Hæstiréttur íslands

Mál nr. 262/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Aðild
  • Lífsgjöf


Mánudaginn 27

 

Mánudaginn 27. ágúst 2001:

Nr. 262/2001.

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Erna Guðmundsdóttir

Guðmunda Guðmundsdóttir og

dánarbú Guðmundar Bjarnasonar

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

gegn

Svanfríði Guðmundsdóttur

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hdl.)

 

Kærumál. Dánarbússkipti. Aðild. Lífsgjöf.

Dánarbú G (D), ásamt erfingjunum A, E og G, höfðaði mál á hendur erfingjanum S samkvæmt 1. mgr. 124. gr., sbr. XVII. kafla laga nr. 20/1991. Fyrir lá að skiptastjóri hafði veitt þeim A, E og G heimild til að málshöfðunarinnar í nafni D. Gat því ekki átt við að þær ættu sjálfar aðild að málinu samhliða D. Var kröfum þeirra þriggja því vísað sjálfkrafa frá dómi. Af hálfu D var S krafin um greiðslu kröfu að fjárhæð 6.911.407 kr. vegna ráðstafana á fjármunum G á árunum 1995 og 1996. Ekki þótti hafa verið sýnt fram á að G hefði á þeim tíma verið ófær um að fara með fjármuni sína og ekki þóttu nægar líkur að því leiddar að einstakar ráðstafanir, sem um ræddi í málinu, hefðu verið gerðar án þess að þar væri til grundvallar ákvörðun hans sjálfs. Að því leyti sem S hafði sjálf notið góðs af þessum ráðstöfunum þótti engra gagna njóta við um að G hefði ætlast til endurgreiðslu úr hendi S á síðari stigum. S var því sýknuð af kröfu D.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. júní 2001, þar sem varnaraðili var sýknuð af kröfu sóknaraðila um greiðslu kröfu að fjárhæð 6.911.407 krónur. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefjast þau þess að varnaraðili verði dæmd til að greiða sóknaraðilanum dánarbúi Guðmundar Bjarnasonar 6.911.407 krónur, aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 22. febrúar 1995 til greiðsludags, en til vara með vöxtum samkvæmt 7. gr. sömu laga af sömu fjárhæðum frá 22. febrúar 1995 til 27. júlí 2000 og dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Sóknaraðilar krefjast einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Líta verður svo á að með framangreindri kröfu sóknaraðila um dráttarvexti sé ætlast til að um þá fari eftir ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 að telja.

I.

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara er mál þetta rekið samkvæmt 1. mgr. 124. gr., sbr. XVII. kafla laga nr. 20/1991, í tengslum við opinber skipti á dánarbúi Guðmundar Bjarnasonar, sem fæddist 14. janúar 1910 og lést 21. febrúar 1999. Fyrir liggur að erfingjar eftir Guðmund eru fjórar dætur hans, varnaraðilinn Svanfríður og sóknaraðilarnir Aðalheiður, Erna og Guðmunda, ásamt tveimur börnum látins sonar hans, Friðbirni Ægissyni og Guðrúnu Ægisdóttur. Var dánarbúið tekið til opinberra skipta 21. desember 1999 samkvæmt kröfu varnaraðila. Á skiptafundi 19. júlí 2000 var sóknaraðilunum Aðalheiði, Ernu og Guðmundu veitt heimild skiptastjóra til að höfða mál þetta í nafni dánarbúsins og því til hagsbóta, en á ábyrgð þeirra og kostnað. Í því ljósi getur ekki átt við að þessir sóknaraðilar eigi sjálfar aðild að málinu samhliða dánarbúi Guðmundar Bjarnasonar, enda verður mál ekki rekið á grundvelli 1. mgr. 124. gr. laga nr. 20/1991 nema það sé til að sækja réttindi dánarbús á hendur erfingja eða maka þess látna. Verður kröfum þessara þriggja sóknaraðila því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

II.

Aðalkrafa sóknaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar og heimvísun málsins er ekki studd haldbærum rökum. Henni verður því hafnað.

III.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði lést eiginkona Guðmundar Bjarnasonar á árinu 1977, en frá 1993 mun hann hafa búið á heimili varnaraðila þar til yfir lauk. Varnaraðili kveðst allt frá 1980 hafa aðstoðað hann við bankaviðskipti og aðra fjármálaumsýslu. Sóknaraðili rekur kröfu sína á hendur varnaraðila til ráðstafana á fjármunum Guðmundar á árunum 1995 og 1996, sem lýst er skilmerkilega í úrskurði héraðsdómara. Ekki hefur verið sýnt fram á að Guðmundur hafi á þeim tíma verið ófær um að fara með fjármuni sína. Þá hafa heldur ekki verið leiddar nægar líkur að því að einstakar ráðstafanir, sem um ræðir í málinu, hafi verið gerðar án þess að þar lægju til grundvallar ákvarðanir hans sjálfs. Að því leyti, sem fyrir liggur að varnaraðili hafi haft ábata af þessum ráðstöfunum, nýtur engra gagna við um að Guðmundur hafi ætlast til að til endurgreiðslu kæmi úr hendi hennar á síðari stigum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að sýkna varnaraðila af kröfu sóknaraðilans dánarbús Guðmundar Bjarnasonar.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Kröfum sóknaraðila, Aðalheiðar Guðmundsdóttur, Ernu Guðmundsdóttur og Guðmundu Guðmundsdóttur, er vísað frá héraðsdómi.

Varnaraðili, Svanfríður Guðmundsdóttir, er sýkn af kröfu sóknaraðila, dánarbús Guðmundar Bjarnasonar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. júní 2001.

I.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 20. þessa mánaðar, var þingfest fyrir dóminum 13. október 2000.

Sóknaraðilar eru Aðalheiður Guðmundsdóttir, kt. 240532-4099, Sæbóli 42, Grundarfirði, Erna Guðmundsdóttir, kt. 150633-3979, Rjúpufelli 23, Reykjavík og Guðmunda Guðmundsdóttir, kt. 010740-3049, Engihjalla 1, Kópavogi persónulega og fyrir hönd dánarbús Guðmundar Bjarnasonar, kt. 140110-2219, en hann lést 21. febrúar 1999.

