Hæstiréttur íslands
Mál nr. 532/2008
Lykilorð
- Landamerki
|
|
Fimmtudaginn 11. júní 2009. |
|
Nr. 532/2008. |
Herbert Jón Hjörleifsson(Gísli M. Auðbergsson hdl.) gegn Djúpavogshreppi (Bjarni G. Björgvinsson hdl.) |
Landamerki.
H átti jörðina T, en sveitarfélagið D hafði til umráða jörðina B við hliðina á T. Ágreiningur reis með H og D um landamerki jarðanna. Hófst H handa við að reisa girðingu við þau landamerki sem hann taldi vera rétt. D fékk þá lagt lögbann við framkvæmdum H og krafðist staðfestingar á því fyrir dómi auk viðurkenningar á því hvernig landamerki jarðanna lægju. Bar landamerkjabréfum ekki saman um merki á milli jarðanna. Talið var að ekki yrði fram hjá því horft að landamerkjabréf B væri yngra og því þinglýst síðar en landamerkjalýsingu T. Yrði því að ætla að í því hafi falist endanlega niðurstaða um landamerkin. Með vísan til þess og framburðar vitna þótti í ljós leitt hvernig landamerkin lægju. Ekki var fallist á að H gæti byggt á því að um áratugaskeið hafi verið girðing eftir markalínu hans, en hún hafi legið niðri í um 40 ár áður en hann eignaðist jörðina. Þá var heldur ekki fallist á að takmörkuð not hans af landinu nú uppfylltu skilyrði eignarhefðar. Var því fallist á kröfu D um landamerki á milli jarðanna. Samkvæmt þeim úrslitum var staðfest lögbann sem lagt var við framkvæmdum H við lagningu girðingar í landi B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. september 2008. Hann krefst þess að dæmt verði að landamerki jarðanna Teigarhorns og Búlandsness í Djúpavogshreppi séu frá hnitpunkti við ós Eyfreyjuneslækjar eða Merkilækjar N 64°40.351 og V 14°20.161 í hnitpunkt ofar í læknum N 64°40.292 og V 14°20.187, þaðan í hnitpunkt N 64°40.210 og V 14°20.294 þar sem vatnsveituæð liggur yfir lækinn, þaðan í hnitpunkt ofar í læknum N 64°40.139 og V 14°20.295, þaðan í hnitpunkt í vörðu í Hálsamótum N 64°39.927 og V 14°20.261, þaðan í hnitpunkt í vörðu á Hálsabrún N 64°39.961 og V 14°20.527 og þaðan í vörðu ofan Nauthúsabotna N 64°40.030 og V 14°20.911. Jafnframt krefst hann sýknu af kröfu stefnda um staðfestingu lögbanns, sem sýslumaðurinn á Eskifirði lagði 22. nóvember 2007 við því að áfrýjandi reisti girðingu og stæði að öðrum framkvæmdum á nánar tilgreindu landsvæði. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í forsendum hins áfrýjaða dóms er meðal annars vísað til skýrslu, sem vitnið Ingimar Sveinsson gaf við aðalmeðferð málsins í héraði, og haft eftir honum að í hans ungdæmi hafi verið rætt um að landamerki milli jarðar áfrýjanda, Teigarhorns, og stefnda, Búlandsness, væru ekki í Eyfreyjuneslæk, heldur „100 til 150 metrum utar, þ.e. suðaustar.“ Samkvæmt endurriti af framburði vitnisins sagði það fyrir dómi að talað hafi verið um að merkin væru ekki í læknum, heldur „svona 100 til 150 metrar vestar“, og er sú frásögn í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms, sem meðal annars var studd við þennan vitnisburð. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, sem rétt er að aðilarnir beri hvor fyrir sitt leyti í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 27. júní 2008.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. júní sl., er höfðað með réttarstefnu útgefinni 28. nóvember 2007, sem þingfest var 4. desember sama ár, og með gagnstefnu útgefinni 4. janúar 2008, sem lögð var fram í dómi 5. febrúar sama ár.
Aðalstefnandi og gagnstefndi er Djúpavogshreppur, kt. 570992-2799, Bakka 1, Djúpavogi.
Aðalstefndi og gagnstefnandi er Herbert Jón Hjörleifsson, kt. 111064-5989, Teigarhorni, Djúpavogshreppi.
Dómkröfur aðalstefnanda eru í fyrsta lagi þær að staðfest verði á grundvelli 36. gr. laga nr. 31/1990 lögbann það er sýslumaðurinn á Eskifirði lagði með lögbannsgerð hinn 22. nóvember sl. við því að stefndi héldi áfram girðingarframkvæmdum eða nokkrum öðrum framkvæmdum á þrætulandi á mörkum jarðanna Búlandsness og Teigarhorns í Geithellnahreppi.
Í öðru lagi krefst aðalstefnandi þess á grundvelli 37. gr. laga nr. 31/1990 að staðfest verði með dómi að landamerki jarðanna Búlandsness og Teigarhorns í Geithellnahreppi á svokölluðum Hálsamótum verði ofan frá svokölluðum Hálsamótum um Hálsamótalæk (Kápugilslæk) og um landamerkjavörður í beina línu til sjávar skammt utan við Prófastsgötu, eins og landamerkjum er lýst í landamerkjaskrá Búlandsness og Hálskirkjulands og Teigarhorns frá 8. janúar 1884.
Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Pacta að viðbættum virðisaukaskatti og að meðtöldum kostnaði við lögbannsgerð hinn 22. nóvember 2007, sem og eftirfarandi kostnaði vegna gerðarinnar, þ. á m. þinglýsingarkostnaði.
Aðalstefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í aðalsök og að aðalstefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati réttarins.
Dómkröfur gagnstefnanda eru eftirfarandi:
Í fyrsta lagi að dæmt verði að landamerki jarðanna Teigarhorns og Búlandsness séu sem hér segir: Frá hnitpunkti við ós Eyfreyjuneslækjar/Merkilækjar N 64°40.351 og V 14°20.161, og þaðan í hnitpunkt ofar í læknum N 64°40.292 og V 14°20.187, þaðan í hnitpunkt þar sem vatnsveituæð sker lækinn N 64°40.210 og V 14°20.294, þaðan í hnitpunkt ofar í læknum N 64°40.139 og V 14°20.295, þaðan í hnitpunkt í vörðu í Hálsamótum N 64°39.927 og V 14°20.261, þaðan í hnitpunkt í vörðu á Hálsabrún N 64°39.961 og V 14°20.527 og þaðan í vörðu ofan Nauthúsabotna N 64°40.030 og V 14°20.911.
Í öðru lagi að hrundið verði lögbanni því sem sýslumaðurinn á Eskifirði lagði þann 22. nóvember 2007 við frekari framkvæmdum aðalstefnda við lagningu girðingar uppi á svokölluðum Hálsamótum í landi jarðarinnar Búlandsness, sem og öllum öðrum framkvæmdum aðalstefnda á landi aðalstefnanda austan við Kápugilslæk (áður Merkilæk) og frá Kápugilsbrún í beina línu um vörður fram að sjó við svokallaða Prófastsgötu.
Þá krefst gagnstefnandi þess að gagnstefnda verð dæmt til að greiða gagnstefnanda málskostnað að mati réttarins.
