Hæstiréttur íslands

Mál nr. 125/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti


                                                                                              

Fimmtudaginn 20. mars 2014.

Nr. 125/2014.

 

Framleiðslan ehf.

(Snorri Sturluson hdl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem bú F ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Í hf. Bankinn hafði með vísan til 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skorað á F ehf. að lýsa því yfir með skriflegum hætti innan þriggja vikna frá móttöku áskorunarinnar að félagið væri fært um að greiða tiltekna gjaldfallna skuld innan skamms tíma. F ehf. sinnti ekki þessari áskorun og ekki varð fundin stoð fyrir því í gögnum málsins hvort og að hvaða marki fjárkrafa sú sem lá til grundvallar kröfu bankans um gjaldþrotaskipti væri tryggð með veði í fasteign félagsins. Að þessu virtu, og þar sem F ehf. hafði hvorki orðið við áskorun bankans né sýnt fram á að hann væri allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær féllu í gjalddaga eða yrði það innan skamms, var hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2014, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði krafðist varnaraðili 13. ágúst 2013 úrskurðar héraðsdóms um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Var krafan á því reist að sóknaraðila hefði verið send áskorun 29. janúar 2013 samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um að greiða skuld að fjárhæð 105.258.153 krónur samkvæmt skuldabréfi útgefnu af sóknaraðila til varnaraðila 7. júlí 2010, upphaflega að fjárhæð 79.000.000 krónur. Skuldabréfið var „verðtryggt skuldabréf, án trygginga“ með jöfnum afborgunum. Óumdeilt er að lán þetta hefur verið í vanskilum frá 1. mars 2011. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði sinnti sóknaraðili því ekki að svara áskorun varnaraðila.

Andmæli sóknaraðila við kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti eru einkum á því reist að fjárkrafa sú sem liggur til grundvallar kröfunni sé nægilega tryggð með veði á 2. veðrétti í fasteign sóknaraðila að Selhellu 5 í Hafnarfirði og vísar hann um það til 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þessu hefur varnaraðili andmælt og jafnframt vísað til þess að skuldir sóknaraðila við sig hafi í janúar 2014 numið alls 350.568.140 krónum en fasteignamatsverð þeirrar eignar sem um ræðir er samkvæmt gögnum málsins 220.450.000 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi þinglýsingarvottorði 27. febrúar 2013 hvíla á 1. til 4. veðrétti fasteignarinnar tryggingarbréf varnaraðila. Ekki verður fundin stoð fyrir því í gögnum málsins hvort og að hvaða marki fjárkrafa sú sem liggur til grundvallar kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti sé tryggð með veði í fasteigninni, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, en sönnun um það atriði hvílir á sóknaraðila. Að þessu virtu og þar sem sóknaraðili varð hvorki við framangreindri áskorun varnaraðila né hefur sýnt fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær falla í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Framleiðslan ehf., greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2014.

Krafa sóknaraðila, Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík um að bú varnaraðila, Framleiðslunnar ehf., Síðumúla 25, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta barst dóminum 15. ágúst 2013. Hún var tekin fyrir í dómi 16. október 2013. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest þetta ágreiningsmál, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Varnaraðili lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum í þinghaldi 30. október 2013. Málið var flutt munnlega 6. janúar sl. og tekið til úrskurðar.

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst sóknaraðili máls­kostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili máls­kostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málavextir

Krafa sóknaraðila byggir á skuldabréfi sem sóknaraðili gaf út 7. júlí 2010 til Byrs hf. að fjárhæð 79 milljónir króna, auðkennt nr. 544-74-210695. Skuldabréfið var verðtryggt, bundið vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 365,3 stig og skyldi bera vexti sem voru kjörvextir, eins og þeir skyldu ákveðnir á hverjum tíma af Byr, auk 2,5% vaxtaálags. Við útgáfu veðskuldabréfsins voru vextir samtals 8,55%. Skuld samkvæmt skuldabréfinu átti að endurgreiða með 96 afborgunum á eins mánaðar fresti og var gjalddagi fyrstu afborgunar 1. mars 2011. Ekki er um það deilt að skuld samkvæmt skuldabréfinu er í vanskilum síðan 1. mars 2011.

Sóknaraðili á frekari kröfur á varnaraðila. Sóknaraðili gaf út verðtryggt skuldabréf til Byrs sparisjóðs 26. október 2009 að fjárhæð 7,2 milljónir króna, auðkennt nr. 544-74-210662. Að sögn sóknaraðila er skuld samkvæmt skuldabréfinu í vanskilum síðan 1. mars 2011 og nemur fjárhæð skuldarinnar, miðað við 4. janúar sl., 7.419.592 krónum.

