Hæstiréttur íslands

Mál nr. 214/2001


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001.

Nr. 214/2001.

Gísli Ingólfsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Bergi-Hugin ehf.

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn.

 

G var yfirvélstjóri á fiskiskipi, sem H ehf. átti og gerði út. B ehf. keypti öll hlutabréfin í H ehf. 18. mars 2000 og 24. sama mánaðar sagði félagið G og öðrum skipverjum upp starfi. Útgerð skipsins var hætt 31. mars 2000 og það síðan selt 7. apríl sama árs. G krafði B ehf. um bætur vegna ráðningarslitanna sem námu launum í 76 daga miðað við aflahlut. Hæstiréttur taldi að G ætti rétt á launum í þrjá mánuði frá því að honum var sagt upp störfum 24. mars 2000, en laun frá þeim degi til 7. apríl sama árs töldust vera greidd. Með vísan til dóms réttarins 29. mars 2001 í máli nr. 326/2000 var fallist á að G ætti rétt á aflahlut í uppsagnarfresti sínum, en ekki aðeins kauptryggingu. Af hálfu B ehf. var byggt á því að við ákvörðun um aflahlut G bæri ekki að taka mið af aflareynslu skipsins síðustu mánuðina, sem það var gert út, heldur leggja til grundvallar það, sem eftir stóð af aflaheimildum skipsins fyrir yfirstandandi fiskveiðitímabil þegar því var lagt. Í dómi Hæstiréttar kemur fram að í dómum réttarins þar sem bótareglu 25. gr. sjómannalaga hafi verið beitt við líkar aðstæður og séu fyrir hendi í málinu, hafi jafnan verið litið til launa sjómanna næstu mánuðina fyrir starfslok. Ef breyta eigi frá þeirri framkvæmd hefði það í för með sér verulega óvissu, meðal annars vegna þess að aflaheimildir séu framseljanlegar. Verði bætur til G því ákveðnar með hliðsjón af launum hans síðustu mánuðina í starfi. Um ákvörðun bótanna kemur fram að tekjur skipverja hafi augljóslega ekki fallið jafnt til yfir árið og tilefni hefði verið til að miða við lengra tímabil en þrjá síðustu mánuðina fyrir starfslok. B ehf. hafi hins vegar ekki lagt fram nein gögn til að sýna fram á að meðaltal launa yfir lengra tímabil hefði leitt til annarrar niðurstöðu. Var B ehf. því gert að greiða G bætur með hliðsjón af launum hans síðustu mánuðina í starfi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2001. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.344.959 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. apríl 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og að áfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að honum verði aðeins gert að greiða áfrýjanda 485.832 krónur og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Áfrýjandi starfaði sem yfirvélstjóri á fiskiskipinu Valdimar Sveinssyni VE 22, sem Hörgeyri ehf. átti og gerði út. Stefndi keypti öll hlutabréfin í félaginu 18. mars 2000 og 24. sama mánaðar sagði hann áfrýjanda og öðrum skipverjum upp starfi. Útgerð skipsins var hætt 31. mars 2000 og það síðan selt 7. apríl sama árs, en óumdeilt er að áfrýjandi var við störf allt til síðastgreinds dags og fékk laun fyrir þau.

Með málsókn þessari leitar áfrýjandi eftir að fá greiddar skaðabætur, sem svari til þess að hann hefði notið fullra launa á þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 24. mars 2000 að telja. Þar eð útgerðarmaðurinn hafi hætt rekstri skipsins sé ekki unnt að miða kröfuna við laun eftirmanns í starfinu. Verði því að taka mið af aflareynslu skipsins fyrir söluna. Leggur áfrýjandi til grundvallar laun sín 11. janúar 2000 til 31. mars sama árs, 1.556.013 krónur, sem svari til 19.696 króna fyrir hvern úthaldsdag miðað við 79 daga. Áfrýjandi telur sig eiga rétt á þessu dagkaupi í 76 daga frá 7. apríl 2000 að telja, eða 1.496.896 krónur, en frá dragist kauptrygging, sem honum hafi verið greidd, 151.937 krónur. Er krafa hans, 1.344.959 krónur, þannig fundin.

Stefndi ber ekki fyrir sig aðildarskort og vefengir heldur ekki rétt áfrýjanda til launa í uppsagnarfresti, sem nemi þremur mánuðum frá 24. mars 2000 að telja. Beri þá að miða við kauptryggingu, sem þegar hafi verið greidd áfrýjanda fyrir apríl 2000, og standi honum einnig til boða fyrir maí og júní sama árs.

