Hæstiréttur íslands

Mál nr. 511/2016

M (Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.)
gegn
K (Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæra
  • Sönnunargögn
  • Málsástæða
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Óvígð sambúð
  • Aðfinnslur

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi M og K er risið hafði við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna slita á óvígðri sambúð. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti lögðu báðir aðilar fram ný gögn sem ekki voru lögð til grundvallar við úrlausn málsins og var málið því dæmt eftir þeim gögnum sem lágu fyrir í héraði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að leggja yrði til grundvallar í málinu skattframtal M um óverulega eignastöðu hans við upphaf sambúðar aðila. Þá var meðal annars litið til þess að óvígð sambúð M og K hafði staðið yfir í rúm sextán ár. Allan sambúðartímann hefðu þau haldið sameiginlegt heimili og talið saman fram til skatts bróðurpartinn af tímanum. Þótt K hefði ekki haft launatekjur heldur sinnt heimilisstörfum var þess að gæta að hún hafði átt eignir í upphaf sambúðarinnar, fengið umtalsverðar fjárhæðir í fyrirframgreiddan arf og haft fjármagnstekjur. Þá var jafnframt litið til þess að lengst af sambúðartímanum hafði M starfað hjá fyrirtækjum í eigu fjölskyldu K og því notið tengsla við hana í þeim efnum. Loks mátti ráða af gögnum málsins að fjárhagur þeirra hefði verið samofinn og með þeim rík fjárhagsleg samstaða. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar um að skipta eignum M og K jafnt á milli þeirra því staðfest, en ákvörðun skiptastjóra um útlagningu fasteignar þeirra til K felld úr gildi, enda var ekki talið að skilyrðum 1. mgr. 110 gr. laga nr. 20/1991 væri fullnægt að svo stöddu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. júní 2016, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi aðila við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna slita á óvígðri sambúð. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess í fyrsta lagi að hrundið verði þeirri niðurstöðu héraðsdóms að við skiptin beri að miða við að skipt verði að jöfnu þeim eignum sem málsaðilar áttu við upphaf skipta óháð því hvernig skráningu einstakra eigna er háttað. Í öðru lagi krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að hann sé einn eigandi innlendra og erlendra bankainnistæðna, er voru við upphaf skipta á bankareikningum sem sóknaraðili er skráður fyrir, einkahlutafélaganna A, B og C og annarrar hlutafjár- og verðbréfaeignar, innlendrar sem erlendrar, er skráð var á sóknaraðila við upphaf skipta. Í þriðja lagi krefst sóknaraðili þess aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun skiptastjóra um útlagningu fasteignarinnar [...] í [...], til varnaraðila, en til vara að ákvæði í úrskurði héraðsdóms um frávísun þeirrar kröfu frá héraðsdómi verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka hana til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

I

Varnaraðili færir þau rök fyrir kröfu sinni um frávísun málsins frá Hæstarétti að kæra sóknaraðila fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sé áskilið, ef kærandi vill bera fyrir sig ný sönnunargögn, að frá þeim sé greint í kæru, svo og því hvað hann hyggst sanna með þeim. Þá skuli slík gögn fylgja kæru í frumriti eða staðfestu endurriti. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi lagt fram tuttugu ný skjöl fyrir Hæstarétt, en af þeim hafi fimmtán verið tilgreind í upptalningu í kæru sóknaraðila. Þannig hafi fimm skjöl ekki verið tilgreind í kærunni, auk þess sem þar sé ekki vikið orði að því hvað sanna eigi með þessum gögnum. Þá hafi þessi skjöl ekki fylgt kærunni til héraðsdóms. Af þessu leiði að varnaraðili hafi ekki getað kynnt sér gögnin og brugðist við með gagnaöflun af sinni hálfu um leið og héraðsdómur sendi henni kæruna í samræmi við 1. mgr. 147. gr. laganna. Þannig hafi varnaraðili ekki haft það svigrúm sem lög mæla fyrir um til að undirbúa vörn sína fyrir Hæstarétti, en með þessu hafi sóknaraðili vegið gróflega að meginreglu réttarfars um jafnræði aðila við rekstur máls fyrir dómi og valdið hættu á því að varnaraðili yrði fyrir réttarspjöllum. Þar sem málatilbúnaðurinn fari að þessu leyti í bága við ófrávíkjanlegar reglur um hvernig standa skuli að kæru til réttarins beri að vísa málinu frá honum.

Um mál sem sæta kæru til Hæstaréttar eftir lögum nr. 20/1991 gilda sömu reglur og í almennu einkamáli um kærufresti, kæruna sjálfa, meðferð hennar í héraði og fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 133. gr. laganna. Samkvæmt 5. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 er kæranda heimilt að byggja á nýjum sönnunargögnum og skal þá farið svo að sem segir í 2. mgr. 145. gr. þeirra. Af því ákvæði leiðir að tiltaka á ný gögn í kæru og lýsa hvað þau eigi að sanna, en gögnin eiga síðan að fylgja kærunni til héraðsdóms. Þótt málatilbúnaður kæranda fullnægi ekki þessum áskilnaði um hvernig nýjum sönnunargögnum verður komið að fyrir Hæstarétti getur það ekki valdið því að hann fari á mis við heimild sína til að leita endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms í þeim búningi sem málið var þegar það kom þar til úrlausnar. Af þeirri ástæðu verður hafnað kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti.

II

Samkvæmt 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 skal sá sem vill kæra dómsathöfn afhenda héraðsdómara skriflega kæru sína, en héraðsdómari sendir kæruna til Hæstaréttar og gagnaðila þess sem kærir svo fljótt sem verða má, nema dómari kjósi sjálfur að fella kærðan úrskurð úr gildi, sbr. 1. mgr. 147. gr. laganna. Svo sem áður segir á að greina frá nýjum sönnunargögnum í kæru og hvað kærandi hyggst sanna með þeim. Að baki þessum áskilnaði býr það að héraðsdómari geti, með því að kynna sér efni kærunnar, metið hvort efni standi til í ljósi nýrra gagna að fella kærðan úrskurð úr gildi. Að sama skapi þjónar þetta þeim tilgangi að gagnaðila sé kleift um leið og honum berst kæran frá héraðsdómi að haga vörn sinni í ljósi nýrra gagna sem lögð eru fyrir Hæstarétt. Til að kæra sé að þessu leyti fullnægjandi verður hún því sjálf að greina berum orðum frá því hvað ný gögn eiga að sanna og nægir ekki í þeim efnum það eitt að tilgreina skjölin. Skiptir þá ekki máli þótt hugsanlega megi af þeirri upptalningu draga einhverjar ályktanir í ljósi þess sem fram kemur í almennri lýsingu á ástæðum sem kæra er reist á, sbr. c. lið 1. mgr. 145. gr. laganna, en þær ástæður verða að koma fram í kærunni án tillits til þess hvort hún er studd nýjum gögnum. Í kæru sóknaraðila er ekkert vikið að því hvað sanna eigi með þeim fjölda nýrra gagna sem hann hefur lagt fyrir Hæstarétt. Þegar af þeirri ástæðu verða þessi gögn ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins.

Samkvæmt 148. gr. laga nr. 91/1991 á gagnaðili þess sem kærir úrskurð kost á að skila skriflegri greinargerð til Hæstaréttar er geymir kröfur hans og málsástæður sem byggt er á. Þótt ekki sé tekið fram berum orðum að gagnaðilinn geti lagt fram ný sönnunargögn er honum það heimilt með vísan til meginreglunnar um jafnræði málsaðila. Aftur á móti takmarkast heimild beggja aðila kærumáls til að leggja fram ný skjöl hér fyrir dómi af svonefndri útilokunarreglu réttarfars, en hún felur meðal annars í sér að aðila ber að leggja fram sönnunargögn af sinni hálfu svo fljótt sem verða má og í síðasta lagi áður en fresti til gagnaöflunar lýkur. Eftir það er aðilum að jafnaði óheimilt að leggja fram sýnileg sönnunargögn en frá því má þó víkja meðal annars af þeirri ástæðu að ekki hafi áður verið unnt að afla tiltekinna gagna, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu er aðila óheimilt að leggja fram skjal, sem ekki hefur verið lagt fram við meðferð máls í héraði, nema hann hafi ekki haft skjalið undir höndum eða skjalið hafi þá ekki verið orðið til. Það sama á við um skjal sem verður til eftir málsmeðferðina í héraði ef afla hefði mátt þess meðan hún stóð yfir. Þetta á sérstaklega við ef aðili leitast við með síðbúinni gagnaöflun að bera í raun fyrir sig nýjar málsástæður fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. og 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991. Um þetta má meðal annars benda á til hliðsjónar dóm réttarins 6. september 2016 í máli nr. 520/2016.

Varnaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt sautján skjöl ef frá er talinn reikningur sem hann telur fela í sér útlagðan kostnað vegna reksturs málsins. Þessi skjöl eru öll því marki brennd að hafa verið til eða að þeirra hefði mátt afla undir rekstri málsins í héraði. Þess utan er framlagning flestra þessara gagna viðbrögð varnaraðila við gagnaöflun sóknaraðila hér fyrir dómi. Þar sem þau gögn verða ekki lögð til grundvallar geta ekki skipt máli þau gögn sem varnaraðili hefur lagt fram af því tilefni. Samkvæmt öllu þessu verður heldur ekki byggt á þeim gögnum sem varnaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt og málið dæmt eftir þeim gögnum sem lágu fyrir í héraði.

III

Sóknaraðili bendir á að í hinum kærða úrskurði sé vísað til skattframtals hans árið 2000 og það lagt til grundvallar um eignir hans við upphaf sambúðar aðila sem hófst síðla árs 1998. Byggir sóknaraðili á þeirri málsástæðu fyrir Hæstarétti að skattframtalinu hafi aldrei verið skilað til skattyfirvalda og því hafi skattur vegna ársins 1999 verið áætlaður á sóknaraðila. Af þessum sökum sé ekki um eiginlegt skattframtal að ræða eins og ætla megi að lagt hafi verið til grundvallar í úrskurði héraðsdóms. Í greinargerð til héraðsdóms var byggt á þeirri málsástæðu af hálfu varnaraðila að engin eignamyndun, svo einhverju næmi, hafi orðið hjá aðilum áður en þau hófu sambúðina. Til stuðnings þessu lagði hún fram með greinargerðinni afrit af umræddu skattframtali. Var því ríkt tilefni fyrir sóknaraðila til að andmæla framtalinu á þeirri forsendu að því hefði aldrei verið skilað til skattyfirvalda og halda því fram að það gæti haft áhrif á sönnunargildi þess. Kemst þessi nýja málsástæða ekki að fyrir Hæstarétti, enda standa ekki til þess lagaskilyrði 2. mgr. 163. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr., laga nr. 91/1991. Jafnframt er ekki fullnægt þeim lagaskilyrðum til að sóknaraðili komi að hér fyrir dómi þeirri nýju málsástæðu að hann hafi við upphaf sambúðarinnar átt nánar tilgreindar eignir, sem ekki koma fram á framtalinu, en sú gagnaöflun fyrir réttinum, sem áður er fjallað um, var ætlað að sanna það eignarhald.

Í greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms var byggt á því að hann hefði áður en sambúðin hófst átt töluverðar eignir, en sú staðhæfing var ekki studd neinum gögnum. Þegar hann gaf aðilaskýrslu fyrir dómi taldi hann að mistök hefðu orðið við framtalsgerðina árið 2000 þannig að láðst hefði að geta um frekari eignir án þess þó að hann vefengdi framtalið að öðru leyti. Því er óhætt að leggja til grundvallar að það sem fram kemur á framtalinu um tekjur sóknaraðila, eignir hans og skuldir sé byggt á upplýsingum frá honum sjálfum, en á þessum árum voru upplýsingar á framtöl ekki forskráðar í sama mæli og síðar hefur verið gert. Samkvæmt þessu og að því gættu sem áður er rakið um sönnunarhlið málsins hér fyrir dómi verður skattframtalið lagt til grundvallar um eignastöðu sóknaraðila og að hún hafi verið óveruleg við upphaf sambúðar aðila.

Svo sem nánar er rakið í hinum kærða úrskurði stóð óvígð sambúð aðila í rúm sextán ár og á þeim tíma eignuðust þau þrjú börn. Allan sambúðartímann héldu aðilar sameiginlegt heimili og töldu saman fram til skatts á árunum 2001 til 2014. Þótt varnaraðili hafi á sambúðartímanum ekki haft launatekjur heldur sinnt heimilsstörfum er þess að gæta að hún átti eignir í upphafi sambúðarinnar, fékk umtalsverðar fjárhæðir í fyrirframgreiddan arf frá foreldrum sínum og hafði fjármagnstekjur af eignarhlutum í fyrirtækjum sem voru í eigu fjölskyldu hennar. Þá verður að líta til þess að sóknaraðili starfaði lengst af á sambúðartímanum hjá fyrirtækjum í eigu fjölskyldu varnaraðila og má slá því föstu að hann hafi í þeim efnum notið tengsla sinna við hana. Þá verður ráðið af gögnum málsins að fjárhagur aðila hafi verið samofinn og með þeim rík fjárhagsleg samstaða.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða að skipta jafnt á milli aðila eignum þeirra á þann veg sem greinir í dómsorði.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á þá niðurstöðu að ekki sé að svo stöddu fullnægt skilyrðum 1. mgr. 110. gr. laga 20/1991 til að fallast á kröfu um útlagningu á fasteign aðila að [...] í [...]. Þegar af þeirri ástæðu bar að réttu lagi að fella úr gildi ákvörðun skiptastjóra þess efnis og verður sú krafa sóknaraðila tekin til greina.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Varnaraðili hefur hins vegar ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því ekki til álita krafa hennar um málskostnað í héraði.

