Hæstiréttur íslands

Mál nr. 65/2016

Arion banki hf. (Reimar Pétursson hrl.)
gegn
Júlíusi Þór Gunnarssyni, Kristbirni Óla Guðmundssyni, Magnúsi Valþórssyni og Þorsteini Arnari Einarssyni (Gísli Guðni Hall hrl.)

Lykilorð

  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Samningur
  • Aðfarargerð

Reifun

A hf. höfðaði málið til greiðslu skuldar vegna yfirdráttar á veltureikningi nr. 9867 í eigu tiltekins einkahlutafélags og sem J o.fl. höfðu gengist undir óskipta sjálfskuldarábyrgð vegna. Í héraði var krafa A hf. tekin til greina hvað félagið varðaði en J o.fl. sýknaðir. Fyrir lá að á framhlið yfirlýsingarinnar um sjálfskuldarábyrgð J o.fl. hafði verið strikað yfir prentaða númerið 8598, sem var númer þess reiknings sem ábyrgðin átti að taka til, og handskrifað í stað þess númerið 9867. A hf. hélt því fram að þessi leiðrétting hefði verið gerð áður en J o.fl. rituðu undir bakhlið skjalsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A hf. hefði engar sönnur fært fyrir því hvenær þessi leiðrétting hefði verið gerð og var því lagt til grundvallar að það hefði verið gert eftir undirritunina. Þá var vísað til þess að A hf. bæri sönnunarbyrði fyrir því að J o.fl. hefðu vitað eða mátt vita að tilgreining reikningsnúmers á eyðublaðinu hefði verið misritun eða gerð vegna annarra mistaka af hans hálfu, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Voru J o.fl. því sýknaðir af kröfu A hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2016. Hann krefst þess að stefndu verði ásamt meðstefnda í héraði, LERR ehf., sameiginlega gert að greiða sér 10.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. júní 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður í héraði verði lækkaður.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Einkahlutafélagið LERR hefur ekki áfrýjað héraðsdómi af sinni hálfu.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var númer reiknings þess, sem sjálfskuldarábyrgð stefndu skyldi taka til, tilgreint með prentuðu letri 8598 á eyðublaði sem þeir undirrituðu til staðfestingar á ábyrgðinni. Áfrýjandi heldur því fram að leiðrétting sú, sem gerð var með því að strika yfir þetta númer og handskrifa í stað þess númerið 9867 hafi verið gerð áður en stefndu rituðu undir skjalið. Áfrýjandi hefur engar sönnur fært fyrir því hvenær þessi leiðrétting var gerð og verður því lagt til grundvallar að það hafi verið gert eftir undirritunina.

Á þeim tíma þegar stefndu rituðu undir sjálfskuldarábyrgð þá, sem í málinu greinir, var LERR ehf. með tvo reikninga hjá áfrýjanda, sem báru framangreind númer og munu hafa verið stofnaðir um mitt ár 2009. Samkvæmt gögnum málsins voru þeir báðir í notkun frá stofnun þeirra og fram eftir árinu 2013. Reikningur 8598 var samkvæmt því sem fram kemur í reikningsyfirlitum yfirdreginn í mun minna mæli en reikningur 9867. 

Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga gildir sú regla, að hafi löggerningur, sem vegna misritunar eða annarra mistaka af hálfu þess er gerði hann orðið annars efnis en til var ætlast, sé hann ekki skuldbindandi fyrir þann sem hann gerði ef sá maður, sem löggerningum var beint til, vissi eða mátti vita að mistök hefðu átt sér stað. Áfrýjandi ber sönnunarbyrði fyrir því að stefndu hafi vitað eða mátt vita að tilgreining reikningsnúmers á eyðublaðinu hafi verið misritun eða gerð vegna annarra mistaka af hans hálfu. Hann hefur ekki axlað þá sönnunarbyrði. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sýknu stefndu og um málskostnað þeim til handa.

Áfrýjandi greiði stefndu hverjum fyrir sig málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sýknu stefndu Júlíusar Þórs Gunnarssonar, Kristbjörns Óla Guðmundssonar, Magnúsar Valþórssonar og Þorsteins Arnars Einarssonar og um málskostnað þeim til handa.