II.

Með uppsögn stefnda 24. mars 2000 hófst þriggja mánaða uppsagnarfrestur áfrýjanda, en sem fyrr segir naut hann launa allt til 7. apríl sama árs. Átti hann rétt til launa samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga, upp frá því og til loka þriggja mánaða uppsagnarfrestsins.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi einkum vísað til dóms réttarins 29. mars 2001 í máli nr. 326/2000 til stuðnings því að hann eigi rétt á aflahlut í uppsagnarfresti og þurfi ekki að sætta sig við að greiðsla kauptryggingar feli í sér fullnaðaruppgjör af hálfu stefnda. Ekkert er fram komið um að skipið hefði að óbreyttu ekki verið gert út á því tímabili, sem krafa áfrýjanda tekur til, og óumdeilt er að hann var ráðinn þar upp á aflahlut. Skipinu var lagt og það síðan selt, en af því leiddi að áfrýjandi fékk ekki lengur greiddan hlut af afla skipsins, enda ekki lengur um hann að ræða. Er fallist á með áfrýjanda að áðurnefndur dómur Hæstaréttar feli í sér fordæmi, sem hér beri að líta til, og leiðir til þeirrar niðurstöðu að áfrýjandi telst eiga rétt á aflahlut í uppsagnarfresti sínum.

III.

Svo sem áður segir krefst áfrýjandi þess að við ákvörðun launa sinna í uppsagnarfresti verði tekið mið af aflareynslu Valdimars Sveinssonar VE 22 fyrstu þrjá mánuði ársins 2000 og launum, sem hann hafi fengið á því tímabili. Hefur áfrýjandi tekið tillit til þess í kröfu sinni að hann fékk greidd laun fyrir síðustu sjö daga marsmánaðar og fyrstu sjö daga apríl fyrir vinnu eftir uppsögn ráðningarsamningsins og teljast þannig til launa í uppsagnarfresti.

Í varakröfu stefnda felst að við ákvörðun um aflahlut áfrýjanda í uppsagnarfresti verði ekki tekið mið af aflareynslu skipsins síðustu mánuðina, sem það var gert út. Þess í stað verði lagt til grundvallar það, sem eftir stóð af aflaheimildum skipsins fyrir fiskveiðitímabilið 1. september 1999 til 31. ágúst 2000 þegar því var lagt. Kveður hann mjög hafa verið gengið á veiðiheimildirnar þegar skipinu var lagt og óhugsandi að laun áfrýjanda hefðu orðið jafn há eftir 31. mars 2000 og áður, hefði skipið verið gert út áfram til loka fiskveiðiársins. Hefur hann lagt fram yfirlit yfir ónýttar aflaheimildir skipsins 1. apríl 2000 og fundið út líklegt skiptaverðmæti afla næstu þrjá mánuði miðað við hæsta meðalverð hverrar fisktegundar á fiskmarkaði. Með þeirri aðferð telur hann að laun áfrýjanda í uppsagnarfresti hefðu orðið nálægt því, sem í varakröfu hans greinir. Kveður stefndi það vera bersýnilega ósanngjarnt að leggja til grundvallar þá útreikninga, sem áfrýjandi miðar kröfu sína við.

Við beitingu réttarreglna um ákvörðun skaðabóta er að meginreglu litið til liðins tíma við ákvörðun um hvert líklegt fjártjón í framtíðinni hafi orðið við tjónsatvik. Þá er þekkt í öðrum tilvikum að skaðabætur séu staðlaðar með tilteknum hætti. Nokkrir dómar Hæstaréttar hafa fallið þar sem bótareglu 25. gr. sjómannalaga hefur verið beitt við líkar aðstæður og hér eru fyrir hendi, sbr. einkum dóm í dómasafni 1988, bls. 518. Hefur þá jafnan verið litið til launa sjómanna næstu mánuðina fyrir starfslok. Ef breyta ætti frá þeirri framkvæmd til samræmis við kröfu stefnda, hefði það í för með sér verulega óvissu, meðal annars vegna þess að aflaheimildir eru framseljanlegar. Að öllu virtu er ókeift að fallast á málsvörn stefnda um að taka mið af aðstæðum, sem kunna að vera fyrir hendi í einstökum tilvikum, og hafna um leið að framtíðartjón verði ákveðið með hliðsjón af launagreiðslum síðustu mánaða fyrir starfslok. Verða bætur til áfrýjanda því ákveðnar með hliðsjón af launum hans síðustu mánuðina í starfi, svo sem hann krefst, en sömu grundvallarsjónarmið eiga hér við og endranær um hvað reynsla liðins tíma hefði leitt til í stað þess að reyna óháð því að leiða getum að hvernig mál kynnu að hafa þróast.

