Hæstiréttur íslands

Mál nr. 522/2010


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón


Fimmtudaginn 19. maí 2011.

Nr. 522/2010.

Óskar Heimir Kristjánsson

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

gegn

SL ehf.

(Hákon Árnason hrl.)

Vinnuslys. Líkamstjón.

Ó krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu S vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í slysi við vinnu sína hjá S þegar hann féll af vinnupalli. Talið var að ekkert lægi fyrir um hvernig slysið vildi til en Ó bar sjálfur fyrir dómi að hann hlyti að hafa stigið fram af pallinum. Þegar það var virt varð ekki séð að slysið hefði stafað af atvikum, sem S bæri tjón á, heldur virtist um óhappatilvik að ræða sem rekja mætti til aðgæsluleysis Ó sjálfs. Bar því að sýkna S af öllum kröfum Ó í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. september 2010. Hann krefst viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í slysi við vinnu sína hjá stefnda við Lækjargötu 2 í Reykjavík 11. maí 2007. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Óskar Heimir Kristjánsson, greiði stefnda, SL ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2010.

I

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 10. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Óskari Heimi Kristjánssyni, kt. 230567-5069, Hraunbrún 23, Hafnarfirði, með stefnu, birtri 15. júlí 2009, á hendur SL ehf., kt. 611105-0290, Álfaskeiði 127, Hafnarfirði, og til réttargæzlu Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda, SL ehf., vegna líkamstjóns þess, er stefnandi hlaut í vinnuslysi þann 11. maí 2007, þegar hann féll af vinnupalli, er hann var við vinnu sína fyrir stefnda, við Lækjargötu 2, Reykjavík.  Þá er krafizt málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins, í samræmi við þá hagsmuni, sem í húfi eru, og vinnu málflytjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Ekki eru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæzlustefnda.

Dómkröfur stefnda SL ehf. eru þær aðallega, að sýknað verði af kröfum stefnanda, en til vara er þess krafizt, að  stefnandi verði dæmdur til að bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.  Í aðalkröfu er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti, en í varakröfu er þess krafizt, að málskostnaður verði felldur niður.

II

Málavextir

Stefnandi er vélstjóri að mennt. Hann starfaði um árabil sem sjómaður, fyrst sem háseti en síðar sem vélstjóri, allt til loka ágúst 2005, þegar hann hætti á sjónum.  Í maí 2006 hóf stefnandi störf hjá stefnda, sem er byggingaverktaki.  Þann 11. maí 2007, þegar stefnandi var að störfum við uppsetningu fallvarna við vinnupall við brunarústir fasteignarinnar Lækjargötu 2 í Reykjavík, féll stefnandi af pallinum úr um þriggja metra hæð og slasaðist nokkuð.  Stefndi hafði tekið að sér vinnu við niðurrif brunarústanna sem undirverktaki hjá ÍAV þjónustu, sem var aðalverktaki og hafði eftirlit með öllu verkinu, þar með talið uppsetningu vinnupallsins.  Sá byggingastjóri verksins Guðmundur H. Gunnarsson hjá ÍAV þjónustu um það eftirlit.  Kemur fram í lögregluskýrslu, að hæð pallsins, frá þeim stað, þar sem stefnandi var að vinna og niður á gangstétt hafi verið 3 metrar og breiddin 1,22 metrar. 

Engir sjónarvottar voru að slysinu, en stefnandi lýsir aðdraganda þess svo í stefnu, að hann hafi síðdegis þennan dag verið við vinnu sína á 1. hæð verkpallsins, í a.m.k. þriggja metra hæð. Hafi hann verið einn að vinna að uppsetningu pallsins og hafði verið það um nokkurn tíma.  Þegar slysið varð hafi hann ætlað að festa aukastoð við annað hornið á öðrum enda verkpallsins, svo hægt væri að festa þar krossviðarplötu og loka þannig enda pallsins, en þegar hann var að bera stoðina við og hugðist festa hana, hafi hann misst jafnvægið og fallið fram af pallinum með stoðinni.  Hann hafi lent á gangstéttinni með stoðina undir sér og/eða lent á ruslatunnu, sem þar hafi staðið, full af grjóti, og hafi hann hlotið við það mjög alvarlega áverka.

