Hæstiréttur íslands

Mál nr. 242/2016

Innnes ehf. (Páll Rúnar M. Kristjánsson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Andri Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Fullnaðarkvittun
  • Vextir
  • Viðbótarkrafa

Reifun

I ehf. og L hf. deildu um hvort L hf. hefði við endurútreikning á lánssamningi, sem hafði verið bundinn ólögmætri gengistryggingu, verið heimilt að reikna vexti á gjalddaga sem gjaldfallið hefðu fyrir endurútreikninginn eftir 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að við heildarmat á öllum aðstæðum yrði að líta til þess hvaða áhrif viðbótarkrafan hefði á efnahag I ehf. og óhagræði hans af því að þurfa að standa skil á henni. Var talið að þegar litið væri til stærðar I ehf. og umsvifa félagsins væru áhrif viðbótarkröfunnar á I ehf. svo veruleg að L hf. yrði sjálft að bera þann vaxtamun sem um var deilt í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 178.428.296 krónur, en til vara 100.000.000 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. júní 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi tekur mál þetta til lánssamnings 25. janúar 2006 sem áfrýjandi gerði við Landsbanka Íslands hf. Með samningnum tók áfrýjandi lán að jafnvirði 250.000.000 króna í tiltekinni erlendri mynt. Skilmálum lánssamningsins er nánar lýst í héraðsdómi. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var samningi þessum ráðstafað til stefnda.

Áfrýjandi greiddi alls 58 afborganir af láninu á tímabilinu frá 10. apríl 2006 til 10. desember 2010. Í október 2010 gekk áfrýjandi að tilboði stefnda um að greiða upp lánið miðað við stöðu þess 1. apríl sama ár gegn 25% niðurfærslu höfuðstóls. Það uppgjör fjármagnaði áfrýjandi með nýju láni frá stefnda 10. desember 2010, en með því voru stefnda greiddar 329.560.778 krónur. Í kjölfar uppgjörsins lýsti áfrýjandi því yfir gagnvart stefnda 14. janúar 2011 að hann áskildi sér rétt til frekari niðurfærslu ef hann ætti betri rétt miðað við dóma um sambærilega samninga. Með kvittun stefnda 24. sama mánaðar var áfrýjanda sendur útreikningur á fjárhæð lánsins að teknu tilliti til niðurfærslunnar.

Stefndi taldi að lánssamningurinn 25. janúar 2006 hefði haft að geyma ólögmæta bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. Því endurreiknaði hann lánið til samræmis við ákvæði laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 18. gr. þeirra laga, og tilkynnti það áfrýjanda með bréfi 15. desember 2011. Niðurstaða þess endurútreiknings var að áfrýjandi ætti inneign hjá stefnda að fjárhæð 82.011.177 krónur og var þeirri fjárhæð ráðstafað inn á fyrrgreint lán sem tekið var til að gera upp lánssamninginn. Við þennan endurútreikning var tekið tillit til viðbótarkröfu stefnda vegna vaxta fyrir liðna tíð.

Með aðilum er ágreiningslaust að viðbótarkrafa stefnda vegna mismunar á umsömdum vöxtum og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 nemur 141.018.476 krónum. Aðalkrafa áfrýjanda svarar til þeirrar fjárhæðar að viðbættum síðargreindum vöxtum frá uppgjörsdegi 10. desember 2010 til 4. júní 2014 þegar málið var höfðað í héraði. Af hálfu áfrýjanda var því haldið fram í stefnu til héraðsdóms að sammæli væru milli aðila um að reka málið sérstaklega um þessa viðbótarkröfu. Að fengnum dómi yrðu síðan önnur lán áfrýjanda hjá stefnda gerð upp í samræmi við þá niðurstöðu. Um væri að ræða þrjú lán en viðbótarkröfur vegna vaxta af þeim næmu samtals 315.049.907 krónum. Heildarkrafa að teknu tilliti til fjárkröfunnar í máli þessu nemur því 456.068.383 krónum. Í héraði andmælti stefndi ekki þessum málatilbúnaði áfrýjanda. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var því hins vegar mótmælt að litið yrði til umræddra þriggja lána við úrlausn málsins. Var það reist á því að tvö af þessum lánum hefðu verið lögmæt erlend lán og því hefði engri viðbótarkröfu vegna þeirra verið beint að áfrýjanda. Þriðja lánið hefði verið gert upp með erlendu láni liðlega ári eftir lántöku 2. nóvember 2008 en viðbótarkrafa vegna þess næmi um 27.000.000 krónum. Þessi andmæli fela í sér nýja málsástæðu, sem reist er á þessum atvikum, en lagaskilyrði standa ekki til þess að hún komist að í málinu, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt þessu verður við úrlausn málsins að meta áhrif viðbótarkröfunnar gagnvart áfrýjanda að því gættu að mismunur á umsömdum vöxtum og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 vegna lánanna allra nemi samtals 456.068.383 krónum.