Dómkröfur gagnstefnda eru eftirfarandi:
Gagnstefndi krefst sýknu af kröfum gagnstefnanda í máli þessu með vísan til stefnukrafna í aðalsök.
Gagnstefndi ítrekar kröfu í aðalsök um að lögbann það, sem sýslumaðurinn á Eskifirði lagði þann 22. nóvember 2007 við nánar tilgreindum athöfnum gagnstefnanda á þrætuspildu á landamerkjum jarðanna Búlandsness og Teigarhorns, verði staðfest.
Þá verði gagnstefnanda gert að greiða gagnstefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi ásamt virðisaukaskatti á málskostnað.
Dómari gekk á vettvang ásamt Andrési Skúlasyni, fyrirsvarsmanni aðalstefnanda, aðalstefnda og lögmönnum þeirra. Einnig voru með í för Eyjólfur Guðjónsson, ábúandi í Framnesi, og Helena Hanna Hilmarsdóttir, móðir aðalstefnda.
Aðalmeðferð málsins fór fram þriðjudaginn 27. maí sl. Málið var endurupptekið fimmtudaginn 26. júní sl. til framlagningar frekari gagna og það dómtekið að nýju þann sama dag eftir að lögmönnum málsaðila hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um málið á ný með hliðsjón af framlögðum gögnum.
II.
Málavextir.
Samkvæmt þinglýsingarvottorði er jörðin Búlandsnes kristfjárjörð og hefur eignarheimild að henni ekki verið þinglýst. Þá hefur jörðin ekki sérstakt landnúmer í skrá Fasteignamats ríkisins. Óumdeilt er hins vegar að jörðin er í umráðum aðalstefnanda. Hið upphaflega gjafabréf vegna jarðarinnar mun vera glatað, en að sögn aðalstefnanda er hennar fyrst getið í minnisgrein Gizurar biskups frá 1541 og Gíslamáldaga (Fornbréfasafn XV bls. 708). Aðalstefnandi kveður jörðina hafa verið í eigu/umsjón sveitarfélagsins allar götur síðan og þess sé reyndar getið að hún hafi verið kristfjárjörð allt frá tíma Ögmundar biskups. Jörðin tilheyrði áður Geithellnahreppi hinum forna en með sameiningu Berunes-, Búlands- og Geithellnahrepps árið 1992 var stofnað sveitarfélagið Djúpavogshreppur sem báðar jarðirnar, Búlandsnes og Teigarhorn, tilheyra nú.
Innan jarðarinnar Búlandsness var á síðastliðinni öld stofnað nýbýlið Framnes, sem ekki hefur sérstök landamerki önnur en afmörkuð tún, en hefur heimild til nytja á landi Búlandsness að óskiptu. Framnes er hluti jarðarinnar Búlandsness, leigt til ábúðar bóndanum að Framnesi og kveður aðalstefnandi hann því ekki aðila að máli þessu. Tilgreining hans sem eiganda jarðarinnar á þinglýsingarvottorði sýslumannsins á Eskifirði, dags. 11. nóvember 2007, sé röng.
Aðalstefndi er einn eigandi jarðarinnar Teigarhorns í Djúpavogshreppi samkvæmt þinglýstri skiptayfirlýsingu frá 17. október 1997. Í gagnstefnu kemur fram að landnámsjörð landnámsmannsins Þjóðreks, sem setið hafi á Skála á norðurströnd Berufjarðar, hafi samkvæmt Landnámabók náð yfir alla nyrðri strönd Berufjarðar, suður um Búlandsnes og að Rauðuskriðum í Hamarsfirði. Í Jarðatali J. Johnsens frá 1847 og í Jarðabók fyrir Ísland frá 1861, en ljósrit úr þessum ritum hafa verið lögð fram í málinu, má sjá að Búlandsnes er orðin sjálfstæð jörð. Þar kemur einnig fram kirkjujörðin Háls og að ein af hjáleigum frá Hálsi sé Teigarhorn. Teigarhorn verður fyrst sjálfstæð jörð árið 1876 þegar Níels P.E. Weyvadt kaupir hana, sbr. dskj. 3.2.1.
Í gagnstefnu kemur fram að aðalstefndi hafi búið á Teigarhorni að mestu leyti öll sín fullorðinsár. Næsti eigandi og ábúandi á undan honum hafi verið Kristján Jónsson, ömmubróðir aðalstefnda. Þar áður hafi foreldrar Kristjáns, Jón Kr. Lúðvíksson og Hansína Björnsdóttir, búið þar. Á undan þeim hafi móðursystir Hansínu, Nikolína Weyvadt, búið á Teigarhorni og á undan henni foreldrar hennar Níels P. E. Weyvadt og Sophie Weyvadt.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dagsettu 4. október 2007, boðaði fulltrúi sýslumannsins á Eskifirði til fundar með málsaðilum þann 17. október sl. á grundvelli ákvæða 3. mgr. 6. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919, í þeim tilgangi að leita sátta með þeim um landamerki á milli jarðanna. Fram kemur í bréfi sýslumanns að honum hafi borist bréf frá lögmanni aðalstefnda þar sem fram hafi komið að hugsanlega væri uppi ágreiningur um landamerkin. Á fundinum, sem frestaðist um nokkra daga frá boðuðum fundartíma og var haldinn þann 23. október, lögðu málsaðilar fram gögn til stuðnings skilningi sínum á landamerkjabréfum jarðanna. Á fundinum var staðfest að ágreiningur væri uppi um landamerkin og að aðilar næðu ekki samkomulagi um þau.
Í stefnu segir að aðalstefndi hafi ekkert samband haft við aðalstefnanda vegna málsins eftir fundinn með fulltrúa sýslumanns, en hafi í kjölfar hans hafist handa við að reisa girðingu inni á landi aðalstefnanda uppi á svokölluðum Hálsamótum, þrátt fyrir vitneskju sína um ágreining um landamerkin og niðurstöðu sáttafundarins. Aðalstefnandi hafi því lagt fram lögbannsbeiðni hjá sýslumanninum á Eskifirði og hafi hún verið tekin fyrir þann 22. nóvember sl. Við upphaf lögbannsgerðar hafi fulltrúi sýslumanns leitað sátta með aðilum og hafi aðalstefnandi lýst sig reiðubúinn til þess að falla frá lögbannsbeiðninni án frekari kostnaðar gegn því að aðalstefndi léti af öllum framkvæmdum á þrætulandinu þar til niðurstaða um landamerkin yrði fengin í landamerkjamáli. Aðalstefndi hafi hafnað þessu sáttaboði og hafi fulltrúi sýslumanns fallist á kröfu aðalstefnanda um að lögbann yrði lagt við frekari framkvæmdum af hans hálfu á þrætulandinu.
Í gagnstefnu segir að eigendur Teigarhorns hafi um langan tíma nýtt þrætuspilduna, og haft hana afgirta a.m.k. frá því um 1930. Þar hafi lengi verið kartöflugarður Teigarhornsmanna, auk þess sem þar hafi verið beitt kúm og sauðfé verið látið bera í tíð Jóns. Einnig hafi verið sett upp upplýsingaskilti um náttúru svæðisins. Nú síðast hafi aðalstefndi gert samning við Austurlandsskóga um nytjaskógrækt á svæðinu, og hafi hann síðastliðið sumar hafist handa við að setja upp girðingar í samræmi við þann samning.
