind og þurfi aðstoð við að fara í föt og baða sig. Hún neitar kvíða, depurð eða leiða. Álit Demens. Hún hefur verið meðhöndluð með Míanserín 10 mg þrisvar á dag og við munum hætta því og setja hana á Ríson 0,5 mg einu sinni á dag og sjá hvort það slái ekki aðeins á óróleikann og hugsanatruflanir.“

Í matsbeiðni er fjallað um læknisvottorð John E.G. Benedikz frá 15. febrúar 2008, sem liggur frammi í málinu. Þar segir: „M, kt. [...] hefur verið hjúkrunarsjúklingur hér á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund frá 1. febrúar 2006 vegna blandaðrar vasculer og Alzheimer dementiu. Hún var í vistun og rannsókn á öldrunardeild Landakotsspítala 2005 og styður það ofanskráða greiningu. Ég tel að sjúklingurinn hafi ekki verið fær um að taka ákvarðanir varðandi fjárhag sinn eða fær um að sjá um sig sjálf á þessu tímabili“. Þá er fjallað um vottorð Guðmundar Viggóssonar augnlæknis, sem einnig liggur fyrir, en hann staðfestir að við síðustu heimsókn M á Sjónstöð Íslands í maí 2005 hafi hún haft mjög skerta sjón og verið búin að tapa sér mikið andlega.

Niðurstöður matsmanna og svör við spurningum eru eftirfarandi:

A.      Í heilsufarsgögnum sem liggja fyrir við gerð mats þessa koma fram upplýsingar sem benda ótvírætt til þess að M hafi verið andlega veik á þeim tíma sem hún undirritaði erfðaskrá þann 19. desember 2007. Gögnin styðja þá ályktun að hún hafi verið með meðalsvæsinn og jafnvel langt genginn heilabilunarsjúkdóm.

Erfitt er að segja með óyggjandi hætti um orsök heilabilunarinnar. Vitað er að M hafði kransæðasjúkdóm, háþrýsting, ósæðarlokuþröng og hjartabilun. Því gæti  hafa verið um að ræða æðavitglöp vegna heilaæðasjúkdóms. Tveir bræður M voru með heilabilun og annar þeirra a.m.k. talinn hafa Alzheimerssjúkdóm. Sá sjúkdómur kemur líka til greina sem orsök heilabilunar M og hugsanlega var um bæði æðavitglöp og Alzheimerssjúkdóm að ræða í tilviki hennar.

MMSE próf (Mini Mental State Examination) var lagt nokkrum sinnum fyrir M. Próf þetta er notað til að meta vitræna getu, sérstaklega hjá öldruðum og gefur vísbendingar um hvort um heilabilun sé að ræða. Þegar próf þetta er lagt fyrir sama einstakling endurtekið yfir langan tíma gefur það möguleika á að meta framgang og alvarleika heilabilunar. Með prófinu má meta áttun, næmi, athygli og  minni auk hæfni til að nefna hluti, fylgja leiðbeiningum og líkja eftir fyrirmynd. Mesti stigafjöldi á prófinu er 30 stig og gefur einkunn fyrir neðan 21 stig glögga vísbendingu um glöp, 21-26 stig eru talin benda til vægrar heilabilunar, 10-20 stig meðalsvæsinnar heilabilunar en minna en 10 stig til langt gengins sjúkdóms. Það er ekki hægt að meta orsök heilabilunar með MMSE prófi. Í desember 2004 þegar M lá á öldrunar­lækningadeild var gert MMSE próf og  skoraði hún 17 stig af 30 mögulegum. Þessi slaka niðurstaða endurspeglar að hluta skerta getu í kjölfar beinbrots og álagi því tengdu því hálfum mánuði síðar skoraði hún hærra eða 24/30. Hins vegar var aftur gert MMSE próf í júlí 2005 og var skor M þá 16/30. Þá virðist henni hafa farið talsvert aftur og fram kom einnig að hún var þá talin óraunhæf varðandi eigin getu og aðstæður. Í september og október 2005 kemur fram að heilabilun og minnisskerðing M fer vaxandi og fram kom tilhneiging hjá henni til að rugla. Í desember 2005 töldu aðstandendur hana engan veginn færa til að búa heima og að hún geti farið sér að voða. M flutti á Grund í byrjun febrúar 2006. Í nótum lækna frá Grund eru ekki miklar lýsingar um líðan hennar en í október 2006 er rætt um vaxandi óróleika, skert innsæi hvað eigin getu varðar auk erfiðleika í umgengni við hana. Þá voru gerðar lyfjabreytingar til að slá á óróleikann. Þetta bendir til þess að heilabilun M hafi versnað með tímanum eins og við er að búast þegar um langvinnan hrörnunarsjúkdóm í miðtaugakerfi er að ræða. M lést 15 mánuðum síðar. Að mati matsmanna eru engar líkur á því að vitræn geta M hafi batnað á síðustu mánuðum lífs hennar. Heilabilunarsjúkdómar eins og M hafði ganga ekki til baka.