Það athugast að eftir að aðilar höfðu skilað greinargerðum til Hæstaréttar bárust réttinum viðbótargreinargerðir þeirra beggja. Fyrir þessum skriflega málflutningi er engin heimild og er hann aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, við lok óvígðrar sambúðar þeirra skal skipta jafnt eignum þeirra á viðmiðunardegi skiptanna án tillits til þess hvernig skráningu eigna er hagað.

Felld er úr gildi ákvörðun skiptastjóra að leggja út til varnaraðila fasteignina [...] í [...].

Sóknaraðili greiði varnaraðila 800.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. júní 2016.

I.

Með bréfi skiptastjóra, dagsettu 17. nóvember 2015, sem móttekið var af dóminum 18. nóvember 2015, var ágreiningi aðila um fjárslit vegna skilnaðar að borði og sæng skotið til héraðsdóms til úrlausnar, sbr. 112. gr., sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Málið var þingfest 15. desember 2015 og tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 13. maí 2016.

                Sóknaraðili er K, kt. [...], [...], [...].

                Varnaraðili er M, kt. [...], með lögheimili að [...], [...].

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði:

                A. Að hún eigi eftirtaldar eignir til helminga á móti varnaraðila:

                1. Fasteignina [...], [...];

                2. Bankainnistæður, innlendar og erlendar, sem voru við upphaf skipta á bankareikningum sem varnaraðili er skráður fyrir;

                3. Einkahlutafélögin A ehf., B ehf. og C ehf.;

                4. Aðra hlutafjáreign, innlenda sem erlenda, sem skráð var á varnaraðila við upphaf skipta;

                5. Innbú [...], [...], þar með talin húsgögn og annan húsbúnað í gámum.

                B. Að henni skuli lögð út fasteignin [...], [...], gegn lausn varnaraðila undan skuldbindingum hans samkvæmt veðskuldabréfi Landsbankans hf., útgefnu 29. apríl 2014, upphaflega að fjárhæð 55 milljónir króna og greiðslu helmings matsfjárhæðar fasteignarinnar, að frádregnum eftirstöðvum framangreinds skuldabréfs á útlagningardegi.

                C. Að ekki verði sett fyrir útlagningu [...], [...], önnur skilyrði en þau er varða greiðslu fyrir eignarhluta varnaraðila og lausn hans undan skuldbindingum samkvæmt veðskuldabréfi Landsbankans hf.

                D. Að varnaraðila beri að aflétta af fasteigninni [...], [...], veðkröfum vegna tveggja handhafaskuldabréfa sem hann er einn skuldari að, útgefnum 21. maí 2010, upphaflega að fjárhæð samtals 120 milljónir króna.

                E. Að henni sé ekki skylt að inna af hendi greiðslu vegna eignarhluta varnaraðila í [...], [...], fyrr en varnaraðili hefur aflétt af fasteigninni [...], [...], veðkröfum vegna tveggja handhafaskuldabréfa sem hann er einn skuldari að, útgefnum 21. maí 2010, upphaflega að fjárhæð samtals 120 milljónir króna.

                F. Að varnaraðila verði ekki lagðir út bankareikningar skráðir á hans nafn, einkahlutafélögin A ehf., B ehf. og C ehf. eða annað hlutafé skráð á hans nafn án greiðslu hans á helmingi verðmætis framangreindra eigna til sóknaraðila.

                G. Að ekki falli undir heimildir skiptastjóra að taka ákvörðun um afhendingu varnaraðila á hlutum í hennar vörslu til þriðja aðila sem ekki er aðili að hinum opinberu skiptum eða að framfylgja slíkri ákvörðun.

                Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Dómkröfur varnaraðila eru eftirfarandi:

                1. Aðallega að kröfum sóknaraðila merktum D og E í greinargerð sóknaraðila verði vísað frá dómi og kröfum sóknaraðila merktum A, B, C, F og G í greinargerð sóknaraðila verði hafnað.

                Til vara er þess krafist að kröfum sóknaraðila merktum D og E í greinargerð sóknaraðila verði hafnað.

                Til þrautavara er þess krafist að viðurkennt verði að varnaraðili eigi helmingshlutdeild í eftirtöldum eignum á móti sóknaraðila:

a)       bifhjólið [...] sem skráð er á sóknaraðila;

b)       innlendar og erlendar bankainnstæður sem voru við upphaf skipta á bankareikningum skráðum á sóknaraðila; og

c)       hlutafjáreign, innlenda sem erlenda, sem skráð var á sóknaraðila við upphaf skipta, þ.m.t. félagið D ehf.

                2. Að felld verði úr gildi ákvörðun skiptastjóra um útlagningu fasteignarinnar að [...], [...], til sóknaraðila, en til vara að ákvörðun skiptastjóra um útlagningu fasteignarinnar verði staðfest með öllum þeim skilyrðum sem skiptastjóri setti útlagningunni.

                3. Að viðurkennt verði að eignarhlutur varnaraðila í fasteigninni að [...], [...], fastanúmer [...], sé 94,12%.

                4. Að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra um að varnaraðila verði lagðir út bankareikningar skráðir á hans nafn, einkahlutafélögin A ehf., B ehf. og C ehf. og annað hlutafé skráð á hans nafn án þess að til komi greiðsla frá honum.

                5. Að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra um að sóknaraðila verði gert að afhenda félaginu B ehf. þá listmuni sem eru í eigu þess og staðsettir voru í [...] við upphaf skipta.

                Þá krefst varnaraðili þess að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

II.

Málsaðilar kynntust á árinu 1997, en þá stundaði varnaraðili nám við [...], en sóknaraðili við [...]. Varnaraðili kveðst þá hafa meðfram námi, bæði síðustu tvö ár hans í menntaskóla og í háskóla, stundað eigin fjárfestingar og náð nokkrum árangri. Sóknaraðili kveðst hafa flutt á höfuðborgarsvæðið í janúar 1998 og óumdeilt er að haustið 1998 keypti varnaraðili íbúð í [...] í [...] þar sem aðilar hófu sambúð sína. Áður hafði varnaraðili búið á heimili móður sinnar.

                Varnaraðili hóf störf hjá [...] á árinu 1998 og kveðst hafa orðið [...] 21 árs gamall meðfram háskólanámi og loks [...] og framkvæmdastjóri fyrsta [...] á Íslandi. Að sögn varnaraðila voru launatekjur hans strax á þeim tíma talsverðar auk þess sem eignir hans hafi aukist vegna hlutabréfaviðskipta sem hann hafi stundað samhliða starfi. Sóknaraðili fór að vinna í [...] hf. eftir að hún flutti á höfuðborgarsvæðið og vann þar fram á vor 1999 eða í rúmlega eitt ár. Hún var [...] eldri [...] aðila sem hún fæddi [...]. [...] málsaðila fæddist [...] og [...] málsaðila og yngsta barn þeirra fæddist [...]. Eftir að elsta barnið fæddist hefur sóknaraðili ekki starfað utan heimilis og ekki haft neinar launatekjur. Varnaraðili kveður að á tímabilinu frá árinu 2002 til 2013 hafi launa- og fjármagnstekjur hans numið 1.839.385.885 krónum.

                Varnaraðili keypti hús við [...] í [...] á árinu 2000 og fluttu málsaðilar þangað um haustið. Varnaraðili var þá enn að vinna hjá [...], en á árinu 2001 var varnaraðili ráðinn sem aðstoðarforstjóri [...] hf. Eftir stutta veru hjá [...] tók varnaraðili síðla árs 2001 við starfi sem framkvæmdastjóri [...] ehf., sem var fyrirtæki í eigu fjölskyldu sóknaraðila. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðila hafi verið sagt upp störfum, bæði hjá [...] og [...]. Varnaraðili kveðst hins vegar hafa látið af störfum hjá [...] hf. að eigin frumkvæði.

                Samkvæmt framlögðum gögnum festu málsaðilar sameiginlega kaup á einbýlishúsi við [...] í [...] vorið 2002 og fluttu inn í það þá um haustið og er fasteignin samkvæmt opinberri skráningu að jöfnu í eigu þeirra beggja. Varnaraðili heldur því þó fram að hann hafi greitt í reiðufé 59.626.011 krónur af 68.000.000 króna kaupverði fasteignarinnar. Þá hafi málsaðilar tekið sameiginlega 8.000.000 króna lán hjá fjármálastofnun. Samtals hafi því varnaraðili reitt af hendi um 64.000.000 króna til kaupa á fasteigninni og nemi hlutdeild í húsinu því a.m.k. 94,12%. Hin opinbera skráning á eignarhaldi fasteignarinnar sé því ekki rétt.

                Á árinu 2002 varð varnaraðili stjórnarformaður [...] hf., en það félag var í eigu [...] ehf. og [...] hjá [...] hf. Þá varð varnaraðili á árinu 2003 stjórnarmaður í [...] hf. sem þá var í eigu  [...] ehf. og tengdra aðila, auk [...] hjá [...] hf. Á vormánuðum 2004 varð varnaraðili starfandi stjórnarformaður [...] hf. með hluthafasamkomulagi eigenda. [...] hf. tók síðan yfir [...] hf. þá um haustið og þegar [...] ehf. og tengdir aðilar voru orðnir stærsti eigandi [...] hf. snemma árs 2005 var varnaraðili ráðinn forstjóri félagsins. Sóknaraðili heldur því fram að allt hafi þetta gerst í krafti framkvæmdastjórastöðu varnaraðila hjá [...] ehf. og eignarhluta [...] ehf. í [...] hf.

                Haustið 2009 lét varnaraðili af störfum sem forstjóri [...] hf., en þá var eigið fé félagsins orðið neikvætt og tóku kröfuhafar félagið yfir í byrjun febrúar 2010.

                Varnaraðili mótmælir því sem í veðri sé látið vaka í greinargerð sóknaraðila að ráðning hans í starf framkvæmdastjóra [...] ehf. byggist á tengslum við sóknaraðila. Hið rétta sé að [...] ehf. hafi verið félag sem hafi verið í umtalsverðum fjárhagsvandræðum og rambað á barmi gjaldþrots þegar varnaraðili tók við sem framkvæmdastjóri seint á árinu 2001, enda hafi taprekstur félagsins verið gífurlegur á því ári. Strax á árinu 2002, þ.e. á fyrsta starfsári varnaraðila í starfi, hafi tekið að birta til í fjárhag félagsins og hafi hann batnað stöðugt næstu árin þar á eftir. Hafi það einkum verið fyrir viðskiptaákvarðanir varnaraðila sem hagur félagsins vænkaðist og beri þar helst að nefna fjárfestingu í [...], sem síðar hafi orðið að  [...] hf., og [...], sem síðar hafi orðið að [...] hf. [...] hf. og [...] hf. hafi verið sameinuð í eitt félag á árinu 2004 og hafi varnaraðili gegnt lykilstöðum í því félagi eftir að hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri [...] ehf. á árinu 2005. Þá hafi varnaraðili verið eigandi helmingshlutafjár í [...] ehf. sem hafi orðið stærsti hluthafi [...] hf. Kveðst varnaraðili hafa nýtt fé sitt til þeirra kaupa. Bendir varnaraðili á að honum og föður sóknaraðila hafi verið gert kauptilboð í hluti þeirra í [...] hf. af [...] hf. á árinu 2007 upp á [...] íslenskra króna, sem ekki hafi verið tekið og undirstriki það þau verðmæti sem varnaraðili hafði myndað í starfi sínu fyrir [...] ehf. Kröfuhafar hafi tekið yfir [...] hf. í kjölfar bankahrunsins, sem hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir félagið er lán hafi margfaldast og eignir skroppið saman líkt og hjá mörgum öðrum félögum. Rangt sé því að varnaraðili eigi að einhverju leyti eignamyndun sína að þakka sóknaraðila eða fjölskyldu hennar.

                Eins og áður greinir var sóknaraðili heimavinnandi allt frá því að elsta barn málsaðila fæddist. Kveðst hún nær alfarið hafa séð um heimilið og börnin, en varnaraðili hafi meira og minna verið í vinnunni eða á ferðalögum erlendis í tengslum við störf sín allt þar til hann lét af störfum hjá [...] hf. Varnaraðili bendir á að þótt sóknaraðili hafi verið heimavinnandi nánast alla sambúðina hafi varnaraðili lagt henni umtalsvert lið, bæði persónulega og með því að greiða fyrir þrif heimilisins og barnapössun.