Landamerkjum jarðarinnar Teigarhorns gagnvart Búlandsnesi er lýst svo í landamerkjabréfi jarðarinnar:
... þá beina stefnu í vörðu uppaf Nauthúsabotnum, frá henni beina stefnu í vörðu fast út undir Hálsamótum, þar sem klettarnir falla þver hnýtt ofaní Merkilækjargil, þaðan beina stefnu í vörðu sem hlaðin var fyrir innan Merkilæk, úr því ræður Merkilækur þartil hann rjett fyrir innan Eyfreyjarnes fellur útí Berufjörð.
Landamerkjabréfið, sem dagsett er 30. júní 1877 og þinglýst 30. júní 1883, er áritað og samþykkt af hálfu Teigarhorns og jarðanna Urðarteigs, Háls og Búlandsness.
Landamerkjum jarðarinnar Búlandsness gagnvart Teigarhorni er lýst svo í landamerkjabréfi jarðarinnar:
Landamörk norðan Búlandsneshálsa og um Hálsana millum Teigarhorns eru: svokölluð hálsamót og Hálsamótalækur frá uppsprettu norðan í Hálsamótum og beina leið til sjávar eptir hlöðnum landamerkjavörðum. Í lok landamerkjalýsingarinnar segir: Framanskrifuð mörk eru staðfest af Helga biskupi og hafa verið brúkuð og haldin rétt frá ómunatíð og fram á þennan dag.
Landamerkjabréfið, sem dagsett er 8. janúar 1884 og þinglýst 23. júní 1884, er áritað og samþykkt af hálfu Búlandsness og jarðanna Háls og Teigarhorns.
Í stefnu segir að Helgi biskup, sem getið er í landamerkjabréfi Búlandsness, sé Helgi biskup Thordersen, fæddur 7. apríl 1794, er verið hafi biskup yfir Íslandi 18461866.
Í máli þessu er um að deilt hvar landamerki jarðanna Búlandsness og Teigarhorns liggja frá sjó í Eyfreyjunesvík og upp á svokölluð Hálsamót. Heldur aðalstefnandi því fram að þau séu frá punkti í Kápugilslæk, áður Hálsamótalæk, að Kápugilsbrún og þaðan í beina línu eftir hlöðnum vörðum til sjávar utanvert við Prófastsgötu. Aðalstefndi heldur því hins vegar fram að þau séu um svokallaðan Eyfreyjuneslæk frá sjó að Hálsamótavörðu, þaðan í Hálsabrúnavörðu og úr henni beina stefnu í Nauthúsabotnavörðu. Þá er um það deilt í málinu hvar staðsetja eigi kennileitin Hálsamót, Hálsamótalæk, Merkilæk og Merkilækjargil.
III.
Málsástæður
Málsástæður aðalstefnanda.
Að því er varðar kröfu um staðfestingu lögbanns kveðst aðalstefnandi telja að skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 hafi verið fyrir hendi til að leggja lögbann við byrjuðum og yfirvofandi athöfnum aðalstefnda á hinu umþrætta landi. Hafi það enda verið niðurstaða sýslumannsins á Eskifirði, sem með úrskurði sínum hinn 22. nóvember sl. hafi lagt lögbann við tilgreindum athöfnum aðalstefnda. Sýslumaður hafi og hafnað kröfu aðalstefnda um að aðalstefnandi legði fram tryggingu vegna gerðarinnar. Þá sé þess að geta að aðalstefndi hafi hafið framkvæmdir sínar á landinu í framhaldi af sáttafundi aðila með fulltrúa sýslumanns þrátt fyrir að vera um það kunnugt að ágreininginn yrði að leysa í landamerkjamáli. Þess utan hafi hann hafnað sáttaboði við upphaf lögbannsgerðar um að láta frekari framkvæmdir bíða þar til niðurstaða fengist í landamerkjamáli. Þá hafi aðalstefndi ekki enn lagt fram nein haldbær rök eða gögn skoðun sinni til stuðnings. Af þessum sökum sé krafist staðfestingar á gerðinni skv. VI. kafla laga nr. 31/1990, enda í stefnu þessari jafnframt krafist úrlausnar um hin umþrættu landamerki, sbr. 37. gr.
Að því er varðar kröfu um landamerki bendir aðalstefnandi á að hann hafi lagt fram ítarleg gögn til stuðnings dómkröfum sínum. Þar beri fyrst að telja landamerkjabréf Teigarhorns og Búlandsness. Landamerkjalýsingum í bréfunum beri hins vegar ekki saman að því er varði landamerki jarðanna frá Eyfreyjunesvík við Berufjörð og upp til svokallaðra Hálsamóta. Í landamerkjabréfi Teigarhorns sé Merkilækur sagður skipta löndum frá sjó og sagt að hann falli í sjó rétt fyrir innan Eyfreyjunes. Í landamerkjabréfi Búlandsness, sem sé yngra en landamerkjabréf Teigarhorns, segi hins vegar að línan liggi frá upptökum Hálsamótalækjar og beina leið til sjávar eftir landamerkjavörðum. Aðalstefnandi kveðst telja að þessi mörk séu landamerki jarðanna. Sé það staðfest af Eyjólfi Guðjónssyni, ábúanda á Framnesi, sem búið hafi þar allan sinn aldur og átt margvísleg samskipti við eigendur og ábúendur að Teigarhorni. Í skjali Örnefnastofnunar varðandi jörðina Teigarhorn, sem skráð sé af Kristjáni Jónssyni, fyrrum bónda að Teigarhorni, vitni hann fyrst í ódagsett landamerkjabréf er hann hafi undir höndum, ritað af N.P.E. Weyvadt, fyrrum ábúanda og eiganda Teigarhorns, þar sem fram komi að landamerkin við Búlandsnes liggi úr Eyfreyjunesvík rétt við Prófastsgötu í Hálsamótalæk og þaðan í vörðu á Hálsabrún. Við Háls, úr vörðu á Hálsabrún í vörðu út og upp af Dvergasteini. Á bls. 2 í skjalinu segi Kristján Jónsson ennfremur: Kápugilslækur (124) (áður Hálsamótalækur (125)) fellur um Kápugil í Eyfreyjuneslæk. Í auglýsingu um friðlýsingu Teigarhorns við Berufjörð frá árinu 1975 falli og austurmörk friðlýsingarsvæðisins saman við landamerkin við Prófastsgötu.
Aðalstefnandi bendir á að landamerkjalýsingu Teigarhorns frá 30. júní 1877 hafi ekki verið þinglýst fyrr en hinn 30. júní 1883 eða sex árum eftir gerð hennar. Aðalstefnandi kveðst telja að þegar landamerkjabréf Teigarhorns hafi komið fram á manntalsþingi árið 1883 hafi hlutaðeigandi landeigendur séð að lýsingin var ekki rétt varðandi mörk Búlandsness og Teigarhorns og því gert nýja lýsingu, þ.e. landamerkjabréf Búlandsness frá 8. janúar 1884, sem beri yfirskriftina Landamerkjaskrá millum Búlandsnes (svo) og Hálskirkjulands og Teigarhorns. Því landamerkjabréfi hafi verið þinglýst á manntalsþingi hinn 23. júní sama ár. Í lýsingunni séu mörkin við Teigarhorn sérstaklega tiltekin frá uppsprettu norðan í Hálsmótum, sem skýrt megi sjá á loftmynd af svæðinu, og síðan eftir landamerkjavörðum beina leið til sjávar.