B.       Matsmenn fengu upplýsingar hjá Árna Tómasi Ragnarssyni yfirlækni á Grund um lyf, sem M notaði þar. ( …) Álit matsmanna er að þrjú þeirra lyfja sem M tók, Sobril, Zopiklon og Ríson, gætu hafa valdið sljóleika.

C.       Matsmenn óskuðu eftir hjúkrunarupplýsingum frá Grund. Samkvæmt upplýsingum Árna Tómassonar yfirlæknis er búið að farga öllum hjúkrunarskýrslum varðandi M, en það mun vera gert á Grund við andlát sjúklinga. Skriflegar upplýsingar um andlega líðan M skömmu fyrir undirritun erfðaskrárinnar, hvort dagamunur hafi verið á líðan hennar eða hver líðan hennar var daginn sem erfðaskráin var undirrituð, liggja ekki fyrir.

D.      Matsmenn hafa skoðað nákvæmlega öll sjúkragögn sem liggja fyrir um veikindi M. Á grundvelli þeirra teljum við fullvíst að hún hafi haft alvarlegan heilabilun sem fór versnandi. Álit matsmanna er að hún hafi ekki við undirritun erfðaskrár sinnar þann 19. desember 2007 verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt. Við teljum ólíklegt að lyfjagjöf hafi haft áhrif þar á nema þá hugsanlega til hins verra.

II.

Sóknaraðilar byggja á því að sannað sé með matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna og öðrum gögnum að M heitin hafi við gerð erfðaskrárinnar hinn 19. desember 2007 ekki verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að gera hana, en samkvæmt  1. mgr. 45. gr. erfðalaga nr. 8/1962 kemur erfðaskrá ekki til framkvæmda ef erfingi rengir hana og sannar að arfleifanda hafi brostið hæfi, sbr. 34. gr. Skilyrði 2. mgr. 34. gr. fyrir gildi erfðaskrár hafi því ekki verið uppfyllt og því beri að taka kröfur sóknaraðila til greina. Þá er af hálfu sóknaraðila vísað til vottorðs John E. G. Benedikz MD FRCP, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, dags. 15. febrúar 2008, máli þeirra til stuðnings.

Í 3. gr. erfðaskrárinnar sé vísað með spurnarsetningu til eldri erfðaskrár og hún sögð afturkölluð sé henni til að dreifa. Á því er byggt af hálfu sóknaraðila að grein þessi sanni með sjálfstæðum hætti að andlegri heilsu M heitinnar hafi verið svo komið við gerð erfðaskrárinnar að hún hafi ekki uppfyllt hæfisskilyrði 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Greinin beri með sér, að M heitin hafi á þessum tíma ekki gert sér grein fyrir að hún hafi áður gert erfðaskrár, þá síðustu rúmum fjórum árum áður.

Sóknaraðilar byggja enn fremur á því að erfðaákvörðun samkvæmt erfðaskrá M frá 19. desember 2007 sé ógild vegna þess að hún hafi verið beitt misneytingu til að gera hana eða hún hafi stafað af misskilningi, sbr. 37. gr. eða 38. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í því sambandi er á því byggt að varnaraðilinn, A, hafi þekkt til erfðaskrár M frá 18. september 2003 og ekki sætt sig við að allur arfur félli til sóknaraðila samkvæmt henni en ekki annarra erfingja. Hann hafi notfært sér andleg bágindi M heitinnar til þess að fá hana til að breyta erfðaskrá sinni. Þessi varnaraðili hafi sjálfur haft fjárhagslega hagsmuni af breytingunni. Vísa sóknaraðilar í þessu sambandi til grunnreglu 2. mgr. 41. gr. erfðalaga. Varðandi kröfu um ógildingu erfðaskrárinnar vísa þeir einnig til þess að erfðaskrárvottar kannist ekki við að hafa vottað um andlegt hæfi, sbr. 2. mgr. 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og að ekki hafi verið sinnt þeirri formskyldu 2. mgr. 40. gr., að lesa hana upp fyrir undirskrift þar sem M heitin var þá blind í skilningi ákvæðisins, eins og fram komi í framlögðu vottorði Guðmundar Viggóssonar, augnlæknis frá 2. desember 2008. 

Engin skynsamleg rök geti skýrt hina nýju erfðaákvörðun frá 19. desember 2007. Því sé hafnað að breytingin hafi helgast af því að M heitinni hafi þá nýverið tæmst arfur eftir bróður sinn, N, er féll frá [...], en þau voru sameigendur að fasteign dánarbúsins að [...] í Reykjavík og bjuggu þar saman eftir að þau fluttust frá [...]. Í því sambandi sé vísað til viðbótar við erfðaskrá N heitins, frá 12. september 1995, þar sem því er lýst að ef M falli frá á undan honum skuli systir hans, O, taka allan arf eftir hann en sóknaraðilinn K er dóttir O. Á því er byggt að M heitin og N heitinn hafi sameiginlega ákveðið, á meðan þau höfðu bæði heilsu til, að arfur eftir þau myndi falla til systur þeirra O og niðja hennar en ekki annarra systkina. Eldri erfðaskrár M heitinnar frá 20. maí 1992 og 18. mars 1994 styðji jafnframt þessa málsástæðu.

