Hæstiréttur íslands

Mál nr. 640/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 28. september 2015.

Nr. 640/2015.

Lögreglustjórinn á Austurlandi

(Helgi Jensson fulltrúi)

gegn

X

(Stefán Þór Eyjólfsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. september 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. október 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að hún verði einungis látin sæta farbanni, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og henni ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. september 2015.

                Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, fæddri [...], [...] ríkisborgara, hér eftir nefnd kærða, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í fjórar vikur, frá miðvikudeginum 23. september kl. 16:00 til miðvikudagsins 21. október kl. 16:00, eða þar til dómur gengur í máli hennar, sem er nr. 317-2015-[...], en ákæra verður gefin út í því eins fljótt og mögulegt verður. Þess er jafnframt krafist að kærða verði úrskurðuð til að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.

                Kröfuna byggir lögreglustjóri á a. og b. liðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en til vara á 2. mgr. 95. gr. sömu laga.

                Kærða mótmælir kröfunni. Hún krefst aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að farbanni verði beitt. Til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og kröfu um einangrun hafnað.

                Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærða sé grunuð um mjög stórfelldan innflutning á fíkniefnum, sem teljist varða við 173. gr. a., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa þriðjudaginn 8. september sl., flutt til landsins mjög mikið magn af MDMA, falið í bifreiðinni [...], sem hafi komið til [...] með [...].

Kl. 9:00 þann 8. september sl. hafi [...] komið til hafnar á [...]. Kl. 10:00 hafi bifreiðin [...], tegund [...] komið akandi frá borði. Hafi bifreiðin farið á grænt tollhlið. [...], fæddur [...], sem einnig er kærður í þessu máli, hafi ekið bifreiðinni en kærða X hafi setið í farþegasæti frammí. Tollgæslan hafi ákveðið að taka bifreiðina og kærðu í úrtaksleit. Við leit í bifreiðinni hafi fundist gríðarlegt magn af MDMA eða Extacy, falið í varadekki, tveimur gaskútum og í 14 niðursuðudósum, sem hafi verið í bifreiðinni. Eins og áður segir hafi kærði [...] játað að hafa vitað um tilvist fíkniefnanna, en eiginkona hans, kærða X, hafi neitað að hafa vitað um efnin. [...] staðhæfi að X hafi ekki vitað um tilvist efnanna. Þegar grunur hafi vaknað um að í bifreiðinni kynnu að vera fíkniefni, hafi kærða X verið handtekin sama dag kl. 13:25 en kærði [...] hafi verið handtekinn kl. 13:30 og nákvæmari leit farið fram í bifreiðinni. Um sé að ræða rökstuddan grun um stórfellt fíkniefnabrot, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi og sé kærða eldri en 15 ára.

Aðallega sé því byggt að a. eða b. liður 1. mgr. 95. gr. eigi við, þ.e. að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins ef honum verði sleppt úr haldi, þ.e. rannsóknarhagsmunir lögreglu, en miklu máli skipti fyrir lögregluna að reyna að finna upplýsingar um þá aðila sem tengjast málinu, bæði á Íslandi og erlendis og eins að ætla megi að kærða muni reyna að komast úr landi, enda um erlendan ríkisborgara að ræða. Til vara sé byggt á því að 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 eigi við, þ.e. að um sé að ræða sterkan grun um að kærða hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt m.t.t. almannahagsmuna. Ákæruvaldið telji að vegna hins mikla magns af fíkniefnum krefjist almannahagsmunir þess að kærða verði vistuð í varðhaldi. Gerð sé krafa um einangrun kærðu í varðhaldi í samræmi við  b. lið 1. mgr. 99. gr. laga 88/2008, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Krafa þessi er sett fram vegna rannsóknarhagsmuna til að kærða geti ekki spillt fyrir rannsókn málsins.

Krafa um að gæsluvarðhald verði úrskurðað í fjórar vikur til viðbótar byggir á því að í málinu sé farin af stað talsvert viðamikil rannsókn, sem teygi sig til annarra landa, sem óhjákvæmilega taki tíma og telji lögreglan að ekki veiti af fjórar vikum til viðbótar, til þess að ljúka þeim rannsóknaraðgerðum sem nauðsynlega þurfi að framkvæma. Einnig krefjist sjónarmið um almannahagsmuni þess að gæsluvarðhaldi verði afmarkaður langur tími, þ.e. sjónarmið um að nauðsynlegt sé að hafa menn sem grunaðir eru um svo stórfelld og alvarleg brot í varðhaldi þar til dómur gangi í máli þeirra.

Kærða hafi verið úrskurðuð til að sæta gæsluvarðhaldi í tvær vikur með úrskurði Héraðsdóms Austurlands sem kveðinn hafi verið upp 9. september sl. Í framhaldi af því hafi kærða verið vistuð í fangelsinu á Litla-Hrauni. Krafa um framlengingu gæsluvarðhalds sé nú lögð fyrir Héraðsdóm Reykjaness með heimild í 49. gr. sakamálalaganna nr. 88/2008, til hagræðis og flýtis, svo ekki þurfi að flytja kærðu austur til Egilsstaða til að koma fyrir dóm.

                Samkvæmt því sem rakið hefur verið og rannsóknargögnum málsins er kærða, sem er erlendur ríkisborgari, undir rökstuddum grun um að hafa framið stórfellt fíkniefnabrot sem varðað getur við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Liggur fangelsisrefsing við slíku broti ef sök sannast. Þykir lögregla hafa sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði laga til að kærða sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn á máli hennar er ekki lokið, enda má ætla að kærða muni torvelda rannsókn málsins svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Er skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt til þess að kærðu verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, en rétt þykir marka gæsluvarðhaldinu þann tíma sem greinir í úrskurðarorði. Þá er fallist á að kærða sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Kærða, X, fædd [...], [...] ríkisborgari, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. október 2015, kl. 16.00 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.