Aðalstefnandi kveður örnefni á lækjum á svæðinu vera nokkuð á reiki. Í landamerkjabréfi Teigarhorns sé talað um Merkilæk og Merkilækjargil. Í landamerkjabréfi Búlandsness sé hins vegar talað um Hálsmótalæk og vísað í uppsprettu hans norðan í Hálsamótum, sem glöggt sjáist á loftmynd af svæðinu, en sá lækur sé nú kallaður Kápugilslækur. Kristján Jónsson, bóndi á Teigarhorni, bendi á það í lýsingu sinni til Örnefnastofnunar að Kápugilslækur hafi áður verið kallaður Hálsamótalækur. Orsök nafnabreytingarinnar muni vera sú að Sophia Weyvadt, ábúandi að Teigarhorni, hafi átt flekkótta á, sem nefnd hafi verið Kápa og alltaf gengið í gilinu við Merkilækinn. Það hafi orðið til þess að byrjað hafi verið að kalla gilið Kápugil og lækinn Kápugilslæk og hafi þessi nöfn fest við þessa staði. Að sögn aðalstefnanda hafi þetta gerst einhvern tíma á árunum frá 1890 til 1910. Í landamerkjabréfi Búlandsness sé vísað til staðfestingar Helga biskups á merkjum jarðanna og að þau hafi; ...verið brúkuð og haldin rjett frá ómunatíð og fram á þennan dag.
Kristján Jónsson hafi verið síðasti ábúandi að Teigarhorni á undan aðalstefnda. Í skjali því er fyrir liggi og hafi að geyma athugasemdir hans um jörðina Teigarhorn, landamerki hennar og örnefni, hefjist skjal hans á því að hann skrái landamerkjalýsinguna eftir N.P.E. Weyvadt, eiganda og ábúanda að Teigarhorni, þeim sama og undirritað hafi landamerkjalýsingu Teigarhorns. Þar segi að landamerkin við Búlandsnes liggi úr Eyfreyjunesvík rétt utan við Prófastsgötu í Hálsamótalæk, þaðan í vörðu á Hálsabrún. Komi þessi lýsing heim og saman við landamerkjabréf Búlandsness frá árinu 1884. Þá megi einnig benda á skjal, sem ritað hafi verið 6. júní 2002, þar sem þrír staðkunnugir eldri menn lýsi landamerkjum Teigarhorns og Djúpavogshrepps. Þar sé vísað til vörðu við Prófastsgötu, sem rifin hafi verið við vegagerð árið 1942. Eyjólfur Guðjónsson, ábúandi að Framnesi, hafi unnið við þessa vegagerð og hafi hann staðfest frásögn um að Jón Kr. Lúðvíksson, þáverandi ábúandi að Teigarhorni, hafi gert athugasemd við það að menn væru að rífa landamerkjavörðu. Samkvæmt þessu sé ljóst að tveir síðustu ábúendur að Teigarhorni á undan stefnda hafi staðfest að landamerki jarðanna liggi frá Prófastsgötu og upp í Hálsamót eftir hlöðnum vörðum. Þá sé vert að benda á það að við friðlýsingu Teigarhorns með auglýsingu nr. B 518/1975 hafi friðlýsingarsvæðið náð að Prófastsgötu, en staðsetning hennar sé óumdeild.
Öll tiltæk rök, nema landamerkjalýsing Teigarhorns frá 1877, sem vikið hafi fyrir yngri þinglýstri heimild, styðji sjónarmið stefnanda að landamerkjalýsing Búlandsness frá árinu 1884 sé hin rétta landamerkjalýsing jarðanna. Fái það auk þess stoð í gögnum varðandi alla ábúendur að Teigarhorni, allt frá lýsingu N.P.E. Weyvadt á landamerkjunum, sem Kristján Jónsson taki upp orðrétt í upphafi skjals síns til örnefnanefndar, Sophiu Weyvadt, sem undirritað hafi landamerkjabréf Búlandsness árið 1884 sem eigandi Teigarhorns, Jóni Kr. Lúðvíkssyni, sem gert hafi athugasemdir við niðurrif landamerkjavörðunnar við Prófastsgötu árið 1942, og síðast í landamerkja- og örnefnalýsingu Kristjáns Jónssonar, sem fyrr hafi verið getið. Þá hafi Eyjólfur Guðjónsson bóndi að Framnesi, sem þar sé fæddur árið 1928 og búsettur alla sína tíð, borið að landamerkin séu á þann veg sem stefnandi haldi fram og að framan sé rakið.
Samkvæmt framansögðu sé ljóst að það sé aðeins aðalstefndi sem haldi því fram að Eyfreyjuneslækur skipti löndum. Sjáist lækurinn þó hvergi nefndur á nafn í þeim skjölum er fyrir liggi í málinu. Þá bendir aðalstefnandi á að kort Austurlandsskóga vegna skógræktar á jörðinni hafi enga þýðingu í máli þessu.
Aðalstefnandi mótmælir þeirri fullyrðingu aðalstefnda, að hann hafi öðlast beinan eignarrétt að hinni umþrættu landspildu fyrir hefð, sem rakalausri og tilhæfulausri með öllu. Staðreyndin sé sú að landið í víkinni, sem sé að mestu gróinn úthagi, hafi verið nýtt til beitar án girðinga fyrir búpening frá Búlandsnesi/Framnesi og frá Teigarhorni. Girðing hafi ekki skipt landinu og hafi ábúendur í gegnum tíðina verið sammála um það að búpeningur beggja aðila gengi í víkinni, burtséð frá því hvorum megin landamerkja beitin hafi verið. Það hafi ekki verið fyrr en aðalstefndi hóf búskap að Teigarhorni að árekstrar hafi átt sér stað um landnotkun í víkinni. Aðalstefnandi hafi engan vafa talið leika á landamerkjum jarðanna og ábúandinn á Framnesi hafi ekki gert athugasemd við beit búpenings vítt og breitt um víkina, enda hafi þar gengið búpeningur frá báðum jörðunum. Hvorum megin landamerkja ábúendur að Teigarhorni kunni að hafa ræktað kartöflur til heimilisnota hafi aldrei verið áhyggjuefni aðalstefnanda, enda margra áratuga samkomulag um landnotkun í víkinni og fráleitt að slík ræktun, sem auk heldur hafi ekki verið sýnt fram á hver hafi verið, hvenær hún hafi farið fram eða hvar í landinu, geti orðið til þess að hefð vinnist á landinu. Sé fráleitt að núverandi ábúandi geti talist hafa unnið hefð á landi í víkinni á grundvelli athugasemdarlausrar notkunar hennar til beitar eða kartöfluræktar til heimilisnota. Aðalstefnandi hafi fyrst gert athugasemdir við landnotkun aðalstefnda þegar honum hafi orðið kunnugt um skógræktarsamning aðalstefnda við Austurlandsskóga, dagsettan og þinglýstan í byrjun árs 2006, þar sem skógræktarsvæðið sé afmarkað inn á land aðalstefnanda. Aðalstefnandi heldur því fram að alla síðastliðna öld hafi verið um það óskráð samkomulag ábúenda á Búlandsnesi/Framnesi og Teigarhorni að landnot í Eyfreyjunesvík væru sameiginleg og víkin ekki girt svo sem að framan sé lýst. Því sé fráleitt að núverandi ábúandi að Teigarhorni geti unnið hefð að landi, þvert á þinglýsta landamerkjalýsingu og áratuga samkomulag ábúenda beggja viðkomandi jarða um sameiginleg not af landinu upp af Eyfreyjunesvík.
