Hæstiréttur íslands

Mál nr. 301/2002


Lykilorð

  • Frávísun frá Hæstarétti
  • Áfrýjun
  • Félag


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. janúar 2003.

Nr. 301/2002.

Verkalýðsfélag Akraness

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Vilhjálmi Birgissyni

(Ingólfur Hjartarson hrl.)

 

Frávísun frá Hæstarétti. Áfrýjun. Félög.

Deilt var um kröfu VB þess efnis að honum yrði sem stjórnarmanni VA veittur aðgangur að öllum bókhaldsgögnum félagsins fyrir árin 1997, 1998 og 1999, en hann hafði fyrst verið kjörinn í stjórnina fyrir árið 2000. Hafði héraðsdómur fallist á kröfu hans. Fyrir lá að stjórn VA hafði samþykkt að áfrýja málinu til Hæstaréttar en trúnaðarráð þess samþykkt að það sæi enga ástæðu til þess. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið eingöngu flutt um frávísunarkröfu VB. Tekið var fram að af 25. gr. félagssamþykktanna yrði ekki annað ráðið en trúnaðarráð gæti tekið ákvörðun um öll félagsmálefni. Yrði ekki séð að máli skipti að það hefði ekki verið að frumkvæði stjórnarinnar að málefnið var borið undir trúnaðarráðið. Hins vegar hefði mátt hnekkja niðurstöðu trúnaðarráðsins á félagsfundi eða aðalfundi. Þetta hafði ekki verið gert enda þótt ekki yrði annað séð en VA hefði haft fullt tilefni og tækifæri til þess að leita þeirrar lausnar fyrir málflutning í Hæstarétti. Þótti því ekki verða hjá því komist að taka kröfu VB um frávísun frá Hæstarétti til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 28. júní 2002. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið eingöngu flutt um frávísunarkröfu stefnda.

I.

Áfrýjandi er almennt félag með frjálsa félagsaðild. Um slík félög eru fá ákvæði í settum lögum og fer um þau samkvæmt félagssamþykktum og óskráðum reglum, sem byggjast á samningarétti og almennum reglum félagaréttar. Líta verður til þess um hvers konar félag er að ræða þegar þessum reglum er beitt. Skiptir því hér máli að um stéttarfélag er að ræða, en almennt gildir um slík félög að félagsaðild getur haft verulega þýðingu fyrir félagsmenn, meðal annars vegna forgangs þeirra til vinnu samkvæmt kjarasamningum. Félagsmenn taka þátt í félagsstarfinu á fundum. Almennt gildir að stjórnir eru kjörnar á aðalfundi og fara heimildir stjórnar eftir samþykktum félagsins og ákvörðunum funda þess. Stjórnarmenn taka þátt í stjórnarstörfum á stjórnarfundum hafi samþykktirnar ekki gert þar á aðra skipan.

Samkvæmt 16. gr. samþykkta áfrýjanda hefur stjórnin á hendi yfirstjórn allra mála milli félagsfunda. Hún boðar félagsfundi og ræður starfsmenn félagsins og segir fyrir um starfsskilyrði þeirra. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eigum félagsins. Í 17. gr. eru ákvæði um valdsvið formanns og í 19. gr. segir að starfsmaður hafi á hendi fjárhald og bókfærslu, sem að því lýtur eftir nánari fyrirmælum stjórnar.

Stefndi höfðaði mál þetta fyrir Héraðsdómi Vesturlands 26. nóvember 2001 og krafðist þess að honum sem stjórnarmanni væri veittur aðgangur að öllum bókhaldsgögnum áfrýjanda fyrir árin 1997, 1998 og 1999 á skrifstofu áfrýjanda að viðlögðum dagsektum. Reikningar áfrýjanda þessi árin höfðu verið endurskoðaðir bæði af löggiltum endurskoðanda og kjörnum endurskoðendum og samþykktir á aðalfundi. Stefndi hafði fyrst verið kjörinn í stjórnina fyrir árið 2000 og hafði fengið aðgang að öllum bókhaldsgögnum áfrýjanda fyrir það ár auk gagna frá 1999 sem vörðuðu þau atriði sem hann óskaði sérstaklega eftir. Af hálfu áfrýjanda var því haldið fram að stefndi hefði enga lögvarða hagsmuni af því að dómkrafa hans næði fram að ganga þar sem hann hefði ekki verið stjórnarmaður greind ár og því ekki borið ábyrgð á færslu bókhalds eða fjárreiðum þau árin. Krafist var frávísunar málsins frá héraðsdómi af þessum sökum. Héraðsdómur hafnaði þessari kröfu áfrýjanda 8. apríl 2002 og leitar hann endurskoðunar Hæstaréttar á þeim úrskurði. Jafnframt krafðist áfrýjandi sýknu af kröfum stefnda meðal annars með þeim rökum að þessar kröfur hans hefðu verið til meðferðar á stjórnarfundi 28. ágúst 2001, en ekki samþykkt að verða við þeim. Héraðsdómur hafnaði þessari málsástæðu áfrýjanda og rökstuðningi hans fyrir henni og féllst á kröfu stefnda með dómi sínum 11. júní 2002 og er málinu áfrýjað til Hæstaréttar í því skyni að fá þeirri úrlausn breytt.

Á stjórnarfundi áfrýjanda 24. júní 2002 var til meðferðar tillaga um að áfrýja framangreindum dómi héraðsdóms. Rituðu undir tillöguna átta stjórnarmenn. Urðu nokkuð harðorðar umræður um tillöguna og töldu þrír fundarmanna, að meðtöldum stefnda, að engin ástæða væri til að áfrýja til Hæstaréttar. Sögðu þeir að stjórn félagsins ætti ekki að taka ákvörðun um þetta heldur félagsfundur, en þar sem erfitt væri að ná saman fundi á þessum árstíma væri rétt að leggja málið fyrir trúnaðarráð. Hins vegar héldu aðrir því fram að samkvæmt lögum félagsins hefði trúnaðarráð ekkert vald til að taka slíka ákvörðun. Tillaga um að leggja þetta málefni fyrir stjórn og trúnaðarráð var felld með jöfnum atkvæðum, fjórum gegn fjórum. Eftir að stjórnin hafði samþykkt að allur málskostnaður beggja málsaðila yrði greiddur fyrir báðum dómsstigum var tillaga um áfrýjun samþykkt með átta atkvæðum gegn tveimur.

Samdægurs var haldinn fundur í trúnaðarráði félagsins þar sem 31 félagi mætti. Til fundarins mun hafa verið boðað samtímis framangreindum stjórnarfundi þar sem krafa hafði komið fram um það frá tilskildum fjölda trúnaðarráðsmanna samkvæmt 25. gr. samþykkta félagsins. Á fundinum kom fram dagsskrártillaga um að taka fyrir dómsmálið áður en fjallað yrði um stjórnarkjör og var það samþykkt. Eftir nokkrar umræður, sem stefndi tók meðal annarra þátt í, var samþykkt með 16 atkvæðum á móti 13 að fundurinn sæi enga ástæðu til að áfrýja dómi Héraðsdóms Vesturlands til Hæstaréttar þar sem dómurinn væri skýr og ótvíræður. Formaður félagsins tók að svo búnu fram að samkvæmt lögum félagsins væri stjórnin óbundin af þessari niðurstöðu. Stjórn félagsins ítrekaði síðan á fundi 27. júní 2002 ákvörðun sína um að áfrýja dóminum til Hæstaréttar.

II.

Stefndi reisir kröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti á því að samkvæmt félagssamþykktum beri stjórn félagsins að hlíta ákvörðunum trúnaðarráðs samkvæmt 25. gr. samþykktanna. Ákvörðun trúnaðarráðsins 24. júní 2002 um að áfrýja ekki héraðsdómi sé því bindandi fyrir stjórn áfrýjanda, en málinu hafi ekki verið vísað til félagsfundar. Meirihluti stjórnar hafi því ekki heimild eða umboð til að áfrýja málinu og beri að vísa því frá dómi. Áfrýjandi mótmælir þessu á þeim grunni að trúnaðarráðið hafi ekki haft heimild til að taka bindandi ákvörðun um þetta mál, en stjórnin fari með æðsta vald milli félagsfunda samkvæmt áðurgreindri 16. gr. samþykktanna.

Aðilar deila ekki um að réttilega hafi verið boðað til fundar trúnaðarráðs og að það hafi verið formlega ályktunarhæft. Þá hefur áfrýjandi ekki borið það fyrir sig að stefndi tók virkan þátt fyrst í ákvörðun stjórnarinnar, sem hann var á móti, og síðar í ákvörðun trúnaðarráðsins, enda þótt hann gæti haft verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta um niðurstöðuna.

Í 25. gr. félagssamþykktanna kemur fram að stjórn félagsins og varastjórn, stjórnir deilda þess og varastjórnir mynda trúnaðarráð innan félagsins, sem félagsformaður er formaður fyrir. Hlutverk þess er að kjósa samninganefndir félagsins og tilnefna formann kjörstjórnar þegar fram fara atkvæðagreiðslur sem ekki styðjast við reglugerð Alþýðusambands Íslands um allsherjaratkvæðagreiðslur. Þá er trúnaðarráðinu heimilað með 4/5 hluta atkvæða að breyta ákvörðunum sem hlotið hafa samþykki á löglegum fundi deilda félagsins. Loks segir: „Formaður getur í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarráð stjórninni til aðstoðar, þegar ýmis önnur félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi og ræður úrslitum í slíkum málum einfaldur meirihluti fundar.”

Af ákvæðum 25. gr. félagssamþykktanna verður ekki annað ráðið en trúnaðarráð geti tekið ákvörðun um öll félagsmálefni. Verður ekki séð að máli skipti að það var ekki að frumkvæði stjórnarinnar að málefnið var borið undir trúnaðarráðið. Almennar reglur félagaréttar þykja styðja þessa niðurstöðu, en svo sem áður greinir má við túlkun samþykkta áfrýjanda líta til þeirra reglna. Hins vegar hefði mátt hnekkja niðurstöðu trúnaðarráðsins á félagsfundi eða aðalfundi. Þetta hefur ekki verið gert enda þótt ekki verði annað séð en áfrýjandi hafi haft fullt tilefni og tækifæri til þess að leita þeirrar lausnar fyrir málflutning í Hæstarétti. Að framangreindu athuguðu þykir ekki verða hjá því komist að taka kröfu stefnda um frávísun frá Hæstarétti til greina.

