Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. janúar 2002.

Nr. 44/2002.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Nálgunarbann.

X var gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, þannig að honum var í sex mánuði bannað að koma í tiltekið hús eða vera á nánar afmörkuðu svæði. Þá var honum bannað jafnlengi að hringja í, veita eftirför, heimsækja eða vera með öðru móti í beinu og milliliðalausu sambandi við fyrrverandi eiginkonu sína, dóttur hennar og samstarfsmann.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2002, þar sem varnaraðila var með nánar tilteknum hætti gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbannið verði aðeins látið ná til heimilis og/eða starfstöðvar nafngreindra manna á nánar tilteknum stað, svo og að því verði markaður skemmri tími. Þá krefst varnaraðili þess að sakarkostnaðar á báðum dómstigum verði lagður á ríkissjóð.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða allan kostnað af kærumáli þessu, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Varnaraðili, X, greiði allan kostnað af kærumáli þessu, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2002.

Sýslumaðurinn í Kópavogi krafðist þess 22. þm. fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X verði með úrskurði réttarins gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000. Þess er krafist að nálgunarbannið standi í sex mánuði og í því felist að bann við því að varnaraðili hringi í A eða komi í eða sé við hús eða bifreiðageymslur að [...] á svæði sem afmarkast af [...]. Þá er þess krafist að bannið taki einnig til þess að hann veiti eftirför, heimsæki eða komi sér með öðru móti í beint og milliliðalaust samband við A, dóttur hennar B og samstarfsmann A, C.

Varnaraðili krefst þess að synjað verði um framgang kröfunnar. Þá krefst verjandi hans málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

I.

Í greinargerð lögreglustjórans í Kópavogi með kröfunni kemur fram að kærandi er fyrrum eiginkona varnaraðila. Hún hafi reynt að slíta hjúskap þeirra frá því í febrúar 1999 en þó hefur hjúskapnum ekki enn verið slitið að lögum.

Varnaraðili var með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 4. september 2000 úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart kæranda dóttur hennar og starfsmanni í sex mánuði frá birtingu úrskurðarins. Ástæða þess voru síendurteknar hótanir, ofbeldi og eignaspjöll sem beindust að kæranda og D, þáverandi starfsmanni kæranda. Vegna þessara brota gaf Ríkisaksóknari út ákæru þann 21. maí 2001 á hendur kærða í 5 liðum vegna líkamsárása, eignaspjalla og brota gegn vopnalögum. Það mál er nú til meðferðar fyrir dóminum.

Eftir að nálgunarbanninu lauk hefur varnaraðili að sögn kæranda tekið upp þráðinn á ný. Á tímabilinu 25. júlí 2001 til 20. janúar 2002 mætti kærandi ítrekað til lögreglunnar í Kópavogi til þess að leggja fram kæru á hendur varnaraðila fyrir hótanir, ofbeldi og viðvarandi ónæði. Að sögn sóknaraðila eru eftirgreindir atburðir til meðferðar hjá lögreglustjóranum í Kópavogi.

Þann 25. júlí 2001 mætti kærandi hjá lögreglu og kvaðst hafa orðið fyrir símaónæði af hálfu varnaraðila frá því í júní 2001. Hann hefði hringt í hana 20 til 30 sinnum á dag á dvalarstað hennar í [...]. Símtölin hefðu farið fram á ensku og varnaraðili hefði hótað henni lífláti. Hún tæki hótanirnar alvarlega þar sem hún þekkti varnaraðila af því að beita ofbeldi. Þar sem hún óttaðist um velferð dóttur sinnar, B, 15 ára, hefði hún nú í öryggisskyni sent hana til móður kæranda í [...].

Að sögn kæranda hringdi varnaraðili í hana 66 sinnum á tímabilinu frá 20. til 24. júlí. Í þessum símtölum hefði hann lagt enn meiri áherslu í hótanir sínar en áður. Ástæðu þessa taldi kærandi vera ýmis mál á hendur varnaraðila sem dómstólar hefðu til meðferðar.

Þann 8. ágúst sl. kom kærandi aftur til rannsóknardeildar lögreglunnar og sagði varnaraðila hafa haldið áfram að hringja í sig nokkur símtöl á dag og hefðu þau verið lík hinum fyrri. Að auki kvað hún konu, E sem býr á heimili varnar­aðila hafa hringt í sig um 10 sinnum og hótað því að kveikt yrði í fyrirtæki hennar, ef hún greiddi varnaraðila ekki 6.000.000 krónur. Ennfremur hafi E hringt í dóttur kæranda, B, til [...] þar sem hún dvelst hjá móðurömmu sinni og hótað því að kærandi yrði drepin svo og faðir B. Kærandi krafðist þess að lögreglan færi fram á að varnaraðili yrði úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart henni og fjölskyldu hennar.

Þann 9. ágúst tók lögreglan símaskýrslu af F, móður kæranda, sem er búsett í [...]. Að hennar sögn hafði hún mánuði áður fengið símtal frá E, þar sem hún hótaði því að kærandi yrði beitt líkamsmeiðingum. Móður kæranda skildist að hún ætti að koma þessum hótunum á framfæri við kæranda svo og að hótanirnar væru einnig frá varnaraðila. Í skýrslu sem tekin var af varnaraðila og E 10. ágúst neituðu þau sakargiftum.