Í apríl 2012 fóru málsaðilar með börn sín í [...] ferðalag um [...] og [...] og í júní árið 2013 flutti fjölskyldan til [...] þar sem hún bjó í eitt ár. Að aflokinni dvöl þar flutti fjölskyldan aftur til Íslands.

                Sóknaraðili flutti af heimili málsaðila með börnin 16. febrúar árið 2015. Að sögn varnaraðila eftirlét hún honum vörslur hússins en fluttist sjálf í aðra fasteign í [...]. Varnaraðili kveður að um langt skeið hafi sóknaraðili ekki gert kröfu til þess að fá vörslur fasteignarinnar og ekki heldur gefið til kynna að hún vær ósátt við það fyrirkomulag að varnaraðili byggi í fasteigninni. Á meðan varnaraðili hafi verið erlendis í ágúst 2015 hafi hún hins vegar farið inn í fasteignina í heimildarleysi og látið skipta um skrár. Frá þeim tíma hafi sóknaraðili haft vörslur fasteignarinnar og hvorki greitt af því láni sem á fasteigninni hvíli né greitt aðra reikninga vegna reksturs hennar. Muni nú vera svo komið að í óefni stefni, en varnaraðili kveðst hafa fengið um það tilkynningu frá lánveitanda, Landsbankanum hf., að lánið hafi verið gjaldfellt vegna vanskila síðustu mánaða og til standi að selja fasteignina á uppboði.

                Með beiðni, dagsettri 18. mars 2015, krafðist sóknaraðili þess að fram færu opinber skipti til fjárslita á milli aðila og var krafan tekin til greina með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2015. Sama dag var Þyrí Steingrímsdóttir hrl. skipuð til að fara með skiptastjórn í búinu.

                Í áðurgreindu bréfi skiptastjóra til dómsins segir að á fyrsta skiptafundi hinn 8. maí 2015 hafi verið bókað að eignir búsins væru eftirfarandi:

1.       Fasteignin [...], skráð eign beggja að jöfnu

2.       Bifhjól [...], skráð eign K

3.       Bankainnstæður, innlendar og erlendar, skráð á bæði

4.       Hlutafjáreign, innlend

5.       Hlutafjáreign, erlend á nafni mannsins

6.       Hlutafélög

a.       A ehf. [...]

i.                     Skráður hluthafi M

ii.                    Eignir m.a. [...] ehf.

b.       B ehf. [...]

i.                     Skráður hluthafi M

ii.                    Eignir m.a. [...]  ehf. og sumarbústaður

c.        C ehf. [...]

i.                     Skráður hluthafi M

ii.                    Eignir m.a. bifreiðin [...], [...] og bátar 

d.       D ehf. [...]

i.                     Skráður hluthafi K

ii.                    Eignir m.a. bifreiðin [...], [...]

7.       Innbú

                Á fimmta skiptafundi hinn 6. nóvember 2015 hafi skiptastjóri tekið ákvarðanir um málefni búsins og kröfur aðila. Hafi þeim öllum verið mótmælt, ýmist af konunni eða manninum eða báðum og krafist úrlausnar héraðsdóms. Um rökstuðning og lagarök fyrir ákvörðunum skiptastjóra og efnisleg mótmæli aðila vísar skiptastjóri til ítarlegrar fundargerðar frá áðurgreindum skiptafundi 6. nóvember 2015.

                Skiptastjóri kveður ágreiningsefni málsaðila vera eftirfarandi:

                Í fyrsta lagi lúti ágreiningur aðila að útlagningu eigna samkvæmt ákvæðum 109. og 110. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

                Skiptastjóri hafi ákveðið að leggja varnaraðila út þær eignir sem hann væri skráður fyrir í samræmi við kröfu hans. Um hafi verið að ræða bankareikninga og hlutabréf, sem skráð væru á hans nafn og hlutafélögin A ehf., B ehf. og C ehf. Sóknaraðili hafi mótmælt ákvörðun skiptastjóra og krafist þess að ákvörðuninni yrði skotið til héraðsdóms til úrlausnar.

                Þá kveðst skiptastjóri hafa ákveðið að leggja konunni út sameign aðila að [...] í samræmi við kröfu hennar. Þá hafi skiptastjóri ákveðið að hún skyldi innan 15 daga frá því að útlagningarverð lægi fyrir samkvæmt verðmati löggilts fasteignasala reiða af hendi mismun verðmætis fasteignarinnar með peningagreiðslu að frádregnu áhvílandi láni sem báðir aðilar væru skráðir skuldarar að. Þá þyrfti sóknaraðili að tryggja að áhvílandi lán héldist í skilum, sem og greiðslur vegna reksturs fasteignarinnar, en í því fælist að hún stæði skil á því sem þegar væri gjaldfallið. Maðurinn mótmælti ákvörðun skiptastjóra og krafðist þess að ákvörðuninni yrði skotið til héraðsdóms til úrlausnar. 

                Vegna ágreinings um ákvörðun skiptastjóra um útlagningu fasteignarinnar kveðst skiptastjóri hafa ákveðið að láta þinglýsa kvöð á fasteignina um að hún skyldi hvorki seld þriðja aðila né veðsett meðan leyst væri úr ágreiningi málsaðila, enda gæti útlagningin þá gengið til baka ef héraðsdómur kæmist að annarri niðurstöðu. Sóknaraðili hafi mótmælt þeirri ákvörðun skiptastjóra og krafist þess að ákvörðuninni yrði skotið til héraðsdóms til úrlausnar.

                Vegna ágreinings um ákvörðun skiptastjóra um útlagningu eigna til mannsins hafi skiptastjóri ákveðið að þeim fjármunum sem sóknaraðili stæði skil á vegna fasteignarinnar yrði ekki úthlutað til mannsins fyrr en leyst hefði verið úr ágreiningi varðandi eignarhlut konunnar í þeim eignum, enda gæti þá sú fjárhæð staðið til tryggingar mögulegri kröfu konunnar. Varnaraðili hafi mótmælt þeirri ákvörðun skiptastjóra og krafist þess að ákvörðuninni yrði skotið til héraðsdóms til úrlausnar.

                Í öðru lagi hafi ágreiningur málsaðila lotið að afhendingu listmuna í eigu B ehf. til fyrirsvarsmanns félagsins.

                Skiptastjóri hafi ákveðið að maðurinn skyldi fá afhenta tiltekna listmuni, sem staðsettir hafi verið í fasteigninni að [...], en í eigu B ehf., en félagið hafi verið útlagt honum á sama fundi. Konan hafi mótmælt ákvörðun skiptastjóra og krafist þess að ákvörðuninni yrði skotið til héraðsdóms til úrlausnar.

                Skiptastjóri hafi ákveðið að framfylgja fyrrgreindri ákvörðun um afhendingu og farið að [...] 15 hinn 13. nóvember í þeim tilgangi að fá munina afhenta. Konan hafi neitað afhendingu og mótmælt ákvörðun skiptastjóra þar um. Skiptastjóri hafi ekki talið sér fært að fjarlægja munina án samþykkis konunnar. Maðurinn hafi mótmælt þeirri afstöðu skiptastjóra og krafist þess að afhending færi fram. Báðir aðilar hafi krafist úrlausnar héraðsdóms um ágreiningsefnið.

                Í þriðja lagi hafi verið ágreiningur um eignarhald skráðra eigna mannsins.

                Á fyrsta skiptafundi 8. maí 2015 hafi konan lýst því yfir að hún teldi að allar eignir aðila væru sameignir og að hún krefðist helmingshlutdeildar í þeim. Á fimmta skiptafundi 6. nóvember í tengslum við útlagningu eigna til mannsins hafi konan ítrekað kröfu sína og krafist hlutdeildar í eignunum. Maðurinn hafi mótmælt kröfunni.

                Skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til kröfunnar en vísað ágreiningi um eignarhlutdeild í eignum mannsins til úrlausnar héraðsdóms.

                Í fjórða lagi hafi verið ágreiningur um skráð eignarhlutföll fasteignarinnar að [...].

                Á fimmta skiptafundi 6. nóvember hafi maðurinn krafist þess að vikið yrði frá skráðum eignarhlutföllum fasteignarinnar að [...] og að þeim yrði breytt á þann veg að hann ætti 94,12% af eigninni, en hann hafi á öðrum skiptafundi 16. júní sl. áskilið sér rétt til að gera slíka kröfu. Konan hafi mótmælt kröfunni.

                Skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til kröfunnar en vísað ágreiningi um eignarhlutdeild í fasteigninni að [...] til úrlausnar héraðsdóms.

III.

                Dómkrafa A.

                Sóknaraðili kveðst aðallega byggja á því að allir fjármunir aðila við sambúðarslit hafi verið sameign. Aðilar hafi haft vilja til og litið svo á að þau væru í fjárfélagi og að sameignarfyrirkomulag ríkti í sambúðinni um allar þeirra eignir, að minnsta kosti frá því [...] í ársbyrjun árið 2000 og varnaraðili hvarf af vinnumarkaði. Engin eignamyndun sem orð sé á gerandi hafi átt sér stað hjá aðilum fyrir það tímamark og því séu engar eignir við sambúðarslitin undanskildar. Þannig reyni ekki á reglur sifjaréttar um ráðstöfun eigna við sambúðarslit, heldur eigi við reglur fjármunaréttarins um sérstaka sameign.

                Öll háttsemi aðila á sambúðartímanum beri þess ótvírætt merki að aðilar hafi litið svo á að þau væru í fjárfélagi um allar eignir sínar. Þannig hafi aðilar talið saman fram til skatts allt frá skattárinu 2000 og í þeim framtölum sé hvergi greint á milli eigna þeirra eftir því hvor aðili hafi komið fram við kaup þeirra eða eftir því hvort þeirra sé eða hafi verið skráð fyrir tiltekinni eign. Reyndar geri framtölin gott betur en að staðfesta hina fjárhagslegu samstöðu, þau staðfesti afdráttarlaust að framteljendur, aðilar máls þessa, hafi alla tíð litið svo á að þau ættu allar eignir til helminga.

                Framtöl vegna skattáranna 2010 til 2013 séu einu skattframtöl aðila, frá því að þau hófu að telja fram saman árið 2000, þar sem finna megi einhverja skiptingu eigna á milli aðila. Í öllum öðrum framtölum sé aðeins gerð grein fyrir heildareignum þeirra saman. Ástæðan sé sú að á þessu tímabili hafi verið lagður á auðlegðarskattur og hafi borið að gera einstaklingsbundna grein fyrir eignum framteljenda á sérstöku fylgiskjali með skattframtalinu; fylgiskjali 3.23 sem beri heitið “Viðbót við auðlegðarskattstofn”. Með hverju skattframtali á téðum árum sé því að finna eitt slíkt útfyllt fylgiskjal fyrir sóknaraðila og annað fyrir varnaraðila. Þegar eyðublöðin séu skoðuð blasi það við að á fylgiskjali sóknaraðila öll fjögur árin komi fram að hún eigi jafn marga hluti og varnaraðili í öllum þeim hlutafélögum sem þar séu tilgreind.

                Skattframtali aðila vegna áðurnefndra fjögurra ára og reyndar einnig vegna skattársins 2014 fylgi einnig annað fylgiskjal sem sé númer 3.19 og beri það heitið “Hlutabréfaeign – kaup og sala”. Á því eyðublaði eigi að tilgreina öll hlutafélög og einkahlutafélög sem framteljandi eigi eignarhlut í og sé fylgiskjalið eins og fylgiskjal 3.23 að því leyti að gert virðist ráð fyrir því að hvor aðili tilgreini þau hlutabréf sem hann hafi átt viðskipti með ef makar og sambúðarfólk telur fram saman. Með skattframtali aðila á áðurnefndum árum hafi hins vegar aðeins fylgt eitt fylgiskjal 3.23. Skemmst sé frá því að segja að á fylgiskjali 3.23 öll fimm árin sé sóknaraðili ein tilgreind sem sá sem átt hafi viðskipti með þau hlutabréf sem þar hafi verið tilgreind og sem eigandi þess hlutafjár sem þar hafi verið tilgreint. Kemur nafn hennar fram í þar til gerðum reit efst á fylgiskjalinu sem beri heitið “Persónuupplýsingar”. Hvergi hafi verið minnst á varnaraðila í því sambandi þrátt fyrir að hann hafi að minnsta kosti í einhverjum tilvikum verið skráður eigandi hlutafjárins á öðrum vettvangi.