Rétt þykir með vísun til málsatvika að hvor aðili beri sinn kostnað af áfrýjun málsins.

                                                              Dómsorð:

          Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

          Málskostnaður fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 11. júní 2002.

Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 26. nóvember 2001. Það var þingfest 4. desember sama ár. Málið var flutt um frávísunarkröfu stefnda og tekið til úrskurðar um hana 4. apríl sl. Úrskurður var upp kveðinn 8. apríl, þar sem frávísunarkröfunni var hafnað. Aðalmeðferð málins fór fram 23. maí 2002, og var málið tekið til dóms að henni lokinni.

Stefnandi er Vilhjálmur Birgisson, kt. 050865-5339, Lerkigrund 6 Akranesi. Stefnt er Verkalýðsfélagi Akraness, kt. 680269-6889, Kirkjubraut 40 Akranesi.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að veita stefnanda aðgang að öllum bókhaldsgögnum stefnda fyrir árin 1997, 1998 og 1999  á skrifstofu stefnda að viðlögðum dagsektum, kr. 10.000 á dag. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi. Krafist er virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Hann krefst málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

Um málsatvik og málsástæður stefnanda segir í stefnu að stefnandi sé félagi í Verkalýðsfélagi Akraness. Hann hafi  á aðalfundi félagsins þann 29. júní 2000 verið kjörinn meðstjórnandi í aðalstjórn félagsins.

Síðustu ár hafi verulegar deilur verið innan félagsins og ásakanir um slælega ávöxtun fjármuna félagsins og óráðsíu verið bornar fram á hendur stjórn félagsins og þó sérstaklega á hendur formanni þess sem jafnframt sé launaður starfskraftur félagsins.

Við framlagningu reikninga Verkalýðsfélags Akraness fyrir árið 2000 hafi stefnandi  ekki treyst sér til þess að skrifa athugasemdalaust upp á reikninga félagsins. Hafi hann talið, þrátt fyrir takmarkaðan aðgang að bókhaldsgögnum ársins, að nokkur atriði væru ekki í samræmi við eðlilega starfshætti:

1.        Launagreiðslur án stjórnarsamþykktar.

2.        Ekki hafi legið fyrir stjórnarsamþykktir á ýmsum kaupum félagsins sem tengdust

      ekki daglegum rekstri.

3.        Auglýsingatekjur hafi vantað í bókhaldið mörg ár aftur í tímann.

4.        Laun hafi verið greidd til trúnaðarmanns Norðuráls án samþykktar í stjórn félagsins.

5.        Upplýsingar hafi vantað um viðskipti félagsins við sameiginlegt félag verkalýðsfélaganna

      á Akranesi sem nefnist Stéttarfélögin Kirkjubraut 40

Vegna þessa og þar sem grunur hafi verið um mjög óheppilega ávöxtunarstefnu stefnda og slæleg vinnubrögð við innheimtu útistandandi krafna, hafi stefnandi farið þess á leit við skrifstofu félagsins á fá að kynna sér bókhaldsgögn fyrir árin 1997, 1998 og 1999. Þegar því hafi verið hafnað af formanni félagsins, sem starfi einnig á skrifstofu félagsins, hafi stefnandi borið málið undir félagsstjórn á fundi þann 28. ágúst 2001.  Hafi þar verið felld tillaga þess efnis að heimila stefnanda að fá að skoða hreyfingalista bókhalds vegna áranna 1997, 1998 og 1999.

Samkvæmt félagslögum sé aðalstjórn félagsins skipuð þremur mönnum kjörnum á aðalfundi. Auk aðalstjórnar félagsins eigi allir formenn deilda sæti í stjórninni.  Á aðalfundi séu jafnframt kjörnir þrír varamenn stjórnar. Á framangreindum fundi hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslu um tillöguna allir kjörnir aðalmenn, nema formaður sem sat hjá, og þrír formenn deilda. Auk þeirra þrír varamenn. Lögmaður félagsins hafi setið fundinn og talið að stjórn félagsins væri heimilt að hafna kröfu stefnanda og hvatt jafnframt til slíkrar afgreiðslu. Hafi tillagan verið felld með atkvæðum allra varamanna og tveggja stjórnarmanna, en þrír stjórnarmenn hafi greitt atkvæði með tillögunni. Stefnandi hafi áskilið sér allan rétt til að kanna réttarstöðu sína frekar.

Stefnandi hafi síðan leitað til Alþýðusambands Íslands um stuðning við þessa kröfu sína um aðgang að bókhaldsgögnum Verkalýðsfélags Akraness aftur til ársins 1997. Alþýðusambandið hafi ekki talið sig hafa agavald yfir stjórnum einstakra félaga eða stjórnarmönnum.  Þessi umleitan stefnanda hafi hins vegar leitt til þess að Halldór Björnsson f.h. Starfsgreinasambands Íslands hafi boðist til þess að sambandið fengi endurskoðandaskrifstofu sambandsins til að meta athugasemdir stefnanda og yfirfara reikninga ársins 2000 og skrifa greinargerð um málið. Forsenda þess hafi verið að stefnandi gæfi út skriflega yfirlýsingu um að hann sætti sig við þá niðurstöðu sem út úr þeirri athugun kæmi. Stefnandi hafi ekki getað sætt sig við slík málalok, enda verið að óska eftir að fá að kanna bókhaldsgögn fyrri ára.

Stefnandi telur að hann sem aðalstjórnarmaður í stefnda,  Verkalýðsfélagi Akraness, beri skylda til að hafa eftirlit með rekstri skrifstofu félagsins, ráðstöfun fjármuna og ávöxtun sjóða félagsins. Komi það skýrt fram í 16. og 19. gr. laga félagsins. Þessari skyldu fylgi réttur til aðgangs að skjölum félagsins, m.a. bókhaldsgögnum.  Geti hvorki stjórn félagsins né félagsfundur takmarkað þennan rétt.  Hér verði einnig að hafa í huga að um svokallaða skylduaðild sé að ræða að stefnda. Sé því enn brýnna en ella að takmarka ekki rétt einstakra stjórnarmanna að upplýsingum um ráðstöfun og varðveislu þess fjár sem félagsmönnum er skylt að inna af hendi til félagsins. Þá geti engin viðskiptasjónarmið réttlætt slíka takmörkun vegna eðli þeirrar starfsemi sem Verkalýðsfélag Akraness sinnir. 

Þessi réttur til aðgangs að skjölum félagsins geti ekki takmarkast við gögn varðandi starfstímabil viðkomandi stjórnarmanns þar sem nauðsynlegt sé að leita í bókhaldsgögnum fyrri ára að uppruna og réttmæti skulda- og eignaliða sem skráð eru í ársreikning.  Stefnandi vekur athygli  á því að árreikningar félagsins hafi hin síðustu ár ekki verið áritaðir af stjórn félagsins fyrr en nú.

Stefnandi bendir einnig á að verulega sé verið að mismuna stjórnarmönnum í félaginu. Formaður félagsins, Hervar Gunnarsson,  Elín Hanna Kjartansdóttir, aðalstjórnarmaður, og Elínbjörg Magnúsdóttir varaformaður félagsins,  hafi öll greiðan aðgang að öllum gögnum félagsins sem launaðir starfsmenn á skrifstofu félagsins. Í synjun meirihluta aðal- og varastjórnar á því að stefnandi geti nálgast nauðsynlegar upplýsingar til að gegna starfi sínu felist mismunun sem sé andstæð grundvallarreglum lýðræðis og brjóti gegn 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá verði að túlka afgreiðslu stjórnar Verkalýðsfélags Akraness á stjórnarfundi þann 28 ágúst 2001 þannig að meirihluti atkvæðisbærra stjórnarmanna hafi samþykkt heimild til stefnanda um að fá að skoða hreyfingarlista bókhalds vegna áranna 1997, 1998 og 1999. Á stjórnarfundi geti aðeins aðalstjórn og varamenn í þeirra fjarveru greitt atkvæði svo bindandi sé.  Aðalfundur hafi ekki falið varamönnum atkvæðisrétt er þeir sitja stjórnarfundi sem slíkir.

Vegna alls þessa telur stefnandi að verið sé að hindra að hann geti sinnt starfi sínu sem aðalmaður í stjórn stefnda. Til að meta stöðu mála í dag sé þörf á því að kanna bókhaldsgögn nokkur ár aftur í tímann. Þar sem stjórn félagsins hafi synjað stefnanda um þennan rétt sé nauðsynlegt að leita til dómstóla með málið.

Krafist er dagsekta kr. 10.000 á dag til að tryggja að ekki verði dráttur á því að stefndi efni skyldur sínar.

Um lagarök vísar stefnandi  til stuðnings kröfu sinni til laga Verkalýðsfélags Akraness, sérstaklega 16. og 19. gr. og  almennra reglna félagaréttar um skyldur og réttindi stjórnarmanna; svo og til 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sbr. lög nr. 33/1944 og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1194.

Málskostnaðarkröfu sína styður stefnandi með vísan til  XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en kröfu sína um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styður hann með vísan til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Málavöxtum er lýst í löngu máli í greinargerð stefnda. Þar er sagt að reifun stefnanda á málavöxtum sé í nokkurri mótsögn við raunveruleikann og er henni því mótmælt í heild. Af hálfu stefndu er sérstaklega mótmælt þessum atriðum:

Rangt sé að verulegar deilur hafi verið innan stefnda og ásakanir um slælega ávöxtun og óráðsíu hafðar uppi. Hið rétta sé að frá því að stefnandi kaus að kasta stríðshanskanum á haustmánuðum ársins 2000 hafi hann og samverkamenn hans haldið uppi ásökunum og staðið fyrir deilum innan stefnda.

Það sé rangt að skylduaðild sé að stefnda.

Það sé rangt að grunur hafi vaknað um „óheppilega ávöxtunarstefnu félagsins og slæleg vinnubrögð við innheimtu útistandandi krafna“ og að þær „grunsemdir“ hafi verið til umfjöllunar á stjórnarfundi þann 28. ágúst 2001. Bæði þessi álitaefni hafi komið til kasta aðalfundar ársins 2000 og verið leidd til lykta þar.