Byr sparisjóður og varnaraðili gerðu með sér tvo lánssamninga. Annar samningurinn er dags. 22. ágúst 2007, um lán í erlendum gjaldmiðlum samkvæmt fyrirsögn sinni. Sóknaraðili hefur endurreiknað lánið og nemur fjárhæð skuldarinnar, miðað við 6. janúar sl., 59.231.452 krónum samkvæmt þeim endurreikningi. Lánið er að sögn sóknaraðila gjaldfallið. Hinn samningurinn er dags. 21. júlí 2009 og er um lán að fjárhæð 68.276.000 krónur. Að sögn sóknaraðila er lánið gjaldfallið.

Stefna var árituð á hendur varnaraðila 7. febrúar 2013 fyrir skuld við sóknaraðila samkvæmt tékkareikningi. Dómkröfur sóknaraðila voru þær að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða honum 8.986.897 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæðinni frá 31. maí 2012 til greiðsludags. Að sögn sóknaraðila nemur fjárhæð skuldarinnar, miðað við 4. janúar sl., 10.914.432 krónum.

Varnaraðili á fasteign að Selhellu 5 í Hafnarfirði, fastanúmer 232-0958. Fasteignamat eignarinnar árið 2013 er 212.650.000 krónur en fasteignamat ársins 2014 er 220.450.000 krónur. Fasteignin er eina eign varnaraðila sem segir að eignin sé sérhæft verksmiðjuhúsnæði, 2.500 m² að stærð og nánast fullbúin, reist sérstaklega sem vatnsverksmiðja til átöppunar og pökkunar drykkjarvatns til sölu innanlands og erlendis. Uppsett fullbúin vatnsverksmiðja í eigu félagsins KK22 ehf. sé nú í fasteigninni.

Samruni Byrs hf. og Íslandsbanka hf. var samþykktur af Fjármálaeftirlitinu 17. október 2011. Samruninn var samþykktur af stjórn Íslandsbanka hf. og á hluthafafundi Byrs hf. 29. nóvember 2011 og tók gildi sama dag. Réttindum og skyldum Byrs hf. taldist reikningslega lokið 30. júní 2011 og frá þeim degi tók Íslandsbanki hf. við öllum réttindum og skyldum vegna Byrs hf. Áður mun Byr hf. hafa tekið við eignum Byrs sparisjóðs.

Hinn 29. janúar 2013 sendi sóknaraðili varnaraðila greiðsluáskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem var birt varnaraðila 20. febrúar 2013. Í áskoruninni var skorað á varnaraðila að greiða skuld samkvæmt fyrrnefndu skuldabréfi nr. 544-74-210695, að fjárhæð 105.258.153 krónur, þar af höfuðstóll 76.224.392 krónur, eða lýsa því yfir skriflega innan 21 dags frá móttöku áskorunarinnar að hann yrði fær um að greiða skuldina innan skamms tíma frá móttöku áskorunarinnar. Þess væri einnig óskað að tiltekið yrði hvenær sóknaraðili yrði fær um að greiða skuldina. Tekið var fram að hefði skrifleg yfirlýsing ekki borist skrifstofu sóknaraðila innan þessa frests yrði krafist gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði. Þessari áskorun svaraði varnaraðili ekki.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína á fyrrnefndu skuldabréfi nr. 544-74-210695, útgefnu af varnaraðila til Byrs hf., sem hafi nú sameinast sóknaraðila. Skuldabréfið hafi upphaflega verið að fjárhæð 79 milljónir króna og sé í vanskilum síðan 1. mars 2011. Hinn 29. janúar 2013 hafi sóknaraðili sent varnaraðila áskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem skorað hafi verið á hann að greiða þessa skuld eða lýsa því yfir innan 21 dags frá móttöku áskorunarinnar að hann yrði fær um að greiða skuldina innan skamms tíma. Varnaraðili hafi ekki orðið við áskoruninni og því sé krafist gjaldþrotaskipta á búi hans.

Lögmaður varnaraðila byggði á því við munnlegan flutning málsins að ákvæði 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 væri uppfyllt. Varnaraðili hefði ekkert greitt af láni samkvæmt lánssamningi frá 2007. Varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann sé gjaldfær eða að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð, sbr. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Tilvísun til fasteignamats sé ekki fullnægjandi og það sé varnaraðila að afla matsgerðar um markaðsvirði áðurnefndrar fasteignar að Selhellu 5 í Hafnarfirði. Ekki skipti máli þótt krafa sóknaraðila byggi á einni skuld. Í 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 sé gert ráð fyrir að skuldari lýsi því yfir að hann geti greitt allar skuldir. Gjaldfallnar skuldir varnaraðila nemi samtals um 194 milljónum króna.

