Hæstiréttur íslands

Mál nr. 378/2003


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Dráttarvextir


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. mars 2004.

Nr. 378/2003.

Víkurverk ehf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

 

Verksamningur. Dráttarvextir.

Verktakinn V krafði R, sem boðið hafði út verkið, um greiðslu samkvæmt samþykktu tilboði. R neitaði að greiða fyrir tiltekinn verklið með vísan til þess að hann hafi verið í tilboðsskrá fyrir mistök og ætti sér hvorki stoð í verklýsingu né teikningum samkvæmt útboðsgögnum. Við úrlausn málsins var litið til þess að þegar R tók tilboði V gerði R engar athugasemdir við tilboðsgerð V eða útfyllingu tilboðsskrár af hálfu V. Ekki lék vafi á því að V bauð í framkvæmd verksins með þeim hætti sem ætlast var í verklýsingu. Þá var óumdeilt að V hafði lokið verkinu í samræmi við umræddan lið í verklýsingu. Var krafa V samkvæmt þessu tekin til greina að fullu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. september 2003. Hann krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.632.779 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 4.270.211 krónum frá 19. júní 2001 til 1. júlí sama árs og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 13. desember sama árs en af 2.632.779 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.

Í júnímánuði 2000 var á vegum stefnda boðið út verk, sem nefnt var í útboðsgögnum „Eiðsgrandi stígur, regnvatnsræsi og frágangur.“ Stefndi gerði tilboð í verkið 6. júlí sama árs að fjárhæð 23.466.250 krónur. Reyndist hann lægstbjóðandi og var tilboði hans tekið. Var verksamningur undirritaður af aðilum 6. september 2000. Aðila greinir á um greiðslu vegna eins þáttar verksins, sem laut að fyllingu í umræddan stíg og þjöppun hennar.

 Útboðsgögn voru gerð af Hönnun hf. fyrir stefnda. Í yfirliti yfir verkið í verklýsingu kemur fram að stígur sá meðfram Eiðsgranda, er gera skyldi, væri 1207 metra langur og þrír metrar á breidd. Að auki skyldi gera 127 metra langa og 2,5 metra breiða tengistíga auk 10 metra langrar og eins metra breiðrar aðkomu að dælubrunni. Loks skyldi lagfæra 90 metra kafla af áður gerðum stíg við Ánanaust, sem hafði skemmst. Í lið 1.4 í verklýsingu var fjallað um fyllingu í stíginn og þjöppun. Var þar vísað til þess að uppbygging stígsins væri sýnd á teikningu, en teikningar töldust til útboðsgagna samkvæmt útboðslýsingu. Skyldi fylla með bögglabergi frá yfirborði óhreyfðs lands eða botni uppúrtektar í hæð sem væri 50 mm undir endanlegu yfirborði á stíg. Síðan var fjallað um þær kröfur sem gerðar væru til bögglabergsins í fyllingunni og þjöppunar þess. Að lokinni þjöppun skyldi ekki muna meiru en 20 mm á yfirborði og réttri hæð. Síðan sagði: „Heimilt er að efnið sé forunnið 0-150 mm, en reynist þá yfirborð fyllingarinnar ójafnt eða opið skal fínjafna yfirborð með lagi af mulningi 0-25 mm, sem skal vera eins þunnt og kostur er og valta yfir ...“ Þá var tekið fram að á staðnum væri bögglaberg í dálitlu magni, sem nýta skyldi til fyllingar. Á teikningunni, sem vísað var til, sést að gert var ráð fyrir að 50 mm malbikslag kæmi ofan á fyllinguna. Meðal útboðsgagna var svonefnd tilboðsskrá, sem bjóðendur skyldu samkvæmt lið 0.4.1 í útboðslýsingu fylla út eins og texti hennar segði til um. Liður 2.4 í tilboðsskránni bar fyrirsögnina „Fylling í stíg og þjöppun“ en í honum voru tveir undirliðir. Annars vegar „Fylling með bögglabergi“ 2660 rúmmetrar og hins vegar „Fylling með efni á staðnum“ 400 rúmmetrar. Í lið 2.7 í tilboðsskránni, sem bar fyrirsögnina „Breikkun Eiðsgranda, mulinn ofaníburður“, voru fjórir undirliðir. Hinn síðasti þeirra var nefndur „Mulinn ofaníburður, Stígur“ og við hann var tilgreind talan 4.380 fermetrar.