Í upphafi málavaxtalýsingar stefnda segir að formaður stefnda, Hervar Gunnarsson, hafi verið kjörinn til þess hlutverks í ríflega tólf ár, eða frá árinu 1989. Auk þess að vera formaður hafi hann átt sæti í stjórn Verkamannasambands Íslands sem fulltrúi stefnda. Þessum tveimur hlutverkum hafi formaðurinn sinnt í hlutastarfi á vegum stefnda eða 60% starfshlutfalli, en verið í 40% starfi hjá Alþýðusambandi Íslands. Laun formannsins hafi verið greidd í samsvarandi hlutfalli af þessum aðilum, þ.e. stefnda og Alþýðusambands Íslands. Í því augnamiði að félagsmönnum stefnda væri veitt fullnægjandi þjónusta við gæslu hagsmuna sinna hafi tveir aðrir starfsmenn sinnt störfum fyrir félagið í tveimur stöðugildum, almennur starfsmaður og ritari félagsins, fyrst í hlutastarfi en síðan fullu starfi. Á síðustu árum tuttugustu aldar hafi stefndi orðið fyrir því áfalli að þáverandi starfsmaður félagsins, Guðmundur Magnús Jónsson, hafi veikst af alvarlegum sjúkdómi sem, eftir langvarandi veikindi, hafi leitt til þess að hann lét formlega af störfum í þágu félagsins á miðju ári 1999, en hann hefði þá verið algerlega frá störfum í ríflega átta mánuði. Veikindi þessi hafi leitt til þess að formaður og ritari hafi þurft að axla starfsskyldur starfsmannsins eftir mætti ásamt því að sinna sínum störfum, enda illt við að eiga að fá staðgengil til starfa í forföllum við svo sérhæft starf sem vinna í þágu verkalýðsfélags sé. Eðli máls samkvæmt hafi þjónusta félagsins við félagsmenn sína liðið fyrir þessa stöðu.

Af hálfu stefnda er sagt að mikið hafi mætt á formanni stefnda vegna þess forystuhlutverks sem hann gengdi bæði innan Alþýðusambandsins, sem einn varaforseta sambandsins, og innan Verkamannasambandsins, en hann hafi verið einn stjórnarmanna þess.

Stefnandi hafi verið félagsmaður í stefnda síðan 1989. Hann hafi þó ekki gefið starfsemi félagsins neinn sérstakan gaum fyrr en á árinu 2000. Hann hafi ekki komið til aðalfunda 1997 eða 1998, en verið á aðalfundi 1999. Stefnandi hafi síðan tekið sæti sem meðstjórnarmaður stefnda í kjölfar framhaldsaðalfundar þann 14. september 2000, en til þess hafi hann verið kjörinn fyrr á árinu

Á aðalfundum stefnda árin 1997, 1998, 1999 hafi engar athugasemdir verið gerðar er lutu að færslu bókhalds stefnda, en á þessum aðalfundum hafi ársreikningar félagsins verið lagðir fram áritaðir af félagslega kjörnum endurskoðendum og löggiltum endurskoðanda. Ársreikningar nýliðins árs, sem lagðir hafi verið fram á þessum aðalfundum, sem og ársreikningur ársins 1999, sem borinn hafi verið upp á aðalfundi ársins 2000, hafi allir verið samþykktir á aðalfundunum. Sá síðastnefndi hafi verið samþykktur eftir umræðu um ávöxtun á fé stefnda, umræðu um uppgjör vegna vinnumiðlunar og umræðu um greiðslur launa trúnaðarmanns í starfi hjá Norðuráli hf.

Vegna áfalls þess sem stefndi hafi orðið fyrir vegna veikinda starfsmanns og starfsanna formannsins hafi skapast óánægja með starfsemi stefnda sem formaðurinn hafi verið gerður ábyrgur fyrir. Við þessar aðstæður hafi stefnandi ætlað að seilast til frekari áhrifa og valda í félaginu. Hann hafi því ákveðið að stuðla að framboði samverkamanns síns, Georgs Þorvaldssonar, sem verið hefði formaður sjómannadeildar stefnda, gegn formanninum. Kosningu milli formannsins og Georgs hafi hins vegar lokið með því að formaðurinn hafi verið kosinn til embættis formanns til tveggja ára eða til aðalfundar árið 2002.

Í aðdraganda aðalfundar stefnda 2001 hafi stefnandi m.a. borið á torg að mikilli óráðsíu og óreiðu væri til að dreifa í bókhaldi félagsins og að framlögðum reikningum félagsins, á fyrri hluta aðalfundar þann 29. júní 2000, hafi hann krafist þess að fá aðgang að hreyfingarlistum bókhalds stefnda fyrir árið 1999. Við þeirri beiðni hafi verið orðið. Hafi stefnandi og samverkamaður hans, Georg Þorvaldsson, merkt við nokkra liði í hreyfingarlistunum og óskað nánari útskýringa á þeim. Við þeirri beiðni hafi verið orðið, gögnin tekinn saman og afrituð, en þau hafi ekki verið sótt. Á framhalds-aðalfundi hafi ársreikningarnir síðan verið bornir upp og samþykktir eftir umræðu.

Þá segir í greinargerð stefnda að í stað þess að una þeirri niðurstöðu sem fenginn var með lýðræðislegri kosningu milli Georgs og formannsins þann 8. febrúar 2001, virðist stefnandi hafa mótað sér þá afstöðu að nýta sér aðstöðu sína sem kjörins stjórnarmanns í stjórn stefnda til að vinna formanni félagsins allt til bölvunar.

Frá aðalfundinum árið 2000 hafi stefnanda, eins og öðrum stjórnarmönnum, verið frjáls aðgangur að hreyfingarlistum bókhalds stefnda. Það frelsi hefur stefnandi nýtt sér til hins ýtrasta. Hann hafi sett fram fjölmargar fyrirspurnir og fengið úr þeim leyst, jafnvel þannig að raktar hafi verið bókhaldsfærslur vegna þeirra allt aftur til ársins 1991 jafnframt því sem skýringar hafi verið færðar fram eftir því sem nauðsyn hafi krafið, bæði á stjórnarfundum og á óformlegum fundum með stefnanda. Þessi viðbrögð hafi ekki nægt til að þægja stefnanda, heldur hafi hann tvíeflst í kröfum sínum að því er virðist nánast í þeim tilgangi að láta neita sér. Svo hafi enda farið þegar stefnandi hafi gert kröfu til óheftrar skoðunar óskilgreint í óafmörkuðum tilgangi að bókhaldi fyrri ára.

Ársreikningar, á þeim bókhaldsgögnum byggðir, hafi allir verið endurskoðaðir af félagslega kjörnum endurskoðendum stefnda og löggiltum endurskoðanda og bornir upp og samþykktir af aðalfundum félagsins. Þar sem mikill tími og starfsorka starfsmanna félagsins hafi þá þegar verið farnir í að sinna fyrirspurnum stefnanda og ekki mátt sjá að stefnandi gæti á nokkurn hátt haft lögvarða hagsmuni af svo víðtækri skoðun, hafi það orðið niðurstaða félagsins að hafna kröfu hans um þennan aðgang. Að auki hafi þótt næsta ljóst að það að veita honum þennan aðgang myndi ekki leysa neinn vanda,  enda hafi stefnandi, að því er stefnda virtist, verið ráðinn í því að koma höggi á formann félagsins og grafa undan störfum hans, með hverjum þeim ráðum sem honum þóknaðist hverju sinni.

Í viðleitni sinni til að koma höggi á formanninn hafi stefnandi leitað fulltingis Alþýðusambands Íslands og Starfsgreinasambands Íslands. Í þeim tilgangi að bera klæði á vopnin hafi formaður Starfsgreinasambandsins boðið að félagið myndi beita sér fyrir lausn á deilu stefnanda. Úr varð að Starfsgreinasambandið lagði til að sambandið léti löggilta endurskoðendur sína fara yfir athugasemdir stefnanda, yfirfara reikninga stefnda vegna ársins 2000 og gera skriflega greinargerð um málið. Stefndi hafi fallist á þessa leið, þ.e. að utanaðkomandi aðilar yrði fengnir til að fara yfir bókhald félagssjóðs stefnda vegna ársins 2000, og sérstaklega hafi verið bókað að ef sá aðili teldi nauðsynlegt að skoða bókhald fyrri ára mundi stjórn stefnda taka afstöðu til þess í ljósi þess álits. Löggiltur endurskoðandi stefnda hafi fyrir sitt leyti fallist á þessa tillögu, þótt harla óvenjuleg væri, þ.e. að löggiltir endurskoðendur yfirfæru með þessum hætti verk löggilts endurskoðanda. Þessi afskipti Starfsgreinasambandsins hafi verið háð því skilyrði að stefnandi sætti sig við niðurstöðu þessarar löggiltu endurskoðunar á reikningum stefnda vegna ársins 2000. Þessu hafnaði stefnandi þrátt fyrir að hafa haldið hinu öndverða fram.. Ekkert hafi orðið af því að mál þetta yrði leyst með milligöngu Starfsgreinasambandsins.

Þessu næst er í greinargerð stefnda lýst í alllöngu máli störfum aðalfundar stefnda 2001.Hann hafi verið haldinn 4. desember og framhaldsfundur 13. sama mán. Reikningar félagsins fyrir árið 2000 hafi verið þar samþykktir af yfirgnæfandi meirihluta fundarmanna. Er sýnilegt af lýsingu stefnda að átök hafa orðið á aðalfundinum milli formanns stefnda og fylgismanna hans annars vegar og stefnanda og stuðningsmanna hans hins vegar. Segir í greinargerð stefnda að stefnandi hafi á fundinum lagt fram tillögu til ályktunar um óánægju fundarins með vinnubrögð stjórnar stefnda er lutu að ýmsum atriðum sem stefnandi hafði gagnrýnt og yfirlýsingu um vantraust af þessum sökum og „þeirra ólýðræðislegu vinnubragða sem beitt hefur verið til að til að hindra að einstaka stjórnarmenn geti nálgast upplýsingar úr bókhaldsgögnum félagsins“. Var tillaga þessi samþykkt eftir að frávísunartillaga hafði verið felld með jöfnum atkvæðum.

Málsástæður stefnda fyrir sýknukröfunni eru þessar:

Stefndi sé frjálst félag sem hverjum þeim sem fullnægir inngönguskilyrðum þeim sem félagið sjálft hefur sett sér, í 4. gr. laga sinna, sé frjálst að eiga aðild að. Engum sé skylt að eiga aðild að því en öllum sé það frjálst, sbr. t.d. 6. gr. laganna. Þeir sem síðan kjósa það að óska inngöngu í stefnda, njóti réttinda og beri skyldur í samræmi við félagslög stefnda, sbr. t.d. 7. og 8. gr. félagslaganna. Stefndi ræður málum sínum þannig sjálft og setji sér sín eigin lög, sbr. 36. gr. félagslaganna.