II

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hafnað þeirri málsástæðu áfrýjanda að stefndi hafi með athöfnum sínum viðurkennt ríkari rétt en leiðir af lögum til að greiðslur áfrýjanda á vöxtum fyrir liðna tíð teldust fela í sér fullnaðaruppgjör. Jafnframt verður fallist á röksemdir héraðsdóms fyrir því að stefndi hafi ekki með lögskiptum sínum við aðra viðskiptavini sína skuldbundið sig til að veita áfrýjanda frekari rétt en leiðir af almennum reglum. Tekur varakrafa áfrýjanda mið af því að stefndi hafi fallið frá viðbótarkröfu vegna vaxta gagnvart öllum skuldurum sínum ef krafan nam lægri fjárhæð en 100.000.000 krónum.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur þeirri meginreglu kröfuréttar verið slegið fastri að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann á rétt til úr hendi skuldara, eigi tilkall til viðbótarkröfu. Frá þeirri meginreglu gilda þó undantekningar við sérstakar aðstæður, sem ráðast af heildarmati á öllum atvikum og lögskiptum aðila. Meðal þeirra atriða sem vega þungt er óhagræði skuldara af viðbótarkröfunni, en því meira sem það er því ríkari eru rökin til að víkja frá meginreglunni.

Að því er varðar viðbótarkröfur vegna vaxta af lánum, sem bundin hafa verið ólögmætri gengistryggingu, hefur verið talið skipta máli hvort skuldari er annars vegar einstaklingur, lítið fyrirtæki eða fámennt sveitarfélag eða hins vegar stórt fyrirtæki. Svo sem nánar er rakið í dómum réttarins 20. desember 2016 í málum nr. 82/2016, 149/2016 og 150/2016 er ekki útilokað að vikið verði frá umræddri meginreglu þótt í hlut eigi meðalstór og jafnvel stærri fyrirtæki, en þá þarf eðli máls samkvæmt meira að koma til. Verður því aðeins vikið frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til fullra efnda, þegar stærri fyrirtæki eiga í hlut, að beiting reglunnar leiði til svo verulegrar röskunar á hagsmunum skuldara og jafnvægi í skuldarsambandinu að ekki verði við unað.

Fallist verður á það með héraðsdómi að viðbótarkrafa áfrýjanda vegna fyrrgreindra fjögurra lána sé umtalsverð. Einnig verður ekki talið að um hafi verið að ræða svo fáar greiðslur eða lítið hlutfall afborgana að ekki hafi myndast næg festa í lögskiptum aðila við framkvæmd lánssamninga sem áfrýjandi hafði greitt af um árabil. Jafnframt verður lagt til grundvallar að báðir aðilar hafi gengið út frá því að gengistrygging höfuðstóls lánanna væri gild og eru því engin efni til að telja að áfrýjandi hafi ekki verið í góðri trú um að greiðslur hans á vöxtum hverju sinni fælu í sér fullar efndir. Mæla þessi atriði með því að krafa áfrýjanda verði tekin til greina án þess þó að þau ein og sér geti ráðið úrslitum. Að þessu gættu verður við heildarmat á öllum aðstæðum að líta til þess hvaða áhrif viðbótarkrafan hefur á efnahag áfrýjanda og óhagræði hans af því að þurfa að standa skil á henni.