Þegar áfrýjandi bauð í verkið fyllti hann, eins og ráð var fyrir gert, út eyðublað fyrir tilboðsskrána, þar á meðal lið 2.4. Færði hann einingarverðið 850 krónur og fjárhæðina 2.261.000 krónur í fyrri undirliðinn um fyllingu með bögglabergi en einingarverðið 400 krónur og fjárhæðina 160.000 krónur í þann síðari um fyllingu með efni á staðnum. Í undirliðinn „Mulinn ofaníburður, Stígur“ í lið 2.7 færði hann einingarverðið 600 krónur og fjárhæðina 2.628.000 krónur. Á öllum stigum málsins hefur áfrýjandi verið sjálfum sér samkvæmur um það að með tilboði í lið 2.4 hafi hann boðið í bögglabergsfyllinguna en með tilboðinu í áðurnefndan þátt í lið 2.7 hafi hann boðið í jöfnun yfirborðs og holufyllingu með mulningi. Eins og að framan er rakið tók stefndi tilboðinu og gerði hann engar athugasemdir við tilboðsgerð áfrýjanda eða útfyllingu tilboðsskrár af hans hálfu. Stefndi hefur haldið því fram að áðurgreindur þáttur í lið 2.7 hafi verið í tilboðsskránni vegna mistaka. Hafi upphaflega átt að hafa 50 mm jöfnunarlag af muldum ofaníburði ofan á bögglaberginu undir malbikslaginu á stígnum. Frá þessu hafi verið horfið áður en til útboðs kom. Hafi þá átt að fella niður margnefndan undirlið í lið 2.7 á tilboðsskránni og láta lið 2.4 taka til allra verkþátta við fyllingu og þjöppun stígsins. Þar sem þetta hafi ekki verið gert telur stefndi misræmi milli verklýsingar og teikninga annars vegar og tilboðsskrár hins vegar. Þessi afstaða kom fyrst fram af hálfu þess starfsmanns Hönnunar hf., sem annaðist eftirlit með verkinu fyrir stefnda, á verkfundi 7. september 2000. Hafa aðilar deilt um það æ síðan hvort áfrýjandi eigi rétt til greiðslu samkvæmt þessum þætti í lið 2.7 vegna yfirborðsjöfnunar og holufyllingar eða hvort greiðsla fyrir þennan lið skyldi niður falla vegna þess að ekki hafi við endanlega gerð útboðsgagna verið reiknað með 50 mm jöfnunarlagi af muldum ofaníburði.

 Tilboðsskráin var þess efnis sem raun ber vitni fyrir mistök að því er stefndi, sem lét gera hana, heldur fram. Samkvæmt áðurnefndri verklýsingu var þó ljóst að verkið skyldi vinna á þann hátt að reyndist yfirborð bögglabergsins ójafnt eða opið skyldi fínjafna það með lagi af mulningi. Þannig var verkið skilgreint af hálfu stefnda og ljóst er af gögnum málsins að áfrýjandi jafnaði og holufyllti yfirborðið með þessum hætti við framkvæmd verksins. Hefur stefndi enga skýringu gefið á því hvar gert væri ráð fyrir jöfnunarlagi þessu í útboðsskránni ef margnefndur þáttur í lið 2.7 félli brott. Eftir að tilboð voru opnuð hljóta þau að hafa verið yfirfarin rækilega af hálfu stefnda. Hefur hann enga haldbæra skýringu fært fyrir því að þessi mistök, ef þá um þau var að ræða, fóru fram hjá honum við þá yfirferð, en fyrir liggur að í öðrum tilboðum í verkið var einnig boðið í þennan þátt. Þeim mun frekar var ástæða til að gefa þessu gætur þegar haft er í huga að í tilboðsskránni var gert ráð fyrir að efnismagn í þennan þátt liðar 2.7 yrði tiltekið í fermetrum, sem bendir til þess að um þunnt jöfnunarlag væri að ræða, sem erfitt væri að tilgreina í rúmmáli, en aðrir hlutar fyllingarinnar voru eins og að framan er rakið tilgreindir í rúmmetrum. Óumdeilt er að áfrýjandi lauk verkinu í samræmi við framangreindan lið 1.4 í verklýsingu. Enda þótt stefndi telji að mistök hafi orðið við frágang útboðsgagna getur ekki leikið vafi á því að áfrýjandi bauð í framkvæmd verksins með þeim hætti sem ætlast var til í verklýsingu og með þeirri fjárhæð sem samanlagt kemur fram í fyrrgreindum tveimur þáttum í lið 2.4 í tilboðsskrá og lokaþætti í lið 2.7. Eru því engin efni til annars en að taka kröfu áfrýjanda að fullu til greina. Er hún er miðuð við það einingarverð, sem áfrýjandi bauð í lokaþátt liðar 2.7 á tilboðsskrá og að um hafi verið að ræða 4.388 fermetra eða 8 fermetrum meira en við var miðað í tilboði áfrýjanda. Hefur krafan ekki sætt tölulegum andmælum. Í ljósi þeirrar niðurstöðu, sem að framan getur, er ekki ástæða til að fallast á kröfu áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms, sem þó er réttilega reist á því að héraðsdómur hafi ekki leyst úr málinu á þeim grunni, sem áfrýjandi lagði að því. Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 2.632.779 krónur.

Áfrýjandi krefst dráttarvaxta af 4.270.211 krónum frá 19. júní 2001 til 13. desember sama árs, en af 2.632.779 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þann 19. júní 2001 gerði áfrýjandi stefnda reikning með fyrrgreindu fjárhæðinni. Verður upphafstími dráttarvaxta miðaður við dagsetningu reikningsins enda hefur stefndi ekki sýnt fram á að greiðsla samkvæmt honum hafi þá ekki verið í gjalddaga fallin samkvæmt ákvæðum útboðslýsingar og verkskilmála. Stefndi hefur andmælt því að greiða dráttarvexti af hærri fjárhæð en tildæmd verður vegna  ágreinings aðila og hefur bent á að hann hafi fyrir útgáfu reikningsins ítrekað lýst sig reiðubúinn að greiða reikning fyrir þann hluta kröfunnar, sem óumdeildur var. Þar sem stefndi gat ekki gert að skilyrði fyrir greiðslu að honum yrði gerður sérstakur reikningur fyrir óumdeildum hluta kröfunnar verður dráttarvaxtakrafa áfrýjanda tekin til greina.

 Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Reykjavíkurborg, greiði áfrýjanda, Víkurverki ehf., 2.632.779 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 4.270.211 krónum frá 19. júní 2001 til 1. júlí sama árs og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 13. desember sama árs en af 2.632.779 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2003.

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 27. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Víkurverki ehf., kt. 631173-0559, Tangarhöfða 1, Reykjavík, með stefnu birtri 21. marz 2002 á hendur Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, Ráðhúsinu, Reykjavík.

 

         Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 2.632.779 auk vanskilavaxta p.a., samkvæmt 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 4.270.211 frá 19.06. 2001 til 01.07. s.á., en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til 13.12. 2001, og af kr. 2.632.779 frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu.

 

         Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu, og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.  Til vara er þess krafizt, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar, og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla.

 

II.

Málavextir:

Sumarið 2000 fór fram útboð á vegum Gatnamálastjórans í Reykjavík á verki sem hafði yfirskriftina "Eiðsgrandi, stígur, regnvatnsræsi og frágangur", sbr. útboðs- og verklýsingu á dskj. nr. 4.  Um var að ræða verk með kostnaðaráætlun upp á kr. 34.900.000, og átti stefnandi lægsta tilboðið, kr. 23.466.250, eða 67,24% af kostnaðaráætlun.

         Þegar framkvæmdir hófust við verkið, kom í ljós, að misræmi var í útboðsgögnum varðandi fyllingu í stíg, milli tilboðsskrár annars vegar og teikninga og verklýsingar hins vegar.  Í lið 1.4 í útboðs- og verklýsingu, sem ber yfirskriftina “Fylling í stíg og þjöppun” er vísað í teikningu í teikningamöppu um uppbyggingu gangstígs og segir, að verktaki skuli fylla samkvæmt því.  Þá segir m.a. að fylla skuli með bögglabergi frá yfirborði óhreyfðs lands eða botni uppúrtektar í hæð, sem er 50 mm undir endanlegu yfirborði á stíg, og skuli þykkt bögglabergsfyllingar hvergi vera minni en 650 mm, nema þar sem klöpp eða stórgrýti sé í stígstæði.  Er nánari lýsing á þessum lið á bls. 22-23 í útboðs- og verklýsingunni.  Í tilboðsskrá, sem er hluti af dskj. nr. 3, undir lið 2.4., sem ber yfirskriftina “Fylling í stíg og þjöppun”, skyldi greiða fyrir þennan lið sem hér segir:

        

         Fylling með bögglabergi         2.369 m3 á kr. 850 =         kr.         2.013.735

         Fylling með efni á staðnum 1.926 m3 á kr. 400 =       kr. 770.400

         Samtals flutt á safnblað         kr.         2.784.135

 

         Liður 1.7. í útboðs- og verklýsingu, ber yfirskriftina “breikkun Eiðsgranda, mulinn ofaníburður”, þar sem þessum verkþætti er lýst nánar.  Í tilboðsskrá undir lið 2.7. er hins vegar svofelldur verkliður:

         Mulinn ofaníburður, stígur         4.388 m3 á kr. 600 =          kr.   2.632.800

 

         Stefnandi kveður að greiða hafi átt fyrir framangreinda þrjá verkliði samkvæmt tilboðsskrá, samtals kr. 5.416.935.

         Stefndi kveður tilboðslið þennan hvorki hafa átt stoð í verklýsingu né teikningum samkvæmt útboðsgögnum.  Þegar honum hafi orðið þetta ljóst, eftir ábendingu stefnanda, hafi hann tilkynnt það tafarlaust, að ekki ætti að setja 5 cm lag af muldum ofaníburði á stíg við Eiðsgranda og þ.a.l. yrði ekki greitt fyrir samsvarandi lið úr kafla 2.7 í tilboði verktaka.  Á verkfundi aðila þann 7. september 2000 hafi stefndi enn fremur bent á, að liður þessi væri inni í tilboðsskrá fyrir mistök.  Af verklýsingu mætti glögglega sjá, að liður þessi ætti sér ekki stoð í verklýsingu verksins, en stefndi kveður stefnanda ekki hafa hafið neinar framkvæmdir samkvæmt þessum lið, þegar tilkynningin barst honum.  Á þessum verkfundi hafi komið fram hjá stefnanda, að hann væri ekki til viðræðu um að fella þennan lið út úr verkinu og ekki hafi náðst endanleg niðurstaða um þetta mál á þeim fundi.  Á næsta verkfundi hafi stefnandi hins vegar sagzt vera til viðræðu um, að honum yrði bættur upp kostnaður við heflun og efnisverð fyrir þunnt mulningslag í stíg með hækkun á tilboðslið í bögglabergsfyllingu, sbr. kafla 2.4 í tilboðsskrá, á móti því að sleppa liðnum "mulinn ofaníburður, stígur" í kafla 2.7 í tilboðsskrá.  Með þessu hafi stefndi talið, að grundvöllur að samkomulagi hefði náðst.  Á verkfundi þann 31. október 2000 hafi stefnandi hins vegar krafið stefnda um greiðslu fyrir ofaníburð í stíg samkvæmt umræddum tilboðslið í kafla 2.7 í tilboðsskrá, þrátt fyrir að efniskaup og vinna samkvæmt þessum lið hefðu aldrei verið innt af hendi.  Þar sem ágreiningur hafi verið um reikningsfærslu mulningsliðar, hafi, í kjölfar verkfundarins, verið áætlað að halda sérstakan fund um reikningsmál.  Þann 2. nóvember 2000 hafi stefnandi tilkynnt, að hann stæði fast á því að fá greitt fyrir ofangreindan lið í kafla 2.7.  Þessu hafi stefndi mótmælt með bréfum, dags. 7. og 17. nóvember 2000, en þar sé að finna útskýringar og sjónarmið stefnda vegna ágreinings aðila.  Í því skyni að leysa þann ágreining hafi stefndi boðizt til að hækka einingarverð fyrir bögglabergsfyllingu í kafla 2.4 í tilboðsskrá, þannig að í stað 850 kr./m3 yrðu greiddar 1.250 kr/m3.  Þessu tilboði hafi stefnandi hafnað.