III.

Varnaraðilar byggja kröfu sína, um að kröfum sóknaraðila verði hafnað, á því að ósannað sé að M hafi ekki, við undirritun erfðaskrár þann 19. desember 2007, verið svo heil heilsu andlega, að hún væri fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt í skilningi 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Varnaraðilar telja að læknisfræðilegt mat dómkvaddra matsmanna sem liggi fyrir í málinu taki ekki afdráttarlausa afstöðu til þess hvort M hafi þann 7. og þann 19. desember 2007 verið svo heil heilsu andlega, að hún væri fær um að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt. Enn fremur komi fram í mats­gerðinni að ekki séu til gögn sem sýni að ekki hafi verið dagamunur á and­legri heilsu M. Verði sóknaraðilar að bera hallann af þessum sönnunarskorti. Af þeim læknisfræðilegu gögnum sem legið hafi til grundvallar matsgerð, þar með talið niðurstöðum MMSE prófa og ummælum sóknaraðila K um andlega færni hennar sem til er vitnað í gögnunum, megi lesa að nokkur dagamunur hafi verið á andlegu atgervi M. Þó liggi ekki fyrir í málinu gögn um andlegt atgervi hennar 7. og 19. desember 2007. Verði sóknaraðilar að bera hallann af þessum sönnunarskorti.

Varnaraðilar benda sérstaklega á að í nefndri matsgerð sé tekið fram að MMSE próf geti gefið möguleika á að meta framgang og alvarleika heilabilunar þegar prófið sé lagt fyrir sama einstakling endurtekið yfir langan tíma. MMSE próf var einungis lagt fyrir M fjórum sinnum og alls á innan við árs tímabili. Í matsgerðinni sé einnig tekið fram að ástæðu lágrar niður­stöðu M á fyrsta prófinu megi rekja til skertrar getu í kjölfar beinbrots. Við tvö síðari prófin hafi M einnig verið undir miklu álagi. Varnaraðilar telja að slök útkoma í þriðja prófinu hafi veri tengd því að hún hafi á þeim tíma sem prófið var lagt fyrir verið að kljást við þyngsli fyrir brjósti og streitu tengda því og að slök úrkoma úr fjórða prófinu hafi verið tengd því að verið var að leggja M inn á öldrunardeild Landakots, sem hafi verið henni á móti skapi og orsakað streitu. Það próf sem varnaraðilar telja að endurspegli best vitræna getu M á þeim tíma sem hún undirritaði erfðaskrár dagsettar 7. og 19. desember 2007 er annað MMSE prófið en niðurstaða þess sé ólíkt hinum ekki því marki brennd að M hafi verið undir álagi þegar prófið var fyrir hana lagt. M fékk 24 stig af 30 mögulegum á því prófi.

Varnaraðilar byggja einnig á því að MMSE próf sem fyrir M voru lögð hafi ekki verið nægjanlega mörg né endurtekin með nægilega markvissum hætti yfir langan tíma til að mark sé á þeim takandi. Matsmenn byggi niðurstöður sínar í of miklum mæli á niðurstöðum þeirra, sérstaklega í ljósi þess að persóna M var þannig að hún sá ekki ástæðu til að spila með læknum né öðru heilbrigðisstarfsfólki þegar fyrir hana voru lögð próf sem henni voru á móti skapi. Margt af því sem matsgerð byggi á að sé til vitnis um skort á andlegri heilsu M eigi rætur að rekja til persónuleika hennar en ekki til veikinda. Varnaraðilar telja að ekki sé unnt að álykta um elliglöp eða skort á andlegu hæfi út frá sérstökum persónuleika M.

Þá byggi matsgerð ekki á samtímagögnum um heilsu M og séu því ályktanir um andlegt hæfi hennar á því tímabili sem erfðaskrár frá 7. og 19. desember 2007 voru undirritaðar byggðar á hreinum getgátum. Í matsgerð segi að í nótum lækna frá Grund séu ekki miklar lýsingar á líðan hennar. Varnaraðilar byggja á því að skráðar hefðu verið nánari sjúkraskár og framkvæmdar fleiri rannsóknir hefði M verið orðin illa á sig komin andlega. Á heildina litið byggi matsgerðin á afar takmörkuðum upplýsingum og engum samtímagögnum. Þær upplýsingar sem helst sé á byggt séu umsagnir lækna um ástand hennar á ýmsum tímum. Þessar umsagir virðist fyrst og fremst gerðar þegar mikið bjátar á hjá M, þegar hún á við tímabundna líkamlega eða félagslega erfileika að etja, beinbrot, hjartaverki, svima eða þegar breytingar hafi verið gerðar á högum hennar. Lítið sem ekkert sé, í þeim gögnum sem matsgerð byggist á, minnst á þá góðu tíma sem M átti og þeir sem stóðu henni næst þekktu af heimsóknum til hennar og símtölum við hana.

