Hæstiréttur íslands
Mál nr. 657/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
- Fíkniefnalagabrot
- Umferðarlagabrot
- Upptaka
- Svipting ökuréttar
- Einkaréttarkrafa
- Sérálit
|
|
Fimmtudaginn 13. júní 2013. |
|
Nr. 657/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Bergþóri Ásgeirssyni (Oddgeir Einarsson hrl.) |
Líkamsárás. Fíkniefnalagabrot. Umferðarlagabrot. Upptaka. Svipting ökuréttar. Einkaréttarkrafa. Sérálit.
B var sakfelldur fyrir líkamsárás á A, fíkniefnalagabrot með því að hafa í félagi við Y haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni tiltekið magn kannabislaufa, kannabisstöngla og kannabisplantna auk ræktunar fyrrgreindra plantna, fjölmörg umferðarlagabrot með því að hafa ekið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og í eitt skipti valdið stórfelldum eignaspjöllum, auk fleiri fíkniefnalagabrota. Við ákvörðun refsingar leit Hæstiréttur til sakarferils B, þess að líkamsárás hans á A var ófyrirleitin auk þess sem hann hafði áður verið dæmdur fyrir slíkt brot og að hann hafði framið fyrrgreint fíkniefnalagabrot í félagi við annan mann. Þyngdi Hæstiréttur refsingu B og var honum gert að sæta fangelsi í 18 mánuði og hann sviptur ökurétti í þrjú ár. Þá var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um upptöku fíkniefna og tiltekinna muna en miskabætur til handa A lækkaðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu og upptöku fíkniefna og muna, en að refsing ákærða verði þyngd og hann sviptur ökurétti til lengri tíma.
Ákærði krefst aðallega refsimildunar og að einkaréttarkröfu A verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni en að því frágengnu að hún verði lækkuð.
Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hún krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr. 208 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
I
Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Ef ákærði eða vitni ber á annan hátt fyrir dómi en hjá lögreglu er dómara heimilt, samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 109. gr. þeirra laga, að taka tillit til þess, sem fram kemur í lögregluskýrslu, ef hann telur breyttan framburð fyrir dómi ótrúverðugan, en sakfelling verður hins vegar ekki reist á skýrslugjöf hjá lögreglu, einni og sér.
Í skýrslu sinni hjá lögreglu 12. október 2010 neitaði ákærði í fyrstu sök að því er varðar ákærulið I í ákæru 15. maí 2012 en þar er honum gefið að sök að hafa í félagi við Y haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni tilgreint magn kannabislaufa, kannabisstöngla og kannabisplantna auk þess að hafa um nokkurt skeið ræktað greindar plöntur að [...] í Reykjavík. Þá neitaði hann því einnig framan af í skýrslutökunni að hafa komið á staðinn eftir að ræktunin fór af stað. Síðar í skýrslunni játaði hann þátt sinn í ræktuninni og aðkomu sína að henni, svo og að þeir Y væru eigendur hennar og hafi örugglega ætlað að skipta ágóðanum jafnt á milli sín. Framburð sinn að þessu leyti dró ákærði síðan til baka í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi en viðurkenndi þó að hann hafi komið í fyrrgreint húsnæði eftir að ræktun plantnanna var hafin.
Í málinu liggur fyrir reikningur frá F vegna kaupa á munum sem notaðir voru til ræktunarinnar og ákærði lagði út fyrir og upptökur úr eftirlitsmyndavél sem teknar voru af ákærða og Y þegar þau kaup áttu sér stað. Þá er meðal málsgagna skriflegur húsaleigusamningur milli ákærða og eiganda húsnæðisins þar sem ræktunin fór fram. Héraðsdómari mat skýringar ákærða á þessum tengslum sínum við ræktunina ótrúverðugar sem og þá skýringu sem hann gaf á breyttum framburði sínum. Verður sönnunarmat héraðsdómara á sakargiftum á hendur ákærða samkvæmt þessum ákærukafla ekki vefengt. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, upptöku og sakarkostnað.