Málsókn stefnanda byggist á því að stefndi sé félag sem honum sé skylt að eiga aðild að. Þessi málatilbúnaður stefnanda sé í grundvallaratriðum rangur eins og ráða megi af nefndum ákvæðum félagslaga stefnanda. Stefnandi virðist þannig vera haldinn grundvallarmisskilningi um eðli stefnda.  Stefnanda sé það algerlega frjálst að segja sig úr stefnda, líki honum ekki störf stefnda og þær ákvarðanir sem stefndi hefur tekið á liðnum árum, bæði á grundvelli samþykkta á stjórnarfundum sem og á aðalfundum. Málatilbúnaður stefnanda sé þannig allur á röngum grunni reistur sem leiði til sýknu þegar af þeirri ástæðu.

Að íslenskum rétti hvíli engar skyldur, og þá síst lögbundnar, á frjálsum félögum að leggja fram bókhald sitt eða heimila skoðun á því hverjum þeim sem þess krefst. Þessum málefnum ráði félagið sjálft, að sjálfsögðu að teknu tilliti til þeirra skuldbindinga sem það hefur undirgengist með aðild að samtökum eins og Starfsgreinasambandinu og Alþýðusambandi Íslands. Ekkert í lögum eða reglum þessara sambanda kveði á um skyldu stefnda til að veita stefnanda viðlíka aðgang að bókhaldi sínu eins og hann krefst í máli þessu. Stefnanda hafi gefist kostur á að fá úr því leyst hvort ákvörðun stjórnar stefnda hafi verið í samræmi við vilja félagsmanna. Það tækifæri hafi stefnanda gefist á aðalfundi ársins 2001, en á þeim vettvangi sé einmitt farið yfir verk stjórnar á liðnu ári og stefna félagsins til framtíðar mótuð, allt í samræmi við félagslög stefnda og þær reglur sem stefndi hefur undirgengist með aðild að nefndum samböndum. Stefnandi hafi enga slíka tillögu borið fram þar

Af hálfu stefnda er því haldið fram að sú venja hafi skapast innan stjórnar stefnda í áranna rás, í krafti sjálfsákvörðunarréttar stefnda sem frjáls félags, að allir stjórnarmenn, aðal- og varamenn og formenn deilda stefnda taki þátt í starfi stjórnar og hafi þar jafnan tillögurétt, málfrelsi og atkvæðisrétt enda allir kjörnir lýðræðislega til forystu fyrir stefnda. Það að þessari mótuðu venju hafi verið fylgt á stjórnarfundi stefnda þann 28. ágúst 2001 leiði fráleitt til ógildis atkvæðagreiðslunnar sem fram fór á fundinum og enn síður til þess að leggja eigi til grundvallar að tillaga stefnanda hafi verið samþykkt á fundinum. Málsástæða stefnanda sem á þessu er byggð sé þar að auki í brýnni mótsögn við dómkröfu máls þessa sem og hans eigin yfirlýsingar.

Því er alveg sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu komi til skoðunar í máli þessu. Stefnandi hafi engar þær skyldur til aðildar að stefnda sem þrengi að mannréttindum hans, heldur þvert á móti hafi hann fullt frelsi til að segja sig úr stefnda. Í annan stað þrengi reglur stefnda í engu að mannréttindum hans, enda eigi hann frjálst val um það hvort hann á aðild að stefnda. Með því hins vegar að kjósa það að eiga aðild að stefnda skuldbindi hann sig til, af fúsum og frjálsum vilja, til að hlíta reglum stefnda. Það að reglur stefnda þrengi í einhverju að stefnanda sé þannig ekki mannréttindabrot. Nefndar réttarheimildir eigi þar að auki á engan hátt við um starfsemi stefnda. Þá er því mótmælt að aðstöðumunur sé milli stefnanda og starfsmanna stefnda, sem eiga aðild að stjórn stefnda. Nefndir stjórnarmenn hafi engar heimildir umfram stefnanda til að fá upp tekinn málefni sem liðnir aðalfundir hafa samþykkt. Stefnanda hafa síðan staðið ýmsar leiðir opnar til að komast í þá aðstöðu sem nefndir stjórnarmenn eru í. Hann hefði í fyrsta lagi getað borið upp tillögu á aðalfundi stefnda þann 4. eða 13. desember 2001, um að honum yrði veittur aðgangur, og eins hefði hann getað borið upp tillögu á aðalfundi um að hann sjálfur yrði ráðinn starfsmaður á skrifstofu stefnda. Nefndir stjórnarmenn séu þannig á engan hátt í aðstöðu til að hindra stefnanda í að gera það sem hugur hans stæði til hverju sinni, að því gefnu að hann nyti kjörfylgis meðal félagsmanna stefnda til þeirra verka. Lýðræðið sé virkt innan stefnda. Á slíkt hafi stefnandi kosið að láta ekki  reyna.

Með framlagningu ársreikninga á aðalfundum og samþykki þeirra þar, eftir tvöfalda endurskoðun, sé öllum skyldum er lúta að viðkomandi reikningsári fullnægt í samræmi við lög stefnda. Hvorki stefnandi né nokkur annar hafi eftir slíkt samþykki lögvarða hagsmuni af því að rannsaka bókhald stefnda fyrir liðin ár. Ábyrgð stefnanda og skyldur hans sem stjórnarmanns séu að sjálfsögðu bundnar við það sem honum er falið að sýsla við, þ.e. rekstur félagsins á kjörtímabili hans. Tímabil þetta er í tilfelli stefnanda frá 14. september 2000 til aðalfundar ársins 2002. Ekkert í lögum stefnda veiti stefnanda heimild til að kanna óskilgreint eldri málefni félagsins, þar með talið bókhald þess. Stefnandi beri engar slíkar skyldur, hvorki í samræmi við 16. né 19. gr. félagslaganna, sem hann þó vitnar til. Ársreikningar áranna 1997, 1998 og 1999 og þar með bókhald þeirra ára, hafi allir verið bornir upp á aðalfundum í stefnda og hlotið þar náð fyrir augum félagsmanna sem hafi samþykkt þá. Stefnandi beri enga ábyrgð á þeim ársreikningum eða bókhaldi þeirra ára.

Vegna staðhæfinga stefnanda um nauðsyn þess að geta leitað í eldri gögnum að uppruna og réttmæti einstakra skulda- og eignaliða áréttar stefndi að dómkrafa stefnanda lýtur ekki að slíkum aðgangi. Stefnanda hafi enda haft slíkan aðgang. Hann hafi haft undir höndum hreyfingarlista bókhalds stefnanda vegna ársins 2000 og verið veittur sams konar aðgangur að hreyfingarlista ársins 1999. Stefnandi hafi innt eftir afmörkuðum atriðum sem fram koma í nefndum listum og hafi verið leyst úr öllum slíkum fyrirspurnum stefnanda. Honum hafi því á engan hátt verið torveldað starf hans sem stjórnarmanns eða hann hindraður í að hafa eftirlit með fjárreiðum stefnda. Stefnandi hafi margoft verið inntur eftir því að hverju hann sé að leita, en hann hafi í engu svarað því nema með því að endurtaka í sífellu sömu ávirðingarnar, hinar sömu og úr hafi verið leyst að mestu á fyrri aðalfundum, svo sem vegna meintrar slælegrar ávöxtunar sjóða félagsins. Skipti skýringar sem veittar hafa verið stefnanda engu né sú staðreynd að hvorki stefnandi né stefndi eru þess umkomnir að breyta því sem liðið er.

Þá segir í greinargerðinni að ástæður þess að stefndi synjaði fyrir kröfu stefnanda, sem hann setti fram í ágúst 2001, séu raktar í málavaxtalýsingu hér að framan. Stefnandi haldi uppi umfangsmiklu andófi innan stjórnar stefnda. Hann sé þar nánast sem stjórnarandstæðingur eftir að samverkamaður hans laut í lægra haldi í formannskosningum og sem slíkur leggi hann alla þá steina í götu félagsins sem honum eru tækir. Varði það hann öngvu í þeim efnum hvort verið sé, til dæmis, að ræða úrlausn á húsnæðisvanda félagsins eða hvort stefndi eigi að standa fyrir skemmtiferð fyrir aldraða félagsmenn. Stefnandi leggist gegn flestum tillögum sem upp séu bornar innan stjórnar stefnda. Virðist honum ganga það helst til að gera félagsstjórnina óstarfhæfa og sýna þannig fram á meint vanhæfi formanns stefnda, sem og annarra starfsmanna félagsins. Af þessum meiði sé dómkrafa stefnanda, að fá óheftan aðgang að bókhaldi félagsins til að leita þar lúsa að einhverjum tilefnum til að ala á úlfúð og sundrungu innan stefnda. Á meðan starfsorka starfsmanna stefnda, þar með talið formannsins, fari öll í að bera blak af sér vegna meintra ávirðinga vinni stefndi félagsmönnum sínum lítið gagn í þeim verkum sem þó er tilgangur félagsins að sinna; að efla og styðja hag og menningu alþýðunnar með því að vinna að sjálfsbjargarviðleitni almennings, ákveða vinnutíma og kaupgjald, sbr. 2. gr. laga félagsins, sbr. dskj. nr. 5. Því sé krafist sýknu.

Um lagarök segir í greinargerð stefnda,að hann styðji málsvörn sína við meginreglur félagaréttar um frjáls félagasamtök og laga nr. 80/1938 um starfsemi stefnda. Jafnframt er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfu um málskostnað, auk laga nr. 1987 um virðisaukaskatt; stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dæmt álag á málskostnað er nemur skatti þessum.

Skýrslur fyrir dómi. Aðilaskýrslur gáfu stefnandi og Hervar Gunnarsson, formaður og starfsmaður stefnda. Vitni báru Georg Þorvaldsson fyrrv. stjórnarmaður stefnda, Elínbjörg Bára Magnúsdóttir varaformaður og starfsmaður stefnda, Elín Hanna Kjartansdóttir ritari og starfsmaður stefnda, Jón Þór Hallson löggiltur endurskoðandi og Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður.