Varnaraðilar mótmæla því sönnunargildi matsgerðar sem þeir telja byggða á röngum forsendum auk þess sem hún taki ekki með afgerandi hætti á því grundvallaratriði hvort dagamunur hafi verið á andlegri heilsu M og geti því ekki verið til sönnunar um líðan hennar og andlegt atgerfi 7. og 19. desember 2007.

Varnaraðilar mótmæla einnig sönnunargildi vottorðs John E.G. Benedikz, læknis, en ekkert liggi fyrir um það hvort vottorðið byggi á læknisfræðilegum gögnum, læknis­fræðilegri skoðun, viðtali eða öðrum læknisfræðilegum athugunum. Auk þess sé John ekki sérfræðingur í öldrunarlækningum, geðlækningum eða öðru sérsviði sem tengist meintum skorti á andlegri heilsu M.

Samkvæmt almennum sönnunarreglum beri þeim sem véfengir gildi erfðaskrár að sanna að arfleifandi hafi ekki verið svo heil heilsu andlega, að hún væri fær um að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt, þegar hún hafi verið gerð. Sönnun þess sem véfengir erfðaskrá verði að ná til þess dags þegar hin véfengda erfðaskrá hafi verið gerð, og þá sérstaklega ef ekki liggur fyrir að ekki hafi verið dagamunur á andlegri heilsu arfleifanda. Þessi sönnun hafi ekki tekist.

Varnaraðilar byggja á því að efni erfðaskráa frá 7. og 19. desember 2007 og aðdragandi þess að undir þær var ritað beri það með sér að M hafi verið svo heil heilsu andlega, að hún hafi verið fær um að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt. Erfðaskrár M frá 7. og 19. desember hafi verið gerðar í kjölfar þess að M hlotnaðist arfur sem jók við eignir hennar. M hafi sjálf haft frumkvæðið að því að arfleiðslu eftir hana yrði breytt í ljósi nýrra aðstæðna. Þeir fjármunir sem M hafi áskotnast með arfi eftir N bróður sinn hafi átt rætur að rekja til sölu á búi foreldra þeirra og því verið eðlilegt að hún byndi svo um hnúta að aðrir afkomendur foreldra hennar en sóknaraðilar nytu góðs af. Er fyrri erfðaskrá M hafi verið undirrituð hefði sóknaraðili, K, um nokkurt skeið borið meginþunga þess að annast um M og aðstoða hana við það sem þurfti. Þetta hefði breyst nokkru áður en erfðaskrár 7. og 19. desember 2007 hafi verið undirritaðar. Nefndar erfðaskrár hafi verið skynsamlegir gerningar og endurspegli sá vilji hennar sem í þeim birtist skynsamleg viðbrögð við breyttum aðstæðum.

Erfðaskrá M frá 19. desember 2007 feli í sér skiptingu arfs eftir M sem samræmist lögerfðareglum. Lögerfðir séu meginregla íslensks réttar en bréferfðir undantekning. Undantekningin felur í sér heimild til handa arfleifanda til að sneiða fram hjá þeim meðalhófsreglum sem í lögerfðareglunum felist en þær byggi á samfélagslegum rökum. Verði í þessu ljósi að telja að sérstakar kröfur verði að gera til að hafna útdeilingu arfs í samræmi við lögerfðareglur og endurspegli þær takmarkanir, sem erfðalög setji við gerð erfðaskrár, þessi sjónarmið. Efni erfðaskráa frá 7. og 19. desember 2007 hafi verið eðlilegt og skynsamlegt og verði talið sannað að M hafi við undirritun þeirra verið haldin andlegum annmörkum sé ljóst af efni þeirra og aðdraganda undirritunar þeirra að annmarkarnir hafi ekki ráðið efni þeirra. Verði því að hafna kröfu sóknaraðila enda sé það ekki tilvist andlegra annmarka sem ráði úrslitum samkvæmt 2. mgr. 34. gr. erfðalaga heldur að annmarkarnir hafi í raun svift arfleifanda færi á að ráða máli til lykta með skynsamlegu móti.

Varnaraðilar andmæla því einnig sem röngu og ósönnuðu af hálfu sóknaraðila að skilyrði 37. eða 38. gr. erfðalaga séu uppfyllt. Einnig sé ósannað að M og N bróðir hennar hafi tekið sameiginlega ákvörðun um það hvert arfur eftir þau skyldi falla.

Sóknaraðili, K, og M gerðu þann 22 desember 2007, þremur dögum eftir undirritun erfðaskrár M þann 19. desember 2007, kaupsamning og afsal um fasteign sem liggur frammi í málinu. Varnaraðilar byggja á því að þessi staðreynd beri þess augljóst vitni að sóknaraðili, K, hafi á þeim tíma sem erfðaskrá frá 19. desember 2007 var undirrituð talið að M hafi verið svo heil heilsu andlega, að hún væri fær um að gera fjárhagslegar ráðstafanir á skynsamlegan hátt. Hafi sóknaraðili, K, í raun ekki talið M svo heila heilsu andlega, að hún væri fær um að gera fjárhagslegar ráðstafanir á skynsamlegan hátt á þessum tíma telja varnaraðilar einsýnt að hún hafi gerst sek um brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að fá M til að gefa út afsalið. Sú staðreynd að sóknaraðili, K, hafi vitað af gerð erfðaskrárinnar og lesið hana yfir um það leyti sem hún var undirrituð bendi einnig til þess að hún hafi talið M svo heila heilsu andlega, að hún væri fær um að gera erfðaskrá. Hefði hún ekki talið að svo væri verða sóknaraðilar að bera hallann af því tómlæti að hafa ekki gert athugasemdir við gerð erfðaskrárinnar fyrr en á skiptafundi eftir andlát M.

Erfðaskrár M frá 7. og 19. desember 2007 hafi báðar verið vottaðar af tveim vitundarvottum. Í öllum tilvikum hafi verið um heilbrigðisstarfsfólk að ræða sem fylgst hefði með M, og búið sumpart yfir sérþekkingu sem máli skipti. Í báðum tilvikum hafi meginefni erfðaskrárinnar verið lesið fyrir M og votta og í síðara tilvikinu hafi á erfðaskránni verið að finna eftirfarandi yfirlýsingu votta:

                ,,Við undirrituð, sem höfum verið kvödd til þess að vera við framanritaða arfleiðslugjörð, vottum það, að M ritaði nafn sitt undir erfðaskrána og játaði það vilja sinn er í henni stendur. Gerði hún það heil heilsu andlega, allsgáð og af fúsum og frjálsum vilja. Þetta erum við reiðubúin að staðfesta með eiði, ef krafist verður”.

Varnaraðilar telja einsýnt að vottarnir hefðu ekki aðstoðað M við að undirrita erfðaskrá hefðu þeir talið hana ófæra um að gera slíkan gerning. Sé það rétt sem í greinargerð sóknaraðila segir, að einn arfleiðsluvotta vilji ekki kannast við yfirlýsingu sína, þurfi sóknaraðilar engu að síður að sanna að M hafi í raun skort arfleiðsluhæfi til að unnt sé að taka véfengingu þeirra til greina samkvæmt 45. gr. erfðalaga þar sem erfðaskráin fullnægi engu að síður kröfum 40.–43. gr. s.l. um form erfðaskráa.

Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. erfðalaga fellur erfðaskrá úr gildi láti arfleifandi ótvírætt í ljós, að hann taki hana aftur. Formreglur þær sem gilda um gerð erfðaskrár gildi ekki um afturköllun hennar. Varnaraðilar byggja á því að erfðaskráin sem gerð var 7. desember 2007 feli í sér fullnægjandi yfirlýsingu M til að fella eldri erfðaskrá úr gildi þrátt fyrir að hún hafi ekki uppfyllt áskilnað 42. gr. erfðalaga. Hið sama eigi við um áskilnað 2. mgr. 40. gr., þyki sýnt að honum hafi ekki verið fullnægt. Varðandi áskilnað 2. mgr. 40. gr. sé einnig á því byggt að M hafi verið fullkunnugt um efni erfðaskrárinnar er hún ritaði undir hana, bæði þann 7. og 19. desember 2008 og að fyrirmæli um efni hennar hafi komið frá henni einni.

Varnaraðilar hafna því að ákvæði 2. mgr. 41. gr. erfðalaga hafi þau áhrif að aðkoma varnaraðila, As, að skrásetningu vilja M með ritun erfðaskrár leiði til ógildingar hennar enda varðar ákvæðið eingöngu hæfi arfleiðsluvotta. Ákvæðið feli ekki í sér meginreglu þess efnis að aðilar í sifjatengslum við arfleifanda eða aðilar sem geta haft hagsmuni af erfðaskrá geti ekki aðstoðað arfleifanda við skrásetningu vilja hans líkt og sóknaraðilar virðist byggja á í greinargerð sinni.

Krafa varnaraðila um greiðslu málskostnaðar úr hendi sóknaraðila byggir á 1.-3. mgr. 130. gr. sbr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

Verður nú fjallað um framburði aðila og vitna við aðalmeðferð málsins eftir því sem þurfa þykir. Allir sóknaraðilar komu fyrir dóminn og kom fram hjá þeim að þær hefðu að miklu leyti séð um M árin áður en hún fór á stofnun, svo sem að keyra hana til og frá lækni, í banka og fleira slíkt. Eftir því sem heilsa hennar fór versnandi virðast þær hafa farið að sjá um fleira og m.a. fékk sóknaraðilinn J, umboð hennar til að sjá um bankaviðskipti. Fram kom hjá sóknaraðilum að M hefði verið orðin erfiðari viðfangs undir það síðasta og eftir að hún fór á stofnun hafi orðið úr að varnaraðilinn A tæki að sér að sjá um fjármálaumsýslu fyrir M. Fram kom hjá sóknaraðilum að M hefði verið mjög sjálfstæð og jafnvel stjórnsöm og þver. Þá töldu þær að undir það síðasta, t.d. þegar M fór í jarðarför bróður síns í desember 2007, hafi hún verið orðin mjög rugluð og ekki með á nótunum.

