Hæstiréttur íslands

Mál nr. 538/2008


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Sératkvæði


Þriðjudaginn 7

 

Þriðjudaginn 7. apríl 2009.

Nr. 538/2008.

Guðrún Ólöf Sumarliðadóttir

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Kristín Edwald hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Sératkvæði.

G krafðist viðurkenningar á skaðabótaábyrgð R á líkamstjóni sem hún varð fyrir á gangstíg við leikskóla, þar sem hún starfaði, þegar hún rann í hálku og féll aftur fyrir sig. Slysið varð ekki innan lóðar leikskólans heldur á mörkum bílastæðis og göngustígs sem ætlaður var almenningi. Ekki þótti sýnt fram á að slys G yrði rakið til saknæmrar háttsemi eða vanrækslu starfsmanna leikskólans. Var það hvorki í verkahring þeirra að gera ráðstafanir til að sandbera göngustíginn né bera á hann íseyðandi efni til að forða slysum. Þegar hálka myndaðist kvaðst leikskólastjórinn hafa haft samband við starfsmenn R í viðkomandi hverfisstöð, sem höfðu þá komið eins fljótt og þeir gátu. Þá var ekki fallist á það með G að R bæri ábyrgð á slysinu þar sem aðstæður á göngustígnum hefðu verið óforsvaranlegar. G var starfsmaður leikskólans og hafði starfað þar í um átta ár. Hún hefði því verið vel kunnug aðstæðum. Talið var að henni hefði borið að gæta varkárni við þær veðuraðstæður sem voru hinn umrædda dag, enda hefði hún borið fyrir dómi að hún hefði búist við að hálka væri á göngustígnum. Yrði því að telja slys G rakið til óhappatilviljunar eða gáleysis hennar. Var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna og R sýkn af kröfu G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. október 2008. Hún krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem hún varð fyrir 3. desember 2003 á gangstíg við leikskólann Heiðarborg í Reykjavík. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins og að málskostnaður fyrir Hæstarétti verði þá felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður felldur niður samkvæmt 3. mgr. 130. gr., sbr., 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Sératkvæði

Viðars Más Matthíassonar

Ég er ósammála niðurstöðu meirihluta dómenda um sýknu stefnda. Röksemdir mínar og niðurstaða eru eftirfarandi:

Eins og í héraðsdómi greinir varð áfrýjandi fyrir slysi er hún rann í hálku og féll aftur fyrir sig. Hlaut hún af líkamstjón og er nægilega upplýst að afleiðingar þess eru varanlegar fyrir hana. Krefst hún viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda vegna tjónsins.

Slysið varð um kl. 08:00 að morgni 3. desember 2003, er áfrýjandi var á leið til vinnu sinnar. Hún var með fjögurra ára dóttur sína með sér en hún var nemandi á leikskólanum. Höfðu þær gengið frá bifreiðastæði og upp á göngustíg, sem liggur meðfram girðingu er umlykur leikskólann. Um er að ræða almennan göngustíg og vissi áfrýjandi, sem unnið hafði á leikskólanum í næstum átta ár, að það gæti verið hálka á stígnum. Af málflutningi aðila verður ráðið að ekki sé sérstakur halli á göngustígnum þar sem áfrýjandi féll. Hún hefur ekki sýnt fram á að stefnda hafi að lögum borið skylda til að setja handrið við stíginn eða hitalögn undir hann til að varna hálkumyndum á þeim stað er hún féll. Þá er upplýst og ómótmælt að ein dráttarvél með hálkueyðandi efni var send frá þjónustumiðstöð stefnda við Stórhöfða 9 til aðgerða í Árbæjar- og Seláshverfum um kl. 07:30 þennan morgun, en ekki er upplýst hve langan tíma tekur að fara um þessi tvö hverfi, né hvar byrjað hafi verið. Dráttarvélin hafði ekki komið á göngustíginn við leikskólann er slysið varð og ekki er upplýst hvenær dags hún kom þangað.

Leikskólinn Heiðarborg er með um 80 nemendur. Starfsmenn munu vera um 17. Sá starfsmaður sem fyrstur mætir kemur um kl. 07:30 en flestir aðrir koma um kl. 08:00. Nemendurnir 80 sem koma í fylgd aðstandenda koma einnig flestir frá kl. 08:00 til 09:00. Af þessu verður sú ályktun dregin, að gera megi ráð fyrir að um 150 manns komi í leikskólann á hverjum morgni, flestir á tímanum frá kl. 08:00 til 09:00. Göngustígur sá sem um ræðir, þótt um almennan göngustíg sé að ræða, er sú leið að leikskólanum frá bifreiðastæðinu sem farin er. Göngustígurinn var óupplýstur á þeim tíma, sem slysið varð, en úr því var bætt á árinu 2005. Þegar slysið átti sér stað var myrkur og því erfitt að átta sig á aðstæðum.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 78/1994 um leikskóla skal leikskólastjóri stjórna starfi leikskóla í umboði rekstraraðila, sem samkvæmt 7. gr. laganna er stefndi. Gera verður þá kröfu til leikskólastjóra að hann geri nauðsynlegar og eðlilegar ráðstafanir til þess að tryggja öryggi þeirra sem leið eiga eftir þeim hluta göngustígsins, sem nauðsynlegt er að fara, að og frá leikskólanum. Við þær ráðstafanir verður að taka tillit til þess að í flestum tilvikum er um að ræða fólk með börn þar sem athyglin kann að verulegu leyti að vera bundin börnunum. Leikskólastjóra bar því að gera ráðstafanir til að hálku yrði eytt á þeim hluta göngustígsins sem nauðsynlegt var að fara um til að komast að leikskólanum. Engin vissa var fyrir því að þeir, sem önnuðust hálkueyðingu á vegum þjónustumiðstöðva stefnda, gerðu það í tæka tíð. Var slysahætta vegna hálku á stígunum kunn. Þetta hafði ekki verið gert er áfrýjandi mætti til vinnu. Verður því í ljósi aðstæðna, einkum þeirra að myrkur var og erfitt að gæta sín á hálku, talið til gáleysis leikskólastjóra, sem stefndi ber ábyrgð á, að slík hálkueyðing hafði ekki farið fram. Ber því stefndi skaðabótaábyrgð á líkamstjóni áfrýjanda vegna slyssins.

Stefndi gerir til vara þá kröfu, verði hann talinn skaðabótaskyldur, að það verði þá einungis að hluta. Rökstyður hann kröfu sína svo að slysið verði að mestu rakið til eigin sakar áfrýjanda. Verði hún að bera tjón sitt sjálf til samræmis við það. Vísar stefndi einkum til hins langa starfstíma áfrýjanda á leikskólanum og að hún hafi að minnsta kosti mátt vita að það kynni að vera hálka á þessu svæði. Henni hafi borið að sýna fyllstu varkárni enda hafi hún gjörþekkt umhverfið.

Áfrýjandi var á leið til vinnu og samtímis með dóttur sín á leikskólann er slysið varð. Þótt henni væri kunnugt um hálku á stígnum þennan morgun átti hún ekki annan kost en að fara þessa leið til vinnustaðar síns. Ósannað er að hún hafi ekki farið gætilega umrætt sinn eins og hún heldur fram. Er því ekki fallist á að áfrýjandi skuli vera meðábyrg að slysinu og bera þess vegna hluta af tjóni sínu sjálf.

Samkvæmt framansögðu tel ég að stefndi eigi að bera óskerta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni því er áfrýjandi varð fyrir í slysinu 3. desember 2003 við leikskólann Heiðarborg. Ég tel að stefndi eigi að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. júní sl., var höfðað 30. nóvember 2007.

Stefnandi er Guðrún Ólöf Sumarliðadóttir, Fljótaseli 24, Reykjavík.

Stefndi er Reykjavíkurborg.

Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns þess sem stefnandi varð fyrir þann 3. desember 2003, á göngustíg við leikskólann Heiðarborg í Reykjavík.

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning eða að mati dómsins, í samræmi við þá hagsmuni sem í húfi eru og vinnu málflytjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Ekki eru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda. 

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Til vara krefst stefndi krefst þess að verða aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna þess slyss sem stefnandi varð fyrir þann 3. desember 2003 og að málskostnaður verði felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar enda hefur stefnandi ekki gert neinar kröfur á hendur félaginu.

Málavextir

Málavextir eru þeir að stefnandi starfaði sem leiðbeinandi við leikskólann Heiðarbæ í Árbæjarhverfi, Reykjavík. Hún hóf störf  þar í febrúar 1996. Klukkan 08.00 að morgni 3. desember 2003 var stefnandi á leið til vinnu sinnar. Með stefnanda í för var fjögurra ára gömul dóttir hennar sem var nemandi í leikskólanum. Eftir að stefnandi hafði lagt bifreið sinni á bílastæði við leikskólann, gekk hún ásamt dóttur sinni eftir gangstíg í átt að leikskólanum. Vildi þá ekki betur til en svo að stefnandi rann í hálku, sem þar hafði myndast, og féll aftur fyrir sig. Lenti hún illa á bakinu auk þess sem vinstri handleggur og höfuð hennar skullu í jörðina. Stefnandi kveðst hafa farið varlega og hafa verið í grófbotna skóm. Þrátt fyrir það hafi hún ekki náð að afstýra slysinu vegna flughálku sem hafði myndast á göngustígnum.

Stefnandi kveðst hafa leitað samdægurs til læknis. Í færslu í sjúkraskrá hennar segir að hún hafi runnið í hálku um morguninn á leið til vinnu, og hlotið áverka, m.a. á baki, hálsi og hnakka. Finni hún fyrir dofa aftan í hnakka sem leiði upp í höfuð og niður með hálsi. Einnig þreifieymsli yfir hryggjartindum um ofanverðan brjósthrygg.

Samkvæmt læknisvottorði Hjördísar Harðardóttur hefur stefnandi allt frá slysdegi glímt við afleiðingar þessa slyss.

Með bréfi stefnanda til réttargæslustefnda, dags. 22. mars 2007, var þess óskað að viðurkennd yrði skaðabótaskylda stefnda vegna slyss stefnanda og tjón hennar greitt úr ábyrgðartryggingu stefnda. Með svarbréfi réttargæslustefnda, dags. 14. september 2007, var bótaskyldu stefnda hafnað. Við þá niðurstöðu kveðst stefnandi ekki geta unað og hefur því höfðað mál þetta.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að stefndi sé skaðabótaskyldur, samkvæmt almennu skaðabótareglunni, á slysinu. Slysið megi rekja til vanbúnaðar og óforsvaranlegra aðstæðna á gangstíg við leikskóla stefnda, Heiðarborg, í Árbæjarhverfi Reykjavíkur, og/eða ófullnægjandi viðbragða starfsmanna stefnda við hálkumyndun á göngustígnum og þeirri slysahættu sem henni fylgdi. Beri stefndi því ábyrgð á því líkamstjóni stefnanda sem af slysinu hlaust, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga.

Í málinu liggi fyrir að stefnandi slasaðist er henni skrikaði fótur og hún missti jafnvægið í hálku sem hafði myndast á göngustíg sem liggur að leikskólanum Heiðarborg. Vísist hér til vottorðs Veðurstofu Íslands, yfirlýsingar Emelíu B. Möller, leikskólastjóra Heiðarborgar, og bréfs réttargæslustefnda 14. september 2007.

Byggt er á því að stefnda hafi borið að sjá til þess að umbúnaður göngustígsins, sem liggur að leikskólanum Heiðarborg, væri forsvaranlegar og hefði ekki í för með sér slysahættu fyrir þá gangandi vegfarendur er nýttu sér þjónustu skólans. Hafi hvílt sérstaklega rík skylda á stefnda, sem opinberum aðila, að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi vegfarenda á göngustígnum að leikskólanum, sem sé eina leiðin frá bílastæði að leikskólanum. Hafi starfsmönnum leikskólans, eða öðrum starfsmönnum stefnda, borið að tryggja að umbúnaður gönguleiðarinnar væri forsvaranlegur þannig að öryggi vegfarenda væri tryggt, svo sem með því að sand- eða saltbera göngustíginn, en það hefði ekki verið mikið verk, enda fjarlægð frá bílastæði að leikskólanum ekki nema nokkrir tugir metra.

Fyrir liggi að stefnda hafi verið kunnugt um hálkumyndun í efri byggðum borgarinnar umræddan morgun, m.a. í Árbæjar- og Seláshverfi. Verði að ætla að honum hafi þá þegar borið að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slysahættu við stofnanir borgarinnar. Telja verði að sérstaklega brýnt hafi verið að gera ráðstafanir á göngustígnum að leikskólanum, þar sem hann hafi hvorki verið upphitaður né hafi þar verið lýsing. Því hafi verið kolniðamyrkur við stíginn í þeim erfiðu aðstæðum er þar höfðu skapast.

Telja verði einnig að starfsmönnum leikskólans, sem sumir hverjir hafi verið mættir til vinnu klukkan 07.30 um morguninn, og jafnvel fyrr, hafi borið að grípa til ráðstafana vegna hálkumyndunarinnar, svo sem með því að bera sand eða salt á göngustíginn, áður en von væri á foreldrum með börn sín á leikskólann, milli klukkan 08.00 og 09.00. Ekkert hafi hins vegar verið aðhafst í þessum efnum.

Telja verði einnig að sérstaklega brýn nauðsyn hafi verið til að fylgjast með hálkumyndun á göngustígnum og gera ráðstafanir til að tryggja þar öryggi vegfarenda. Einkum hafi það verið brýnt í ljósi þess að þegar stefnandi féll hafi það ekki verið í fyrsta skiptið sem starfsmenn leikskólans eða foreldrar barna á leikskólanum féllu þar í hálku. Um þetta hafi starfsmönnum stefnda auðvitað verið kunnugt en þrátt fyrir það hafi engar ráðstafanir verið gerðar vegna hálkumyndunar á göngustígnum umræddan morgun.

Til viðbótar því að engar ráðstafanir voru gerðar til að bregðast við hálkumyndun á göngustígnum, þá liggi fyrir að engin lýsing hafi verið á stígnum, sem gert hafi það að verkum að stefnanda hafi nánast verið ókleift að átta sig með góðu móti á aðstæðum. Hún hafi ekki séð, vegna myrkurs, hvar myndast hafði hálka á göngustígnum. Hafi það leitt til þess að þrátt fyrir að stefnandi hafi farið eins varlega og mögulegt var, með dóttur sína sér við hlið, hafi það ekki dugað til að afstýra slysi hennar. Augljóst sé að hefði verið fullnægjandi lýsing við göngustíginn hefði stefnandi átt hægara með að átta sig á aðstæðum og fóta sig á göngustígnum og hefði þá að öllum líkindum ekki slasast. Í febrúar 2005 hafi verið komið upp ljósastaurum við göngustíginn, að gefnu tilefni, en ljóst megi vera að það hefði átt að gera miklu fyrr.

Auk alls framangreinds liggi fyrir að upphitun/bræðslukerfi hafi ekki verið í göngustígnum þegar slysið varð. Hefði slíkt kerfi verið til staðar hefði slys stefnanda ekki borið að. Einfalt hefði verið að koma slíkum búnaði fyrir, og hefði verið eðlilegt að slíkur búnaður væri til staðar, sérstaklega í ljósi þeirrar starfsemi sem fram fór í leikskólanum og vegna þeirra sem þangað þurftu að sækja. Með því að sjá ekki til þess að göngustígurinn væri upphitaður, en hann sé vel að merkja eina og beina leiðin í leikskólann, hafi stefndi brotið gegn grein 199.4 byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar segi að forráðamönnum opinberra fasteigna sé skylt að setja upphitun í umferðarstétt næst aðalinngangi viðkomandi húss þar sem því verði við komið. Ekki sé hægt að fallast á það með réttargæslustefnda að einungis göngustígurinn innan girðingar leikskólans teljist til umferðarstéttar næst aðalinngangi. Aðstæður við leikskólann Heiðarborg séu þannig að frá bílastæði að inngangi leikskólans verði að ganga umræddan göngustíg. Ekki sé hægt að fallast á það með stefnda að girðing leikskólans, sem sé sett upp í þeim tilgangi að tryggja öryggi barna leikskólans, leiði til þess að einungis göngustígurinn innan girðingar leikskólans teljist falla undir framangreint ákvæði byggingarreglugerðarinnar, en ekki sá hluti göngustígsins sem liggi utan girðingarinnar.

Stefnandi telur að sé horft til alls framangreinds, þess að engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að bregðast við hálkumyndun á göngustígnum, engin handrið eða lýsing hafi verið við göngustíginn og að göngustígurinn hafi ekki verið upphitaður, eins og kveðið sé á um í byggingarreglugerð, verði að telja að allar aðstæður og umbúnaður göngustígsins umrætt sinn hafi verið allsendis óforsvaranlegur. Verði stefndi af þessum sökum að bera ábyrgð á líkamstjóni stefnanda á grundvelli sakarreglu og/eða húsbóndaábyrgðarreglu skaðabótaréttarins.            