                Enn fremur hafi varnaraðili sjálfur staðfest fyrir skiptastjóra hversu djúpt hin fjárhagslega samstaða aðila hafi rist í sambúðinni. Þannig hafi hann verið krafinn skýringa á því hvernig á því stæði að mismunur 55 milljóna króna veðláns sem aðilar hafi tekið saman hjá Landsbanka Íslands og þeirra sameiginlegu skulda sem greiddar hafi verið upp með þeirri lántöku, hafi allur runnið inn á bankareikning hans en ekkert inn á bankareikning sóknaraðila. Varnaraðili hafi svarað því svo til að ekkert væri athyglisvert eða óvenjulegt við það að aðilar hefðu tekið lán í sameiningu, en að hann hafi látið ráðstafa nettó greiðsluflæði af láninu að öllu leyti inn á eigin bankareikning. Hann hafi enda greitt sameiginleg útgjöld vegna fjölskyldunnar af þeim reikningi. Þetta sýni ótvírætt að báðir aðilar voru í þeirri trú að þeir hefðu sameiginlegan fjárhag og byggju við sameignarfyrirkomulag. Að öðrum kosti hefði varnaraðili með háttsemi sinni verið að fremja auðgunarbrot með því að taka til sín allt fjárstreymi frá láninu.

                Þá kveðst sóknaraðili leggja áherslu á að öll eignamyndun aðila á sambúðartímanum hafi staðið í sterkum tengslum við persónu hennar og hennar fjölskyldu. Fyrsta markverða nettóeign aðila eftir að sambúð þeirra hófst hafi verið fyrirframgreiddur arfur foreldra sóknaraðila til hennar í febrúar árið 2000 sem hafi verið fyrsta skrefið í þá átt að gera frekari eignamyndun aðila mögulega. Hann hafi aldrei verið sérgreindur frekar en annar fyrirframgreiddur arfur síðar. Þá tengist svo gott sem allar eignir aðila störfum sem faðir sóknaraðila hafi ráðið varnaraðila til fyrir hennar orð eða fjárfestingum sem tengst hafi störfum varnaraðila fyrir tengdaföður sinn. Á því tímabili sem varnaraðili hafi unnið hjá fjölskyldufyrirtæki sóknaraðila og með tekjum af þessum störfum hafi nær allar fjárfestingar aðila átt sér stað og allar endurfjárfestingar hvíli á þeim grunni. Ljóst sé að faðir sóknaraðila hafi ekki ráðið varnaraðila til starfa í þeirri trú að með því væri hann að tryggja honum persónulega auðsöfnun sem ekki kæmi sóknaraðila við.

                Þá kveðst sóknaraðili árétta að samkvæmt almennum reglum fjármunaréttarins um sérstaka sameign eigi sameigendur eignar hana til jafns ef ekki er sýnt fram á önnur eignarhlutföll.

                Til vara kveðst sóknaraðili byggja á því að í samræmi við óskráðar reglur sifjaréttarins um óskipta sambúð, svo sem þær birtist í dómafordæmum og umfjöllun fræðimanna, beri henni helmingshlutdeild í allri eignamyndun aðila á sambúðartímanum, enda hafi verið alger fjárhagsleg samstaða með aðilum.

                Þegar sambúðin hófst hafi hvorugur aðila átt nettóeignir svo neinu hafi numið og öll nettóeign þeirra við sambúðarslitin hafi myndast á sambúðartímanum.

                Frá því [...] árið 2000, þ.e. lungann af sambúðartímanum, hafi varnaraðili verið útivinnandi en sóknaraðili verið heimavinnandi og borið hitann og þungann af umönnun og uppeldi þriggja barna þeirra.

                Af ofangreindum sökum verði eignum aðila ekki skipt í hlutföllum sem endurspegli þær eignir sem hvort fyrir sig kom með inn í sambúðina eða þær tekjur sem aðilar öfluðu á sambúðartímanum.

Framangreindar málsástæður eigi við um alla þá eignarflokka sem tölusettir séu frá 1 til 5 undir dómkröfu A og í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar skuli þær teljast sérstaklega endurteknar fyrir hvern þeirra, auk þeirra viðbótarmálsástæðna sem við eigi um hvern og einn þeirra hér að neðan:

                Eignaflokkur 1 – [...], [...].

                Aðilar hafi keypt fasteignina að [...] 15 hinn 14. júní 2002. Kaupsamningur, afsal og þar af leiðandi þinglýsingarvottorð tilgreini aðila sem sameigendur fasteignarinnar í jöfnum hlutföllum. Aðilar séu sameiginlega skuldarar að eina raunverulega veðláninu sem á fasteigninni hvíli, veðskuldabréfi Landsbankans hf., útgefnu 29. apríl 2014, upphaflega að fjárhæð 55 milljónir króna. Skuld við Landsbankann hf. á 1. veðrétti hafi verið greidd upp þó svo að hún komi enn fram á veðbandayfirliti og handhafaskuldabréf á 3. og 4. veðrétti séu málamyndagerningar.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að dómaframkvæmd Hæstaréttar feli það í sér að um eignarhald á fasteignum við fjárslit skuli að meginstefnu styðjast við skráðar eignarheimildir. Sá sem geri kröfu um önnur eignarhlutföll en opinber skráning gefi til kynna beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu og að þeirri sönnunarbyrði verði aðeins mætt með gögnum sem hreki með ótvíræðum hætti þau eignarhlutföll sem skráning beri með sér. Þessari sönnunarbyrði hafi varnaraðili með engu móti mætt.

                Í máli þessu hátti svo til að hin skráðu eignarhlutvöll fasteignarinnar að [...] séu í algeru samræmi við þá hugmynd og ætlun aðila að þeir ættu allar eignir í sameign, til helminga, eins og hún hafi birst í allri þeirra háttsemi á sambúðartímanum. Enga þýðingu hafi af hvaða bankareikningum greiðslur vegna fasteignakaupanna hafi komið, enda hafi fyrir löngu verið komin á fjárhagsleg samstaða og samkrull með aðilum þegar kaupin áttu sér stað. Búið hafi verið að greiða sóknaraðila fyrirframgreiddan arf, varnaraðili verið kominn í vinnu hjá föður hennar, hann á vinnumarkaði, hún að sinna [...], [...] og fjármunir aðila, þá eins og síðar, algerlega ósundurgreindir.

                Eignaflokkur 2 – bankainnistæður.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að þeir fjármunir sem á bankareikningunum hafi verið að finna við sambúðarslitin hafi að miklu leyti verið til komnir vegna sölu á verðbréfum sem aðilar hafi átt í sameign til helminga svo sem nánar verði gerð grein fyrir hér að neðan. Á því tímamarki hafi aðilar ekki haft aðrar tekjur frá árinu 2009. Af því leiði að fjármunum á bankareikningum skuli skipt jafnt á milli aðila.

                Eignaflokkur 3 – einkahlutafélög.

                Sóknaraðili byggir á því að hún hafi frá upphafi verið eigandi helmings hlutafjár í einkahlutafélögunum A ehf., B ehf. og C ehf. Þrátt fyrir að ársreikningar umræddra félaga tilgreini varnaraðila ranglega sem eina hluthafa þeirra, sýni skattframtal aðila vegna skattáranna 2010 til 2013 með ótvíræðum hætti að málsaðilar eigi félögin til helminga. Þegar fylgiskjöl aðila nr. 3.23 séu skoðuð blasi það við að á fylgiskjali sóknaraðila öll fjögur árin komi fram að hún eigi 250.000 hluti í A ehf., 250.000 hluti í B ehf. og 250.000 hluti í C ehf. Á fylgiskjali varnaraðila öll fjögur árin megi sjá að hann eigi jafn marga hluti og sóknaraðili í öllum félögunum, en þau eigi það sameignlegt að heildarhlutafé þeirra sé 500.000 hlutir. Þá hafi aðilar sameiginlega farið með stjórn allra félaganna með þeim hætti að varnaraðili hafi verið eini stjórnarmaðurinn og varnaraðili eini varastjórnarmaðurinn.

                Þegar skoðað sé fylgiskjal með áðurnefndum skattframtölum númer 3.19 og reyndar einnig með skattframtali 2014, sé skemmst frá því að segja að öll fimm árin hafi sóknaraðili ein verið tilgreind sem sá sem átti viðskipti með þau hlutabréf sem þar voru tilgreind og sem eigandi þess hlutafjár sem þar var tilgreint. Komi nafn hennar fram í þar til gerðum reit efst á fylgiskjalinu sem beri heitið “Persónuupplýsingar”. Hvergi sé minnst á varnaraðila í því sambandi. Öll árin komi fram hlutafjáreign sóknaraðila í einkahlutafélögunum A ehf., B ehf. og C ehf. sem nemi 500.000 hlutum.

                Af ofangreindum opinberum gögnum sem skilað hafi verið inn til stjórnvalda með staðfestingu framteljenda á því að upplýsingar sem þar kæmu fram væru réttar og að viðlagðri refsingu ef út af bæri, verði ekki dregin önnur ályktun en að sóknaraðili eigi hið minnsta helmingshlut í einkahlutafélögunum þremur.

                Eignaflokkur 4 – önnur hlutabréf.

                Hér kveðst sóknaraðili byggja á sömu málsástæðum og fram koma í umfjöllun um eignaflokk 3.

                Eignaflokkur 5 – innbú.

                Samkvæmt gögnum málsins hafi aðilar þegar samið um skiptingu stórs hluta innbús [...]. Til úrlausnar fyrir dóminn sé því hvernig skipta eigi því sem eftir standi af innbúinu og húsbúnaði og húsgögnum sem sé að finna í gámum sem varnaraðili hafi vörslur á og á heimili varnaraðila.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að umræddir munir hafi verið keyptir af aðilum saman, annaðhvort í sameiningu eða sumir af sóknaraðila og aðrir af varnaraðila, og af því leiði að henni beri helmingur þeirra við skiptin. Hvað flesta munina varði séu skilríki fyrir eignarhaldi ekki fyrir hendi og þar sem þau séu fyrir hendi skeri þau ekki úr um það hver hafi átt þá fjármuni sem notaðir hafi verið til að greiða fyrir munina. Sé þá einkum vísað til þess sem áður greini um notkun bankareikninga aðila og algera samþættingu fjármála þeirra.

                Dómkrafa B.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að samkvæmt skýru orðalagi 3. mgr., sbr. 4. mgr., 10. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 beri að leggja henni út fasteignina [...], [...]. Fasteignin sé sameign aðila til jafns og þar sem báðir aðilar krefjist útlagningar eignarinnar skuli sá ganga fyrir sem ætla megi að hafi meiri þörf fyrir eignina.

                Sameiginleg börn aðila búi öll hjá sóknaraðila sem ekki hafi yfir öðru húsnæði að ráða en [...]. Þar hafi öll börnin alist upp. Óvíst sé í hvaða hús sóknaraðili hefði að venda með börnin missti hún umráð þeirrar fasteignar. Varnaraðili hafi á hinn bóginn, í gegnum félag í hans eigu, fest kaup á einbýlishúsi við  [...] í [...] þar sem hann nú búi. Sé því einsýnt að sóknaraðili hafi mun meiri þörf fyrir útlagningu [...] en varnaraðili.

                Dómkrafa C.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að í útlagningu eignar samkvæmt 110. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. felist að eign sé þeim sem hana fái útlagða til frjálsrar ráðstöfunar, sbr. skýrt orðalag 1. mgr. 110. gr. Af þessu leiði að þegar ákvörðun hafi verið tekin um útlagningu verði ekki sett fyrir henni önnur skilyrði en, eftir atvikum, um peningagreiðslu samkvæmt 4. mgr. 110. gr.

                Af ofangreindu leiði að verði sóknaraðila lögð út fasteignin að [...], [...], sé sú eign henni til frjálsrar ráðstöfunar eftir að hún hefur innt af hendi peningagreiðslu fyrir eignarhlut varnaraðila í fasteigninni. Líta megi á yfirtöku hennar á veðskuld varnaraðila við Landsbankann hf. sem peningagreiðslu í skilningi þessa ákvæðis. Sóknaraðila sé því heimilt að selja eða veðsetja fasteignina eða ráðstafa henni með hverjum þeim hætti sem hún kjósi, verði henni lögð eignin út.

                Dómkrafa D.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að tvö handhafaskuldabréf sem varnaraðili sé einn skuldari að og sem útgefin hafi verið 21. maí 2010, upphaflega að fjárhæð samtals 120 milljónir króna, séu málamyndagjörningar sem honum beri að aflýsa af eigninni. Í gögnum málsins komi fram að skuldabréfin hafi verið útbúin á lögmannsstofu í þeim tilgangi einum að skerma af það fullnustuandlag sem kynni að vera í fasteigninni að [...], [...]. Það styrki enn frekar eðli umræddra veðskuldabréfa sem málamyndagjörnings að þau hafi fyrst komið fram á skattframtali aðila árið 2014, en ekkert hafi verið getið um þau í fyrri skattframtölum.

                Dómkrafa E.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að áðurgreind tvö handhafaskuldabréf, sbr. dómkröfu D, leiði til þess að fasteignin að [...] í [...] sé yfirskuldsett. Í henni séu því engin verðmæti á meðan skuldabréfin hvíli á eigninni.

