Hæstiréttur íslands

Mál nr. 254/2008


Lykilorð

  • Bifreið
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Svipting ökuréttar
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. júní 2008.

Nr. 254/2008.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson

settur saksóknari)

gegn

Óttari Gný Rögnvaldssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.

Eyvindur Sólnes hdl.)

 

Bifreiðir. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.Svipting ökuréttar. Ítrekun.

Hegningarauki.

 

Ó var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu kannabis, en þetta þótti varða við 45. gr. a. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt álitsgerð rannsóknastofu HÍ fannst tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi Ó en hið virka efni í kannabis, tetrahýdrókannabínól, fannst ekki í blóði hans. Þessi niðurstaða benti til þess að Ó hefði neytt kannabis en ekki lengur verið undir áhrifum efnisins þegar blóðsýnið var tekið. Í dómi Hæstaréttar sagði að í 1. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga væri kveðið á um það að ökumaður teldist vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna tæki örugglega ef efni sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði eftir lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum á grundvelli þeirra, mældust í blóði eða þvagi ökumanns. Fyrrgreint efni sem fannst í þvagi Ó taldist til slíkra efna. Með þessu hefði löggjafinn ákveðið að líta skuli svo á að þannig væri komið fyrir ökumanni, sem um ræðir í 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, ef tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagi hans, en niðurstaða um það væri í engu háð mati eftir öðrum forsendum á því hvort hann væri í reynd undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Umrædd ákvæði umferðarlaga þóttu ekki fela í sér sakarlíkindareglu sem væri í andstöðu við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, heldur bann við akstri ef ávana- og fíkniefni eru greinanleg í blóði eða þvagi ökumanns. Var Ó því sakfelldur fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var refsing hans ákveðin sem hegningarauki og honum gert að greiða 100.000 krónur í sekt og hann sviptur ökurétti í eitt ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2008 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, honum gerð refsing og ákveðin svipting ökuréttar.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Samkvæmt gögnum málsins ók ákærði bifreið sinni XK 398 á Ísafirði síðdegis fimmtudaginn 10. janúar 2008 og stöðvaði lögregla för hans. Sagði í frumskýrslu hennar að þetta hafi verið gert til að kanna ástand ökumannsins, sem væri „vel þekktur af lögreglu fyrir neyslu fíkniefna“, og hafi hann verið færður til viðtals á lögreglustöð. Þegar þangað var komið lét ákærði í té þvagsýni, sem „gaf jákvæða svörun við kannabisprófi“, svo sem komist var að orði í lögregluskýrslu, og sagðist hann af þessu tilefni hafa neytt kannabisefna að morgni 1. janúar 2008, en engra fíkniefna eftir það og fyndi hann ekki enn til áhrifa af þeirri neyslu. Sýni af blóði og þvagi úr ákærða voru send rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Í álitsgerð hennar 28. janúar 2008 sagði meðal annars eftirfarandi: „Í þvaginu fannst tetrahýdrókannabínólsýra. Tetrahýdrókannabínól var ekki í mælanlegu magni í blóðinu. Tetrahýdrókannabínól er hið virka efni í kannabis. Tetrahýdrókannabínólsýra er óvirkt umbrotsefni þess í þvagi. Tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi, án þess að tetrahýdrókannabínól sé að finna í blóði, bendir til þess að ökumaður hafi neytt kannabis, en ekki verið lengur undir áhrifum efnisins þegar blóðsýnið var tekið. Tetrahýdrókannabínólsýra er í flokki ávana- og fíkniefna, sem óheimil eru á íslensku forráðasvæði.“ Ákæra var gefin út 7. febrúar 2008, þar sem ákærða var gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið umrætt sinn ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu kannabis, en þetta þótti varða við 2. mgr. 44. gr. og 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Við munnlegan flutning málsins fyrir héraðsdómi var af hálfu ákæruvaldsins fallið frá tilvísun í ákæru til lagaákvæðisins, sem fyrst var nefnt hér að framan.