Fram er komið í málinu að útgerð Valdimars Sveinssonar VE 22 var um nokkurt skeið hagað þannig að hluta ársins var veitt með netum, en með snurvoð annan hluta þess. Þá hafi skipið jafnan verið bundið við bryggju í ágústmánuði og stundum einnig í júlí auk hefðbundinna veiðihléa um jól og páska. Hafa tekjur skipverja samkvæmt því augljóslega ekki fallið jafnt til yfir árið. Þótt fallist sé á sjónarmið áfrýjanda um viðmiðun við meðallaun í starfi fyrir uppsögn er þess að gæta að tilefni hefði verið til að miða við lengra tímabil en þrjá síðustu mánuðina fyrir starfslok. Stefndi hefur hins vegar ekki lagt fram nein gögn til að sýna fram á að meðaltal launa yfir lengra tímabil hefði leitt til annarrar niðurstöðu en þrír síðustu mánuðirnir fyrir starfslok. Stóð honum þó næst að gera það fyrst áfrýjandi lét sitja við að leggja fram launaseðla þriggja mánaða.

Stefndi hefur loks andmælt viðmiðun við laun í janúar til mars með þeim rökum að óvenjulega hafi verið staðið að veiðum í síðustu ferðum skipsins. Eftir kaup stefnda á hlutabréfum í Hörgeyri ehf. 18. mars 2000 hafi áhöfn skipsins sótt sjó af mun meiri þunga en áður og lagt net á gjöfulli miðum. Hafi afli frá þeim degi til mánaðarloka af þessum sökum orðið hlutfallslega mun meiri en í jafnlangan tíma áður á sama fiskveiðiári og laun skipverja að sama skapi hærri. Hafi stefndi látið þetta viðgangast af tillitssemi við áhöfn skipsins og sýnt þannig vilja í verki til að skilja vel við hana áður en skipinu yrði lagt. Ekki er fram komið hver laun áfrýjanda urðu samtals 18. til 31. mars 2000, en laun fyrir marsmánuð í heild eru tilgreind á launaseðli. Er þegar af þeirri ástæðu ekki unnt að líta framhjá launum áfrýjanda á þessu tímabili við ákvörðun um framtíðartekjur hans.

Laun áfrýjanda vegna starfa fyrir aðra í uppsagnarfresti koma ekki til frádráttar kröfu hans.

Samkvæmt öllu framanröktu verður krafa áfrýjanda tekin til greina með 1.344.959 krónum, sem beri vexti eins og nánar greinir í dómsorði. Skal stefndi jafnframt greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Bergur-Huginn ehf., greiði áfrýjanda, Gísla Ingólfssyni, 1.344.959 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júlí 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðdóms Suðurlands 20. mars 2001.

                 Mál þetta höfðaði Gísli Ingólfsson, kt. 240747-4059, Bröttugötu 21, Vestmannaeyjum, með stefnu birtri 10. júlí 2000 á hendur Bergi-Hugin ehf.,  kt. 560384-0179, Geirseyri, Vestmannaeyjum.  Málið var dómtekið 21. febrúar sl., en endurupptekið fyrr í dag.

                Stefnandi krefst greiðslu á kr. 1.344.959 með dráttarvöxtum frá 13. september 2000 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

                Stefnandi var yfirvélstjóri á Valdimar Sveinssyni VE-22, sem Útgerðarfélagið Hörgeyri ehf. átti og gerði út.  Stefndi Bergur-Huginn ehf. keypti öll hlutabréf í Útgerðarfélaginu Hörgeyri þann 18. mars 2000.  Ákvað stefndi að leggja skipinu 31. mars um óákveðinn tíma, en þá þegar hafði hann ákveðið að selja skipið án veiðiheimilda.  Var stefnanda afhent uppsagnarbréf þann 24. mars 2000. 

                Skipið var selt og var afhent nýjum eigendum á Hornafirði 7. apríl 2000. Stefnandi segir að sér hafi ekki verið boðið að starfa áfram á skipinu.

                Stefnanda var greidd kauptrygging fyrir apríl 2000.  Síðar var honum boðin greiðsla á kauptryggingu fyrir maí og júní 2000, en hann neitaði að taka við þeirri greiðslu. 