Varnaraðili er Svanfríður Guðmundsóttir, kt. 100944-3759, Hörpulundi 4, Garðabæ, dóttir hins látna.

Sóknaraðilar gera aðallega þær dómkröfur að varnaraðili verði dæmd til að greiða dánarbúinu 6.911.407 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989 af kr. 330.000 frá 22. febrúar 1995 til 2. október 1995, af kr. 2.391.407 frá þeim degi til 24. september 1996, af kr. 4.391.407 frá þeim degi til 21. október 1996, af kr. 4.871.407 frá þeim degi til 4. desember 1996, af kr. 5.871.407 frá þeim degi til 30. desember 1996 og af kr. 6.911.407 frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara krefjast sóknaraðilar þess að varnaraðili verði dæmd til að greiða dánarbúinu kr. 6.911.407 með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga með sama hætti og í aðalkröfu til 27. júlí 2000, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Sóknaraðilar krefjast þess ennfremur að varnaraðili verði dæmd til að greiða sóknaraðilum málskostnað að skaðlausu í samræmi við málskostnaðarreikning.

 

Varnaraðili krefst þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum sóknaraðila í þessu máli.  Til vara er þess krafist að dómkröfur sóknaraðila verði lækkaðar stórlega.  Í báðum tilvikum er þess krafist að sóknaraðilum verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 21. desember 1999, var dánarbú Guðmundar Bjarnasonar, tekið til opinberra skipta og Ingi H. Sigurðsson hdl. skipaður skiptastjóri þess.

Á skiptafundi 19. júlí 2000  heimilaði skiptastjóri Hlöðver Kjartanssyni hdl., Bæjarhrauni 8, Hafnarfirði, fyrir hönd erfingjanna Aðalheiðar Guðmundsdóttur, kt. 240532-4099, Sæbóli 42, Grundarfirði, Ernu Guðmundsdóttur, kt. 150633-3979, Rjúpufelli 23, Reykjavík og Guðmundu Guðmundsdóttur, kt. 010740-3049, Engihjalla 1, Kópavogi að höfða og reka mál þetta vegna dánarbús Guðmundar Bjarnasonar á hendur meðerfingja þeirra Svanfríði Guðmunds­dóttur, sbr. bréf  lögmannsins 26. júní 2000.

Mál þetta er höfðað skv. heimild í 3. mgr. sbr. 1. mgr. 124. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Við aðalmeðferð málsins kom varnaraðili, Svanfríður Guðmundsdóttir, fyrir dóminn.  Ennfremur báru vitni Erna Guðmundsdóttir og Guðmunda Guðmundsdóttir.  Framburðar þeirra verður getið í málsatvikalýsingu eftir því sem þurfa þykir.

Málsatvik.

Guðmundur Bjarnason, sem lést þann 21. febrúar 1999 og eiginkona hans, Sigurrós Rósinkarsdóttir, sem lést þann 26. maí 1977 áttu fimm börn; Aðalheiði, Ernu og Guðmundu, sóknaraðila málsins, Svanfríði, varnaraðila málsins og soninn Ægi, sem lést 25. nóvember 1990.  Börn Ægis eru Friðbjörn Rósinkar og Guðrún Inga.  Þann 20. september 1995 skipaði sýslumaðurinn í Reykjavík varnaraðila sérstakan lögráðamann þessara barna bróður síns og hún er enn lögráðamaður Guðrúnar Ingu, sem er ólögráða sakir æsku.

Eftir lát eiginkonu sinnar sat Guðmundur Bjarnason í óskiptu búi í íbúð þeirra hjóna að Efstasundi 65.  Dætur hans litu til með honum og færðu honum mat en þó mun Svanfríður hafa aðstoðað hann sýnu mest, meðal annars við þvotta, þrif, innkaup og fleira.  Að auki sá hún um að taka út af bankabók fyrir hann og greiða reikninga. 

Fyrir dómi sagði varnaraðili að aðstoð hennar við föður sinn vegna fjármála hans hefði hafist þegar hann bjó einn í Efstasundi því þá hafi hann beðið hana að aka sér í bankann.  Þetta hafi verið um 1980.  Síðar meir hafi hann farið að biðja hana að fara fyrir sig í bankann og hafi það verið sjálfsagt.  Hún kvaðst hafa tekið út fyrir hann og greitt reikninga.  Stundum hafi faðir hennar komið með henni inn í bankann en stundum hafi hann setið úti í bíl.  Í upphafi þessarar umsýslu hafi faðir hennar fyllt út og undirritað eyðublað frá bankanum um það að hún mætti umgangast bankareikninga hans.  Hún kvaðst aldrei hafa farið í bankann nema faðir hennar bæði hana um það.  Í þau skipti sem hún hafi tekið út fé fyrir föður sinn hafi hann ætíð tekið við því af henni. 

Faðir varnaraðila dvaldi ennfremur ætíð hjá henni á stórhátíðum og varði sumarfríunum með henni og fjölskyldu hennar.  Varnaraðili sagði föður sinn hafa dvalist æ meir á heimili hennar í Garðabæ frá árinu 1991 eftir að hann var útskrifaður af sjúkrahúsi.  Árið 1993 hafi hann verið kominn með lögheimili hjá henni og hafi búið þar til dauðadags.

Fyrir dómi bar varnaraðili að faðir hennar hefði viljað leggja til heimilis hennar eftir að hann fluttist endanlega þangað.  Hann hafi ekki tekið annað í mál en að borga með sér og hafi greitt henni eitthvað í hverjum mánuði en það hafi verið misháar upphæðir í hvert sinn.

Þann 11. september 1995 seldi Guðmundur eignina að Efstasundi fyrir 6.000.000 krónur.  Varnaraðili kvað son sinn hafa keypt íbúðina.  Hún hefði staðið tóm í mörg ár, verið illa farin og því hefði ekkert gengið að selja hana.  Varnar­aðili taldi íbúðina hafa verið selda á markaðsverði því hún hefði verið seld fyrir milligöngu fasteignasölu.