Í málinu er enginn ágreiningur um atvik þess eða framangreindar niðurstöður í álitsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, en annar tveggja starfsmanna hennar, sem stóð að álitsgerðinni, staðfesti hana fyrir dómi og gaf nánari skýringar á efni hennar. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en sú niðurstaða var ekki reist á mati um sönnun á umdeildum atvikum, heldur eingöngu á skýringu og beitingu lagaákvæða. Fyrirmæli 4. mgr. og 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum standa þannig ekki í vegi því að efnisleg afstaða verði tekin til kröfu ákæruvaldsins um sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar þótt munnleg sönnunarfærsla hafi ekki farið fram fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, má enginn stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði eftir lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Samkvæmt fylgiskjali I við reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, eins og því var breytt með reglugerð nr. 848/2002, telst meðal slíkra efna „tetrahydrocannabinol og öll isomer þess og afleiður“, en samkvæmt 2. mgr. 2. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni er varsla og meðferð þessa efnis óheimil á íslensku yfirráðasvæði. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð staðfesting rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði á því að tetrahýdrókannabínólsýra sé afleiða af tetrahýdrókannabínóli í þessum skilningi. Í 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga er kveðið á um það að ökumaður teljist vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega ef efni af þeim toga, sem um ræðir í 1. mgr. sömu lagagreinar, mælist í blóði eða þvagi hans. Með þessu hefur löggjafinn ákveðið að litið skuli svo á að þannig sé komið fyrir ökumanni, sem um ræðir í 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, ef tetrahýdrókannabínólsýra mælist í þvagi hans, en niðurstaða um það er í engu háð mati eftir öðrum forsendum á því hvort hann sé í reynd undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ákvæði 1. mgr. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, sem að þessu leyti eru hliðstæð fyrirmælum um áfengisáhrif við akstur í fyrstu þremur málsgreinum 45. gr. laganna, fela ekki í sér sakarlíkindareglu í andstöðu við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, heldur bann við akstri ef ávana- og fíkniefni eru greinanleg í blóði eða þvagi ökumanns. Ekki er á valdi dómstóla að hreyfa við þessari ákvörðun löggjafans, sem reist er á málefnalegum grunni. Með því að óumdeilt er í málinu að tetrahýdrókannabínólsýra greindist í þvagsýni, sem tekið var af ákærða í kjölfar aksturs hans 8. janúar 2008, hefur hann þannig brotið gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga.

Við ákvörðun viðurlaga á hendur ákærða er þess að gæta að hann var dæmdur 25. maí 2007 í Héraðsdómi Suðurlands til sektar og sviptingar ökuréttar í þrjá mánuði fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Fyrir sama dómstóli var hann aftur dæmdur 31. mars 2008 til greiðslu 185.000 króna sektar og sviptingar ökuréttar í tvö ár vegna brots gegn sömu lagaákvæðum, svo og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Að auki var hann dæmdur í Héraðsdómi Vestfjarða 5. desember 2007 til að sæta fangelsi í einn mánuð fyrir brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en fullnustu refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Sá skilorðsdómur var ekki tekinn upp í fyrrnefndum dómi frá 31. mars 2008. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. almennra hegningarlaga verður refsing ákærða í þessu máli ákveðin sem hegningarauki við síðastnefnda dóminn. Þegar litið er til þess að ávana- og fíkniefnin fundust í þvagi ákærða en ekki blóði er hæfilegt að dæma hann til greiðslu sektar að fjárhæð 100.000 krónur, en greiðist hún ekki fer um vararefsingu samkvæmt því, sem í dómsorði greinir. Þá verður ákærði jafnframt sviptur ökurétti í eitt ár frá 15. apríl 2010, en þá mun ljúka tveggja ára ökuréttarsviptingu, sem hann sætti samkvæmt dóminum frá 31. mars 2008.

Eins og niðurstaða verður í málinu samkvæmt framansögðu er rétt að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað í héraði, samtals 136.333 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, 97.608 krónur, svo og áfrýjunarkostnað málsins, sem eingöngu eru málsvarnarlaun verjanda hans, en þau eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Óttar Gnýr Rögnvaldsson, greiði 100.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í átta daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá 15. apríl 2010.

Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði, 136.333 krónur, og áfrýjunarkostnað málsins, sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 2. apríl 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. mars sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 7. febrúar 2008 á hendur ákærða, Óttari Gný Rögnvaldssyni, kt. [...];

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ... sunnudaginn 10. janúar 2008, ekið bifreiðinni XK 398, ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu kannabis, norður Holtabraut, Ísafirði, þar sem lögreglan hafði afskipti af honum.

Telst þetta varða við ... 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 186. gr. laga nr. 82/1998, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttinda skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Ákærði gerir þær kröfur í málinu að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds og að verjanda verði dæmd hæfileg málsvarnarlaun úr ríkissjóði.

I.