II
Háttsemi ákærða er rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Einn dómenda, Eiríkur Tómasson, gerir þá athugasemd að hann telji að ákærða verði ekki refsað fyrir brot á 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þar sem það ákvæði sé svo almennt orðað að það geti ekki, að teknu tilliti til fyrirmæla 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, talist viðhlítandi refsiheimild, sbr. dóm Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 33/2012.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi á ákærði að baki nokkurn sakaferil. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 6. febrúar 2007 var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið í 3 ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr., 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi sama dómstóls 5. nóvember 2010 var ákærði dæmdur í 11 mánaða fangelsi, þar af 8 mánuði skilorðsbundið í 3 ár, meðal annars fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og var skilorðsdómurinn frá 6. febrúar 2007 þá dæmdur upp. Brot þau sem ákærði er nú sakfelldur fyrir voru að hluta framin áður en dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. nóvember 2010 var kveðinn upp og að hluta eftir það. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga verður skilorðshluti þess dóms tekinn upp og ákærða gerð refsing fyrir bæði málin í einu lagi eftir reglum 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Líkamsárás ákærða var ófyrirleitin og þá hefur hann áður verið dæmdur fyrir líkamsárás. Verður því við mat á refsingu hans höfð hliðsjón af 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Þá er til þess að líta að fíkniefnabrot það, sem greinir í kafla I í ákæru 15. maí 2012 og hann er nú sakfelldur fyrir, framdi hann í félagi við annan mann, sbr. 2. mgr. 70. gr. laganna. Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði er í máli þessu dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. og 45. gr. a. umferðarlaga en hann hefur áður gerst sekur um um sams konar brot og var sviptur ökurétti í tvö ár frá 25. febrúar 2009 samkvæmt viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2009. Samkvæmt því og með vísan til 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga verður ákærði sviptur ökurétti í 3 ár frá uppsögu dóms að telja.
Brotaþoli hefur krafist miskabóta að fjárhæð 400.000 krónur. Miðað við þær afleiðingar líkamsárásarinnar sem sannaðar eru í málinu verður krafa hennar tekin til greina með 250.000 krónum ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Bergþór Ásgeirsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti í 3 ár frá uppsögu dóms þessa að telja.
Ákærði greiði brotaþola, A, 250.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. september 2010 til 9. maí 2012 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samtals, 294.016 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2012.
Málið er höfðað með tveimur ákæruskjölum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á hendur ákærða, Bergþóri Ásgeirssyni, kt. [...], [...], [...].
Í fyrsta lagi er málið höfðað með ákæru, dagsettri 24. apríl sl., fyrir líkamsárás, með því að hafa laugardaginn 25. september 2010, í blokkaríbúð að [...] í Reykjavík, ráðist á A og slegið hana hnefahöggi í andlitið, með þeim afleiðingum að hún nefbrotnaði og hlaut mar og yfirborðsáverka á kinnbeini.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu gerir A þá kröfu að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta samtals að fjárhæð kr. 400.000,-með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. september 2010, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, frá þeim degi er árásarmanni er kynnt krafa þessi til greiðsludags. Þá er þess jafnframt krafist að ákærða verði gert að greiða A málskostnað að skaðlausu, skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti, fyrir að halda fram bótakröfu sinni í málinu.
Í öðru lagi er málið höfðað á hendur ákærða með ákæru dagsettri 15. maí sl.
I.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, í félagi við Y, miðvikudaginn 5. maí 2010, að [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 254,45 g af kannabislaufum, 552,49 g af kannabisstönglum og 40 kannabisplöntur, og hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur.
007-2010-28447
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
II.
Fyrir eftirtalin brot:
1. Umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 15. maí 2010, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í útöndunarlofti mældist 0,54 mg/l) og með 92 km hraða á klst., vestur Sæbraut að Höfðatúni í Reykjavík, þar sem leyfður hámarkshraði var 60 km á klst., uns lögregla stöðvaði aksturinn.
