Hæstiréttur íslands

Mál nr. 104/2012

ISS Ísland ehf. (Magnús Guðlaugsson hrl.)
gegn
A (Ólafur Örn Svansson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón


Skaðabætur. Líkamstjón.

A krafði I ehf. um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir þegar hún rann og féll aftur fyrir sig í gólfið er hún kom niður rúllustiga í verslunarmiðstöðinni K. Taldi A ástæðu slyssins hafa verið þá að starfsmaður I ehf. hafi verið að skúra og gólfið verið blautt. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti með vísan til forsendna, kom fram að almennt yrði að leggja ríkar skyldur á starfsmenn ræstingarþjónustu sem hafi þann starfa að þvo gólf í verslunarmiðstöðvum. Sérstök hætta væri á ferðum fyrir framan rúllustiga þar sem fólk kæmi niður á ferð og stigi út á kyrran flöt. Sú málsástæða I ehf. fyrir sýknukröfu sinn að gólfið hafi ekki verið blautt heldur rakt var ekki höfð uppi í héraði og kom hún því ekki til frekari umfjöllunar fyrir Hæstarétti sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2012. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í héraðsstefnu reisti stefnda kröfu sína á því að hún hafi runnið í bleytu og fallið aftur fyrir sig þar sem hún var á gangi í verslunarmiðstöðinni Kringlunni 19. desember 2008. Ástæða bleytunnar hafi verið sú að starfsmaður áfrýjanda hafi verið að skúra, en engar merkingar hafi verið um að gólfið væri blautt og hált. Fyrir Hæstarétti byggir áfrýjandi sýknukröfu sína meðal annars á því að það sé rangt að starfsmaður áfrýjanda hafi verið að þvo gólfið. Hann hafi á þessum tíma verið að strjúka yfir gólfið meðfram veggjum og súlum með rakamoppu sem ekki skilji eftir sig bleytu á gólfum. Áfrýjandi hafði þessa málsástæðu ekki uppi í héraði og kemur hún því ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu athuguðu verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.   

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, ISS Ísland ehf., greiði stefndu, A, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. nóvember 2011.

                Mál þetta var þingfest 19. janúar 2011 og tekið til dóms 20. október sl. Stefnandi er A, […], en stefndi er ISS Ísland ehf., […].

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 3.605.309 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, af  442.677 krónum frá 19. desember 2008 til 19. júní 2009, af 3.605.309 krónum frá þeim degi til 9. september 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

                Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

I.

                Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að stefnandi hafi verið á gangi í verslunarmiðstöðinni Kringlunni er hún hafi runnið í bleytu og fallið aftur á bak. Hún hafi verið starfsmaður […] í Kringlunni og verið í vinnu er slysið gerðist. Ástæða bleytunnar á gólfinu hafi verið sú að starfsmaður stefnda hafi verið að skúra og engar merkingar verið settar um að gólfið væri blautt og hált þó svo að mikill umgangur væri um svæðið af gestum Kringlunnar.

                Eftir slysið hafi stefnandi fundið til óþæginda í hálsi, höfði og herðum og farið samdægurs á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Í vottorði slysadeildar komi fram að stefnandi hafi fengið höfuðhögg í fallinu og kvartað um vægan svima og verk í hálsi og höfði.

                Afleiðingar slyssins hafa nú verið metnar af B lækni. Niðurstöður matsgerðarinnar, dags. 5. maí 2010, séu þær að tímabundið atvinnutjón stefnanda sé 100% í þrjá daga og þjáningatímabil í þrjá daga án þess að vera rúmliggjandi. Varanlegur miski hafi verið metinn til 5 stiga og varanleg örorka 5%.

                Þann 7. janúar 2009 hafi lögmaður stefnanda sent bréf til Kringlunnar og óskaði þess að upplýst yrði um afstöðu til bótaskyldu og að sent yrði afrit af þeim gögnum sem til væru um atburðinn.