Í læknisvottorði Sigrúnar Perlu Böðvarsdóttur, dags. 19. júní 2007, kemur fram, að stefnandi hafi m.a. brotið fjölda rifbeina á vinstri síðu og hafi eitt rifbeinið stungizt í hjarta hans.  Gerð hafi verið bráðaaðgerð á hjartanu og hafi stefnandi í framhaldinu legið í fjóra daga á gjörgæzludeild.  Alls hafi hann þurft að dveljast á sjúkrahúsi í 18 daga eftir slysið, allt til 29. maí 2007, er hann útskrifaðist.  Í læknisvottorði Þórarins H. Þorbergssonar, dags. 1. júlí 2009, er ástandi stefnanda lýst, þar sem m.a. kemur fram, að hann hafi hlotið varanlegt líkamstjón í slysinu.

Í ódagsettri umsögn Vinnueftirlits ríkisins er fjallað um aðstæður á slysstað og orsakir slyssins.  Segir þar m.a. svo:  „Vinna við uppsetningu vinnupalla og fallvarna á þá er hættuleg og erfitt að tryggja öryggi starfsmanna við það að fullu.  Að öðru leyti voru aðstæður í samræmi við það sem vænta má á vinnustað sem þessum og voru ekki gerðar athugasemdir við þær. Veður var þurrt og bjart.  Orsök slyssins virðist helst mega rekja til hættulegra vinnuaðstæðna.“

Með bréfi, dags. 24. janúar 2008, var þess óskað við réttargæzlustefnda, að hann viðurkenndi bótaskyldu stefnda vegna slyss stefnanda, en þeirri málaleitan var hafnað með bréfi, dags. 6. ágúst 2008.

Snýst ágreiningur aðila um bótaskyldu stefnda.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á því, að slys hans sé skaðabótaskylt samkvæmt almennu skaðabótareglunni.  Slys hans megi rekja til þess, að honum hafi verið falið að vinna að hættulegu verki við hættulegar aðstæður.  Hafi umræddur verkpallur, sem hann féll niður af, verið vanbúinn.  Skortur hafi verið á öryggisbúnaði og að fullnægjandi öryggisráðstafanir væru gerðar, auk þess sem verkstjórn og eftirliti stefnda á verkstað hafi verið ábótavant.  Stefndi beri því ábyrgð á líkamstjóni stefnanda, sem af slysinu hlauzt, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga og húsbóndaábyrgð.

Í lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, séu lagðar ríkar skyldur á herðar atvinnurekendum að tryggja öryggi starfsmanna.  Byggi stefnandi á því, að stefndi hafi vanrækt að framfylgja umræddum skyldum, sem leitt hafi til þess að hann slasaðist.

Í 13. gr. laganna, sé kveðið á um það, að atvinnurekandi skuli tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað við framkvæmd vinnu og um vélar, tækjabúnað og fleira. Í 1. mgr. 14. gr. laganna segi, að atvinnurekandi skuli gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu, sem kunni að vera bundin við starf þeirra.  Atvinnurekandi skuli þar að auki sjá um, að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt, að ekki stafi hætta af.  Í 17. gr. laganna segi, að þar sem fleiri atvinnurekendur eigi aðild að starfsemi á sama vinnustað, skuli þeir og aðrir, sem þar starfi, sameiginlega stuðla að því að tryggja góðan aðbúnað og heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum.  Í 37. gr. laganna segi, að vinnu skuli haga og framkvæma þannig, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.  Í 42. gr. laganna segi, að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður, að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.  Í 46. gr. sömu laga sé síðan mælt fyrir um, að áhöld, tæki og annar búnaður skuli þannig úr garði gerður, að gætt sé fyllsta öryggis.  Í þremur síðastgreindu ákvæðunum segi, að fylgja skuli ákvæðum laga, reglugerða og fyrirmæla Vinnueftirlits ríkisins, að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.

