Hæstiréttur íslands

Mál nr. 330/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Matsgerð
  • Endurskoðun mats


                                     

Föstudaginn 15. maí 2015.

Nr. 330/2015.

Vegagerðin

(Guðni Ásþór Haraldsson hrl.)

gegn

Ósafli sf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Kærumál. Matsgerð. Endurskoðun mats.

V kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni Ó sf. um að sérfróðir menn, sem dómkvaddir höfðu verið til að framkvæma mat í máli Ó sf. gegn V samkvæmt matsgerð þess fyrrnefnda og annarra matsbeiðenda, endurskoðuðu matsgerð sína í tilteknum greinum. Í dómi Hæstaréttar var talið að með samanburði á hluta matsspurninganna og svara matsmanna við þeim yrði að fallast á að svörin væru ekki fyllilega í samræmi við það sem spurt hefði verið um í matsbeiðni. Var því tekin til greina krafa Ó sf. um að matsmenn endurskoðuðu svör sín við umræddum spurningum í viðbótarmatsgerð, að undangengnum matsfundi þar sem aðilum yrði gefinn kostur á að láta þeim í té frekari gögn og tjá sig um þau eftir þörfum, sbr. 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hvað aðrar matsspurningar snerti var hins vegar talið að krafa Ó sf. væri einkum fólgin í því að matsmenn útskýrðu svör sín nánar. Slíkt réttlætti ekki kröfu um að matsmenn endurskoðuðu svör sín í viðbótarmatsgerð, heldur gætu aðilar krafist þess að þeir kæmu fyrir dóm og gæfu skýrslu til skýringar á þessum atriðum og öðrum sem tengdust matsgerð þeirra, sbr. 65. gr. laga nr. 91/1991. Var því hafnað kröfu Ó sf. um að matsmenn endurskoðuðu svör sín við þeim matsspurningum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2015 þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um endurskoðun á matsgerð sem hann lagði fram á dómþingi 5. febrúar sama ár. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt beiðni varnaraðila og tveggja annarra fyrirtækja, sem höfðu tekið að sér í sameiningu að annast gerð svonefndra Bolungarvíkurganga á grundvelli útboðs sóknaraðila, voru 5. september 2014 dómkvaddir tveir sérfróðir menn til að leggja mat á tiltekin atriði sem vörðuðu gangagerðina. Áður hafði varnaraðili höfðað mál á hendur sóknaraðila til heimtu skaðabóta sökum þess að hann taldi að aðstæður við gröft ganganna hefðu hentað verr en útboðsgögn gáfu til kynna, einkum hefði „uppgefið magn bergstyrkinga“ í útboðsgögnum gefið afar villandi mynd af því verki sem raunverulega hefði þurft að vinna. Í matsbeiðninni sagði meðal annars að í málinu hafi varnaraðili „sett kröfu sína fram með því að bera annars vegar saman þann kostnað sem hann hefði haft af verkinu miðað við þau berggæði og styrkingarmagn sem ætla mátti af efni útboðsgagna og hins vegar eins og vinna þurfti verkið í raun.“ Varakrafa varnaraðila væri reiknuð út „með tilliti til kostnaðar við þá töf sem varð frá verkáætlun, þ.e. útfrá biðtímakostnaði.“ Óskað væri „eftir áliti matsmanna varðandi viðurkenndar aðferðir við kostnaðarútreikning og tilboðsgerð fyrir“ tilgreinda liði og að þeir legðu mat á „hvort forsendur og aðferðarfræði sem matsbeiðendur nota ... hafi verið í samræmi við slíkar venjur.“ Jafnframt voru matsmenn beðnir „um að skýra frá og leggja mat á mikilvægi ákveðinna gagna sem fram koma í útboðslýsingu.“ Í beiðninni voru lagðar matsspurningar í 40 liðum fyrir hina dómkvöddu menn, sem þeim var ætlað að svara með því að sundurliða útreikninga og rökstyðja niðurstöður sínar, auk þess sem henni fylgdu gögn til afnota fyrir matsmenn. Matsgerð þeirra, sem undirrituð var 2. janúar 2015, var eins og áður greinir lögð fram í þinghaldi 5. febrúar sama ár.