Eins og áður greinir var áfrýjanda tilkynnt um endurútreikning stefnda á því láni sem kröfugerð hans tekur til með bréfi 15. desember 2011, en viðbótarkrafa vegna vaxta var innifalin í útreikningnum. Samkvæmt ársreikningi áfrýjanda fyrir það ár námu tekjur hans 4.459.444.534 krónum, en rekstrargjöld voru samtals 4.196.290.718 krónur. Að teknu tilliti til afskrifta að fjárhæð 135.434.239 krónur var rekstarhagnaður ársins 127.719.577 krónur. Þegar tillit hafði verið tekið til fjármagnsliða og skatta nam hagnaður ársins 429.720.173 krónum, en um þá niðurstöðu skipti mestu leiðrétting skulda að fjárhæð 526.027.412 krónur. Viðbótarkrafa vegna vaxta í heild sinni svarar því ríflega til hagnaðar alls ársins en þau áhrif eru enn meiri þegar aðeins er litið til rekstarhagnaðarins fyrir fjármagnsliði og skatta. Þá nam eigið fé í árslok 696.436.207 krónum og því er hlutfall viðbótarkröfunnar í heild sinni af þeirri fjárhæð verulegt. Þegar allt þetta er virt og litið til stærðar og umsvifa félagsins á þessum tíma eru áhrif viðbótarkröfunnar á áfrýjanda svo veruleg að stefndi verður sjálfur að bera þann vaxtamun sem krafa áfrýjanda tekur til og leiðir af því að lán voru bundin ólögmætri gengistryggingu. Er þá einnig höfð hliðsjón af dómi réttarins 20. desember 2016 í máli nr. 82/2016.

Samkvæmt framansögðu verður tekin til greina krafa áfrýjanda á hendur stefnda að fjárhæð 141.018.476 krónur, sem svarar til viðbótarkröfu vegna vaxta fyrir liðna tíð er hann stóð stefnda skil á vegna lánssamnings 25. janúar 2006. Krafa áfrýjanda um vexti á þá fjárhæð samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 á sér ekki stoð í samningi, lögum eða venju, sbr. 3. gr. þeirrar laga. Aftur á móti verður fallist á kröfu áfrýjanda um dráttarvexti frá því málið var höfðað 4. júní 2014, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. 

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Landsbankinn hf., greiði áfrýjanda Innnesi ehf., 141.018.476 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. júní 2014 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2016.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 4. júní 2014 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 8. desember sl. Stefnandi er Innes ehf., Fossaleyni 21, Reykjavík. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 178.428.296 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. júní 2014 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Helstu ágreiningsefni og yfirlit um málsatvik.

Meginágreiningur aðila snýr að því hvort við endurútreikning gengistryggðs láns, sem stefnandi tók hjá Landsbanka Íslands hf. 25. janúar 2006 og nánar er gerð grein fyrir síðar, hafi borið að taka tilliti til fullnaðarkvittana vegna þeirra samningsvaxta sem stefnandi hafði þá greitt. Atvik málsins eru að meginstefnu ágreiningslaus og er ekki um það deilt að umrætt lán hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu.

Við munnlegan flutning málsins var því lýst yfir af hálfu lögmanns stefnanda að ef fallist væri á málsástæður hans um fullnaðarkvittanir væri því ekki mótmælt að tölulegar forsendur stefnda yrðu lagðar til grundvallar dæmdri fjárhæð. Er því ekki lengur um að ræða tölulegan ágreining aðila að því er máli skiptir fyrir úrlausn málsins. Að síðustu liggur fyrir að stefndi hefur tekið við réttindum og skyldum lánveitanda af Landsbanka Íslands hf. vegna umrædds láns, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, og er því réttilega stefnt til varnar.

A

Stefnandi gerði samning við Landsbanka Íslands hf. 25. janúar 2006 sem bar yfirskriftina „ISK 250.000.000,- Lánssamningur“. Í upphafi samningsins kom fram að um væri að ræða „fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 250.000.000,-" í japönskum jenum. Jafnframt kom fram að fjárhæð gjaldmiðilsins ákvarðist þó ekki fyrr en einum virkum bankadegi fyrir útborgunardag lánsins. Lánsnúmer samningsins var 0106-36-4395. Í ákvæði 2.1. í samningnum var kveðið á um að lánið skyldi greiðast að fullu á næstu 5 árum með 60 afborgunum á eins mánaðar fresti, þannig að á fyrstu 59 gjalddögunum, hverjum um sig, skyldu greiðast 1/180 hluti lánsupphæðarinnar og á lokagjalddaga 10. mars 2011 skyldu greiðast 121/180 hluti lánsupphæðarinnar. Fyrsti gjalddagi afborganna og vaxta var ákveðinn 10. apríl 2006. Þá var kveðið á um í ákvæði 3.1. að lánið skyldi bera vexti, sem skyldu vera breytilegir vextir jafnháir svonefndum LIBOR vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,8% vaxtaálags.