Með vísan til framangreindra skyldna, sem lagðar séu á stefnda, hafi honum borið að tryggja stefnanda örugg starfsskilyrði við hinar hættulegu aðstæður, þar með talið að öryggisbúnaður væri til staðar, er kæmi í veg fyrir slysahættu.  Þetta hafi stefndi vanrækt að gera, og á því beri hann ábyrgð.

Eins og fram komi í tilkynningu stefnda um slysið til Vinnueftirlits ríkisins á dskj. nr. 5, hafi stefnandi hafið störf hjá stefnda í maí 2006.  Hann hafi því verið búinn að starfa hjá stefnda í rétt eitt ár, er hann slasaðist.  Allt til loka ágúst 2005 hafi hann starfað sem sjómaður, einkum sem vélstjóri, á hinum ýmsu fiskiskipum.  Hann hafi því ekki, er hann hóf störf hjá stefnda, haft reynslu af byggingavinnu eða uppsetningu verkpalla og fallvarna.  Hafi umræddur verkpallur raunar verið sá fyrsti, sem hann hafi unnið við að setja upp.

Á því eina ári, sem stefnandi hafi verið búinn að vinna fyrir stefnda, hafi hann varið mörgum mánuðum í vinnu við að tína gallaðar flísar af útveggjum háhýsa í Skuggahverfinu og jafnframt verið löngum stundum við glerísetningu í glugga á háhýsi í Borgartúni.  Hann hafi því lítið unnið við eða á verkpöllum, þegar komið hafi að uppsetningu verkpallsins og fallvarna hans í Austurstræti.  Í þessu ljósi sé því mótmælt sem augljóslega röngu og ósönnuðu, sem réttargæzlustefndi hafi haldið fram, að stefnandi hafi verið orðinn vanur pallavinnu og unnið töluvert í þökum á þeim tíma, sem umrætt atvik átti sér stað.  Eina þakvinnan sem stefnandi hafði unnið við, þegar hér var komið sögu, hafi verið er hann aðstoðaði stefnda við þakskipti á einbýlishúsi í Garðabæ.

Þegar stefnandi slasaðist hafi hann verið einn að vinna að hinu vandasama og hættulega verki, enda hafi það verið vegfarendur, en ekki samstarfsmenn hans eða fyrirsvarsmaður stefnda, sem var á verkstað, sem hafi orðið þess fyrst varir, að stefnandi hefði fallið niður af verkpallinum og slasazt, eins og komi m.a. fram í framburði Elvars Más Kjartanssonar, samstarfsmanns stefnanda, hjá lögreglu.

Þrátt fyrir reynsluleysi stefnanda við uppsetningu verkpalla og fallvarna og hinar hættulegu vinnuaðstæður, sbr. umsögn Vinnueftirlits ríkisins, hafi stefnanda einum verið gert að vinna við þetta vandasama verk, án sérstaks undirbúnings, leiðbeininga eða eftirlits af hálfu stefnda og jafnframt án þess að stefndi legði til sérstakar fallvarnir, t.d. svokallaðan spotta eða línu, en slíkur öryggisbúnaður hefði komið í veg fyrir slys stefnanda.  Stefnandi hafi heldur ekki notið sérstakrar verkstjórnar stefnda, svo sem sérstök ástæða hafi verið til, sbr. framangreint, en með því hafi stefndi gerzt brotlegur gegn ákvæðum 20. – 23. gr. laga nr. 46/1980, þar sem kveðið sé á um ábyrgð og skyldur verkstjóra við verkframkvæmdir.