Með erindi til héraðsdóms 4. febrúar 2015 óskuðu matsbeiðendur eftir því, með vísan til 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991, að hinir dómkvöddu menn endurskoðuðu matsgerð sína í tilteknum greinum. Í fyrsta lagi vísuðu matsbeiðendur til þess að matsmenn hafi í svari við 9. matsspurningu tilgreint að þeir hefðu „ekki sýn yfir einingaverð þau sem matsbeiðandi notar né aðrar breytistærðir“ en gætu „staðfest að aðferðafræðin sé stærðfræðilega rétt nálgun“. Þess væri óskað að matsmenn greindu „hvaða gögn og upplýsingar þeir þurfi að fá í hendur til að átta sig á uppbyggingu einingaverðanna og endurskoði svar sitt við spurningunni að svo búnu.“ Í öðru lagi væri ekki „að finna eiginlegt eða sjálfstætt svar við 11. spurningu heldur vísað til svars við spurningu nr. 9“. Þess væri óskað „að matsmenn afli þeirra gagna sem nauðsynleg eru til að svara spurningunni og endurskoði svar sitt þannig að ekki fari á milli mála hvert mat þeirra er.“ Í þriðja lagi fóru matsbeiðendur fram á að matsmenn „útskýri nánar“ tilvitnuð orð í svari þeirra við spurningu nr. 13. Í fjórða lagi kæmi fram í svari við spurningu nr. 14 í umfjöllun um töflu, sem sýndi skiptingu magns á milli sprautusteypu, styrktarstáls, bergbolta og bergbanda, að matsmenn hefðu „ekki forsendur til að meta hvort einhverju skeiki í ofanrituðu.“ Óskað væri að þeir upplýstu „hvaða „forsendur“, gögn eða upplýsingar þá skorti til að staðreyna magntölur og þá útreikninga sem er að finna í töflunni og endurskoði svar sitt ef viðeigandi gögn eða útskýringar koma fram.“ Í fimmta lagi var farið fram á að matsmenn „útskýri“ tilvitnuð orð í svari þeirra við spurningu nr. 27 og „hvort þeir hafi kynnt sér einhver dæmi þess að verktaki geti skipulagt verk sitt eða haft viðhorf og áherslur sem geri honum kleift að halda forsendum einingaverða óbreyttum þótt graftrarhraði breytist.“ Í sjötta lagi hafi matsmenn ekki svarað efnislega spurningu nr. 32 og var óskað eftir að það yrði gert „með sundurliðun og rökstuðningi“ sem við ætti. Það svar kynni að leiða til þess að nauðsynlegt yrði að svara spurningu nr. 33 sem ekki væri gert í matsgerðinni. Í sjöunda lagi fóru matsbeiðendur fram á að matsmenn „útskýri nánar og afli eftir atvikum gagna um það“ að hvaða marki eðlilegt væri að gera ráð fyrir „margháttaðri óvissu“ og að hún yrði öll „á versta veg“ eins og það væri orðað í svari þeirra við spurningu nr. 34. Í áttunda lagi hafi matsmenn tiltekið í lok svars síns við spurningu nr. 35 „að þeir geti ekki beinlínis „staðhæft“ um niðurstöðu sína er varðar kostnað milli tygjunar og viðkomandi einingarverða.“ Þess væri „óskað að matsmenn tiltaki hvaða gögn skorti til að staðreyna uppbyggingu þeirra einingarverða sem spurt er um ... og að svarið verði endurskoðað að því búnu.“ Í níunda lagi tækju matsmenn fram í svari við spurningu nr. 36 „að tilboð verktakans í „tygjun“ sé hlutfallslega hátt og að ætla megi að í þeim kostnaðarlið felist umtalsverður kostnaður við aðra verkþætti“, en einnig var því haldið fram af matsbeiðendum að svarið við spurningunni væri „lítt afdráttarlaust.“ Þess væri „óskað að matsmenn afli gagna er varða uppbyggingu einingarverða í verkinu og endurskoði að því búnu svör sín.“ Í tíunda lagi hafi matsmenn í svari við spurningu nr. 38 nefnt „að aukning bergstyrkinga nærri stafni valdi lengingu verktíma.“ Farið væri fram á „að matsmenn útskýri hvers vegna styrkingar á öðrum stöðum valdi ekki samsvarandi drætti.“ Í ellefta lagi segðu matsmenn í svari við spurningu nr. 39 það „líklegt“ að hið aukna styrkingarmagn næði ekki yfir allan viðbótarkostnað sem hægari framvinda ylli en það væri þó ekki „algerlega einhlítt“. Í erindi matsbeiðenda var tekið fram að svarið fæli „í sér almennan fyrirvara sem óskað er eftir að verði skýrður nánar, t.d. að lokinni gagnaöflun um uppbyggingu [á] einingaverðum og greiningu á kostnaði við tafir í verkinu sem um ræðir. Og þá eftir atvikum hvort að hinn almenni fyrirvari eigi við í því verkefni sem hér um ræðir.“