                Í kjölfar fundar aðila þann 13. marz 2001, sem lauk án árangurs, hafi stefndi endursent reikninga stefnanda en bent á, líkt og í bréfi, dags. 8. marz 2001, að stefnandi gæti sent reikning fyrir óumdeildum hluta eftirstöðvanna miðað við verkstöðu um áramótin 2000-2001.  Á fundi aðila í október 2001 hafi verið leitazt við að leysa málið, án árangurs.  Þann 29. nóvember 2001 hafi stefnda hins vegar borizt innheimtubréf, þar sem krafizt hafi verið greiðslu á lokareikningi stefnanda vegna verksins.  Í ítarlegu bréfi stefnanda, dags. 10. desember 2001, hafi kröfum stefnanda verið hafnað og honum tilkynnt, að þar sem stefnda hefði enn ekki verið sendur reikningur fyrir óumdeildum hluta eftirstöðvana, yrði sú fjárhæð greidd inn á reikning verktaka, og hafi sú greiðsla farið fram þann 11. desember 2001.

 

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi kveður, að þegar farið hafi verið að vinna verkið, hafi stefnandi spurt eftirlitsmanninn að verkinu, Ásmund Magnússon, hvort ekki væri réttur sá skilningur, að vinna ætti verkið samkvæmt verklýsingu í lið 1.4, og hinn muldi ofaníburður, sem nefndur sé í lið 2.7, hafi ekki verið annað en undirbúningur undir malbik, eins og stefnandi hafði reiknað með. Eftirlitsmaðurinn að verkinu hafi játað því.

         Skömmu síðar hafi eftirlitsmaðurinn komið með þær skýringar, að liður 2.7 hefði ekki átt að vera inni.  Hann hefði verið þar fyrir mistök.  Eftirlitsmaðurinn hafi útskýrt mál sitt þannig, að upphaflega hefði hugsunin verið sú að hafa mulinn ofaníburð um 50 mm, áður en malbik yrði lagt.  Frá því hafi verið horfið en gleymzt að taka þennan lið út.  Hafi eftirlitsmaðurinn litið svo á, að liður 2.4, "Fylling í stíg og þjöppun", hafi verið tæmandi útlistun á því verki, sem vinna skyldi.

         Frá sjónarmiði stefnanda skipti þetta engu máli sökum þess, að ódýrara sé að vinna verkið með muldum ofaníburði upp á 50 mm heldur en á þann veg, sem gert hafi verið.

         Verði nú vikið að muninum á þessum tveimur vinnuaðferðum.

         Þegar mulinn ofaníburður upp á 50 mm sé notaður, sé endanleg afrétting undir malbik tekin í leiðinni.  Þegar hins vegar það vinnulag sé notað, sem verklýsing greini, sé einnig notaður mulinn ofaníburður, en þar sé undirbúningur undir malbik unninn með talsvert öðrum hætti.  Í þessari vinnuaðferð sé bögglabergið unnið og afrétt og þjappað miðað við að malbikið fari beint ofan á það.  Hinn muldi ofaníburður í þessu tilviki sé fínmulinn og eingöngu notaður vegna þess, hve bögglabergið sé gróft efni. Hann sé því notaður til að fylla inn í holur, og þegar hann hafi verið settur yfir, sé hann heflaður af, svo hann holufylli eingöngu.  Þetta verklag kalli á miklu meiri vinnu en hið fyrrnefnda og óverulegur sparnaður í efniskostnaði vegi þar ekki upp á móti.  Hins vegar sé þetta vinnulag skynsamlegt á þennan stíg, þar sem mikill sjógangur sé og vatn eigi greiðari leið í gegnum malbikið, þegar ekki sé notaður 50 mm mulinn ofaní­burður.

         Stefnandi hafi enga skoðun á því, hvað menn hafi verið að hugsa, þegar þeir gerðu útboðslýsinguna.  Í hans huga hafi liður 2.4 tekið til fyllingar á bögglaberginu, en liður 2.7 hafi tekið til þjöppunar og stráningar mulningslags yfir og að gera bögglabergið hæft undir malbik.

