Hæstiréttur íslands
Mál nr. 587/2016
Lykilorð
- Lánssamningur
- Ógilding samnings
- Ábyrgð
- Málsástæða
- Hlutafé
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. ágúst 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi deila aðilar um kröfu stefnda á hendur áfrýjanda samkvæmt lánssamningi 7. ágúst 2008. Sá samningur var gerður til að gera upp skuldbindingu áfrýjanda samkvæmt skiptri sjálfskuldarábyrgð á lánssamningi 27. júlí 2005 milli Hydra ehf., sem síðar fékk nafnið Eignarhaldsfélagið City S.A. ehf., og Landsbanka Íslands hf. Kröfum bankans samkvæmt þessum samningum var síðar ráðstafað til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2009.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi teflt fram þeirri málsástæðu að stefndi hafi valdið sér tjóni með því að lækka kröfu samkvæmt kröfulýsingu sinni í þrotabú Eignarhaldsfélagsins City S.A. ehf. úr 93.210.868 krónum í 21.339.723 krónur. Með þessu hafi hann fallið frá rétti til greiðslu úr þrotabúinu á kostnað áfrýjanda og annarra sjálfskuldarábyrgðarmanna, en um þetta fer eftir reglum 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þessi málsástæða hafi verið höfð uppi í héraði. Hún er því of seint fram komin og kemur ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með lánssamningnum 27. júlí 2005 veitti Landsbanki Íslands hf. lán til Hydra ehf. að jafnvirði 80.000.000 króna í breskum pundum. Telur áfrýjandi að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. Við uppgjör á ábyrgð áfrýjanda á láninu með lánssamningi hennar við bankann 7. ágúst 2008 hafi hins vegar verið lagt til grundvallar að upphaflega lánið hafi verið í erlendum gjaldmiðli. Hvað sem þessu líður um skuldbindingu aðalskuldara gekkst áfrýjandi í ábyrgð sína með tiltekinni fjárhæð í pundum og var skuldbundin gagnvart lánveitanda samkvæmt því. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Elín Þóra Dagbjartsdóttir, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2016.
Mál þetta sem dómtekið var hinn 9. maí sl., að lokinni aðalmeðferð var höfðað fyrir dómþinginu af Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, á hendur Elínu Dóru Dagbjartsdóttur, Skipastíg 9, Grindavík, með stefnu birtri 22. október 2014.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 2.043.337 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 232.389 krónum frá 15. janúar 2014 til 3. ágúst 2014, en af 2.043.337 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda, en til vara að stefnufjárhæð verði lækkuð verulega. Í báðum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts.
II
Málavextir eru þeir, að hinn 7. ágúst 2008 gerðu Landsbanki Íslands hf. og stefnda með sér lánssamning um fjölmyntalán til þriggja ára að fjárhæð 22.256,58 sterlingspund. Lánið skyldi greiðast með 6 jöfnum afborgunum á 6 mánaða fresti. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta skyldi vera 1. janúar 2009, sbr. grein 2.1 í samningnum. Lántaki lofaði að greiða bankanum vexti sem skyldu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 3,75% vaxtaálags. Vextir skyldu greiðast frá útborgunardegi lánsins og greiðast eftir á á gjalddögum, í fyrsta sinn 1. janúar 2009. Við vaxtaútreikning skyldi tekið mið af þeim vaxtareglum er varða dagafjölda sem í gildi væru á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum á hverjum tíma. Samkvæmt grein 6.1 í samningnum bar lántaka að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur. Ef dráttarvaxta yrði krafist í erlendum myntum skyldu þeir vera vextir samkvæmt grein 3.1 í samningnum auk viðeigandi álags að viðbættu 10% viðbótarálagi. Ef skuldinni yrði breytt í íslenskar krónur á gjalddaga skyldu dráttarvextir reiknast á íslenskar krónur samkvæmt lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Vanefndi lántaki skyldur sínar samkvæmt samningnum skuldbatt hann sig jafnframt til að greiða bankanum allan útlagðan kostnað bankans vegna vanefndanna, málsóknar eða annarra réttargjalda, lögmannsþóknunar eða annars sem bankanum bæri að greiða svo og annan lögfræðilegan kostnað vegna innheimtu alls lánsins, sbr. gr. 6.2 í samningnum. Samkvæmt grein 5.1 í samningnum skyldi lántaki greiða bankanum 0,30% lántökugjald af heildarlánsfjárhæðinni og skyldi lántökugjaldið dragast af við útborgun lánsins.
Samkvæmt grein 1.2 í samningnum var það skilyrði fyrir útborgun lánsins að stefnanda myndi berast beiðni um útborgun, þar sem tiltekinn yrði sá reikningur sem leggja skyldi lánið inn á, og var vísað til forms að útborgunarbeiðni í viðauka 1 við samninginn. Samkvæmt útborgunarbeiðni stefndu, dagsettri 7. ágúst 2008, var óskað eftir því að lánið yrði greitt út þann 9. ágúst 2008 og óskað eftir að útborgunarfjárhæðinni yrði ráðstafað inn á lán nr. 0142-3372 milli bankans og Eignarhaldsfélagsins City SA ehf.