                Samkvæmt 4. mgr. 110. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. verði sá sem fái eign útlagða einungis krafinn um peningagreiðslu fyrir það sem þar sé kallað afgangur verðmætis. Sé þar átt við verðmæti útlagðrar eignar umfram þann eignarhlut sem sá, sem fær eignina útlagða, á tilkall til úr búskiptum eða fjárslitum. Til þess að krafa verði gerð um peningagreiðslu af þessu tagi þurfi því að vera slíkur afgangur verðmætis fyrir hendi. Alveg óháð því hversu stórs eignarhluta sóknaraðili á tilkall til við fjárslitin, liggi fyrir að á meðan handhafaskuldabréfin tvö hvíli á [...] sé ekkert verðmæti í eigninni umfram áhvílandi skuldir. Þegar af þeirri ástæðu verði sóknaraðili ekki krafinn um greiðslu til varnaraðila vegna útlagningar fasteignarinnar fyrr en bréfunum hefur verið aflétt.

                Dómkrafa F.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að hún eigi helming þeirra eigna sem hér um ræði og vísar til umfjöllunar um dómkröfu A hvað það varði. Af því leiði að um útlagningu þeirra sameigna gildi 3. og 4. mgr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Miðað við yfirlit skiptastjóra yfir eignir aðila sé verðmæti þeirra eigna sem heyri undir dómkröfu F langt umfram þann hlut sem varnaraðila beri úr fjárslitunum. Honum beri því samkvæmt 4. mgr. 110. gr. laga nr. 20/1991 að greiða sóknaraðila svonefndan afgang verðmætisins með peningagreiðslu. Þar sé um að ræða helming verðmætis eignanna og verði þær ekki lagðar honum út án slíkrar greiðslu.

                Dómkrafa G.

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að við opinber skipti til fjárslita á milli sambúðarfólks verði ekki kveðið á um afhendingu eigna sem annað hvort þeirra hefur í vörslum sínum til þriðja aðila á grundvelli ætlaðs eignaréttar hans. Ekki sé um að ræða eiginlegt bú sem sé undir skiptum og sem geti haft vörslur eigna, öndvert við dánarbú eða þrotabú sem bæði séu sjálfstæðir lögaðilar sem taki við réttindum og skyldum hins látna eða gjaldþrota manns. Þvert á móti sé um að ræða fjárslit á milli tveggja einstaklinga og að samkvæmt þeim lagaákvæðum sem við eigi falli einungis eignir þeirra, það er að segja séreignir og sameignir, undir fjárslitin.

                Hvað varði eignir þriðja aðila sem annar hvor aðili fjárslitanna kunni að hafa undir höndum gildi almennar reglur og því verði viðkomandi ekki knúinn til afhendingar slíkra eigna nema eftir þeirri málsmeðferð er aðfararlög kveði á um.

                Þá kveðst sóknaraðili byggja á því að engar haldbærar eignarheimildir liggi fyrir sem staðfesti eign B ehf. á þeim munum sem um ræði.

IV.

Varnaraðili kveður það alrangt að eignir hans standi í einhverju samhengi við persónu sóknaraðila og fjölskyldu hennar. Hið rétta sé að eignir varnaraðila hafi tekið að myndast á grundvelli persónulegra viðskipta hans áður en sambúð aðila hófst. Á þeim grunni hafi hann staðið straum af fasteignakaupum sínum, sem og öðrum fjárfestingum. Fullyrðingar um annað, þ.m.t. að eignamyndun hans eigi rót í fyrirframgreiddum arfi sem sóknaraðila hafi hlotnast, séu ósannaðar og órökstuddar með öllu.

                Varnaraðili hafnar því jafnframt alfarið að fjárhagur aðila hafi verið sameiginlegur og eignir þeirra sameign. Sóknaraðili hafi átt sínar eignir og varnaraðili sínar. Varnaraðili kveðst hafa byggt upp eignir sínar einn og hjálparlaust og án aðkomu sóknaraðila. Sóknaraðili hafi engra tekna aflað og að engu leyti komið að rekstri félaga í eigu varnaraðila eða þeirra fyrirtækja sem hann starfaði hjá. Bankareikningar þeirra hafi verið aðskildir, hvorugt þeirra hafi haft aðgang að bankareikningi hins og hafi fjárhagsleg samstaða þeirra því verið lítil sem engin. Alla sambúð þeirra hafi varnaraðili staðið straum af kostnaði við rekstur heimilis þeirra, viðhald hússins, ferðalög og fleira og m.a. greitt kreditkortareikninga sóknaraðila. Varnaraðili kveðst aldrei hafa litið svo á að um sameiginleg útgjöld eða einhvers konar fjárfélag væri að ræða en kveðst þó hafa greitt útgjöld sóknaraðila vegna tekjuleysis hennar. Varnaraðili hafi því einn aflað tekna og staðið straum af kostnaði heimilisins.

                Kröfur varnaraðila undir lið 1.

                Aðalkrafa: Um frávísun kröfuliða D og E

                Varnaraðili bendir á að ákvörðun skiptastjóra um útlagningu fasteignarinnar til sóknaraðila að tilteknum skilyrðum uppfylltum hafi verið tekin á skiptafundi 22. september 2015 þar sem skýrlega hafi komið fram í hverju ákvörðunin fólst og hvaða skilyrði skiptastjóri setti fyrir útlagningunni. Í bréfi skiptastjóra til héraðsdóms séu ágreiningsefni skiptanna útlistuð, en þar sé getið ágreinings vegna ákvörðunar um útlagningu fasteignarinnar til handa konunni og hafi þeim ágreiningsefnum verið vísað til héraðsdóms.

                Hvorki í fundargerð skiptafundar né í bréfi skiptastjóra til héraðsdóms sé minnst á ákvörðun skiptastjóra um skyldu varnaraðila til að aflétta skuldabréfunum af eigninni og að sóknaraðila sé ekki skylt að inna af hendi greiðslu vegna eignarhluta varnaraðila fyrr en bréfunum hefur verið aflétt af fasteigninni. Þessi ágreiningsefni hafi því ekki sætt þeirri meðferð sem lögboðin sé samkvæmt 112. gr. og 3. tölulið 1. mgr. 122. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Geti sóknaraðili því ekki komið þeim að fyrst nú, sbr. lokamálslið 112. gr. fyrrgreindra laga. Beri því að vísa þessum kröfum sóknaraðila frá dómi.

                Aðalkrafa: Um að kröfum sóknaraðila merktum A, B, C, F og G verði hafnað.

                Um kröfu A.

                Varnaraðili kveðst hafna málsástæðum sóknaraðila um að líta beri svo á að allir fjármunir aðila við sambúðarslit hafi verið í sameign þeirra á grundvelli reglna fjármunaréttarins um sérstaka sameign, enda séu engin lagarök fyrir slíkri kröfugerð eða niðurstöðu. Kveðst varnaraðili byggja á því að við fjárskiptin eigi að beita þeim óskráðu reglum sem gildi um slit sambúðar sem Hæstiréttur hafi staðfest ítrekað í áralangri dómaframkvæmd. Við slit sambúðar sé litið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og sú meginregla gildi að hvor aðili taki sínar eignir og beri ábyrgð á sínum skuldum. Sé margstaðfest að opinber skráning eigna og þinglýstar eignarheimildir verði lagðar til grundvallar um eignarráðin. Frá þessari meginreglu sé ekki vikið nema að ströngum skilyrðum uppfylltum, þ.e. að sambúðarmaki sýni fram á að hann hafi lagt sitt af mörkum til hlutdeildar í eignamyndun á sambúðartíma. Beri sá sem slíku haldi fram sönnunarbyrðina um það.

                Varnaraðili kveðst byggja á því að sóknaraðili hafi ekkert lagt til við eignamyndun varnaraðila á sambúðartímanum. Á þeim tíma hafi varnaraðili aflað umtalsverðra tekna í viðskiptum og með vinnu sinni fyrir félögin [...] ehf. og [...] hf. eins og áður hafi komið fram. Sóknaraðili hafi ekkert unnið utan heimilis og í engu aðstoðað við rekstur félaga í eigu varnaraðila eða þeirra félaga sem hann hafi starfað fyrir. Ekkert fjárfélag hafi verið með aðilum, en eins og áður greini hafi varnaraðili staðið straum af öllum kostnaði heimilisins, þ.m.t. kreditkortareikningum sóknaraðila og greitt fyrir ýmsa húshjálp á heimili. Fjárhagur þeirra hafi að öllu leyti verið aðskilinn, þ.e. hvort um sig hafi átt sína bankareikninga, hvorugt hafi haft aðgang að bankareikningum hins og hvort um sig hafi átt sínar eignir. Sé augljóst að sóknaraðili hafi enga hlutdeild átt í eignamyndun varnaraðila á sambúðartímanum.

                Af fyrrnefndum meginreglum leiði að sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að hún eigi rétt til hlutdeildar í eignum varnaraðila. Þá sönnunarbyrði hafi hún með engu móti axlað. Liggi enda fyrir að framlag sóknaraðila til eignamyndunar varnaraðila á sambúðartímum hafi nánast ekkert verið eins og áður greini.

                Tekið skuli fram að fyrir liggi í málinu að aðilar hafi samþykkt báðir fyrir sitt leyti að vera samskattaðir samkvæmt heimild þar um í 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Slík samsköttun feli hins vegar engan veginn í sér að allar eignir þeirra, sem taldar séu fram til skatts, séu þar af leiðandi sameignir. Mikils misskilnings virðist gæta um þetta hjá sóknaraðila. Sambúðaraðilar sem njóti samsköttunar eigi eftir sem áður sínar séreignir og stofni slík samsköttun ekki nein eignarréttindi eða hlutdeildarréttindi sambúðaraðila í eignum hins aðilans. Þetta sé grundvallaratriði.

                Varnaraðili bendir á að sú skipting eigna á milli aðila sem sjá megi í skattframtölum vegna skattáranna 2010-2013 sé tilkomin vegna útreiknings á viðbót við auðlegðarskattstofn, sem sé á fylgiskjali 3.23 með téðum skattframtölum. Í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra frá árinu 2011, vegna skattársins 2010, sé m.a. fjallað um útfyllingu þessa eyðublaðs. Í þeim leiðbeiningum komi skýrlega fram að hjón, og þar af leiðandi einnig sambúðaraðilar sem séu samskattaðir, fái hvort sitt eyðublaðið „með helmingi hlutafjáreignar í árslok 2009, eins og hún var talin fram í framtali 2010“. Sem fyrr segi hafi málsaðilar notið samsköttunar frá árinu 2001 og í framtali 2010 hafi því eignir hvors þeirra um sig verið ósundurgreindar eins og ávallt sé hjá samsköttuðum einstaklingum. Þeim eignum hafi á sjálfvirkan hátt verið skipt í tvennt á þessum eyðublöðum eins og leiðbeiningar ríkisskattstjóra séu skýrar um. Það fari því fjarri að tilgreining eigna á þessum eyðublöðum sýni fram á að aðilar hafi litið svo á að sóknaraðili ætti þær eignir til jafns við varnaraðila, hvað þá að tilgreiningin stofnaði til einhvers konar eignaréttar.

                Þessu til viðbótar kveðst sóknaraðili vísa til fylgiskjals nr. 3.19 við skattframtöl fyrrnefndra fjögurra ára og skattársins 2014 að auki, en það fylgiskjal beri heitið „Hlutabréfaeign – kaup og sala“. Sé mikið úr því gert af hálfu sóknaraðila að nafn hennar birtist efst á blaðinu og talið að það sýni að hún hafi stundað þau hlutabréfaviðskipti sem þar séu tilgreind og sé eigandi þess hlutafjár sem um ræði. Þetta sé alrangt hjá sóknaraðila. Tilgreining nafns hennar efst á blaðinu þjóni einungis þeim tilgangi að tilgreina í framtali hvaða skattaðila fylgiskjalið tilheyrir. Í tilfelli hjóna og sambúðarfólks sem njóti samsköttunar muni það ávallt vera það hjóna eða sambúðarfólks sem eldra er sem sé tilgreint í þessum reit. Sé fjarstæðukennt að álykta sem svo að þessi tilgreining hafi einhverja þýðingu um hver sé talinn eigandi þess hlutafjár sem viðskiptin taka til, einkum í ljósi þess að við hver og ein viðskipti sé reitur þar sem tilgreint sé hver sé „kennitala eiganda“. Varnaraðili sé þar nær eingöngu tilgreindur sem eigandi viðkomandi hlutabréfa.

                Skattframtölin styðji því í engu við fullyrðingar sóknaraðila um hina ætluðu fjárhagslegu samstöðu á milli aðila málsins. Þvert á móti gefi þau til kynna það sem rétt sé, að sambúðaraðilar hafi hagað fjármálum sínum með þeim hætti að hvort þeirra ætti sínar eignir. Þá skuli þess getið að jafnvel þótt lesa mætti eitthvað annað út úr skattframtölunum stofni skattframtöl ekki eignarrétt lögum samkvæmt og séu ekki ígildi opinberrar skráningar eða þinglýsingar eins og sóknaraðili virðist halda.