007-2010-31186
Telst þetta varða við 1., sbr. 3. mgr. 37. gr., 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
2. Umferðarlagabrot og stórfelld eignaspjöll, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 1. ágúst 2010, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa fíkniefna (MDMA í blóði mældist 380 ng/ml.), frá [...] í [...], austur Suðurlandsveg og suður Landeyjahafnarveg (nr. 254) Rangárþingi eystra, og þar án nægjanlegrar aðgæslu eða varúðar, með þeim afleiðingum að hann ók bifreiðinni á og utan í alls níu bifreiðar (fastnr. [...], [...], [...], [...], [...], [...], [...], [...]og [...]) sem stóðu við Landeyjaveg (254), og olli þannig tjóni á bifreiðunum samtals að fjárhæð 3.585.253,- og jafnframt með því að hafa ekki sinnt lögboðnum skyldum sínum við umferðaróhapp, en ákærði tilkynnti hvorki tjónþola né lögreglu um tjónið.
031-2010-2439
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 4. gr., 2. mgr. 10. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
3. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 9. janúar 2011, á skemmtistaðnum [...] við [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,37 g af maríhúana, sem ákærði framvísaði til lögreglu.
007-2011-1724
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
4. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 5. júní 2011, á veitingastaðnum [...], í [...] við [...] í [...], haft í vörslum sínum 4,27 g af kókaíni, sem lögreglan fann og lagði hald á inn á salerni staðarins.
007-2011-34298
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.
5. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfararnótt sunnudagsins 22. janúar 2012, á skemmtistaðnum [...], við [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,31 g af amfetamíni, sem lögreglumenn fundu við leit á ákærða.
007-2012-3720
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er jafnframt krafist að ákærða verði gert að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum. Krafist er upptöku á 254,45 g af kannabislaufum, 552,49 g af kannabisstönglum, 40 kannabisplöntum, 0,31 g af amfetamíni, 0,37 g af maríhúana og 4,27 g af kókaíni, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er krafist upptöku á 10 gróðurhúsalömpum, 3 loftdælum, 1 kolasíu, 9 vatnsdælum, 1 rafmagnstöflu og 1 raka- og hitamæli, samkvæmt 7. mgr. 5. gr. sömu laga, en munirnir voru notaðir til framleiðslu kannabisplantnanna og lagt var hald á þá í máli 007-2010-28447.
Það athugast að þáttur Y var skilinn frá málinu og dæmdur sér hinn 8. júní 2012.
Ákæra, dagsett 24. apríl 2012.
Málavextir
Miðvikudaginn 29. september 2010 kom á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík A, kt. [...], og kærði yfir því að hinn 25. sama mánaðar hefði hún orðið fyrir líkamsárás í íbúð í [...]. Hefði hún verið stödd þar í samkvæmi og hefði annar gestur slegið hana vinstra megin í andlitið svo að hún féll við. Kvaðst hún hafa nefbrotnað við þetta og misst sjón tímabundið á vinstra auga. A leitaði samdægurs með meiðsli sín til slysadeildar Landspítalans í Fossvogi. Segir í staðfestu vottorði Harðar Ólafssonar læknis segir að við tölvusneiðmynd af höfði hafi komið í ljós nánast ótilfært brot í vinstri hluta nefbeins. Þá hafi mjúkvefir þar verið mjög bólgnir og blætt hafði undir húð framan við vinstra kinnbein.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 22. október 2010. Kvaðst hann hafa verið mjög ölvaður í umrætt sinn þó en muna nokkuð vel eftir sér í samkvæminu í [...] ásamt þremur kunningjum sínum, B, C og C. Neitaði hann hafa slegið stúlku og hlyti einhver annar en hann að eiga þar hlut að máli. Hann kvaðst ekki muna eftir átökum í samkvæminu og kvaðst hafa yfirgefið það ásamt félögum sínum og þeir ekið á brott.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði segist ekki muna eftir neinu sem gerðist í samkvæminu. Hann kveðst hafa verið mjög drukkinn. Hann neitar því að hafa slegið A.