Stefnandi greiddi afborganir af láninu á hverjum gjalddaga í samræmi við greiðslutilkynningar frá stefnda. Fyrsti afborgunardagur var 10. apríl 2006 og greiddi stefnandi svo mánaðarlegar afborganir allt til 10. desember 2010, þegar lánið var greitt upp, eða samtals 59 afborganir á gjalddaga.

Samkvæmt stefnu var það í október 2010 sem stefnandi gekk að tilboði stefnda um að stefndi greiddi upp lánið gegn 25% afskrift, miðað við stöðu þess 1. apríl 2010.

Í málinu liggur fyrir bréf stefnda 11. janúar 2011 þar sem staðfest er að stefndi hafi samþykkt 25% höfuðstólslækkun á téðu láni stefnda, auk þriggja annarra lána. Kemur jafnframt fram að stefnanda verði veitt fjögur ný lán til uppgreiðslu eldri gengistryggðu lánanna. Samkvæmt gögnum málsins greiddi stefnandi umrætt lán upp 10. desember 2010 og nam uppgreiðsla lánsins 329.560.778 krónum. Mun greiðslan hafa verið fjármögnuð með nýju láni (lán nr. 0106-74-14813). Í yfirlýsingu stefnanda dagsettri 14. sama mánaðar kemur efnislega fram sá fyrirvari að ef í ljós komi að stefnandi hafi átt betri rétt til niðurfærslu á eftirstöðvum umræddra lána, beri stefnda að ráðstafa þeim mismun inn á höfuðstól hinna nýju lána. Var vísað til yfirlýsingar á heimasíðu stefnda þess efnis að þau fyrirtæki sem nýttu sér höfuðstólslækkun myndu ekki fyrirgera rétti sínum til leiðréttingar á lánum, ef dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að lán í erlendum myntum væru ólögmæt. Hinn 24. sama mánaðar sendi stefndi kvittun til stefnanda vegna uppgreiðslunnar og afskriftarinnar.

Í greinargerð stefnda kemur fram að í kjölfar dóms Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 (Motormax) hafi verið fallist á að umræddur lánsamningur hefði falið í sér ólögmæta gengistryggingu og var lánið því fyrst þá endurreiknað til samræmis við ákvæði laga nr. 151/2010, sbr. lög nr. 38/2001, og dóm Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. Við endurútreikninginn, sem dagsettur er 15. desember 2011, taldist stefnandi eiga inneign að fjárhæð 82.011.177 krónur sem ráðstafað var til greiðslu annarrar skuldbindingar stefnanda við stefnda, þ.á m. framangreinds láns nr. 0106-74-14813, og ekki er um deilt. Var þá miðað við að inneign stefnanda hefði borið útlánsvexti Seðlabanka Íslands frá uppgreiðsludegi lánsins 10. desember 2010 til endurútreikningsdags. Árið 2012 gerði stefnandi og Dalsnes ehf., móðurfélag stefnanda, með sér samning þar sem hið síðarnefnda félag lánaði stefnanda fé til að greiða upp lán nr. 0106-74-14813. Lánið var greitt upp þann 31.maí 2012 með millifærslu til stefnda frá reikningi Dalsnes ehf. að fjárhæð 239.837.238 krónur.

Í fréttatilkynningu stefnda 23. nóvember 2012 upplýsti stefndi að hann hefði hafið að nýju endurútreikning lána einstaklinga og lögaðila með eftirfarandi hætti: „Á næstu vikum og mánuðum mun Landsbankinn leiðrétta endurreikning allra gengistryggðra lána einstaklinga og lögaðila þar sem uppfyllt eru þau skilyrði sem finna má í dómum Hæstaréttar frá því í febrúar (mál nr. 600/2011) og október (mál nr. 464/2012) á þessu ári.“ Í málinu liggur einnig fyrir tölvubréf frá Ólafi M. Magnússyni, starfsmanni stefnanda, 13. desember 2013 þar sem fyrirspurn fyrirsvarsmanns stefnanda vegna nýs endurútreiknings er svarað á þá leið að unnið sé að nýjum endurútreikningum og vonir standi til að mál skýrist nk. janúar. Í tölvubréfi sama starfsmanns 10. febrúar 2013 kemur fram að „bankinn (eins og staðan er núna) sé búinn að taka út þetta hliðar skilyrði sem ég nefndi við ykkur þ.e. að ef krafan væri hærri en 1 x EBITDA þá væri reiknað óháð stærð“. Er vikið að þessum orðsendingum í lýsingu á málsástæðum og lagarökum stefnanda hér síðar.