Þann 13. ágúst 2001 lagði kærandi fram kæru á hendur varnaraðila og syni hans, Y, fyrir líkamsárás. Að hennar sögn var hún, daginn áður, ásamt vini sínum C stödd á þvottaplani bensínstöðvarinnar [...]. Þá hefðu varnaraðili og sonur hans komið að þar sem þau voru að þvo bílinn og hefði varnaraðili ráðist að henni með því að hrinda henni og stjaka við henni. Að auki hefði varnaraðili kallað hana illum nöfnum og gert klámfengin tákn með höndunum. Sama dag kom varnaraðili til skýrslutöku hjá lögreglunni og kærði kæranda fyrir hótanir vegna sama tilviks.

Þann 17. október kom kærandi á ný til rannsóknardeildar lögreglunnar í Kópavogi til þess að kæra viðvarandi hótanir varnaraðila í símtölum við kæranda. Hringt hefði verið í þrjú tilgreind símanúmer hennar bæði úr leyninúmerum og úr fjórum skráðum númerum sem hún tilgreindi. Hún hefði þekkt rödd varnaraðila í símanum en hann hefði m.a. kallað hana hóru.

Þann 6. nóvember kærði kærandi varnaraðila enn fyrir hótanir. Þennan dag hefðu hún og C verið á leið frá [...] til Hafnarfjarðar þegar hún varð þess vör að varnaraðili veitti henni eftirför í annari bifreið. Hún hefði farið í verslunina [...]. Varnaraðili hefði þá komið að þeim og farið að áreita þau og blóta. Að lokum hefði hún reiðst svo mikið að hún hefði svarað honum. Þá hefði hún tekið eftir því að varnaraðili hélt á járnstykki og hefði hún reynt að forða sér en hann hafi haldið áfram að áreita þau. Starfsmaður verslunarinnar hafi svo rekið varnaraðila út úr versluninni.

Þann 16. janúar kærði kærandi innbrot í bifreið sína [...] þar sem hún stóð í bifreiðageymslu í [...]. Hliðarrúða hafði verið brotin og útvarps­tæki og geislaspilara stolið. Þann 21. janúar lagði kærandi fram kæru á hendur varnaraðila og sonum hans vegna þessa innbrots. Kærði hefði undanfarið verið á bifreiðinni [...] og hefði sú bifreið sést á brotavettvangi.

Sunnudaginn 20. janúar var tilkynnt til lögreglunnar í Kópavogi að varnaraðili hafi reynt að aka á kæranda á bifreiðastæði við [...]. Á vettvangi hitti lögreglan kæranda sem var í miklu uppnámi. Hún kvaðst hafa verið á leið í sund með samstarfsfólki sínu þegar varnaraðili hafi ekið hjá og hafi hrópað ókvæðisorð til þeirra. Hafi hún þá snúið við og lagt af stað heim en hin hafi haldið áfram. Varnaraðili hafi þá komið til baka og þar sem hún var á gangi framhjá bensínstöð [...] hafi varnaraðili reynt að aka á hana en henni hafi tekist að víkja sér undan og fara heim. Hún hafi ítrekað reynt að fara út aftur en varnaraðili hafi þá alltaf komið til baka á bifreiðinni og farið að áreita hana. Kvaðst hún nú orðin mjög hrædd um líf sitt og öryggi fjölskyldu sinnar enda væri ekkert lát á ónæði varnaraðila. Hún sagði dóttur sína ennfremur mjög hrædda og ætti hún erfitt með að læra og einbeita sér vegna hótana varnaraðila.

II.

Varnaraðili var úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart kæranda 4. september 2000. Frá lokum þess banns hefur kærandi í fjölmörg skipti gefið skýrslu hjá lögreglu um meinta áreitni varnaraðila við kæranda, dóttur hennar og vin. Meðal gagna málsins eru skýrslur vitna sem staðfesta frásagnir kæranda af áreitni varnaraðila við kæranda og C á þvottaplani bensínstöðvar [...] svo og áreitni varnaraðila við kæranda og C í verslun [...]. Ennfremur liggja fyrir gögn frá Landssímanum sem staðfesta síendurteknar símhringingar í símanúmer kæranda úr símanúmerum tengdum varnaraðila.

Með framangreindu þykir sýnt að varnaraðili hafi ítrekað raskað friði kæranda og veist að henni og C með hótunum og með ofbeldi frá því í júlí 2001. Stígandi hefur verið í áreitninni sem byrjaði með símhringingum á heimili og vinnustað kæranda en hefur þróast yfir í það að varnaraðili veitir kæranda eftirför, jafnvel yfir í önnur bæjarfélög og veigrar sér ekki við að veitast að henni og vini hennar með ofbeldi þó mörg vitni séu á vettvangi. Fallast má á það með sóknaraðila að rökstudd ástæða sé til að ætla að varnaraðili muni halda áfram að raska friði kæranda, dóttur hennar og vinar verði ekki eitthvað að gert. Því þykir rétt með vísan til 110. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, að verða við kröfu sóknaraðila um nálgunarbann eins og hún er sett fram.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber varnaraðila að greiða allan sakarkostnað þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar, hæsta­réttar­lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 50.000 krónur, að viðbættum virðisauka­skatti.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, í sex mánuði frá birtingu þessa úrskurðar. Á því tímabili er honum óheimilt að koma í eða vera við hús eða bifreiðageymslur á svæði [...] sem afmarkast af eftirtöldum götum: [...]. Jafnframt er honum bannað að hringja í, veita eftirför, heimsækja eða vera með öðru móti í beinu og milliliðalausu sambandi við A, B og C.

Varnaraðili greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar, hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.