Hluti kaupverðs íbúðarinnar var greiddur með fasteignaveðbréfi að upphæð 3.700.000 og mátti skipta því í húsbréf.  Vegna þessarar sölu veitti Guðmundur varnaraðila, 12. september 1995 „fullt og ótakmarkað umboð til að framselja fasteignaveðbréf að fjárhæð kr. 3.700.000 ... og fá í skiptum fyrir það húsbréf” svo og að taka við greiðslum fyrir húsbréfin.  Fasteigna­veðbréfinu var skipt í húsbréf 18. september 1995.  Húsbréfin voru seld Kaupþingi hf. 25. september 1995.  Varnaraðili móttók andvirði þeirra, 3.261.407 krónur, í tékka stíluðum á hana og lagði andvirði hans samdægurs inn á sinn eigin bankareikning í Búnaðarbanka Íslands.

Varnaraðili sagði að faðir hennar hefði viljað að húsbréfin sem fengust fyrir íbúðina yrðu seld til þess að hann gæti greitt út móðurarfinn.  Hann hafi viljað að það sem eftir stóð yrði lagt á tékkareikning hennar, til þægindaauka fyrir hana, því hann hafi ekki átt slíkan reikning.  Hún tók fram að faðir hennar hafi sjálfur ráðstafað því, sem hann átti á hennar reikningi.  Þeir peningar hafi ekki runnið til hennar.

Skiptum á dánarbúi Sigurrósar lauk með gerð erfðafjárskýrslu 22. september 1995  og áritun sýslumanns á skýrsluna 12. október 1995.

Varnaraðili sagði föður sinn hafa viljað ganga frá móðurarfinum strax eftir söluna á íbúðinni því hann vildi ekki skulda neinum neitt og þau hafi fengið Sigríði Ásgeirsdóttur, lögfræðing, til þess að ganga frá erfðafjárskýrslunni.  Varnaraðili kvaðst hafa afhent lögfræðingnum þau gögn sem skýrslan byggðist á en þau hefði hún fengið frá föður sínum.  Það sé rétt að í skýrslunni hefði ekki verið getið um banka­inni­stæðu sem faðir hennar átti á þeim tíma því hann hefði ekki viljað það.  Hann hefði sagt að hann hefði aldrei gefið upp að hann ætti þessa bankabók, þetta væri hans séreign sem ekki kæmi við skiptum eftir eiginkonu hans.

Á árinu 1996 fékk Guðmundur Bjarnason tvisvar sinnum greiðslur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins inn á bankareikning sinn í Landsbanka Íslands.  Annars vegar 18. október 1996, 488.197 krónur og hinsvegar 29. nóvember 1996, 2.014.020 krónur.

Þann 1. febrúar 1997 undirritaði Guðmundur gjafabréf þar sem hann gaf varnaraðila, Svanfríði dóttur sinni, 2.500.000 krónur.  Í bréfinu var áskilið að hún verði því fé til kaupa á hlut í jörðinni Lýsudal í Staðarsveit. 

Fyrir dómi sagði varnaraðili föður sinn mjög tengdan jörðinni Lýsudal í Staðarsveit og hafi hann alltaf viljað koma með ef fjölskyldan ætlaði þangað, en jörðin væri í eigu tengdafjölskyldu hennar.  Hann hafi því gefið varnaraðila 2.500.000 krónur til að kaupa hlut í jörðinni.  Hún sagði föður sinn hafa beðið einhvern að hjálpa sér að vélrita gjafabréfið fyrir upphæðinni en hann hefði sjálfur ritað undir það við skrifborðið í herberginu sínu.  Varnaraðili kvað föður sinn ekki hafa afhent sér þessa fjárhæð í einu lagi.  Hann hefði farið með henni í banka til að taka féð út.  Hún kvaðst ekki muna hvort hluti greiðslunnar hefði verið millifærður á reikning hennar.  Varnaraðili kvaðst ekki vera viss um hvort allt féð hefði verið afhent henni þegar gjafabréfið var ritað en hún hefði varið peningunum til að kaupa hlut í jörðinni.  Þeir hlutir hefðu verið keyptir af systkinum og systkinabörnum eiginmanns hennar og væri eiginmaður hennar skráður fyrir hlutunum.

Varnaraðili tilkynnti lát föður síns til sýslumannsins í Hafnarfirði 2. mars 1999.  Í sama mánuði greiddi varnaraðili hverri systur sinni um sig 360.000 krónur í arf eftir föður þeirra en greiddi bróðurbörnum sínum, Friðbirni Rósinkar og Guðrúnu Ingu, ekkert.  Fyrir dómi bar varnaraðili að hún hefði ekki gert sér grein fyrir erfðarétti þeirra enda hefði hún ekki notið lögfræðilegrar aðstoðar.

Þann 9. júlí 1999 sendi sýslumaður varnaraðila og systrum hennar bréf þar sem skorað var á þær að ljúka skiptum á dánarbúi föður síns.  Í þessu skyni fór varnaraðili til sýslumanns og greindi honum frá því að hinn látni léti eftir sig bankareikning og að einu skuldir búsins væri jarðarfararkostnaður.  Engu að síður var skráð hjá sýslumanni að búið væri eignalaust.

Systur varnaraðila, Aðalheiður, Erna og Guðmunda töldu dánarbúið ekki eignalaust og töldu varnaraðila því ekki hafa staðið rétt að málinu.  Fyrir dómi báru bæði Erna og Guðmunda að þær hefðu aldrei rætt fjármál við föður sinn og hefðu ekki vitað neitt um þau.  Þær hefðu ekki heldur farið ofan í saumana á sölu íbúðarinnar að Efstasundi heldur hafi þær treyst Svanfríði systur sinni til að sjá um þau mál.

Í því skyni að ná sáttum um einkaskipti hittust systurnar fjórar í byrjun september 1999 en sú tilraun varð árangurslaus.  Varnaraðili óskaði þá eftir því við Héraðsdóm Reykjaness að dánarbú föður hennar yrði tekið til opinberra skipta.  Úrskurður þar að lútandi var kveðinn upp 21. desember 1999.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

Sóknaraðilar telja að skiptin eftir móður þeirra, Sigurrósu Rósinkarsdóttur, hafi ekki farið fram á réttum forsendum þar sem verulegum fjárhæðum hafi verið haldið utan skipta til tjóns fyrir erfingja. 