Stefnandi sagði í skýrslu sinni að rétt gæti verið það sem segir í greinargerð stefnda, að hann hefði verið félagi í stefnda frá 1989. Hann kvaðst hafa hafið afskipi af félagsmálum stefnda árið 1998, þá sem starfsmaður Spalar ehf. Af hálfu stefnda hefði verið gerður kjarasamningur fyrir starfsmenn Spalar, sem þeir hefðu verið mjög óánægðir með. Þeir hefðu gert alvarlegar athugasemdir við formann stefnda vegna samningsuppkasts, en samt hefði það verið gert að samningi. Í kjölfar þessa sagðist stefnandi hafa verið kjörinn í trúnaðarráð stefnda. Hann kvaðst hafa náð fram verulegum kauphækkunum með því að berjast fyrir leiðréttingum á kjarasamningi í heilt ár. Hann hefði síðan verið kjörinn í stjórn stefnda árið 2000.

Stefnandi sagði að aðalfundi stefnda, sem hafinn var 29. júní 2000, hefði verið frestað vegna þess að hann hefði tekið eftir því að reikningar félagsins hefðu ekki verið fram lagðir eins og lög félagsins kvæðu á um, þ.e. með 7 daga fyrirvara. Honum hefðu fundist vinnubrögð að þessu leyti fyrir neðan allar hellur. Að loknum fundi 29. júní hefði hann borið ársreikninga undir hagfræðing og í beinu framhaldi farið til endurskoðanda stefnda, Jóns Þórs Hallssonar, og spurt hann hvort um mistök væri að ræða og vísað til þess að á sextándu milljón króna hefði legið inni á reikningi með 0,75% ávöxtun. Þarna hefði hann gert sér grein fyrir að ekki væri allt sem vera ætti.

Stefnandi og Georg Þorvaldsson, þá stjórnarmaður stefnda, hefðu óskað eftir því að fá að skoða vegna ársins 1999. Georg hefði lagt þetta fyrir stjórnina. Þeir hefðu fengið að skoða þessa lista, ekki alla þó. Þeir hafi gert athugasemdir við fjölmörg atriði og beðið um viðkomandi fylgiskjöl. Þau hefði hann ekki enn fengið að sjá þrátt fyrir ítrekaðar óskir. Þeir Georg hefðu 5-6 sinnum farið á skrifstofu stefnda og óskað eftir að fá þessi gögn, því að þeim hefði verið lofað að þau yrðu tekin til. Síðast hefðu þeir farið upp til endurskoðanda félagsins [Skrifstofa endurskoðunarskrifstofu Jóns Þórs Hallssonar er í sama húsi og skrifstofa stefnda. Innskot dómara], hann hefði hringt niður á skrifstofu stefnda og spurt hverju það sætti að þeir fengju ekki aðgang að fylgiskjölunum. Þá hefði því verið svarað að þau yrðu klár daginn eftir kl. tvö. Þá hefði hann komið á skrifstofu stefnda, en skjölin hefðu ekki við tilbúin. Þá kvaðst stefnandi hafa séð það vel að hann ætti ekki að fá að sjá þessi skjöl. Hvorki hann né Georg hefði fengið að sjá þau.

Ársreikningar 2000 eru fyrstu reikningar stefnda sem stefnandi kemur að sem stjórnarmaður. Hann kvaðst strax hafa beðið um bókhaldsgögn vegna þeirra þegar þeir komu frá endurskoðanda. Hann sagði að hann og tveir aðrir stjórnarmenn, Jóna Adolfsdóttir og Sonja Jónsdóttir, hefðu fengið hreyfingarlista og gert athugasemdir við um 50 atriði. Viðkomandi fylgiskjöl hefðu verið gerð klár og sýnd þeim þremur. Formaður hefði á fundi látið þau hafa útskýringar á þeim þessum 50 atriðum án þess að leggja fram ljósrit af fylgiskjölunum. Nánar um þetta spurður sagði stefnandi að formaðurinn hefði verið með fylgiskjölinn inni á skrifstofu og verið að fletta þeim fyrir sig (stefnanda). ,,Ég hef aldrei fengið að fletta þeim einn og sér.”

Stefnandi var spurður hvaða þættir það væru í ársreikningum 2000 sem kölluðu á frekari athugun eldri bókhaldsgagna. Hann svaraði að það væri fyrst og fremst áritun löggilts endurskoðanda á reikningana og vísaði þar einkum til tvenns, annars vegar þessarar athugasemdar: ,,Ófrágengið er uppgjör á sameiginlegum kostnaði vegna reksturs vinnumiðlunar o. fl. 1991 – 1998. Unnið er að uppgjöri og endurskoðun á bókhaldi reksturs vinnumiðlunarinnar. Ágreiningur er á milli samrekstraraðila um tiltekin atriði í rekstrinum, en ekki er hægt að taka afstöðu til þeirra mála fyrr en að aflokinni uppgjörs- og endurskoðunarvinnunni.” Hins vegar vísaði stefnandi til svofelldrar athugasemdar endurskoðanda: ,,Ársreikningarnir eru lagðir fram af stjórn félagsins og á ábyrgð hennar í samræmi við lög og reglur. Ábyrgð okkar felst í því áliti sem við látum í ljós á ársreikningunum á grundvelli endurskoðunarinnar.” Stefnandi kvaðst ekki hafa treyst sér til að bera ábyrgð á þessum reikningum. Hann hefur áritað þá með ítarlegum athugasemdum, sem hann staðfesti. Hann sagði að í rekstri vinnumiðlunarinnar væri um umtalsverða fjármuni að ræða. Kröfur sem stefndi ætti á samrekstaraðila væru fyrndar. Um væri að ræða milljónir króna.

Stefnandi sagði að aldrei fyrr en árið 2000 hefði verið gerðar athugasemdir við ársreikninga stefnda. Þetta sýndi að eftirlit stjórnarmanns væri farið að hafa áhrif.

Stefnandi kannaðist við, aðspurður, að hafa verið kosinn í þriggja manna nefnd, sem átt hefði að endurskoða rekstur stefnda, þ. á m. starfsmannahald. Hann kannaðist við að hafa ekki verið tilbúinn til starfa í nefndinni og gaf á því skýringar, sem dómara þykir of langt mál að rekja.

Stefnandi var spurður hvort hann hefði séð færslu bókhalds vegna rekstrar vinnumiðlunar. Hann kvað nei við, það væri ekki búið að færa bókhaldið. Hann var þá spurður hvort hann hefði séð fylgiskjöl og önnur gögn vegna þessa rekstrar. Stefnandi svaraði að það væri verið að tína úr bókhaldi stefnda yfir í ,,þetta apparat”. Hann kvaðst ekkert hafa séð um þetta, þó reyndar það sem endurskoðandinn hefði verið að reyna að útskýra.

Stefnandi upplýsti að starfsmenn stefnda væru þrír, formaður félagsins Hervar Gunnarsson, varaformaður Elínbjörg Magnúsdóttir og ritari stefnda Elín Hanna Kjartansdóttir.

Þá var stefnandi spurður að því hvers vegna hann hefði ekki á framhaldsaðalfundi árið 2001 borið fram tillögu um að hann fengi aðgang að bókhaldsgögnunum, sem fellt var í stjórn að hann fengi. ,,Ég tel mig hafa gert það,” sagði stefnandi og vísaði til vantrauststillögu á stjórnina, sem samþykkt var á þessum fundi, þar lýst er yfir vantrausti á meirihluta stjórnar félagsins m.a. vegna ,,þeirra ólýðræðislegu vinnubragða sem beitt hefur verið til að hindra að einstaka [svo] stjórnarmenn geti nálgast upplýsingar úr bókhaldsgögnum félagsins.”

Stefnandi hélt því fram í skýrslu sinni að stefndi hefði þegar haft ávinning af starfi hans. Stefndi væri nú kominn með alla sína fjármuni á verðtryggða reikninga í Búnaðarbanka Íslands. Að öllum líkindum væru þeir enn á fyrri lágu vöxtunum, ,,ef ég hefði ekki verið að vinna þá vinnu sem ég hef verið að vinna.” Það sem hann vildi fá að rannsaka væri það hvort meira hefði verið um slíka vanrækslu.  Þá sagðist stefnandi hafa gert allt sem hann hefði getað til að mál þetta færi ekki fyrir dóm. Endurskoðandi stefnda hefði tekið vel í það að þeir tveir settust yfir bókhaldið. Hann teldi það bara betra að hafa endurskoðandann við hlið sér sem sína hægri hönd við skoðun bókhaldsgagna.

Stefnandi nefndi að við fyrirtekt máls þessa fyrir dómi 7. mars sl. hefði komið fram sáttatillaga um afhendingu bókhaldsgagna fyrir 1999. Hann kvaðst 5 sinnum hafa haft samband við skrifstofu stefnda út af þess, tvisvar rætt þetta við formann stefnda og tvisvar rætt það á stjórnarfundi að hann fengi þessi gögn, af því að menn hefðu haldið því fram að þau hefðu verið tekin til og legið ósótt á skrifstofu stefnda. Hann væri ekki farinn að sjá þau enn. Hann kannaðist þó við að borið hefði verið við töfum vegna veikinda formannsins, en síðan væru margar vikur.

Hervar Gunnarsson formaður og starfsmaður stefnda kvaðst hafa gengið í stefnda 1967, og formaður hefði hann verið kosinn haustið 1988.

Formaðurinn sagði að lýst hefði verið kjöri stefnanda í stjórn stefnda í september 2000. Uppstillinganefnd stefnda hefði lagt til annan mann, en stjórn verkamannadeildar félagsins lagt til að stefnandi yrði kjörinn. Stefnandi hefði verið kjörinn fyrir tillögu stjórnar og trúnaðarráðs.

 Hann staðfesti frásögn stefnanda af kjarasamningum fyrir starfsmenn Spalar 1998, þar hefði í aðalatriðum verið skýrt rétt frá. Þó hefði það ekki komið fram að legið hefði fyrir að Spölur ehf. réði ekki til sín starfsmenn fyrr en kjarasamningar væru frágengnir.

Formaðurinn sagði það rétt að reikningar stefnda hefðu ekki legið tilbúnir á skrifstofu stefnda fyrir aðalfund 29. júní 2000. Hins vegar hefðu öll gögn varðandi ársreikninga og handrit þeirra legið tilbúin á skrifstofu endurskoðanda í sama húsi og stefnda hefði skrifstofu í. Það hefðu verið fyrirmæli frá endurskoðanda að fólki yrði vísað til hans ef það óskaði eftir að skoða reikningana. Hann minntist þess ekki að slíkar óskir hefðu komið fram. Nánar spurður kvaðst hann ekki telja þetta eðlilega aðferð.