Þann 7. apríl 2009 var gerður viðauki við lánssamninginn þar sem fram kom að eftirstöðvar lánsins þann 5. janúar 2009 væru 22.526,58 sterlingspund. Auk þess væru gjaldfallnir vextir 899,30 sterlingspund, sem skyldu greiðast við undirritun viðaukans. Samkvæmt skilmálabreytingunni var lánstíma breytt þannig að eftirstöðvar lánsins bar að greiða að fullu með 6 jöfnum afborgunum á 6 mánaða fresti. Næsti gjalddagi afborgana og vaxta skyldi vera 15. júlí 2009. Vextir skyldu reiknast frá 5. janúar 2009. Að öðru leyti skyldi samningurinn haldast óbreyttur.
Þann 7. maí 2010 var aftur gerður viðauki við samninginn vegna höfuðstólslækkunar. Þar kom fram að eftirstöðvar lánsins þann 17. maí 2010 væru 15.017,72 sterlingspund, einnig voru reiknuð vanskil að fjárhæð 766.767 krónur. Að auki voru ógreiddir vextir að fjárhæð 172,94 sterlingspund og 144.797 krónur, sem lántaka bar að greiða við undirritun viðaukans. Að beiðni skuldara var láninu breytt í íslenskar krónur og skyldi höfuðstólslækkun vegna breytinganna vera 25% af hverri mynt. Höfuðstóll sem gefinn yrði upp í íslenskum krónum skyldi miðast við sölugengi Landsbankans á viðkomandi mynt við útgáfudag viðaukans, 192,37 sterlingspund. Skilmálar lánsins eftir breytinguna voru þeir að höfuðstóllin var 2.935.206 krónur og skyldi lánstíminn vera níu ár. Afborganir af láninu skyldu verða 18 og gjalddagi fyrstu afborgunar og vaxta skyldi vera 15. júlí 2010. Greiða skyldi af láninu á sex mánaða fresti. Vextir skyldu reiknast frá 17. maí 2010 og vera í vaxtaflokki K1, við undirritun 5,80%. Þá var grunnvísitala lánsins 362,9. Vextir skyldu vera breytilegir ársvextir, eins og þeir væru ákveðnir af Landsbankanum og skyldi það taka jafnt til kjörvaxta og vaxtaálags. Vextir skyldu greiðast eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir, nema um annað yrði samið. Landsbankanum var heimilt á lánstímanum að hækka og lækka vextina, þ.m.t. vaxtaálag, í samræmi við vaxtaákvarðanir Landsbankans á hverjum tíma og/eða færa lánið á milli vaxtaflokka, svo sem ef breytingar yrðu á fjárhagsstöðu og endurgreiðslumöguleikum útgefanda, ef breytingar yrðu á kjörvaxtakerfi bankans eða aðrar aðstæður gæfu tilefni til. Skyldi útgefandi ekki vilja una breytingunum var honum heimilt að greiða skuldina upp með því vaxtaálagi sem í gildi var fram að breytingunni, enda hefði hann að fullu greitt skuldina innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar Landsbankans. Höfuðstóll skuldarinnar skyldi breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölunni frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Höfuðstóll lánsins skyldi reiknaður út á hverjum gjalddaga áður en afborganir og vextir yrðu reiknaðir út. Afborganir skyldu reiknaðar út þannig að á hverjum gjalddaga skyldi vísitöluálag bætt við höfuðstól skuldarinnar og síðan deilt í útkomuna með þeim fjölda gjalddaga sem þá væru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem væri í það sinn. Við vaxtaútreikning og útreikning vanskilavaxta var miðað við að 30 dagar væru í hverjum mánuði og 360 dagar í ári. Að öðru leyti skyldu skilmálar lánsins haldast óbreyttir. Þá kom fram að við breytinguna kynni lánssamningurinn að fá nýtt númer, og breyttist lánsnúmerið úr 11886 í 421578.
Þann 11. janúar 2012 sendi stefnandi stefndu bréf, þar sem vísað var til bréfs Landsbankans hf. frá júní 2011, sem sent var í framhaldi af niðurstöðu Hæstaréttar í máli bankans gegn þrotabúi Mótormax, í máli nr. 155/2011. Í bréfinu var tilkynnt að bankinn væri að skoða hvort lán nr. 0142-36-11886 félli undir fordæmisgildi dómsins. Það var mat Landsbankans að lánið félli ekki undir efnisatriði dómsins. Af þeirri ástæðu myndi bankinn ekki endurútreikna lánið.
Í greinargerð sinni vísar stefnda til þess að lánssamningur, dagsettur 7. ágúst 2008, hafi verið hluti af uppgjöri aðila vegna hlutafjáraukningar Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. Hlutafjáraukningin hafi farið fram með þeim hætti að ECSA (þá Hydra ehf.) hafi gert lánssamning við Landsbanka Íslands hf. 27. júlí 2005 og tiltekna einstaklinga, sem ábyrgðarmenn, og hafi hluthafar félagsins gengist í skipta (pro rata) ábyrgð fyrir láninu, þar sem ábyrgð hvers og eins hafi verið ákveðin í samræmi við þá hlutafjáraukningu sem þeir hafi verið skráðir fyrir. Þannig hafi ábyrgð stefndu vegna lánssamningsins verið 22.458 sterlingspund, sem hafi verið u.þ.b. sú hlutafjáraukning sem stefnda hafi verið skráð fyrir, að teknu tilliti til gengisbreytinga, en miðað hafi verið við gengið 116 krónur, og ábyrgð hennar því verið 2.494.000 krónur, samkvæmt áskrift. Hið sama hafi átt við um alla þá 25 aðila sem skrifað hafi undir ábyrgð vegna lánssamningsins, að ábyrgð þeirra hafi hljóðað upp á þá hlutafjáraukningu sem þeir hafi verið skráðir fyrir. Þannig hafi 25 hluthafar félagsins verið kallaðir í útibú Landsbanka Íslands hf. á Suðurnesjum til að skrifa undir lánssamninginn sem ábyrgðaraðilar, gegn loforði um aukna hlutafjáreign. Lánsfjárhæðin hafi verið greidd í íslenskum krónum inn á bankabók félagsins 0142-05-2028, 2. ágúst 2005 í samræmi við viðauka samningsins um útborgun, sem undirrituð var 27. júlí 2005. Þar kom jafnframt fram að skuldfæra mætti greiðslur afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt samningnum af tékkareikningi félagsins nr. 0142-26-787.