Sóknaraðilar segjast hafa reynt að grafast fyrir um hvernig varnaraðili ráðstafaði þeim fjármunum sem fengust fyrir húsbréfin í september 1995.  Þeir segja upplýst að varnaraðili hafi lagt 2. október 1995, 1.200.000 krónur inn á bankareikning Guðmundar nr. 61651 í Lands­banka Íslands með skýringunni „v/erfðaskatt.”  Þessa fjárhæð hafi varnaraðili greitt með tékka  á framangreindan bankareikning sinn nr. 20446.  Fyrst hafi verið skráð á innborgunar­seðilinn kr. 1.075.437, en síðan strikað yfir þá fjárhæð.  Sóknaraðilar telja umboð varnaraðila frá Guðmundi Bjarnasyni vegna húsbréfanna hafi ekki náð til þessarar einkameðferðar varnaraðila á fjármunum hans.  Sóknaraðilar benda á að sú fjárhæð, sem var fyrst skráð á innborgunarseðilinn, kr. 1.075.437 samsvari þeirri fjárhæð sem erfingjunum Aðalheiði, Ernu og Guðmundu bar í arf eftir móður sína samkvæmt áðurnefndri erfðafjárskýrslu kr. 358.479 x 3 og greidd var þeim af reikningi Guðmundar nr. 61651 sama dag.

Ráðstöfun varnaraðila á andvirði húsbréfanna sé því bæði óskýrð og engin gögn um kr. 2.061.407 (kr. 3.261.407 – kr. 1.200.000).

Þetta andvirði peningaeignar Guðmundar er fyrsti hluti af dómkröfu stefnanda.

Sóknaraðilar taka fram að í bréfi lögmanns varnaraðila 22. maí 2000 til skiptastjóra segi, að umbjóðandi hans hafi ráðstafað andvirði húsbréfanna „með þeim hætti sem faðir hennar mælti fyrir um, þ.m.t. til að greiða arf vegna fráfalls” konu hans Sigurrósar.  Sóknaraðilar segja að engar skýringar hafi komið fram af hálfu varnaraðila um hverjar aðrar ráðstafanir hennar á fjármunum þessum voru eftir fyrirmælum föður síns, sem varnaraðili staðhæfir hins vegar í greinargerð sinni og skýrslu  að hún hafi enga hugmynd um.  Miklar þversagnir komi hér fram.  Þá benda þeir á að í nefndu bréfi lögmanns varnaraðila sé talið rétt að taka fram að faðir hennar „hafði ekki eigin tékkareikning og því var tékkareikningur umbjóðanda míns notaður til einföldunar við ráðstöfun nefndra fjármuna föður hennar.”  Sóknaraðilar telja varnaraðila því í lófa lagið að gera skilmerkilega grein fyrir þessum ráðstöfunum standi vilji hennar til þess, en áður hafi það margkomið fram við skiptameðferðina að engar frekari skýringar eða upplýsingar sé að hafa í þessum efnum frá varnaraðila.  Full seint sé að spyrja um ráðstöfun fjármuna föður hennar meðan hann lifði, eftir andlát hans.

Það annað af ráðstöfun fjármuna Guðmundar, sem sóknaraðilar hafi reynt að upplýsa með gögnum frá Landsbanka Íslands hf., séu áðurnefndar greiðslur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að upphæð kr. 488.197 (kr. 840.849 – staðgreiðsla skatta kr. 352.652) þann 18. október 1996 og kr. 2.014.020 (kr. 3.426.586 – staðgreiðsla skatta kr. 1.412.566) þann 29. nóvember 1996, en fjárhæðir þessar, samtals kr. 2.502.217, voru lagðar á bankareikning Guðmundar nr. 13349 á nefndum dögum.  Af framlögðum dómskjölum nr. 35-36 verði ráðið að stefnda tók út af þessum reikningi eftirfarandi fjárhæðir, en engar skýringar eða gögn hafa komið fram af hálfu stefndu hvernig hún ráðstafaði í þágu Guðmundar eða skv. hans beiðni:

21.10.1996                             kr.480.000

04.12.1996                             kr.1.000.000

30.12.1996                             kr.1.040.000

               kr.2.520.000

Þessar upphæðir peningaeignar Guðmundar eru annar hluti af dómkröfu stefnanda.

Sóknaraðilar benda á að á þeim gögnum sem fram eru komin í málinu kvitti varnaraðili í öllum tilvikum fyrir úttektum af bankareikningum Guðmundar heitins.  Þrátt fyrir fyrirspurn skiptastjóra í bréfi 12. janúar 2000  til Landsbanka Íslands hf. um hvort einhver/einhverjir hafi haft umboð til úttekta af þeim hafi ekkert komið fram um það frá bankanum að varnaraðili hafi haft slíkt umboð.

Að sögn sóknaraðila eru hæstu upphæðir sem varnaraðili tók út af bankareikningi Guðmundar nr. 61651 árin 1995 og 1996  og engar skýringar eða gögn hafa komið fram um af hálfu stefndu hvernig hún ráðstafaði í þágu Guðmundar eða skv. hans fyrirmælum eftirtaldar:

22.02.1995                             kr.330.000

24.09.1996                             kr.2.000.000

                                               kr.2.330.000

Þessar upphæðir peningaeignar Guðmundar eru þriðji hluti af dómkröfu sóknaraðila.

Að framan hafi verið gerð grein fyrir hæstu fjárhæðunum sem varnaraðili hefur að mati sóknaraðila móttekið af fjármunum Guðmundar og ekki sannanlega skilað til hans eða ráðstafað með öðrum hætti í samræmi við óskir hans og skuldbindingar eða með öðrum hætti í hans þágu.  Þær myndi stefnukröfuna:

 

Óskýrðar eftirstöðvar andvirðis húsbréfa                                                      kr.2.061.407

Úttekið af bankareikningi nr. 13349                                                                 kr.2.520.000

Úttekið af bankareikningi nr. 61651                                                                 kr.2.330.000

                                                                                                                              kr.6.911.407

 

Sóknaraðilari byggja á því að þeir eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila um endurgreiðslu þessarra fjármuna Guðmundar Bjarnasonar, sem til hennar hafa runnið, auk vaxta frá því hún móttók féð.