                Sóknaraðili vísi enn fremur til þess til sönnunar á fjárhagslegri samstöðu aðila að andvirði veðláns, sem aðilar hafi tekið hjá Landsbanka Íslands hf., hafi að frádregnum uppgreiddum skuldum runnið inn á bankareikning varnaraðila. Þessu kveðst varnaraðili hafna og kveðst byggja á því að þessi tilhögun sýni þvert á móti að ekki hafi verið um fjárhagslega samstöðu að ræða. Þannig hafi verið eðlilegt að andvirði lánsins rynni inn bankareikning varnaraðila þar sem hann hafi fyrir sitt fé greitt 94,12% af kaupverði fasteignarinnar, sbr. umfjöllun hér að neðan, og að hann hafi með sínum tekjum og fé staðið straum af kostnaði fjölskyldunnar og rekstri fasteignarinnar. Sóknaraðili hafi lítið sem ekkert lagt til í þessu sambandi. Dylgjum um einhvers konar auðgunarbrot í þessu ljósi er alfarið hafnað.

                Þá kveðst varnaraðili alfarið hafna sem ósönnuðum og órökstuddum fullyrðingum sóknaraðila um að eignamyndun varnaraðila á sambúðartímanum hafi staðið í einhverjum tengslum við persónu og hennar fjölskyldu, sbr. það sem áður greini um framangreint.

                Frekari röksemdir fyrir meintu framlagi sóknaraðila til hlutdeildar í eignum varnaraðila séu ekki færðar fram af hálfu sóknaraðila. Þar sem ekkert hald sé í því sem þar sé tínt til og þar sem engar aðrar haldbærar sannanir um hið ætlaða sameignarfyrirkomulag hafi komið fram sé ekki annað fært en að hafna kröfum sóknaraðila undir þessum lið. Sé engin ástæða, hvað þá lagarök, til að víkja frá meginreglum íslensks réttar um fjárslit á milli sambúðaraðila.

                Um hvern og einn eignarflokk í kröfu sóknaraðila sé það að segja að varðandi fasteignina að [...] þá krefjist varnaraðili aukinnar eignarhlutdeildar í henni. Hvað varði eignir varnaraðila í bankainnstæðum, einkahlutafélögum og öðrum hlutabréfum sé ætlað tilkall sóknaraðila til þeirra eigna nánast einvörðungu byggt á fyrrnefndri alrangri túlkun sóknaraðila á skattframtölum aðila. Sem fyrr segi séu þau skýr um að einkahlutafélögin og hlutabréfin séu eign varnaraðila, ekki sóknaraðila. Hvað innbúið varðar þá sé rétt að varnaraðili hafi þegar gefið eftir talsverðan hluta af innbúinu til sóknaraðila í samræmi við framlagt samkomulag aðila þar um. Hafi hann gert það umfram skyldu í því skyni að búa börnum sínum gott heimili. Það sem eftir standi hafi nánast allt verið keypt fyrir hans tekjur og hans fé og sé því réttilega hans eign. Að öllu þessu sögðu beri að hafna kröfu sóknaraðila undir lið A í kröfugerð hennar.

                Um kröfu B.

                Krafa sóknaraðila um útlagningu fasteignarinnar að [...] sé reist á 110. gr., sbr. 109. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Varnaraðili kveðst byggja á því að krafa sóknaraðila um útlagningu uppfylli ekki kröfur þeirra ákvæða. Þannig liggi fyrir að varnaraðili gerir kröfu um að skráning eignarhlutar hans í fasteigninni verði leiðrétt í 94,12%, enda hafi hann innt af hendi mikinn meirihluta þess fjár sem runnið hafi til kaupa á fasteigninni og staðið undir kostnaði við allt viðhald og viðbætur á henni. Af því leiði að sóknaraðili eigi ekki hreina eign í húsinu sem hægt sé að úthluta til hennar, sbr. 3. mgr. og 4. mgr. 109. gr. og 3. mgr. 110. gr. laga nr. 20/1991. Sé verðmæti eignarinnar því langt umfram það sem sóknaraðili eigi rétt á að fá í sinn hlut.

                Þessu til viðbótar sé á það bent að allsendis ósannað sé að sóknaraðili hafi meiri þörf fyrir að nýta fasteignina. Þvert á móti sé ýmislegt sem gefi til kynna í gjörðum sóknaraðila og hegðun að slík þörf sé ekki til staðar. Sem dæmi megi nefna að sóknaraðili hafi tekið yfir eignina á grundvelli ólögmætrar yfirtöku og húsbrots. Þá hafi sóknaraðili afþakkað boð varnaraðila um að standa straum af greiðslu leiguhúsnæðis fyrir sóknaraðila og börnin. Þá hafi vanskil safnast upp vegna fasteignarinnar en sóknaraðili hafi ekki greitt fastar afborganir af húsinu á meðan hún hefur haldið þar til. Sé nú svo komið að lánveitandi, Landsbankinn hf., hafi gjaldfellt lánið. Ekki sé rétt sem fram komi í greinargerð sóknaraðila að lán þetta, sem hvíli á 1. veðrétti á fasteigninni, hafi verið greitt upp. Með auknum vanskilum aukist sífellt hætta á því að skuldheimtumenn gangi að eigninni með tilheyrandi kostnaði. Þessi vanskil hrannist upp þrátt fyrir að sóknaraðili telji sig eiga aðgang að nægilegu fjármagni til að borga út hlut varnaraðila. Þá liggi fyrir að sóknaraðili hafi lýst því yfir að hún muni ekki búa í húsinu til frambúðar þar sem um dýra fasteign sé að ræða. Liggi því fyrir að sóknaraðili þurfi að flytja út úr húsinu fyrr eða síðar og því vandséð af hverju þörf sé á því nú að fá fasteignina sér lagða út. Allt framangreint staðfesti að lagaskilyrði standi ekki til útlagningar fasteignarinnar samkvæmt kröfu sóknaraðila, sbr. 109. og 110. gr. laga nr. 20/1991.

                Þá sé ítrekað sem áður hafi komið fram að útlagning komi ekki til greina í ljósi þess hvernig sóknaraðili svipti varnaraðila vörslum eignarinnar, þ.e. með ófyrirleitnum og ólögmætum hætti. Verði útlagning viðurkennd á þeim grunni sé verið að opna á þá leið að aðilar í skiptamálum geti fengið eign sér útlagða með því að leggja hana undir sig með ólögmætum hætti. Geti það ekki samrýmst þeim grunnreglum sem búi að baki lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

                Um kröfu C.

                Varnaraðili bendir á að sú ákvörðun skiptastjóra að þinglýsa kvöð á eignina um að hún verði ekki seld þriðja aðila eða veðsett meðan leyst sé úr ágreiningi um útlagninguna sé með öllu eðlileg, enda verði að tryggja að útlagning geti gengið til baka komi til þess að á kröfur varnaraðila verði fallist. Beri því að hafna þessari kröfu sóknaraðila.

                Um kröfu F.

                Varnaraðili bendir á að undir lið F í kröfugerð sinni krefjist sóknaraðili viðurkenningar á því að varnaraðila verði ekki lagðar út séreignir hans án greiðslu á helmingi verðmætis þeirra eigna til sóknaraðila.

                Varnaraðili kveðst krefjast þess að þessari kröfu sóknaraðila verði hafnað. Um séreignir varnaraðila sé að ræða en samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 110. gr. laga nr. 20/2991 eigi hann rétt á því að fá þær sér lagðar út. Sóknaraðili hafi með málatilbúnaði sínum í engu axlað sönnunarbyrði sína um að eignir þessar séu að einhverju leyti í sameign aðila, og þar með að um útlagningu þeirra gildi ákvæði 3. mgr. 110. gr. laga nr. 20/1991 eins og fjallað hafi verið um hér að framan. Beri því að hafna kröfu sóknaraðila að þessu leyti.

                Um kröfu G.

                Að baki þessari kröfu sóknaraðila liggi sú staðreynd að einkahlutafélagið B ehf., sem hafi verið útlagt varnaraðila, eigi listmuni sem staðsettir séu í fasteigninni að [...]. Hafi varnaraðili krafist þess, sem eini eigandi félagsins, að þessir listmunir verði afhentir. Liggi enda fyrir að þeir séu séreign varnaraðila í gegnum félagið og félagið hafi verið útlagt honum. Hér sé því ekki um það að ræða að einhver ótiltekinn þriðji aðili sé að krefjast afhendingar á eign sinni heldur sé einungis verið að krefjast þess að ákvörðun skiptastjóra um útlagningu sé framfylgt. Væri það í hæsta máta óeðlilegt að sóknaraðili gæti með þessum hætti komið í veg fyrir afhendingu útlagðra eigna, sem ákveðin hafi verið með lögmætum hætti af skiptastjóra.

                Þessu til viðbótar leiði það af meginreglum 57. gr. og 58. gr. laga nr. 20/1991, sem og 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að afhenda beri eign í vörslum bús til þess sem sanni eignarrétt sinn að þeim. Eignarheimildir félagsins að þessum listmunum séu skýrar að mati skiptastjóra en þær komi fram í gögnum málsins. Að öllu þessu sögðu beri að hafna kröfu sóknaraðila undir lið G.

Varakrafa um að kröfum undir D- og E-lið verði hafnað.

                Um kröfu D.

                Verði ekki fallist á frávísun á þessum kröfulið, sbr. áðurgreint, kveðst varnaraðili krefjast þess að héraðsdómur hafni kröfu um að varnaraðila beri að aflétta veðkröfum vegna skuldabréfanna tveggja. Því sé alfarið hafnað að handhafaskuldabréf þau, sem á eigninni hvíla, séu málamyndagerningar. Þau hafi verið seld félaginu A ehf. á árinu 2013 og andvirði sölunnar notað í útgjöld vegna ferðalaga fjölskyldunnar og dvalar erlendis með fullri vitund og samþykki sóknaraðila. Sé því fullkomlega ljóst að um fullgilda gerninga sé að ræða sem ekki verði aflýst nema til komi greiðsla á skuld samkvæmt þeim. Verði niðurstaða héraðsdóms sú að hafna kröfu varnaraðila um aukna eignaraðild í fasteigninni og fallast á útlagningu eignarinnar til sóknaraðila þurfi hún að greiða sinn hluta vegna þessara handhafaskuldabréfa.

                Um kröfu E.

                Verði ekki fallist á frávísun á þessum kröfulið, sbr. áðurgreint, sé þess krafist að héraðsdómur hafni kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á því að henni sé ekki skylt að inna af hendi greiðslu vegna eignarhluta varnaraðila í fasteigninni að [...] fyrr en hann hafi aflétt kröfum af veðskuldabréfunum sjálfum. Ljóst sé að ef ekki verður fallist á kröfu sóknaraðila undir lið D leiði sjálfkrafa að ekki verður fallist á þessa kröfu. Henni beri því að hafna.

                Þrautavarakrafa.

                Vilji svo ólíklega til að ekki verði fallist á aðal- og varakröfu varnaraðila undir lið 1 í dómkröfum varnaraðila sé gerð sú þrautavarakrafa að allar eignir sóknaraðila teljist vera sameign þeirra beggja. Sé varnaraðila nauðsynlegt að gera þessa kröfu þar sem kröfur sóknaraðila taki einungis til þess að sóknaraðili fái helmingshlutdeild í eignum varnaraðila. Fari svo að fallist verði á þau rök sem sóknaraðili færi fyrir þeirri kröfu, þ.e. að í sambúð þeirra hafi sameignarfyrirkomulag verið við lýði þrátt fyrir rökstudd mótmæli varnaraðila við því, liggi beint við að varnaraðili eigi að sama skapi helmingshlutdeild í eignum sóknaraðila. Feli það í sér vissa mótsögn í málatilbúnaði sóknaraðila að þess sé einungis krafist að eignir varnaraðila komi til helmingaskipta en ekki eignir sóknaraðila þegar byggt sé á hinu ætlaða sameignarfyrirkomulagi.

                Krafa varnaraðila feli því að framansögðu í sér að viðurkennt verði að allar þær eignir, sem tilgreindar séu í bréfi skipstjóra til dómsins, séu í sameign beggja aðila. Ætti varnaraðili því með réttu að eiga helmingshlutdeild í bifhjóli því sem skráð sé á sóknaraðila, bankainnstæðum á hennar nafni, hlutafé í eigu hennar, auk annarra eigna sem hún kunni að eiga. Ætti að vera óumdeilt að hann hafi lagt sitt af mörkum til þessarar eignamyndunar sóknaraðila með tekjum sínum eins og áður hafi verið fjallað um.

                Kröfur varnaraðila undir lið 2.