Áfrýjandi, Arion banki hf., greiði stefndu hverjum fyrir sig 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30.október 2015

Mál þetta var höfðað 3. nóvember 2014 og dómtekið 16. október 2015.

Stefnandi er Arion banki hf, Borgartúni 19, 105 Reykjavík.

Stefndu eru LERR ehf., Vesturgötu 10, Kristbjörn Óli Guðmundsson, Bjarmahlíð 10, Magnús Valþórsson, Lækjargötu 34b, Þorsteinn Arnar Einarsson, Furuhlíð 4 og Júlíus Þór Gunnarsson Vesturgötu 10, allir til heimilis í Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefndi, LERR ehf, verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 10.445.788 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 10.445.788 krónum frá 28. júní 2013 til greiðsludags, að frádreginni innborgun þann 26. september 2013 að fjárhæð 2.007.612 krónur.

Einnig er þess krafist að stefndu, Kristbjörn Óli Guðmundsson, Magnús Valþórsson, Þorsteinn Arnar Einarsson, og Júlíus Þór Gunnarsson, verði dæmdir til að greiða þar af sameiginlega (in solidum) með stefnda, LERR ehf, skuld að fjárhæð 10.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 28. júní 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Af hálfu stefnda LERR ehf. er krafist sýknu af kröfu stefnanda. Til vara krefst stefndi lækkunar á kröfu stefnanda. Aðrir stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara lækkunar á dómkröfum. Allir krefjast stefndu málskostnaðar.

II.

Málavextir

Stefndi LERR ehf. stofnaði veltureikning með númerið 0327-26-9867 hjá stefnanda, þann 15. mars 2011. Reikningurinn var upphaflega ekki með yfirdráttarheimild heldur kom heimildin til síðar. Hún rann út 20. júní 2013. Stefnandi byggir kröfu sína á uppsafnaðri skuld á reikningnum sem nam 10.445.788 krónum þegar reikningnum var lokað þann 28. júní 2013.

Þann 29. apríl 2011 rituðu stefndu, Kristbjörn Óli Guðmundsson, Magnús Valþórsson, Þorsteinn Arnar Einarsson og Júlíus Þór Gunnarsson, undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð að hámarki 10.000.000 króna auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar vegna yfirdráttarheimildar stefnda LERR ehf. Samkvæmt yfirlýsingunni ábyrgðust þeir persónulega að tryggja efndir á skuldbindingum reikningseiganda eins og um eign skuld væri að ræða. Greiddar voru 2.007.612 krónur inn á skuldina 26. september 2013 eins og fram kemur í kröfugerð.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á almennum reglum kröfuréttarins og meginreglu samningaréttarins um skuldbindingagildi loforða og skyldu til að efna samninga. Stefndi LERR ehf. hafi fengið yfirdráttarheimild á umræddan reikning upp að ákveðinni fjárhæð og til að stofna til skuldar við stefnanda. Yfirdráttarheimild stefnda hafi fallið niður án þess að til framlengingar kæmi og hafi skuldin þá enn verið ógreidd. Stefndi hafi reglulega fengið send yfirlit frá stefnanda um stöðu reikningsins á hverjum tíma.

Stefndu Kristbjörn Óli, Magnús, Þorsteinn Arnar og Júlíus hafi ritað undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð og skuldbundið sig persónulega til að tryggja efndir á skuldbindingum reikningseiganda eins og um sína eigin skuld væri að ræða. Hámarksfjárhæð sjálfskuldarábyrgðarinnar hafi numið 10.000.000 króna auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar.

III.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndi LERR ehf. byggir kröfu sína um sýknu aðallega á því að ekki liggi fyrir skriflegur lánssamningur milli aðila sem kveði á um fjárhæð og innheimtu vaxta og annars kostnaðar sem leiddi af skuld á umræddum veltureikningi. Til vara krefst stefndi lækkunar dómkröfu.

Stefndu Kristbjörn Óli, Magnús, Þorsteinn Arnar og Júlíus Þór byggja sýknukröfu sína aðallega á nokkrum málsástæðum. Í fyrsta lagi telja þeir ósannað að þeir hafi gengist undir ábyrgð á umræddri skuld. Vísa þeir til þess að ábyrgðaryfirlýsingin beri með sér að henni hafi verið breytt á þann veg sem áður er rakið. Sú breyting hafi verið gerð án samþykkis stefndu. Vísa stefndu m.a. til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og skilmála stefnanda sjálfs.