Með bréfi 3. apríl 2014 tilkynnti stefndi stefnanda að stefndi hefði þegar endurreiknað umrætt lán félagsins og uppgjör farið fram. Var frekari endurútreikningi og leiðréttingu með vísan til fullnaðarkvittana hafnað. Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu lét stefnandi þá reikna út þá fjárhæð sem svaraði til þeirra vaxta sem hann hafði greitt til 10. desember 2010, og hann taldi sig eiga fullnaðarkvittanir fyrir, í því skyni að hafa uppi kröfu gegn stefnda fyrir dómi. Ekki er ástæða til að rekja samskipti aðila frekar eftir þetta tímamark.

Í stefnu kemur fram að auk þess láns sem hér um ræðir hafi stefnandi látið reikna út þrjú önnur lán. Telur stefnandi sig eiga kröfu samtals að fjárhæð 389.661.660 krónur vegna þessara lána.

Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu sem vitni Einar Kristján Jónsson, lögfræðingur hjá Landsbankanum hf.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að stefndi hafi viðurkennt rétt hans til að byggja á fullnaðarkvittunum vegna greiðslu samningsvaxta af áðurlýstu láni eða hafi skapað honum lögmætar væntingar á þá leið. Hann vísar til þess að stefndi hafi skapað honum væntingar um að lánið yrði endurreiknað að nýju eða viðurkennt þennan rétt, með vísan til viðmiða um fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu samningsvaxta, með tilkynningu á heimasíðu sinni 23. nóvember 2012. Þessar væntingar hafi einnig verið styrktar í tölvupóstsamskiptum við starfsmann stefnda. Við munnlegan flutning málsins vísaði stefnandi einnig til þess að stefndi hefði fallist á að stefndi gæti byggt rétt á fullnaðarkvittunum vegna tveggja nánar tilgreindra bílasamninga. Taldi hann í þessu felast beina viðurkenningu á því að stefnandi ætti að njóta fullnaðarkvittana vegna greiðslu vaxta af lánum sínum. Stefnandi vísar einnig til þess að svo virðist sem stefndi hafi fallist á að önnur fyrirtæki, í sambærilegri stöðu og stefnandi, gætu byggt rétt á fullnaðarkvittunum. Er í þessu efni vísað til einstakra dæma svo og skýrslu Einars Kristjáns Jónssonar fyrir dómi. Sé stefnda, sem sé fjármálastofnun í eigu ríkisins, óheimilt að mismuna stefnanda með því að hafna fullnaðarkvittunum í hans tilviki. Í þessu sambandi hefur stefnandi talið að stefndi fari gegn 4. tl. reglna Samkeppniseftirlitsins til viðskiptabanka í ríkiseigu, sbr. álit nr. 3/2008, 12. nóvember 2008, sem og gegn ákvæði 7. tl. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

                Í annan stað byggir stefnandi málatilbúnað sinn á því að fullnægt sé þeim skilyrðum, sem mótuð hafi verið í dómaframkvæmd, til þess að hann geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum. Stefnandi hafi þannig verið í góðri trú um að með vaxtagreiðslum til stefnda væri hann að efna að fullu skyldur sínar að þessu leyti. Þá nemi viðbótarkrafa stefnda vegna lánsins 71.4% af höfuðstól og sé því augljóslega um verulegt hlutfall af höfuðstól að ræða. Að því er varðar skilyrðið um að festa hafi verið í framkvæmd samningsins vísar stefnandi til þess að hann hafi greitt alls 59 afborganir og alltaf á gjalddaga. Að því er varðar stöðu aðila bendir stefnandi á að stefnandi hafi enga sérþekkingu á gengismálum og alls ekki þekkingu sem jafna megi við þekkingu fjármálafyrirtækis. Sjónarmiðum um að stefnandi hafi getað haft áhrif á samningsgerð er hafnað. Stefnandi telur stefnda einnig hafa viðurkennt aðstöðumun aðila í bréfi 12. júní 2014. Að því er varðar röskun á fjárhagslegri stöðu telur stefnandi að beita þurfi heildarmati. Hann vísar til þess að um sé að ræða fjögur lán þar sem viðbótarkrafa nemi samtals 456.068.383 krónum. Hér sé um að ræða verulega röskun á fjárhag og mun hærra hlutfall af veltu en í þeim málum sem lokið hafi með dómum Hæstaréttar.

                Stefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um, einkum til sjónarmiða um efndir og lok kröfuréttinda. Vísað er til vaxtalaga nr. 38/2001, með síðari breytingum, einkum með lögum 151/2010, en 72. gr. stjórnarskrárinnar um bann við afturvirkri skerðingu. Þá er vísað til meginreglu kröfuréttar um rétt til endurgreiðslu vegna þeirrar ofgreiðslu sem hafi verið greidd vegna lánssamnings.

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

                 Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefndi hafi með nokkrum hætti skuldbundið sig til að endurreikna frekar umrætt lán. Þvert á móti telur stefndi ljóst að í áðurlýstri fréttatilkynningu í nóvember 2012 hafi verið fyrirvarar sem lutu að því að stefndi hygðist á því tímamarki einungis hefja endurútreikning lánssamninga sem „uppfylltu skilyrði“ sem kveðið var á um í dómum Hæstaréttar. Sama eigi við um tölvubréfasamskipti aðila. Þá mótmælir stefndi því einnig að hann gæti ekki viðeigandi samræmis gagnvart viðskiptavinum að því er varðar endurútreikning lána. Að því er varðar tilvísun stefnanda til endurútreiknings stefnda á svonefndum bílalánum er þeirri málsástæðu mótmælt sem of seint fram kominni, en auk þess er vísað til þess að hér sé um að ræða lánasamninga allt annars eðlis en hér um ræðir. Að sama skapi er því alfarið hafnað að afstaða stefnda að þessu leyti fari á einhvern hátt gegn reglum Samkeppniseftirlitsins eða ákvæðum laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, en óljóst sé hvaða þýðingu framangreint hafi fyrir lögskipti aðila.

                Í annan stað hafnar stefndi því að fullnægt sé skilyrðum til þess að stefnandi geti haft uppi viðbótarkröfu á grundvelli fullnaðarkvittana. Í þessu sambandi leggur stefndi áherslu á það skilyrði að sú byrði hvíli á stefnanda að sanna að krafa stefnda sem leiddi af 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, hafi falið í sér umtalsvert óhagræði fyrir stefnanda, þ.á m. með tilliti til stöðu hans, starfsemi og fjárhags. Bendir stefndi á að í þessu efni verði meðal annars að líta til þess að höfuðstóll lánsins lækkaði verulega, hvort tveggja við 25% niðurfærslu höfuðstóls og við endurútreikning sem átti sér stað 15. desember 2011. Stefndi bendir einnig á að stefnandi sé umsvifamikið rekstrarfélag, einkum á sviði innflutnings og viðskipta almennt, og verði ekki jafnað til lítils fyrirtækis eða fámenns sveitarfélags. Vísar stefndi til fyrirliggjandi gagna málsins um rekstrartekjur stefnanda. Þá sé stefnandi hluti stórrar fyrirtækjasamsteypu og hljóti að hafa verið í stöðu til að hafa áhrif á einstök atriði í skilmálum lánssamningsins.

Einnig sé til þess að líta að fjárhæð viðbótarkröfu geti ekki talist umtalsverð, með tilliti til atvika allra og aðstæðna. Telur stefndi að í þessu efni eigi að líta til verðlagsþróunar þannig að höfuðstóll sé verðbættur áður en hlutfall viðbótarkröfu af höfuðstól sé metið. Eins sé ljóst að fjárhæð viðbótarkröfu geti ekki talist veruleg ef hún er miðuð við fjárhagslega stöðu stefnanda eða samstæðu stefnanda. Stefnanda hafi, með tilliti til stærðar og umfangs, og sérfræðiþekkingar á alþjóðlegum viðskiptum, vart getað dulist samhengi milli mynttilgreiningar og vaxtaviðmiðunar og því ekki talist í góðri trú. Einnig er á það bent að öll lán, einnig það sem tekið var til uppgreiðslu þess láns sem hér um ræðir, hafi verið greidd upp. Stefndi hefur ekki talið að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti en telur allar athafnir og athafnaleysi stefnanda við framkvæmd og uppgjör lánsins benda til þess að hann hafi ekki orðið fyrir verulegri röskun vegna endurútreiknings stefnda á vöxtum.