                Varnaraðili kveðst krefjast þess að felld verði úr gildi ákvörðun skiptastjóra um útlagningu fasteignarinnar að [...] til sóknaraðila, en til vara, verði fallist á kröfu um útlagningu eignarinnar, að útlagningin fari þá a.m.k. fram í samræmi við ákvörðun skiptastjóra, þ.e. með öllum þeim skilyrðum sem skiptastjóri hafi sett fyrir útlagningunni. Þyki varlegast að gera sérstaka kröfu um þetta atriði í ljósi þess hvernig kröfugerð sóknaraðila sé háttað, en rökstuðningur fyrir kröfunum sé að öllu leyti sá sami og fram komi hér að framan þar sem þess hafi verið krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

                Kröfur varnaraðila undir lið 3.

                Varnaraðili kveðst reisa kröfu sína á því að hann eigi aukinn eignarhlut í fasteigninni að [...] umfram það sem opinber skráning tiltaki, en þar sé eignin skráð sem sameign varnar- og sóknaraðila til helminga. Sú skráning sé ekki í samræmi við fjárframlög aðila til kaupa og viðhalds á fasteigninni, en fyrir liggi að 94,12% kaupverðs fasteignarinnar hafi verið greitt af varnaraðila. Af kaupverði fasteignarinnar hafi varnaraðili greitt í reiðufé 15.000.000 króna hinn 18. júní 2002, 15.000.000 króna hinn 26. ágúst 2002, 15.000.000 króna hinn 21. október 2002 og loks 14.626.011 krónur hinn 27. desember 2002 eða samtals 59.626.011 krónur. Kaupverð fasteignarinnar í heild hafi verið 68.000.000 króna, en auk framangreindra greiðslna hafi málsaðilar tekið sameiginlega lán hjá fjármálastofnun upp á 8.000.000 króna. Samtals hafi varnaraðili því innt af hendi 64.000.000 króna, en sóknaraðili í mesta lagi 4.000.000 króna með sínum þætti í lántökunni. Hlutdeild varnaraðila í kaupum á húsinu hafi því verið a.m.k. 94,12%. Sé hin opinbera skráning á eignarhaldi fasteignarinnar því ekki rétt.

                Sú regla gildi við fjárslit sambúðaraðila að horft skuli framhjá opinberlega skráðum eignarhlutföllum teljist sannað að framlag sambúðaraðila til eignarinnar hafi verið með öðrum hætti. Varnaraðili kveðst byggja á því að hafið sé yfir allan vafa að hann hafi lagt langtum meira fram til kaupa og viðhalds á fasteigninni en hin opinberlega skráðu eignarhlutföll mæli fyrir um eins og fram komi í gögnum málsins. Lítil sem enginn fjárhagsleg samstaða hafi verið til staðar á milli aðila. Varnaraðili hafi svo til séð um alla tekjuöflun og borið allan kostnað af heimilinu. Séu því fyrir hendi skilyrði til þess að víkja frá skráðum eignarhlutföllum.

                Kröfur varnaraðila undir liðum 4 og 5.

                Undir þessum lið krefjist varnaraðili staðfestingar á ákvörðunum skiptastjóra um útlagningu eigna varnaraðila til hans, þ.e. bankareikninga, einkahlutafélaga og annars hlutafjár, og hins vegar ákvörðun skiptastjóra um að sóknaraðila beri að afhenda félaginu B ehf., sem sé í eigu varnaraðila, nánar tiltekna listmuni sem séu í fasteigninni að [...]. Fyrir héraðsdómi geri sóknaraðili kröfur er tengist þessum ákvörðunum, sem varnaraðili geri kröfur um að verði hafnað, en rétt þyki engu að síður að krefjast þess að dómurinn staðfesti fyrrgreindar ákvarðanir skiptastjóra. Umræddar ákvarðanir skiptastjóra séu efnislega réttar, byggi á réttum lagagrundvelli og þær beri því að staðfesta. Að öðru leyti sé vísað til rökstuðnings að framan vegna sama efnis.

                Varnaraðili kveðst byggja kröfur sínar einkum á ólögfestum meginreglum um fjárslit sambúðaraðila, meginreglum skiptaréttar og laga um opinber skipti, einkum 109. gr., 110. gr., 112. gr. og 122 gr. Kröfu sína um málskostnað kveðst varnaraðili byggja á 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

V.

Í máli þessu, sem rekið er fyrir dóminum í tengslum við fjárslit milli málsaðila vegna sambúðarslita þeirra, er ágreiningur um kröfu sóknaraðila um helmingaskipti á eignum aðila, um skipti á fasteign aðila að [...] í [...] og um afléttingu veðkrafna af henni, svo og um útlagningu á fasteigninni, innistæðum á bankareikningum, einkahlutafélögum og öðru hlutafé og um þau skilyrði sem skiptastjóri setti fyrir útlagningu þessara eigna. Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila um helmingaskipti og byggir á því að hvor aðili um sig eigi að halda þeim eignum sem hann var skráður fyrir við upphaf skiptameðferðar, en jafnframt krefst hann þess að viðurkennt verði að eignarhlutur hans í fasteigninni að [...] sé 94,12%, en ekki 50% eins og opinber skráning geri ráð fyrir.

                Leysa verður úr ágreiningi máls þessa eftir þeim óskráðu reglum sem gilda um slit sambúðar og Hæstiréttur hefur staðfest í dómaframkvæmd sinni. Hefur rétturinn á undanförnum árum ítrekað sagt að á grundvelli dómvenju hafi skapast sú regla að við slit óvígðrar sambúðar beri að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og sú meginregla gildi þá að hvor aðili taki sínar eignir og beri ábyrgð á sínum skuldum. Opinber skráning eigna og þinglýstar eignarheimildir verði lagðar til grundvallar um eignarráðin, nema sá sem geri tilkall til eignarréttar, sem ekki fær samrýmst opinberri skráningu, leiði annað í ljós.

                Með hliðsjón af framangreindri dómvenju verður ekki fallist á það með sóknaraðila að leysa eigi úr ágreiningi aðila á grundvelli reglna fjármunaréttarins um sérstaka sameign.

                Í samræmi við það sem áður greinir um tilkall sambúðaraðila til eignarréttar sem ekki fær samrýmst opinberri skráningu hvílir á sóknaraðila sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi innt af hendi bein og óbein framlög til eignamyndunar á sambúðartímanum og er sönnun í þeim efnum forsenda þess að fallist verði á kröfu hennar um að skipta beri þeim eignum sem skráðar eru á nafn varnaraðila til helminga á milli aðila. Sömuleiðis hvílir á varnaraðila sönnunarbyrði fyrir því að skipta beri fasteigninni að [...] á annan veg en þinglýst eignarheimild gerir ráð fyrir. Í þessum efnum verður með hliðsjón af dómaframkvæmd m.a. að taka tillit til lengdar sambúðar, tekna aðila á sambúðartímanum, framlaga þeirra til eignamyndunar og fjárhagslegrar samstöðu.

                Sambúð aðila stóð í rúm sextán ár og eignuðust þau þrjú börn á sambúðartímanum. Héldu þau sameiginlegt heimili allan tímann. Þau nýttu heimild sína til að telja fram saman til skatts allt frá árinu 2001. Varnaraðili vann utan heimilis allan tímann og hafði umtalsverðar launatekjur, en sóknaraðili hvar af vinnumarkaði vorið 1999 og hefur eftir það ekki starfað utan heimilis og ekki haft launatekjur. Óumdeilt er að hún bar hitann og þungann af heimilishaldi, en varnaraðili kveðst þó hafa lagt henni lið í þeim efnum, bæði persónulega og með því að greiða fyrir aðkeypta aðstoð við þrif og barnagæslu. Málsaðilar voru ekki með sameiginlegan bankareikning og samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili ekki með prókúru á bankareikning varnaraðila. Þá kvaðst varnaraðili ekki hafa verið með prókúru á bankareikning sóknaraðila, en engin gögn liggja fyrir um það í málinu. Varnaraðili heldur því fram að hann hafi greitt kostnað við rekstur heimilisins og hann hafi m.a. greitt kreditkortareikninga sóknaraðila, kostnað vegna viðhalds fasteignarinnar, ferðalög fjölskyldunnar o.fl. Sóknaraðili heldur því hins vegar fram að fyrirframgreiddur arfur frá foreldrum hennar og arðgreiðslur hafi m.a. runnið inn í sameiginlegan sjóð málsaðila og að sá sjóður hafi staðið straum af kostnaði við rekstur heimilisins.

                Í málavaxtakafla er að finna umfjöllun um helstu eignir sem urðu til á sambúðartímanum. Engin gögn liggja fyrir um eignir og tekjur sóknaraðila við upphaf sambúðar, en hún kvaðst í skýrslu sinni fyrir dóminum hafa átt á þeim tíma sparnað á bankareikningi sem numið hafi nokkrum milljónum króna. Óumdeilt er að í febrúar 2000 fékk sóknaraðili greiddar, að frádregnum erfðafjárskatti, 9.540.000 krónur í fyrirframgreiddan arf frá foreldrum sínum.

                Um það leyti er sambúð aðila hófst haustið 1998 keypti varnaraðili íbúð að [...] í [...], en kaupverð hennar liggur ekki fyrir. Ári síðar eða í desember 1999 festu málsaðilar kaup á fasteign að [...] í [...] og nam kaupverð hennar 17.400.000 krónum, en þar af voru 2.625.000 krónur greiddar út í peningum á kaupári, en 4.125.000 krónur í peningum árið eftir. Fasteignin var afhent í september 2000, en það sama ár seldi varnaraðili íbúðina að [...] og nam hrein eign í henni rúmlega 4 milljónum króna. Ekki verður annað ráðið af skattframtali málsaðila árið 2001 en að fasteignin að [...] hafa verið í jafnri eigu þeirra beggja.

                Í júní 2002 keyptu málsaðilar fasteignina að [...] í [...], sem var og er skráð í jafnri eigu þeirra beggja. Nam kaupverð fasteignarinnar 68.000.000 króna og þar af nam útborgun á kaupárinu 60.000.000 króna, en málsaðilar tóku sameiginlega 8.000.000 króna lán fyrir eftirstöðvunum. Sama ár seldu málsaðilar fasteignina að [...] og nam hrein eign í henni rúmlega 19 milljónum króna.

                Samkvæmt skattframtali varnaraðila árið 2000 átti varnaraðili tvær bifreiðir, samtals að verðmæti rúmar 5 milljónir króna, og þá átti varnaraðili rúmlega milljón króna innistæðu á bankareikningi, verðbréf að verðmæti rúmlega 600.000 krónur og hlutabréf í fjórum hlutafélögum, sem voru að óverulegu verðmæti. Á fyrsta sameiginlega skattframtali aðila árið 2001 námu innistæður í bönkum rúmlega 28 milljónum króna og þá var talin fram verulega aukin eign í verðbréfum og hlutabréfum, sem og aukin bifreiðaeign. Á skattframtali málsaðila 2002 námu innistæður í bönkum tæplega 500.000 krónum, en eign í verðbréfum og hlutabréfum jókst verulega frá árinu áður. Af framangreindu má ráða að þeir fjármunir, sem voru á bankareikningum í lok árs 2000, hafi verið nýttir til fjárfestinga í verðbréfum og hlutabréfum á árinu 2001.

                Á árinu 1999 námu launtekjur varnaraðila eftir staðgreiðslu skatta 1.662.923 krónum, á árinu 2000 námu þær 4.052.629 krónum, á árinu 2001 námu þær 5.360.638 krónum og 5.833.433 krónum á árinu 2002. Samkvæmt yfirliti í bréfi lögmanns varnaraðila til skiptastjóra 8. maí 2015 hafði sóknaraðili auk þess 621.345 krónur í vaxtatekjur á árinu 2002.

                Eins og að framan greinir voru taldar fram umtalsvert meiri eignir á fyrsta sameiginlega skattframtali málsaðila árið 2001, en varnaraðili hafði talið fram á skattframtali sínu árið áður. Verður sú eignaaukning ekki að fullu skýrð með auknum tekjum varnaraðila á árinu 2000 eða eignum hans á skattframtali árið 2000. Hins vegar liggur fyrir að sóknaraðili fékk greiddan umtalsverðan arf frá foreldrum sínum á árinu 2000 eins og áður greinir, auk þess sem hún kveðst hafa átt sparnað á bankareikningi. Þá verður af gögnum málsins ráðið að sóknaraðili hafi þegar á árinu 2000 átt hlutabréf, bæði í fjölskyldufyrirtækinu [...] ehf. og í [...] hf.

                Í skýrslu sinni fyrir dóminum sagði varnaraðili að sig minnti að hluti af fyrirframgreiddum arfi sóknaraðila hafi gengið til kaupa á fasteigninni að [...]. Hið sama kemur fram í framlögðu bréfi lögmanns varnaraðila til skiptastjóra 8. maí 2015, þ.e. að arfur sem sóknaraðili fékk hafi verið nýttur til kaupa á húsnæði.