                Þann 16. febrúar 2009 hafi borist svar frá C, starfsmannastjóra stefnda, en í því bréfi komi eftirfarandi fram: „Í framhaldi af bréfi dagsett 07.01.09 til Kringlunnar, verslunarmiðstöðvar sendi ég eftirfarandi svar. Rekstrarfélag Kringlunnar áframsendi bréfið til okkar þar sem við sjáum um ræstingar í Kringlunni. ISS mun greiða þann kostnað sem tjónþoli hlaut af þessu slysi, en hún þyrfti að koma til mín með þann lækniskostnað sem hún hefur greitt vegna þess og eins óska ég eftir staðfestingu frá vinnuveitanda hennar vegna vinnutaps og launa. Einnig þarf að koma áverkavottorð til Sjúkratryggingar Íslands.“

                Af framangreindu bréfi starfsmannastjóra stefnda sé ljóst að stefndi hafi viðurkennt bótaskyldu vegna slyss stefnanda þann 19. desember 2008. Hins vegar hafi kröfubréfi stefnanda, dags. 9. ágúst 2009, ekki verið svarað af hálfu stefnanda og tjón stefnanda þar af leiðandi enn óbætt. Af þessum sökum sé nauðsynlegt að höfða mál til heimtu skaðabóta.

Eins og áður segir byggir stefnandi fyrst og fremst á því að stefndi hafi viðurkennt bótaskyldu vegna slyssins og beri því að greiða bætur í samræmi við áðurnefnt kröfubréf sem sent var þann 9. ágúst 2009.

                Verði hins vegar ekki fallist á að stefndi hafi þegar viðurkennt bótaskyldu vegna slyss stefnanda sé þess krafist að stefndi verði dæmdur bótaskyldur. Stefnandi byggir á að aðstæður á slysstað hafi verið óforsvaranlegar og að um saknæma og ólögmæta háttsemi hafi verið að ræða hjá starfsmanni stefnda.

                Eðlilegt megi telja að ríkar kröfur séu gerðar til rekstraraðila um að viðhafa sanngjarnar ráðstafanir sem tryggja öryggi og hindra að viðskiptavinir þeirra verði fyrir slysum vegna bleytu eða hálku, hvort sem er utanhúss eða innanhúss. Í því máli sem hér um ræðir hafi verið um að ræða gólf verslunarmiðstöðvar þar sem búast megi við mikill umferð gangandi fólks, enda séu verslunarmiðstöðvar beinlínis ætlaðar fyrir umferð gangandi vegfarenda. Gólf verslunarmiðstöðvarinnar sé flísalagt með sléttum og glansandi flísum og verði þar af leiðandi glerhált í bleytu. Vegna þessara aðstæðna verði að gera strangar kröfur til þeirra aðila sem sjá um þrif og ræstingu Kringlunnar að setja upp viðvörunarmerki þegar gólf séu mjög sleip vegna undangenginna skúringa. Slíkt þurfi ekki að þýða mikla fyrirhöfn heldur sé aðeins gerð sú krafa að sett sé upp lítið merki þannig að fólki sé kunnugt um að gólfið geti reynst hált. Alkunna sé að á stöðum þar sem vænta megi mikils fjölda gangandi vegfarenda, einkum í verslunum, séu notaðar varúðarmerkingar við skúringar. Verði að telja það óforsvaranlegt af hálfu stefnda að hafa látið hjá líða að gera slíkt. Vegi hér sérstaklega þungt að slysið hafi orðið í verslunarmiðstöð með stöðugri umferð gangandi fólks. Kringlan sé ein stærsta verslunarmiðstöð landsins með fjölda verslana og þjónustufyrirtækja sem laði að sér viðskiptavini með auglýsingum. Séu því gerðar miklar kröfur til athafnaskyldu bæði umsjónaraðila fasteignarinnar og þeirra aðila sem sjái um þrif á gólfum.