Lánssamningur nr. 142-36-3372 sé, samkvæmt forsíðu samningsins, þríhliða samningur milli Hydra ehf. (ECSA), Landsbanka Íslands hf. og tiltekinna einstaklinga, sem ábyrgðaraðila, um lán á 80.000.000 króna. Í inngangi samningsins segi að um sé að ræða lánssamning um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði 80.000.000 króna, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: „GBP 100%“.
Samkvæmt grein 2.2 í þeim samningi óskaði lántaki eftir að íslenskur tékkareikningur hans yrði skuldfærður fyrir afborgunum og/eða vöxtum. Í grein 4.1 í samningnum segi að sé skuldin í skilum geti lántaki óskað þess að myntsamsetningu lánsins verði breytt þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega hafi verið samið um. Við myntbreytinguna skyldi við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt sé að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skuli miða við.
Samkvæmt 9. grein í samningnum var lántaka Hydra óheimilt að setja nokkrar eignir sínar eða dótturfélaga sinna að veði um fram það sem þegar hafði verið gert við gerð samningsins auk þess sem lántaki skuldbindi sig til að setja ekki sérstakar tryggingar fyrir lánum sem hann taki né öðrum fjárhagslegum skuldbindingum hverju nafni sem þær nefnist nema sams konar trygging sé jafnframt sett fyrir skuldbindingum lántaka samkvæmt lánssamningnum. Þrátt fyrir það hafi Hydra veðsett flugvél og aðrar eignir til Landsbanka Íslands hf. í janúar 2006, vegna tveggja lánasamninga sem þá hafi verið gerðir, sbr. umfjöllun í dómi Hæstaréttar í máli nr. 119/2009.
Stefndi kveður bú ECSA hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 28. maí 2008 og hafi stefnandi lýst kröfu í þrotabúið, eins og um löglegt lán í sterlingspundum væri að ræða. Jafnframt hafi stefnandi krafið stefndu um greiðslu 22.459 sterlingspunda vegna ábyrgðar hennar á láninu. Þáverandi útibússtjóri Landsbankans í Keflavík hafi nokkrum sinnum hringt í stefndu og beðið hana um að koma í útibúið og undirrita nýjan lánssamning af því tilefni. Hafi orðið úr að stefnda hafi undirritað lánssamning að fjárhæð 22.536,58 sterlingspund þann 7. ágúst 2008 til uppgjörs á ábyrgðarskuldbindingu sinni.
Lánsfjárhæðin hafi verið greidd í íslenskum krónum inn á bankabók félagsins 0142-05-2028, 2. ágúst 2005, í samræmi við viðauka samningsins um útborgun, sem undirrituð hafi verið 27. júlí 2005. Þar kom jafnframt fram að skuldfæra mætti greiðslur afborgana, vaxta og annarra gjalda samkvæmt samningnum af tékkareikningi félagsins í íslenskum krónum.
Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 9. október 2008, með heimild í 110. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimildir til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf., nú Landsbankinn hf.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefndu á lánssamningi dagsettum 7. ágúst 2008. Með samningnum tók stefnda fjölmyntalán hjá forvera stefnanda til þriggja ára að fjárhæð 22.526,58 sterlingspund. Lánstíminn var til þriggja ára með sex jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti. Lánstíma samningsins var tvívegis breytt á lánstímanum, fyrst með viðauka, dagsettum 7. apríl 2009, og síðan með viðauka, dagsettum 17. maí 2010, þar sem lánstíminn var lengdur. Stefnandi kveður lánið vera í vanskilum og hafi síðast verið greitt af því 15. janúar 2014. Stefnandi kveðst hafa nýtt sé vanefndarúrræði, sem hann hafi samkvæmt 10. gr. í lánssamningnum. Þar sé gjaldfellingarákvæði, sem heimili bankanum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að fella lán samkvæmt samningnum í gjalddaga einhliða og fyrirvaralaust og án sérstakrar uppsagnar. Þessi heimild sé m.a. til staðar ef vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta hafa varað í 14 daga eða lengur. Elsti ógreiddi gjalddagi lánsins er 15. janúar 2014 og hefur stefnandi nýtt sér heimild samkvæmt 10. gr. samningsins og fellt allt lánið í gjalddaga. Eftirstöðvar lánsins, er það var gjaldfellt þann 15. janúar 2014, hafi verið 1.992.042 krónur og áfallnir samningsvextir þann dag 51.295 krónur, eða samtals 2.043.337 krónur, sem sé stefnufjárhæðin.