K, systurdóttir M, kvaðst aðspurð ekki hafa vitað af erfðaskrám M, en þó hafi henni verið sagt frá því á bilinu á 17. til 20. desember 2007 að gerð hefði verið ný erfðaskrá. A hafi sagt henni frá því í tengslum við samskipti þeirra varðandi kaup K á hluta M í sumarbústað, sem M og móðir vitnisins höfðu átt saman. K kvaðst hafa nefnt við A, frænda sinn, að hann hlyti að þurfa að hafa vottorð frá lækni um að M væri fær um að gera erfðaskrá. Hún teldi að A hefði látið M gera erfðaskrána, enda hefði hún ekki talið mögulegt að M hefði getað gert slíka ráðstöfun að eigin frumkvæði á þessum tíma, vegna andlegs ástands. Hún kvaðst ekki hafa vitað af fyrri erfðaskrám M fyrr en eftir að hún var látin og heldur ekki hafa vitað af erfðaskrá N, móðurbróður síns, fyrr en að honum látnum. Fram kemur að móðir K hafi mikið verið hjá M og bræðrum hennar tveimur sem voru með búskap að [...] eftir að foreldrar þeirra létust, en þessi þrjú systkini voru öll barnlaus. Eftir að móðir K lést tók hún við samskiptum við systkinin sem eftirlifandi voru, en þau höfðu þá flutt til Reykjavíkur og keypt þar saman íbúð.

Varnaraðilinn A kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa þekkt M vel og frá því hann var barn. Spurður um persónuleika M segir hann hana hafa verið skapmikla og haft ríka réttlætiskennd. Hún hafi ekki tekið öllum. Hann kveður K hafa átt frumkvæði að því að hann tók að sér fjármálaumsýslu fyrir M í ársbyrjun 2006, hún hafi komið með undirritað skjal varðandi það til A. Aðdraganda þess að erfðaskrárnar í desember 2007 voru gerðar kveður A hafa verið að eftir að hann kynnti M erfðaskrá N bróður hennar, hafi hún spurt hversu miklir fjármunir þetta væru og í framhaldi af því hafi hún farið að velta fyrir sér að gera erfðaskrá. Hún hafi spurt hvort einhverjir ættingjar ættu við veikindi eða erfiðleika að stríða. Svo hafi ekki verið og þá hafi hún viljað að eitthvað rynni til Ungmennafélags [...]. A hefði tjáð henni að það væri ekki lengur til og þá hafi hún sagt það vilja sinn að ráðstafa eignum sínum eins og fram kemur í erfðaskrám frá 7. og 19. desember 2007. Eftir að hann komst að því að fyrri erfðaskráin væri ekki fullgild fór hann til lögmanns og fékk aðstoð við að gera erfðaskrá með sama innihaldi, sem væri í lagi. Í báðum tilvikum kveðst A hafa beðið Kolbrúnu hjúkrunarfræðing að vera vitundarvott og því verið tekið vel. Hún hafi kallað í aðra starfstúlku í bæði skiptin, hann hefði lesið upp erfðaskrána efnislega og M ritað undir og þær vottað. A kveður M hafa vitað fullvel hvað hún gerði, hún hafi einungis verið dálítið gleymin. A kvaðst aðspurður ekki hafa vitað um fyrri erfðaskrár M. Spurður um fasteignaviðskipti varðandi sumarbústað í desember 2007 upplýsti hann að hann hefði ekki haft athugasemdir við þau viðskipti, en viljað að fasteignasali verðmæti eignarhlutann og haft yrði samráð einnig við G, frænda sinn. M hafi undirritað skjöl vegna sölunnar 22. desember 2007, eftir að erfðaskrá var undirrituð. Hann kvaðst hafa talað við M um þessi viðskipti og hún talið að hún hefði lítið við sumarbústað að gera. Spurður um ákvæði í erfðaskrá, um að fyrri erfðaskrár væru ógildar, segir A að þetta hafi verið tekið upp úr annarri erfðaskrá sem hann hafði undir höndum, hann hafi ekki vitað um fyrri erfðaskrár.

Jón E. Guðmundsson hdl. staðfesti að hann hefði gert erfðaskrá þá sem M undirritaði 19. desember 2007 að beiðni A. Hann upplýsti að hann hefði ekki kannað sjálfstætt hvort til hefði verið eldri erfðaskrá. Hann kveðst þó hafa vitað að til hefðu verið eldri erfðaskrár, minnti að A hefði sagt sér að hann teldi að þær hefðu verið tvær og minnti að þetta hefði komið fram þegar þeir hittust til að ganga frá erfðaskránni. Fram kom að eiginkona lögmannsins er dóttir F, varnaraðila í málinu. Hann kvaðst aldrei hafa hitt M.

G gaf einnig aðilaskýrslu, hann kvaðst hafa þekkt M heitna vel alveg frá því hann var barn og meðal annars gert fyrir hana skattframtöl um áratugaskeið. Hann kvaðst ekki hafa vitað af erfðaskrám M fyrr en eftir andlát hennar. Hann telur að M hafi verið fær um að gera erfðaskrá, á sama hátt og hún hafi verið fær um að selja eignarhluta sinn í sumarbústaðalóð. Hann kveðst aðspurður ekki trúa því að A frændi sinn, sem hann þekkti alveg þokkalega, hafi notfært sér andleg bágindi M til að afla sér fjár. Hann játar því aðspurður að M hafi hrakað verulega, líkamlega að minnsta kosti eftir beinbrot árið 2004. Hann telur hins vegar ekki að hún hafi verið alvarlega veik andlega og kveðst hafa talað eðlilega við hana þegar hann heimsótti hana á Grund. Hún hafi þó verið nokkuð gleymin.

Matsmennirnir Tómas Zoëga og Arna Rún Óskarsdóttir komu fyrir dóminn og staðfestu matsgerð sína sem áður hefur verið fjallað um. Þá staðfestu matsmenn einnig bréf til lögmanns varnaraðila sem liggur frammi í málinu, en þar kemur fram að niðurstaða matsgerðar eigi jafnt við um 7. desember 2007 og 19. desember 2007. Af hálfu lögmanns varnaraðila var farið ítarlega yfir matsgerðina og þau gögn sem lágu til grundvallar. Þar kom m.a. fram að líklegt sé að MMSE-próf sem lögð voru fyrir M hafi verið þrjú en ekki fjögur eins og skilja megi af matsgerðinni.

John E.G. Benediktz, sérfræðingur í tauga- og heilasjúkdómum, kom fyrir dóminn. Hann staðfestir læknisvottorð sitt, dags. 15. febrúar 2008, sem liggur frammi í málinu. Hann staðfesti að hann hefði verið starfandi læknir á Grund þann tíma sem M dvaldi þar og að hann hefði fylgst með henni allan tímann. Hann rekur hvaða atriðum hann byggir niðurstöðu sína á og vísar í 40 ára reynslu sína sem læknir heilabilaðra. Hann telur aðspurður að engar líkur hafi verið í tilviki M til þess að sjúkdómur gengi til baka, hann versnaði alltaf. Hann taldi ekki líkur til þess að bráð hefði getað af M í desember nægilega mikið til þess að hún gæti gert ráðstöfun eins og erfðaskrá með skynsamlegum hætti. Hann líkti heilabilun af völdum Alzheimers við það að grjóti væri hent í spegil og hann brotnaði í marga hluta. Fram kemur af hálfu vitnisins að hann telji að allt frá því hún kom til dvalar á Grund í febrúar 2006, hafi hún verið ófær um að gera erfðaskrá með skynsamlegum hætti. Hann telur að ástæða þess að ekki voru gerðar frekari rannsóknir, þar á meðal MMSE próf síðustu árin fyrir andlát M, sé að sjúkdómur hennar hafi verið of langt genginn og það hefði því ekki þjónað neinum tilgangi.

Þeir þrír starfsmenn á Grund sem vottuðu erfðaskrárnar tvær komu fyrir dóminn. P staðfesti að hún hefði, að beiðni A vottað undirritun M tvisvar í desember 2007. Hún kvaðst ekki hafa vitað að um erfðaskrár hefði verið að ræða og kannaðist ekki við að efni skjalanna hefði verið lesið upp. Hún gæti aðeins staðfest að hún hefði vottað undirritun, hefði horft á M skrifa nafnið sitt. Hún kvaðst aðspurð ekki hafa vitað að hún væri að votta um andlega heilsu M. Q sagðist hafa staðfest undirritun M, hefði horft á hana skrifa nafnið sitt. Hún kvaðst hafa vitað að verið væri að skrifa undir erfðaskrá, enda hafi það staðið skýrt efst á skjalinu, en að öðru leyti ekki vitað um efni skjalsins. Þá kom R fyrir dóminn. Hún kannaðist við að hafa vottað undirskrift M, en ekki vitað um efni skjalsins. Hún kvaðst þó hafa aðgætt að dagsetning væri rétt. Starfsmennirnir þrír voru nokkuð spurðir um álit sitt á andlegri heilsu M, bæði almennt og þegar erfðaskrár voru undirritaðar. Þær vildu litlu svara um þessi atriði bæði væri langt um liðið og eins væru þær ekki til þess hæfar að gefa slíkt álit. Þó kom fram að einhver dagamunur gæti hafa verið á ástandi hennar, hún hefði stundum verið erfiðari viðfangs en annars, en einnig kom fram það álit að hún hefði verið mjög ljúf manneskja.

V.

Það er meginmálsástæða sóknaraðila að M hafi ekki verið svo heil heilsu andlega þann 19. desember 2007, að hún hafi þá verið fær um að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt. Vísa þeir aðallega til þess sem fram kemur í læknisfræðilegum gögnum og rakið var hér að framan. 