                Mál þetta var rekið fyrir dóminum samhliða málum þriggja annarra skipverja á Valdimar Sveinssyni VE vegna ráðningarslita.  Voru skýrslur teknar samtímis í öllum málunum. 

Stefnandi bar fyrir dómi að sér hefði ekki verið boðið skiprúm hjá hinum nýju eigendum. Þeir hefðu sagt að fullráðið væri í yfirmannastöður,  það vantaði bara háseta. 

                Í skýrslu Óskars Arnar Ólafssonar, skipstjóra, kom fram að hann vissi ekki til þess að öðrum skipverjum hefði verið boðið að starfa áfram á skipinu hjá hinum nýju eigendum. 

                Magnús Kristinsson, stjórnarformaður stefnda, kvaðst hafa keypt skipið til að ná veiðiheimildum og þar með að auka heimildir annarra skipa félagsins.  Skipinu hefði verið lagt í lok mars og ekki hefði staðið til að gera það út.  Það hefði hins vegar selst strax og verið afhent nýjum eigendum á Hornafirði 7. apríl.  Hann sagði að nýju eigendurnir hefðu boðið stefnanda ásamt öðrum skipverjum að starfa áfram á skipinu.

                Esjar Stefánsson, framkvæmdastjóri, var einn margra aðila er keyptu skipið.  Hann sagði að þeir hefðu boðið öllum úr áhöfninni áframhaldandi starf, nema skipstjóranum.  Hann hefði sjálfur talað við stefnanda, en beðið skipstjórann að tala við aðra í áhöfninni. 

                Málsástæður stefnanda.

                Stefnandi segir að sér hafi verið sagt upp störfum 24. mars 2000, en vikið úr skiprúmi þann 7. apríl.  Hann eigi rétt á kaupi til loka þriggja mánaða uppsagnarfrests, samtals í 76 daga.  Þessa kröfu sína telur stefnandi vera skaðabótakröfu.  Miða skuli bætur við þær tekjur sem staðan gaf af sér fyrir ráðningarslitin.  Styður hann þennan skýringarkost við hrd. 1988-518. 

                Þessa reglu nefnir stefnandi reglu um meðalbætur.  Hann telur aðallega að reglan felist í 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Til vara telur hann að reglan sé venjuhelguð, einkum með því að henni hafi verið beitt til margra ára við uppgjör utan réttar, svo og að hún styðjist við fordæmi í dómum Hæstaréttar. 

                Loks telur stefnandi að greiða skuli bæturnar án þess að beitt verði frádrætti vegna launa er hann fékk á sama tíma. 

                Stefnandi mótmælir því að sér hafi verið boðið áframhaldandi starf.  Þá sé uppsögn stefnanda bindandi og leiði til þess að honum beri að greiða laun til loka uppsagnarfrestsins. 

                Um útreikning kröfu sinnar hefur stefnandi nokkur orð í stefnu.  Laun sín á tímabilinu 11. janúar til 31. mars 2000 segir hann að hafi numið kr. 1.556.013, eða kr. 19.696 á dag.  Samkvæmt því er stefnukrafan reiknuð af kr. 1.496.896.  Til frádráttar er kauptrygging er honum var greidd, samtals kr. 151.937, þannig að stefnukrafan er kr. 1.344.959.

                Í stefnu reiknar stefnandi kröfu sína í dæmaskyni í samræmi við launagreiðslur á öðrum tímabilum árin 1998 og 1999.  Hann staðhæfir að ekki hafi verið mikill munur á launum milli tímabila.  Þá mótmælir hann því að miða skuli við kvótastöðu skipsins.  Útgerðarmaður ráði útgerðarháttum skips og því sé kvótastaðan á hans ábyrgð. 

                Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til 5., 6., 9., 22. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Þá vísar hann til kjarasamnings Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands. 

                Málsástæður stefnda.

                Stefndi samþykkir að stefnandi eigi rétt á launum í þrjá mánuði.  Hann telur að tímabil þetta skuli reiknað frá 24. mars 2000, daginn sem stefnanda var afhent uppsagnarbréf. Sala skipsins síðar hafi verið eðlileg ráðstöfun og honum frjáls án þess að áhrif hafi á uppsögn á skiprúmssamningum.  Stefndi telur að miða verði við kauptryggingu.  Verði ekki fundin önnur viðmiðun þegar skipi er ekki haldið til veiða af útgerðarmanni.  Styður stefndi sjónarmið sín við fordæmi í hrd. 1998-656. 