Að því er varðar fullyrðingar aðalstefnda um að lögbannið hafi leitt til stöðvunar á framkvæmdum hans við girðingarvinnu og plöntun, bendir aðalstefnandi á að lögbannsgerðin hafi farið fram undir lok nóvembermánaðar og því sé ljóst að girðingarvinnu verði varla haldið uppi í svartasta skammdeginu í snjó og frosti, hvað þá að skógi sé plantað á þeim tíma. Því sé fráleitt að ætla að bótaskylda geti skapast af þeim sökum. Þvert á móti geti aðalstefndi hafa skapað aðalstefnanda tjón með umróti og girðingarframkvæmdum á landi hans. Hafi ákvörðun sýslumanns, um að fallast á kröfu aðalstefnanda um lögbann án tryggingar úr hans hendi fyrir kostnaði og hugsanlegu tjóni aðalstefnda af gerðinni, því verið rökrétt og í fullu samræmi við tilætlun laganna um kyrrsetningu og lögbann. Röksemdafærslum aðalstefnda fyrir því að lögbanni verði hrundið sé því alfarið hafnað af hálfu aðalstefnanda og þess krafist að lögbannið verði staðfest. Telji aðalstefndi sig eiga bótarétt vegna gerðarinnar komist slík sjónarmið ekki að í máli þessu, enda sé engin bótakrafa gerð.
Til stuðnings kröfu sinni um staðfestingu lögbanns vísar aðalstefnandi til IV. kafla sbr. VI. kafla l. nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann, einkum 24. gr., 1. og 2. 36. gr. Varðandi landamerki og skyldu til að halda þeim við vísar aðalstefnandi til 1.gr. sbr. 3. mgr. 6. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919. Þá er vísað til almennra reglna eignarréttar varðandi eignarhald stefnanda að hinu umþrætta landi. Um málskostnað auk þegar áfallins kostnaðar, sem og eftirfarandi kostnaðar vegna lögbannsgerðarinnar, vísar aðalstefnandi til ákvæða 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Loks tekur aðalstefnandi fram að þar sem mál þetta varði ekki virðisaukaskattskylda starfsemi stefnanda beri honum nauðsyn til þess að tekið verði tillit til þess að virðisaukaskattur leggist á málflutningsþóknun skv. ákvæðu laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Í gagnsök vísar aðalstefndi til málsatvika og málsástæðna sinna í aðalsök, svo og til kröfu um málskostnað.
Málsástæður aðalstefnda.
Aðalstefndi kveðst byggja kröfur sínar um landamerki á milli jarðanna á landamerkjabréfi Teigarhorns frá 30. júní 1877, en það virðist hafa verið gert í tilefni af kaupum Níelsar Weyvadt á Teigarhorni og undirritað af þar til bærum aðilum. Ekkert hafi komið fram í málinu, sem styrki þá kenningu aðalstefnanda, að ætlunin hafi verið að breyta landamerkjum á milli jarðanna með gerð landamerkjabréfs Búlandsness hinn 8. janúar 1884. Verði því að leggja til grundvallar að ætlunin hafi verið að lýsa gildandi landamerkjum. Meginmunurinn á landamerkjabréfum jarðanna sé sá að í landamerkjabréfi Búlandsness sé miðað við landamerkjavörður í stað lækjarins í landamerkjabréfi Teigarhorns. Ekkert liggi hins vegar fyrir um að umræddar vörður hafi verið reistar. Því síður að þær hafi verið þar sem aðalstefnandi haldi nú fram.
Aðalstefndi bendir á að til þess að málatilbúnaður aðalstefnanda standist þurfi að færa örnefni úr stað, skipta um nafn á lækjum á svæðinu og því um líkt, sem geri málatilbúnað aðalstefnanda ærið langsóttan. Sé hann einnig í algeru ósamræmi við það, sem fólk á svæðinu hafi lagt til grundvallar undanfarna áratugi eða aldir að því er varði kennileiti og örnefni. Nefna megi örnefnið Hálsamót, en það sé dæld milli tveggja fjalladraga eins og nafnið gefi til kynna. Þetta örnefni þurfi hins vegar að vera staðsett uppi í miðri hlíð til að málatilbúnaður aðalstefnanda gangi upp.
Auk framangreindra málsástæðna kveðst aðalstefndi byggja á því að hann hafi fyrir hefð öðlast beinan eignarrétt að landspildu þeirri, sem um sé deilt í máli þessu. Með athugasemdalausum og óslitnum afnotum sínum og fyrri ábúenda Teigarhorns, hafi hann unnið hefð á spildunni. Aðalstefndi og heimildarmenn hans hafi í marga áratugi, og líklega alveg frá því jörðin var keypt skömmu fyrir aldamótin 1900, staðið í þeirri trú að þessi spilda tilheyrði Teigarhorni. Þar af leiðandi hafi þeir nýtt spilduna við sauðburð, beitt þar kúm, ræktað kartöflur, sett upp upplýsingaskilti fyrir ferðamenn, gert samning um nytjaskógrækt o.s.frv. Allt þetta hafi verið gert án athugasemda aðalstefnanda og ábúenda á jörð aðalstefnanda. Á sama tíma hafi ekki aðrir aðilar nýtt spilduna. Aðalstefndi kveðst því telja að öll skilyrði stofnunar eignarréttar fyrir hefð séu fyrir hendi og vísar þar um til laga um hefð nr. 46 frá 1905, sérstaklega 6. gr.
Kröfu sína um að hrundið verði lögbanni sýslumannsins á Eskifirði frá 22. nóvember 2007, kveðst aðalstefndi aðallega byggja á sömu rökum og reifuð hafi verið til stuðnings kröfunni um landamerki. Jafnframt sé byggt á því að ekki hafi verið fyrir hendi skilyrði til að leggja lögbann við framkvæmdum hans. Aðalstefnandi hafi ekki leitt nægar líkur að því að hann eigi þau réttindi, sem um hafi verið deilt, svo sem krafist sé samkvæmt 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31 frá 1990. Þá virðist sýslumaður ekki hafa gætt að því að lögbann verði ekki lagt við athöfn sem refsi- og bótareglur tryggi nægilega, sbr. 24. gr., en hinar fyrirhuguðu athafnir gagnstefnanda hafi verið í því fólgnar að girða svæðið og setja niður plöntur. Tjón vegna slíks megi að fullu bæta með skaðabótum, auk þess sem framkvæmdin auki verðmæti landsins. Loks virðist sýslumaður ekki hafa metið mismunandi hagsmuni aðila af því hvort fallist yrði á lögbann, annars vegar stöðvun á atvinnustarfsemi aðalstefnda, hins vegar engir fjárhagslegir hagsmunir aðalstefnanda.