Á skiptafundi 30. maí 2000 óskaði lögmaður sóknaraðila eftir því að varnaraðili gæfi svar við því hvort hún væri reiðubúin til að endurgreiða eitthvað af þeim fjármunum föður hennar sem hún hefði kvittað fyrir móttöku á og gögn voru fram komin um við skiptin.  Var þá bókað eftir lögmanni hennar að hún teldi sig ekki „skulda dánarbúinu neina fjármuni og því verði ekki um neina endurgreiðslu að ræða.”  Á sama skiptafundi var bókuð eftir Friðbirni Rósinkar fyrir hans hönd og systur hans Guðrúnar Ingu sú afstaða hans, „að ekki eigi að krefja Svanfríði um endurgreiðslu fjármuna þeirra sem um hefur verið fjallað.”  Á skipta­fundi 19. júlí 2000 lýstu umboðsmenn varnaraðila, lögmaður hennar og eiginmaður, því enn yfir fyrir hönd hennar að hún hafnaði öllum framkomnum kröfum í bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 26. júní 2000, sem eru hinar sömu og stefnukrafan.  Því og þar sem varnaraðili hafi ekki þrátt fyrir ítrekaðar óskir komið fram með fullnægjandi skýringar og gögn um hvort og þá hvernig hún ráðstafaði þessum fjármunum í þágu Guðmundar eða samkvæmt hans fyrirmælum sé þessi málsókn óhjákvæmileg.

Dómkröfur sóknaraðila eru í fyrsta lagi reistar á því að um hafi verið að ræða peningalán Guðmundar Bjarnasonar til varnaraðila og hún hafi notað þá fjármuni í eigin þágu.  Varnaraðila sé skylt að endurgreiða sóknaraðila þá fjármuni samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar.

Í öðru lagi byggjast dómkröfur sóknaraðila á því að varnaraðili hafi ekki afhent Guðmundi Bjarnasyni þetta fé eins og henni hafi borið eða ráðstafað því með öðrum hætti í samræmi við óskir hans og skuldbindingar eða með öðrum bindandi hætti af hans hálfu í lifanda lífi og í hans þágu.  Varnaraðili hafi tekið féð að láni til afnota eða eignar með eða án hans samþykkis og sé skylt að endurgreiða þá fjármuni til sóknaraðila samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar.

Í þriðja lagi og til öryggis byggjast dómkröfur sóknaraðila einnig á því að varnaraðili hafi með saknæmum hætti dregið sér umrædda fjármuni Guðmundar Bjarnasonar eða kastað eign sinni á þá, notað þá heimildarlaust í þarfir sjálfrar sín eða annarra, misnotað aðstöðu sína og misfarið með umboð við fjárreiður fyrir Guðmund Bjarnason og auðgast sjálf að sama skapi með ólögmætum hætti og samsvarandi tjóni fyrir sóknaraðila.  Varnaraðili sé því bæði greiðsluskyld gagnvart sóknaraðila samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar og bótaskyld samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins.

Málskostnaðarkröfu sína styðja sóknaraðilar einkum við 1. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 129. gr. sömu laga, ef til framlagningar málskostnaðarreiknings kemur.  Taka beri tillit til virðisaukaskatts á málskostnað skv. lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum, en sóknaraðilar eru ekki virðisaukaskattsskyldir.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili byggir mál sitt á því, að við úrlausn málsins verði að taka mið af atvikum þess, þar með talið nánum tengslum föður varnaraðila við hana og fjölskyldu hennar.  Enginn vafi leiki á að tengsl varnaraðila við föður hennar hafi verið mun nánari en tengsl systra hennar við hann, enda hafi varnaraðili að mestu leyti annast föður sinni frá árinu 1977 og allt til dauðadags hans árið 1999.  Systur varnaraðila hafi hins vegar skipt sér lítið sem ekkert af föður sínum, að Ernu undanskilinni.

Enginn vafi sé á að faðir varnaraðila hafi bæði verið til þess fær, líkamlega og andlega, og bær, lagalega og siðferðislega, að taka sínar eigin ákvarðanir um meðhöndlun og ráðstöfun þeirra fjármuna sem hann sannanlega átti, sem og um önnur málefni sem hann snertu.  Ákvarðanir sínar hafi faðir varnaraðila tekið á sínum eigin forsendum og án þess að hún, eða aðrir, hefðu þar nokkur áhrif á.

Varnaraðili byggir mál sitt á því, að henni beri hvorki lagaleg né siðferðisleg skylda til að upplýsa sóknaraðila um aðstoð sína við föður sinn, hvorki fjármálalega aðstoð né annars konar aðstoð, enda hafi faðir hennar verið sjálfráða og fjár síns ráðandi og sem fyrr getur við góða andlega heilsu allt til dauðadags.  Þar fyrir utan hafi varnaraðili einungis verið föður sínum til aðstoðar, þ.e. hún hafi framkvæmt það sem hann bað hana um en hafi ekki tekið neinar sjálfstæðar ákvarðanir um meðhöndlun eða ráðstöfun fjármuna hans.

Varnaraðili telur jafnframt, með hliðsjón af framansögðu, að ekki sé með nokkurri sanngirni hægt að krefjast þess af henni að hún sanni móttöku föður síns á þeim fjármunum sem mál þetta er sprottið af eða upplýsi á annan hátt um það með hvaða hætti faðir hennar ráðstafaði þeim greiðslum, enda hafi þessar greiðslur farið fram fyrir 4-5 árum, sem hluti af mun stærri heild og án þess að varnaraðili setti sig sérstaklega inn í málið.  Þess utan sé það ekki venja á venjulegum heimilum fólks, að samskipti heimilismanna fari fram með skriflegum hætti eða að ástvinir gefi hverjir öðrum skrifleg fyrirmæli, hvort heldur sem er um fjármálaleg efni eða annarskonar atriði.  Engan hafi getað órað fyrir því á umræddum tíma, að ágreiningur kynni að koma upp mörgum árum síðar um aðstoð varnaraðila við föður sinn eða einstaka þætti þeirrar aðstoðar og því sé ekki við varnaraðila að sakast þótt hún hafi ekki tryggt sér sönnun þess að hafa afhent föður sínum umrædda fjármuni.