Aðilinn Hervar kvaðst ekki fyrr en nú fyrir dómi hafa heyrt þá útfærslu á frásögn stefnanda um tilraun hans og Georgs Þorvaldssonar til að skoða fylgigögn með hreyfingalistum ársreikninga 1999 (um að þeir hefðu komið 5-6 sinnum á skrifstofu stefnda í erindisleysu). Þetta hefði verið á þeim tíma þegar hann var í 40% starfi hjá Alþýðusambandi Íslands (A.S.Í) og í ólaunuðu starfi hjá Verkamannasambandi Íslands (V.M.S.Í.). Hann hefði þá verið lítið á skrifstofu stefnda. Stefnandi og Georg hefðu farið yfir hreyfingalista nefndra ársreikninga og merkt við atriði sem þeir vildu fá skýringar á. Ljósrit af fylgigögnum hefðu verið tekin, það hefði hann gert að hluta en Elín Hanna Kjartansdóttir að hluta.  Þau hefðu verið tilbúin fyrir framhaldsaðalfund 2000 og legið á skrifstofu stefnda til skoðunar fyrir þá, eftir því sem hann best vissi.  Hann hefði komist að því síðar að þau hefðu aldrei verið sótt.

Hervar kannaðist við óskir um fylgigögn með hreyfingarlistum fyrir árið 2000. Þau gögn sagði hann að hefðu verið tekin saman og skrifuð með þeim skýringar, sem lagðar hefðu verið fyrir stjórn stefnda. Fylgiskjölin hefðu verið ljósrituð og sett í sérstaka möppu. Þeim þremur stjórnarmönnum, sem óskað hefðu útskýringa, hefði verið gefið tækifæri til fletta þeirri möppu. Haft hefði verið samband við þá og þeim boðið að koma til að fara yfir gögnin. Stefnandi hefði einn komið. Hinir hefðu sagt að þeim væri nóg að heyra skýringar formanns á stjórnarfundi. Nánar spurður sagði Hervar að stefnandi hefði fengið þessi gögn í hendur á skrifstofu stefnda, fengið að skoða þau í sérstöku herbergi. Skoðun hans hefði leitt til athugasemda. Hann kvaðst sérstaklega minnast athugasemdar um að vantaði frumrit reiknings vegna kaupa á síma.

Aðilinn sagði að sér vitanlega væri það ekki rétt að stefnandi hefði haft takmarkaðan aðgang að bókhaldi ársins 2000.

Formaður stefnda var spurður um þá 5 liði sem fram kemur í stefnu að stefnandi telur að ekki séu í samræmi við eðlilega starfshætti. Hann sagði að yfir þessi atriði hefði margoft verið farið í stjórn stefnda og stefnanda gerð grein fyrir þeim. Varðandi það atriði að í ársreikningi 1999 komi fram að formanni hafi það ár verið greitt orlof fyrir árin 1995, 1996 og 1999 sagði hann að fyrir þessu væri ekki stjórnarsamþykkt, enda ekki venja að bera slíkt undir stjórn.

Þá sagði formaðurinn að um ávöxtun sjóða stefnda hefði verið fjallað áður en stefnandi fór að beita sér í því máli. Reglulega hefði verið farið yfir ávöxtun og reglulega óskað tilboða þáverandi viðskiptabanka félagsins. Tékkareikningar sem stefndi hefði haft fé sitt á hefðu verið á sérkjörum, með rösklega 7% ávöxtun, að því þó undanskildu að í lok ársins 1998 og árið 1999 hefði átt sér stað slys varðandi einn reikning í Landsbanka íslands, sem leitt hefði til þess að safnast hefði peningar inn á þann reikning, sem borið hefði mjög lélega vexti. Landsbankinn hefði leiðrétt vexti þessa reiknings vegna áranna 1999 og 2000, en ekki 1998.

Formaðurinn sagði að ávöxtunarstefna stefnda hefði ávallt falist í því að geyma fé á bankareikningum.

Aðilinn sagði að stefnanda hefði ekki, svo að honum væri kunnugt um, verið neitað um svör við afmörkuðum fyrirspurnum um bókhald stefna. Úr þeim hefð alltaf verið leyst.

Þá sagði Hervar Gunnarsson að rétt væri það sem fram hefði komið hjá stefnanda, að hann hefði haft samband við Jón Þór endurskoðanda og beðið hann að bera formanni stefnda þau boð að hann vildi leysa þetta mál með því að setjast yfir bókhaldsgögn með endurskoðandanum. Það hefði hins vegar ekki verið í verkahring formannsins að samþykka þessa lausn. Hann hefði rætt þetta við aðra stjórnarmenn og þeir hefðu talið að ekki væri ástæða til að gera þetta í ljósi þess, að skömmu áður hefði stjórnin samþykkt að þiggja boð Starfsgreinasambandsins um milligöngu til sátta á þann veg að endurskoðandi sambandsins færi yfir bókhald ársins 2000. Þessu hefði fylgt af hálfu stjórnar að hún tæki afstöðu til þess þegar fyrir lægi, ef fram kæmu óskir endurskoðanda Starfsgreinasambandsins um að fara yfir bókhald fyrri ára. Þegar hugmynd stefnanda um lausn máls hefði komið fram, hefði ekki legið fyrir hvort þessi leið með aðstoð Starfsgreinasambandsins yrði farin. Formaðurinn bætti við að stefnandi hefði margminnt á að hann hefði boðið þessa lausn að hann færi yfir bókhaldsgögn með endurskoðanda stefnda.

Hervar Gunnarsson sagði að hann og stefnandi hefðu í nóvember 2000 verið kosnir í þriggja manna nefnd til endurskoða fjárhagsmálefni stefnda. Hann hefði talið að nauðsynlegt væri að allir þrír nefndarmenn störfuðu í henni. Stefnandi hefði beðist undan störfum af ýmsum ástæðum.

Formaður stefnda sagði að hann eða stjórn stefnda hefði ekkert að fela í bókhaldi stefnda. Hann var þá spurður hvers vegna stefnanda hefði ekki verið veittur sá aðgangur að því sem hann hefði farið fram á. Hann svaraði að leyst hefði verið úr afmörkuðum fyrirspurnum, en samkvæmt útskýringum og leiðbeiningum sem stjórn félagsins hefði fengið frá lögmanni stefnda, þyrfti félagið ekki að verða við kröfu um óheftan aðgang að bókhaldsgögnum. Nánar spurður um þetta sagði hann að sér vitanlega hefði ekki annað legið að baki samþykkt stjórnar um þetta en ráðgjöf lögmannsins.

Formaðurinn sagðist ekki hafa skilið vantraustssamþykkt á framhaldsaðalfundi 2001 þannig, að í henni fælist samþykkt um að orðið yrði við kröfu stefnanda um aðgang að bókhaldsgögnum.

Þá kom fram hjá formanninum að eldri ársreikningar en fyrir árið 2000 hefðu ekki verið áritaðir af stjórn, einfaldlega af því að það hefði aldrei verið gert með þeim hætti. Ástæðan fyrir því að það hefði verið gert 2001 hefði verið sú að ábending hefði komið frá endurskoðanda um að það væri eðlilegt. Ársreikningar hefðu verið lagðir fyrir stjórn til umræðu og samþykktar, þó ekki allir.

Formaður stefnda staðfesti, aðspurður, að á félagsfundi stefnda 4. apríl sl. hefði verið gerð sú breyting á ákvæðum laga stefnda um stjórn stefnda og stjórnir deilda félagsins, að varamenn skyldu hafa þar full réttindi. Nánar spurður sagði hann að þetta hefði verið til áréttingar á viðtekinni venju bæði innan stjórnar og stjórna deilda.

Georg Þorvaldsson kvaðst hafa verið kosinn í aðalstjórn stefnda um áramótin 1997/98, tekið sæti í stjórninni í október 1998. Hann hefði lokið stjórnarsetu á aðalfundi sjómannadeildar 27. desember 2000. Vitnið sagði að mikil óánægja hefði verið með störf aðalstjórnar þegar hann kom inn í hana. Það hefði verið út af því að félaginu hefði verið boðin ferð á vegum Norðuráls út til Þýskalands, og formaður verkamannadeildar hefði talið að hann hefði átt að fara og verið kosinn til þess, en formaður félagsins hefði ekki verið sáttur við það. Kosið hefði verið um það hver færi, að því að vitnið minnti þrisvar sinnum, eða þangað til að ,,rétt niðurstaða fékkst”.

Vitnið kvaðst ekki vera í stjórn félagsins nú, hefði þurft að segja af sér stjórnarstörum þegar hann bauð sig fram til formanns í félaginu 2001. Sú kosning hefði farið þannig að Hervar Gunnarsson hefði sigrað með 23ja atkvæða mun í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Vitnið kvaðst fyrst hafa kynnst stefnanda eftir trúnaðarráðsfund í stefnda þar sem samþykktur hefði verið samningur fyrir starfsmenn við Hvalfjarðargöng. Þegar hann hefði komið út af fundinum hefði stefnandi staðið þar fyrir utan og spurt hvort menn hefðu samþykkt samninginn: Hann hefði játað því og stefnandi þá spurt af hverju. Vitnið kvaðst hafa svarað að trúnaðarráði hefði verið sagt að þetta væri góður samningur, en stefnandi hefði þá andmælt því og sagt að þetta væri lélegur samningur. Stefnandi hefði síðan fengið þessum samningi breytt fyrir sig og sitt fólk.

Vitnið sagði að ársreikningur stefnda hefði ekki verið lagður fyrir stjórn til samþykktar þau ár sem hann var í stjórn. Hann hefði aldrei fengið að sjá ársreikninga. Þeir hefðu ekki verið lagðir fyrir eða undirritaðir.

Vitnið Georg kannaðist við að hafa ásamt stefnanda óskað eftir því að fá að sjá fylgiskjöl með ársreikningum fyrir árið 1999. Þeir hefðu ekki fengið að sjá nein fylgiskjöl, einungis hreyfingarlista. Hann hefði gengið á milli endurskoðanda félagsins og skrifstofu þess og beðið um að fá að sjá t.d. Visa-reikninga, en hann hefði aldrei fengið að sjá þá. Hann hefði gengið eftir þessu, farið nokkrum sinnum á skrifstofuna.