Í bréfi réttargæzlustefnda, dags. 6. ágúst 2008, komi fram, að eftirlitsmaður hafi komið daglega og yfirfarið verkpalla.  Hið rétta sé, að eftirlitsmaðurinn hafi ekki komið daglega, en hann hafi þó komið nokkrum sinnum til eftirlits.  Hafi hann m.a. haft uppi athugasemdir við uppsetningu stefnanda á verkpallinum.  Engu að síður hafi stefndi látið það óátalið, að stefnandi væri einn að vinna við uppsetningu verkpallsins og fallvarna hans, þó svo að honum væri ljóst, m.a. með hliðsjón af athugasemdum eftirlitsmannsins, að reynsla stefnanda væri lítil, og fullnægjandi verkþekking væri ekki fyrir hendi.

Í ljósi alls framangreinds hljóti það að teljast hafa verið óforsvaranlegt af stefnda, að fela stefnanda að vinna einum að umræddu verki við hinar hættulegu vinnuaðstæður.  Stefnandi telji raunar, í ljósi hinna hættulegu vinnuaðstæðna og reynsluleysis síns, að það hafi hvílt alveg sérstaklega rík skylda á stefnda að tryggja öryggi hans og sjá til þess, að allur aðbúnaður, öryggi og eftirlit væru í forsvaranlegu horfi.  Þar sem stefndi hafi vanrækt, að svo væri, verði hann að bera bótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda.

Stefnandi telji, að stefndi hafi, með framangreindri vanrækslu sinni, gerzt brotlegur við reglugerð nr. 367/2006, um notkun tækja, en þar segi í grein 4.3.6 í II. viðauka við reglugerðina, að „einungis er heimilt að setja upp vinnupall, taka niður eða breyta verulega undir stjórn aðila sem er til þess hæfur og af starfsmönnum sem hafa fengið viðeigandi og sérstaka þjálfun í slíkum störfum með tilliti til þeirrar sérstöku áhættu sem þeim fylgir...“.  Ljóst sé, að stefnandi hafi ekki haft þá reynslu og þjálfun, sem áskilið sé í ákvæðinu.  Hafi stefndi jafnframt sýnt af sér saknæma vanrækslu með því að sjá ekki til þess, að þar til bær aðili hefði umsjón og eftirlit með verkinu og stjórnaði því í umrætt sinn.

Stefnandi vísi hér einnig til 23. gr. reglugerðar nr. 204/1972, um öryggisráðstafanir við byggingavinnu, en þar segi m.a., að við uppsetningu verkpalla skuli „gæta tilhlýðilegrar varúðar og gera þær öryggisráðstafanir, sem kringumstæður kunna að krefjast“.  Ljóst megi vera, að stefndi hafi ekki gripið til nauðsynlegra varúðar- og öryggisráðstafana við hinar hættulegu vinnuaðstæður, sem stefnandi telji, að komið hefðu í veg fyrir slys hans, og því hafi farið sem fór.

Í IV. viðauka við reglugerð nr. 547/1996, sé kveðið á um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð.  Samkvæmt grein 16.2 skuli vinnupallar þannig hannaðir, byggðir, notaðir og þeim viðhaldið, að fólk falli ekki af þeim né verði fyrir fallandi hlutum.  Í grein 21.1 segi svo m.a., að á vinnuflötum og verkpöllum skuli vera handrið, ef hæðin er meira en 2 metrar frá jörðu eða öðrum fleti, og skuli handrið vera alls staðar, þar sem hætta geti verið á, að menn falli niður.  Stefnandi byggi á því, að stefndi hafi ekki tryggt sér þau starfsskilyrði, sem kveðið sé á um í framanröktum ákvæðum reglnanna.