         Gatnamálastjóri hafi, eins og fyrr sé getið, komið með þær útskýringar, að hann hafi fyrir mistök haft lið 2.7 inni í útboðslýsingunni.  Nú vilji hans hins vegar, að stefnandi gjaldi fyrir mistök gatnamálastjóra með þeim hætti að fá minna greitt fyrir verkið en tilboð hans hljóðaði upp á.  Stefnandi hefði aldrei gert lægra tilboð í verkið, þótt liður 2.7 hefði ekki verið inni.  Ástæðan sé sú, að það sé ódýrara að setja 50 mm af muldum ofaníburði við undirbúning fyrir malbik heldur en að vinna verkið, eins og hann gerði.  Ástæðan sé sú, að efniskostnaður vegi sáralítið, en þegar hinn muldi ofaníburður sé ekki notaður, verði vinnan miklu meiri við þjöppun, og það sé mikið nákvæmnisverk.  Stefnandi vilji m.a. benda á, að ástæða þess, að gatnamálastjóri vildi ekki nota mulinn ofaníburð, hafi ekki verið til að lækka kostnaðinn við verkið, heldur sökum þess, að mikill sjógangur geti verið á þessum stað á flóði í vondum veðrum og saltvatnið, sem fari illa með malbik, hripi hægar niður, ef 50 mm mulningur sé notaður.  Þessi leið hafi verið sízt ódýrari, auk þess sem vinna samkvæmt verklýsingu feli í sér, að bögglabergið þurfi að fara í nákvæmlega rétta hæð, en í hinni aðferðinni sé mulinn ofaníburður notaður til að rétta hæðarkvóta.

         Stefnanda finnist afstaða gatnamálastjóra enn sérkennilegri sökum þess, að gatnamálastjóri hafi farið yfir tilboðið, séð þessa liði, séð hvað taka átti fyrir stíginn og verið sáttur við þær tölur.  Hann vilji nú fá greitt á einhverju fráleitu verði.

         Gatnamálastjóri hafi haldið því fram, að liður 0.5.3 á dskj. nr. 4, "Breytingar á verkinu-aukaverk", eigi ekki við, því aðeins sé verið að leiðrétta villu.  Þrátt fyrir það hafi hann, með hliðsjón af þeim ákvæðum, verið tilbúinn til að semja við stefnanda um greiðslur vegna breytinga á verki, enda geri hann sér grein fyrir því, að annað væri fádæma ósanngirni.  Gatnamálastjóri geri sér nefnilega grein fyrir því, að um sé að ræða miklu meiri vinnu, þegar hinn muldi ofaníburður upp á 50 mm sé ekki notaður.

         Stefnandi byggi aðallega á því, að hann sé að krefja um greiðslu samkvæmt tilboði.  Hann hafi ekkert misskilið, heldur hagað tilboði sínu miðað við verklýsingu í lið 1.4.  Í henni sé notaður mulinn ofaníburður.  Sá sé að vísu ekki 50 mm heldur sáldrað ofan í bögglabergið og hafi verið þáttur í undirvinnu undir malbik með þjöppun o.fl. tilheyrandi.  Stefnandi hafi rætt þetta við eftirlitsmann verksins til að eyða öllum vafa, og hafi hann verið hjartanlega sammála honum um, að verklýsingin gilti.  Stefnandi eigi því að fá greiðslu fyrir það tilboð, sem hann gerði.

         Verði ekki fallizt á framangreinda málsástæðu stefnanda og á því byggt, að um leiðréttingu villu sé að ræða, eins og gatnamálastjóri haldi fram, sé ljóst, að stefnandi eigi ekki að gjalda fyrir mistök gatnamálastjóra.  Sú aðferð við að vinna verkið, eins og verklýsing í lið 1.4 geri ráð fyrir, sé a.m.k. ekki ódýrari en að nota mulinn ofaníburð upp á 50 mm.  Þegar af þeirri ástæðu beri stefnanda að greiða uppsettan reikning, m.a. samkvæmt grunnrökum 5. og 6. gr. þágildandi laga um lausafjárkaup nr. 39/1922.

         Verði á hvoruga ofangreinda málsástæðu fallizt, sé byggt á því, að leysa eigi úr ágreiningi aðila á grundvelli liðar 0.5.3 á dskj. nr. 4.  Beri með vísan til framangreinds að greiða reikninginn að fullu, enda sé sú vinnutilhögun, sem í breytingunni felist, kostnaðarmeiri í reynd, heldur en sú, sem felist í hinni verklagsaðferðinni.  Beri því að greiða uppsettan reikning, enda sé hann ekki ósanngjarn, sbr. áðurnefnd ákvæði kaupalaga.

         Um málskostnað vísist til XXI. kafla l. nr. 91/1991, einkum 129. gr. og 130. gr. Þess sé krafizt, að við ákvörðun málskostnaðar verði stefndi dæmdur til að greiða innheimtuþóknun af innborgun hans að fjárhæð kr. 1.637.432 þ. 13.12. 2001, enda hafi sú greiðsla verið innt af hendi fyrir atbeina lögmanns stefnanda, sem beri að greiða lögmanni sínum þá fjárhæð samkvæmt gjaldskrá lögmannsins.