Georg sagði aðspurður að sér væri kunnugt um að hjá öðru verkalýðsfélögum í sama húsi og stefndi er til húsa, Félagi málmiðnaðarmanna, væri opinn aðgangur að öllum bókhaldsgögnum, sem ekki væru persónubundin, t.d. vegna sjúkrasjóðs.

Vitnið Georg kvaðst vera ósáttur við að því væri haldið fram að stefnandi hefði haft sig út í framboð á móti formanni stefnda. Hann hefði ekki þekkt stefnanda neitt áður. Hann hefði staðið að því að leggja til að stefnandi yrði kosinn bæði í trúnaðamannaráð og í stjórn. Sér hefði fundist að maður sem hefði staðið sig svona vel í samningum fyrir starfsmenn Spalar ætti að vera í stjórn félagsins.

Elínbjörg Bára Magnúsdóttir er varaformaður stefnda. Hún var kjörin í stjórnina fyrir tæpum fjórum árum. Hún kannaðist við að hafa verið á stjórnarfundi stefnda 28. ágúst 2001, þegar tekin var fyrir tillaga stefnanda um aðgang hans að bókhaldsgöngum stefnda. Hún hefði greitt atkvæði á móti tillögunni. Undir vitnið var borið það sem í fundargerð fundarins er skráð um afstöðu hennar, þ.e. greinargerð hennar fyrir atkvæði hennar, og staðfesti hún hana.

Í fundargerð stjórnarfundarins er m.a. haft eftir vitninu að ,,fólk sæti hér inni sem búið er að hafa félagið í gíslingu í umræðu um peninga, það snýst allt um það. Þessir sömu aðilar koma ekki til þeirrar vinnu sem þeir eru kjörnir til, þeir sinna ekki sínu starfi fyrir sínar deildir. Jóna heldur ekki fundi, gerir ekkert fyrir sitt fólk. Villi hefur engan áhuga á félagsmálum, er búinn að fara þing eftir þing [svo] með ársreikninga félagsins aftur í tímann og berandi út óhróður um félagið. Félagið er ekki fjármögnunarfyrirtæki, þetta er verkalýðsfélag sem á að standa utan um það sem það á að gera. Er búin að fá nóg af þessum eilífum árásum á félagið og einelti á formann. Vildi gjarnan að þeir sinni sínum skyldum og skrifuðu undir ársreikningana með þeim athugasemdum og ásökunum sem þeir telja sig þurfa að gera. Hætta þessu og fara [að] snúa sér að félagsstarfinu. Það sé sín skoðun að ansa þessu ekki, að fara [að] rífa upp bókhald mörg ár aftur í tímann, hún greiði atkvæði á móti því.”

Vitnið Elínbjörg var þá spurð hvort það sem í greinargerðinni er skráð, ,,Villi hefur engan áhuga á félagsmálum, “ væri eina ástæðan fyrir afstöðu hennar. Hún sagði að fleiri en ein ástæða væri fyrir þessari afstöðu hennar. Lögmaður stefnda hefði ráðlagt stjórninni að láta hér staðar numið. Sitt starf innan stjórnar væri félagslega hliðin. Félagsstarfið hefði beðið hnekki fyrir átök innan stefnda. Það hefði þarna á þessum tíma verið komin ákveðin lausn um að menn gætu fengið svör við ákveðnum spurningum. Hún hefði viljað að menn færu að sinna því sem þeir ættu að gera, þjóna félagsmönnum. Það hefði ekki hvarflað að sér að synjun á beiðni stefnanda um aðgang að gögnum gæti valdið enn meiri úlfúð.  Hún hefði haldið að ákvörðun meirihluta stjórnar stæði, eins og gerðist í flestum félögum.

Elínbjörg kvaðst ekki, aðspurð, þekkja til þess að stefnanda hefði verið neitað um aðgang að gögnum sem varðað hefðu afmarkaðar fyrirspurnir. Hún kvaðst reyndar ekki hafa með bókhald eða gjaldfærslur að gera.  Það gerði skrifstofustjórinn, Elín Hanna.

Elínbjörg sagði aðspurð að samkvæmt sinni bestu vitund hefðu verið tekin til á skrifstofu stefnda bókhaldsgögn vegna ársreikninga stefnda fyrir 1999 að beiðni stefnanda og Georgs Þorvaldssonar. Þeirra hefði ekki verið vitjað. Hún kvaðst ekki hafa tekið til þessi gögn. Elín Hanna hefði gert það að því er hún best vissi. Þau hefðu ekki legið á sinni skrifstofu og ekki væri til að dreifa neinni ,,afgreiðslu” á skrifstofum stefnda, bara þrjár skrifstofur, ein fyrir hvern starfsmann. Eftir því sem hún best vissi hefði gögnunum verið eytt. Hún hefði ekki haft með þau að gera. Eftir sáttaumleitanir fyrir dómi 7. mars 2002 hefði verið farið í það að taka þessi gögn til aftur, en formaður félagsins hefði veikst og hún vissi ekki hvernig því hefði lyktað.

Elín Hanna Kjartansdóttir kvaðst hafa setið í stjórn stefnda, verið ritari hans, frá 1994. Hún sagðist hafa tekið þátt í að taka saman bókhaldsgögn vegna fyrirspurna stefnanda. Þetta hefðu verið gögn varðandi bókhaldið fyrir árið 1999. Þeir hefðu komið á skrifstofu stefnda stefnandi og Georg og fengið heimild til að skoða hreyfingalista bókhalds. Á þá lista hefðu þeir merkt við það sem þeir vildu skoða. Það hefði hún tekið saman og verið með á skrifstofu sinni. Það hefði að vísu dregist hjá sér að taka þetta til. Hún kvaðst muna að stefnandi hefði komið á skrifstofuna nokkrum sinnum, hún myndi ekki hve oft. Gögnin hefðu ekki verið tilbúin.  En þau hefðu verið tilbúinn fyrir framhaldsaðalfund 2000. Þeim hefði verið sagt frá því, hún hefði sagt Georg frá þeim og líka stefnanda á trúnaðarmannaráðsfundi, að því er hana minnti. Þeir hefðu ekki sótt gögnin. Þeim hefði verið eytt í einhverri tiltektinni á skrifstofunni.  Hún treystist ekki til að segja hve lengi þau hefðu legið þarna, það hefðu verið einhverjar vikur. Þessi gögn hefðu síðar verið tekin til aftur og væru til núna.

Elín hanna sagði að hún hefði greitt atkvæði á móti tillögu stefnanda á stjórnarfundi 28. ágúst 2001, um að hann fengið að skoða bókhaldsgögn þriggja ára. Afstaða sín hefði byggst á nokkrum atriðum. Ýmislegt hefði verið búið að ganga á í félaginu og sér hefði fundist starfsemin og stjórnin vera orðin undirlögð af deilum. Um væri að ræða verkalýðsfélag og þjónusta við félagsmenn skipti máli. Reikningar félagsins hefðu farið gegnum fjórfalt kerfi, bókhaldara, félagslega kjörna skoðunarmenn, löggiltan endurskoðanda og aðalfund. Með því að samþykkja að stefnandi fengi óheftan aðgang að bókhaldsgögnum hefði sér fundist að hún væri að gera lítið úr öllu því fólki sem hefði komið nálægt þessari vinnu, það væri verið að vantreysta þeim. Sér hefði ennfremur fundist átökin í félaginu einkennast af persónulegum árásum á formann félagsins. 

Aðspurð sagði Elín Hanna að ársreikningar stefnda hefðu verið lagðir fram í stjórn stundum, en ekki alltaf. Hún sagðist hafa treyst endurskoðanda og skoðunarmönnum alfarið fyrir endurskoðun reikninga. Í dag teldi hún þó skyldu stjórnar að fara yfir reikningana.

Elín Hanna upplýsti að bókari á endurskoðunarskrifstofu Jóns Þór Hallssonar færði bókhald félagsins. Hún kvaðst halda utan um fylgiskjöl, sjá um iðgjaldabókahald og greiða reikninga.

Jón Þór Hallsson, löggiltur endurskoðandi, kvaðst hafa verið  endurskoðandi reikninga stefnda í rösklega 20 ár. Vinna skrifstofu hans fyrir stefna hefði falist í því að hún hefði fært fjárhagsbókhald fyrir félagið, gert ársuppgjör og gengið frá reikningum.

Vitnið kvaðst vera kunnugur deilum innan stefnda, stefnandi hefði haft við hann töluvert samband vegna þeirra. Meðal ágreiningsefna væri óuppgert bókhald samstarfsfélaga ,,í húsinu” [þ.e. vinnumiðlun verkalýðsfélaga. Aths. dómara]. Síðastliðið haust hefði stefnandi haft aðgang að þeim gögnum alveg til upphafsins, eða til 1991. Hann hefði haft þann aðgang á endurskoðunarskrifstofunni.

Varðandi ársreikning 2000 hefði því verið svo háttað að stjórnin hefði haft aðgang að hreyfingarlistum og gögnum sem óskað hefði verið eftir. Jón Þór sagði að sér væri sérstaklega minnisstætt eitt atriði í athugasemdum stefnanda, sem varðað hefði GSM-síma. Stefnandi hefði ásakað sig um bókhaldsbrot fyrir að hafa heimilað færslu á þessum síma. Frumrit reiknings hefði glatast, en viðskiptin hefðu verið auðsæ.

Jón Þór var spurður hvort hann sem endurskoðandi hefði gert einhverjar athugasemdir við ávöxtun sjóða stefnda. Hann sagði að það hefði ekki verið gerð formleg eða skrifleg athugasemd til stjórnar, en formanni félagsins hefði verið gerð grein fyrir því að sérstaklega einn reikningur væri með óeðlilega lága vexti, tékkareikningsvexti í ákveðinn tíma. Við þeim athugasemdum hefði ekki verið brugðist fyrr en mjög seint. Hann mundi ekki hvenær hann fyrst gerði slíka athugasemd við formanninn, en fyrst 1997 hefði innistæða á þessum tékkareikningi farið að hækka. Athugasemdir hans hefðu verið fram komnar áður en stefnandi fór að gera athugasemdir við ávöxtun á þessum reikningi.

