Hæstiréttur íslands
Mál nr. 661/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. september 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 3. október 2016 klukkan 16 og einangrun á meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að beitt verði vægari úrræðum.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. september 2016
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að x, fæddri [...],[...] ríkisborgara, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. október 2016, kl. 16:00 og að á þeim tíma verði kærðu gert að sæta einangrun. Til vara er þess krafist að kærðu verði bönnuð för af landinu allt til föstudagsins 7. október nk., kl. 16:00.
Í greinargerð segir að lögreglustjóranum hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 23. september 2016 um að kærða hefði verið stöðvuð á tollhliði, vegna gruns um að hún og samferðamaður hennar, Y, fæddur [...], kynnu að hafa fíkniefni falin í fórum sínum við komu þeirra til landsins með flugi [...] frá [...].
Eftir viðræður við kærðu hafi vaknaði grunur um að hún kynni að hafa fíkniefni falin innvortis. Aðspurð kvaðst kærða vera reiðubúin að gangast undir röntgenskoðun. Á meðan kærða var í röntgenskoðun hafi þrjár pakkningar af ætluðum fíkniefnum komið úr samferðamanni hennar sem lagt var hald á. Niðurstaða röntgenskoðunar á kærðu var á hinn bóginn sú að hún hefði ekki aðskotahluti falda innvortis.
Rannsókn málsins sé á frumstigi og vinni lögregla nú að því að rannsaka aðdragandann að ferð kærðu og samferðamanns hennar til landsins og tengsl þeirra við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi eða erlendis. Í því skyni mun lögregla meðal annars afla upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum og fjármálastofnunum, auk annarra atriða sem lögregla telur að séu mikilvæg vegna málsins. Þrátt fyrir að fíkniefni hafi ekki fundist í fórum kærðu telur lögregla verulegar líkur á því að kærða sé viðriðin innflutninginn.
Þrátt fyrir að tegund eða magn hinna meintu fíkniefna, sem þegar hafi verið lagt hald á, liggi ekki fyrir að svo stöddu, telji lögregla líkur til þess að þau fíkniefni sem samferðamaður kærðu kom með til landsins hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi kærðu og samferðamanns hennar kunni því að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji sig að minnsta kosti þurfa svigrúm til að rannsaka nánar, áður en kærða verður látin laus úr haldi lögreglu, hvort að meint fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og hver sé þáttur kærðu í málinu. Þá telji lögregla að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus. Einnig telji lögregla hættu á að kærða verði beitt þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hana af hendi samverkamanna hennar gangi hún laus á þessu stigi rannsóknar hjá lögreglu.
Með vísan til alls framangreinds er þess krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. október 2016 og að kærða sæti einangrun á þeim tíma. Til vara er þess krafist að kærðu verði bönnuð för frá landinu allt til föstudagsins 7. október 2016, kl. 16:00.
Svo sem rakið er að framan var kærða og samferðamaður hennar, Y, handtekin við komuna til landsins vegna gruns um aðild þeirra að innflutningi fíkniefna. Í ljós hefur komið að samferðamaður kærðu var með fíkniefni innvortis án þess að kunnugt sé um tegund eða magn þeirra. Kærða hefur neitað aðild að málinu og meðal annars bent á að hún hafi komið til landsins með vini sínum sem hefði boðið henni til Íslands til að skoða í verslanir og kaupa ýmsa muni, þar sem hún væri að selja ýmsa muni og ætti marga viðskiptavini. Skýringar kærðu á tilurð þess að hún ferðaðist til Íslands þykja sérkennilegar og ótrúverðugar. Þá ber kærðu og samferðarmanni hennar ekki að öllu leyti saman um atvik málsins og ferðatilhögun þeirra.
Samkvæmt atvikum málsins og gögnum þess verður fallist á það með lögreglustjóra að kærða sé undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsisrefsingu samkvæmt lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 173. gr. a almennra hegningarlaga. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins meðal annars með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna og vitna. Skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því uppfyllt. Með sömu rökum eru uppfyllt skilyrði b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 til þess að kærðu verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Þykir ekki fært í ljós atvika að beita vægari úrræðum.
Er krafa lögreglustjóra tekin til greina með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, fædd [...] , skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 3. október 2016, kl. 16:00.
Kærða sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.