                Slys stefnanda sé að rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda og þess vegna krefjist stefnandi skaðabóta vegna þess líkamstjóns sem hún hafi orðið fyrir í slysinu.

                Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig:

 

„1.         Bætur skv. 3. gr.   3 x 1.530                              kr.                      4.590.-             

 

2.            Bætur skv. 4. gr. 5% af kr. 8.761.730.-          kr.               438.087.-            

 

3.            Bætur skv. 5-7. gr. skbl.                                    kr.               3.162.632.-

 

                (2007) 3.941.496 x 1.08 / 319,8 x 356,7 = 4.747.987

                (2006) 3.631.100 x 1.08 / 295,4 x 356,7 = 4.735.377

                (2005) 3.718.359 x 1.08 / 268,0 x 356,7 = 5.344.947

                                                                                                    14.828.311      

                 14.828.311 / 3 x 12,797 x 5%

 

                                                                     SAMTALS          kr.     3.605.309.-“

 

                Kröfugerð stefnanda miðist við matsgerð B læknis, dags. 5. maí 2010, um afleiðingar slyssins og sé tekið mið af skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau hafi verið á slysdeginum. Krafa stefnanda um þjáningabætur byggist á 3. gr. skaðabótalaga Séu þjáningabæturnar reiknaðar með hliðsjón af matsgerðinni. Samkvæmt því reiknist þjáningabætur í alls 3 daga. Séu fjárhæðir síðan uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu í ágúst 2010, sbr. 15. gr. laganna. Krafa stefnanda um miskabætur byggist á 4. gr. skaðabótalaganna og áðurgreindu mati um 5 stiga varanlegan miska. Fjárhæð bótanna taki mið af grunnfjárhæðinni, 4.000.000 króna, uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í ágúst 2010, sbr. 15. gr. skaðabótalaga. Krafa um bætur vegna varanlegrar örorku taki einnig mið af framangreindri matsgerð og 5.-7. gr. skaðabótalaga. Hafi varanleg örorka verið talin hæfilega metin 5% og miðist kröfugerð stefnanda við þá niðurstöðu. Við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku hafi verið tekið mið af tekjum stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slys samkvæmt skattframtölum, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þær tekjur hafi síðan verið uppfærðar miðað við launavísitölu við stöðugleikapunkt þann 19. júní 2009, aldursstuðul og örorkuprósentu.

                Krafist sé 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga vegna þjáningabóta og varanlegs miska frá slysdegi þann 19. desember 2008 fram að stöðugleikatímapunkti þann 19. júní 2009 en frá þeim degi einnig af bótum vegna varanlegrar örorku samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga fram til 9. september 2010 (mánuði eftir að kröfubréf hafi verið sent stefnda) en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags.

                Kröfur stefnanda styðjist við skaðabótalög nr. 50/1993 með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 50/1988 og beri því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.

II.

                Stefndi kveður málsatvik þau að stefnandi hafi flutt til Íslands 2001 og hafi frá því ári starfað hjá […] (síðar […]) í fullu starfi. Hún sé aðstoðarrekstarstjóri hjá fyrirtækinu og því gagnkunnug öllu aðstæðum í verslunarmiðstöðinni Kringlunni. Að morgni, um kl. 10:00,  hins 19. desember 2008, um það leyti sem verið var að opna verslunarmiðstöðina, hafi stefnandi verið á leið niður rúllustiga frá vinnustað sínum á Stjörnutorgi niður að svæðinu fyrir framan verslunina Karen Millen. Stefnandi virðist af myndum úr öryggismyndvélum ekki hafa verið að flýta sér, heldur gefið sér góðan tíma til að virða fyrir sér svæðið fyrir neðan stigann. Þar hafi verið stór ræstivagn frá stefnda, auk þess sem starfsmaður stefnda hafi verið þar, einkennisklæddur, að moppa yfir flísalagt gólfið. Þegar niður stigann er komið stígi stefnandi út á málmpallinn neðan við stigann en geri það eitthvað ógætilega þannig að hún renni og detti á rassinn, standi strax upp og gangi í burtu án þess að yrða á starfsmann stefnda. Á upptöku úr öryggismyndavél sjáistalveg skýrt að stefnandi detti hvorki á bakið né fái höfuðhögg við fallið. Nánast enginn hafi verið á ferli er þetta hafi gerst, enda tæpast búið að opna verslunarmiðstöðina og því ekkert sem hafi hamlaði yfirsýn stefnanda yfir gólfflötinn fyrir neðan stigann, ræstivagninn og starfskonu stefnda. Stefnanda hafi því átt að vera fullljóst að verið var að ræsta gólfið þegar hún kom niður. Slys hennar megi því að rekja til óaðgæslu hennar eða hreinnar óhappatilviljunar.