Stefndu hafi verið send innheimtuviðvörun þann 22. janúar 2014 og innheimtubréf þann 3. júlí 2014, en án árangurs.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að ábyrgð sú sem hin meinta skuld byggi á hafi verið ógild frá upphafi. Byggir stefnda á því að ljóst megi vera af lánssamningi milli Hydra ehf., Landsbanka Íslands hf. og tiltekinna einstaklinga, sem ábyrgðaraðila, að þeir starfsmenn bankans sem komið hafi að samningsgerðinni hafi vitað eða mátt vita að lánveitingu til félagsins hafi verið ætlað að auka hlutafé þess, þvert gegn ákvæðum 11. gr. einkahlutafélagalaga. Þrátt fyrir þá vitneskju hafi bankinn kallað hluthafana í bankann til að skrifa undir samninginn sem ábyrgðaraðila, í stað raunverulegrar innborgunar á hlutafé.
Þá byggir stefnda á því að með nýjum lánasamningi milli Hydra og Landsbankans, sem gerðir hafi verið í janúar 2006, hafi Hydra og Landsbanki Íslands hf. brotið gegn, eða breytt, skýru orðalagi 9. gr. upphaflegs lánssamnings með því að Landsbanki Íslands hafi tekið veð í eignum félagsins án þess að þeim veðum hafi verið ætlað að tryggja réttindi samkvæmt lánssamningi frá 27. júlí 2005. Þar með hafi grundvelli stefndu fyrir aðkomu hennar að lánssamningi Hydra, Landsbanka Íslands hf. og tiltekinna einstaklinga verið kippt undan henni. Ljóst sé að með því að Landsbanki Íslands hf. hafi ákveðið ásamt Hydra ehf. að breyta ákvæðum samningsins hafi bankinn tryggt stöðu sína gagnvart félaginu á kostnað þeirra ábyrgðaraðila sem tekið hafi á sig ábyrgð á láninu. Stefnda og aðrir þeir sem tekið hafi á sig ábyrgð hafi þannig verið í umtalsvert verri stöðu eftir lánveitingu Landsbanka Íslands hf. í janúar 2006 heldur en þeir hafi verið í þegar samningurinn hafi verið undirritaður í lok júlí 2005. Ljóst sé að þar með hafi allar forsendur stefndu brostið fyrir veitingu ábyrgðarinnar enda ljóst að líkur á að ábyrgðin félli á stefndu hafi aukist umtalsvert við veðsetningu eigna Hydra ehf., en grunnforsenda stefndu fyrir því að gangast í ábyrgð vegna lánssamningsins hafi verið að litlar líkur væru á að ábyrgðin félli á hana.
Þá sé skýrt af lánssamningi nr. 142-36-3372 og dómi Hæstaréttar í máli nr. 119/2009, að umþrættur lánssamningur hafi verið þríhliða samningur bankans, félagsins og ábyrgðarmanna, en þar komi fram að sjálfskuldarábyrgðarmenn séu aðilar að samningnum og bundnir af ákvæðum hans og geti jafnframt eftir atvikum reist rétt á honum.
Í ljósi þess sé ekki hægt að líta svo á að skyldur Hydra ehf., samkvæmt 9. gr. í samningnum, hafi aðeins gilt gagnvart Landsbanka Íslands hf., sem lánveitanda. Því beri að líta svo á að Landsbanki Íslands hf. hafi tekið fullan þátt í „broti“ Hydra ehf. á skyldum sínum samkvæmt 9. gr. í samningnum. Hafi tveir aðilar þríhliða samnings í raun samið um að breyta efni samningsins án þess að bera það undir þá aðila samningsins sem mesta hagsmuni hafi haft af því að umrædd breyting yrði ekki gerð á samningnum, þ.e. ábyrgðaraðila samningsins. Þegar af þessari ástæðu sé ljóst að ábyrgð stefndu vegna lánssamnings Hydra ehf. og Landsbanka Íslands hf. hafi fallið að fullu niður með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 í síðasta lagi í janúar 2006 þegar Landsbanki Íslands hf. hafi tekið veð í eignum Hydra ehf. í tilefni tveggja nýrra lánveitinga. Enda sé ljóst að afar ósanngjarnt sé af stefnanda að krefja ábyrgðarmenn um greiðslu ábyrgða í ljósi þessarar breytingar sem gerð hafi verið á samningnum, án aðkomu ábyrgðarmanna.
Byggir stefnda á því að ósanngjarnt sé af stefnanda að krefja hana um greiðslu lánssamnings þess, sem gerður hafi verið til uppgjörs ábyrgðarinnar. Við mat á sanngirni þurfi, samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, að líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komi til. Í fyrsta lagi sé ljóst að stefnda hafi ekkert endurgjald fengið fyrir ábyrgð sína á lánssamningi aðila þrátt fyrir loforð um slíkt, þar sem ekkert raunverulegt hlutafé hafi komið inn í Hydra ehf. og hafi því efni samningsins í raun verið afar ósanngjarnt gagnvart henni.
