Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-3

A (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
Stapa lífeyrissjóði (Arnar Þór Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lífeyrissjóður
  • Örorkulífeyrir
  • Börn
  • Almannatryggingar
  • Stjórnarskrá
  • Eignarréttur
  • Jafnræðisregla
  • Viðurkenningarkrafa
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 5. janúar 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 8. desember 2023 í máli nr. 570/2022: Stapi lífeyrissjóður gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gagnaðila hafi verið heimilt frá og með 1. janúar 2015 að skerða örorkulífeyrisgreiðslur til leyfisbeiðanda með því að telja honum til tekna barnalífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

4. Með héraðsdómi var viðurkennt að gagnaðila hafi verið óheimilt að skerða örorkulífeyrisgreiðslur leyfisbeiðanda með því að telja honum til tekna barnalífeyri sem hann fengi greiddan frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá var viðurkennt að leyfisbeiðandi ætti kröfu um að gagnaðila væri skylt að greiða honum vangoldnar örorkulífeyrisgreiðslur. Enn fremur féllst héraðsdómur á kröfu um viðurkenningu á fyrningarslitum kröfunnar.

5. Í dómi Landsréttar kom fram að ákveðið hefði verið á ársfundi Greiðslustofu lífeyrissjóða 19. mars 2015 að barnalífeyrir almannatrygginga yrði tekinn með í svokallaða tekjuathugun frá og með 1. janúar 2015. Sú ákvörðun var staðfest á stjórnarfundi gagnaðila 14. mars 2016. Með dóminum var viðurkennt að gagnaðila hefði á tímabilinu fram til 14. mars 2016 verið óheimilt að skerða umræddar greiðslur þar sem Greiðslustofan hefði ekki haft til þess heimild að taka efnislega ákvörðun um breyttar forsendur fyrir útreikningi lífeyrisgreiðslna sjóðfélaga gagnaðila sem leiddu til skerðingar á réttindum þeirra. Ætti leyfisbeiðandi kröfu á hendur gagnaðila um vangoldnar örorkulífeyrisgreiðslur til þess tíma. Eftir að stjórn gagnaðila hefði samþykkt ákvörðun Greiðslustofunnar hefði framangreind ákvörðun hennar öðlast gildi en heimild til þeirrar skerðingar sem af henni leiddi ætti sér skýra stoð í samþykktum gagnaðila. Landsréttur féllst ekki á að börn gagnaðila hefðu með breytingunni á árinu 2015 verið svipt þeirri lögbundnu vernd sem ákvæði um barnalífeyri í lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar hefði veitt þeim. Þá var hvorki fallist á að sú lækkun sem varð á lífeyrisgreiðslum leyfisbeiðanda á umræddu tímabili hefði byggst á ómálefnalegum ástæðum né að með henni hefði verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár. Einnig hefðu ekki verið færð fyrir því viðhlítandi rök að gengið hefði verið lengra en þörf væri á til að mæta því lögmæta markmiði að tryggja að réttur sjóðsfélaga til örorkulífeyris yrði ekki meiri en sem næmi þeirri tekjuskerðingu sem hann hefði orðið fyrir af völdum orkutapsins. Enn fremur var hvorki fallist á að sú skerðing sem af þessu leiddi hefði verið andstæð 1. mgr. 72. gr. né 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Loks var kröfu um viðurkenningu á fyrningarslitum kröfu leyfisbeiðanda vísað frá héraðsdómi þar sem hann hefði ekki af því lögvarða hagsmuni að fá dóm um slíka kröfu sem leiddi beinlínis af lögum.

6. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda reyni á grundvallarreglur um eignarréttindi einstaklinga í lífeyrissjóðum og skerðingu þeirra. Ágreiningur málsins lúti að því á hvaða grundvelli og að hvaða marki lífeyrissjóðum sé heimilt innan marka stjórnarskrárinnar, ákvæða laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, svo og samþykkta þeirra að skerða virk lífeyrisréttindi. Auk þess reyni á hvernig slík skerðing skuli framkvæmd, sé hún heimil. Þá hafi ekki áður reynt á skerðingu vegna barnalífeyrisgreiðslna almannatrygginga. Hann byggir jafnframt á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni sína enda lúti það að virkum eignarréttindum sínum sem séu stjórnarskrárvarin og afkomu hans og fjölskyldu hans. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé rangur.

7. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um hvort heimilt sé að telja örorkulífeyrisþega til tekna barnalífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins við ákvörðun lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóði. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.