Stefnandi hafni því að slys hennar verði rakið til óhappatilviks og/eða eigin gáleysis. Í skaðabótarétti teljist óhapp vera það atvik sem engum verði kennt um. Augljóst megi vera að svo hafi  ekki verið hér. Stefnandi telur einsýnt, með vísan til alls framangreinds, að slys hennar megi að öllu leyti rekja til óforsvaranlegra aðstæðna og umbúnaðar á umræddum göngustíg og/eða þess að stefndi hafi ekki með neinum hætti brugðist við hálkumyndun á göngustígnum. Liggi ekkert fyrir um það í málinu að stefnandi hafi hagað sér með gáleysislegum eða óforsvaranlegum hætti umrætt sinn.

Stefnandi byggir á almennum reglum skaðabótaréttarins, um skaðabætur utan samninga, sakarreglunni og reglunni um ábyrgð vinnuveitenda á saknæmum verkum/aðgæsluleysi starfsmanna sinna. Einnig er byggt á reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð fasteignareigenda á umbúnaði fasteigna sinna o.fl. Einnig er byggt á reglum skaðabótalaga nr. 50/1993, og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Um málskostnað vísast til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. Um virðisaukaskatt vísast til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld og beri henni því nauðsyn til þess að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Um heimild til höfðunar viðurkenningarmáls vísast til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að slysið sé ekki að rekja til atvika eða aðstæðna sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Af gögnum málsins megi ráða að orsök slyssins hafi verið óhappatilviljun og/eða eigin sök stefnanda. Skilyrðum sakarreglunnar sé ekki fullnægt og hafnar stefndi bótaábyrgð.

Framangreindu til stuðnings vísar stefndi til þess að ekki sé unnt að rekja tjón stefnanda til vanbúnaðar eða óforsvaranlegra aðstæðna á göngustíg við leikskólann Heiðarborg þann 3. desember 2003. Verði slysið heldur ekki rakið til ófullnægjandi viðbragða starfsmanna stefnda, hvorki samstarfsmanna stefnanda né annarra starfsmanna stefnda. Er því mótmælt að sérstaklega rík skylda hafi hvílt á stefnda, sem opinberum aðila, að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi vegfarenda á umræddum göngustíg.

Samkvæmt stefnu hafi óhappið átt sér stað kl. 08:00 að morgni þann 3. desember 2003. Stefnandi, sem hafði verið starfsmaður leikskólans um nokkurra ára skeið, hafi vitað eða mátti vita, að ef hálka væri á göngustígum við leikskólann svo snemma dagsins gæti hún ekki gert ráð fyrir að búið væri að salt- eða sandbera þann göngustíg sem hún féll á. Vísar stefndi til þess að ekki sé meiri hætta við þennan tiltekna göngustíg en við aðra göngustíga í borginni þegar hugsanleg hálka er á jörðu. Slys stefnanda sé ekki hægt að rekja til saknæmrar hegðunar starfsmanna stefnda heldur sé um óhappatilvik að ræða sem stefnandi beri sjálf ábyrgð á.

Þá er því einnig mótmælt sérstaklega að viðbrögð samstarfsmanna stefnanda við leikskólann Heiðarborg hafi verið ófullnægjandi. Ótækt sé af hálfu stefnanda að gera kröfu til þess að aðrir starfsmenn leikskólans væru búnir að gera tilteknar öryggisráðstafanir á þeim tíma er óhappið átti sér stað, þ.e. að salt- eða sandbera göngustíginn. Þessu til stuðnings vísar stefnandi sérstaklega til þess að göngustígurinn liggi ekki næst aðalinngangi leikskólans. Ljóst sé að slys stefnanda verði ekki rakið til saknæmrar hegðunar samstarfsmanna hennar. Um óhappatilvik sé að ræða sem stefnandi beri sjálf ábyrgð á.