Stefnandi hafni því, að slys hans verði rakið til óhappatilviks og/eða eigin gáleysis.  Stefnandi telji einsýnt, að slys hans megi að öllu leyti rekja til atvika, sem stefndi beri ábyrgð á, þ.e. hins vanbúna verkpalls, ófullnægjandi leiðbeininga, eftirlits og verkstjórnar stefnda og þess að honum hafi verið falið að vinna vandasamt verk við hættulegar aðstæður.  Á þessu verði stefndi að bera fulla ábyrgð.  Ósannað sé hins vegar, að stefnandi hafi hagað sér með gáleysislegum hætti í umrætt sinn.  Á það sé einnig bent hér, að stefnandi hafi einvörðungu verið búinn að vinna fyrir stefnda í eitt ár er hann slasaðist, en fram að því hafi hann starfað sem sjómaður.  Á slysdegi hafi hann haft litla reynslu af pallavinnu og enga af uppsetningu verkpalla og fallvarna.  Í því ljósi sé ekki hægt að láta hann bera hluta af tjóni sínu sjálfur, með vísan til þess að hann hafi, í ljósi reynslu sinnar, mátt bera sig einhvern veginn öðruvísi að en hann gerði.

Stefnandi byggi á almennum reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga, sakarreglunni og reglunni um ábyrgð vinnuveitenda á saknæmum verkum og aðgæzluleysi þeirra, sem undir hann heyri.  Einnig sé byggt á skaðabótalögum nr. 50/1993 og lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, báðum með áorðnum breytingum.  Einnig reglum nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, reglugerð nr. 204/1972, um öryggisráðstafanir við byggingavinnu og reglugerð nr. 367/2006, um notkun tækja. Um málskostnað vísist til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.  Um virðisaukaskatt vísist til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Um varnarþing vísist til 41. og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda

Aðalkrafa

Stefndu telji, að engar þær réttarreglur, sem stefnandi nefni máli sínu til stuðnings, hafi verið brotnar af hálfu stefnda.  Í því sambandi bendi stefndu jafnframt á, að brot á réttarreglu leiði aldrei til skaðabótaskyldu, nema tjónið verði rakið beint til viðkomandi brots.  Stefndu mótmæli því málatilbúnaði stefnanda og bendi á eftirfarandi:

Af gögnum málsins verði ekki dregin sú ályktun, að slysið verði rakið til einhverra þeirra atvika, sem bakað gætu stefnda skaðabótaábyrgð.

Þannig komi fram í lögregluskýrslu í málinu, dómskjal nr. 3, að Sigursteinn B. Sævarsson, verkstjóri hjá stefnda, og stefnandi hafi verið að vinna að því að setja upp stoð við endann á vinnupallinum, en sá endi hafi þá verið opinn og óvarinn.  Sé þar síðan haft eftir Sigursteini, að stefnandi hafi verið búinn að tylla stoð upp fyrir opið, en hún hafi hins vegar verið of stutt.  Hafi Sigursteinn síðan farið til að sækja plötu, sem ætlunin hafi verið að negla fyrir opið á enda vinnupallsins.  Það sé því ekki rétt, sem haldið sé fram í stefnu, að stefnandi hafi verið einn að vinna að uppsetningu vinnupallsins.

Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, dskj. nr. 4, segi m.a. eftirfarandi um slysið:  „Tildrög slyssins voru þau að slasaði, sem starfaði hjá SL ehf., var að klæða krossviðarplötur utan á vinnupalla.  Búið var að klæða hliðarnar og komið að því að loka endanum í Austurstræti.  Bilið milli stoðanna var 1,22 m, en plötubreiddin var aðeins 1,20 m.  Slasaði ætlaði því að setja millistoð til að brúa bilið.  Hann var búinn að festa hana að neðan og var að stilla efri endann af.  Ekki er ljóst hvað varð þess valdandi að hann missti jafnvægið og féll fram af pallinum og lenti á gangstéttinni neðan við.  Fallhæðin var um 3 metrar.“

Þá segir eftirfarandi um slysið ofarlega á bls. 2 í stefnu:  „Þegar hér var komið sögu ætlaði hann að festa aukastoð við annað hornið á öðrum enda verkpallsins, svo hægt væri að festa þar krossviðarplötu og loka þannig enda pallsins.  En er hann var að bera stoðina við og hugðist festa  hana, missti hann jafnvægið og féll fram af pallinum með stoðina.“

