Hæstiréttur íslands

Mál nr. 480/2009


Lykilorð

  • Rán
  • Fjársvik
  • Þjófnaður
  • Ólögmæt meðferð fundins fjár
  • Hylming
  • Líkamsárás
  • Ávana- og fíkniefni
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting
  • Upptaka
  • Skaðabætur
  • Ítrekun
  • Hegningarauki


                                                        

Fimmtudaginn 20. maí 2010.

Nr. 480/2009.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson

settur saksóknari)

gegn

Guðmundi Jakobi Jónssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Rán. Fjársvik. Þjófnaður. Ólögmæt meðferð fundins fjár. Hylming. Líkamsárás. Ávana- og fíkniefni. Umferðalagabrot. Ökuréttarsvipting. Upptaka. Skaðabætur. Ítrekun. Hegningarauki.

G var meðal annars sakfelldur fyrir rán, þjófnað, líkamsárás, fjársvik, hylmingu, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot, samkvæmt fjölmörgum ákæruliðum tilgreindum í fjórum ákærum á hendur honum. G játaði sök vegna hluta brotanna. Hins vegar þótti ekki fram komin  lögfull sönnun um að hann hefði haft í fórum sínum tvær stolnar fartölvur og var hann því sýknaður af hluta ákæru fyrir hylmingu. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest um sviptingu ökuréttar G, upptöku ávana- og fíkniefna svo og um fangelsisrefsingu hans, en G var gert að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Ingibjörg Benediktsdóttir hæstaréttardómari og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari og Ólafur Ólafsson dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, refsingu, sviptingu ökuréttar og upptöku ávana- og fíkniefna.

A krefst þess að ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og vexti verði staðfest.

B krefst þess að ákvæði héraðsdóms um skaðabætur verði staðfest.

Ákærði krefst sýknu af ákæru 23. maí 2008, af  III. og VI. kafla í ákæru 2. desember 2008, af IV. kafla í ákæru 9. mars 2009 og af III., VIII. og X.-XIII. kafla í ákæru 17. apríl 2009. Að öðru leyti krefst hann mildunar refsingar og að gæsluvarðhald sem hann sætti frá 5. september 2008 til 11. sama mánaðar og frá 27. mars 2009 til 9. júlí sama ár komi til frádráttar henni. Þá krefst hann þess að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að dæmdar bætur til A verði lækkaðar.

I

Fallist er á forsendur og niðurstöður í hinum áfrýjaða dómi um sakfellingu ákærða á brotum sem ákæra 23. maí 2008 tekur til, III. kafli ákæru 2. desember 2008, IV. kafli ákæru 9. mars 2009 og III., XI., XII. og XIII. kaflar ákæru 17. apríl 2009 taka til.

Í VI. kafla ákæru 2. desember 2008 er ákærði og annar maður ákærðir ,,... fyrir þjófnað, með því að hafa, í félagi, fimmtudaginn 4. september 2008, í verslun Frank Michelsen við Laugaveg 15, Reykjavík, stolið 26 armböndum, samtals að verðmæti 995.533 krónur.“ Í framhaldi af þessu er tilgreind skaðabótakrafa verslunarinnar. Í ákæru hefur á hinn bóginn láðst að tilgreina heimfærslu brotsins, sem ákært er fyrir í þessum kafla, til laga svo sem skylt var samkvæmt c. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. nú c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Heiti brots er réttilega tilgreint í ákæru og verknaðarlýsing er þar svo ótvíræð að ljóst er að verknað beri að heimfæra undir 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þykir með lögjöfnun frá 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 og með vísan til dóms Hæstaréttar 28. febrúar 1986, sem birtur er á bls. 471 í dómasafni réttarins það ár, mega gera ákærða refsingu fyrir brotið samkvæmt nefndri 244. gr. eins og gert er í hinum áfrýjaða dómi, en verjandi ákærða hefur átt kost á að tjá sig um þetta atriði. Verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum kafla því staðfest.

Í VIII. kafla ákæru 17. apríl 2009 er ákært fyrir þjófnað 21. desember 2008 á ,,rakvélablöðum“ úr verslun Nóatúns við Nóatún í Reykjavík, sem talið er varða við 244. gr. almennra hegningarlaga. Eins og fram kemur í héraðsdómi liggja frammi í málinu myndir og myndskeið þar sem ákærði sést koma inn í verslunina umrætt sinn. Sjá má að hann er með sárabindi og blóðugur á fingrum og handarbaki hægri handar. Í skýrslu rannsóknarlögreglumanns fyrir dómi, sem meðal annars tók skýrslu af ákærða vegna málsins á rannsóknarstigi, kemur fram að hann þekkti ákærða og bar jafnframt að blóð hafi fundist á pakkningum utan af rakblöðunum, en þær skildi ákærði eftir í versluninni. Með þessum athugasemdum, en að örðu leyti með vísan til forsendna, verður niðurstaða héraðsdóms um þennan kafla ákærunnar staðfest.

Í X. kafla ákæru 17. apríl 2009 er ákært fyrir hylmingu. Svo sem nánar greinir í héraðsdómi er ákærði talinn hafa, að morgni 14. febrúar 2009 klukkan 11:35, haft í fórum sínum tvær fartölvur sem stolið hafði verið úr húsnæði við Rauðarárstíg tæpum tveimur klukkutímum fyrr. Við eftirgrennslan lögreglu beindist grunur að ákærða og öðrum manni. Tveir lögreglumenn, sem áttu leið um Snorrabraut, sáu ákærða þar á gangi með rauðan plastpoka. Sneru þeir við í bifreið sinni og sáu þá ákærða aftur tilsýndar en án pokans, sem þeir síðar fundu við leit í trjárunna milli Snorrabrautar og Þorfinnsgötu. Ákærði náðist ekki og var skýrsla fyrst tekin af honum vegna þessa hjá lögreglu 16. mars 2009. Maður sá, sem grunur beindist einnig að, var handtekinn skömmu síðar á svipuðum slóðum. Í skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu upplýsti hann að hann hefði hitt ákærða þá skömmu áður og hann þá  verið með rauðan plastpoka sem í voru tvær svartar fartölvur. Þessi maður kom ekki fyrir dóm en lögreglumaður sá, sem skýrsluna tók, kom fyrir dóm og staðfesti að hafa tekið skýrsluna. Annar lögreglumannanna, sem sáu ákærða með pokann, ritaði skýrslu um atvikið. Hann gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Ákærði neitaði sök í skýrslu sinni hjá lögreglu og er hann gaf skýrslu fyrir dómi. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af 108. gr. og 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 er ekki fram komin lögfull sönnun um að ákærði hafi framið brot það, sem þessi kafli ákærunnar tekur til. Verður hann því sýknaður af brotinu.

II

Sakaferli ákærða er nægilega lýst í héraðsdómi svo og brotum þeim sem hann er þar sakfelldur fyrir. Ákærði framdi brot það sem greinir í VI. kafla ákæru 2. desember 2008 í samstarfi við annan mann og var verðmæti þjófnaðarandlagsins verulegt. Ber við ákvörðun refsingar vegna þessa brots meðal annars að líta til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms fyrir refsiákvörðun verður niðurstaða hans um refsingu ákærða staðfest. Gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 5. september til 10. september 2008 og frá 27. mars 2009 til 9. júlí sama ár verður dregin frá refsingu hans.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða, upptöku ávana- og fíkniefna og greiðslu hans á sakarkostnaði skulu vera óröskuð.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt læknisvottorð 25. mars 2010 um ástand og einkenni A vegna líkamsárásar og ránsbrots ákærða á hendur honum, sem dæmt er í máli þessu. Í vottorðinu kemur fram að brotaþolinn glími enn við líkamlegar en þó einkum andlegar afleiðingar vegna brotsins. Verður niðurstaða héraðsdóms um skaðabætur og kostnað honum til handa staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur til B skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að viðbættum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Guðmundar Jakobs Jónssonar, en frá dregst gæsluvarðhaldsvist hans 5. september 2008 til 10. sama mánaðar og 27. mars 2009 til 9. júlí sama ár.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða og upptöku ávana- og fíkniefna skulu vera óröskuð.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og vexti til A og um skaðabætur til B skulu vera óröskuð.

Ákvæði héraðsdóms um greiðslu ákærða á sakarkostnaði skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 388.262 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

DómurHéraðsdóms Reykjavíkur10. júlí 2009.

Mál þetta, sem dómtekið hinn 4. júní 2009 er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 2. desember 2008 á hendur ákærða,  Guðmundi Jakobi Jónssyni, kt. 070466-3339, Esjuvöllum 15, Akranesi og Baldri Þór Guðmundssyni, kt. 101275-4269, Dalsbrún 17, Hveragerði, fyrir eftirtalin brot:

I.

Á hendur ákærða Guðmundi, fyrir nytjastuld, hylmingu og umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 7. mars 2008, í heimildarleysi tekið bifreiðina [...] til eigin nota og ekið henni, ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa fíkniefna, um götur Reykjavíkur uns lögregla stöðvaði aksturinn við Eyjaslóð til móts við Seglagerðina Ægi, Reykjavík og jafnframt haft í vörslum sínum farsíma, perluhálsfesti og gjafakort í Kringluna að andvirði 20.000 krónur, sem stolið var þann 6. mars 2008 frá [...], Reykjavík, og fannst við leit lögreglu, þrátt fyrir að vita að um þjófstolna muni væri að ræða og þannig haldið þeim ólöglega fyrir eigendum þeirra.

Er þetta talið varða við 1. mgr. 254. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1., 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.

II.

Á hendur ákærða Guðmundi, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 17. maí 2008 ekið bifreiðinni [...], ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa fíkniefna, um Lágmúla í Reykjavík og vestur Háaleitisbraut uns lögregla stöðvaði aksturinn á Kringlumýrarbraut til suðurs.

Er þetta talið varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.

III.

Á hendur ákærða Guðmundi, fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 26. júlí 2008, á bifreiðastæði við [...], Reykjavík, farið í heimildarleysi inn í bifreiðina [...] með því að brjóta hliðarrúðu og stela þaðan sólgleraugum af gerðinni Ray Ban og Ipod, samtals að verðmæti um 65.000 krónur.

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV.

Á hendur ákærða Guðmundi, fyrir hylmingu, með því að hafa laugardaginn 26. júlí 2008, hjá göngubrú við Kirkjuteig, Reykjavík, haft í vörslum sínum fartölvu af gerðinni Dell, flakkara af gerðinni Abigis og farsíma af gerðinni Sony Ericsson K610, samtals að verðmæti um 360.000 krónur, sem stolið var úr íbúð við [...], Reykjavík, skömmu áður og fannst við leit lögreglu, þrátt fyrir að vita að um þjófstolna muni væri að ræða og þannig haldið þeim ólöglega fyrir eiganda þeirra.

Er þetta talið varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

V.

Á hendur ákærða Guðmundi, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 4. september 2008, við [...], Reykjavík haft í vörslum sínum 6,7 g af amfetamíni sem fundust við leit lögreglu.

Er þetta talið varða við 2. gr. sbr. 5., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með áorðnum breytingum, og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með áorðnum breytingum.

VI.