II

Samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 kveður héraðsdómari einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Í beiðni skal meðal annars koma skýrlega fram hvað eigi að meta og hvað aðili hyggist sanna með mati. Af síðastgreindum fyrirmælum leiðir að matsbeiðandi verður að bera hallann af því ef beiðni hans er ekki nægilega skýrt orðuð.

Í öðrum málslið 2. mgr. 62. gr. sömu laga er kveðið á um að aðilum og dómara beri að veita matsmanni leiðbeiningar eftir föngum um matsatriði. Jafnframt segir í þriðja málslið að matsmanni sé rétt að afla sér gagna til afnota við matið, en aðilum, sem séu viðstaddir matsfund, skuli þá gefinn kostur á að tjá sig um þau eftir þörfum. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laganna skal matsmaður semja rökstudda matsgerð þar sem þau sjónarmið eru greind sem álit hans er reist á. Með hliðsjón af þeirri meginreglu einkamálaréttarfars að aðilar máls hafa forræði á sönnunarfærslu verður að skýra hin tilvitnuðu ákvæði svo að sú skylda hvíli á matsmanni að líta fyrst og fremst til þeirra gagna, sem matsbeiðandi og matsþoli láta honum í té, auk þess sem honum sé rétt að afla annarra gagna telji hann það nauðsynlegt til að láta í ljós álit á því sem meta skal.

Samkvæmt 65. gr. laga nr. 91/1991 ber matsmanni að koma fyrir dóm, að kröfu aðila, til að gefa skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð og um atriði sem tengjast henni. Eins og 1. mgr. 103. gr. laganna er orðuð er ekkert því til fyrirstöðu að matsmaður gefi skýrslu fyrir dómi áður en aðalmeðferð máls hefst svo að annar hvor málsaðila geti eftir atvikum tekið afstöðu til þess, að skýrslugjöf lokinni, hvort ástæða sé til að krefjast frekara mats eða yfirmats á grundvelli 64. gr. laganna.

Eftir síðari málslið 1. mgr. 66. gr. sömu laga úrskurðar dómari um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar, svo sem hvort það hafi verið metið sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningu eða hvort matsgerð sé nægilega rökstudd, ef ágreiningur rís um kröfu um endurskoðun hennar eða endurmat. Eins og að framan greinir hafa matsbeiðendur, þar á meðal varnaraðili, óskað eftir því á grundvelli þessa ákvæðis að hinir sérfróðu menn, sem dómkvaddir voru til að framkvæma mat á grundvelli beiðni þeirra, endurskoði matsgerð sína í tilteknum greinum. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að héraðsdómi hafi verið unnt að taka afstöðu til þessa erindis án þess að sérfróðir meðdómsmenn tækju áður sæti í dóminum.

Athugasemdir matsbeiðenda varðandi svör hinna dómkvöddu manna við matsspurningum nr. 9, 11, 14, 32, 33, 35 og 36 lúta að því, eins og áður greinir, að þeir hafi ekki svarað spurningunum á fullnægjandi hátt og er því ýmist beint til þeirra að þeir afli sjálfir gagna eða tilgreini gögn sem nauðsynleg séu til að svara þeim. Með samanburði á fyrrgreindum spurningum og svörum matsmanna við þeim má fallast á að svörin séu ekki fyllilega í samræmi við það sem spurt var um. Á hinn bóginn verður ekki ráðið af svörunum hvort matsmenn telji að engin leið sé til að veita svör við spurningunum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 13. febrúar 2012 í máli nr. 78/2012, eða hvort það sé unnt að fengnum frekari upplýsingum. Að framansögðu virtu verður tekin til greina krafa varnaraðila um að matsmenn endurskoði svör sín við umræddum spurningum í viðbótarmatsgerð, að undangengnum matsfundi þar sem aðilum verði gefinn kostur á að láta þeim í té frekari gögn og tjá sig um þau eftir þörfum, sbr. 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt taki matsmenn til athugunar hvort þeir telji rétt að hafa sjálfir frumkvæði að gagnaöflun til að veita svör við þessum matsatriðum. Líti matsmenn svo á að ekki sé unnt að leggja frekara mat á þau en þeir hafa þegar gert ber þeim að rökstyðja þá afstöðu sína.

Athugasemdir matsbeiðenda, sem varða svör matsmanna við spurningum nr. 13, 27, 34, 38 og 39, eru einkum fólgnar í því að þeir útskýri svörin nánar. Slíkt réttlætir ekki kröfu um að matsmenn endurskoði svör sín í viðbótarmatsgerð, heldur geta aðilar krafist þess að þeir komi fyrir dóm og gefi skýrslu til skýringar á þessum atriðum og öðrum sem tengjast matsgerð þeirra, sbr. 65. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum verður hafnað kröfu varnaraðila um að hinum sérfróðu mönnum verði gert að endurskoða svör sín við síðastgreindum spurningum.

Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.     

Dómsorð:

Tekin er til greina krafa varnaraðila, Ósafls sf., um að dómkvaddir matsmenn skuli endurskoða svör sín við matsspurningum nr. 9, 11, 14, 32, 33, 35 og 36 í viðbótarmatsgerð. Kröfu varnaraðila er að öðru leyti hafnað.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl  2015.

Í þinghaldi 5. febrúar sl. lagði stefnandi fram matsgerð matsmanna sem dómkvaddir höfðu verið að beiðni stefnanda og Marti Contractors og ÍAV hf. þann 5. september 2014. Í þinghaldi 13. mars sl. var tekinn fyrir ágreiningur málsaðila um þá kröfu stefnanda og annarra matsbeiðenda að matsmenn endurskoði matsgerðina hvað varðar svör við tilteknum spurningum. Nánar tiltekið óska matsbeiðendur eftir því að endurskoðun fari fram á 11 af þeim 40 spurningum sem lagðar voru fyrir matsmennina. Matsbeiðendur telja að matið sé enn ófullgert.  Krafa þeirra er byggð á 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi krafðist þess að kröfunni yrði hafnað og að stefnanda yrði gert að greiða honum málskostnað vegna þessa þáttar málsins að mati réttarins. Lögmenn aðila gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum og að því loknu var ágreiningurinn tekinn til úrskurðar.

Matsmenn voru dómkvaddir til að leggja mat á tiltekin atriði er varða gerð Bolungarvíkurganga sem hófst árið 2008 og lauk endanlega í september árið 2010. Eins og lýst er í matsbeiðni höfðaði stefnandi Ósafl sf. málið sökum þess að hann telur að aðstæður við gangagröftinn hafi verið verri en útboðsgögn stefnda hafi gefið til kynna. Einkum hafi uppgefið magn bergstyrkinga í útboðsgögnum gefið villandi mynd af því verki sem raunverulega hafi þurft að vinna. Bergstyrkingar hafi aukist margfalt umfram áætlun og við það hægst á gangagreftrinum sjálfum. Rakið er í matsbeiðni að stefnandi hafi sett fram kröfu á hendur stefnda með því að bera annars vegar saman þann kostnað sem hann hefði haft af verkinu miðað við þau berggæði og styrkingarmagn sem ætla hefði mátt af efni útboðsgagna og hins vegar eins og vinna þurfti verkið í raun. Í varakröfu stefnanda sé umrætt tjón reiknað út með tilliti til kostnaðar við þá töf sem hafi orðið frá verkáætlun, þ.e. út frá biðtímakostnaði.

Í matsbeiðni var m.a. óskað eftir áliti matsmanna varðandi viðurkenndar aðferðir við kostnaðarútreikning og tilboðsgerð fyrir slíka liði og að metið yrði hvort forsendur og aðferðarfræði sem matsbeiðendur nota, sbr. dómskjöl, hafi verið í samræmi við slíkar venjur. Jafnframt voru matsmenn beðnir um að skýra frá og leggja mat á mikilvægi ákveðinna gagna sem fram komu í útboðslýsingu.

Stefnandi heldur því fram að nokkur svör matsmanna svari ekki fyllilega þeim spurningum sem lagðar hafi verið fyrir þá eða þá að gerður sé fyrirvari í þeim um skort á gögnum eða upplýsingum. Af þeim sökum telur hann að matið komi ekki að fullum notum við málsmeðferðina. Þessu megi bæta úr með því að dómari beini því til matsmanna að afla þeirra gagna sem þörf sé á til að svara spurningunum enda séu gögn og upplýsingar til reiðu hjá matsbeiðanda. Samkvæmt 2. og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 sé matsmanni „rétt að afla sér gagna til afnota við matið“ og sé skylt að veita matsmönnum aðgang að gögnum. Á þessum rökum er beiðni matsbeiðanda um að matsmenn endurskoði matsgerð sína byggð, sbr. enn fremur 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991.

Fyrirvarar matsbeiðenda lúta að 11 spurningum í matsbeiðni, þ.e. matsbeiðendur telja að svör við spurningum nr. 9, 13, 14, 27, 32, 43, 35, 36, 38 og 29, séu ófullnægjandi. Þá kemur fram í beiðni þeirra að endurskoðað svar við spurningu nr. 32 kunni að leiða til þess að nauðsynlegt verði að svara spurningu nr. 33. sem ekki er gert í matsgerðinni. Stefndi telur matsmennina hafa svarað matsspurningum með fullnægjandi hætt og ef ekki þá geti stefnandi leitað skýringa hjá þeim við aðalmeðferð. Auk þess telur stefndi nauðsynlegt að kveðja þegar til sérfróða meðdómendur í samræmi við 2. gr. laga nr. 91/1991 til að leggja mat á framangreindan ágreining.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga um meðferð einkamála getur héraðsdómari kvatt tvo sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi, ef hann telur þörf á sérkunnáttu til að leysa úr atriði sem ágreiningur er um í dómsmáli. Ekki verður fallist á það með stefnda að við mat á ágreiningi aðila um það hvort fallast beri á þá kröfu matsbeiðenda að matsmenn endurskoði matsgerðina, þ.e. svör við þeim 11 spurningum sem stefnandi telur að matsmenn hafi ekki veitt fullnægjandi svör við, þarfnist sérkunnáttu í dóminum. Á þessu stigi rekstrar málsins er því ekki þörf á því að meðdómsmenn taki sæti í dóminum

Athugasemdir matsbeiðenda við spurningar nr. 9, 11, 14, 35 og 36 eiga það sammerkt að þar er óskað er eftir því að matsmenn tilgreini hvaða gögn og upplýsingar skorti til að gera betur grein fyrir svarinu og/eða afli nauðsynlegra gagna til að geta svarað. Í því samhengi ber að líta á  2. og 3. mgr. 62. gr. laga 91/1991, þar sem kemur fram að  matsmanni er rétt að afla sér gagna til afnota við matið og er þeim sem hefur umráð þess sem matsgerð lýtur að að meginreglu til skylt að veita matsmanni aðgang að því. Af þessum ákvæðum er ljóst að sú skylda hvílir á matsmönnum að afla nauðsynlegra gagna til að framkvæma það mat sem þeir eru dómkvaddir til, sbr. 61. og 63. gr. laga nr. 91/1991. Hvað varðar athugasemdir stefnanda við svör við öðrum spurningum en þeim sem taldar voru upp hér að framan, þ.e. spurningum nr. 13, 27, 32 (33), 34, 38 og 39, þá óskar stefnandi þess að ákveðnar staðhæfingar í svörum matsmanna við þeim verði betur endurskoðaðar, þ.e. útskýrðar og rökstuddar, þ. á m. orð eins og „forsendur“ „eðli málsins samkvæmt“ og „einhlítt“ og eftir atvikum að gagna sé aflað í tengslum við endurskoðun þessara svara.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991 ber matsmönnum að semja rökstudda matsgerð þar sem þau sjónarmið eru greind sem álit hans eru reist á. Á þeim hvílir einnig sú skylda, eins og áður var vikið að, að afla nauðsynlegra gagna til afnota við matið samkvæmt 2. mgr. 62. gr. sömu laga. Matsbeiðendur hafa fært rök fyrir því að endurskoðun svara við nánar tilgreindum matsspurningum skipti máli fyrir sönnunarfærslu stefnanda, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, auk þess sem matsbeiðandi ber áhættu af notagildi matsgerðar og kostnaði við öflun hennar.

Samkvæmt öllu framanrituðu eru ekki efni til að meina matsbeiðendum að leita endurskoðunar um þau atriði sem beiðni hans tekur til. Er því fallist á það að matsmönnum verði gert að beiðni stefnanda/matsbeiðenda, um að matsmenn endurskoði matsgerð sína í þeim greinum sem tilgreindar eru í beiðni matsbeiðenda.

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Matsmenn skulu endurskoða matsgerð sína samkvæmt beiðni matsbeiðenda.