A hefur skýrt frá því að hún hafi verið um stund í samkvæminu þegar ákærði kom þar og var hann kynntur fyrir þeim sem fyrir voru. Hafi hún ekki sagt annað við hann en að hann væri með „flottan“ hatt. Kærasti hennar hafi svo komið í samkvæmið og þau tvö farið út á svalir en þar hafi einnig verið kunningi kærastans. Hafi þau svo verið á leið úr samkvæminu en þá mætt ákærða í stofunni sem þá hafi sagt við hana að hún hefði verið að pirra hann allt kvöldið. Hafi hún andmælt því. Hafi hann þá endurtekið þessi orð en kærasti hennar komið á milli þeirra og beðið ákærða að láta hana í friði og kallað ákærða asna. Hafi hún þá fengið hnefahögg í andlitið svo að hún féll við. Við þetta hafi orðið uppnám og hafi ákærði og vinir hans hlaupið út og niður stigann. Hafi þeir ekið á brott. Hún hafi nefbrotnað og marist í andliti um augun og niður á kjálka. Kveðst hún hafa orðið fyrir andlegu áfalli við þetta og getur þess að hún hefði verið nýbúin að ná sér af áfalli eftir bílslys. Hafi þetta orðið til þess að hún féll saman, einangraðist og fylltist kvíða, sem hún sé enn að kljást við. Hún kveðst hafa verið búin að neyta áfengis þegar þetta gerðist en ekki verið drukkin.
E, kærasti A, hefur skýrt frá því hann hafi komið í samkvæmið að beiðni hennar eftir að hún hringdi þaðan og sagði að henni litist ekki á suma gestina. Hann kveðst hafa verið allsgáður. Hafi hann verið í rúman klukkutíma þarna og hafi hann að mestu verið úti á svölum að spjalla við fólk þar. Þegar þau A hafi verið á leið út hafi ákærði, sem hafi virst vera í annarlegu ástandi, kvartað við A yfir því að hafa verið að skaprauna honum í samkvæminu en hún andmælt því. Kveðst hann hafa sagt honum að þegja. Kveðst hann hafa verið á milli hennar og ákærða og séð ákærða reiða til höggs. Hafi honum fundist það beinast að sér og vikið sér undan en hnefahögg ákærða þá lent á henni. Húsráðandinn hafi komið þarna að og ákærði og fleiri piltar þá hlaupið út. Hafi mennirnir farið á brott á bíl. Hann segir A hafa bólgnað upp og virst vera brotin. Sé hún ekki búin að ná sér eftir höggið og finni fyrir eymslum og kulda í andlitinu.
Fyrir dóminn hafa komið þrjú önnur vitni sem voru stödd í samkvæminu. Ekkert þeirra sá atvikið og eru ekki efni til þess að rekja framburð þeirra hér.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök og ber við minnisleysi. Tvö vitni, A og E, sem dómurinn metur áreiðanleg, hafa borið að ákærði hafi slegið A hnefahögg. Verður að telja þetta sannað í málinu. Þá telst sannað með vætti þeirra og staðfestu vottorði Harðar læknis Ólafssonar að konan hlaut þá áverka sem lýst er í ákærunni. Hefur ákærði með þessu orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og skiptir hér ekki máli þótt ákærði kunni að hafa ætlað öðrum höggið.
Ákæra, dagsett 15. maí 2012.
I.
Málavextir
Fyrir liggur að lögregla gerði húsleit í bílskúr í [...] hér í borg hinn 5. maí 2010 og fundust þá lifandi kannabisplöntur og plöntuhlutar auk búnaðar eins og tilgreint er í ákærunni. Meðal annarra gagna eru í málinu leigusamningur ákærða við leigusalann og reikningur frá F á fyrirtæki [...] ákærða, G ehf., fyrir úttekt byggingarefni 14. apríl 2010. Í málinu er myndupptaka úr verslun Húsasmiðjunnar þann dag sem sýnir ákærða og Y fara þar um í erindum sínum.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 9. júní 2010 og var yfirheyrslan tekin upp í hljóð og mynd. Í fyrstu neitaði ákærði því að eiga nokkurn þátt í fíkniefnabrotinu en að því kom að hann kannaðist við það að eiga hlut að máli. Kvaðst hann hafa komið í húsnæðið í nokkur skipti og hjálpað Y að einhverju leyti. Hefðu þeir verið að fylgjast með því hvort ekki væri kveikt á öllu og jafnframt sett næringarefni í vatnið. Þá hefði hann hjálpað Y að setja upp tjald sem plönturnar voru hafðar á bak við og ræktunin þá verið komin í gang. Hefðu plönturnar verið 30 til 40 talsins og þarna hefðu verið 4 eða 5 lampar. Þá sagðist hann örugglega hafa getað fengið eitthvað fyrir hjálpina. Kvaðst hann halda að hver planta hefði getað gefið af sér 30 40 grömm. Hann kvaðst síðast hafa komið í skúrinn skömmu áður en lögreglan stöðvaði ræktunina. Hann sagði þá Y eiga ræktunina saman og hefðu þeir áreiðanlega skipt með sér afrakstrinum til helminga. Hefði hluti af uppskerunni verið ætlaður til eigin neyslu en hluta hefði átt að selja. Hann kvaðst halda að aldrei hefði komið til þess að leiga hefði verið greidd. Þá kannaðist hann við að hafa skrifað undir leigusamninginn. Hann kvað Y hafa verið með lykla að húsnæðinu, nema í þær 2 eða 3 vikur sem hann hefði verið með lyklana.