Varnaraðili hafi þrátt fyrir framangreinda afstöðu sína gert grein fyrir öllum þeim fjármunum, sem hún móttók frá föður sínum til nota í hennar eigin þágu, þ.e. 2.500.000 krónur.  Til marks um sérstöðu þeirrar ráðstöfunar föður varnaraðila hafi verið útbúið sérstakt skjal um hana. Hafi varnaraðili haft frelsi til að fara með fjármuni föður síns að eigin vild, eins og sóknaraðilar virðist byggja mál sitt á, hvers vegna í ósköpunum hafi varnaraðili og faðir hennar þá séð ástæðu til þess að útbúa sérstaka yfirlýsingu um þessa peningagjöf? Þess utan hafi þessi gjöf verið gefin í lifanda lífi föður varnaraðila, af fullkomlega frjálsum vilja af beggja hálfu og af ákveðnu tilefni.

Því er sérstaklega mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að þeir fjármunir sem mál þetta er sprottið af hafi runnið til varnaraðila eins og fullyrt er í stefnu, að undanskildum fyrr nefndum 2.500.000 krónum.

 

Varnaraðili vísar til þess að hún hafi að mestu annast um föður sinn í samtals rúma tvo áratugi, eins og áður er fram komið.  Meðal þeirra erinda sem hún hafi sinnt fyrir hann, í hans umboði og að hans beiðni, hafi verið bankaviðskipti, jafnt stór sem smá, greiðslur reikninga og fleira þess háttar.  Faðir varnaraðila, sem sóknaraðilar leiði rétt sinn frá, hafi samþykkt þessa tilhögun, enda hafi hann átt frumkvæði að henni.  Aldrei nokkurn tímann hafi komið fyrir, í þá rúmu tvo áratugi sem varnaraðili hafi aðstoðað föður sinn að þessu leyti, að hann gerði athugasemdir við aðstoð hennar eða fjármálalega umsýslu hennar í hans nafni.  Í þessu sambandi sé það sérstaklega athyglisvert, að þau bankaviðskipti sem mál þetta er sprottið af hafi átt sér stað 3-4 árum áður en faðir varnaraðila lést, en hann hafi aldrei gert athugasemdir við þau á meðan hann lifði, hvorki við varnaraðila né nokkurn annan svo vitað sé.  Þessar staðreyndir styðji framburð varnaraðila í málinu.

Systrum varnaraðila hafi auðvitað vel verið ljóst, að varnaraðili hafi annast að mestu um föður þeirra allt frá árinu 1977.  Þær hafi því vitneskju um það eða í það minnsta hafi þeim mátt vera um það kunnugt, að varnaraðili sinnti ýmsum erindum fyrir föður þeirra, þ.m.t. ýmis konar fjármálalegri aðstoð.  Upplýst sé að systurnar höfðu um það fulla vitneskju þegar á árinu 1995 að varnaraðili veitti föður sínum aðstoð við sölu á íbúð hans í Efstasundi og við uppgjör á dánarbúi móður þeirra.  Þrátt fyrir það hafi þær ekki gert neinar athugasemdir við þá tilhögun, hvorki við varnaraðila né við föður hennar, ekki á þeim tíma né heldur síðar á meðan faðir þeirra lifði.

Varnaraðili hafnar því alfarið að henni beri nokkur skylda til að „endurgreiða” dánarbúinu þá fjárhæð, sem krafist er í máli þessu, enda hafi hún hvorki stofnað til skuldar við dánarbúið eða þann er það leiðir rétt sinn frá, þ.e. föður varnaraðila, né heldur valdið þeim aðilum bótaskyldu tjóni.  Þvert á móti.  Samkvæmt þessu hafi engin krafa stofnast í skilningi kröfuréttar og varnaraðila beri þar af leiðandi engin skylda til að „endurgreiða” dánarbúinu eitt eða neitt.  Sóknaraðilar máls þessa beri án nokkurs vafa sönnunarbyrði um það að krafa hafi stofnast í skilningi kröfuréttar, svo og um það hver sé þá eigandi þeirrar kröfu, hver sé skuldarinn og hvers eðlis og efnis krafan sé að öðru leyti.  Sóknaraðilar verði að sama skapi að bera halla af því takist þeim ekki sönnun þessara atriða.

Ósannað sé og alrangt, að varnaraðili hafi þegið þá fjármuni sem mál þetta varðar að peningaláni.  Sóknaraðilar hafi ekki lagt fram nein gögn því til staðfestu eða sannað með öðrum hætti að um hafi verið að ræða peningalán til varnaraðila, til að mynda með framlagningu skuldaviðurkenningar eða lánssamnings.  Samkvæmt því sé með öllu ósannað að faðir varnaraðila hafi lánað henni umræddar fjárhæðir.  Þá séu einnig ósönnuð öll önnur atriði varðandi tilurð, eðli og efni hinnar meintu kröfu, svo sem það hvenær og hvar hún varð til, hvers eðlis krafan sé og hvers efnis hinn meinti lánssamningur ætti að vera.  Sóknaraðilar verði lögum samkvæmt að bera hallann af þessum sönnunarskorti.

Ósannað sé og alrangt, að varnaraðili hafi ekki afhent föður sínum framan­greint fé eins og henni hafi borið eða ráðstafað því með öðrum hætti í samræmi við óskir hans og skuldbindingar eða með með öðrum bindandi hætti af hans hálfu í lifanda lífi og í hans þágu.  Sóknaraðilar ber sönnunarbyrði um þessa fullyrðingu sína eins og aðrar og verði að bera hallann af því takist þeim ekki að færa sönnur á hana.  Þá er sérstaklega á því byggt af hálfu varnaraðila, að jafnvel þótt framangreind fullyrðing sóknaraðila teldist sönnuð, þá leiði það ekki sjálfkrafa til þess að krafa teljist hafa stofnast samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar, en á þeim reglum byggi sóknaraðilar mál sitt að þessu leyti.