Þá vísar stefndi til þess að af framlögðu vottorði Veðurstofu Íslands verði ráðið að bjartviðri og léttskýjað hafi verið aðfaranótt 3. desember, en skýjað og hitastig 3,2°C kl. 06:00 árdegis í Reykjavík. Klukkan 09:00 hafi verið rigning og hitastig skráð 5,7°C. Veðurskilyrði hafi ekki gefið starfsmönnum stefnda tilefni til sérstakra öryggisráðstafana sem séu frábrugðnar því sem hefðbundið er. Verði slysið því ekki rakið til yfirsjónar eða vanrækslu starfsmanna sem stefndi beri ábyrgð á. Þá vísar stefndi til þess að þennan tiltekna morgun hafi hverfisbækistöð í Breiðholti látið þjónustumiðstöðina á Stórhöfða vita um hálku á bílastæðum í efri byggðum og hafi óskaði eftir því að sandur yrði borinn á þau. Fjórir traktorar hafi farið út að sanda kl. 07:30, þar af einn í Árbæjar- og Seláshverfi. Byggir stefndi á því að sú skylda verði ekki lögð á hann á sand- eða saltbera alla göngustíga og bílastæði hverfisins. Þá sé ósannað að hálka, sem stefnandi lýsi, hafi verið meiri en annars staðar á gönguleiðum í þéttbýli eða að slysið verið rakið til vanbúnaðar eða vanrækslu af hálfu stefnda. Er staðhæfingum stefnanda sérstaklega mótmælt sem ósönnuðum um að þennan morgun hafi verið flughálka á göngustíg þeim er stefnandi féll á.

Er því jafnframt mótmælt af hálfu stefnda að sú skylda hafi hvílt á honum að setja upphitun í göngustíginn sem stefnandi vísar til að hún hafi fallið á. Liggi sá göngustígur ekki næst aðalinngangi leikskólans. Þegar af þeirri ástæðu eigi tilvísanir stefnanda til greinar 199.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 ekki við um tjón hennar.

Þá byggir stefndi á því að samkvæmt teikningum sé lengdarhalli göngustígsins 48 prómill. Ekki sé venja að setja handrið við göngustíga sem séu með eins litlum halla og sá sem stefnandi féll á. Jafnframt séu örfá dæmi um handrið við göngustíga sem séu með yfir 100 prómill lengdarhalla. Vísar stefndi til þess að engin krafa sé til þess í lögum eða reglum og/eða reglugerðum að hafa handrið við göngustíga sem þennan.

Stefndi mótmælir því að ófullnægjandi lýsing hafi verið við göngustíginn. Verði hins vegar talið að lýsingunni hafi verið áfátt er á því byggt af hálfu stefnda að bótaskylda sé ekki fyrir hendi vegna þessa enda hafi stefnandi getað komið í veg fyrir tjón með nægilegri aðgát.

Er staðhæfingu stefnanda, um að þegar hún féll hafi það alls ekki verið í fyrsta skiptið sem starfsmenn eða foreldrar barna hefðu fallið á þessum tiltekna göngustíg, jafnframt mótmælt sem rangri og ósannaðri. Hafi engin gögn verðið lögð fram staðhæfingunni til stuðnings.

Til stuðnings sýknukröfu stefnda, á grundvelli eigin sakar stefnanda, er einkum vísað til þess að stefnanda hafi borið að sýna sérstaka aðgát þegar hún gekk á þeim göngustíg þar sem slysið átti sér stað. Hálka geti myndast mjög skyndilega yfir vetrarmánuðina á Íslandi og verði gangandi vegfarendur að vera viðbúnir því. Stefnandi hafði verið starfsmaður leikskólans síðastliðin sjö ár áður en óhappið átti sér stað og hafi því margoft gengið um þennan göngustíg. Hún hafi því gjörþekkt umhverfið og hafi borið að gæta fyllstu varkárni. Stefnandi hafi vitað eða mátti vita að það kynni að vera hált á þessu svæði enda sé það ekki upphitað eða gerðar aðrar sérstakar öryggisráðstafanir. Gáleysi stefnanda sé orsök slyssins.

Af framangreindu telur stefndi ljóst vera að slysið verði hvorki rakið til saknæmrar háttsemi né vanbúnaðar. Tjón stefnanda sé fyrst og fremst að rekja til óhappatilviks og/eða eigin sakar hennar. Á afleiðingum slyssins beri stefnandi ein ábyrgð. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Til vara byggir stefndi aðallega á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til eigin sakar hennar og/eða óhappatilviljunar. Stefnandi eigi því að bera stærstan hluta tjóns síns sjálf þar sem eigin sök hennar upphefji bótaskylduna að mestu leyti. Vísar stefndi um þetta til þess sem áður hefur verið rakið til stuðnings aðalkröfu.

Stefndi vísar sérstaklega til þess að stefnandi hóf störf á leikskólanum Heiðarborg í febrúar 1996. Stefnandi hafi því vitað eða mátti vita að það kynni að vera hált á þessu svæði. Hafi henni borið að sýna fyllstu varkárni, enda hafi henni verið aðstæður allar kunnar og hafi hún gjörþekkt umhverfið.