 

Málsástæður stefnda:

Aðalkrafa:

Í grein 0.1.4 í útboðs- og verklýsingu, sbr. dskj. nr. 4, segi, að verkið skuli unnið samkvæmt teikningum og verklýsingum.  Stefndi byggi sýknukröfu sína á því, að tilboðsliðurinn "Mulinn ofaníburður, Stígur" sem fram komi á tilboðsblaði stefnanda í kafla 2.7, sbr. dskj. nr. 3, eigi sér enga stoð í verklýsingu eða teikningum.  Hvergi í lið 1.7 í verklýsingu sé að finna fyrirmæli um, að leggja beri mulinn ofaníburð í stíg við Eiðsgranda.  Þá sé hvorki í verklýsingu né teikningum að finna fyrirmæli um að leggja beri 5 cm lag af muldum ofaníburði ofan á fyllingu í stíg við Eiðsgranda.  Með hliðsjón af útboðs- og verklýsingu geti stefnandi því ekki krafizt greiðslu vegna tilboðsliðarins "Mulinn ofaníburður, Stígur" í kafla 2.7 á tilboðsblaði.

         Jafnframt bendi stefndi á, að þegar honum hafi orðið ljóst, að á tilboðsblaði væri að finna lið, sem ekki ætti sér stoð í verklýsingu, hafi stefnanda verið tilkynnt tafarlaust, að umræddur tilboðsliður væri á tilboðsblaðinu fyrir mistök.  Óumdeilt sé, að stefnandi hafði hvorki hafið vinnu við lagningu ofaníburðar í stíg né fest kaup á muldum ofaníburði í stíginn.  Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir sérstökum kostnaði við það, að fyrrnefndur liður væri felldur brott, enda hafi engin vinna verið unnin af hálfu hans vegna tilboðsliðarins og því beri að sýkna stefnda.  Í þessu sambandi sé bent á, að samkvæmt grein 0.6.4 í útboðs­- og verklýsingu, sbr. dskj. nr. 4, eigi verkkaupi rétt á lækkun samningsupphæðar, leiði villa í útboðsgögnum til minni kostnaðar.  Sams konar rétt sé að finna í 6. gr. verksamnings aðila, sbr. dskj. nr. 27.  Við brottfall umrædds liðar í kafla 2.7 hafi samningsupphæðin lækkað um fjárhæð tilboðsliðarins, eða um kr. 2.632.800, enda hafi stefnandi engan kostnað haft af liðnum, áður en hann var felldur niður.  Þá bendi stefndi á, að stefnandi hafi hvorki sýnt fram á né lagt fram gögn, sem renni stoðum undir þær fullyrðingar, að stefnandi hafi orðið fyrir kostnaði, þrátt fyrir að umræddum tilboðslið hafi verið sleppt.

         Í grein 1.4 á bls. 22-23 í útboðs- og verklýsingu, sbr. dskj. nr. 4, sé að finna tæmandi verklýsingu fyrir gerð göngustígs við Eiðsgranda.  Þar komi skýrt fram, að fylling undir malbik stígsins skuli vera úr bögglabergi, sem skuli þjappað vandlega, en tekið sé fram, að sé yfirborð þá enn ójafnt skuli fínjafna yfirborðið með því að strá mulningslagi yfir bögglabergið, eins þunnt og kostur sé.  Alla tilboðsliði fyrir verkþætti stígsins sé að finna í kafla 2.4 í tilboðsskrá.  Í 4. mgr. greinar 1.0.8 í útboðs­og verklýsingu segi, að í tilboðsverðum skuli innifalinn allur kostnaður við einstaka verkþætti eins og þeir komi fram í útboðs- og verklýsingu og á teikningum.  Í 6. mgr. greinar 0.4.1 sé að finna sams konar ákvæði, en þar segi m.a., að í hverjum einstökum tilboðslið skuli innifalinn allur kostnaður verktaka af viðkomandi verklið, svo sem allt efni, vinna, vélar, tæki o.s.frv.  Allir verkþættir við fyllingu stígsins komi fram í verklið 1.4 í útboðs- og verklýsingu og á teikningum í útboðsgögnum.  Samkvæmt framangreindu hafi stefnanda því borið að hafa allan kostnað innifalinn í tilboðsverðum sínum í kafla 2.4, þ.á.m. allan kostnað við stráningu mulningslags yfir bögglabergsfyllingu í stíg.  Tilboðsverð fyrir "Fyllingu í stíg og þjöppun" skv. grein 1.4 í verklýsingu eigi augljóslega undir samsvarandi kafla 2.4 í tilboðsskrá.  Á sama hátt eigi tilboðsverð fyrir grein 1.7 í verklýsingu, "Breikkun Eiðsgranda, mulinn ofaníburður" augljóslega undir samsvarandi kafla 2.7 í tilboðsskrá.  Samkvæmt leikreglum útboðsins hafi stefnanda því verið með öllu óheimilt að líta svo á, að verð fyrir stráningu mulnings yfir stíginn ætti undir tilboðslið í kafla 2.7 í tilboðsskrá.