Niðurstaða

                Að mati dómsins gat hvorki fréttatilkynning stefnda 23. nóvember 2012 né þau bréf eða yfirlýsingar starfsmanna, sem lagðar hafa verið fram í málinu, skapað stefnanda réttmætar væntingar um að viðurkenndur yrði ríkari réttur hans, vegna fullnaðarkvittana fyrir greiðslu samningsvaxta áðurgreinds láns, en leiddi af lögum á hverjum tíma. Verður því hafnað málsástæðum stefnanda um að stefndi hafi með þessu skuldbundið sig til að fallast á fullnaðarkvittanir stefnanda.

A

Þá kröfu verður að gera til stefnda sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki að hann komi sér upp faglegu og samræmdu verklagi í samskiptum við viðskiptamenn sína og meðferð hagsmuna þeirra. Jafnframt er ljóst að verklag stefnda eða raunveruleg framkvæmd í samskiptum við viðskiptamenn getur, undir vissum kringumstæðum, skapað réttmætar væntingar viðskiptamanna til ákveðinnar meðferðar af hans hálfu. Gildir þá einu þótt stefndi sé í þessu efni ekki bundinn af formlegri jafnræðisreglu, sbr. til hliðsjónar álit Samkeppniseftirlitsins 12. nóvember 2008 nr. 3/2008 sem stefnandi hefur vísað til. Verður og að skilja málatilbúnað stefnanda þannig að hann telji stefnda hafa skapað væntingar um að tekið yrði tillit til fullnaðarkvittana, vegna greiðslu þeirra samningsvaxta sem áður greinir, með því að fallast á slíkt í málum annarra fyrirtækja í sambærilegri stöðu, svo og með því að fallast á fullnaðarkvittanir vegna greiðslu vaxta af svokölluðum bílalánum, sem áður greinir.

                Í málinu verður að horfa til þess að einu settu reglurnar, sem gilda um endurútreikning gengistryggðra lána er að finna í lögum nr. 151/2010 sem breyttu lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Gera þau lög, sem ætlað var að skýra og festa í lög þau viðmið sem fram komu í dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010, ekki sérstaklega ráð fyrir því að skuldari geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum vegna greiddra samningsvaxta af láni sem bundið var ólögmætri gengistryggingu. Þvert á móti verður gagnályktað af lögunum að skuldarar eigi ekki slíkan rétt.

Samkvæmt ítrekuðum fordæmum Hæstaréttar var 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins því til fyrirstöðu að með téðum lögum væru menn með íþyngjandi og afturvirkum hætti sviptir möguleikum til að byggja rétt á fullnaðarkvittunum, eins og sá réttur leiddi af almennum reglum fjármunaréttar, sbr. einkum dóm Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011. Í framkvæmd hefur raunar einnig verið fallist á að skuldarar geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum vegna greiðslna sem fram fóru eftir gildistöku laga nr. 151/2010 hinn 22. desember 2010, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 464/2012, þó án þess að fram hafi komið sérstakur rökstuðningur um þetta atriði. Hvað sem þessu líður er ljóst að réttur skuldara til að byggja á fullnaðarkvittunum vegna greiðslu vaxta hefur fyrst og fremst grundvallast á túlkun dómstóla á þeim ólögfestu viðmiðum sem miða ber við þegar tekin er afstaða til þess hvort víkja beri frá meginreglunni um fullar efndir samningsskuldbindinga með vísan til fullnaðarkvittana. Þegar höfð er hliðsjón af matskenndu eðli þessara viðmiða, meðal annars áherslu dómstóla á nauðsyn heildarmats í hverju og einu tilviki, er ljóst að engan veginn hefur legið fyrir með ótvíræðum hætti hvenær réttur til að byggja á fullnaðarkvittunum væri fyrir hendi í tilfelli einstaks skuldara eða tiltekins láns.