Að öllu þessu virtu telji aðalstefndi að lögbannið hafi verið ólögmætt og að hrinda beri því. Jafnframt áskilji hann sér rétt til að hafa uppi bótakröfur vegna þessa í sérstöku máli síðar. Aðalstefndi kveður kröfu sína um málskostnað studda við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91 frá 1991. Varðandi varnarþing vísar aðalstefndi til 2. mgr. 42. gr. síðastgreindra laga.
Um málsatvik og málsástæður í aðalsök vísar aðalstefndi alfarið til sjónarmiða, sem reifuð séu í gagnstefnu. Eigi sömu sjónarmið við um málatilbúnað aðalstefnda í aðalsök og í gagnsök í málinu, að breyttu breytanda.
Aðalstefndi kveðst mótmæla málavaxtalýsingu aðalstefnanda, einkum varðandi vegagerð á árinu 1942, um nöfn lækja og sögu um kindina Kápu. Aðalstefnandi kveðst hins vegar hafa þessar upplýsingar eftir Eyjólfi Guðjónssyni í Framnesi, sem unnið hafi við vegagerðina árið 1942 og þekki staðhætti á svæðinu og sögu þess öðrum mönnum betur, enda fæddur og uppalinn í Framnesi. Bendir aðalstefnandi og á að aðalstefndi færi engin rök fyrir mótmælum sínum.
IV.
Niðurstaða
Eins og áður greinir er um það deilt í máli þessu hvar landamerki jarðanna Búlandsness og Teigarhorns liggja frá sjó í Eyfreyjunesvík og upp á svokölluð Hálsamót. Heldur aðalstefnandi því fram að þau séu frá punkti við Kápugilslæk, sem áður hafi verið nefndur Hálsamótalækur, að Kápugilsbrún og þaðan í beina línu eftir hlöðnum vörðum til sjávar utanvert við Prófastsgötu. Aðalstefndi heldur því hins vegar fram að landamerkin séu um Eyfreyjuneslæk frá sjó að Hálsamótavörðu, þaðan í Hálsabrúnavörðu og úr henni beina stefnu í Nauthúsabotnavörðu. Þá er um það deilt í málinu hvar staðsetja eigi kennileitin Hálsamót, Hálsamótalæk, Merkilæk og Merkilækjargil.
Eins og gögn málsins bera með sér var jörðin Teigarhorn upphaflega hjáleiga frá kirkjujörðinni Hálsi en varð að sjálfstæðri jörð þegar forfaðir aðalstefnda, Níels P.E. Weyvadt, keypti hana af stiftsyfirvöldum á Íslandi samkvæmt konungsbréfi dagsettu 21. febrúar 1876, sbr. dskj. nr. 15. Af fyrrnefndu dómskjali verður ráðið að í tilefni af sölu jarðarinnar hafi nánar tilgreindir menn riðið á land jarðanna Háls og Teigarhorns í viðurvist prófasts í Suður-Múlasýslu og sýslumanns til þess að ákveða landamerki á milli fyrrgreindra jarða. Menn þessir voru hreppstjórinn á Rannveigarstöðum fyrir hönd prófastsins á Hofi og bændur á Borgargarði, Kelduskógum og í Berufirði. Viðstaddir áreiðina voru einnig eigandi Teigarhorns, Níels P. E. Weyvadt og umráðamaður Urðarteigs. Þrátt fyrir að ætlunin virðist hafa verið að ákveða merki á milli áðurgreindra tveggja jarða, hefur skjalið, sem dagsett er 30. júní 1877, að geyma heildarlýsingu á landamerkjum Teigarhorns og þar á meðal gagnvart Búlandsnesi. Er merkjum Teigarhorns sem liggja að Búlandsnesi lýst svo í skjalinu að um sé að ræða beina stefnu frá vörðu upp af Nautahúsabotnum og í vörðu fastútundir Hálsamótum, þar sem klettarnir falla þver hnýft ofan í Merkilækjargil, þaðan beina stefnu í vörðu, sem hlaðin var fyririnnan Merkilæk, úr því ræður Merkilækur, þar til hann rjettfyrir innan Eyfreyjarnes fellur útí Berjufjörð.
Samkvæmt dskj. nr. 15 var áreiðin samþykkt af stiftsyfirvöldum 18. október 1877. Sex árum síðar voru landamerki Teigarhorns samkvæmt áðurgreindri áreið samþykkt af umráðamönnum aðliggjandi jarða, þ.e. Urðarteigs, Háls og Búlandsness, á manntalsþingi 30. júní 1883 og var skjalinu þinglýst þann sama dag og það innfært í landamerkjabók Suður-Múlasýslu.
Rúmum sex mánuðum síðar eða hinn 8. janúar 1884 var gert landamerkjabréf fyrir jörðina Búlandsnes, sem ber yfirskriftina Landamerkjaskrá millum Búlandsnes og Hálskirkjulands og Teigarhorns. Er bréfið undirritað af hálfu Geithellnahrepps og Hálskirkju, af ábúendum Búlandsness og Borgargarðs, og loks af eiganda Teigarhorns, Sophiu Weyvadt. Umræddu landamerkjabréfi var þinglýst á manntalsþingi 23. júní sama ár. Þar er landamerkjum gagnvart Teigarhorni lýst svo: Landamörk norðan Búlandsneshálsa og um Hálsana millum Teigarhorns eru: svokölluð hálsamót og Hálsamótalækur frá uppsprettu norðan í Hálsamótum og beina leið til sjávar eptir hlöðnum landamerkjavörðum.
Ljóst er að framangreindum landamerkjabréfum ber ekki saman um merki á milli jarðanna og er ekki fallist á með aðalstefnda að um sé að ræða lýsingu á sömu merkjum en með ólíku orðalagi og notkun á örnefnum.
Aðalstefndi heldur því fram að örnefnið Hálsamót sé einskorðað við lægðina á milli Ytri- og Innri-Hálsa og vísar því til stuðnings til korts Landmælinga Íslands á dskj. nr. 29, Árbókar Ferðafélags Íslands 1955 á dskj. nr. 38, korts úr Árbók Ferðafélags Íslands 2002 á dskj. nr. 34 og sveitarlýsingar vitnisins Ingimars Sveinssonar í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi, sbr. dskj. nr. 29. Staðfesti vitnið þennan skilning sinn á staðsetningu örnefnisins hér fyrir dómi og það gerðu einnig vitnin Emil Björnsson og Helena Hanna Hilmisdóttir, sem bæði eru barnabörn Jóns Kr. Lúðvíkssonar, fyrrum bónda á Teigarhorni, en Helena er móðir aðalstefnda.
Eyjólfur Guðjónsson, ábúandi á Framnesi, sagði hins vegar að þegar menn færu gangandi milli fjarða um Hálsamót færu menn lægðina, en örnefnið Hálsamót næði aftur á móti yfir stærra svæði.