Að öðru leyti er, til stuðnings varakröfu stefnda, byggt á sömu málsástæðum og að framan eru færðar til stuðnings aðalkröfu.

Um lagarök vísar stefndi einkum til almennra reglna skaðabótaréttar, um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, óhappatilvik, gáleysi og eigin sök tjónþola. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnandi starfaði sem leiðbeinandi við leikskólann Heiðarborg í Árbæ, Reykjavík. Hinn 3. desember 2003 var stefnandi á leið til vinnu sinnar snemma morguns. Er hún var að koma að leikskólanum rann hún til á hálku og féll aftur fyrir sig. Byggir stefnandi á því í málinu að hún hafi við slysið orðið fyrir líkamstjóni sem stefndi, Reykjavíkurborg, beri bótaábyrgð á.

Fyrir dómi lýsti stefnandi aðdraganda slyssins með þeim hætti að hún hafi lagt bíl sínum á bílastæði sem liggur við leikskólann. Hún hafi verið að koma að göngustíg sem liggur meðfram leikskólanum. Hún hafi ætlað að grípa í grindverkið sem liggur umhverfis leikskólann, en fallið áður en henni tókst að grípa í það. Kvað hún gangstéttina hafa verið ísi lagða. Þá hafi ekki verið nein lýsing á þessu svæði. Aðspurð kvaðst stefnandi hafa átt von á því að göngustígurinn væri háll á þessum árstíma.

Dómari og lögmenn aðila fóru á vettvang og könnuðu aðstæður. Við eina hlið leikskólans liggur göngustígur, sem ætlaður er almenningi, en ekki eingöngu þeim sem erindi eiga í leikskólann. Á aðra hlið liggur bílastæði. Þeir sem koma frá bílastæðinu þurfa að ganga smáspotta á göngustígnum áður en þeir koma að hliði leikskólans. Er stefnandi féll var hún á mörkum bílastæðisins og göngustígsins. Einn ljósastaur var sjáanlegur í nágrenni slysstaðarins. Með hliðsjón af framburði Emelíu B. Möller leikskólastjóra og Þórhildar Svavarsdóttur deildarstjóra þykir mega leggja til grundvallar að lýsing hafi verið ófullnægjandi á göngustígnum.

Eins og rakið hefur verið varð slysið ekki innan lóðar leikskólans heldur á mörkum bílastæðis og göngustígs sem ætlaður var almenningi. Samkvæmt framburði stefnanda og Emelíu B. Möller var það ekki í verkahring starfsmanna leikskólans að gera ráðstafanir til að sandbera göngustíginn eða bera á hann íseyðandi efni til að forða slysum. Bar Emelía að þegar hálka myndaðist hefði hún haft samband við starfsmenn Reykjavíkurborgar í hverfisstöð Árbæjarhverfis sem hafi þá komið eins fljótt og þeir gátu.

Samkvæmt framansögðu þykir því ekki sýnt fram á að slys stefnanda verði rakið til saknæmrar háttsemi eða vanrækslu starfsmanna leikskólans.

Stefnandi byggir einnig á því að stefndi, Reykjavíkurborg, beri ábyrgð á slysinu þar sem aðstæður á göngustígnum hafi verið óforsvaranlegar. Hafi stefnda, sem opinberum aðila, borið að sjá til þess að ráðstafanir væru gerðar til þess að tryggja öryggi vegfarenda um göngustíginn sem sé eina leiðin frá bílastæðinu að göngustígnum.  Vísar stefnandi til greinar 199.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Ekki er fallist á að stefndi beri bótaábyrgð á grundvelli byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar sem ekki verður séð að hún eigi hér við. Eins og áður er rakið varð slysið utan girðingar leikskólans, á göngustíg sem er ætlaður almenningi en ekki við aðalinngang leikskólans.

Stefnandi var starfsmaður leikskólans og hafði starfað þar í um það bil átta ár. Hún var því vel kunnug aðstæðum. Bar henni að gæta varkárni við þær veðuraðstæður sem voru hinn umrædda dag, enda bar hún fyrir dómi að hún hefði búist við að hálka væri á göngustígnum. Samkvæmt framansögðu telst slys stefnanda verða rakið til óhappatilviljunar eða gáleysis stefnanda.

Ber samkvæmt framansögðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Reykjavíkurborg, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Guðrúnar Ólafar Sumarliðadóttur.

Málskostnaður fellur niður.