Y var einnig yfirheyrður hjá lögreglu þennan sama dag. Gekkst hann við sínum þætti í málinu en sagði ákærða ekki hafa haft neitt með starfsemina að gera. Hefði ákærði aðeins tekið að sér að skrifa undir leigusamninginn og eins hefði hann tekið að sér að greiða leiguna með peningum sem hann, Y, lét ákærða fá.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði neitar sök og segir vin sinn, Y, hafa komið að máli við sig og beðið um að hann léði nafn sitt við leigusamning þar sem hann væri gjaldþrota. Kveðst ákærði hafa orðið við þessu. Hann hafi ekki vitað hvað Y ætlaði sér með húsnæðið en getur þess að Y hafi verið atvinnulaus á þessum tíma og líklega ætlað að „búa sér til peninga“. Kveðst hann einskis hafa spurt. Hann kveðst ekki muna til þess að hafa greitt leiguna af þessu húsnæði. Þó geti Y hafa látið sig hafa peninga til þess að greiða leiguna. Um reikning frá F á „G“, fyrirtæki [...] hans, sem fannst í húsnæðinu segir ákærði að hann hafi farið með Y í verslunina og lánað honum úttekt þar, enda hafi Y verið félaus. Hann kveðst ekki hafa vitað til hvers nota átti þessar vörur og Y ekki sagt það heldur. Ekki muni hann hvaða vörur þetta voru. Um það sem hann sagði í lögregluyfirheyrslu segir ákærði það að hann hafi verið vakinn af svefni í fangaklefa til skýrslugjafarinnar og geti hann ekki staðið við þann framburð. Kveðst hann hafa játað brot sitt til þess að losna úr höndum lögreglunnar. Hann kveðst ekki hafa verið með aðgang að húsnæðinu andstætt því sem hann sagði í lögregluyfirheyrslunni. Hafi hann komið þar einu sinni eða tvisvar til þess að skoða húsnæðið sem þá hafi verið tómt. Muni þetta hafa verið fljótlega eftir gerð leigusamnings. Hann neitar því að hafa komið þar eftir að ræktunin hófst til þess að sinna plöntunum. Þó hafi hann farið einu sinni inn þarna með Y þegar hann fór til þess að vökva plöntunum og „gera eitthvað.“ Hann kveðst hafa verið í fíkniefnaneyslu á þessum tíma. Ákærði ítrekar að hann hafi ekki átt að fá hluta af ágóðanum heldur hafi Y ætlað að greiða upp í skuld sína við ákærða.
Y hefur skýrt frá því að hann hafi einn átt og rekið starfsemina í bílskúrnum. Hafi hann einn staðið að þessu fyrirtæki og ágóðinn af því ekki verið ætlaður öðrum. Hins vegar hafi hann ætlað sér að greiða skuld við ákærða með fé sem hann fengi út úr þessu. Ákærði hafi ekki gert annað en að skrifa undir samninginn þar sem hann var á vanskilaskrá. Þá hafi hann tekið að sér að greiða leiguna með peningum sem vitnið lét hann fá. Loks hafi hann leyft að teknar væru út vörur í nafni fyrirtækis [...] ákærða. Hafi vörurnar verið ætlaðar í ræktunina. Ákærði hafi í ekki vitað hvað til stóð og fram fór, enda einskis spurt. Hafi hann ekki vitað þarna fór fram fyrr en eftir að málið komst upp. Hafi hann aðeins komið inn í ytra skilrúmið geti ekki hafa séð það sem var fyrir innan.