Þessi framburður Eyjólfs fær stuðning í landamerkjabréfi Háls, sem dagsett er 21. júní 1885, og í fyrrgreindu landamerkjabréfi Búlandsness. Í landamerkjabréfi Háls segir að landamerki milli Búlandsness og Háls séu Hálsamótin eða háhlíðarnar og Votaberg sunnan í Hálsamótum, þaðan í Merkistein o.s.frv. Er þetta og í samræmi við lýsingu á sömu merkjum í landamerkjabréfi Búlandsness, en þar segir að sunnan Búlandsneshálsa eigi Búlandsnes land úr Votabergi fyrir innan og ofan Merki og um Merkistein o.s.frv. Á vettvangi mátti og glöggt sjá að fyrrgreint Votaberg er talsvert fyrir innan bæinn Merki, en eins og fram hefur komið í málinu er gönguleiðin um Hálsmót, þ.e. áðurgreind lægð, beint upp af bænum Merki. Fyrr í landamerkjabréfi Búlandsness segir og að landamerki norðan Búlandsneshálsa og um hálsana millum Teigarhorns séu svokölluð Hálsamót og Hálsamótalækur frá uppsprettu norðan í Hálsamótum o.s.frv. Framburður Eyjólfs fær og stuðning í örnefnaskrá Háls á dskj. nr. 41, en þar segir á bls. 4: Austur úr Krosslágum er Blautamýri og Kápugilsmýri. Þá taka við Hálsamót og Háhlíðar efri og neðri, grashjallar og Lýsingabotn, syðst í Háhlíðum. Eins og sjá má af framangreindum gögnum eru Hálsamótin nefnd í sömu andrá og háhlíðarnar og hálsarnir og þá er Votaberg talið vera sunnan í Hálsamótum. Þykja framangreindar lýsingar í landamerkjabréfum Háls og Búlandsness því benda eindregið til þess að örnefnið Hálsamót hafi, a.m.k. á þeim tíma er bréfin voru rituð, náð yfir víðfeðmara svæði en lægðina á milli Innri- og Ytri-Hálsa.
Í landamerkjabréfi Háls er og lýst landamerkjalínu frá Þrímenningum, sem takmörkuð sé með hlöðnum vörðum, sem standi hver frá annarri eftir háhálsinum allt út í svokölluð Hálsamót. Segir og að þetta séu afréttar-, hagbeitar- og engjamörk Teigarhorns. Í landamerkjabréfi Búlandsness er einnig talað um hálsana millum Teigarhorns og Hálsamótin. Landamerkjabréf Búlandsness gerir ráð fyrir beinni línu eftir hlöðnum landamerkjavörðum frá Hálsamótum og hálsunum millum Teigarhorns, eins og segir í bréfinu, og í sjó fram í Eyfreyjunesvík. Einnig gerir bréfið ráð fyrir beinni línu úr Votabergi, um Merkistein og í sjó fram við Kolþúfu, sem er í samræmi við Hálsbréfið. Með því að bera saman þessi tvö landamerkjabréf þykir og ljóst að landamerkin á milli jarðanna á Búlandsneshálsum liggja um háhlíðarnar, en ekki um lægðina í Hálsmótum eins og aðalstefndi miðar við.
Við vettvangsgöngu mátti glöggt sjá vörðu á Kápugilsbrún, sbr. ljósmynd á dskj. nr. 3.10.5. Hins vegar verður ekki talið að hægt sé að fullyrða með neinni vissu að um sé að ræða vörðubrot í klettum skammt frá íbúðarhúsinu að Kápugili. Af hálfu aðalstefnanda er byggt á því að þriðja varðan hafi verið niður við sjó við svokallaða Prófastsgötu og að þessar þrjár vörður hafi myndað beina línu frá Hálsamótum að sjó í Eyfreyjunesvík. Áðurnefndur Eyjólfur Guðjónsson í Framnesi hefur borið um það að á þessum stað hafi verið varða, sem rifin hafi verið þegar akfær vegur hafi verið lagður að Teigarhorni. Kvaðst hann hafa unnið við vegagerðina og fyrir hann og fleiri stráka hafi verið lagt að safna saman grjóti til að nota í hleðslu undir veginn. Hafi þeir tekið grjótið úr vörðunni og fært það hleðslumönnum. Kvað hann Jón á Teigarhorni hafa komið þar að á leið í kaupstað og hafi hann skammað verkstjórann fyrir að hafa rifið landamerkjavörðu. Ingimar Sveinsson, sem uppalinn er á Hálsi, kvaðst einnig muna eftir þessari vörðu við Prófastsgötu og sagði að hún hefði verið rifin við vegagerð og notuð til að fylla upp í poll, sem ávallt hefði myndast í götunni út frá litlum læk, sem þarna hefði runnið. Sagðist hann sjálfur hafa unnið við vegagerðina. Á sömu lund hefur borið vitnið Ari Guðjónsson, sem alinn er upp í Framnesi og er bróðir vitnisins Eyjólfs. Sagðist hann muna vel eftir þessari vörðu við Prófastsgötu. Hann hefði sjálfur ekki unnið við fyrrgreinda vegagerð, en sagðist hafa fylgst með verkinu og verið viðstaddur þegar varðan var rifin. Frásögn þessara vitna fær stuðning í bréfi Eysteins Jónssonar til Jóns Lúðvíkssonar í Teigarhorni, dags. 7. maí 1943, þar sem fjallað er um lagfæringu á veginum, sbr. dskj. nr. 33.
Fram hefur komið að þeir Eyjólfur, Ari og Ingimar, sem allir eru fæddir laust fyrir 1930, ólust upp á þessu svæði og búa þar enn. Sagðist Eyjólfur hafa flutt 9 ára gamall að Framnesi frá Djúpavogi og hafa búið þar síðan. Þá kom fram hjá honum að amma hans, sem fædd hefði verið 1862 í Stekkjarhjáleigu og alin þar upp, og síðar búið í Kambshjáleigu, hefði verið mjög staðkunnug á þessu svæði. Báðar áðurgreindar hjáleigur eru úr jörðinni Hálsi. Kom fram hjá Eyjólfi að hann hefði m.a. vitneskju sína um landamerki á milli Búlandsness og Teigarhorns frá þessari ömmu sinni, þ.e. að hún hefði talað um tvær vörður á klettum í því sambandi. Þá hefði Jón Lúðvíksson í Teigarhorni sagt honum að landamerkin væru frá vörðu við Prófastsgötu og beina stefnu í vörðu á hálsinum. Ari Guðjónsson sagðist einnig muna eftir vörðu uppi á brún við Kápugil og við Prófastsgötu, en sagðist ekki muna eftir þriðju vörðunni. Sagði hann að landamerki á milli Teigarhorns og Djúpavogshrepps væru um þessar vörður. Ingimar Sveinsson sagði að talað hefði verið um það í hans ungdæmi að landamerkin á milli Búlandsness og Teigarhorns væru ekki í Eyfreyjuneslæk, heldur 100 til 150 metrum utar, þ.e. suðaustar. Sagðist hann muna eftir vörðum á þessum stað og staðhæfði að þarna væru vörðubrot.