Ósannað sé og alrangt að varnaraðili hafi með saknæmum hætti dregið sér umrædda fjármuni eða kastað eign sinni á þá, notað þá heimildarlaust í þarfir sjálfrar sín eða annarra, misnotað aðstöðu sína og misfarið með umboð við fjárreiður fyrir föður sinn og auðgast sjálf að sama skapi með ólögmætum hætti og samsvarandi tjóni fyrir sóknaraðila.  Þetta séu stór orð í garð varnaraðila, enda felist í þeim dylgjur um að hún hafi framið refsiverð brot við umönnun föður síns og aðstoð við hann. Sóknaraðilar beri sem fyrr sönnunarbyrði um öll þessi atriði og verði að bera hallann af því takist þeim ekki sú sönnun.

Varnaraðili bendir á að til stuðnings síðast nefndri málsástæðu sinni vísi sóknaraðilar til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins og almennra reglna skaðabótaréttarins.  Lagarök sín skýri hann ekki nánar í stefnu og þar komi til að mynda ekki fram á hvaða reglu eða reglum skaðabótaréttarins sóknaraðilar byggi mál sitt.  Þetta sé vanreifun af hálfu sóknaraðila.  Beri að skilja málatilbúnað sóknaraðila svo að byggt sé á sakarreglunni, þá sé því mótmælt að skilyrði þeirrar reglu kunni að vera uppfyllt í málinu, með hliðsjón af atvikum þess.  Sóknaraðilar hafi á engan hátt sannað eða gert líklegt að varnaraðili hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, skilyrðinu um ólögmæti hafi ekki verið fullnægt og þá sé jafnframt ósannað með öllu að sóknaraðilar hafi orðið fyrir tjóni og þá eftir atvikum hvert sé umfang þess tjóns.  Sóknaraðilar beri sönnunarbyrði um öll framangreind atriði samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins og ólögfestum reglum einkamálaréttarfars.

Sóknaraðilar hafi samkvæmt framansögðu ekki sýnt fram á (1) að umræddir fjármunir hafi runnið til varnaraðila, (2) þeir hafi ekki sýnt fram á að eða með hvaða hætti varnaraðili hafi dregið sér eða kastað eign sinni á umrædda fjármuni, (3) þeir hafi ekki sýnt fram á að eða með hvaða hætti varnaraðili eigi að að hafa nýtt umrædda fjármuni heimildarlaust í eigin þágu, (4) þeir hafi alls ekki sýnt fram á að eða með hvaða hætti varnaraðili hafi misfarið með umboð föður síns við fjárreiður fyrir hann, (5) né heldur hafi sóknaraðilar sýnt fram á dánarbúið hafi orðið fyrir tjóni vegna alls þessa og þá hvert sé umfang þess tjóns, og (6) síðast en ekki síst hafi þeir ekki sýnt fram á þá auðgun sem þeir kveði varnaraðila hafa öðlast með ólögmætum hætti.

Varnaraðili mótmælir sem röngum dylgjum sóknaraðila um að skipti eftir móður varnaraðila hafi ekki farið fram á réttum forsendum og að verulegum fjárhæðum hafi verið haldið utan skipta erfingjum til tjóns, sbr. bls. 5 í stefnu. Varnaraðili beri þar að auki enga ábyrgð gagnvart sóknaraðilum á þeim skiptum, þótt hún hafi aðstoðað föður sinn við þau.  Skiptin hafi farið fram í lifanda lífi föður varnaraðila, að hans frumkvæði og á hans ábyrgð og þeim sé fyrir löngu lokið.  Í ljósi þess sé fráleitt að sóknaraðilar, sem leiði rétt sinn frá föður varnaraðila, geti haft uppi nokkrar kröfur á hendur varnaraðila vegna þessa.  Síðast en ekki síst hafi  sóknaraðilar samþykkt skiptalok, án nokkurra athugasemda, og þær geti þegar af þeim sökum ekki haft uppi neinar frekari athugasemdir eða kröfur vegna þeirra.

Hvað varði sérstaklega meðhöndlun varnaraðila á húsbréfum og fjármunum í tengslum við sölu á fasteign föður hennar og dylgjur um það að umboðin, sem varnaraðili hafði frá föður sínum, hafi ekki náð „til þeirrar einkameðferðar hennar á fjármunum hans” sem fólst í því að leggja andvirði seldra húsbréfa inn á persónulegan bankareikning hennar, þá hefur varnaraðili þegar greint frá því að þetta hafi verið gert í hagræðingarskyni, þar sem faðir hennar hafði ekki tékkareikning.

Varnaraðili telur einnig gæta nokkurs misskilnings vegna framangreindra umboða, þar sem þau hafi hvorki verið útbúin að kröfu varnaraðila né föður hennar, enda hafi þeim ekki verið ætlað að hafa nokkrar réttarverkanir í samskiptum þeirra á milli. Umboðin hafi verið útbúin og undirrituð af föður varnaraðila í þeim tilgangi einum, að varnaraðili gæti sýnt þriðja manni fram á að hún hefði umboð frá föður sínum til þess að undirrita og/eða meðhöndla þau skjöl sem umboðin varði með þeim hætti sem þar er greint frá.  Hvorki varnaraðili né faðir hennar hafi hins vegar talið þörf á skriflegum umboðum, fyrirmælum eða staðfestingum sín á milli enda hafi ríkt fullkomið traust á milli þeirra, auk þess sem varnaraðili hafi framfylgt fyrirmælum föður síns í fullu samráði við hann.