         Stefnandi haldi því fram í stefnu málsins, að kostnaður hans við framkvæmd verksins sé sá sami, hvort heldur sem stráð sé yfir bögglabergsfyllingu með mulningi eða lagt 5 cm mulningslag yfir bögglabergsfyllinguna, og þannig skipti ekki máli þótt kostnaðinum við þennan verkþátt sé skipt upp milli tilboðsliða í kafla 2.4 og umrædds liðar í kafla 2.7.  Niðurstaðan sé sú sama.  Þessum skilningi stefnanda mótmæli stefndi alfarið.  Auk þess sem slíkur skilningur og útfærsla á tilboði sé í andstöðu við framangreind ákvæði verklýsingar, hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn, sem renni stoðum undir þessa fullyrðingu hans.  Þá verði með engu móti skilið, hvernig vinna og kaup á 5 cm lagi af muldum ofaníburði í 4.388 m2 stíg geti verið jafnmikil og vinna og kaup við stráningu á margfalt þynnra lagi af muldum ofaníburði á sama svæði.  Samkvæmt skýrum ákvæðum verklýsingar hafi sáldrun á muldum ofaníburði í stíg verið innifalinn í tilboðsliðum í kafla 2.4.  Með hliðsjón af framangreindu beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

         Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 130. gr., sbr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Varakrafa:

Fari svo að dómurinn telji, þvert á ákvæði verk- og útboðslýsingar, að stefnda beri að greiða stefnanda fyrir mulinn ofaníburð samkvæmt umdeildum lið í kafla 2.7 í tilboðsskrá, telji stefndi, að lækka beri kröfur stefnanda verulega, enda séu þær stórlega ofmetnar.

 

         Samkvæmt stefnu hafi stefnandi skilað inn tilboði, þar sem gert hafi verið ráð fyrir kostnaði við vinnu og kaup á nægjanlegu magni af muldum ofaníburði til þess að leggja 5 cm þykkt lag á 4.388 m2 stíg.  Samkvæmt tilboðinu meti stefnandi þessa framkvæmd á kr. 2.632.800.  Óumdeilt sé, að stefnandi hafi hvorki keypt það magn af muldum ofaníburði né lagt í þá vinnu eða annan kostnað sem tilboðsliðurinn "Mulinn ofaníburður, stígur", að fjárhæð kr. 2.632.800 gerði ráð fyrir.  Óumdeilt sé, að stefnandi hafi unnið verkið í samræmi við verklýsingu, þ.e. sáldrað yfir bögglabergs­fyllingu en ekki lagt 5 cm lag af muldum ofaníburði yfir bögglabergsfyllinguna.  Ljóst megi vera, að kostnaður stefnanda við fyllingu stígsins hafi því verið miklum mun lægri en falizt hefði í þeirri vinnu, efniskaupum og öðrum kostnaði, sem tilboð hans í þessa framkvæmd hafi gert ráð fyrir.  Samkvæmt grein 0.6.4 í útboðs-­ og verklýsingu, sbr. dskj. nr. 4, eigi verkkaupi rétt á lækkun samningsupphæðar, ef villa í útboðsgögnum leiði til minni kostnaðar.  Af þessum sökum beri því að lækka kröfur stefnanda verulega, enda hafi kostnaður hans verið verulega lægri við að framkvæma verkið með þeim hætti, sem raun hafi orðið á, t.d. í formi efnisinnkaupa.

         Þá bendi stefndi á, að þegar stefnanda var tilkynnt um niðurfellingu á hinum umdeilda tilboðslið á verkfundi, sbr. dskj. nr. 7, hafi hann ekki sagzt vera til viðræðu um að greiðslur vegna þessa liðar féllu niður.  Á næsta verkfundi, sbr. dskj. nr. 8, hafi stefnandi hins vegar sagzt vera til viðræðu um, að honum yrði bættur upp kostnaður við heflun og efnisverð fyrir þunnt mulningslag með hækkun á lið bögglabergsfyllingar í kafla 2.4 í tilboðsskrá.  Að mati stefnda sýni þessi framkoma stefnanda, að hann hafi alls ekki orðið fyrir þeim kostnaði, sem hann haldi fram og því beri að lækka kröfur hans.   Að mati stefnda geti það hvorki talizt sanngjarnt né eðlilegt, að greitt sé fyrir tilboðslið, sem aldrei var unninn og eigi sér hvergi stoð í verklýsingu, teikningum eða öðrum útboðsgögnum.  Telji dómurinn þrátt fyrir allt, að stefnda beri að greiða fyrir hinn umdeilda tilboðslið, mæli sanngirnisrök með því að lækka beri þá kröfu verulega.  Stefndi bendi á, að stefnandi hafi lýst sig reiðubúinn til að fá bættan kostnað við heflun og efniskaup á þunnu mulningslagi gegn því að sleppa hinum umdeilda lið á tilboðsblaðinu.  Í samræmi við þennan vilja hafi stefndi boðizt til að hækka liðinn "Fylling með bögglabergi" í kafla 2.4 í tilboðsskrá úr 850 kr./m3 í 1.250 kr./m3 eða samtals um kr. 947.600.  Að mati stefnda sé þetta boð afar sanngjarnt og bæti rúmlega allan þann mögulegan kostnað og tjón, sem stefnandi kunni að hafa orðið fyrir við niðurfellingu mulningsliðar í kafla 2.7 í tilboðsskrá.