Stefndu bendi á, að ekkert í framangreindum frásögnum gefi ástæðu til að ætla, að stefnandi hafi dottið vegna þess að eitthvað hafi verið athugavert við vinnupallinn, eða vegna þess að skort hafi á öryggisbúnað eða öryggisráðstafanir.  Þvert á móti staðfesti Vinnueftirlitið, að aðstæður í umrætt sinn hafi verið í samræmi við það, sem vænta megi á slíkum vinnustað, og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við þær.  Auk þess komi fram í skýrslu Vinnueftirlitsins, að umræddan dag hafi veður verið þurrt og bjart.  Stefndu telji augljóst, að ef Vinnueftirlitið hefði talið vinnupallinn vanbúinn, eða öryggismál í ólagi, þá hefði það að sjálfsögðu komið fram í skýrslunni.  Því vísi stefndu fullyrðingum stefnanda í þessa veru algerlega á bug.

Stefndu bendi jafnframt á, að byggingastjóri hafi séð um eftirlit með störfum stefnda fyrir ÍAV þjónustu.  Hafi byggingastjórinn komið reglulega á vinnustaðinn, oftast einu sinni eða tvisvar á dag.  Í þeim tilvikum, þegar gerðar hafi verið athugasemdir við störf stefnda, hafi verið úr því bætt.  Því liggi fyrir, að byggingastjóri hafi talið aðstæður á vinnustað, þegar slysið varð, þar með talinn umræddan vinnupall, vera í fullu samræmi við þær reglur, sem um það gildi.

Þá bendi stefndu á, að þó svo að Vinnueftirlitið hafi, í skýrslu sinni, bent á, að vinna við uppsetningu vinnupalla og fallvarna geti verið hættuleg, skapi það ekki sjálfstæðan skaðabótarétt samkvæmt íslenzkum rétti.  Til þess að skaðabótaréttur stofnist þurfi stefnandi því að sýna fram á, að skilyrði almennu skaðabótareglunnar, eða vinnuveitandaábyrgðarreglu, séu uppfyllt, nokkuð sem stefndu telji, að ekki hafi tekizt.

Þannig sé ekkert fram komið í málinu, sem bent gæti til þess, að slysið verði rakið til athafnar eða athafnleysis, sem haft gæti í för með sér skaðabótaábyrgð stefnda.  Þvert á móti telji stefndu, að ef slysið verði ekki einfaldlega flokkað sem óhappatilvik, sé engu um að kenna nema gáleysi stefnanda sjálfs.

Í þessu sambandi mótmæli stefndu sérstaklega þeirri fullyrðingu í stefnu, að slysið verði rakið til skorts á verkstjórn eða verkeftirliti af hálfu stefnda.  Þannig hafi það verk, sem stefnandi vann, er hann datt, verið einfalt, auk þess sem Sigursteinn verkstjóri hafi unnið að umræddu verki með stefnanda.  Þá hafi verið á það bent í greinargerð stefnda, að ÍAV þjónusta hafi haft stöðugt eftirlit með verkinu.

Stefndu vísi því jafnframt á bug, að meint reynsluleysi stefnanda til slíkra verka geti hafa bakað stefnda bótaábyrgð.  Eins og áður segi, hafi þetta verk, sem stefnandi var að vinna, er hann datt, verið einfalt og hafi ekki útheimt sérþekkingu, auk þess sem stefnandi hafi verið búinn að vinna hjá stefnda í um ár, er slysið varð, sbr. dskj. nr. 5.

Varakrafa

Verði ekki fallizt á aðalkröfu stefnda um sýknu, telji stefndu, að háttsemi stefnanda eigi að leiða til þess að dæma beri á þá leið, að stefnandi verði látinn bera meginhluta tjóns síns sjálfur á grundvelli eigin sakar.  Eins  og að framan greini, telji stefndu, að meginástæða þess, að stefndi féll og slasaðist, hafi verið gálaus háttsemi stefnanda sjálfs.  Um það vísist til þess, er fyrr segi, varðandi aðalkröfu.