Meðal þeirra fjárhæða, sem sóknaraðilar krefji varnaraðila um í þessu máli, sé mismunur á andvirði ofangreindra húsbréfa og greiðslu sem lögð var inn á bankareikning föður varnaraðila í október 1995, þ.e. mismun á 3.261.407 krónum og 1.200.000 krónum eða 2.061.407 krónur.  Sóknaraðilar tilgreini réttilega að líkast til megi skýra ráðstöfun 1.075.437 króna sem skömmu síðar voru teknar út af þeim sama reikningi, með þeim hætti að þar hafi farið arfur systra varnaraðila eftir móður sína.  Sóknaraðilar geri hins vegar ekki ráð fyrir arfi varnaraðila að fjárhæð 358.479 krónur eða arfi systkinanna Friðbjörns Rósinakars og Guðrúnar Ingu samtals að sömu fjárhæð né heldur gerir þeir ráð fyrir greiðslu erfðafjárskatts að fjárhæð 94.614 krónur.  Þannig mætti áfram telja, en varnaraðili telur þetta til marks um það á hve veikum grunni málssókn þessi er byggð af hálfu sóknaraðila.

Varakrafa varnaraðila byggir meðal annars á því, að fari svo ólíklega að varnaraðila verði gert að „endurgreiða” eða greiða umrædda fjármuni á einhverjum þeim forsendum, sem nefndar eru í stefnu, þá beri hvað sem öðru líður að lækka stefnufjárhæðina um andvirði framan greindrar peningagjafar, 2.500.000 krónur og fyrr nefndra fjárhæða, sem nema arfi varnaraðila og barna Ægis bróður hennar eftir móður varnaraðila, sem og um þá fjárhæð sem greidd var vegna erfðafjárskatts í tengslum við þau skipti og ef til vill enn frekar.

Varnaraðili mótmælir sérstaklega dráttarvaxta- og vaxtakröfum, þar með talið upphafstíma dráttarvaxta og vaxta.

Málskostnaðarkrafa varnaraðila byggist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. þeirra laga.  Þess er jafnframt krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu varnaraðila til þess að greiða virðisaukaskatt á málflutningsþóknun lögmanns síns, sbr. lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum, en varnaraðili er ekki virðisauka­skattskyldur aðili.

 

 

Niðurstaða.

Sóknaraðilar byggja kröfu sína um að varnaraðili greiði dánarbúinu 6.911.407 krónur í fyrsta lagi á því að varnaraðili hafi fengið þessa fjárhæð að láni frá föður sínum og notað fjármunina í eigin þágu.  Í öðru lagi byggja sóknaraðilar þessar kröfur á því að varnaraðili hafi ekki afhent föður sínum þetta fé eins og henni hafi borið eða að hún hafi ekki ráðstafað því með öðrum hætti í samræmi við óskir hans og skuldbindingar eða með öðrum bindandi hætti af hans hálfu í lifanda lífi og í hans þágu.  Varnaraðili hafi tekið féð að láni til afnota eða eignar með eða án hans samþykkis.  Í þriðja lagi og til öryggis byggja sóknaraðilar kröfur sínar ennfremur á því að varnaraðili hafi með saknæmum hætti dregið sér umrædda fjármuni föður síns eða kastað eign sinni á þá, notað þá heimildarlaust í þarfir sjálfrar sín eða annarra, misnotað aðstöðu sína og misfarið með umboð við fjárreiður fyrir föður sinn og auðgast sjálf að sama skapi með ólögmætum hætti og samsvarandi tjóni fyrir sóknaraðila.

Við úrlausn máls þessa verður að byggja á því að faðir málsaðila, Guðmundur Bjarnason, hafi verið til þess fær, bæði líkamlega og andlega og til þess bær bæði lagalega og siðferðilega, að taka sínar eigin ákvarðanir um ráðstöfun og meðhöndlun eigin fjármuna, enda hefur öðru ekki verði haldið fram í máli þessu. Þá ber til þess að líta að þær fjármálaráðsatfanir sem sóknaraðilar byggja kröfur sínar á öðrum þræði, áttu sér stað talsvert áður en Guðmundur lést. Fallast ber á þær röksemdir varnaraðila að sóknaraðilar beri sönnunarbyrðina fyrir því að varnaraðili hafi nýtt umrædda fjármuni í eigin þágu, að frátöldum krónum 2.500.000, sem henni var sannanlega gefið með áðurgreindu gjafabréfi. Er fallist á þær röksemdir varnaraðila að sóknaraðilum hafi ekki tekist að færa fram sannanir fyrir fullyrðingum sínum.  Þeir hafa ekki sýnt fram á að umræddir fjármunir hafi runnið til varnaraðila, ekki sýnt fram á að eða með hvaða hætti varnaraðili eigi að hafa dregið sér eða kastað eign sinni á umrædda fjármuni, ekki sýnt fram á að eða með hvaða hætti varnaraðili eigi að hafa hagnýtt sér umrædda fjármuni heimildarlaust í eigin þágu, ekki sýnt fram á að eða meða hvaða hætti varnaraðili hafi misfarið með umboð föður síns við fjárreiður fyrir hann. Þá teljast sóknaraðilar ekki hafa sýnt fram á að dánarbúið hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa eða umfang þess tjóns og loks hafa þeir ekki sýnt fram á auðgun sem varnaraðili eigi að hafa öðlast með ólögmætum hætti. Með vísan til framanritaðs og að öðru leyti með vísan til röksemda varnaraðila sem að framan hafa verið raktar er niðurstaðan í máli þessu sú, að sýkna beri varnaraðila af öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu. Eftir þeim úrslitum ber að úrskurða sóknaraðila til að greiða varnaraðila óskipt málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn krónur 300.000. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Mál þetta var áður munnlega flutt og tekið til úrskurðar 27. mars sl., en endurflutt 20. þessa mánaðar.

  Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Varnaraðili, Svanfríður Guðmundsdóttir, er sýknuð af öllum kröfum sóknaraðila, Aðalheiðar Guðmundsdóttur, Ernu Guðmundsdóttur og Guðmundu Guðmundsdóttur vegna dánarbús Guðmundar Bjarnasonar, í máli þessu.

Sóknaraðilar, Aðalheiður Guðmundsdóttir, Erna Guðmundsdóttir og Guðmunda Guðmundsdóttir, greiði óskipt varnaraðila, Svanfríði Guðmundsdóttur, 300.000 krónur í málskostnað.