Aðilar málsins sem gáfu skýrslu fyrir dómi báru um mismikla minnisskerðingu hjá M síðustu æviár hennar, en í læknisfræðilegum gögnum allt frá árinu 2005. er ítrekað fjallað um heilabilun, dementiu, og skyld atriði og virðist af þeim gögnum að heilsa M hafi farið versnandi að þessu leyti. Þá er ljóst af vitnisburði Johns Benedikz, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, sem var starfandi sem slíkur á Grund þann tíma sem M var þar, að hann mat ástand hennar svo að hún hefði þegar við innlögn á Grund verið orðin mikið veik og að andleg heilsa hennar hefði versnað þau tæplega tvö ár sem hún dvaldi þar. Af framburði hans má ráða að hann taldi M ekki hafa verið færa um að gera erfðaskrá með skynsamlegum hætti í desember 2007 og reyndar taldi hann að hún hefði ekki verið fær um það frá því hann sá hana fyrst á Grund, tæpum tveimur árum áður.

Niðurstaða matsgerðar, sem liggur frammi í málinu, er nokkuð afdráttarlaus varðandi það atriði sem hér er til úrlausnar, þ.e. um andlegt hæfi M til að gera erfðaskrá með skynsamlegum hætti í skilningi 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Sönnunargildi matsgerðarinnar er mikið í máli þessu, en ekki verður litið svo á að varnaraðilum hafi tekist að sýna fram á að niðurstöður matsmanna hafi ekki verið á rökum reistar, þó að vísbendingar séu um ónákvæmni, t.d. að því er varðar fjölda MMSE prófa, sem fram kom við aðalmeðferð málsins að hefðu hugsanlega verið þrjú en ekki fjögur eins og skilja má af matsgerðinni.

Byggt er á því af hálfu varnaraðila að ekki hafi verið sýnt fram á í málinu að ekki geti hafa verið dagamunur á andlegu ástandi M heitinnar og að vel komi til greina að hún hafi verið andlega hæf til að gera erfðaskrá 19. desember 2007, þó að hún hafi ekki verið það aðra daga. Það þykir nægilega fram komið í málinu, bæði með matsgerðinni, sem ekki hefur verið hnekkt og með annarri sönnunarfærslu, að sjúkdómur sá sem M var haldin var þess eðlis að hann versnaði með tímanum og að engar líkur voru á því að hún lagaðist tímabundið, bráði af henni. Verður ekki talið skipta máli varðandi þessa niðurstöðu um þetta atriði að ekki virðist sem fyllilega hafi verið greint hvort heilabilun sú sem hrjáði M stafaði af Alzheimer sjúkdómi eða æðabilun í höfði, eða hvoru tveggja, sem reyndar virðist líklegast samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Niðurstaðan er sú sama, ekki verður talið að hún hafi haft andlegt hæfi til þess að gera erfðaskrá í skilningi ofangreinds ákvæðis erfðalaga þann 19. desember 2007.

Af hálfu varnaraðila er einnig á því byggt að þar sem sóknaraðilinn K hafi gert kaupsamning við M heitna um hluta sumarbústaðarlands á svipuðum tíma og nefnd erfðaskrá var undirrituð, hafi K í reynd viðurkennt að M hafi verið fær um að gera erfðaskrá. Ekki hefur verið sýnt fram á annað en að um hefðbundinn samning hafi verið að ræða þar og eðlilegt verð komið fyrir hið selda. Vitundarvottar á afsali sem liggur frammi í málinu eru tveir varnaraðila. Ekki er hér til úrlausnar gildi þessara viðskipta og verður þetta atriði ekki talið breyta niðurstöðu málsins.

Þá er sú málsástæða höfð uppi af hálfu varnaraðila að með erfðaskránni, sem undirrituð var þann 7. desember 2007 og aðilar virðast vera sammála um að fullnægi ekki formskilyrðum, felist engu að síður afturköllun á fyrri erfðaskrám M. Það liggur fyrir að skjali frá 7. desember 2007 var ætlað að vera erfðaskrá sem breytti fyrri ráðstöfunum. Þá liggur fyrir að formskilyrðum var ekki fullnægt, auk þess sem erfðaskráin hefði ekki talist gild, þótt svo hefði verið, miðað við niðurstöðu málsins. Ekki þykja efni til að líta svo á að ákvæði um, að sé önnur erfðaskrá til sé hún ógild, geti staðið sjálfstætt, ef skjalið er að öðru leyti marklaust og verður ekki fallist á þessa málsástæðu varnaraðila.

Með vísan til framanritaðs, gagna málsins og þess sem fram kom í skýrslutökum af aðilum og vitnum fyrir dóminum, og ekki síst með vísan til matsgerðar sem liggur fyrir og ekki hefur verið hnekkt, er það niðurstaða málsins að M hafi, þegar hún undirritaði erfðaskrá þann 19. desember 2007, ekki verið svo heil heilsu að hún væri fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt, í skilningi 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og verður því niðurstaða dómsins sú að hún sé ógild og að við skipti á dánarbúi M verði farið eftir erfðaskrá hennar frá 18. september 2003.

Eftir atvikum þykir rétt að aðilar málsins beri hver sinn kostnað af því.

Úrskurðinn kveða upp Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, Einar Guðmundsson, geðlæknir og María Ólafsdóttir, heimilislæknir.

Úrskurðarorð:

Erfðaskrá sem M gerði 19. desember 2007 er ógild. Við skipti á dánarbúi M skal erfðaskrá frá 18. september 2003 lögð til grundvallar.

Málskostnaður fellur niður.