         Verði varakrafa stefnda tekin til greina og kröfur stefnanda lækkaðar krefjist stefndi þess, að málskostnaður verði felldur niður í samræmi við ákvæði 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

         Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé alfarið mótmælt.  Stefndi hafi alla tíð lýst sig reiðubúinn til að greiða óumdeildan hluta eftirstöðva, sbr. dskj. nr. 29, sbr. og bréf stefnda til stefnanda, dags. 8. og 19. marz 2001, á dskj. nr. 14 og 16.  Stefnandi kjósi hins vegar að leggja fram einn reikning þann 19. júní 2001 fyrir heildarkröfunni, þrátt fyrir að þá hafi legið fyrir vilyrði stefnda fyrir greiðslu á óumdeildum hluta þeirra eftirstöðva.  Með hliðsjón af framangreindu og niðurlagi 7. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 telji stefndi að hafna beri kröfu stefnanda um dráttarvexti af kr. 4.270.211 frá 19.06. 2001 til 13.12. 2001, eins og segi í dómkröfu.  Þá telji stefndi, að eins og mál þetta sé vaxið, beri eðli málsins samkvæmt að miða upphafsdag dráttarvaxta við höfðun máls þessa, sbr. 4. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

 

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Jón A. Jónsson framkvæmdastjóri stefnanda, Guðni Eiríksson, byggingaverkfræðingur hjá Fjölhönnun, Freyr Jóhannesson byggingatæknifræðingur, Harald B. Alfreðsson, byggingaverkfræðingur hjá Hnit, og Ásmundur Magnússon, ráðgjafi hjá ÁM ráðgjöf.

         Jón A. Jónsson skýrði m.a. svo frá fyrir dómi, að hann hefði kynnt sér öll útboðsgögn, en ekki tekið eftir misræmi því, sem er tilefni þessarar málssóknar, fyrr en verkið var hafið. 

         Í lið 1.4 í útboðs- og verklýsingu er vísað til teikninga, sem liggja fyrir í málinu sem dskj. nr. 31.  Viðeigandi teikningu er að finna á bls. 8 í því skjali, merkt “Aðalstígur”.  Teikning þessi er í samræmi við lið 1.4. og gerir ráð fyrir fyllingu með bögglabergi, en sýnir ekki 50 mm mulningslag.

         Samkvæmt lið 2.4 í tilboðsskrá, sem vísar til liðar 1.4 í útboðs- og verklýsingu, er heldur ekki gert ráð fyrir 50 mm mulningslagi, heldur er þar einungis gert ráð fyrir fyllingu með bögglabergi og fyllingu með efni á staðnum.

         Mistök verkkaupa, stefnda, við gerð útboðsgagna verða í lið 2.7 í tilboðsskrá, sem á að vísa til liðar 1.7 í útboðs- og verklýsingu, og er í sjálfu sér ekki ágreiningur um, að þarna hafi orðið mistök.  Hins vegar ber að geta þess, að einungis er talað um “mulinn ofaníburð, stíg” í síðasta þætti undir lið 2.7, en hvergi minnzt á þykktina 50 mm.  Í útboðs- og verklýsingu, lið 1.7, sem samsvarar lið 2.7 í tilboðsskrá, er fjallað um breikkun Eiðsgranda og mulinn ofaníburð, en ekki mulning í stíg, og ætti því að vera ljóst, að liðurinn "mulningur í stíg” í lið 2.7 í tilboðsskrá, á ekki heima þar, og er ekki í samræmi við lið 1.7 í útboðs- og verklýsingu.  Mistökin eru því augljós og hefðu ekki átt að fara framhjá fyrirsvarsmanni stefnanda við tilboðsgerð, en hann skýrði frá því fyrir dómi, svo sem fyrr greinir, að hann hefði kynnt sér öll útboðsgögn.

         Fyrirsvarsmaður stefnanda bar enn fremur fyrir dómi, að honum hefði borið að fylla út alla liði í tilboðsskrá, ella yrði tilboð hans metið ógilt. 

         Óumdeilt er, að ÍST 30 gilti í samskiptum aðila.  Þar segir í gr. 4.3, að verði væntanlegur bjóðandi var við ósamræmi í útboðsgögnum, sem haft geti áhrif á tilboðsfjárhæð, skuli hann, svo fljótt sem verða megi, senda verkkaupa skriflega fyrirspurn.

         Svo sem fyrr er rakið, telur dómurinn, með hliðsjón af útboðsgögnum, að ekki hefði átt að fara framhjá bjóðanda, þ.e. stefnanda, að þarna höfðu verið gerð mistök í lið 2.7. í tilboðsskrá, og bar honum því, samkvæmt framangreindu ákvæði ÍST 30 að senda verkkaupa skriflega fyrirspurn þar að lútandi.  Þar sem stefnandi neytti ekki þess úrræðis, sem staðallinn bauð honum, ber hann ábyrgð á afleiðingum þess að bjóða í verkið eins og það var í tilboðsskrá, án tillits til þess ósamræmis við önnur útboðsgögn, sem að framan er rakið.

         Dómurinn telur reyndar ósannað, að stefnandi hafi borið nokkurn kostnað af mistökum í útboðsgögnum, en hann gerði verkkaupa vart um mistökin, áður en hann var farinn að leggja vinnu eða efniskaup í þann hluta verksins.  Hefur stefnandi ekki sýnt fram á, að sú aðferð, sem notuð var við verkið, hafi reynzt dýrari, en sú, sem stefnandi kveðst hafa miðað tilboð sitt við.

         Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

         Eftir atvikum þykir rétt, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómendunum Ragnari Ingimarssyni verkfræðingi og Guðbrandi Steinþórssyni verkfræðingi.

 

D Ó M S O R Ð :

         Stefndi, Reykjavíkurborg, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Víkurverks ehf.

         Málskostnaður fellur niður.