Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-101
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Húsfélag
- Fjöleignarhús
- Skaðabætur
- Áfrýjunarfrestur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 6. júlí 2022 leitar Glaucia Da Conceicao Pereira leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. maí 2022 í máli nr. 392/2021: Glaucia Da Conceicao Pereira gegn Efstasundi 100, húsfélagi á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi gegndi formennsku hjá gagnaðila á árunum 2017 til 2019. Eftir að hún lét af formennsku gerðu aðrir sameigendur athugasemdir við ýmsar millifærslur af reikningi gagnaðila inn á reikninga í eigu leyfisbeiðanda og fimm annarra einstaklinga. Gagnaðili höfðaði í kjölfarið mál á hendur leyfisbeiðanda til greiðslu skaðabóta á grundvelli 2. mgr. 71. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
4. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi hefði með ólögmætum hætti greitt sér þóknanir fyrir störf sín án þess að þær greiðslur hefðu verið bornar upp og samþykktar á húsfundi samkvæmt 4. tölulið c-liðar 1. mgr. 41. gr., sbr. 65. gr. laga nr. 26/1994. Þá hefði hún millifært fjármuni af reikning gagnaðila inn á eigin reikning og reikninga fimm annarra einstaklinga án heimildar samkvæmt lögum nr. 26/1994 og án haldbærra skýringa. Var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila alls 2.876.593 krónur með nánar tilgreindum vöxtum.
5. Leyfisbeiðandi tekur fram að beiðni um áfrýjunarleyfi hafi ekki verið sett fram innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms Landsréttar, sbr. 1. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar hafi beiðnin komið fram innan fjögurra vikna viðbótarfrests 2. mgr. 177. gr. sömu laga enda sé dráttur á áfrýjun nægjanlega réttlættur. Því til stuðnings vísar hún meðal annars til þess að hún hafi glímt við veikindi auk þess sem hún sé búsett erlendis og tali ekki íslensku. Þá hafi hún ekki fengið upplýsingar frá Landsrétti um tímamörk áfrýjunar en á þeim tíma hefði lögmaður sem flutti málið fyrir Landsrétti ekki lengur gætt hagsmuna hennar. Um skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um meðal annars réttarstöðu aðila við alvarlegan ágreining í húsfélögum og um ábyrgð formanna og gjaldkera í slíkum félögum. Þá reisir hún beiðni sína á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.
6. Heimildarákvæði 2. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 er undantekning frá meginreglu um fjögurra vikna frest til að sækja um áfrýjunarleyfi. Þær skýringar sem leyfisbeiðandi hefur gefið á því að ekki var sótt um leyfi innan tímamarka 1. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 fullnægja ekki þeim áskilnaði sem tilgreindur er í 2. mgr. 177. gr. laganna. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi hafnað.