Málskostnaðarkröfur stefnda, bæði í aðalkröfu og varakröfu, séu reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. 

IV

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar stefnandi, eigandi og fyrirsvarsmaður stefnda, Sigursteinn Sævarsson, og byggingastjóri verksins, Guðmundur Helgi Gunnarsson.

Samkvæmt framburði stefnanda og Sigursteins Sævarssonar voru þeir að vinna saman að uppbyggingu vinnupallsins, og hafði stefnandi verið búinn að vinna við hann í rúma viku.  Þegar slysið varð var stefnandi að vinna á neðstu hæð pallsins við að loka enda hans, til að koma í veg fyrir fallhættu.  Hafði hann mátað spýtu í opið, sem átti að liggja þvert á það og vera stoð fyrir plötu, sem átti að loka opinu.  Spýtan reyndist of stutt og fór Sigursteinn, að sögn stefnanda, til að sækja stærri spýtu í opið.  Sigursteinn heldur því reyndar fram að hann hafi farið til að sækja plötu til að setja í opið, en hvort heldur sem var skiptir ekki máli fyrir niðurstöðu í máli þessu.  Stefnandi var því einn, þegar slysið varð.  Stefnandi kveðst hafa ætlað að kanna, hvort spýtan passaði annars staðar á pallinum og hafi hann tekið í spýtuna og ekki vitað fyrr til en hann var í loftinu á leið niður, með spýtuna í hendinni.  Gat hann enga skýringu gefið á því fyrir dómi, hvað olli því að hann hrapaði niður.  Hann kvað pallinn hafa verið stöðugan.

Stefnandi ber við reynsluleysi við uppsetningu verkpalla og byggir á því, að honum hafi engu að síður verið falið að vinna einum að uppsetningu pallsins, án sérstaks undirbúnings, leiðbeininga eða eftirlits af hálfu stefnda og án þess að lagðar væru til fallvarnir.  Það kom fram í framburði stefnanda, svo sem fyrr er rakið, að hann hafi ekki verið einn eða eftirlitslaus við verkið, þar sem fyrirsvarsmaður stefnda vann að því með honum, enda þótt hann hefði brugðið sér frá til að sækja efni, þegar slysið átti sér stað.  Þá kvaðst hann hafa unnið við trésmíðar milli túra meðan hann var í sjómennsku, auk þess sem hann hefði verið búinn að vinna í rúmt ár í fullri vinnu við trésmíðar frá því að hann hætti á sjónum.  Fyrirsvarsmaður stefnda og byggingastjóri verksins skýrðu báðir svo frá fyrir dómi, að ekki hefði verið auðvelt að koma fyrir línu eða öryggisneti vegna þrengsla á staðnum.  Þá væri slíkt ekki venjulegt í ekki meiri hæð.     

Stefnandi var að vinna að fallvörnum pallsins, þegar slysið varð.  Hann vissi því af opinu og hættunni, sem af því gat stafað.  Honum mátti þar af leiðandi vera ljóst, að vinna við opið krafðist aðgátar, og að engar fallvarnir voru komnar upp á þeim stað.  Ekki liggur fyrir að aðbúnaður á sjálfum pallinum hafi valdið því, að stefnandi féll niður, og ekkert liggur fyrir um, hvernig slysið vildi til, en sjálfur bar hann fyrir dómi, að hann hlyti að hafa stigið fram af.  Þegar það er virt, verður ekki séð, að slysið hafi stafað af atvikum, sem stefndi ber ábyrgð á, heldur virðist um óhappatilvik að ræða, sem rekja má til aðgæzluleysis stefnanda sjálfs.  Ber því að sýkna stefna af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.  Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, SL ehf. er sýkn af kröfum stefnanda, Óskars Heimis Kristjánssonar.

Málskostnaður fellur niður.