Að virtu því lagaumhverfi sem nú hefur verið lýst verður ekki á það fallist að stefnda hafi borið skylda til þess að falla frá einstaklingsbundnu mati í tilviki hvers og eins fyrirtækis, líkt og dómaframkvæmd gerir ráð fyrir, og miða þess í stað við ákveðnar kennitölur fyrirtækis, svo sem veltu, starfsmannafjölda og fjárhæð láns. Þá er það alkunna að fjármálafyrirtæki kunna að semja við viðskiptavini um tímabundna stöðvun greiðslna, lækkun eða jafnvel niðurfellingu lána með sameiginlega hagsmuni að leiðarljósi. Leiðir einnig af þessu að ákvarðanir stefnda um lánamál tiltekinna fyrirtækja gátu aðeins skapað stefnanda mjög takmarkaðar væntingar.

                Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki á það fallist að stefndi hafi með ákvörðunum sínum um lán annarra fyrirtækja, sem vísað hefur verið til í málinu, eða með framkvæmd sinni við uppgjör gengistryggðra lána, skapað stefnanda slíkar væntingar að hann eigi ríkari rétt á því að byggja á fullnaðarkvittunum en leiðir af lögum. Með sama hætti verður ekki á það fallist að jafnræðisrök, að því marki sem þau eiga við, eigi að leiða til þessarar niðurstöðu.

Sá samningur um er að ræða í máli þessu nam 250 milljónum króna. Verður honum ekki jafnað til þeirra staðlaðra samninga um bílalán sem lúta að mun lægri fjárhæðum, sbr. þá samninga sem um var deilt í því máli sem lyktaði með dómi Hæstaréttar 6. nóvember 2014 í máli nr. 110/2014. Hefur það því ekki þýðingu um niðurstöðu málsins þótt fyrir liggi að stefndi hafi ákveðið að fallast á fullnaðarkvittanir vegna slíkra samninga, bæði almennt og í tilviki stefnanda.

B

Dómurinn telur fram komið að hlutfall viðbótarkröfu stefnda vegna afturvirks útreiknings vaxta samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 hafi í sjálfu sér verið umtalsvert hvort sem litið er til höfuðstóls lánanna, heildarvaxtagreiðslna eða einungis þeirra fjárhæða sem hér var um að ræða. Þá verður ekki á það fallist með stefnda að um hafi verið að ræða svo fáar greiðslur eða lítið hlutfall afborgana að ekki hafi myndast nægileg festa í lögskiptum aðila að þessu leyti. Sömuleiðis verður ekki talið að sú staðreynd að vaxtagreiðslur höfðu átt sér stað um nokkuð langt skeið mæli gegn því að stefnandi geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum.

Í málinu er hins vegar til þess að líta að árið 2011, þegar endurútreikningur fór fram, námu rekstrartekjur stefnanda tæpum fjórum og hálfum milljarði króna og eignir rúmlega 1,7 milljarði króna. Er af þessu, svo og öðrum gögnum málsins, ljóst að stefnandi er stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða og gildir þá einu þótt ekki sé litið til móðurfélags stefnanda. Einnig verður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi í krafti fjárhagslegs styrkleika síns verið í góðri aðstöðu til að leggja mat á kosti og galla þess að taka lán sem fylgdi gengi erlendra gjaldmiðla. Þá verður að horfa til þess að endurútreikningur stefnda leiddi ekki til þess að stefnandi væri skyndilega krafinn um auknar greiðslur heldur var þvert á móti um það að ræða að höfuðstóll lána væri færður niður á grundvelli endurútreiknings stefnanda. Er og ekki komið fram í málinu að greiðslubyrði stefnanda hafi aukist í framhaldi af endurútreikningi stefnda.

Að virtum framangreindum atriðum þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að áskilnaður stefnda um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 til samræmis við ákvæði laga nr. 151/2010 hafi valdið honum svo verulegri og óvæntri röskun á fjárhagslegri stöðu að það standi stefnda nær að bera áhættuna af þeim vaxtamun sem áður er lýst, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 15. október 2015 í málum nr. 34 og 35/2015. Eru því ekki uppfyllt skilyrði til að víkja frá téðum fyrirmælum laga nr. 38/2001 viðvíkjandi endurútreikningi gengistryggðra lána með vísan til fyrrgreindra ákvæða 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og áðurlýstrar reglu fjármunaréttar um fullnaðarkvittanir. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda.

                Með hliðsjón af vafaatriðum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Árni Helgason hdl.

Af hálfu stefnda flutti máli Andri Árnason hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Innes ehf.

                Málskostnaður fellur niður.