Í öðru lagi byggja stefndu á því að til ábyrgðarinnar hafi ekki verið stofnað með þeim hætti sem kveðið sé á um í lögum nr. 32/2009 og vísa sérstaklega til II. kafla laganna um efni og form ábyrgðarsamninga. Telja stefndu að lögin taki til stefndu þar sem ábyrgðin hafi ekki verið veitt í þágu eigin atvinnurekstrar í skilningi laganna eða í þágu fjárhagslegs ávinnings þeirra. Vísar stefndi Kristbjörn Óli til þess að hann hafi aðeins þegið laun frá meðstefnda LERR ehf. frá apríl til júlí á árinu 2011.

Í þriðja lagi byggja stefndu á því að verði ekki fallist á ofangreint beri að víkja ábyrgðinni til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vísa stefndu í því sambandi til þess að ekki hafi verið framkvæmt greiðslumat á LERR ehf., vanrækt hafi verið að veita ábyrgðarmönnum fullnægjandi upplýsingar auk þess sem tilkynningaskylda hafi ekki verið uppfyllt. Þá hafi verið aðstöðumunur með aðilum.

Stefndu reisa varakröfu sína um lækkun á kröfu stefnanda á því að þeir hafi gengið út frá því að ábyrgð þeirra væri skipt (pro rata). Hafi þeir ekki verið upplýstir um efni ábyrgðarinnar eins og áskilið sé í lögum nr. 32/2009.

V

Niðurstaða

Stefnandi krefur stefnda LERR ehf. um greiðslu skuldar 10.445.788 krónur en viðskiptareikningur félagsins nr. 9867 var í skuld sem nam þeirri fjárhæð þegar honum var lokað 28. júní 2013.

Við upphaf aðalmeðferðar málsins féll stefndi LERR ehf. frá öllum kröfum sínum í málinu. Þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við kröfugerð stefnanda á hendur stefnda LERR ehf. og þar sem þær eru að öðru leyti í samræmi við gögn málsins ber að taka kröfur stefnanda til greina hvað félagið varðar.

Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefndu Kristbirni Óla, Magnúsi, Þorsteini Arnari og Júlíusi Þór sameiginlega á grundvelli yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgð sem dagsett er 28. apríl 2011. Stefndu gangast við því að hafa ritað nöfn sín á bakhlið skjalsins en neita að sjálfskuldarábyrgð þeirra hafi náð til reiknings nr. 9867.

Fyrir liggur að stefndi LERR ehf. sótti um veltureikning nr. 9867 hjá stefnanda 15. mars 2011. Samkvæmt yfirliti var reikningurinn yfirdreginn allt til þess að honum var lokað. Veltureikningur félagsins nr. 8598 sem félagið átti fyrir var hins vegar hins vegar ekki yfirdreginn er stefndu undirrituðu yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð og var sú raunin áfram.

Á framhlið umdeildrar yfirlýsingar, kemur fram í almennum texta að sjálfskuldaraðilar skuldbindi sig persónulega til að tryggja stefnanda efndir á skuldbindingu reikningseiganda stefnda LERR ehf. að upphæð 10.000.000 króna.

Óumdeilt er að stefndu fóru saman í útibú stefnanda til að rita undir umrædda yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna skuldbindinga meðstefnda LERR ehf. en yfirlýsingin er á stöðluðu eyðublaði. Yfirskrift yfirlýsingarinnar er „Yfirlýsing um sjálfskuldarábyrgð v/ yfirdráttarheimildar á veltureikningi“. Í yfirlýsingunni kemur fram feitletrað: „Undirritaðir ábyrgðaraðilar ábyrgjast hér með sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar, in solidum (óskipt skuldaábyrgð), greiðslu yfirdráttar á neðangreindum tékkareikningi í samræmi við skilmál yfirlýsingarinnar.“ Eyðublaðið er útfyllt rafrænt og í reitinn „númer reiknings“ er ritað 8598 en númerið er yfirstrikað með penna og ritað þess í stað númerið 9867. Efst í yfirlýsingunni er einnig ritað með penna númer yfirlýsingarinnar 109867.