Þá hafi staða samningsaðila verið mjög ójöfn þar sem stefnandi sé fjármálafyrirtæki sem hafi á að skipa sérfróðum starfsmönnum, en stefnda sé einstaklingur og neytandi. Hafi því hallað mjög á stefnanda við samningsgerðina eins og sjá megi á því að öll ákvæði samningsins séu einhliða samin af stefnanda. Atvik hafi og verið þannig við samningsgerðina að stefnandi hafi vitað eða mátt vita að blekkingum hefði verið beitt til að fá stefndu til að undirrita ábyrgðaryfirlýsinguna.
Enn fremur sé ljóst að eftir að Landsbanki Íslands hafi tekið veð í flugvélum Hydra ehf. og breytt þar með efni samnings aðila, hafi efni samningsins orðið enn ósanngjarnara gagnvart stefndu. Með því að stefnandi hafi tekið ofangreint veð verði að telja, í ljósi skýrra ákvæða í 9. gr. í samningnum nr. 142-36-3372, að tveir aðilar þríhliða samnings hafi komið sér saman um að breyta efni hans í meginatriðum, án þess að bera það undir þá aðila samningsins sem ábyrgir hafi verið fyrir efndum hans.
Stefnda hafi staðið í þeirri trú, í ljósi þeirra upplýsinga sem Landsbankinn hafi veitt henni, með skýrum ákvæðum lánssamnings aðila, að eignir Hydra ehf., þ.m.t. flugvélar félagsins, yrðu ekki veðsettar Landsbanka Íslands hf., eða öðrum, án þess að sams konar trygging yrði sett fyrir greiðslu ofangreinds lánssamnings og/eða leitað yrði þá samkomulags við stefndu um slíka breytingu á samningnum.
Þá verði jafnframt, við mat á sanngirni samningsins um ábyrgð stefndu, að horfa til þess að stefnda hafi ekki fengið neitt af lánsfénu í sinn hlut. Þegar stefnda hafi skrifað undir ábyrgðina hafi hún staðið frammi fyrir því að eignarhlutur hennar í félaginu yrði þynntur út án þess að nokkurt nýtt hlutafé kæmi inn í félagið.
Aðstæðum við samningsgerðina hafi því svipað mjög til þeirra aðstæðna sem uppi hafi verið þegar mikill fjöldi stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði og Sparisjóði Hörgárbyggðar hafi verið boðið lán til stofnbréfakaupa, en hefðu þau ekki nýtt tækifærið hefði það haft þau áhrif að verðmæti stofnfjárbréfa sem þau hafi þegar átt rýrnuðu verulega. Vísar stefnda sérstaklega til dóms Hæstaréttar í málum nr. 117/2011 og nr. 119/2011 þar sem rétturinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að Íslandsbanka hefði verið óheimilt að leita fullnustu á greiðsluskyldu skuldara í öðrum eignum hans en veðsettum stofnfjárbréfum og arði af þeim. Þannig hafi sjálfskuldarábyrgð skuldarans verið ógilt á þeim grunni að ósanngjarnt væri af Íslandsbanka að bera samninginn fyrir sig. Í kjölfar dómanna hafi fjármálafyrirtæki fellt niður hundruð ábyrgða á grundvelli þeirra. Liggi því fyrir að víkja beri téðri ábyrgð stefndu til hliðar vegna stöðu aðila við samningsgerð, atvika við samningsgerð, atvika sem síðar hafi komið til og vegna þess að efni samningsins hafi verið ósanngjarnt.
Stefnda telji ljóst að sá háttur sem hafður hafi verið á ábyrgðartöku bankans hjá stefndu á sínum tíma fái hvorki staðist lög né góða viðskiptahætti. Stefnda telur ljóst að Landsbanki Íslands hf. hafi með ólögmætum hætti blekkt hana til að gangast í ábyrgð, enda hafi þau loforð sem stefndu hafi verið gefin, m.a. af Landsbanka Íslands hf., verið með öllu ólögmæt og gersamlega úr takt við þær kröfur sem gerðar séu við hlutafjáraukningu samkvæmt hlutafélagalögum og einkahlutafélagalögum. Telur stefnda að bankinn hafi tekið fullan þátt í ólögmætu athæfi til þess að hagnast á kostnað stefndu, þvert gegn ákvæðum 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
Stefnda byggir á því að ábyrgð hennar á lánssamningi nr. 142-36-3372 hafi verið ógild frá upphafi þar sem Landsbanki Íslands hf. hafi, ásamt stjórn ECSA ehf., blekkt hana til að skrifa undir samninginn á forsendum sem bankanum var, eða mátti vera ljóst, að stæðust ekki lög. Starfsmaður bankans sem séð hafi um samningsgerðina fyrir hönd bankans hafi vitað eða mátt vita, að ástæða þess að 25 einstaklingar hafi ákveðið að skrifa undir ábyrgð á lánssamningi einkahlutafélags væri loforð um hlutafjáraukningu félagsins, sem aldrei hafi getað staðist lög um einkahlutafélög. Bankinn hafi því misnotað aðstöðu sína og þekkingarleysi stefndu og þannig hagnýtt sér ranga eða óljósa hugmynd hennar, enda hafi bankinn mátt vita að hlutafjáraukning hefði aldrei farið fram á þann hátt sem stefndu hafi verið kynnt.