Ofangreindu til stuðnings er einnig friðlýsing Teigarhorns í Berufirði, sbr. auglýsing nr. 518/1975, en þar eru mörk náttúruvættisins sögð vera frá Búlandsá og að Prófastsgötu í Eyfreyjunesvík. Í lok örnefnaskrár Djúpavogs og Búlandsness á dskj. nr. 23, sem skráð er af Eiríki Sigurðssyni eftir Karli Steingrímssyni á Djúpavogi, segir að í víkinni sunnan við Eyfreyjunesið sé Eyfreyjuneslækur. Hann hafi áður verið landamerki milli Djúpavogs og Teigarhorns, en nú séu landamerkin bein lína úr læknum efst og í víkina. Í örnefnaskrá Teigarhorns á dskj. nr. 40, sem sögð er skráð eftir Jóni Lúðvíkssyni, segir og að landamerki milli Djúpavogs og Teigarhorns hafi áður verið í Eyfreyjuneslæk. Öll þessi gögn mæla því gegn því að landamerki jarðanna séu um Eyfreyjuneslæk eins og aðalstefndi heldur fram.
Í framlögðum gögnum í málinu sér þess hvergi stað að Eyfreyjuneslækur hafi einnig verið nefndur Merkilækur eða að lægðin í Hálsmótum hafi verið kölluð Merkilækjargil, eins og aðalstefndi virðist gera ráð fyrir í kröfugerð sinni, en hann byggir hana á landamerkjabréfi Teigarhorns. Viðurkenndi aðalstefndi það og hér fyrir dómi að örnefnið Merkilækur væri ekki notað í daglegu tali.
Ljóst er að mjög skammur tími leið frá þinglýsingu landamerkjalýsingar Teigarhorns og þar til landamerkjabréf Búlandsness var gert og því þinglýst. Þykir það benda til þess að ætlunin hafi verið sú að bregðast við landamerkjalýsingu Teigarhorns og leiðrétta hana, enda ber bréfunum ekki saman um landamerki á milli jarðanna. Árétting sú, er fram kemur í landamerkjabréfi Búlandsness, um að framanskrifuð landamerki séu staðfest af Helga biskupi og hafi verið brúkuð og haldin rétt frá ómunatíð og fram á þennan dag, þykir og benda til þess sama. Ekki verður heldur fram hjá því horft að landamerkjabréf Búlandsness er yngra og því þinglýst síðar en landamerkjalýsingu Teigarhorns. Verður því að ætla að í því hafi falist endanleg niðurstaða um landamerkin.
Með vísan til alls framangreinds og þá sérstaklega með vísan til framburðar vitnanna Eyjólfs og Ara Guðjónssona og Ingimars Sveinssonar, þykir í ljós leitt að miðað hafi verið við að landamerki á milli jarðanna væru bein lína ofan frá Hálsamótum og í Eyfreyjunesvík eftir hlöðnum vörðum á Kápugilsbrún og við Prófastsgötu. Þá þykir ljóst að lækur sá, er nú er nefndur Kápugilslækur, hafi áður verið nefndur Hálsamótalækur, enda fær það og stuðning í framlögðum örnefnaskrám og kortum, en ljóst þykir að þau gögn voru unnin áður en landamerkjadeila þessi upphófst.
Óumdeilt er að um áratugaskeið var hluti þrætulandsins afgirtur. Er og óumdeilt að girðingin lá um sömu punkta og kröfulína aðalstefnda tekur mið af. Við skoðun á vettvangi blöstu og leifar af girðingu þessari við sjónum manna þegar gengið var eftir markalínu aðalstefnda. Fram hefur þó komið að girðingin náði ekki niður að sjó, en beygði frá Eyfreyjuneslæk og síðan þvert yfir melinn fyrir neðan hraunin um 50 til 60 metra frá sjó og inn á Teiga, sbr. framburð Emils Björnssonar og Helenu Hönnu Hilmisdóttur og ljósmyndir á dskj. nr. 32. Aðalstefndi hefur sjálfur borið um það að girðingin hafi verið í notkun til 1958 og að eftir það hafi fé gengið þarna frá báðum bæjum. Emil Björnsson hefur og borið um það að girðingin hafi verið löngu fallin þegar hann flutti í Kápugil árið 1974. Er ekki fallist á að aðalstefndi geti byggt á því að girðing, sem legið hafði niðri í um 40 ár áður en hann eignast jörðina, skapi grundvöll fyrir eignarhefð hans á landinu. Þá verður ekki fallist á að takmörkuð not hans af landinu nú uppfylli skilyrði eignarhefðar.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er niðurstaða málsins sú að fallist er á kröfu aðalstefnanda um landamerki á milli jarðanna og með hliðsjón af dskj. nr. 46 skulu landamerkin dregin ofan frá svokölluðum Hálsamótum um Kápugilslæk, áður Hálsamótalæk, og þaðan um landamerkjavörður í beina línu til sjávar skammt utan við Prófastsgötu, þ.e. frá punkti 64°40,01,7 og 14°20,42,1, þaðan í punkt 64°40,06,3 og 14°20,37,4, þaðan í punkt 64°40,12,9 og 14°20,30,5, þaðan í punkt 64°40,15,2 og 14°20,28,3 og loks í punkt 64°40,20,9 og 14°20,22,1.
Með vísan til framangreinds ber að sýkna aðalstefnanda af landamerkjakröfu aðalstefnda í gagnsök.
Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl., sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, verður staðfest lögbann sem sýslumaðurinn á Eskifirði lagði hinn 22. nóvember 2007 við frekari framkvæmdum aðalstefnda við lagningu girðingar upp á svokölluðum Hálsamótum í landi jarðarinnar Búlandsness, sem og öllum öðrum framkvæmdum aðalstefnda á landi aðalstefnanda austan við Kápugilslæk og frá Kápugilsbrún í beina línu um vörður fram að sjó við svokallaða Prófastsgötu.
Með hliðsjón af málsúrslitum er aðalstefnda gert að greiða aðalstefnanda málskostnað að fjárhæð 886.938 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri.
Dómsorð:
Landamerki á milli jarðanna Búlandsness og Teigarhorns í Djúpavogshreppi skulu vera eftir línu, sem dregin er ofan frá svokölluðum Hálsamótum um Kápugilslæk, áður Hálsamótalæk, og þaðan um landamerkjavörður í beina línu til sjávar skammt utan við Prófastsgötu, þ.e. frá hnitapunkti 64°40,01,7 og 14°20,42,1, þaðan í hnitapunkt 64°40,06,3 og 14°20,37,4, þaðan í hnitapunkt 64°40,12,9 og 14°20,30,5, þaðan í hnitapunkt 64°40,15,2 og 14°20,28,3 og loks í hnitapunkt 64°40,20,9 og 14°20,22,1.
Staðfest er lögbann sem sýslumaðurinn á Eskifirði lagði hinn 22. nóvember 2007 við frekari framkvæmdum aðalstefnda við lagningu girðingar uppi á svokölluðum Hálsamótum í landi jarðarinnar Búlandsness, sem og öllum öðrum framkvæmdum aðalstefnda á landi aðalstefnanda austan við Kápugilslæk og frá Kápugilsbrún í beina línu um vörður fram að sjó við svokallaða Prófastsgötu.
Aðalstefndi, Herbert Jón Hjörleifsson, greiði aðalstefnanda, Djúpavogshreppi, 886.938 krónur í málskostnað.