Á hendur ákærðu báðum, fyrir þjófnað, með því að hafa, í félagi, fimmtudaginn 4. september 2008, í verslun [...] við [...], Reykjavík, stolið 26 armböndum, samtals að verðmæti 995.522 krónur.

Í málinu gerir [...], kt. [...], f.h. [...], kröfu um að ákærðu verði dæmdir til að greiða skaðabætur að fjárhæð 995.533 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi, en svo dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdir til refsingar og jafnframt að ákærði, Guðmundur, sæti sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

Hinn 28. janúar sl. var sakamálið nr. 57/2009 sameinað þessu máli en þar eru ákærða Guðmundi gefin að sök, með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 23. maí sl., eftirtalin brot framin aðfaranótt sunnudagsins 27. maí 2007 í Reykjavík:

1.  Rán og líkamsárás, með því að hafa við [...], ráðist aftan að A, slegið hann nokkur hnefahögg í höfuð og líkama svo að hann féll á jörðina, sparkað nokkrum sinnum í hann liggjandi, í höfuð hans og síðu, og krafið hann um verðmæti og tekið frá honum Nokia farsíma að verðmæti kr. 20.000, armbandsúr að verðmæti kr. 20.000, gleraugu að verðmæti kr. 40.000 og veski með kr. 7.000 í reiðufé og greiðslukortum.  Af atlögunni hlaut A grunnt sár undir vinstra auga og mar í kringum það, hrufl og bólgur vinstra megin yfir kinnbeini, roða í hvítu í vinstra auga og rifbrot neðan til vinstra megin.

2.  Þjófnað, með því að hafa síðar um nóttina, stolið samtals kr. 50.000 í reiðufé úr hraðbönkum á Laugavegi og Skólavörðustíg með greiðslukorti A og innslætti á leyninúmeri reikningsins.

Eru brot samkvæmt 1. ákærulið talin varða við 1. mgr. 218. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Er  brot samkvæmt 2. ákærulið talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa:

A, kennitala [...], krefst skaðabóta að fjárhæð kr. 616.153.  Þá er einnig krafist vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. maí 2007 til 27. ágúst 2007, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.

Hinn 27. mars sl. var sakamálið nr. 318/2009 sameinað þessu máli en þar eru ákærða Guðmundi gefin að sök, með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 9. mars sl., eftirtalin brot:

I.

Ólögmæt meðferð fundins fjár, með því að hafa þriðjudaginn 4. nóvember 2008, kastað eign sinni á seðlaveski B, kt. [...], sem ákærði kvaðst hafa fundið, en í veskinu, sem stolið var úr bifreiðinni [...] aðfaranótt 4. nóvember 2008, voru ökuskírteini B og greiðslukort hans.

Þetta er talið varða við 246. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Fjársvik, með því að hafa þriðjudaginn 4. nóvember 2008, svikið úr inneign í farsíma, að andvirði 5.000 krónur hjá Vodafone, með því að gefa starfsmanni fyrirtækisins upp greiðslukortanúmer B og þannig í heimildarleysi látið skuldfæra andvirði inn á greiðslukortareikning B.

Þetta er talið varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III.

Tilraun til fjársvika, með því að hafa þriðjudaginn 4. nóvember 2008, reynt tvívegis að svíkja út inneignir í farsíma, samtals að verðmæti 10.000 krónur, með því að hringja í þjónustuver Vodafone og gefa upp greiðslukortanúmer B og þannig í heimildarleysi reynt að skuldfæra andvirði varanna inn á greiðslukortareikning B.

Þetta er talið varða við 248. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV.

Hylming, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 5. nóvember 2008, haft í vörslum sínum farsíma af gerðinni Nokia, í eigu C, sem stolið var úr bifreiðinni [...] sömu nótt, þar sem hún stóð við [...] í Reykjavík, þrátt fyrir að vita að um þjófstolinn mun væri að ræða og þannig haldið honum ólöglega fyrir eiganda sínum.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

C, kt. [...] gerir þá kröfu í máli þessu að ákærða verði gert að greiða skaðabætur að fjárhæð 10.900 krónur.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Hinn 6. apríl sl. var sakamálið nr. 350/2009 sameinað þessu máli en þar eru ákærða Baldri Þór gefin að sök, með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 23. mars sl., eftirtalin brot:

I.

Gripdeild, með því að hafa laugardaginn 13. maí 2008 á veitingastaðnum [...] að [...] í Reykjavík, slegið eign sinni á sparibauk, sem innihélt kr. 18.112, er staðsettur var á barborði veitingastaðarins, og tekið á rás rakleiðis út úr veitingastaðnum með baukinn í vörslum sínum.

Þetta er talið varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Þjófnaður, með því að hafa árdegis mánudaginn 6. júní 2008, í verslun [...] við [...] í Hafnarfirði, með leynd sett ósamsett grill, samtals að verðmæti kr. 34.980, í innkaupakerru, og gengið rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir vöruna.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu krefst D, kt. [...], skaðabóta fyrir hönd [...], að fjárhæð kr. 34.980, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

III.

Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 15. júní 2008, í félagi við E, kt. [...], með leynd farið inn í íbúðarhúsnæði að [...], í Reykjavík, í því augnamiði að stela úr íbúðinni ávana- og fíkniefnum, sem eigi fundust í íbúðinni.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

IV.

Tilraun til þjófnaðar og þjófnaður, með því að hafa laugardaginn 28. júní 2008, með leynd farið inn í húsakynni [...] við [...] í Reykjavík, í því augnamiði að stela reiðufé úr afgreiðslukassa, sem reyndist tómur, og í framhaldi slegið eign sinni á áfengisflöskur sem þar voru innandyra, samtals að verðmæti kr. 124.374, og yfirgefið húsnæðið með flöskurnar í vörslum sínum.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. og 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

V.

Þjófnaður með því að hafa miðvikudaginn 9. júlí 2008, í verslun [...] að [...] í Hafnarfirði, með leynd stungið inn á sig lambalæri, samtals að verðmæti kr. 5.377, og gengið rakleiðis fram hjá afgreiðslukassa verslunarinnar án þess að greiða fyrir vöruna, en ákærði var stöðvaður af starfsmanna áður en hann komst út úr versluninni.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VI.

Þjófnaður, með því að hafa föstudaginn 25. júlí 2008, í félagi við F, kt. [...], brotist inn í íbúð á jarðhæð hússins nr. [...] við [...] í Reykjavík með því að brjóta upp útihurð, og stolið um kr. 485.000 í reiðufé, loftnetsmæli af tegundinni Thomas að verðmæti kr. 652.000, svörtum vetrarjakka að andvirði kr. 20.000, GSM-farsíma af tegundinni Nokia að andvirði kr. 6.000, vasagullúri með keðju, tveimur gullbindisnælum, tveimur pörum af ermahnöppum og kveikjuláslykli og fjarstýringu af bifreið.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu krefst G, kt. [...], skaðabóta að fjárhæð kr. 760.567, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 25. júlí 2008, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

VII.

1) Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 31. júlí 2008, brotist inn í [...] að [...] í Reykjavík og reynt að spenna upp peningakassa þar innandyra í því augnamiði að slá eign sinni á innihald hans, en styggð kom að ákærða og varð hann frá að hverfa þegar þjófavarnarkerfi staðarins fór í gang.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

2)  Fíkniefnabrot, með því að hafa á sama tíma, haft í vörslum sínum 0,60 grömm af maríhúana, sem lögreglan fann við leit í bifreiðinni [...9, sem ákærði hafði til umráða og lagt var við [...] að [...] í Reykjavík.

Þetta er talið varða við 2. gr. sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr. laganna, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

VIII.

Þjófnaður, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 14. ágúst 2008, brotist inn í myndbandaleiguna [...] að [...] í Kópavogi, og stolið tvö til þrjú þúsund krónum í skiptimynt úr sjóðsvél og níu kartonum af sígarettum.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu krefst H, kt. [...], skaðabóta fyrir hönd [...] ehf., kt. [...], að fjárhæð kr. 50.000, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. ágúst 2008, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

IX.

Umferðalagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 22. september 2008, ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 125 ng/ml, MDMA í blóði 40 mg/ml og metýfenídat í blóði 50 ng/ml) og án þess að hafa ökuskírteini meðferðis, austur Álfhólsveg í Kópavogi að vegarkafla við Hamraborg, uns lögreglan stöðvaði akstur ákærða.

Þetta er talið varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Hinn 17. apríl sl. var sakamálið nr. 406/2009 sameinað þessu máli, en þar eru ákærða Guðmundi Jakobi gefin að sök, með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 17. apríl sl., eftirtalin hegningar-, umferðar- og fíkniefnalagabrot:

I.

Umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 4. október 2008 ekið bifreiðinni [...] óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 205 ng/ml.) frá verslunarmiðstöðinni Kringlunni, um götur Reykjavíkur, uns akstri lauk á bifreiðastæði við Hótel Nordica við Suðurlandsbraut í Reykjavík og með því að hafa umrætt sinn haft í vörslum sínum 1,86, g af hassi og 0,09 g af maríhúana sem lögregla fann við leit á ákærða.

Er þetta talið varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

II.

Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 25. október 2008, brotist inn í bifreiðina [...], þar sem hún stóð við [...] í Reykjavík, með því að brjóta rúðu í hægri framhurð, en lögreglan kom að kærða þar sem hann sat inni í bifreiðinni. 

Er þetta talið varða við 244. gr., sbr. 22. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III.

Þjófnaður, með því að hafa sunnudaginn 26. október 2008 í verslun [...] við [...] í Reykjavík, stolið nautahakki, grísakótelettum og kexpakka, samtals að verðmæti 3.878 krónur. 

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV.

Nytjastuldur og umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 4. nóvember 2008 tekið bifreiðina [...] í heimildarleysi, til eigin nota frá bifreiðastæði Landspítalans við Hringbraut í Reykjavík og ekið bifreiðinni óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana og fíkniefna (amfetamín í blóði 265 ng/ml.) um götur höfuðborgarsvæðisins, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Snorrabraut í Reykjavík.

Er þetta talið varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

V.

Þjófnaður, með því að hafa miðvikudaginn 10. desember 2008 í verslun [...] við [...] í Reykjavík, í félagi við I, kt. [...], stolið krónuhjartarkjöti, rjúpukjöti og hreindýrafille, samtals að verðmæti 45.672 krónur, með því að setja vörurnar í innkaupakerru og fara með þær út um neyðarútgang verslunarinnar.  

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VI.

Þjófnaður, með því að hafa laugardaginn 20. desember 2008 í verslun [...] í Kringlunni í Reykjavík, stolið DVD-mynddiskum að verðmæti 18.188 krónur. 

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VII.

Umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 20. desember 2008 ekið bifreiðinni [...] óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 170 ng/ml.) suður Hátún í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði akstur hans við Laugaveg.

Er þetta talið varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

VIII.

Þjófnaður, með því að hafa sunnudaginn 21. desember 2008 í verslun [...] við [...] í Reykjavík, stolið rakvélablöðum að verðmæti 4.499 krónur. 

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IX.

Þjófnaður, með því að hafa mánudaginn 22. desember 2008 í verslun [...] við [...] í Reykjavík, stolið hangikjöti að verðmæti 5.725 krónur. 

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

X.

Hylming, með því að hafa að morgni laugardagsins 14. febrúar 2009, um kl. 11:35, haft í fórum sínum tvær fartölvur, af gerðinni HP Compac, samtals að verðmæti um 280.000 krónur, sem stolið var úr húsnæði [...] að [...] í Reykjavík, um kl. 9:49, sama morgun. 

Er þetta talið varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XI.

Þjófnaður, með því að hafa fimmtudaginn 5. mars 2009 í verslun [...] í [...] í Kópavogi, stolið dragloku að verðmæti kr. 3.934 með því að setja draglokuna inn á sig og ganga út úr versluninni án þess að greiða fyrir hana.

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XII.

Þjófnaður, með því að hafa fimmtudaginn 5. mars 2009 í verslun [...] í [...] Kópavogi, stolið heyrnartólum að verðmæti kr. 10.995 með því að setja heyrnartólin inn á sig og ganga út úr versluninni án þess að greiða fyrir þau.

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XIII.

Hylming, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 27. mars 2009, um kl. 2:55, haft í fórum sínum á gatnamótum Hringbrautar og Furumelar í Reykjavík, ferðatösku og bakpoka, sem innihéldu hljóðblöndunartæki, bækur og línuskauta, sem stolið var úr húsnæði að [...] í Reykjavík, sömu nótt.

Er þetta talið varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sæti upptöku á 1,86 g af hassi og 0,09 g af maríhúana, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu ákærða Guðmundar Jakobs Jónssonar eru gerðar eftirfarandi kröfur:

Að hann verði sýknaður af ákæru, dags. 23. maí 2008, af III. og VI. lið ákæru, dags. 2. desember 2008, af IV. lið ákæru, dags. 9. mars 2009, og af II., III., VIII. og X.-XIII. lið ákæru, dags. 17. apríl 2009. Að öðru leyti verði ákærða gert að sæta vægustu refsingu lögum samkvæmt og að gæsluvarðhald ákærða frá 5. til 11. september 2008 og frá 27. mars 2009 komi til frádráttar refsingu. Þá krefst ákærði þess að bótakröfur í málinu verði felldar niður með vísan til 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008. Loks er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun að viðbættum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákærða Baldurs Þórs Guðmundssonar eru gerðar þær kröfur að hann verði sýknaður af VI. lið ákæru, dags. 2. desember 2008, en að öðru leyti krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfi. Ákærði krefst þess og að bótakröfum á hendur honum verði vísað frá dómi eða þær lækkaðar. Loks krefst hann þess að málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði.

Ákæra lögreglustjóra dags. 2. desember 2008

Ákæruliðir I, II, IV og V.

Ákærði hefur játað sök vegna hylmingar og umferðarlagabrots í ákærulið I en sækjandi hefur fallið frá þeim hluta ákæruliðarins sem lýtur að nytjastuldi. Ákærði hefur og játað sök skv. ákæruliðum II, IV og V. Sannað er með játningu ákærða, og öðrum gögnum málsins, að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruliðum þessum og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákæruliður III.

Málavextir

Að morgni laugardagsins 26. júlí 2008 barst lögreglu tilkynning um að maður hefði brotið rúðu í bifreið við [...] í Reykjavík, og mögulega tekið úr henni verðmæti. Kemur fram í frumskýrslu lögreglu að er lögregla hafi komið að göngubrú við Kirkjuteig hafi hún séð ákærða gangandi á göngustíg í áttina að Kringlumýrarbraut. Nokkuð fyrir aftan hann hafi verið tilkynnandi málsins, J, sem bent hafi á ákærða. Fram kemur að ákærði hafi haldið á fartölvutösku. Hafi hann heimilað lögreglu leit á sér og í töskunni. Í töskunni hafi reynst vera grá Dell-fartölva, flakkari, gsm-sími, tvenn gleraugu og sporjárn. Kemur og fram að ákærða hafi gengið illa að gera grein fyrir ferðum sínum og hafi hann sagst vera á leið til vinnu við hellulögn, en tölvuna hefði hann fengið að láni frá vini sínum á Akranesi og hefði hann ætlað að senda tölvuna til hans með strætisvagninum. Var ákærði handtekinn. Í skýrslu lögreglu er greint frá því að tilkynnandi málsins, J, hafi verið að vinna við útburð blaða. Hafi hann sagst hafa veitt ákærða eftirtekt er hann sá hann taka í hurðarhún [...]-bifreiðar og svo brjóta hliðarrúðu hennar. Hafi hann í kjölfarið tilkynnt um málið til lögreglu og jafnframt fylgt manninum eftir.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu síðar sama dag neitaði ákærði að hafa brotist inn í bifreiðina [...]. Kvaðst hann hafa fundið fartölvuna í trjágróðri og tekið hana. Í tölvutöskunni hefði verið flakkari, gsm-sími og sólgleraugu. Ákærði sagði að honum hefði verið gefinn hvítur Ipod-spilari sem fannst á ákærða við leit.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að K, eigandi [...] bifreiðar [...], hafi borið kennsl á sólgleraugu og Ipod er ákærði var með á sér. Hefðu munirnir verið í bifreið hans.

Ákærði neitaði sök. Við aðalmeðferð málsins var hann spurður hvers vegna hann hefði verið með sólgleraugu og Ipod-spilara í fórum sínum er lögregla hafði afskipti af honum umrætt sinn sagðist ákærði hafa fundið munina í ,,einhverjum runna“. Þá var borið undir ákærða hverju það sætti að tilkynnandi málsins hefði bent á ákærða sem geranda í málinu á vettvangi. Kvaðst ákærði ekki getað útskýrt það.

L  lögreglumaður greindi frá því að tilkynning hefði borist um mann sem hefði farið inn í bíl. Við Kringlumýrarbraut hefði ákærði komið gangandi á móti lögreglu. Hefði hann verið með tösku með fartölvu og aðra muni. Kom fram hjá honum að tilkynnandi málsins hefði gengið á eftir ákærða og bent á hann. Hefði ákærði ,,bullað eitthvað“ er hann var spurður um þá muni sem hann hafði í fórum sínum er lögregla hafði af honum afskipti. Hefði hann sagt að hann væri að skila vini sínum tölvu sem byggi á Akranesi. Hefði ákærði sagst ætla að senda tölvuna í strætó á Akranes.

Vitnið J kvaðst hafa verið á gangi um sexleytið að morgni að bera út blöð. Hefði hann gengið [...] og séð þá mann sem var að ,,sniglast í kringum bíl“ og taka í hurðarhúna. Hefði hann strax grunað hvað var í gangi og því gengið á milli bíla og fylgst með álengdar. Þá hefði hann heyrt brothljóð og séð er maðurinn fór inn í bifreiðina. Hefði maðurinn svo rokið af stað upp [...] og á móti honum. Kvaðst vitnið þá hafa hringt í lögreglu og síðan fylgt manninum eftir, án þess þó að maðurinn yrði hans var. Hefði hann rætt við lögreglu er hún kom á vettvang og séð lögreglu stöðva manninn. Kvaðst hann aldrei hafa misst sjónar af manninum.

Niðurstaða

Þegar ákærði var handtekinn var hann með í fórum sínum Ipod-spilara og sólgleraugu sem stolið var úr bifreiðinni [...]. Samkvæmt því og með framburði vitnisins J, um að hann hafi séð ákærða fara inn í bifreiðina í kjölfar þess að heyra brothljóð, telst sannað að ákærði hafi framið það brot sem hann er ákærður fyrir í þessum ákærulið. Telst brot hans þar réttilega fært til refsiákvæða.

Ákæruliður VI.

Málavextir

Upphaf þessa máls má rekja til þess að hinn 4. september 2008 barst tilkynning um þjófnað í verslun [...] við [...], Reykjavík. Í skýrslu lögreglu kemur fram að í versluninni hafi lögregla hitt fyrir þær M og N, starfsmenn verslunarinnar.

Í lögregluskýrslu kemur fram að við skoðun á myndbandsupptöku úr versluninni hafi sést maður klæddur hermannabuxum, hvítum bol, hvítum strigaskóm, með dökkt, stutt hár, taka armbönd upp úr skúffu verslunarinnar. Á upptökum úr öðrum eftirlitsmyndavélum hafi maðurinn sést ganga frá Laugavegi upp Vegamótastíg, þar sem hann hafi sest inn í gráa [...] bifreið ásamt öðrum manni. Hafi aðeins sést upphaf skráningarnúmers bifreiðarinnar, en það hafi verið [...]. Hefði sá maður einnig verið í versluninni er þjófnaðurinn átti sér stað og virtist hann á upptökunum draga athygli N frá manninum sem tók armböndin.

Á meðal gagna málsins er skýrsla lögreglumannsins P. Í skýrslunni segir að upptökur eftirlitsmyndakerfis sýni glögglega að ,,þarna voru á ferð þeir Baldur Þór Guðmundsson og Guðmundur Jakob Jónsson“. Mennirnir hafi báðir komið mikið við sögu lögreglu í tengslum við þjófnaði og fíkniefnamál. Hafi komið í ljós við rannsókn málsins að ákærði Baldur Þór sé skráður fyrir silfurlitaðri [...] með skráningarnúmerið [...]. Báðir mennirnir hafi verið handteknir síðar sama kvöld. Við leit í bifreið ákærða hafi fundist bolur með ,,kaðlagrafík“ á, en slíkan bol megi sjá á myndbandsupptökunni úr versluninni. Í gögnum málsins eru ljósmyndir af hvítum stuttermabol sem fannst í farangursgeymslu [...]. Á bolnum er mynstur sem líkist kaðli sem liggur um hálsmál. Einnig eru ljósmyndir af sólgleraugum sem fundust í hanskahólfi bifreiðarinnar, en maðurinn á myndbandsupptökunni var með ljósgleraugu.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu í kjölfar handtöku kvaðst ákærði Baldur ekkert vilja segja um ferðir sínar annað en að hann væri saklaus. Ákærði Baldur var yfirheyrður öðru sinni hinn 8. september, en þá hafði hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. september. Voru bornar undir ákærða ljósmyndir út eftirlitsmyndakerfi skartgripaverslunarinnar. Kaus ákærði að tjá sig ekki.

Ákærði Guðmundur var yfirheyrður hinn 5. september. Kvaðst hann þá hafa verið á ,,rúntinum“ með ákærða Baldri og fleirum til að ,,leita okkur að rítalíni“. Hefði verið stöðvað við [...] og hefði honum þá komið til hugar að ganga inn í skartgripaverslunina til að finna afmælisgjöf handa vinkonu sinni. Hefði Baldur komið á eftir honum inn í verslunina. Hefði hann skoðað hálsmen og eyrnalokka sem starfsmaðurinn hefði tekið frá fyrir hann, sem hann hefði ætlað að sækja í hádeginu. Hefði hann gefið afgreiðslukonunni nafn sitt og símanúmer. Svo hefði Baldur gengið út og starfsmaðurinn þá sagt honum að hann hefði verið undarlegur og spurt hann að því hvort hann þekkti Baldur. Hefði hann svarað að hann gæti varla sagt það. Spurður kvaðst ákærði Guðmundur ekki vilja segja neitt um það hver vinkona hans var, né vildi hann svara því af hvaða ástæðu hann hefði gefið afgreiðslukonunni símanúmer sem hann væri hættur að nota. Bar hann kennsl á sjálfan sig og Baldur er bornar voru undir hann ljósmyndir úr versluninni. Kvaðst ákærði enga vitneskju hafa haft um þjófnaðinn.

Skýrslur við aðalmeðferð máls

Ákærði Guðmundur kvaðst hafa farið í ofangreinda verslun umrætt sinn. Hann hefði hins vegar ekki verið í för með meðákærða Baldri. Bar ákærði að einhver hefði komið inn í verslunina á meðan hann var þar, en ákærði kvaðst ekki hafa gefið því gaum hver það hefði verið. Hefði hann sjálfur verið að skoða eyrnalokka og hálsmen handa þáverandi kærustu sinni. Ákærði kvaðst aðspurður hafa hitt Baldur fyrr um morguninn en síðan hefði hann farið til læknis og hefði Baldur þá ekið honum í miðbæinn. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þar sem ákærði kvað Baldur hafa komið á eftir honum inn í verslunina. Kvað ákærði þá að ,,það mætti vera“ að Baldur hefði komið inn í verslunina, en Baldur hefði hins vegar ekki komið með honum inn í verslunina. Spurður um það hvort ákærði kannaðist við að hafa gefið starfsmanni verslunarinnar rangt símanúmer kvaðst ákærði hafa verið að nota tvö símanúmer til skiptis. Ákærði kvaðst hafa verið atvinnulaus á umræddum tíma en kvaðst þrátt fyrir það hafa haft efni á skartgripum fyrir þáverandi unnustu sína. Ákærði bar að hann hefði ekki tekið eftir þjófnaði inn í versluninni og kvaðst fyrst hafa hitt ákærða Baldur eftir atvikið er hann losnaði úr gæsluvarðhaldi.

Ákærði Baldur Þór neitaði að tjá sig um sakarefnið. Bornar voru undir hann ljósmyndir úr versluninni umrætt sinn. Neitaði hann að tjá sig um myndirnar eða að öðru leyti um málið. Ákærði neitaði að tjá sig um það hvort hann hefði verið eigandi bifreiðarinnar [...], hann neitaði að tjá sig er hann var spurður um sólgleraugu á myndum í gögnum málsins. Kvaðst hann vilja halda sig við framburð sinn hjá lögreglu.

P rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa farið með félaga sínum á vettvang. Hefðu þeir skoðað myndbandsupptökur af vettvangi og þá strax borið kennsl á ákærðu Baldur Þór og Guðmund þar eð þeir hefðu í starfi sínu mjög oft haft afskipti af þeim. Í kjölfarið hefðu þeir aflað myndbandsupptaka úr næsta nágrenni og við [...] hefði náðst upptaka af bifreið og þeir séð á henni ,,hluta af bílnúmeri“. Hefði svo komið í ljós að ákærði Baldur var skráður fyrir þeirri bifreið. Síðar sama dag hefðu mennirnir verið handteknir en þeir hefðu þá ekki verið með skartgripina. Vitnið gerði grein fyrir því að við leit í bifreið Baldurs hefði fundist stuttermabolur, eins og sá bolur sem sást á upptökum verslunarinnar. Bolurinn væri sérstakur útlits, með mynd af kaðli um hálsmálið. Kvað P að augljóst hefði þótt er myndbandið var skoðað að þáttur Guðmundar hefði verið sá að draga athygli starfsmannsins frá ákærða Baldri. Hefðu mennirnir komið saman inn í verslunina.

Q lögreglumaður bar að hann hefði farið á vettvang og fengið myndupptökur. Gerandi hefði samkvæmt þeim ,,flúið upp Vegamótastíg“. Upptökur frá [...] á Vegamótastíg hefðu sýnt [...] sem lögreglu hefði grunað að væri í eigu ákærða Baldurs Þórs. Með Baldri hefði verið annar karlmaður og hefði mátt sjá að þar færi ákærði Guðmundur. Q kvaðst hafa þekkt Baldur og Guðmund af myndunum. Kvað hann skartgripina ekki hafa fundist.

Vitnið N bar að náungi hefði komið inn í verslunina sem henni hefði þótt varhugaverður í útliti. Hefði hún sýnt honum vörur. Skömmu síðar hefði annar maður komið inn í verslunina. Mennirnir hefðu báðir verið að tala við hana og hefði hún því beðið þann síðari um að hinkra á meðan hún afgreiddi þann fyrri. Hefði hún sýnt manninum armbönd en maðurinn svo lýst því yfir að þau væru of dýr. Hefði hún því gengið frá armböndunum og farið til þess að afgreiða næsta mann. Maðurinn hefði hins vegar enn verið í versluninni eftir þetta. Hefði hún ekki sjálf séð er maðurinn teygði sig yfir borðið og tók armbönd og setti inn undir bolinn sinn. Síðari maðurinn hefði verið ,,krefjandi“ og verið dágóða stund inni í versluninni og hefði hún tekið frá fyrir hann vöru sem hann hefði sagt að væri í þrítugsafmælisgjöf fyrir kærustu sína. Hefði maðurinn gefið henni upp nafn og símanúmer þar sem unnt væri að ná í hann. Kvaðst hún halda að maðurinn hefði gefið upp nafnið Guðmundur. Þegar mennirnir voru farnir hefði hún rekið augun í það að efsta skúffan í borðinu hefði verið tóm. Kvaðst hún hafa fundið fyrir pressu er mennirnir báðu báðir um þjónustu en bar að sér hefði fundist að sá seinni hefði verið að reyna að draga athygli frá hinum. Vitnið sagði mennina ekki hafa komið saman inn. Spurð sagði hún það ekki skráð hvað væri í hverri skúffu verslunarinnar en bar að hún og samstarfsmaður hennar vissu hvað væri í öllum hillum og skúffum.

Niðurstaða

Ákærðu hafa báðir neitað sök. Fyrir liggja myndupptökur úr umræddri verslun í greint sinn. Má þar sjá tvo karlmenn koma inn í verslunina og standa síðan saman, hlið við hlið, að skoða þá skartgripi sem hér um ræðir. Hefur ákærði Guðmundur staðfest að hann hafi verið á staðnum. Ákærði Baldur hefur hins vegar neitað að tjá sig um sakarefnið við rannsókn málsins og fyrir dómi, þar á meðal þær myndupptökur sem fyrir liggja úr öryggismyndavélum, hvort hann hafi komið inn í verslunina í greint sinn eða hvar hann hafi þá verið staddur. Fyrir liggja og upptökur sem sýna sömu menn fara inn í bifreið af gerðinni [...] örskömmu síðar. Telur dómurinn með hliðsjón af framangreindu, eftir skoðun á þessum myndupptökum, og með hliðsjón af öðru því sem fyrir liggur í málinu að engum vafa sé undirorpið að auk ákærða Guðmundar hafi þar verið á ferð ákærði Baldur. Liggi því fyrir ótvíræð sönnun um að ákærði Baldur hafi tekið þá skartgripi sem í skúffu afgreiðsluborðsins voru í greint sinn. Þegar til framangreinds er litið auk framburðar vitnisins N um hegðun ákærðu í versluninni og ótrúverðugra skýringa Guðmundar Jakobs á för sinni inn í umrædda verslun þykir fram komin sönnun um að ákærðu séu með þessari háttsemi sinni sekir um þjófnaðarbrot skv. 244. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæra ríkissaksóknara dags. 23. maí 2008

Ákæruliður  I.

Málavextir

Lögreglu barst tilkynning hinn 27. maí 2007, kl. 23.55, um að maður á [...] óskaði eftir aðstoð. Hefði maðurinn verið barinn og rændur. Á vettvangi hitti lögregla þá R og A. Kvaðst R hafa mætt A alblóðugum er hann var á gangi upp [...]. Í skýrslunni kemur fram að A hafi sýnilega verið undir áhrifum áfengis. Kvaðst A hafa setið við drykkju á [...] á [...] en eftir það hafi hann gengið vestur [...], þar sem hann hitti unga stúlku. Stúlkan hefði boðið honum að hafa samfarir við sig og hefði hann spurt hana að því hvert þau ættu að fara og hvað það myndi kosta. Hefði stúlkan sagt að þau gætu farið í húsasund skammt frá. Hefði hún og spurt A að því hversu mikinn pening hann hefði meðferðis. Kvaðst A hafa sagt stúlkunni að hann teldi sig vera með um 5 - 6.000 krónur á sér. Skyndilega hefði svo verið ráðist aftan á hann þannig að hann féll til jarðar. Hefði hann verið klóraður og kýldur í andlit, en að auki hefði verið sparkað í bak hans þar sem hann lá á jörðinni. Þess hefði verið krafist að hann færi úr jakka sínum og hefði veski hans og farsími verið tekinn. Gat A litla lýsingu gefið á stúlkunni og árásarmanninum og var hann í kjölfarið fluttur á slysadeild.

Fram kemur og í frumskýrslu að tveimur dögum síðar, eða 29. maí, hafi S gefið sig á tal við lögreglu við [...] í Reykjavík og sagst búa yfir upplýsingum um framangreinda líkamsárás. Kom í ljós að hún hefði verið eftirlýst vegna málsins og var hún því handtekin vegna gruns um aðild að ráni og líkamsárás. Við yfirheyrslu kvaðst hún hafa verið á [...] og hitt þar karlmann sem vildi ,,ríða“ henni. Hefði hún sagst vilja fá greiddar 15.000 krónur fyrir og maðurinn samþykkt það. Hefðu þau farið saman í hraðbanka en síðan tekið að deila eftir að maðurinn hefði aðeins rétt henni 5.000 krónur, en svo annan 5.000 krónu seðil. Hefði þetta verið við [...], en þar innandyra hefði ákærði verið. Ákærði hefði komið út til að kanna hvað gengi á og fljótlega veist að manninum. S kvaðst hafa ákveðið að koma sér burt eftir að hafa margsinnis kallað til ákærða að hætta. Ákærði hefði gengið í skrokk á manninum, kýlt hann niður og sparkað í hann. Hefði hún tekið með sér 10.000 krónur sem maðurinn hefði látið hana fá. Kvaðst S ekki hafa þorað að gera neitt af ótta við ákærða þar sem hann hefði svo oft barið hana í gegnum tíðina.

Síðar sama dag var S yfirheyrð öðru sinni. Voru henni þá sýndar myndir úr hraðbanka þar sem hún sést ásamt ákærða. Greindi S þá frá því að hún hefði farið með ákærða í bankann eftir að ákærði réðist á manninn. Hefði ákærði ætlað að taka út peninga til að kaupa ,,spítt“. Kvaðst hún ekki vita hvort honum hefði orðið ágengt því leiðir þeirra hefðu skilið fljótlega eftir þetta.

Ákærði, Guðmundur Jakob, var handtekinn á Laugavegi 46 þriðjudaginn 29. maí. Lýsti hann atvikum þá þannig að hann hefði séð S í átökum við mann og hefði S beðið hann um að hjálpa sér, þar sem maðurinn hefði ætlað að nauðga henni eða gera tilraun til þess. Kvaðst hann hafa talið sig vera að hjálpa dömu í neyð og ekkert vita um neitt rán. Kvaðst hann hafa þekkt S í um ár og þekkja hana eins ,,fólk þekkist yfirleitt“. Hefði hann byrjað að rífa í ,,gaurinn og stoppa hann af og þá réðist hann á mig. Ég kom honum út úr ganginum þarna og náði á hann einhverjum höggum og síðan var málið búið af minni hálfu“. Nánar spurður kvaðst hann hafa komið hnefahöggum á manninn í andlit hans og á skrokk. Hefði maðurinn fallið við ,,þarna einhvern tíma. Þá held ég að ég hafi sparkaði einu sinni í hann og þá hætti ég.“ Kvaðst hann minna að S hefði beðið hann um að hætta. Í gögnum málsins liggja fyrir upptökur úr öryggismyndavél við hraðbanka [...] þar sem ákærði sést ásamt konu hinn 27. maí kl. 04.13 og 04.15. Þegar ákærða voru sýndar ljósmyndir úr þessum upptökum hjá lögreglu kvaðst hann kannast þar við sjálfan sig og að með honum væri framangreind S.

Hinn 31. maí gerði A grein fyrir því að árásarnóttina hefðu 50.000 krónur verið teknar út í heimildarleysi af kreditkorti hans. Kvaðst hann ekki vita hvernig menn hefðu getað komist yfir pin-númer kreditkorts hans. Liggja fyrir gögn um þessar færslur í rannsóknargögnum málsins.

Áverkavottorð liggur fyrir vegna komu A á slysadeild hinn 27. maí. Er hann sagður hafa verið nokkuð ölvaður við komu. Hafi hann verið með grunnt sár undir vinstra auga og mar í kring. Hafi hann verið hruflaður og bólginn vinstra megin yfir kinnbeini. Þá hafi hann verið með roða í hvítu vinstra megin, veruleg eymsli aftan til í vinstri síðu. Sneiðmyndataka hafi leitt í ljós rifbrot neðan til, vinstra megin. Í áliti læknis er tekið fram að rifbrot valdi sárum verkjum sem geti varað í allmargar vikur.

Skýrslur við aðalmeðferð máls

Ákærði Guðmundur Jakob greindi þannig frá að hann hefði komið gangandi niður stiga íbúðarhúss [...] og þá heyrt kallað ,,nauðgun“. Hefði hann þá séð S og mann sem hefði haldið í S ,,eins og hann sé að fara að nauðga henni“. Hefði hann talið sig vera að forða manneskjunni frá nauðgun. Hefði hann slitið þau í sundur og maðurinn þá slegið til hans. Hefði hann þá varið sig með því að slá manninn tvívegis í andlit og kvaðst hann telja að maðurinn hefði fallið við höggin. Kvaðst ákærði ekki hafa sparkað í manninn. Kvaðst ákærði ekki muna hvort hann hefði slegið brotaþola í líkamann. Ákærði neitaði að hafa tekið verðmæti af brotaþola og kvaðst ekki hafa tekið Nokia-farsíma, armbandsúr, gleraugu og veski mannsins með greiðslukortum. Spurður hvort hann kannaðist við að hafa notað greiðslukort brotaþola þessa sömu nótt í hraðbanka kvað ákærði svo ekki vera. Ákærða var bent á að fyrir lægi myndupptaka þar sem hann sjáist við hraðbanka [...] við [...] sem og gögn frá kortafyrirtæki sem beri með sér að reiðufé hafi verið tekið út af kreditkorti brotaþola í þremur færslum þessa nótt. Kvaðst ákærði ekki hafa tekið fé út af korti brotaþola.

Brotaþoli A greindi þannig frá að hann hefði verið á heimleið eftir að hafa fengið sér nokkra bjóra. Hefði hann gengið niður [...] í leit að leigubíl. Er hann hefði komið að sundi við horn [...] hefði hann verið ,,böðlaður“ inn í sundið, sleginn niður, rotaður og rændur. Hefði veski hans með peningum og kortum, síma, úri, gleraugum og lyklum verið stolið. Vitnið greindi frá því að hann hefði beðið lögreglu um að loka kreditkortum sínum þegar lögregla kom á vettvang. Hefði hann þurft að hringja í dóttur sína, enda hefði hann verið allslaus og ekki með lykla að íbúðinni sinni. Strax eftir helgina hefði hann kannað stöðuna á kreditkortunum og hefðu þá komið í ljós úttektir upp á 50.100 krónum. Ekki kvaðst hann vita hvernig pin-númer hans komst í hendur árásarmannsins, hann hefði ekki verið með númerið í veski sínu.

Vitnið kvað aðdraganda þess að hann fór í húsasundið þann að hann hefði rætt við stelpu og þá í sama mund verið ráðist á hann aftan frá. Kvaðst vitnið ekki geta sagt til um hvort hann hafi fengið hnefahögg eða spark í upphafi en hann teldi að hann hefði verið sparkaður niður. Kvaðst hann ekki hafa séð árásarmanninn. Nánar spurður sagðist vitnið ekki hafa verið í samræðum við stúlkuna er ráðist var hann. Kvaðst hann ekki getað svarað því hvort stúlkan hefði ráðist að sér en kvaðst telja að hettuklæddur maður hefði verið þar að verki. Sagði hann að sparkað hefði verið í hann þar sem hann lá í götunni. Hefði verið sparkað í andlit hans og í síðuna. Kvaðst hann halda að sami maður hafi verið að verki allan tímann. Hefði árásarmaðurinn reynt að ná honum úr jakka sínum þar sem hann lá vankaður. Kvaðst hann hafa verið allt sumarið að ná sér og hefði hann einnig fundið andlega fyrir óþægindum.

Vitnið S kvaðst muna eftir því að ,,Gummi hefði hjálpað sér“ þar sem hún var á [...] með manni. Spurð um aðdraganda málsins kvaðst hún hafa verið á [...] þar sem hún hefði hitt mann sem vildi vændi. Hefði hún sagt að það gæti verið en samt verið á báðum áttum. Hefði hún ekki átt að borða og ,,átti ekki neitt“. Maðurinn hefði haldið henni og káfað á henni og hefði hún kallað á manninn hvort hann ætlaði að nauðga henni. Ákærði Guðmundur hefði heyrt til hennar og hefði hann komið henni til aðstoðar. Síðan hefði hún reynt að stoppa hann af. Spurð sagði hún ákærða hafa tekið í manninn og sagt honum að láta hana í friði. Hefði hann hrint manninum og slegið ,,eitthvað til hans“. Vitnið kvaðst ekki muna hvar högg hefðu komið á manninn og spurð hversu mörg höggin hefðu verið sagði hún ,,ég taldi þau ekki“. Hefði maðurinn orðið ,,eitthvað rauður í framan“ og ,,eitthvað blóð“. Hefði ákærði orðið ,,agalega reiður að sjá þetta“. Borinn var undir vitnið framburður hennar hjá lögreglu þar sem hún bar að ákærði hefði sparkað í manninn. Kvaðst hún þá telja að það væri rétt þar sem hún myndi atvik málsins ekki lengur vel. Bar hún að hún hefði munað atvik betur er hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Hefði hún farið í heilaskurðaðgerð og væri skammtímaminni hennar gloppótt nú. Spurð hvort hún myndi eftir því að hafa farið með ákærða í hraðbanka þar sem kreditkort brotaþola væru notuð sagðist hún ekki vita það. Borin var undir hana myndbandsupptaka við hraðbankann og kvaðst hún þá þekkja vangasvip sinn og kvaðst jafnframt þekkja þar ákærða. Að síðustu var lögregluskýrsla borin undir vitnið og staðfesti hún undirritun sína.

Vitnið T rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti skjal sem sýnir úttektir á kreditkorti brotaþola umrætt sinn. Vitnið T kvaðst hafa tekið skýrslu af vitninu S og staðfesti hann skýrsluna sem rétta.

Niðurstaða

Þegar allt framangreint er virt og í því sambandi sérstaklega litið til vitnisburða A og S, framburðar ákærða sjálfs, myndupptöku við hraðbanka, læknisvottorðs vegna áverka á brotaþola og gagna um úttektir úr hraðbanka út af reikningi brotaþola skömmu eftir árásina umrædda nótt, þykir hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði Guðmundur Jakob hafi ráðist á brotaþola í þeim tilgangi að ræna hann. Verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem tilgreind er í báðum ákæruliðum. Þykir háttsemi ákærða réttilega færð til refsiákvæða í ákærunni, þar á meðal við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, vegna hins mikla ofbeldis sem beitt var í greint sinn.

Ákæra lögreglustjóra dags. 9. mars 2009

Ákæruliðir I, II, III.

Ákærði Guðmundur Jakob hefur játað sök skv. ákæruliðum I, II og III. Sannað er með játningu ákærða sem studd er sakargögnum að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákæruliður IV.

Málavextir

Hinn 5. nóvember 2008 fékk lögregla tilkynningu um mann sem væri að brjótast inn í bifreið við [...]. Á vettvangi sáu lögreglumenn bifreiðina [...] þar sem afturrúða hafði verið brotin. Á vettvangi kvaðst C vera með bifreiðina í láni hjá vinkonu sinni U. Í bílnum hefði verið Nokia-sími. Þegar kveikt væri á símanum kæmi ávarpskveðjan ,,Hello Browny“ á skjáinn.

Um tuttugu mínútum síðar sá lögreglumaður ákærða Guðmund á gangi Flókagötu og stöðvaði hann. Reyndist ákærði þá vera með Nokia-farsíma á sér sem hann sagði að vinkona hans hefði gefið sér. Kveikt var á símanum sem ákærði var með á sér og kom þá ávarpskveðjan ,,Hello Browny“ á skjáinn.

Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki muna hvar hann hefði fengið umræddan gsm- síma þar sem hann hefði verið í mikilli fíkniefnaneyslu á umræddum tíma. Taldi hann ekki ólíklegt að hann hefði fengið símann frá ,,einhverjum aðila“ enda væri hann alltaf að skipta um síma. Ákærði kvaðst spurður telja að hann hefði greitt ,,spítt eða eitthvað“ fyrir símann. Hann væri ,,ekki alltaf að pæla í því hvort hlutir séu illa fengnir“. Ákærði sagði nánar spurður að það breytti í rauninni ekki neinu í hans huga hvort hlutir væru þjófstolnir eða ekki.

Niðurstaða

Ákærði hefur engar trúverðugar skýringar getað gefið á vörslu sinni á umræddum síma sem fyrir liggur að stolið hafði verið úr bifreiðinni [...] tuttugu mínútum áður en hann var handtekinn. Tók ákærði meðal annars fram við skýrslugjöf sína fyrir dómi að hann væri ,,ekki alltaf að pæla í því hvort hlutir séu illa fengnir“. Samkvæmt því, og með vísan til framburðar hans að öðru leyti, verður að telja að ákærði hafi átt að sjá að um þjófstolinn mun væri að ræða. Verður ákærði því sakfelldur fyrir hylmingu og þykir brot hans varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæra lögreglustjóra dags. 27. mars 2009

Ákærði Baldur Þór hefur játað sök samkvæmt öllum ákæruliðum þessarar ákæru. Af hálfu ákærða hefur því þó verið mótmælt að háttsemi hans sem lýst er í III. ákærulið geti talist tilraun til þjófnaðar þar sem ávana- og fíkniefni geti ekki talist eign og því ekki orðið andlag þjófnaðar. Er fallist á þessa málsvörn ákærða. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 65/1974 er varsla og meðferð ávana- og fíkniefna, sem talin eru upp í 6. gr. laganna, óheimil á íslensku forráðasvæði. Verður að líta svo á að slík efni geti ekki verið háð eignarrétti að íslenskum lögum og því ekki andlag þjófnaðar. Verður ákærði því sýknaður af þessum ákærulið. Sannað er með játningu ákærða, sem er studd gögnum málsins, að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruliðum I, II og IV – IX, og eru brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákæra lögreglustjóra dags. 17. apríl 2009

Ákæruliður I, IV, VI, VII og IX.

Ákærði hefur játað sök skv. ákæruliðum I, IV, VI,VII og IX. Sannað er með játningu ákærða, sem er studd gögnum málsins, að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákæruliðum og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákæruliður II.

Málavextir

Lögreglu barst tilkynning hinn 25. október 2008 um að maður hefði brotið rúðu í bifreið þar sem hún stóð á [...] við [...]. Ákærði var handtekinn þar sem hann sat inni í bifreiðinni [...]. Í skýrslu lögreglu kemur fram að á vettvangi hafi ákærði neitað að hafa brotið rúðu. Kvaðst ákærði hafa komið að bifreiðinni í því ástandi og sest inn í hana til koma sér í skjól fyrir veðri. Fram kemur að lögregla hafi á vettvangi rætt við vitnið Ú sem hafi sagt að hann hafi séð ákærða brjóta rúðuna.

Ákærði var yfirheyrður í kjölfar handtöku. Bar hann þá að umrædd bifreið hefði verið galopin er hann gekk framhjá og hefði hann því afráðið að líta inn í hana. Hefði hann verið að leita sér húsaskjóls þar eð hann væri heimilislaus og hefði verið á götunni undanfarnar tvær nætur. Ákærði var spurður að því hverju blóð á vinstri ermi hans sætti og kvað hann skýringuna vera þá að hann væri sprautusjúklingur.

Fyrir dómi greindi ákærði þannig frá að hann hefði verið heimilislaus á þessum tíma. Hefði hann gengið niður [...] og þá séð bifreið með brotna rúðu. Hefði honum verið kalt og af þeirri ástæðu hefði hann skriðið inn í bifreiðina til að hlýja sér. Hefði hann skriðið inn um brotinn gluggann. Hefði hann verið nýsestur inn þegar lögreglu bar að. Ákærði kvaðst ekki hafa losað um svokallaðan GPS-skjá úr innréttingu bifreiðarinnar.

Vitnið Ú kvaðst hafa verið með syni sínum að bera út Morgunblaðið við [...]. Kvaðst hann hafa heyrt hljóð þegar rúða brotnaði. Hefði hann þá séð mann hreinsa úr glugganum og hefði hann því sjálfur gengið aðeins í hvarf og horft á manninn opna hurðina og fara inn í bifreiðina. Vitnið kvaðst hafa hringt í lögreglu. Kvaðst vitnið hafa staðið í um 20-30 metra fjarlægð frá innbrotinu og hefði hann beðið eftir að lögreglan kæmi á vettvang. Hefði hann séð er lögregla handtók manninn þar sem hann sat í bifreiðinni. Kvaðst hann spurður vera þess fullviss að maðurinn sem handtekinn var hefði jafnframt brotist inn í bifreiðina.

V lögreglumaður bar að tilkynnt hefði verið um innbrot í bifreið við [...]. Á vettvangi hefði hann séð bifreið með brotna rúðu og inni í bifreiðinni hefði verið maður sem hann handtók. Kvað hann manninn í bifreiðinni hafa sagt að hann hefði farið inn í bifreiðina af því að hún hefði staðið opin. Sagði vitnið að öll rúðan hefði verið brotin og að maðurinn hefði sagt að hann hefði farið inn um gluggann. Taldi vitnið að maðurinn hefði borið því við að hann hefði farið inn í bifreiðina til að hlýja sér. V kvað rétt að svokallað GPS-tæki hefði legið á gólfi bifreiðarinnar.

Niðurstaða

Fyrir liggur að ákærði sat í umræddri bifreið þegar lögreglan kom á vettvang. Vitnið Ú hefur lýst því að hann hafi heyrt rúðu brotna og því næst séð manninn sem handtekinn var hreinsa rúðubrotin úr glugganum, opna bílhurðina og fara inn í bílinn. Þegar lögreglan kom að var búið að losa GPS-tækið úr mælaborði bifreiðarinnar. Hins vegar er þess hvergi getið í þessum ákærulið hvert hafi verið andlag þjófnaðartilraunar ákærða. Þykir því verða að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

Ákæruliður III.

Ákærði neitar sök. Hinn 26. október 2008 barst kæra frá [...] vegna þjófnaðar í verslun [...] við [...]. Meðfylgjandi kærunni var mynddiskur af atvikinu, þar sem sjá má að sama dag kl. 12.46 gengur ákærði inn í verslunina með bakpoka. Gengur hann um verslunina með kerru. Klukkan 12:49 stöðvar hann og setur kexpakka ofan í bakpoka sinn og þá má sjá að 12:50 gengur ákærði út úr versluninni. Ákærði var yfirheyrður vegna málsins hinn 26. mars 2009 og kvaðst þá ekki muna eftir þessu tiltekna atviki. Bornar voru undir ákærða ljósmyndir úr öryggismyndavélakerfi verslunarinnar. Kvaðst ákærði þá telja að umræddur maður á myndunum gæti verið hann, en hann væri þó ekki viss.

Ákærði kvaðst við aðalmeðferð málsins ekki ,,hafa verið tekinn“. Sýnd var myndupptaka af atvikinu og sagði ákærði eftir að hafa horft á hana að manninum á myndbandinu ,,svipar til mín“.

   Vitnið W, starfsmaður hjá öryggisdeild [...], kvaðst almennt fá vitneskju um þjófnaðarmál frá verslunum. Tækju þeir niður af myndupptöku það sem sæist og skrifuðu skýrslu um atvikið. Kvaðst hann ekki muna eftir þessu tiltekna máli en staðfesti þá skýrslu sem fyrir liggur í málinu sem hann ritaði.

   Vitnið X lögreglumaður kvaðst hafa farið yfir myndbandsupptökur vegna málsins. Kæmi þar greinilega fram að ákærði gengi um verslunina. Á þessum tíma hefði enginn annar verið í versluninni. Ákærði hefði verið með sekk meðferðis og hefði hann tínt vöru í sekkinn. Aðra vöru hefði hann reynt að greiða fyrir með kreditkorti, en ekki getað. Þá vöru hefði hann því skilið eftir.

Niðurstaða

Með vísan til fyrirliggjandi myndupptöku af atvikinu og ofangreindra framburða ákærða og vitna telst sannað að ákærði er sekur um þjófnað þann sem lýst er í ákæru.

Ákæruliður V.

Hinn 10. desember 2008 barst lögreglu kæra um þjófnað frá versluninni [...] við [...] í Reykjavík. Kærunni fylgdi mynddiskur þar sem sjá má tvo menn ganga inn í verslun [...]. Taka mennirnir innkaupakerru og ganga að kjötfrysti verslunarinnar og setja í kerruna ýmsar kjötvörur. Ganga þeir síðan að neyðarútgangi og ganga út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 26. mars 2009 kvaðst ákærði ekki kannast við málið. Bornar voru undir hann myndir af vettvangi og kvaðst hann ekki þekkja mennina á myndunum.

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði ekki tjá sig um atvik málsins.

   W, öryggisvörður frá [...], kvaðst hafa fengið vitneskju um málið og farið yfir myndbandsupptökur úr versluninni frá umræddum tíma. Mætti sjá af myndbandi að mennirnir hafi tekið vörur úr kæli og sett þær í innkaupakerru. Hefði svo mátt sjá að mennirnir fóru ekki út um inngang verslunarinnar heldur um neyðarútgang. Hefðu starfsmenn orðið þess áskynja er mennirnir fóru út og hefðu þeir tekið niður bílnúmer er mennirnir óku á brott. Kæmi það fram í skýrslunni.

Niðurstaða

Af fyrirliggjandi upptöku úr öryggismyndavélum má greinilega sjá ákærða ásamt öðrum tína ýmsar vörur úr kæli verslunarinnar og fara síðan út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar á afgreiðslukassa. Ákærði neitaði sjálfur að tjá sig um atvik málsins. Með vísan til þessa telst sannað að ákærði hafi framið þjófnað í félagi við annan í greint sinn og þykir verða að leggja til grundvallar að um hafi verið að ræða þær vörur sem greint er frá í ákæru.

Ákæruliður VIII.

Hinn 21. desember var lögð fram kæra af hálfu [...] verslunarinnar í [...] í Reykjavík. Tilefni kærunnar var myndbandsupptaka sem sýndi mann koma inn í verslunina kl. 14:20 sama daga. Á myndbandinu sést hvar maður gengur að kassa og tekur vöru úr kassanum og setur vöruna því næst inn á sig. Í kærunni kemur fram að maðurinn hafi verið blóðugur á hægri hendi og að kassinn hafi verið blóðugur eftir manninn. Á meðal gagna er strimill sem sýnir að verðmæti vörunnar Gillett Fusion Stealth rakvélar hafi verið 4.499 krónur. Við yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 26. mars kvaðst ákærði ekki muna eftir málinu. Bornar voru undir hann ljósmyndir úr versluninni og kvaðst hann þá ekki þekkja manninn á myndinni. Fram kemur þó að hann telji að þetta gæti hafa verið hann en hann haldi þó ekki.

Er ákærði gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins kvaðst hann ekki hafa verið í verslun [...] á umræddum tíma. Spurður um myndbandsupptökur sem sýna ákærða í versluninni kvaðst ákærði ekki tjá sig frekar um þennan ákærulið.

   Vitnið X lögreglumaður kvaðst hafa farið yfir upptöku af atvikinu. Hefði hann þekkt Guðmund Jakob á upptökunni og mætti sjá hann eiga við pakkningu og slíta hana í sundur. Á myndinni mætti sjá að vísifingur mannsins væri í sáraumbúðum. Gat hann þess að blóð hefði fundist á pakkningunni utan um rakvélarnar.

W, starfsmaður öryggisdeildar [...], staðfesti að skýrsla í málinu vegna atvikins væri frá honum komin. Kvaðst hann hafa farið yfir myndabandsupptökur af atvikinu í versluninni og að hafa í kjölfarið ritað skýrslu um málið.

Niðurstaða

Fyrir liggur í málinu myndupptaka af vettvangi í greint sinn sem augljóslega sýnir ákærða opna pakkningu og stinga einhverju inn á sig. Þar sem ákærði hefur ekki gefið neinar skýringar að viðkomandi atviki þykir sönnun liggja fyrir um að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og þar er rétt færð til refsiákvæðis.

Ákæruliður X.

 Í skýrslu lögreglu frá 14. febrúar 2009 kemur fram að sama dag hafi verið framið innbrot í [...]. Á vettvangi var upplýst að saknað væri tveggja fartölva af gerðinni HP Compac. Í skýrslunni kemur fram að lögreglu hafi grunað mann í námunda við vettvang um verkið og haldið heim til hans. Sá maður hafi greint lögreglu frá því að Y hefði verið hjá honum með rautt kúbein og hefði hann sagst ætla að brjótast inn í [...]. Með þessum manni hefði ákærði Guðmundur verið í för.

   Lögregla sá ákærða þar sem hann gekk [...]. Hélt hann þá á rauðum plastpoka. Í skýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi orðið flóttalegur er hann varð lögreglu var. Við enda [...] hafi lögregla séð ákærða pokalausan á hlaupum á milli húsa. Kemur fram að lögreglan hafi fundið poka þann er hún hefði séð ákærða halda á. Í honum hafi verið tvær fartölvur og standur fyrir tölvu. Voru tölvurnar vafðar inni í peysu. Ákærði var eftirlýstur af lögreglu. Er lögregla hafði fundið pokann sá hún Y sem hafði að sögn verið með ákærða þennan dag. Kvaðst hann hafa verið að koma frá [...] ásamt ákærða. Var hann handtekinn.

   Y var yfirheyrður sama dag. Kvaðst hann hafa verið með ákærða um morguninn. Hefði ákærði þá verið með rauðan plastpoka meðferðis sem í hefðu verið tvær fartölvur, svartar að lit. Hefði ákærði sagt sér að hann væri nýbúinn að fá tölvunar og hygðist hann selja þær. 

Ákærði var yfirheyrður vegna þessa máls hinn 16. mars 2009. Bar hann þá að hann kannaðist ekki við málið.

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa verið með rauðan plastpoka þennan dag eða að hafa verið þá með tölvur í poka. Kvaðst hann ekki hafa orðið var við að lögregla væri að elta hann.

Z lögreglumaður kvaðst hafa ekið með félaga sínum  [...] er hann sá ákærða Guðmund á gangi, en hann kvaðst þekkja ákærða í sjón. Hefði ákærði gengið með rauðan plastpoka og hefði hann orðið flóttalegur er hann varð lögreglu var. Við [...] kvaðst vitnið hafa séð ákærða ganga í áttina frá trjágróðri sem þar var, en þá án poka. Hefði ákærði síðan hlaupið [...] en þeir lögreglumennirnir hefðu farið að leita að pokanum. Hefðu þeir strax fundið rauðan poka sem í voru tvær fartölvur. Greindi vitnið frá því að undanfari þessa hefði verið innbrot á [...] sem þeir hefðu heyrt af í talstöð og hefði nafn ákærða verið nefnt í talstöð í tengslum við innbrotið.

Vitnið Þ lögreglumaður kvaðst hafa tekið skýrslu af Y í tengslum við rannsókn málsins. Staðfesti hann þann framburð Y að Y hefði hitt Guðmund Jakob í söluturninum [...] þar sem Guðmundur hefði verið rauðan plastpoka með tveimur fartölvum ofan í.

Niðurstaða

Ákærði hefur neitað sök og ekki viljað kannast við að hafa verið með tölvurnar í fórum sínum í greint sinn. Lögreglumaðurinn Z segist hafa séð ákærða Guðmund með rauðan plastpoka í hendi. Hann hefði orðið flóttalegur þegar hann varð lögreglu var og er hann hefði verið staddur á móts við trjárunna hefði hann allt í einu verið pokalaus. Pokinn hefði svo fundist í runnanum og í honum þær tvær fartölvur sem um getur í ákæru. Y greindi frá því við skýrslutöku hjá lögreglu að ákærði hefði verið með umræddan plastpoka og í honum hafi verið tvær tölvur. Ekki tókst að hafa upp á Y til að gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins. Fyrir liggur að tölvunum var stolið í innbroti í nágrenni staðarins þar sem ákærði var handtekinn skömmu áður þann sama morgun. Þegar framangreint er virt telur dómurinn sannað að ákærði hafi haft tölvurnar í sinni vörslu og hlotið að gera sér grein fyrir því að þær væru þjófstolnar. Hefur ákærði því gerst sekur um hylmingu samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður XI.

Kæra barst lögreglu hinn 5. mars 2009 vegna þjófnaðar í verslun [...] í [...] í Kópavogi. Í kærunni kemur fram að starfsmaður verslunarinnar hafi tekið eftir manni í annarlegu ástandi. Hafi maðurinn tekið svokallaða dragloku fyrir hlið eða hurð úr rekka verslunarinnar og gengið að því búnu út. Hafi hann sett vöruna inn á sig rétt áður en hann kom að afgreiðslukassa. Fyrir utan hafi kona beðið hans í bifreið og hafi þau sést aka saman í burtu. Um hafi verið að ræða bifreiðina [...], sem væri [...], svört að lit. Með kærubréfi fylgdi mynddiskur af atvikinu sem og reikningur fyrir andvirði vörunnar.

   Lögregla yfirheyrði ákærða vegna málsins hinn 27. mars en neitaði hann þá að tjá sig. Kvaðst hann hins vegar bera kennsl á sjálfan sig er myndskeið úr versluninni var borið undir hann.

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði ekki muna eftir því að hafa verið í verslun [...] í [...] umræddan dag. Ákærði kvaðst neita að tjá sig um málavexti.

Æ, starfsmaður hjá öryggisdeild [...], kvaðst hafa fengið vitneskju um málið frá öryggisfulltrúa verslunarinnar. Hefði hann farið yfir myndbandsupptöku af málinu þar sem sjá mætti mann taka dragloku og ganga í átt að búðarkassa verslunarinnar. Skömmu áður en maðurinn kom að kassanum stakk hann draglokunni inn á sig og gekk út úr versluninni, þar sem hann fór inn í svarta [...] bifreið sem beið hans fyrir utan.

Niðurstaða

Með fyrirliggjandi myndupptöku úr öryggismyndavél telst sannað að ákærði stingur inn á sig varningi og gengur út úr versluninni án þess að greiða fyrir hlutinn. Ákærði sjálfur hefur neitað að tjá sig um málavexti en við skýrslutöku hjá lögreglu bar hann kennsl á sjálfan sig á upptökunni. Þykir mega leggja til grundvallar að ákærði hafi stungið inn á sig dragloku eins og tilgreint er í ákæru. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru og telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður XII.

Lögreglu barst kæra hinn 5. mars frá versluninni [...] í [...] í Kópavogi vegna þjófnaðar. Í kærubréfi er rakið að hinn sama dag hafi maður gengið inn í verslunina, rifið upp pakkningu með heyrnartólum og stungið tólunum inn á sig. Hafi maðurinn gengið rakleiðis út úr verslunina án þess að greiða fyrir tólin. Hafi maðurinn ekið á brott í bifreið sem beið eftir honum, en númer bifreiðarinnar hafi verið [...], svartur [...]. Hafi starfsmaður verslunarinnar kannast við manninn og sagt hann heita Guðmund. Með kærubréfi fylgdi mynddiskur af atvikinu sem og reikningur er sýnir verðmæti tólanna.

Ákærði var yfirheyrður vegna málsins hinn  27. mars og kvaðst hann þá neita að tjá sig og hafna framkominni bótakröfu. Bar hann kennsl á sjálfan sig á myndskeiðinu.

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði neita sök og jafnframt neita að tjá sig um málavexti.

Æ, starfsmaður hjá öryggisdeild, gerði grein fyrir aðkomu sinni að málinu. Bar hann að hann hefði horft á myndbandsupptöku. Eftirlitskerfi sýndi að maðurinn hefði gengið að hillu þar sem heyrnatól væru geymd. Gengi hann síðar afsíðis þar sem sjá mætti manninn rífa upp pakkninguna. Hefði hann skilið pakkninguna eftir í versluninni, því næst stungið vörunni inn á sig og að því búnu gengið út. Í þessu tilviki hefði svört [...] bifreið beðið mannsins fyrir utan.

Niðurstaða

Ákærði neitaði sök við aðalmeðferð málsins og neitaði að tjá sig um málavexti. Hjá lögreglu hafði ákærði borið kennsl á sjálfan sig á myndupptökum úr versluninni í greint sinn. Að þessu virtu og með fyrirliggjandi myndupptöku telst sannað að ákærði stingur inn á sig varningi og gengur út úr versluninni án þess að greiða fyrir hlutinn. Þykir mega leggja til grundvallar að ákærði hafi stungið inn á sig heyrnatólum eins og tilgreint er í ákæru. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru og telst varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður XIII.

Í lögregluskýrslu frá  27. mars 2009 er greint frá því að lögreglumenn við Hringbraut hafi veitt athygli ákærða á reiðhjóli með nokkrar töskur á horni Hringbrautar og Furumels kl. 02:55. Hafi ákærði verið með eina ferðatösku og þrjá bakpoka. Ákærði hafi aðspurður sagst vera að flytja og að hlutirnir væri í hans eigu. Kemur fram í skýrslunni að ákærði hafi verið í annarlegu ástandi, þvoglumæltur og seinn til svars. Hafi hann heimilað leit í töskunum og hafi þar fundist hljóðblöndunartæki, bækur, línuskautar, sporjárn og járnklippur. Segir svo að munir þeir er ákærði var með hafi verið mjög þungir og nánast ómögulegt að hjóla með þá. Hafi ákærði verið fluttur á lögreglustöð til að gera frekar grein fyrir þeim munum er hann var með og hafi honum þar verið tilkynnt að hann væri handtekinn. Töskur ákærða hafi reynst merktar Ö og Í, til heimilis að [...]. Hafi lögregla farið að [...] og séð þar opinn glugga við hlið útidyra. Fyrir innan gluggann hafi verið geymslurými. Hafi verið far líkt og eftir sporjárn við gluggakarminn.

Síðar sama dag var ákærði yfirheyrður vegna þessa máls og kvaðst hann þá ekki vilja tjá sig en kvaðst hafa verið með ,,mixer“, snúrur og línuskauta sem hann hefði verið að ná í til vinkonu sinnar, sem hann vildi ekki nafngreina. Kvaðst hann ekki geta útskýrt að munirnir sem hann var með væru úr húsi þar sem brotist hefði verið inn. Ákærði kvaðst aðspurður vera í daglegri neyslu fíkniefna og neyta amfetamíns, kannabis og læknalyfja. Lifði hann á örorkubótum og skuldaði mikið.

Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið að ná í dót til vinkonu sinnar sem byggi á [...]. Neitaði ákærði að tjá sig um það hver vinkona hans væri og kvaðst hann jafnframt neita að tjá sig um málið frekar.

Á lögreglumaður bar að hann hefði ekið Hringbraut um kl. þrjú að nóttu umrætt sinn er hann sá mann á horni Furumels. Maðurinn hefði verið á hjóli og hefði verið með margar töskur meðferðis. Hefðu þeir stöðvað og tekið manninn tali, en Á kvaðst strax hafa séð að um ákærða var að ræða. Hefði hann verið í mjög annarlegu ástandi og borið því við að hann hefði verið að flytja. Kvaðst vitnið hafa vitað að ákærði ætti ekki heima í nágrenninu og að engin leið hefði verið fyrir hann að hjóla með alla þá muni sem hann hefði verið með sér. Hefðu þeir farið með ákærða á lögreglustöðina og þá séð að töskurnar væru merktar og af [...]. Er þeir óku þangað hefðu þeir séð að gluggi í geymslu hússins hafði verið opinn og að þar innandyra vantaði dót. Innar hefði verið búið að spenna upp lás að geymslu. Í einni töskunni sem ákærði hefði verið með sér hefðu fundist tangir.

Niðurstaða

Ákærði hefur engar trúverðugar skýringar gefið á vörslu sinni á umræddri ferðatösku og bakpoka með hinu tilgreinda innihaldi. Fyrir liggur að hlutum þessum var stolið í innbroti þá sömu nótt, skammt frá þeim stað þar sem ákærði var handtekinn, eða að [...]. Hefur hann neitað að tjá sig um atvik. Samkvæmt því þykir liggja fyrir að ákærði hlaut að gera sér grein fyrir því að um þjófstolna muni var að ræða. Verður ákærði því sakfelldur fyrir hylmingu og þykir brot hans varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.

Ákvörðun refsingar

Ákærði Guðmundur Jakob Jónsson á að baki langan sakaferil sem nær aftur til ársins 1990. Hefur hann á þeim tíma hlotið þrettán dóma og þrívegis gengist undir sektargreiðslur hjá lögreglustjóra og fyrir dómi, þar af þrívegis fyrir líkamsárásir, sex sinnum fyrir þjófnaði, tvívegis fyrir hylmingu auk húsbrots, fíkniefnabrota, umferðarlagabrota o.fl. Á árinu 2008 var ákærða tvívegis gert að sæta refsingu. Fyrst með lögreglustjórasátt hinn 27. júní þegar honum var gert að greiða sekt fyrir vörslu fíkniefna og síðan með dómi hinn 16. september þegar honum var gert að greiða 120.000 króna sekt og sæta ökuréttarsviptingu í 6 mánuði vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Loks var honum gert, með dómi uppkveðnum 8. júní 2009, að sæta fangelsi í fjóra mánuði fyrir fjölda fjársvikabrota, þjófnaða og fyrir að aka bifreið í tvígang óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Ákærða var og gert að sæta sviptingu ökuréttar í fjórtán mánuði frá birtingu dómsins hinn 13. júní 2009. Svo virðist sem ekki hafi legið fyrir dómara í því máli upplýsingar um dóminn frá 16. september 2008. Verður því við ákvörðun refsiviðurlaga út frá því gengið að seinna brot ákærða vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna, sem hann var sakfelldur fyrir í dóminum hinn 8. júní sl., hafi verið ítrekun á broti hans samkvæmt fyrri dóminum.

              Ákærði Guðmundur Jakob hefur nú verið fundinn sekur um rán, líkamsárás, tíu þjófnaðarbrot, fimm hylmingarbrot, eitt fjársvikabrot, eina tilraun til fjársvika, ólögmæta meðferð fundins fjár, vörslu fíkniefna í tvígang auk þess að hafa í fimm skipti ekið bifreið óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Voru öll brotin framin fyrir uppkvaðningu dómsins hinn 8. júní 2009, en að hluta til fyrir refsiákvarðanirnar 27. júní og 16. september 2008, þar á meðal tvö brot af fimm þar sem ákærði ók undir áhrifum fíkniefna. Verður refsing ákærða að því leyti ákvörðuð sem hegningarauki skv. 78. gr. almennra hegningarlaga við þessar refsiákvarðanir. Að þessu virtu, og með vísan til 5. og 6. tölul. 1. mgr. 70. gr., 71. gr., 77. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga, er refsing ákærða Guðmundar Jakobs hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Gæsluvarðhald hans frá 5. til 10. september 2008 og frá 27. mars 2009 til uppkvaðningar dóms þessa kemur til frádráttar refsingu.

Ákærði er og sviptur ökurétti í fjögur ár frá og með 13. ágúst 2010.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hlaut ákærði Baldur Þór Guðmundsson níu dóma á árunum 1993 til 2004 vegna þjófnaða, ránstilraunar, gripdeildar, skjalafals, nytjastulda, brots gegn valdstjórninni og umferðarlagabrota. Frá árinu 2004 hefur hann ekki gerst sekur um refsiverðan verknað svo vitað sé fyrr en nú. Hann hefur nú verið sakfelldur fyrir sjö auðgunarbrot, vörslu fíkniefna í tvígang og akstur bifreiðar þrátt fyrir að vera óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Til refsiþyngingar horfir að í tveimur tilvikanna, sem greinir í VI. ákærulið í ákæru, dags. 2. desember 2008, og VI. ákærulið samkvæmt ákæru, dags. 27. mars 2009, var um að ræða veruleg verðmæti og í síðara tilvikinu innbrot í íbúðarhús. Þá framdi ákærði bæði brotin í félagi við annan. Til nokkurrar refsilækkunar horfir hins vegar að ákærði hefur játað sök vegna flestra brotanna. Samkvæmt þessu, og með vísan til 1. tl. 1. mgr., 2. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Til frádráttar komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti vegna málsins 5. til 9. september 2008.

   Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá og með birtingu dóms þessa.

Upptaka, bótakröfur og sakarkostnaður

Upptæk eru gerð 4,67 g af amfetamíni, 1,86 g af hassi og 0,69 g af maríuhúana.

Af hálfu [...], skartgripaverslunar, er gerð bótakrafa á hendur báðum ákærðu að fjárhæð samtals 995.533 krónur auk vaxta vegna stolinna skartgripa, sbr. ákærulið VI í ákæru, dags. 2. desember 2008. Krafa þessi er engum gögnum studd og er henni vísað frá dómi vegna vanreifunar.

Af hálfu A er gerð skaðabótakrafa á hendur ákærða Guðmundi Jakobi vegna líkamsárásar, ráns og þjófnaðar, sbr. 1. og 2. ákærulið ákæru dags. 23. maí 2008, samtals að fjárhæð 616.153 krónur. Ákærði hefur með brotum sínum gagnvart A skapað sér bótaskyldu vegna tjóns sem hlotist hefur af þeim. Verður ekki fallist á kröfu ákærða um að fella beri kröfuna niður með vísan til 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008 þar sem kröfuhafi hafi ekki fylgt henni eftir fyrir dóminum, enda var krafan gerð í gildistíð eldri laga. Krafist er í fyrsta lagi miskabóta að fjárhæð 300.000 krónur með vísan til 26. gr. skaðabótalaga. Verður fallist á að brotaþoli eigi rétt á miskabótum og þykja þær hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. Krafist er í öðru lagi greiðslu útlags kostnaðar að fjárhæð 14.000 krónur. Fyrir liggur reikningur vegna lækniskostnaðar að fjárhæð 7.719 krónur og verður ákærði dæmdur til að greiða þann útlagða kostnað en hinum hluta kröfunnar er vísað frá dómi. Krafist er og bóta vegna úttekta af greiðslukorti og stolinna peninga að fjárhæð 57.150 krónur. Fyrir liggur í málinu staðfesting frá Borgun hf. á úttektum af greiðslukorti brotaþola að fjárhæð 50.000 krónur og að kröfuhafi hafi þurft að bera það tjón sjálfur. Verður ákærði dæmdur til að greiða þá fjárhæð vegna þessa kröfuliðar. Þá er krafist bóta að fjárhæð samtals 130.000 króna, annars vegar vegna síma, armbandsúrs og gleraugna sem ákærði hafi stolið og ekki hafi komist til skila og hins vegar vegna skemmda á rúskinnsjakka. Tjón þetta virðist byggja á áætlun og þykir mega fallast á að það verði bætt með 70.000 króna greiðslu. Loks er krafist bóta vegna lögmannskostnaðar að fjárhæð 115.003 krónur. Er fallist á að ákærði greiði 70.000 krónur vegna þessa kröfuliðar. Ákærði verður því dæmdur til að greiða kröfuhafa samtals 347.719 krónur að viðbættum vöxtum eins og greinir í dómsorði.

C krefst þess að ákærða Guðmundi Jakobi verði gert að greiða henni samtals 16.798 krónur vegna tjóns sem hún hafi orðið fyrir vegna innbrots í bifreiðina [...], sbr. ákærulið IV í ákæru dags. 9. mars 2009. Í ákæru er einungis gerð krafa til greiðslu á 10.900 krónum. Þykir sú krafa nægilega studd gögnum og verður ákærði því dæmdur til að greiða 10.900 krónur til kröfuhafa.

Fallist er á kröfu [...] að fjárhæð 34.980 krónur á hendur ákærða Baldri Þór vegna ákæruliðar II í ákæru, dags. 27. mars 2009, enda er krafan studd gögnum. Dæmist hún með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Bótakrafa G að fjárhæð 760.567 krónur á hendur ákærða Baldri Þór vegna ákæruliðar VI í ákæru, dags. 9. mars 2009, er engum gögnum studd. Verður henni vísað frá dómi að öðru leyti en því að ákærði hefur játað að hafa fengið 150.000 krónur í peningum út úr innbrotinu. Verður ákærði dæmdur til að greiða kröfuhafa þá fjárhæð með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Bótakröfu [...] að fjárhæð 50.000 krónur á hendur Baldri Þór vegna ákæruliðar VIII í ákæru, dags. 27. mars 2009, er vísað frá dómi vegna vanreifunar þar sem hún er engum gögnum studd.

Ákærði Guðmundur Jakob greiði 663.548 krónur í útlagðan sakarkostnað samkvæmt fyrirliggjandi yfirlitum lögreglustjóra og 850.584 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, í réttargæslu- og málsvarnarþóknun til skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns

Ákærði Baldur Þór greiði  102.131 krónu í útlagðan sakarkostnað samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti lögreglustjóra og 278.880 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, í réttargæslu- og málsvarnarþóknun til skipaðs verjanda síns, Magnúsar Baldurssonar héraðsdómslögmanns.

Uppkvaðning dóms þessa hefur dregist nokkuð vegna anna dómara og umfangs málsins.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

   Ákærði, Guðmundur Jakob Jónsson, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Gæsluvarðhald hans frá 5. til 10. september 2008 og frá 27. mars 2009 til uppkvaðningar dóms þessa kemur til frádráttar refsingu.

Ákærði Guðmundur Jakob er og sviptur ökurétti í fjögur ár frá og með 13. ágúst 2010.

Ákærði Baldur Þór Guðmundsson sæti fangelsi í tíu mánuði. Til frádráttar komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti vegna málsins frá 5. til 9. september 2008.

Ákærði Baldur Þór er og sviptur ökurétti í eitt ár frá og með birtingu dóms þessa.

Upptæk eru gerð 4,67 g af amfetamíni, 1,86 g af hassi og 0,69 g af maríhúana.

Ákærði Guðmundur Jakob greiði A 347.719 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 277.719 krónum frá 27. maí 2007 til 19. mars 2009 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 347.719 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði Guðmundur Jakob greiði C 10.900 krónur.

Ákærði Baldur Þór greiði [...] 34.980 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. júní 2008 til 18. september 2008, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði Baldur Þór greiði G 150.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. júlí 2008 til 17. maí 2009 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði Guðmundur Jakob greiði 1.514.132 krónur í sakarkostnað, þar með talda 850.584 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.

Ákærði Baldur Þór greiði 381.011 krónur í sakarkostnað, þar af 278.880 krónur í réttargæslu- og málsvarnarþóknun til skipaðs verjanda síns, Magnúsar Baldurssonar héraðsdómslögmanns.