                Stefndi mótmælir tilvísun stefnanda til svokallaðrar meðalbóta- eða meðallaunareglu.  Þeir dómar sem vísað sé til styðji ekki staðhæfingar stefnanda um inntak þeirrar reglu og þeir séu ekki fordæmi um mál þetta. 

                Varakrafa stefnda um lækkun stefnukröfu byggir hann á því að órökrétt sé að miða við hærri laun en stefnandi gat átt von á með áframhaldandi starfi á Valdimar Sveinssyni VE.  Í greinargerð er reiknaður aflahlutur miðað við þær aflaheimildir sem eftir voru í öllum tegundum og söluverð á Íslandsmarkaði.  Samkvæmt því hefði aflahlutur stefnanda orðið samtals kr. 485.832. 

                Loks mótmælir stefndi því að í stefnu skyldi ekki upplýst um kauptryggingu sem hann hefði greitt stefnanda.  Þá er þess krafist sérstaklega að tekjur stefnanda á uppsagnartímabilinu komi til frádráttar stefnukröfum.

                Stefndi vísar sérstaklega til 9. og  25. gr. sjómannalaga, svo og laga um meðferð einkamála. 

                Niðurstaða. 

                Aðilar eru í raun sammála í öllum meginatriðum.  Það er að stefnandi eigi rétt á launum í þrjá mánuði frá 24. mars 2000 að telja.  Ekki er lengur uppi sú málsástæða stefnda að honum sé einungis skylt að greiða laun í sex vikur og hefur hann boðið fram greiðslu kauptryggingar til loka þriggja mánaða uppsagnarfrests.

                Um fjárhæð kröfu stefnanda er hins vegar ágreiningur.  Hefur hér að framan verið lýst sjónarmiðum hvors aðila í því efni. 

                Stefnandi á rétt á “kaupi” samkvæmt reglu 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga.  Fáeinir dómar hafa leyst úr því hvaða merking felst í orðinu.  Fyrst skal geta hrd. 1988-518.  Þar var um að ræða skipverja á kaupskipi.  Fallist var á að miða við tiltekinn yfirvinnustundafjölda er laun hans á uppsagnarfresti voru ákveðin og það byggt á fyrri reynslu í starfi hans.  Þetta atriði virðist ekki hafa sætt ágreiningi í málinu, en af niðurstöðunni verður þó séð að leitast er við að finna þau laun sem skipverjanum hefðu að óbreyttu verið greidd á tímabilinu.  Til þessa dóms er vísað í hrd. 1996-4060. 

                Af þessum dómum verður ráðið að miða skal við hvað viðkomandi skipverji hefði fengið í laun á uppsagnartímanum með því að halda áfram sama starfi.  Er það í samræmi við þá kenningu að slík krafa sé í eðli sínu skaðabótakrafa.  Engin tæk fordæmi finnast í dómasöfnum sem heimila útreikning miðað við fyrri reynslu þegar um fiskiskip er að ræða.  Í þeim dómum um skipverja á kaupskipum sem vísað hefur verið til er reiknað með óbreyttum launum milli tímabila, sem er eðlilegt á slíkum skipum, en einatt fráleitt á fiskiskipum. 

                Fram kom í aðilaskýrslu Magnúsar Kristinssonar að stefndi hefði keypt Valdimar Sveinsson VE til að færa veiðiheimildir á önnur skip og selja síðan aftur án veiðiheimilda.  Bátnum var lagt 1. apríl og stóð ekki til að gera hann út frekar.  Hann seldist fljótt.  Stefnandi hefur ekki leitt neinar líkur að því að hann hefði haft sömu tekjur eftir að bátnum hafði verið lagt og hann hafði mánuðina janúar til mars.  Þvert á móti er bersýnilegt að stefndi hafði hætt útgerð bátsins.  Getur stefnandi því ekki krafið um hærri laun en kauptryggingu á því tímabili sem eftir lifir af ráðningartíma hans. 

                Stefndi bauð stefnanda greiðslu á kauptryggingunni, en hann neitaði að taka við.  Það boð var ítrekað við aðalmeðferð málsins en hafnað enn.  Stefnandi hefur ekki reifað fjárhæð þá sem hann samkvæmt framansögðu átti rétt á úr hendi stefnda og er ekki fært að ákveða fjárhæð hennar.  Verður því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

                Rétt er að málskostnaður falli niður.

                Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

                Stefndi, Bergur-Huginn ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda Gísla Ingólfssonar.

                Málskostnaður fellur niður.