Samkvæmt framlögðum rannsóknargögnum veittu tveir lögreglumenn úr lögreglunni á Vestfjörðum bifreiðinni XK-398 athygli, um kl. 15:05 fimmtudaginn 10. janúar 2008, er henni var ekið norður Holtabraut á Ísafirði. Ákvað lögregla að stöðva akstur bifreiðarinnar og kanna ástand ökumanns hennar, ákærða í máli þessu.

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að óskað hafi verið eftir því við ákærða að hann kæmi á lögreglustöð til þvagsýnisgjafar. Ákærði hafi í fyrstu neitað en eftir nokkurt þref hafi hann síðan fallist á að fara með lögreglumönnunum á lögreglustöðina þar sem hann hafi látið í té þvagsýni. Hafi sýnið svarað jákvætt við kannabisprófi. Ákærði hafi í kjölfarið verið handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá hafi honum verið gert að gefa blóðsýni í þágu rannsóknar málsins til viðbótar við þvagsýni það sem hann hafði áður gefið.

Í skýrslu, sem tekin var af ákærða á lögreglustöðinni skömmu eftir handtöku hans, er meðal annars eftir honum bókað: „Aðspurður segist mætti viðurkenna að hafa neytt kannabisefna, en það hafi ekki verið síðan á nýársmorgun. Engin fíkniefni hafi hann tekið inn síðan þá. Hann segist þannig ekki finna í dag til vímuáhrifa af þessu efni.“

Þá er um ástand ákærða bókað í vistunarskýrslu lögreglu, sem rituð var vegna skammvinnrar vistunar hans í fangageymslum lögreglu í kjölfar handtöku, að sjáöldur augna hans hafi verið eðlileg og jafnvægi stöðugt. Þá hafi framburður hans verið greinargóður og málfar skýrt.

II.

Fyrir dómi kannaðist ákærði við að hafa sunnudaginn 10. janúar 2008 verið við akstur bifreiðarinnar XK-398 á Holtabraut á Ísafirði er lögregla hafði afskipti af honum. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa þá verið ófær um að stjórna bifreiðinni örugglega vegna kannabisáhrifa.

Tilvist tetrahýdrókannabínólsýru í þvagsýni sem ákærði gaf í þágu rannsóknar málsins 10. janúar sl. skýrði hann með kannabisneyslu sinni viku fyrir aksturinn.

III.

Í málinu liggur fyrir skrifleg matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands vegna rannsóknar á blóð- og þvagsýnum sem ákærði gaf í þágu rannsóknar málsins 10. janúar 2008. Í matsgerðinni, sem dagsett er 28. janúar 2008 og unnin var af Jakobi Kristinssyni dósent segir svo um niðurstöður rannsóknarinnar:

Blóðsýni nr. 44613 og þvagsýni nr. 44614: Í þvaginu fannst tetrahýdrókannabínólsýra. Tetrahýdrókannabínól var ekki í mælanlegu magni í blóðinu.

Tetrahýdrókannabínól er hið virka efni í kannabis. Tetrahýdrókannabínól­sýra er óvirkt umbrotsefni þess í þvagi. Tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi, án þess að tetrahýdrókannabínól sé að finna í blóði, bendir til þess að ökumaður hafi neytt kannabis, en ekki verið lengur undir áhrifum efnisins þegar blóðsýnið var tekið.

Tetrahýdrókannabínólsýra er í flokki ávana- og fíkniefna, sem óheimil eru á íslensku forráðasvæði. Ökumaður telst því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar blóð- og þvagsýnin voru tekin, sbr. gr. 45 a í umferðarlögum nr. 50/1987 m. breytingum.

 

Jakob Kristinsson kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði tilvitnaða matsgerð. Fram kom hjá vitninu að engar ályktanir væri hægt að draga af magni tetrahýdrókannabínólsýru í þvagi um ástand viðkomandi einstaklings. Því væri þýðingarlaust að afla tölulegra niðurstaðna um magn tetrahýdrókannabínólsýru í þvagi í málum sem þessu.

Þá bar vitnið að undir venjulegum kringumstæðum tæki það líkamann nokkra daga, kannski rúmlega viku og jafnvel upp í tvær til þrjár vikur, að losa sig við tetrahýdrókannabínól og niðurbrotsefni þess, allt eftir því hversu mikil kannabisneyslan hefði verið. Ennfremur kvað vitnið þekkt tilvik um að „... stórneytendur af kannabis, þeir hafa komið út jákvæðir í þvagi allt upp í tvo mánuði.“

IV.