                 Sýknukrafa stefnda er byggð á því að slys stefnanda sé að rekja til óaðgæslu hennar sjálfrar eða hreinnar óhappatilviljunar sem stefndi beri enga ábyrgð á. Með öllu sé ósannað að stefnandi hafi runnið til í bleytu af völdum stefnda og dottið á rassinn því alltaf sé ákveðin hætta á falli þegar stigið sé úr rúllustiga á ferð yfir á kyrran flöt. Við það þurfi alltaf að viðhafa aðgæslu.

                Stefnandi hafi verið búin að vinna árum saman í Kringlunni og því gjörþekkt þar allar aðstæður og starfsfólk og verið gagnkunnug starfsaðferðum stefnda við þrif. Þá sé ekki bara til þess að líta að stefnandi hafi verið kunnug vinnuaðferðum stefnda gegnum starf hennar í Kringlunni, heldur hafi hún verið fyrrum starfsmaður stefnda. Hafi hún tekið námskeið í ræstingum og unnið á árinu 2005 fyrir stefnda við ræstingar.

                Það geti ekki hafa dulist stefnanda þegar hún kom niður stigann að starfsmaður stefnda var þar við vinnu, einkennisklæddur og með stóran ræstivagn sér við hlið. Ekkert annað hafi þar verið að sjá, eins og fram komi á upptöku úr öryggismyndavél, og stefnandi hafi sjálf unnið í sams konar einkennisbúningi og með sams konar ræstivagn. Stefnanda hafi því verið fulljóst að starfsmaður stefnda var við störf og eins hvað hann var að gera. Stefnanda hafi átt aða vera kunnar allar þær hættur á bleytu og hálku sem skapast geti þar sem unnið sé við skúringar þar sem hún hafi sjálf sinnt slíku starfi áður. Á stefnanda hafi því hvílt enn ríkari skylda til varkárni.

                Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að ósannað sé að áverkar stefnanda séu aflleiðingar af falli hennar í Kringlunni 19. desember 2008. Í máli þessu krefji stefnandi bóta vegna afleiðinga þess slyss. Þeim afleiðingum sé lýst í læknisvottorði D sérfræðings í skurðlækningum dags. 29. júní 2009. Þar lýsi skurðlæknirinn áverkum stefnanda þannig: „Fékk högg á höfuðið” …. „Það þreifast væg eymsli hægra megin á hnakkanum þar sem hún fékk högg á höfuðið” …. „Það er einnig lítill roðablettur neðst á brjóstbaki þar sem hún fékk einnig á sig högg. Væg eymsli þar við þreifingu”  í vottorði frá Sjúkraþjálfun Kópavogs segi: „Var að ganga í kringlunni þar sem hún vinnur, steig í bleytu og datt beint á bakið”  Í læknabréfi segi: „Leitaði á slysadeild vegna svima sem hún hafði vegna falls á hnakka”. Af upptöku úr öryggismyndavél, sem staðsett sé framan við verslunina Karen Millen, sé ljóst að stefnandi hafi hvorki dottið á höfuðið né bakið eins og lýst sé í framanröktum vottorðum. Hún haf dottið á rassinn, setið þannig augnablik flötum beinum, staðið upp og flýtt sér í burtu. Þá áverka, sem D sérfræðingur í skurðlækningum og aðrir lýsi, hljóti stefnandi að hafa fengið einhvers staðar annars staðar en við það að detta á rassinn fyrir neðan rúllustigann í Kringlunni að morgni 19. desember 2008.