Ljóst sé að hlutafé einkahlutafélags verði ekki aukið án þess að greiðsla komi fyrir aukningu hlutafjár. Sú greiðsla geti aldrei falist í undirritun ábyrgðar á lánssamningi félagsins sem hyggi á hlutafjáraukningu. Til að hlutafjáraukning geti átt sér stað verði hluthafar, eða nýir hluthafar, að greiða inn það hlutafé sem aukningunni nemi. Stefnda hafi í raun aldrei fengið þá hluti sem hún hafi skráð sig fyrir enda hafi í raun engin hlutafjáraukning orðið í félaginu.
Ábyrgð stefndu vegna lánssamnings nr. 142-36-3372 hafi því aldrei verið skuldbindandi fyrir hana, sbr. 30. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, enda hafi hún verið fengin til að gangast í ábyrgð með svikum stjórnenda Hydra ehf. og starfsmanna Landsbanka Íslands hf., eða í það minnsta með vitneskju starfsmanna bankans, og hafi þeir þagað yfir þeirri vitneskju sem augljóslega hefði haft áhrif á það að stefnda hafi gengist í ábyrgðina. Í það minnsta sé ljóst að þeir starfsmenn Landsbankans Íslands hf., sem að samningsgerðinni hafi komið hafi vitað, eða mátt vita, að stjórnendur Hydra ehf. hafi notað sér fákunnáttu stefndu á sviði hlutafélagalaga til þess að afla félaginu hagsmuna þannig að bersýnilegur munur hafi verið á hagsmunum félagsins og bankans, og því endurgjaldi sem stefndu hafi verið ætlað, enda ljóst að í raun hafi ábyrgð stefndu verið veitt án endurgjalds. Landsbanka Íslands hf. hafi verið, eða mátt vera, kunnugt hvernig háttað hafi til við veitingu ábyrgðarinnar, sbr. 31. gr. samningalaga. Stefnda telji fáheyrt, og jafnvel óþekkt, að nokkur önnur tilvik finnist um sambærileg atvik, þ.e. að á milli 20 og 30 einstaklingar séu teymdir inn í fjármálastofnun, til þess að skrifa undir skipta (pro rata) ábyrgð á tugmilljóna lánssamningi hlutafélags, sem hluta af hlutafjáraukningu í því félagi.
Lánssamningur Hydra ehf., Landsbanka Íslands hf. og tiltekinna einstaklinga hafi ekki verið um lán í sterlingspundum eða annarri erlendri mynt heldur hafi verið um að ræða gengistryggðan lánssamning að fjárhæð 80.000.000 króna, sem tengdur hafi verið við 100% dagsgengi sterlingspunda, sbr. forsíðu og upphafsorð samningsins. Lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum og greitt til baka í íslenskum krónum, sbr. viðauka 1 við samninginn „beiðni um útborgun“, dagsettan 27. júlí 2005.
Þrátt fyrir að um ólöglegt gengistryggt lán væri að ræða hafi ábyrgð stefndu verið gerð upp með lánssamningi 0142-36-11890, sem skráður hafi verið í sterlingspundum. Það breyti þó ekki þeirri staðreynd að lán samkvæmt lánssamningi 0142-36-11890 hafi verið greitt út í íslenskum krónum, enda hafi andvirði lánsins verið varið til innborgunar á lánssamningi Hydra ehf., Landsbanka Íslands hf. og tiltekinna einstaklinga frá 27. júlí 2005, sem hafi verið bundið ólöglegri gengistryggingu. Að sama skapi hafi endurgreiðsla lánsins átt að fara fram í íslenskum krónum. Ljóst sé því að þótt lánssamningur stefndu og stefnanda sé að formi til um lán í erlendri mynt sé ljóst að efnislega sé um gengistryggðan lánssamning að ræða, í andstöðu við 13., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001.
Þar sem um sé að ræða lánssamning en ekki skuldabréf verði að horfa til þeirra atvika sem að baki samningnum liggi en ekki nægi að lesa aðeins í framsetningu stefnanda á efni samningsins enda sé samningurinn einhliða saminn af stefnanda og samningsstaða stefndu við samningsgerð afar þröng. Horfa verði til allra aðstæðna í kringum samningsgerðina við túlkun samningsins, en þar að auki verði að horfa til raunverulegrar framkvæmdar samningsins. Samningnum hafi verið ætlað að vera uppgjör vegna ábyrgðar á láni í íslenskum krónum sem bundið hefði verið gengi erlendra gjaldmiðla. Það sé því rangt sem haldið sé fram í stefnu að 22.495 sterlingspund hafi verið greidd út í kjölfar beiðni um útborgun. Lánsfjárhæðin hafi verið greidd í íslenskum krónum inn á lán í íslenskum krónum. Þá sé jafnframt ljóst að samkvæmt viðauka 1, „beiðni um útborgun“ hafi átt að greiða lánið til baka í íslenskum krónum. Það sé í samræmi við endurgreiðsluákvæði samningsins í 2. gr. hans. Stefndi vísar í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 155/2011, enda verði að telja að sá samningur sem þar hafi verið deilt um hafi verið sams konar samningur, hvað varði hina ólögmætu gengistryggingu.