Svo sem áður er rakið eru sakargiftir á hendur ákærða í máli þessu þær að hann hafi sunnudaginn 10. janúar 2008 ekið bifreið ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu kannabis og með því brotið gegn 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Nefnd lagagrein er í VII. kafla umferðarlaga, sem ber yfirskriftina: „Um ökumenn. Veikindi, áfengisáhrif o.fl.“, en 1. mgr. hennar hljóðar svo: „Enginn má stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim.“ Í 2. mgr. 45. gr. a segir síðan að mælist ávana- og fíkniefni skv. 1. mgr. í blóði eða þvagi ökumanns teljist hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega.

Framburður ákærða fyrir dómi um að hann hafi neytt kannabis viku fyrir aksturinn er fyllilega í samræmi við niðurstöður rannsóknar á blóð- og þvagsýnum er hann gaf í þágu rannsóknar málsins, framlagða matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræðum og vætti Jakobs Kristinssonar dósents fyrir dómi. Þá verður af matsgerðinni og framburði Jakobs ráðið, sem og lýsingu í vistunarskýrslu lögreglu á ástandi ákærða umrætt sinn, að ekkert bendi til þess að ákærði hafi í raun verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna við aksturinn.

Augljóst er að 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 er, líkt og 44. gr., 44. gr. a og b og 45. gr. laganna, ætlað að vinna að því lögmæta markmiði að ökumenn séu við akstur í sem bestu ástandi og þannig stuðla að auknu umferðaröryggi. Tilvitnuð 45. gr. a kom inn í umferðarlög með 5. gr. laga nr. 66/2006. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til þeirra laga sagði meðal annars svo í athugasemdum við 5. gr.:

Sú tillaga sem sett er fram í frumvarpinu og miðar við efra ölvunarstigið er í samræmi við alvarleika brota og ábendingar þess efnis að erfitt sé að ná fram sakfellingu í málum er varða akstur undir áhrifum lyfja eða ávana- og fíkniefna þar sem sanna þurfi að ökumaður geti ekki stjórnað ökutæki örugglega, sbr. 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga. Hæstiréttur hefur gert ríkar kröfur um sönnun í slíkum málum auk þess sem talsverður fjöldi mála kemur aldrei á borð dómstólanna.

 

Af framansögðu er ljóst að með setningu 2. mgr. 45. gr. a var það meðal annars ætlun hins almenna löggjafa að bæta sönnunarstöðu ákæruvaldsins í málum vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Ennfremur er ljóst að ef 2. mgr. er túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan getur það leitt til þeirrar niðurstöðu að sakborningur, sem ekki er raunverulega undir áhrifum fíkniefna, og hefur jafnvel ekki verið í slíku ástandi svo dögum eða vikum skiptir, teljist vera „undir áhrifum ávana- og fíkniefna“ í skilningi málsgreinarinnar.

Svo sem áður er rakið er verknaðarlýsingu brots þess sem ákærða er gefið að sök í ákæru að finna í 1. mgr. 45. gr. a umferðarlaga. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem veitt var lagagildi hér á landi með lögum nr. 62/1994, skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum. Er lagaregla þessi jafnframt ein af grundvallarreglum íslensks réttarfars.

Í 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga er að finna skilgreiningu á því hvað teljist að vera „undir áhrifum ávana- og fíkniefna“ í skilningi 1. mgr. sömu greinar. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu þykir mega slá því föstu að ákærði hafi umrætt sinn í raun ekki verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Að því virtu og með vísan til áðurnefndrar grundvallarreglu íslensks réttarfars, sbr. 2. mgr. 6. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, og tilvitnaðra ummæla í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga nr. 66/2006, þykir verða að skýra 2. mgr. 45. gr. a svo þröngt að hún taki ekki til þess tilviks sem hér er til umfjöllunar og verður sakfelling ákærða því ekki reist á nefndri málsgrein. Að þeirri niðurstöðu fenginni er ljóst að ákæruvaldinu hefur ekki tekist að sanna gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991, að ákærði hafi umræddan dag ekið bifreiðinni XK-398 ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu kannabis. Verður hann því sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 greiðist allur kostnaður sakarinnar úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Hilmars Ingimundarsonar hrl., er hæfilega þykja ákveðin svo sem í dómsorði greinir að virðisaukaskatti meðtöldum. Við ákvörðun málsvarnarlaunanna er sérstaklega litið til þess að verjandi flutti mál þetta samhliða öðru sambærilegu máli.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari, en uppkvaðning dómsins hefur dregist lítillega vegna veikinda dómara.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Óttar Gnýr Rögnvaldsson, skal sýkn af kröfum ákæruvalds í málinu.

Allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 97.608 krónur.