                Í vottorði E læknis sé lýst verkjum stefnanda á hnakka, herðum og hægri öxl á árunum 2005 og 2006, sem hafi haft áhrif á svefn og andlega líðan. Þar segi læknirinn: „Það hafði staðið í mörg og verið að versna”. Þarna hafi fallið niður orðið ár eins og ljóst sé af samanburði við örorkumat B dr.med. Af þessu sé ljóst að stefnandi hafi haft þessa verki í hnakka, herðum og hægri öxl í mörg ár áður en hún hafi dottið í Kringlunni árið 2008.

                Stefnandi byggi kröfur sínar á örorkumati dr. med. B dags. 5. maí 2010.  Það mat fullnægi engan vegin þeim skilyrðum sem gera verði til örorkumats í dómsmáli. Í fyrsta lagi sé ljóst af framanröktu að B hafi fengið rangar upplýsingar um slys stefnanda, þ.e. honum verið sagt og hann fengið gögn um, að hún hefði fallið á bakið og hnakkann en ekki bara runnið á rassinn. Í öðru lagi sé þar um að ræða mat sem aflað sé einhliða af stefnanda og án þess að stefndi hafi átt nokkra möguleika á að koma þar að sjónarmiðum sínum eða upplýsa um hvernig falli stefnanda raunverulega var háttað. Matið sé því haldið svo verulegum ágöllum að sýkna ber stefnda af öllum kröfum sem byggðar séu á því.

                Loks sé því mótmælt að stefndi hafi með tölvupósti þeim, sem fram sé lagður,  viðurkennt bótaskyldu sína á slysi stefnanda. Í fyrsta lagi sé tölvupóstur þessi saminn og sendur af starfsmannastjóra stefnda sem hvorki hafi vald né umboð til þess að samþykkja kröfur á stefnda.  Í öðru lagi sé ljóst með samanburði við bréf lögmanns stefnanda 7. janúar 2009 að í tölvupósti þessum sé í sáttaskyni aðeins verið að bjóðast til að greiða minniháttar lækniskostnað og hugsanlega verkjalyf en alls ekki varanlega örorku eða miska, enda ekkert á neitt slíkt minnst í bréf lögmanns stefnanda frá 7. janúar 2009.

                Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

                Um kl. 10:00 hinn 19. desember 2008, um það leyti er verið var að opna verslunarmiðstöðina Kringluna, var stefnandi á leið niður rúllustiga frá vinnustað sínum á Stjörnutorgi niður að svæðinu fyrir framan verslunina Karen Millen. Á því svæði var einkennisklæddur starfsmaður stefnda með ræstivagn að þvo gólfið. Af myndum úr öryggismyndavél má sjá að það er eins og fótunum sé kippt undan stefnanda þegar hún stígur af málmpalli fyrir neðan stigann og út á gólfið. Við það dettur hún á rassinn eða ofarlega á hægri rasskinn. Stóð hún samstundis upp og bar aðra hönd að höfði. Stefnandi fór samdægurs á slysadeild vegna verkja í hálsi og höfði. Er sjúkrasaga hennar rakin hér að framan.

                Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst hún hafa unnið um tvö ár hjá […] í Kringlunni og í umrætt skipti verið á leið í banka á vegum vinnu sinnar. Eftir fallið hafi hún haft verki í baki og hálsi og einnig haft mikinn höfuðverk eins og hún hefði slegið höfði í gólfið. Hún kvaðst hvorki hafa séð ræstivagn né starfsmann stefnda og taldi að þau hafi verið á bakvið súlu sem þarna er. Hún hafi talað við starfsmanninn, sem hafi einnig verið útlendingur eins og hún, en þær ekki skilið hvor aðra. Stefnandi kvaðst hafa unnið um einn mánuð hjá stefnda árið 2005.

                Í málinu krefur stefnandi stefnda um skaðabætur vegna líkamstjóns. Sannað þykir í málinu að stefnandi rann til og féll í gólfið vegna þess að starfsmaður stefnda var að skúra gólfið og af þeim sökum var það blautt og hált. Stefnandi sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hefði ekki veitt starfsmanni stefnda athygli er hún kom niður stigann og því ekki varað sig á blautu gólfinu. Verður við það að miða og skiptir þá ekki máli þó að stefnandi hafi haft þekkingu á ræstingu og þekkt aðstæður í Kringlunni.

                Almennt verður að leggja ríkar skyldur á starfsmenn ræstingarþjónustu, sem hafa þann starfa að þvo gólf í verslunarmiðstöðum, þar sem fjöldi fólks leggur leið sína, að gera ráðstafanir sem sanngjarnar mega teljast til að tryggja öryggi þeirra sem þar eiga leið um. Sérstök hætta er á ferðum fyrir framan rúllustiga þar sem fólk kemur á ferð niður stigann og stígur út á kyrran flöt.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína m.a. á því að ósannað sé að áverkar stefnanda séu afleiðingar af falli hennar í Kringlunni 19. desember 2008. Í framlögðum læknisvottorðum komi fram að stefnandi hafi dottið á hnakka og hafi örorkumat verið byggt á þeirri frásögn hennar. Það sé hins vegar ekki sannleikanum samkvæmt eins og fram komi á myndum úr öryggismyndavél í Kringlunni og hafi stefnandi staðfest það í skýrslu sinni fyrir dómi. Ekki verði því byggt á örorkumatinu þar sem örorkumatslæknirinn hafi byggt á röngum upplýsingum. Ennfremur að mats hafi verið aflað einhliða af stefnanda án þess að stefndi hafi komið að sjónarmiðum sínum.

                Fyrir dómi staðfesti stefnandi að hún hefði dottið á rassinn en ekki hnakka. Hana hafi hins verkjað í höfuðið eins og hún hefði slegið því við.

                Í 1. mgr. 10 gr. skaðabótalaga segir m.a. að þegar fyrir liggi sérfræðilegt álit um örorku- og/eða miskastig tjónþola, eða þá læknisfræðilegu þætti samkvæmt 2. og 3. gr. sem meta þarf til þess að uppgjör bóta samkvæmt lögum þessum geti farið fram, geti hvor um sig, tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta, borið álitið undir örorkunefnd.              

                Samkvæmt þessu lagaákvæði átt stefndi þess kost að bera örorkumatið undir örorkunefnd og koma þar að framangreindum sjónarmiðum sínum á framfæri. Hann lét það hins vegar undir höfuð leggjast og verður því talið að stefndi hafi ekki hnekkt framlögðu örorkumati með nýjum læknisfræðilegum gögnum. Verður því örorkumat B læknis lagt til grundvallar dómi.

                Samkvæmt framansögðu verður stefndi af framangreindum ástæðum látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Ekki er forsenda til þess að skipta sök.

                Kröfur stefnanda verða því að öllu leyti teknar til greina en tölulegur ágreiningur er ekki í málinu. Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin 750.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

Dómsorð

                Stefndi, ISS Island ehf., greiði stefnanda, A, 3.605.309 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, af 442.677 krónum frá 19. desember 2008 til 19. júní 2009, af 3.605.309 krónum frá þeim degi til 9. september 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 750.000 krónur í málskostnað.