Þá sé jafnframt ljóst að afar ósanngjarnt sé af stefnanda að krefja stefnda um fullar efndir í sterlingspundum þegar ljóst sé að lánssamningur 0142-36-11890 hafi komið til vegna uppgjörs á ábyrgð vegna gengistryggðs lánssamnings. Breyti þar engu þótt ábyrgð á gengistryggða lánssamningnum hafi verið tilgreind í sterlingspundum, þar sem sú tilgreining hafi augljóslega byggt á þeim misskilningi að um lögmætt lán í erlendri mynt hefði verið að ræða. Augljóst sé því að víkja beri samningnum til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga í það minnsta að því leyti sem fjárhæð skuldarinnar sé umfram hlut stefndu í ábyrgð á upphaflegum höfuðstól hins gengistryggða lánssamnings, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 384/2013. En þar hafi verið talið ósanngjarnt af Landsbankanum hf. að bera fyrir sig yfirdráttarlán að því marki sem höfuðstóll þess hefði verið umfram höfuðstól skuldabréfs að frádreginni gengistryggingu þess. Sama eigi við í þessu máli, en umdeildur lánssamningur sé til kominn vegna uppgjörs á ólöglegu gengistryggðum lánssamningi og af því leiði að ósanngjarnt sé af stefnanda að bera samninginn fyrir sig, enda ljóst að önnur niðurstaða myndi færa stefnanda ólögmætan ávinning á kostnað stefndu.
Einnig verði að líta til þess að stefnandi hafi gengið að ábyrgðarmönnum lánsins áður en ljóst hafi verið hversu mikið fengist greitt upp í lánið frá upphaflegum lántaka. Þannig hafi kröfulýsing stefnanda í þrotabú ECSA ehf. verið takmörkuð við þá fjárhæð sem eftir var þegar 20 af 25 ábyrgðarmönnum hefðu gengist við ábyrgð vegna samningsins. Þá sé enn fremur ljóst að stefnandi hafi tapað umtalsverðum réttindum með tómlæti gagnvart öðrum ábyrgðarmönnum samningsins. Þannig liggi fyrir að 5 einstaklingar sem gerst hafi ábyrgðarmenn að lánssamningnum hafi ekki gengist við ábyrgðum sínum. Stefnandi hafi ekkert aðhafst gagnvart fjórum þeirra en krafið einn þeirra um greiðslu fyrir dómi, en Hæstiréttur hafi vísað málinu frá héraðsdómi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 119/2009. Stefnandi hafi aldrei gert frekari kröfur á hendur þeim fimm einstaklingum sem gengust ekki við ábyrgð sinni og sé sú ábyrgð nú niður fallin fyrir fyrningu. Telur stefnda að ef stefnandi hefði gætt hagsmuna sinna á þann hátt sem gera verði kröfu um, í ljósi stöðu stefnanda, hefði tjón hans af gjaldþroti ECSA ehf. orðið umtalsvert minna og ekki gerst þörf fyrir stefnanda að krefja stefndu um fulla greiðslu ábyrgðarskuldbindingar hennar.
Þegar tekið sé tillit til þess sem ECSA ehf. hafi greitt af upphaflegum lánssamningum og því sem stefnandi varð af vegna eigin tómlætis gagnvart öðrum ábyrgðarmönnum verði að telja að stefnandi hafi nú þegar fengið alla kröfu sína greidda að því marki sem stefnandi eigi rétt á og megi því líta svo á að stefnandi sé með málshöfðun þessari að reyna að hagnast á óréttmætan hátt á kostnað stefndu. Þá liggi einnig fyrir að stefnandi hafi fengið greidd fjárverðmæti út úr þrotabúinu, sem ekki hafi verið tekið tillit til í máli þessu. Staðfesti það enn frekar að stefnandi reyni að auðgast með ólögmætum hætti á stefndu.
Um lagarök vísar stefnda til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Kröfu um málskostnað byggir stefnda á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Ágreiningur mál þessa lýtur að því hvort stefndu beri greiðsluskylda samkvæmt lánssamningi dagsettum 7. ágúst 2008, að fjárhæð 22.526,58 sterlingspund. Óumdeilt er að stefnda undirritaði lánssamning þann sem liggur frammi í málinu sem lántaki. Samkvæmt framlögðum lánssamningi var fjárhæð lánsins þar skýrlega tilgreind í sterlingspundum og því um lögmætt lán í erlendri mynt að ræða, en hinn 7. apríl 2009 var láninu skilmálabreytt með viðauka, og hinn 17. maí 2010 var enn gerður viðauki við samninginn þar sem láninu var breytt yfir í íslenskar krónur og höfuðstóll þess jafnframt lækkaður.
Fyrir liggur í málinu að ástæða þess að umþrættur samningur var gerður er að áður hafði stefnda tekið á sig sjálfskuldarábyrgð hlutfallslega (pro rata) á lánssamningi milli Landsbanka Íslands hf. og Hydra ehf., 22.526,58 sterlingspund á fullum efndum allra skuldbindinga samkvæmt samningnum.
Samkvæmt greinargerð stefndu byggir hún sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að sjálfskuldarábyrgð hennar á lánssamningi milli Landsbanka Íslands hf. og Hydra ehf. hafi verið ógild frá upphafi, þar sem tilgangur lánveitingarinnar hafi farið gegn einkahlutafélagalögum. Fyrir liggur að stefnda var ein af hluthöfum í lántaka Hydra ehf., er hún tók á sig ábyrgð á efndum samningsins. Í málinu liggur ekkert fyrir um að Landsbanki Íslands hf. hafi vitað um tilgang lántökunnar eða er nokkuð það fram komið sem styður þær fullyrðingar stefndu að með lántökunni hafi verið brotið gegn ákvæðum hlutafélagalaga.