Sóknaraðili sundurliðar kröfu sína samkvæmt skuldabréfi nr. 544-74-210695 á svofelldan hátt, miðað við 4. janúar sl.:

Höfuðstóll

350.000 krónur

Höfuðstóll, gjaldfelldur

76.224.392 krónur

Samningsvextir til 1. mars 2011

3.165.424 krónur

Dráttarvextir til 4. janúar 2014

31.120.716 krónur

Banka- og stimpilkostnaður

12.150 krónur

Innheimtuþóknun

1.379.100 krónur

Greiðsluáskorun

7.700 krónur

Veðbókarvottorð

1.500 krónur

Gjaldþrotaskiptabeiðni

15.600 krónur

Vaxtamunur vegna Byr lána

3.879.276 krónur

Vextir af kostnaði

2.825 krónur

Virðisaukaskattur

356.975 krónur

Samtals

116.515.758 krónur

 

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Við munnlegan flutning málsins mótmælti lögmaður varnaraðila því að lögmaður sóknaraðila legði fram gögn um aðrar kröfur sínar á hendur varnaraðila, enda hefði lögmaður varnaraðila ekki fengið tækifæri til að svara þeim kröfum.

Varnaraðili vísar til þess að eina eign hans sé fasteign að Selhellu 5 í Hafnarfirði, fastanúmer 232-0958. Fasteignamat eignarinnar ásamt lóðarréttindum sé samtals 220.450.000 krónur. Varnaraðili byggir á því að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði í fasteigninni, sbr. 1. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., krafan hvíli á 2. veðrétti eignarinnar, en lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að tryggingarbréf sóknaraðila hvíldi á fasteigninni. Sé lagt til grundvallar, með hliðsjón af 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, að söluverð fasteignarinnar sé ekki lægra en fasteignamat hennar sé ljóst að fjárkrafa sóknaraðila sé nægilega tryggð. Þessu til stuðnings hafi lýstar kröfur sóknaraðila, þegar hann krafðist vorið 2013 nauðungarsölu á eigninni sem síðar var afturkölluð, numið samtals 214.393.484 krónum. Auk þess hafi beiðni sóknaraðila um nauðungarsölu byggt á kröfu áhvílandi á 4. veðrétti fasteignarinnar sem þýði að 240 milljónir króna hafi verið á undan kröfu sóknaraðila. Þetta gefi til kynna hvert verðmat sóknaraðila sé á fasteigninni. Lögmaður varnaraðila vísaði einnig til þess við munnlegan flutning málsins að fjárnám hefði verið gert að ósk sóknaraðila á grundvelli yfirdráttarláns, en þeirri gerð hefði ekki lokið með árangri ef fasteign varnaraðila hefði ekki dugað fyrir kröfum sóknaraðila.

Ákvæði 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið bætt við lögin með 17. gr. laga nr. 95/2010 í því skyni að greiða fyrir því að bú lögaðila yrði tekið til skipta, væri það á annað borð óhjákvæmilegt. Nauðsynlegt hafi þótt að setja slíkt ákvæði til þess að ná yfir skuldbindingar með gjalddaga í framtíðinni, svokölluð kúlulán, til þess að aðilar gætu ekki komist hjá frestum samkvæmt lögum nr. 21/1991 með því einu að halda að sér höndum, t.d. frestum til að þola riftun á gerningum. Ákvæðinu hafi ekki verið ætlað að veita kröfuhöfum auknar heimildir til þess að krefjast gjaldþrotaskipta á búi skuldara, væru hinar hefðbundnu leiðir fullnusturéttarfars færar, og eigi notkun þessa ákvæði að heyra til undantekninga.

Niðurstaða

Óumdeilt er að sóknaraðili á kröfu á hendur varnaraðila, byggða á skuldabréfi, að höfuðstól um 76,5 milljónir króna, sem er að heildarfjárhæð 116.515.758 krónur, miðað við 4. janúar sl. Ekki er heldur um það deilt að lánið er í vanskilum síðan 1. mars 2011 og að varnaraðili svaraði ekki áskorun sóknaraðila samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Samkvæmt upphafsorðum 2. mgr. 65. gr. verður bú varnaraðila því tekið til gjaldþrotaskipta nema hann sýni fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær falla í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma, eða hann sýni fram á að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð samkvæmt 3. mgr. sömu greinar. Fyrir liggur að fasteignin að Selhellu 5 í Hafnarfirði er eina eign varnaraðila. Ekki er um það deilt að fjárkrafa sóknaraðila, sem hann byggir á kröfu sína um töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta, er tryggð með 2. veðrétti í fasteigninni. Engra gagna nýtur við um það hvaða aðrar kröfur hvíli á eigninni, þ. á m. hvaða krafa hvíli á 1. veðrétti og hversu há sú krafa sé. Varnaraðili hefur því ekki fært sönnur á að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði í fyrrnefndri fasteign. Eru skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 því uppfyllt fyrir því að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila. Í ljósi þessarar niðurstöðu gerist þess ekki þörf að fjalla um aðrar kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila.

Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal varnaraðili greiða sóknaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 150.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

 Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

Úrskurðarorð:

Bú varnaraðila, Framleiðslunnar ehf., er tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, Íslandsbanka hf., 150.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt.