Hæstiréttur íslands
Mál nr. 672/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 4. mars 2010. |
|
Nr. 672/2009. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn X(Guðni Á. Haraldsson hrl. Brynjólfur Eyvindsson hdl.) (Hjördís E. Harðardóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur. Sératkvæði.
X var gefið að sök kynferðisbrot gegn telpunni A, sem þá var 8 ára gömul, með því að hafa í mörg skipti þuklað kynfæri hennar utanklæða, nuddað kynfæri hennar innanklæða með fingrum sínum og kysst eða sleikt kynfæri hennar og sett fingur inn í leggöng hennar. X játaði brotin í fyrri tveimur liðum ákærunnar og var sakfelldur fyrir þau brot. Voru brotin talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. X neitaði hins vegar að hafa kysst eða sleikt kynfæri telpunnar og sett fingur inn í leggöng hennar og sýknaði héraðsdómur hann af þeirri háttsemi. Kom fram í dóminum að gegn eindreginni neitun X teldist ósannað að hann hefði brotið gegn telpunni með þeim hætti sem lýst væri í þriðja lið ákæru. Ákæruvaldið krafðist ómerkingar dómsins, þar sem forsendur hans væru ófullnægjandi og gæfu hvorki vísbendingu um hvort mat hefði farið fram á sönnunargögnum né hvert það mat hefði þá verið. Talið var að þótt fallast mætti á að forsendur héraðsdóms væru rýrar um þennan ákærulið yrði að ganga út frá því að dómurinn, sem var fjölskipaður þar sem X neitaði sakargiftum, hefði sinnt því meginhlutverki sínu að meta trúverðugleika framburðar X og vitna, enda þótt það mat kæmi ekki fram berum orðum í forsendunum. Þóttu því ekki alveg næg efni til að ómerkja héraðsdóm. Var niðurstaða hans um sakfellingu X staðfest með vísan til forsendna svo og heimfærsla brota hans til refsiákvæða. Talið var að brot þau sem X var sakfelldur fyrir væru mjög alvarleg. Þau hefðu beinst gegn ungri telpu sem X hefði verið falið að gæta og bar X að hann hefði leyft telpunni að gista á heimili sínu meðal annars vegna þess að hún hefði búið við erfiðar heimilisaðstæður. Í stað þess að veita telpunni skjól hefði hann beitt hana grófu kynferðisofbeldi og brugðist algerlega trausti hennar. Að því gættu og að brot X voru mörg og stóðu sum þeirra yfir í allt að hálfa klukkustund í senn þótti refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða telpunni 700.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. október 2009 af hálfu ákæruvaldsins. Hann krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst þess aðallega að refsing verði milduð og bundin skilorði, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um refsingu. Þá krefst hann þess að bætur til A verði lækkaðar.
Með ákæru 16. júní 2009 voru ákærða gefin að sök kynferðisbrot framin haust og vetur 2008 gegn telpunni A, sem þá var 8 ára gömul, með því að hafa eins og greinir í 1. lið ákæru þuklað kynfæri hennar utanklæða í allt að níu skipti, í allt að sex skipti nuddað kynfæri telpunnar innanklæða með fingrum sínum, sbr. 2. lið og tvisvar kysst eða sleikt kynfæri hennar og sett fingur inn í leggöng hennar, sbr. 3. lið ákæru. Ákærði játaði við rannsókn málsins og fyrir héraðsdómi brotin í 1. og 2. lið, þó þannig að hann taldi að brotin samkvæmt síðari liðnum hafi verið fjögur en ekki sex og hann neitaði sök samkvæmt 3. lið. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem hann játaði. Hann var á hinn bóginn sýknaður af háttseminni sem lýst er í 3. lið. Í röksemdum héraðsdóms fyrir þeirri niðurstöðu segir það eitt að ákærði hafi frá upphafi neitað að hafa gerst sekur um háttsemina í þessum lið ákæru og gegn eindreginni neitun hans teljist ósannað að hann hafi brotið gegn telpunni með þeim hætti sem þar er lýst. Krafa ákæruvaldsins um ómerkingu dómsins er reist á því að þessar forsendur séu ófullnægjandi og gefi hvorki vísbendingu um hvort mat hafi farið fram á sönnunargögnum né hvert það mat hafi þá verið. Þótt fallast megi á að forsendur héraðsdóms séu rýrar um þennan ákærulið verður að ganga út frá því að dómurinn, sem var fjölskipaður þar sem ákærði hafði neitað sakargiftum, hafi sinnt því meginhlutverki sínu að meta trúverðugleika framburðar ákærða og vitna, enda þótt það mat komi ekki fram berum orðum í forsendunum. Er hinum áfrýjaða dómi að þessu leyti áfátt, sbr. e. og f. liði 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en hvorki þykja vegna þessa annmarka né á grundvelli 3. mgr. 208. gr. laganna alveg næg efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm. Með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður niðurstaða hans um sakfellingu ákærða staðfest svo og heimfærsla brota hans til refsiákvæða.
Brot ákærða voru mörg og stóðu sum þeirra yfir í allt að hálfa klukkustund í senn. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms um refsingu ákærða er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
Að virtum atvikum málsins og þeim afleiðingum sem brot ákærða hafa haft á hagi telpunnar eru miskabætur henni til handa hæfilega ákveðnar 700.000 krónur.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði greiði A 700.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. desember 2008 til 17. mars 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 512.478 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðna Á. Haraldssonar, 376.500 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hjördísar E. Harðardóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Ég er sammála meirihluta dómenda um annað en ákvörðun miskabóta. Í máli þessu er ákærði sakfelldur fyrir að hafa oft brotið gegn A, sem er ung að árum og stóð atferli hans gagnvart varnarlausri stúlkunni stundum yfir í allt að hálfa klukkustund. Í héraðsdómi er rakið hvaða afleiðingar þetta er talið hafa haft fyrir hana. Þá var lagt fram í Hæstarétti vottorð sálfræðings um að stúlkan þjáist enn vegna háttsemi ákærða. Brot ákærða eru samkvæmt þessu til þess fallin að hafa varanleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu stúlkunnar. Af hálfu ákærða hefur hvorki verið vefengd niðurstaða héraðsdóms um þær afleiðingar brota ákærða sem þar er getið, né efni hins nýja vottorðs sálfræðingsins. Að þessu virtu tel ég að fallast beri á kröfu brotaþola um miskabætur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2009.
Málið er höfðað samkvæmt ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 16. júní sl., á hendur X, kt. [...], Reykjavík, fyrir kynferðisbrot gegn A, sem þá var 8 ára gömul en brotin voru framin haust og vetur 2008 á heimili ákærða að , Reykjavík, með því að hafa er A var í næturgistingu hjá honum:
1. Þuklað kynfæri telpunnar utanklæða í allt að 9 skipti.
2. Í allt að 6 skipti nuddað kynfæri telpunnar innanklæða með fingrum sínum.
3. Tvisvar sinnum kysst eða sleikt kynfæri telpunnar og sett fingur inn í leggöng hennar.
Telst háttsemi ákærða samkvæmt 1. ákærulið varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en samkvæmt 2. og 3. ákærulið við 1. mgr. 202. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu B, kennitala [...], fyrir hönd A, kennitala [...], er gerð krafa um greiðslu miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 19. desember 2008 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar við réttargæslu samkvæmt mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun. Enn fremur er gerð krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af 3. ákærulið. Þá krefst verjandi þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta. Loks krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa.
Málsatvik
Með bréfi 29. desember 2008 beindi Barnavernd Reykjavíkur kæru til lögreglu vegna gruns um kynferðisbrot ákærða gegn A. Í kærunni kemur fram að þann 25. desember sl. hefði borist tilkynning til Barnaverndar frá Barnaspítala Hringsins um að A væri á sjúkrahúsinu með föður sínum. Hefði hún sagt foreldrum sínu frá því kvöldið áður að maður tengdur henni hefði kysst kynfæri hennar og gert eitthvað vont líka. Hefði telpan gengist undir læknisskoðun. Þann 29. desember hefðu foreldrar A komið í viðtal á skrifstofu Barnaverndar. Hefði komið fram hjá þeim að móðirin hefði rætt við A, þegar hún baðaði hana, um einkastaði og hvort einhver hafi snert einkastaðina. Hún hefði spurt A að þessu á aðfangadag og hefði telpan þá svarað að maður hefði snert kynfæri hennar, troðið fingri upp í leggöng hennar og sleikt hana að neðan. Einnig hefði hann klætt hana úr nærbuxunum. Hefði faðir telpunnar spurt hvort þetta hefði aðeins gerst einu sinni, en hún sagt að hann hefði gert þetta oft. Hefði faðir telpunnar farið með hana á barnaspítalann á jóladag, þar sem hún var skoðuð og tekin voru sýni. Þarna væri um að ræða ákærða, en þeir faðir telpunnar eru systrabörn. Kemur fram að foreldrar hefðu tengt líðan A síðastliðna 2 til 3 mánuði við þessa atburði, en hún hefði kvartað um magaverki, gengið illa að sofna, grátið og sagst vera hrædd. Þá kom fram hjá föður telpunnar að hann hefði ekkert samband haft við ákærða í mörg ár. Þeir hefðu hins vegar hist síðastliðið sumar og tekið upp samband. Hefði ákærði þá farið að sækja í A og C bróður hennar. Hann hefði gefið börnunum gjafir, farið með þau í ökuferðir, sund og fleira. Þá hefðu börnin gist nokkrum sinnum hjá ákærða, m.a. rétt fyrir jól. A og C hefðu alltaf verið saman þegar þau voru með ákærða. Kom fram að C væri einhverfur og hefði hann neitað því að ákærði hefði gert eitthvað við hann.
Þann 7. janúar sl. mætti B, móðir A, á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn telpunni. Sagði hún þau eiginmann sinn, D, hafa kynnst ákærða í gegnum sameiginlegt vinafólk í júlímánuði 2008. Ekkert samband hefði verið á milli ákærða og D frá því þeir voru börn. Fljótlega eftir að kynni tókust á með þeim að nýju hefði ákærði farið að gera sig heimakominn á heimili þeirra. Hefði hann fljótlega farið að sýna A, dóttur þeirra, mikinn áhuga. Hann hefði meðal annars boðist til að fara með telpuna í sund og í framhaldinu hefðu systkinin bæði farið með honum í nokkrar sundferðir. Hann hefði síðan farið að bjóða börnunum að gista hjá sér til að létta undir með foreldrunum, en sonur þeirra,C, væri haldinn einhvers konar einhverfu og gæti því verið erfiður. Hefðu börnin gist hjá ákærða í 5 til 6 skipti frá því um mánaðamót október nóvember. Sagðist B ítrekað hafa sagt við ákærða að A ætti að sofa í sér rúmi og herbergi, en drengurinn mætti sofa hjá honum. Hún sagðist spyrja A reglulega að því hvort einhver væri að snerta einkastaði hennar og hefði hún verið búin að útskýra fyrir A hvaða staðir það væru. Á aðfangadag hefði hún verið að baða A og hefði hún þá sagt móður sinni að ákærði hefði snert kynfæri hennar. Hefði hún sagt honum að þetta væri vont, en hann hefði haldið áfram. Þá hefði telpan sagt að hann hefði einnig sleikt á henni kynfærin. Sagðist B hafa spurt telpuna hvort þetta væri eitthvað sem faðir hennar hefði einnig gert, en A hefði neitað því. Hefði hún ekki fengið nákvæmar lýsingar og ekki hefði komið fram hversu oft þetta hefði gerst, en telpan hefði sagt að þetta hefði gerst nokkrum sinnum. Þarna hefði einnig komið í ljós að A hefði ekki sofið í sér rúmi þegar börnin gistu heima hjá ákærða, heldur hefði hún sofið í rúmi hjá honum, en D í sér rúmi. Þetta hefði gerst eftir að D sofnaði.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 9. janúar sl. Sagði hann frændsystkinin mikið hafa viljað vera með honum og viljað gista hjá honum. Hefði honum þótt mjög gaman að fá að hafa þau, enda þótt mjög vænt um þau. Telpan hefði legið mikið hjá honum. Hann hefði verið að ýta henni frá sér, en hún þá spurt hvers vegna hann vildi ekki hafa hana hjá sér. Sagðist ákærði þá hafa farið „aðeins að þukla og svoleiðis“. Hefði hann til að byrja með þuklað „yfir fötin“ og þá þuklað á kynfærum telpunnar utan klæða. Síðan hefði þetta færst í vöxt og hann farið inn fyrir fötin. Hann hefði strokið kynfæri hennar að utanverðu yfir barma og við lífbeinið. Ákærði neitaði að hafa sett fingur inn í kynfæri telpunnar. Hann sagðist hafa snert ber kynfæri hennar í 4 til 6 skipti. Hann neitaði að hafa sleikt kynfæri hennar.
Þann 19. janúar sl. var tekin skýrsla af A í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sagði hún frá því að ákærði hefði verið að koma við staði sem hann mætti ekki gera og „kyssa það“. Hefði þetta gerst á meðan hún var sofandi, þegar hún gisti hjá honum, en frændi hennar hefði látið hana sofa hjá sér í rúmi. Henni hefði liðið illa og reynt að segja honum að hætta, en hann hefði ekki hætt og gert þetta um nóttina. Þetta hefði gerst bæði á laugardag og föstudag. Þetta hefði verið í desember áður en jólin komu. Hann hefði komið við „klobbann“ með puttunum fyrir innan nærbuxurnar. Hann hefði farið með puttana inn í klobbann. Henni hefði þótt þetta vera svolítið vont, en hann hefði bara gert þetta einu sinni þegar hún var sofandi. Á sunnudeginum hefði hann sagt við hana að hún ætti ekki að segja mömmu og pabba frá þessu. C bróðir hennar hefði verið sofandi í gestarúmi þegar þetta gerðist. Hún hefði áður verið búin að gista hjá ákærða, en þá hefði hann ekki gert neitt. Ákærði hefði gert það sama við hana bæði kvöldin. Hann hefði klætt hana úr náttbuxum meðan hún svaf og hún hefði vaknað þegar hann var að kyssa klobbann. Hún hefði næstum farið að gráta. Síðan hefði hann hætt og farið að sofa, en hún hefði verið farin að gráta. Hann hefði komið fast við hana með puttanum inn í klobbann, hún vissi ekki hvað langt. Hann hefði hreyft puttann mikið. Á sunnudeginum hefði hann spurt hana: „Hvernig var þetta í gær?“ Hefði hún sagt honum að þetta hefði verið rosalega vont. Hún sagðist hafa vaknað við það að ákærði var að koma puttanum „inn í“. Hún hefði líka vaknað við að hann hefði verið að kyssa. Þegar hún vaknaði hefði hún séð að hann hefði bara verið í nærbuxunum. Hann hefði klætt hana úr nærbuxunum og náttfötunum, en hún hefði ennþá verið íklædd bolnum. Þegar þetta var búið hefði hann bara sofnað, en hún hefði klætt sig í fötin, sem hefðu legið á gólfinu.
Ákærði gaf skýrslu á ný hjá lögreglu þann 3. febrúar sl. og lýsti þá atvikum mjög á sama veg og fyrr. Vísaði ákærði því á bug að hafa sett fingur í kynfæri telpunnar eða að hafa sleikt eða kysst kynfæri hennar. Ákærði lýsti því nánar hvernig hann hefði strokið kynfæri telpunnar. Var það sem kom fram við skýrslutökuna tekið upp á myndband og skýrir sú upptaka enn frekar lýsingar ákærða á því hvernig hann hafi borið sig að. Lýsti ákærði því að hann hefði strokið kynfæri telpunnar með tveimur fingrum. Hefði hann haft fingurna bogna og strokið um kynfæri hennar með fremri hluta vísifingurs og löngutangar, framan við miðkjúku. Hefði hann strokið kynfæri telpunnar þannig bæði utan klæða og innan. Þetta hefði staðið í „smástund“ í hvert sinn, í um það bil hálftíma eða klukkutíma.
Meðal gagna málsins er vottorð Erlu Þorleifsdóttur deildarlæknis um skoðun telpunnar á Barnaspítala Hringsins þann 25. desember sl. Kemur þar fram að ekki hafi verið klár áverkamerki á líkama telpunnar og ekki að sjá áverka á ytri kynfærum. Ekki hafi verið rofið hymen.
Þá er í gögnum málsins vottorð Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings, dagsett 29. júní sl., þar sem kemur fram að viðtöl við telpuna hafi leitt í ljós fjölmörg vandamál sem þekkt eru meðal barna sem sætt hafa kynferðislegri misnotkun. Telpan uppfylli greiningarskilmerki áfallastreituröskunar. Hún glími enn við afleiðingar ætlaðs kynferðisbrots og megi ætla að svo verði í náinni framtíð. Þá sé algengt að þegar ung börn verða fyrir kynferðislegri misnotkun þurfi þau aftur að leita sér hjálpar á unglingsárum. Ekki sé unnt að segja til um að svo stöddu hvort telpan muni ná sér eftir hina kynferðislegu misnotkun sem hún segist hafa sætt, en ljóst sé að meðferð sé hvergi nærri lokið.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði játaði við þingfestingu málsins að hafa þuklað kynfæri telpunnar utan klæða í allt að 7 til 9 skipti, svo sem lýst er í 1. ákærulið. Þá játaði ákærði 2. ákærulið réttan, en sagðist þó ekki hafa nuddað kynfæri telpunnar innan klæða oftar en í 4 skipti. Hann neitaði alfarið að hafa kysst eða sleikt kynfæri telpunnar og sett fingur inn í leggöng hennar, eins og lýst er í 3. ákærulið. Ákærði sagðist hafa viðhaft hina kynferðislegu háttsemi gagnvart telpunni þegar hún gisti hjá honum. Hefði þetta gerst þegar hún var komin upp í rúm til hans á kvöldin og þau voru að fara að sofa. Hann væri þess fullviss að hún hefði alltaf verið vakandi þegar þetta átti sér stað. Hún hefði yfirleitt legið kyrr meðan á þessu stóð. Ákærði lýsti því að hann hefði strokið kynfæri telpunnar með tveimur fingrum. Hann hefði ekki strokið fast. Nánar aðspurður sagðist hann ekki hafa nuddað kynfæri telpunnar. Þetta hefði staðið yfir í um það bil 5 til 10 mínútur. Þegar borið var undir ákærða það sem kom fram í skýrslutöku af honum hjá lögreglu sem fyrr greinir að þetta hafi staðið í um það bil hálftíma eða klukkutíma sagði ákærði að það hefði kannski náð hálftíma, en aldrei farið í klukkutíma. Hann sagði geta verið að systkinin hefðu gist 9 til 10 sinnum á heimili hans.
Ákærði sagðist ekki hafa skýringar á því hvers vegna telpan hefði borið að hann hefði í tvígang kysst kynfæri hennar og sett fingur inn í leggöng hennar. Hann hefði átt góð samskipti við telpuna og bróður hennar og teldi hana yfirleitt hafa verið nokkuð heiðarlega gagnvart honum. Heimilisaðstæður hennar væru um margt erfiðar að hans mati. Faðir hennar hefði átt við ýmis vandamál að stríða og leitað til sálfræðinga og geðlækna vegna þeirra. Þá ætti móðirin við áfengisvanda að etja og vissi hann til þess að borist hefði kæra til barnaverndarnefndar um að það væri drykkja á heimilinu.
Vitnið B sagðist hafa verið að baða dóttur sína á aðfangadag sl. og þá farið að spyrja hana hvort einhver hefði snert „einkastaði“ hennar. Hefði telpan svarað játandi og að ákærði hefði gert það. Hefði hún sagt að ákærði hefði stungið puttunum upp í leggöng hennar og sleikt hana líka. Hann hefði gert þetta oft. Hún hefði sagt honum að hún vildi að hann hætti en hann ekki sinnt því. B sagði að börnin hefðu gist hjá ákærða alla helgina 18. til 20. desember og grunaði hana að þetta hefði gerst þá. Telpan hefði verið veik þegar hún kom heim úr þessari heimsókn, hún hefði kastað upp, en síðan sofnað og sofið til morguns. Hún hefði ekki verið með sjálfri sér.
B sagði líðan telpunnar ekki hafa verið góða eftir þetta. Hún hefði kvartað um magaverki og átt erfitt með svefn á kvöldin. Hún væri á góðri leið eftir að hafa sótt meðferðarviðtöl í Barnahúsi, en það kæmi þó fyrir að hugsanir um það sem ákærði gerði kæmu upp hjá henni. Þá hefði hún fengið martraðir því tengdar.
Vitnið D lýsti því hvernig málið hefði komið upp á aðfangadag og hefði eiginkona hans sagt honum frá samtali þeirra A. Hefði hann rætt við telpuna inni í herbergi hennar í framhaldinu og spurt hvað ákærði hefði gert. Hefði telpan sagt honum að hann hefði kysst hana í klofið. Þá hefði hann farið með hendurnar í klofið á henni og meitt hana. Þetta hefði gerst oft.
Vitnið Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur gerði grein fyrir viðtölum sínum við A. Sagði hún telpuna áberandi kvíðafulla. Væri ótti hennar mjög raunverulegur, til dæmis lýsti hún því að hún óttaðist að ákærði kæmi að kvöldi til og tæki hana. Þá væri hún sífellt minnt á það sem gerðist af bróður sínum, sem væri henni reiður vegna þess að hann hefði misst ákærða. Þá forðaðist telpan ákveðna staði þar sem hún byggist við að hitta ákærða. Vitnið sagðist hafa hitt telpuna síðast þann 8. október sl. og þá hefði hún enn verið að tala um að hún væri oft andvaka og hrædd við þetta og hitt. Sagðist vitnið rekja þessar afleiðingar til hins meinta kynferðisbrots.
Vitnið Erla Þorleifsdóttir deildarlæknir annaðist skoðun A á Barnaspítala Hringsins á jóladag. Vitnið sagði telpuna hafa verið í fylgd með föður sínum. Hann hefði fyrst sagt frá því hvernig telpan hefði lýst því sem hefði gerst, en hún síðan lýst því sjálf. Hún hefði sagt að maðurinn hefði verið að koma við hana að neðan. Hann hefði snert hana með fingrum í leggöng, brjóst og kynfæri, sett fingur upp í leggöng og komið við kynfæri með vörum. Þetta hefði gerst síðast þegar hún hefði verið í næturgistingu hjá manninum ásamt bróður sínum aðfaranótt 21. desember. Við skoðun hefðu ekki reynst vera áverkar á líkama telpunnar. Þá hefðu ekki verið merki um átök eða áverka á kynfærum. Vitnið sagði viðtöl hafa gengið þannig fyrir sig að hún hefði fyrst rætt einslega við föður telpunnar. Telpan hefði ekki verið viðstödd þegar rætt var við hann, en gefið sína lýsingu á eftir.
Niðurstaða
Ákærði játar að hafa þuklað kynfæri A utan klæða í allt að 7-9 skipti, svo sem lýst er í 1. ákærulið. Þá játar ákærði að hafa nuddað kynfæri telpunnar innan klæða eins og lýst er í 2. ákærulið, en segist þó ekki hafa gert það oftar en 4 sinnum. Hann neitar að hafa kysst eða sleikt kynfæri telpunnar og sett fingur inn í leggöng hennar, eins og lýst er í 3. ákærulið.
Við skýrslutöku fyrir dómi þann 19. janúar sl. bar A að ákærði hefði komið við staði sem hann mætti ekki snerta og kysst „það“. Hann hefði snert „klobbann“ á henni með fingrunum undir nærbuxum. Hefði ákærði farið með fingurna „inn í klobbann“. Þetta hefði gerst þegar hún gisti hjá honum bæði föstudag og laugardag og átt sér stað bæði kvöldin. Ákærði hefði afklætt hana á meðan hún svaf og hún hefði vaknað við að hann var að „kyssa klobbann“. Hann hefði komið fast við hana með puttanum „inn í klobbann“. Fram er komið í málinu að A og bróðir hennar gistu alloft hjá ákærða frá því snemma vetrar 2008 og síðast helgina 18. til 20. desember, frá föstudegi til sunnudags.
Dómurinn telur sannað með játningu ákærða sem fær stoð í framburði A, svo langt sem sá framburður nær, að ákærði hafi brotið gegn telpunni með þeim hætti sem lýst er í 1. og 2. ákærulið. Varðandi 2. ákærulið verður því þó ekki slegið föstu, eins og framburði ákærða háttaði fyrir dóminum, að hann hafi nuddað kynfæri telpunnar innan klæða oftar en í 4 skipti. Þegar virtar eru lýsingar ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu þann 3. febrúar sl. og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, á því hvernig hann bar sig að við að strjúka telpunni og hversu lengi þær athafnir stóðu, telur dómurinn að háttsemi hans sé réttilega lýst sem nuddi, svo sem í 2. ákærulið greinir, og verði jafnað til annarra kynferðismaka í skilningi 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur frá upphafi neitað því að hafa tvisvar sinnum kysst eða sleikt kynfæri telpunnar og sett fingur inn í leggöng hennar, svo sem lýst er í 3. ákærulið. Gegn eindreginni neitun ákærða telst ósannað að hann hafi brotið gegn telpunni með þessum hætti og verður hann sýknaður af ákæru að þessu leyti.
Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur samkvæmt 1. ákærulið fyrir að hafa þuklað kynfæri telpunnar utan klæða í allt að 9 skipti eins og þar segir og samkvæmt 2. ákærulið fyrir að hafa í allt að 4 skipti nuddað kynfæri hennar innan klæða með fingrum sínum. Eru brot ákærða samkvæmt greindum ákæruliðum rétt heimfærð til refsiákvæða.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði hefur aldrei gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé.
Brot þau sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir eru mjög alvarleg. Brotin beindust gegn ungri telpu sem ákærða hafði verið falið að gæta og hefur ákærði borið að hann hafi leyft telpunni að gista á heimili sínu meðal annars vegna þess að hún hafi búið við erfiðar heimilisaðstæður. Í stað þess að veita barninu skjól beitti hann það grófu kynferðisofbeldi og brást algjörlega trausti þess. Þegar framangreint er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Ekki þykir fært að skilorðsbinda refsingu ákærða að neinu leyti.
Af hálfu A hefur verið krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 króna auk vaxta. Er bótakrafa rökstudd með því að ákærði hafi með verknaði sínum valdið brotaþola mikilli vanlíðan. Hún eigi erfitt með svefn og vakni iðulega með martraðir. Hún sé óttaslegin á kvöldin þegar hún fari að sofa og verði að hafa kveikt ljós hjá sér og opna hurð. Þá lýsi brotaþoli kvíðatilfinningu sem komi fram í líkamlegri spennu og magaverk. Verknaður ákærða hafi falið í sér gróft brot gegn persónu- og kynfrelsi brotaþola. Sé brotið sérstaklega alvarlegt með tilliti til ungs aldurs brotaþola sem var í umsjón ákærða, sem hún mátti treysta að hún væri óhult hjá. Afleiðingar verknaðarins séu alvarlegar og til þess fallnar að hafa áhrif á andlega og líkamlega heilsu brotaþola um ókomna framtíð. Með vísan til þess sem hér að framan greinir þykja bætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Ber sú fjárhæð vexti svo sem í dómsorði greinir.
Dæma ber ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 280.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur héraðsdómslögmanns, 161.850 krónur, í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði A miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 19. desember 2008 til 17. mars 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 280.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur héraðsdómslögmanns, 161.850 krónur.