Bjarni Ólafur Magnússon lögreglumaður hefur skýrt frá því að mikill raki hafi verið í húsnæðinu þegar leitin var gerð. Inn um glugga hafi mátt sjá dæmigerð ræktunarljós á bak við tjald sem skipti rýminu.
Stefán Sveinsson lögreglumaður hefur komið fyrir dóm og sagt að skýrslutakan af ákærða hafi verið með hefðbundnu sniði og ekkert óvenjulegt borið við í henni. Ekki kveðst hann minnast þess að ákærði hafi verið illa fyrir kallaður þegar hann gaf skýrslu sína.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök fyrir dómi og kveðst ekki hafa haft með ræktunina að gera. Þá hefur hann skýrt aðkomu sína að leigumálanum og innkaupunum í F. Þá er þess að gæta að Y hefur borið með ákærða og sagst einn hafa staðið að ræktuninni og ákærði ekki vitað hvað fram fór í bílskúrnum. Dómurinn álítur framburð ákærða og Y um það að ákærði hafi ekki vitað af starfseminni frá upphafi vera ótrúlegan. Ákærði játaði í yfirheyrslu hjá lögreglu að eiga í ræktuninni í félagi við Y og að hafa átt að fá hlutdeild í hagnaðinum af henni. Yfirheyrsla þessi var tekin upp í hljóð og mynd og verður ekki annað séð en að hún hafi farið óaðfinnanlega fram. Skýring ákærða á breyttum framburði sínum í málinu er ótrúverðug. Þykir mega leggja játningu ákærða hjá lögreglu til grundvallar í málinu og telja ákærða vera sekan um það athæfi sem hann er ákærður fyrir. Hefur hann með því brotið gegn 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.
II.
Ákærði hefur skýlaust játað þau brot sem hann er saksóttur fyrir í II. kafla ákærunnar. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.
Viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði á, samkvæmt sakavottorði, að baki nokkurn sakaferil, sem nær aftur til ársins 2004. Hefur honum verið refsað tíu sinnum áður, aðallega fyrir umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot. Þá hefur honum einnig verið refsað fyrir þrjár líkamsárásir og fyrir frelsissviptingu. Ákærði telst hafa rofið skilorð refsidóms frá 5. nóvember 2011. Ber að dæma upp skilorðshluta þess dóms, 8 mánuði, og gera ákærða refsingu í einu lagi. Refsing ákærða, sem er hegningarauki að hluta, þykir þannig hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
Dæma ber ákærða til þess að vera sviptur ökurétti í 3 mánuði frá dómsbirtingu að telja.
Dæma ber ákærða til þess að sæta upptöku á 806,94 g af kannabisplöntuhlutum og 40 heilum plöntum, 10 lömpum, 3 loftdælum, kolasíu, 9 vatnsdælum, rafmagnstöflu og raka- og hitamæli.
Að kröfu A ber að dæma ákærða til þess að greiða henni 400.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38, 2001, frá 25. september 2010 til 9. maí 2012 að telja en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá dómsuppsögu til greiðsludags.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Borgari Þór Einarssyni hrl, 450.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.
Dæma ber ákærða til þess að greiða lögmanni brotaþola, Agnari Þór Guðmundssyni hdl., 150.000 krónur í þóknun fyrir að halda fram bótakröfunni í málinu.
Annan sakarkostnað, 530.377 krónur, ber að dæma ákærða til þess að greiða.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Bergþór Ásgeirsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti í 3 mánuði frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði sæti upptöku á 806,94 g af kannabisplöntuhlutum og 40 heilum plöntum, 10 lömpum, 3 loftdælum, kolasíu, 9 vatnsdælum, rafmagnstöflu og raka- og hitamæli.
Ákærði greiði A 400.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 25. september 2010 til 9. maí 2012, en með dráttarvöxtum frá dómsuppsögu til greiðsludags.
Ákærði greiði verjanda sínum, Borgari Þór Einarssyni hdl, 450.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði greiði lögmanni brotaþola, Agnari Þór Guðmundssyni hdl., 150.000 krónur í þóknun.
Ákærði greiði 530.377 krónur í annan sakarkostnað.