Þá byggir stefnda á því að Landsbanki Íslands hf. hafi með nýrri lánveitingu til Hydra ehf., brotið gegn 9. gr. í upphaflegum samningi, með því að taka veð í eignum félagsins til tryggingar á efndum þess samnings milli Hydra ehf. og Landsbanka Íslands hf. Með því hafi bankinn tryggt stöðu sína gagnvart félaginu á kostnað ábyrgðarmanna. Ákvæði 9. gr. lánssamningsins í heild lúta að sérstökum skyldum lántakanda gagnvart lánveitanda. Þar kemur fram að lántaki skuldbindi sig til þess að hlíta nánar tilgreindum skilmálum uns skuld samkvæmt samningnum er að fullu greidd. Ákvæðin fjalla um skyldur lántaka gagnvart lánveitanda en ekki verður litið svo á að þau feli í sér sérstaka skyldu lánveitanda til að gæta hagsmuna sjálfskuldarábyrgðarmanna að þessu leyti. Þá hafa engin gögn verið lögð fram um að stefnda hafi sett fyrirvara fyrir sjálfskuldarábyrgð sinni. Þá er það mat dómsins með sömu rökum, að stefnanda hafi verið heimilt, samkvæmt tilvitnaðri grein, að veita lántaka samkvæmt lánssamningnum frekari lánafyrirgreiðslu gegn veði í flugvélum félagsins eftir gerð umrædds lánssamnings. Í ljósi framanritaðs eru ekki efni til að fallast á með stefndu að stefnandi hafi vanefnt ákvæði lánssamnings gagnvart henni.
Stefnda virðist og byggja á því að hún hafi ritað undir ábyrgð á samningnum vegna misskilnings um efni hans. Í 10. gr. samningsins milli Hydra ehf. og Landsbanka Íslands hf., sem ber yfirskriftina tryggingar, segir að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samningsins, taki tilgreindir aðilar á sig sjálfskuldarábyrgð hlutfallslega (pro rata) fyrir nánar tilgreindri upphæð á fullum efndum samkvæmt samningnum. Eru ábyrgðaraðilar síðan taldir upp og við nöfn þeirra tilgreindar fjárhæðir í breskum pundum. Þá segir að sjálfskuldarábyrgðin taki til greiðslu höfuðstóls allra lánshluta auk vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta, svo og alls kostnaðar sem af vanskilum kunni að leiða. Loks segir í lok 10. gr. að ábyrgðin gildi jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á skuldbindingum samkvæmt samningnum einu sinni eða oftar uns skuldin sé að fullu greidd.
Ekki veður talið að það eitt, að um er að ræða banka annars vegar og einstakling hins vegar, leiði undantekningarlaust til þess að litið verði svo á að ójafnræði hafi verið með aðilum, þ.e. að bankinn hafi með einhverjum hætti neytt yfirburðastöðu gagnvart viðsemjanda sínum. Þegar litið er til framangreinds um efni ábyrgðarákvæðis 10. gr. lánssamningsins verður ekki fallist á það með stefndu að efni þess sé svo ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að víkja beri til hliðar í heild eða að hluta með hliðsjón af 36. gr. samningalaga þannig að stefndu losni undan greiðsluskyldu samkvæmt umstefndum samningi. Þá liggur ekkert fyrir um það í málinu að stefnda hafi verið blekkt í viðskiptum þeirra og með öllu ósannað að stefnandi hafi með svikum eða þvingunum fengið hana til að taka á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldum félagsins. Ekki er unnt að fallast á sýknukröfu stefndu af þessum sökum.
Hér verður að líta til þess að þegar um er að ræða ábyrgð skuldara að hluta (pro rata), ábyrgist hver ábyrgðarmaður tiltekinn hluta af heildarskuldinni þannig að samtala verðmætis hlutanna er jöfn heildarskuldinni. Þegar svo háttar til verður hver skuldari aðeins krafinn um hans hluta af skuldinni. Það hefur því ekki áhrif á efndaskyldur hvers einstaks skuldara hvort kröfuhafa lánast að fá efndir hjá hinum skuldurunum. Það er meginregla að ábyrgðarmaður er skuldbundinn samkvæmt loforði sínu samkvæmt þeim skilmálum sem hann hefur gengist undir. Í greinargerð sinni hefur stefnda ekki byggt á því að lán samkvæmt samningnum sé uppgreitt og getur tómlæti stefnanda við innheimtu hjá öðrum ábyrgðarmönnum ekki leitt til þess að pro rata ábyrgð stefndu falli niður.
Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að skuld samkvæmt umþrættum lánssamningnum hefur ekki verið greidd. Stefnda byggir á því að ósanngjarnt sé af stefnanda að bera fyrir sig kröfuna. Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á það með stefndu að víkja beri samningnum til hliðar samkvæmt 36. gr. samningalaga. Með því að skuld samkvæmt lánssamningnum hefur ekki verið greidd ber stefndu greiðsluskylda. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður fjárkrafa stefnanda á hendur stefndu tekin til greina eins og hún er fram sett, en ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Elín Þóra Dagbjartsdóttir, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 2.043.337 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 15. janúar 2014 af 232.389 krónum til 3. ágúst 2014, en af 2.043.337 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.