Stefndi Kristbjörn Óli gaf skýrslu fyrir dómi. Staðfesti hann að tilgangurinn með undirritun hans og meðstefndu á umrædda yfirlýsingu hafi verið sá að tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll LERR ehf. með því að gangast í ábyrgð fyrir félagið. Stefndu hafi allir undirritað yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð en ekki séð framsíðu yfirlýsingarinnar og því ekki vitað hvort búið hafi verið að breyta númeri reikningsins við undirritun.

Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefndu á umræddri yfirlýsingu eins og hún liggur fyrir og telur stefndu hafa undirritað hana þannig útfyllta. Þannig telur stefnandi ljóst að stefndu hafi gengist í ábyrgð vegna yfirdráttar á reikningi 9867 en ekki 8598. Stefnandi ber alfarið sönnunarbyrði fyrir því að svo sé.

Af skjalinu sjálfu verður hvorki ráðið hvenær fyrrgreindar breytingar voru gerðar né af hverjum. Þá er ekki ljóst hvort númer yfirlýsingarinnar sem er handskrifað hafi verið á skjalinu er það var undirritað af stefndu. Því er ekki unnt að fullyrða að samræmi hafi átt að vera á milli númers yfirlýsingarinnar og reikningsins. Þá er hvorki upphafsstafi stefndu að finna á framsíðu yfirlýsingarinnar, til merkis um að breytingarnar hafi verið gerðar með vitund og vilja þeirra, né upphafsstafi starfsmanns stefnanda.

Stefnandi hefur ekki gert reka að því að varpa ljósi á atvik við undirritun yfirlýsingarinnar eins og varnir stefndu gáfu þó tilefni til. Til að mynda var hvorki nafngreindur starfsmaður stefnda sem ritaði undir yfirlýsinguna fyrir hönd bankans kvaddur til skýrslugjafar fyrir dómi né yfirmaður hans sem ritaði undir sama skjal. Því er ekki annað upplýst um atvik en það sem fram kom í skýrslu stefnda Kristbjörns Óla fyrir dóminum.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að stefnandi hefur ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á honum hvílir og verður hann að bera hallann af því. Verður ekki á það fallist með stefnanda að úr sönnunarskorti hafi verið bætt með reglulegum tilkynningum til stefnda LERR ehf. um stöðu reiknings 9867 og áramótatilkynningum til meðstefndu um sjálfskuldarábyrgð á reikningnum.

Að ofangreindu virtu verða stefndu Kristbjörn Óli, Magnús, Þorsteinn Almar og Júlíus Þór, þegar af þessari ástæðu sýknaðir af kröfu stefnanda.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda LERR ehf. gert að greiða stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.

Þá skal stefnandi með vísan til sömu lagagreinar greiða stefndu Kristbirni Óla, Magnúsi, Þorsteini Almari og Júlíusi Þór hverjum um sig málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar ber að líta til eðlis og umfangs máls þessa. Þá verður að líta til þess að stefndu byggðu í öllum meginatriðum á sömu málsástæðum. Þó að stefndu hafi hver um sig rétt til þess að haga og móta sínar varnir með þeim hætti er hann kýs verður ekki hjá því litið að stefndu höfðu hagræði af vörnum hvor annars.

Verður stefnanda gert að greiða stefnda Kristbirni Óla 350.000 krónur í málskostnað, Magnúsi 400.000 krónur, Þorsteini Arnari 380.000 krónur og Júlíusi Þór 380.000 krónur.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi LERR ehf. greiði stefnanda Arion banka hf. 10.445.788 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 10.445.788 krónum frá 28. júní 2013 til greiðsludags, að frádreginni innborgun þann 26. september 2013 að fjárhæð 2.007.612 krónur.

Stefndu Kristbjörn Óli Guðmundsson, Magnús Valþórsson, Þorsteinn Arnar Einarsson og Júlíus Þór Gunnarsson eru sýknaðir af kröfum stefnanda.

Stefndi LERR ehf. greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.

Stefnandi greiði stefnda Kristbirni Óla 350.000 krónur í málskostnað.

Stefnandi greiði stefnda Magnúsi 400.000 krónur í málskostnað.

Stefnandi greiði Þorsteini Arnari 380.000 krónur í málskostnað.

Stefnandi greiði Júlíusi Þór 380.000 krónur í málskostnað.