                Samkvæmt framangreindu þykir fram komið að sóknaraðili hafi í byrjun sambúðar málsaðila átt talsverða fjármuni, sem nýttir hafi verið til fjárfestinga og til kaupa á íbúðarhúsnæði. Þá kemur fram í gögnum málsins að töluverðir fjármunir komu út úr sölu fasteignarinnar að [...], sem var samkvæmt skattframtölum í sameiginlegri eigu málsaðila. Með hliðsjón af framangreindu og því að fasteignin að [...] hefur frá upphafi verið skráð í helmingseigu beggja málsaðila þykir varnaraðili ekki hafa fært fyrir því viðhlítandi rök að efni séu til að víkja frá þinglýstum heimildum um eignarrétt að fasteigninni. Af gögnum málsins verður ráðið að fjármál þeirra hafi verið samofin og að varnaraðili hafi getað ráðstafað fjármunum í eigu sóknaraðila. Má þar nefna ráðstöfun á andvirði veðláns sem málsaðilar tóku í sameiningu á árinu 2014, en að frádregnum greiðslum á öðrum skuldum rann andvirði þess, 33.800.083 krónur, inn á reikning varnaraðila. Þá benda gögn málsins til þess að varnaraðili hafi haft prókúru bæði á bankareikning sóknaraðila og bankareikning einkahlutafélags hennar [...] ehf., en samkvæmt viðskiptakvittun frá 2. október 2012 gat varnaraðili ráðstafað fjármunum af þeim bankareikningum. Með hliðsjón af því og öllu framangreindu þykir ekki stoða fyrir varnaraðila að vísa til þess að fjórar greiðslur, samtals að fjárhæð tæpar 60.000.000 króna, hafi verið millifærðar af bankareikningi hans til greiðslu á kaupverði fasteignarinnar að [...].

                Með hliðsjón af öllu framangreindu er ekki fallist á kröfu varnaraðila um viðurkenningu á því að eignarhlutur hans í fasteigninni að [...] sé 94,12%, heldur verður lagt til grundvallar að fasteignin sé í helmingseigu hvors málsaðila um sig eins og opinber skráning á eignarhaldi hennar gerir ráð fyrir.

                Frá árinu 2002 fóru launatekjur varnaraðila stigvaxandi, en fram kemur í gögnum málsins að varnaraðili hafði gríðarlegar tekjur á næstu sjö árum. Á árinu 2003 námu launatekjur hans eftir staðgreiðslu skatta 8.746.036 krónum, 9.346.222 krónum á árinu 2004, 58.706.402 krónum á árinu 2005, 22.110.851 krónu á árinu 2006, 70.336.680 krónum á árinu 2007, 93.511.243 krónum á árinu 2008 og 42.235.371 krónu á árinu 2009. Samtals námu launatekjur varnaraðila tæpum 305.000.000 króna á sjö ára tímabili.

                Samkvæmt yfirliti varnaraðila í bréfi til skiptastjóra 8. maí 2015 fékk varnaraðili greiddan arð á árunum 2005 til 2009 frá einkahlutafélagi sínu A ehf., sem nam að frádregnum fjármagnstekjuskatti 520.349.996 krónum, en hæstar voru greiðslurnar á árunum 2007 og 2009. Einnig var varnaraðili með vaxtatekjur af skuldabréfum á árunum 2002 til 2013, sem námu, að frádregnum fjármagnstekjuskatti, samtals 94.625.827 krónum, en hæstar voru greiðslurnar á árunum 2008 og 2009.

                Eins og fram hefur komið starfaði varnaraðili á þessum árum sem framkvæmdastjóri [...] ehf., sem var fyrirtæki í eigu sóknaraðila og fjölskyldu hennar, eða frá því síðla árs 2001 og fram á árið 2005. Á árinu 2002 varð varnaraðili stjórnarformaður [...] hf., sem var að hluta til í eigu [...] ehf. og á árinu 2003 varð varnaraðili stjórnarmaður í [...] hf., sem einnig var að hluta til í eigu [...] ehf. og tengdra aðila. Vorið 2004 varð varnaraðili starfandi stjórnarformaður [...] ehf. Eins og fram hefur komið tók [...] hf. síðan yfir [...] hf. haustið 2004 og þegar [...] ehf. og tengdir aðilar voru orðnir stærsti eigandi [...] hf. snemma árs 2005 var varnaraðili ráðinn forstjóri félagsins.

                Á meðan varnaraðili starfaði sem framkvæmdastjóri fjölskyldufyrirtækis sóknaraðila og sat í stjórnum félaga í eigu fyrirtækisins stofnaði varnaraðili þau einkahlutafélög, sem til umfjöllunar eru í málinu. Einkahlutafélagið A ehf. var stofnað í nóvember 2003 og er það að fullu í eigu varnaraðila. F ehf. var stofnað í október 2006 og er það að fullu í eigu A ehf. C ehf. var stofnað í nóvember 2007 og er varnaraðili eini hluthafinn í félaginu. B ehf. var stofnað í ágúst 2009 og [...] ehf. í september 2009. Síðarnefnda félagið er að fullu í eigu B ehf., sem aftur er að fullu í eigu varnaraðila.

                Varnaraðili er stjórnarmaður í öllum framangreindum félögum nema [...] ehf. þar sem hann er varamaður í stjórn, en móðir hans hefur verið stjórnarmaður. Móðir varnaraðila hefur og verið varamaður í stjórn B ehf.

                Sóknaraðili var fram að sambúðarslitum varamaður í stjórn A ehf., F ehf. og C ehf. og samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá rituðu stjórnarmaður og varamaður firmað í þeim félögum saman. Ritunarrétturinn var því takmarkaður með þeim hætti að málsaðilar fóru með hann í sameiningu, sbr. 3. mgr. 49. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

                Á árinu 2007 fékk sóknaraðili fyrirframgreiddan arf frá foreldrum sínum sem nam, að frádregnum erfðafjárskatti, 19.474.697 krónum. Sama ár fékk hún arðgreiðslu frá [...] ehf. sem nam, að frádregnum fjármagnstekjuskatti, 18.750.000 krónum. Samtals námu þessar greiðslur 38.224.697 krónum. Ekki er annað komið fram en að greiðslur þessar hafi ýmist gengið inn í sjóði málsaðila, til fjárfestinga eða reksturs sameiginlegs heimilis þeirra, eins og greiðslur þær sem hún fékk frá foreldrum sínum á árinu 2002.

                Í mars 2010 stofnaði sóknaraðili einkahlutafélagið [...] ehf. og er hún eini hluthafi þess og stjórnarmaður. Varnaraðili var fram að sambúðarslitum varamaður í stjórn þess félags.

                Ekki er fallist á með sóknaraðila að af sameiginlegum skattframtölum málsaðila og fylgiskjölum með þeim verði dregin sú almenna ályktun að allar framtaldar eignir þeirra hafi verið í sameign þeirra að jöfnu. Á hinn bóginn þykir fram komið í málinu að varnaraðili var ráðinn sem framkvæmdastjóri fjölskyldufyrirtækis sóknaraðila á grundvelli fjölskyldutengsla, en á árinu 2001 var varnaraðili aðeins [...] ára gamall, hafði ekki lokið háskólaprófi og var með takmarkaða starfsreynslu. Þá þykir ljóst að varnaraðili sat í stjórnum [...] hf. og [...] hf. í skjóli starfs síns hjá fjölskyldufyrirtæki sóknaraðila. Eins og að framan greinir átti eignamyndun varnaraðila sér stað að stórum hluta á framangreindu tímabili og í tengslum við störf varnaraðila hjá fölskyldufyrirtæki sóknaraðila. Eins og áður greinir var fjárhagsleg samstaða málsaðila rík og fjárhagur þeirra samþættur, en sóknaraðili var heimavinnandi og sá um börn og bú á meðan varnaraðili naut aukins svigrúms til að sinna störfum sínum hjá fjölskyldufyrirtæki sóknaraðila og ávaxta fé þess. Þá liggur ekki annað fyrir en að fyrirframgreiddur arfur sem sóknaraðili fékk frá foreldrum sínum og arðgreiðslur frá fjölskyldufyrirtæki sóknaraðila hafi ýmist runnið inn í sjóði málsaðila, til fjárfestingar eða til reksturs sameiginlegs heimilis þeirra. Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að fasteignin að [...] hafi verið í jafnri eigu málsaðila. Þegar horft er til alls framangreinds er það mat dómsins að með sóknaraðila og varnaraðila hafi verið svo rík fjárhagsleg samstaða að líta verði á allar aðrar eigur þeirra, sem mynduðust á sambúðartímanum sem stóð í 16 ár, sem eina heild í sameign þeirra beggja. Ber því að fallast á aðalkröfu sóknaraðila og þrautavarakröfu varnaraðila um að við skiptin milli þeirra verði miðað við að skipt verði að jöfnu þeim eignum sem aðilar áttu við sambúðarslit óháð því hvernig skráningu einstakra eigna var háttað.

                Samkvæmt fyrirmælum 112. gr. og 3. töluliðar 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 verður í máli þessu ekki tekin afstaða til annarra ágreiningsefna en þeirra sem tilgreind eru í bréfi skiptastjóra til dómsins. Með hliðsjón af framangreindu er vísað frá dómi ex officio kröfum sóknaraðila um að viðurkennt verði að varnaraðila beri að aflétta af fasteigninni að [...] í [...] veðkröfum vegna tveggja handhafaskuldabréfa, útgefnum 21. maí 2010, upphaflega að fjárhæð samtals 120 milljónir króna, og kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að henni sé ekki skylt að inna af hendi greiðslu vegna eignarhluta varnaraðila í áðurgreindri fasteign fyrr en varnaraðili hefur aflétt af fasteigninni áðurgreindum veðkröfum, sbr. D- og E-liði í dómkröfum sóknaraðila. Er þar um að ræða ágreiningsefni sem ekki hafa sætt þeirri meðferð sem lögboðin er samkvæmt áðurgreindum ákvæðum laga nr. 20/1991. Getur sóknaraðili því ekki komið þeim að í máli þessu, sbr. lokamálslið 112. gr. fyrrgreindra laga.

                Sóknaraðili krefst þess að fasteignin að [...] verði lögð henni út gegn lausn varnaraðila undan skuldbindingum hans samkvæmt veðskuldabréfi Landsbankans hf., útgefnu 29. apríl 2014, upphaflega að fjárhæð 55 milljónir króna, og greiðslu helmings matsfjárhæðar fasteignarinnar, að frádregnum eftirstöðvum áðurgreinds skuldabréfs á útlagningardegi. Þá krefst varnaraðili útlagningar á bankareikningum á hans nafni, einkahlutafélögunum A ehf., B ehf. og C ehf. og öðru hlutafé, sem skráð sé á hans nafn. Sóknaraðili krefst þess hins vegar að framangreindar eignir verði ekki útlagðar varnaraðila án greiðslu til sóknaraðila á helmingi verðmætis framangreindra eigna.

                Af gögnum málsins er ljóst að málsaðilar deila um hvort raunveruleg krafa er að baki handhafaskuldabréfum sem hvíla á 2. og 3. veðrétti fasteignarinnar að [...], upphaflega að fjárhæð samtals 120.000.000 milljónir króna. Þá liggja fyrir í málinu tvö verðmöt fasteignasala á fasteigninni, annað að fjárhæð 140.000.000 króna, en hitt að fjárhæð 132.000.000 króna. Ekki er að sjá að sjá af gögnum málsins að aðilar hafi tekið afstöðu til þessara verðmata eða að um þau hafi verið fjallað á skiptafundum. Þá liggur hvorki fyrir í gögnum málsins að aflað hafi verið verðmats á öðrum eignum málsaðila eftir reglum 17.-23. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 3. mgr. 105. gr. þeirra, né verður ályktað af framlögðum gögnum og málatilbúnaði aðilanna að sammæli séu á milli þeirra um verðgildið eða til hverra skulda verði tekið tillit við skiptin og með hvaða hætti. Er því ekki að svo komnu máli fullnægt skilyrðum 1. mgr. 110. gr. laga nr. 20/1991 til að fjalla um kröfur aðilanna um útlagningu og afhendingu eigna eða afléttingu veðskulda. Þegar af þeirri ástæðu verður öllum slíkum kröfum vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

                Eftir atvikum þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu.

                Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Við uppkvaðningu úrskurðar var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Úrskurðarorð:

                Við opinber skipti til fjárslita á milli sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, við lok óvígðrar sambúðar þeirra ber að miða við að skipt verði að jöfnu þeim eignum sem aðilar áttu við upphaf skipta óháð því hvernig skráningu einstakra eigna er háttað.

                Vísað er frá dómi kröfum málsaðila, sem lúta að útlagningu á fasteigninni að [...] í [...], bankareikningum á nafni varnaraðila, einkahlutafélögunum A ehf., B ehf. og C ehf. og öðru hlutafé á nafni varnaraðila, sem og kröfum sem lúta að afléttingu veðkrafna af áðurgreindri fasteign og afhendingu á listmunum í eigu B ehf.

                Málskostnaður fellur niður.