Jón Þór sagði aðspurður að hann hefði ekki gert athugasemdir við stjórn félagsins um málefni vinnumiðlunarinnar, en um þau hefði verið fjallað á fjölmörgum aðalfundum, sem hann hefði reyndar ekki setið. Gögn varðandi vinnumiðlunina hefðu borist skrifstofu hans um miðjan desember 1999, en ekki hefði unnist tíma til að fara í uppgjör fyrr en haustið 2001. Vinna við þetta hefði tafist vegna mikils ágreinings um tiltekin atriði, m.a. um ákveðnar greiðslur sem stefndi telji sig eiga, en önnur félög telji sig eiga hlut í.

Vitnið Jón Þór sagði að samkvæmt beiðni stjórnar og trúnaðarráðs stefnda hefði hann reiknað út meint vaxtatap félagsins frá 1995 til og með 1999. Það hefði gerst haustið 2000, í byrjun september. Miðað hefði verið við svokallaða landsbók í Landsbanka Ísland með eins árs bindingu. Niðurstaðan hefði verið lögð fyrir aðalfund félagsins um miðjan september 2000. Þessi útreikningur liggur fyrir á dómskjali, og staðfesti vitnið það. Vaxtatapið árin 1995 – 1999 var kr. 1.944.305, og hefur þá verið tekin inn í dæmið vaxtaleiðrétting Landsbanka Íslands 14. september 2000 vegna ársins 1999 að fjárhæð kr. 1.160.221. Vitnið sagði að vafalaust hefði verið til hagstæðari vaxtakjör en þarna væri reiknað út frá, en hann hefði reiknað út frá þeim forsendum sem hann hefði verið beðinn um. Á öðru dómskjali er bréf eða yfirlýsing endurskoðunarskrifstofu Jóns Þórs Hallssonar, dags. 13. febrúar 2002. Þar er staðfest að vaxtaleiðrétting til stefnda vegna tékkareiknings í Landsbanka Íslands fyrir árið 1999 og 2000 hafi verið þessar: Árið 1999 kr. 1.160.220,79 og árið 2000 kr. 866.467,39; samtals kr. 2.026.688,18. Vitnið staðfesti skjalið.

Vitnið sagðist aðspurt fallast á að ekki væri óeðlilegt að löggiltur endurskoðandi vekti athygli umbjóðanda síns á slælegri ávöxtun fjár. Einnig kvaðst hann aðspurður fallast á að eðlilegt hefði verið að hann hefði gert slíka athugasemd annaðhvort í athugasemd með reikningum eða í bréfi til stjórnar stefnda. En yfirleitt dygði að gera munnlega athugasemd.

Vitnað var til fram lagðrar fundargerðar stjórnarfundar stefnda frá 21. október [2001. Ártal vantar í fundargerðina. Aths. dómara],  þar sem fram kemur að vitnið Jón Þór hefði óskað eftir því að hann og stefnandi skoðuð bókhald áranna 1997, 1998 og 1999. Vitnið sagði að stefnandi hefði haft samband við sig og óskað eftir því að hann kæmi formlegri beiðni um þetta á framfæri við stjórnina um að hann fengi að skoða þessi gögn með sér. Fylgigögn reikninga væru öll til að kvaðst vitnið ekki sjá nein vandamál við slíka skoðun. Hann lýsti sig tilbúinn til að vinna slíka vinnu með stefnanda.

Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður er lögmaður stefnda, eða eins og hann útskýrði fyrir dómi: Lögmannsstofan sem hann vinnur á hefur samning við stefnda um almenna ráðgjöf. Hann sat stjórnarfund stefnda 28. ágúst 2001, þar sem til umræðu og afgreiðslu var tillaga stefnanda um að hann fengi að skoða bókhaldsgögn fyrri ára. Tillagan er í fundargerð endanlega orðuð svo: ,,Geri að tillögu minni að fá að skoða hreyfingalista bókhalds vegna áranna 1997-1998-1999”.

Eftir lögmanninum Ástráði er bókað: ,,Ástráður sagði að sín skoðun væri sú, að hann teldi þetta fráleitt. Reikningarnir eru búnir að fara í endurskoðun, búið er að samþykkja þá, búnir að fara fyrir aðalfund. Eini tilgangurinn virðist vera að leita lúsa og gera hlutina tortryggilega. Félagið verði bara óstarfhæft.”.

Ástráður staðfesti þessa afstöðu sína fyrir dóminum. Hann kvaðst hafa verið kallaður til ráðgjafar á þennan fund af stjórn stefnda, eða nánar tiltekið af formanni stefnda. Það hefði verið vegna deilna í stjórninni sem varðað hefðu tiltekin atriði í bókfærslu og fjármálum félagsins, sem gerðar hefðu verið athugasemdir við.

Forsendur og niðurstöður

Á stjórnarfundi stefnda 28. ágúst 2001 bar stefnandi fram tillögu um að honum yrði veittur aðgangur að bókhaldsgögnum stefnda fyrir árin 1997, 1998 og 1999. Tillagan var svo endanlega orðuð skv. fundargerð: ,,Geri að tillögu minni að fá að skoða hreyfingarlista bókhalds vegna áranna 1997-1998-1999”.  Í atkvæðagreiðslu um tillöguna tóku þátt allir kjörnir aðalmenn, nema formaður sem sat hjá, og þrír formenn deilda. Auk þeirra greiddu atkvæði þrír varamenn. Tillagan var felld með atkvæðum allra varamanna og tveggja stjórnarmanna, en þrír stjórnarmenn greiddu atkvæði með tillögunni. Dómari fellst á það með stefnanda að á stjórnarfundi hefðu aðeins aðalstjórn og varamenn í þeirra fjarveru getað greitt atkvæði svo bindandi væri.  Enga heimild er að finna í þágildandi lögum stefnda um að varamenn hafi sjálfstæðan atkvæðisrétt á stjórnarfundum. Af hálfu stefndu er því haldið fram að föst venja hafi skapast um þetta. Engin gögn hafa verið lögð fram um þá venjumyndun. Upplýst var við aðalmeðferð að 4. apríl sl. hefði lögum stefnda verið breytt þannig að nú hefðu varamenn full réttindi á stjórnarfundum. Hefði það varla verið gert ef skapast hefði óumdeild venja um þetta. Samkvæmt þessu telur dómari að svo beri að líta á að á stjórnarfundinum 28. ágúst 2001 hafi ekki verið felld tillaga stefnanda um að hann fengi aðgang að bókhaldsgögnum stefnda fyrir árin 1997, 1998 og 1999.

Dómari fellst á það með stefnanda að honum beri sem aðalstjórnarmanni í stefnda skylda til að hafa eftirlit með rekstri skrifstofu félagsins, ráðstöfun fjármuna og ávöxtun sjóða félagsins. Í 16. gr. laga stefnda segir að stjórn stefnda hafi á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Þar segir einnig að stjórnin beri sameiginlega ábyrgð á eigum félagsins. Í 19. gr. laganna eru þessi ákvæði: ,,Starfsmaður hefur á hendi fjárhald og bókfærslu, sem að því lýtur eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar. Þó má, ef félagið hefur opna skrifstofu, fela skrifstofustjóra að annast alla innheimtu á ársgjöldum félagsmanna og veita viðtöku öllum tekjum, sem félagið kann að hafa. Hann skal þá ennfremur annast öll útgjöld þess og allt bókhald fjármálum félagsins áhrærandi. Aðalstjórn hefur eftirlit með starfi hans og aðstoðar hann ef þörf gerist.” Í úrskurði dómara um frávísunarkröfu stefnda, uppkveðnum 8. apríl 2002, segir að samkvæmt þessum ákvæðum hvíli á stjórnarmönnum stefnda ábyrgð á eignum félagsins og skylda til eftirlits með meðferð fjármuna þess. Stefnandi hafi verið kosinn í aðalstjórn stefnda á aðalfundi stefnda 29. júní árið 2000 og tekið sæti í stjórninni 14. september sama ár. Hann hafi af því lögvarða hagsmuni sem einstaklingur í stjórn og fulltrúi félagsmanna stefnda í stjórninni að geta gert sér glögga grein fyrir fjárreiðum félagsins. Þeir hagsmunir verði að mati dómara ekki bundnir við þann tíma þegar stefnandi var kjörinn í stjórn eða tók sæti í henni. Fjárhagur stefnda árið 2000 eigi sér rætur í meðferð fjármuna þess næstliðin ár.

Á það verður ekki fallist að réttur stefnanda til að skoða bókhaldsgögn stefnda sé háður samþykki eða vilja félagsfundar. Á það ber þó að líta að á framhaldsaðalfundi stefnda 13. desember 2001 var samþykkt að lýsa yfir vantrausti á meirihluta stjórnar stefnda vegna ,,þeirra ólýðræðislegu vinnubragða sem beitt hefur verið til að hindra að einstaka [svo] stjórnarmenn geti nálgast upplýsingar úr bókhaldsgögnum félagsins.” Verður þessi samþykkt ekki skilin öðru vísi en sem stuðningur við kröfu stefnanda um aðgang að bókhaldsgögnum.

Í stefnu er því haldið fram að skylduaðild sé að stefnda. Í greinargerð stefnda er á það bent að hér sé ekki rétt með farið, og er það réttmæt leiðrétting. Þá segir í greinargerðinni að málsókn stefnanda byggi á því að stefndi sé félag sem honum sé skylt að eiga aðild að. Þetta er ofmælt að mati dómara. Í stefnu segir einungis að hafa verði í huga að um svokallaða skylduaðild sé að ræða að stefnda.

Dómara sýnist að starf stefnanda að málefnum stefnda hafi orðið félaginu til góðs, m.a. á þann veg að sjóðir stefnda eru nú betur ávaxtaðir en áður. Tilgangur stefnanda með því að kanna bókhaldsgögn þriggja liðinna ára er skýr. Í skýrslu hans fyrir dómi, sem gerð er grein fyrir hér að framan, kemur þetta m.a. fram: ,,Stefnandi hélt því fram í skýrslu sinni að stefndi hefði þegar haft ávinning af starfi hans. Stefndi væri nú kominn með alla sína fjármuni á verðtryggða reikninga í Búnaðarbanka Íslands. Að öllum líkindum væru þeir enn á fyrri lágu vöxtunum, ,,ef ég hefði ekki verið að vinna þá vinnu sem ég hef verið að vinna.” Það sem hann vildi fá að rannsaka væri það hvort meira hefði verið um slíka vanrækslu. “ Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að skoðun stefnanda á þeim bókhaldsgögnum sem hann vill fá aðgang að geti á einhvern hátt valdið félaginu skaða eða vandkvæðum, sbr. vætti Jóns Þórs Hallsonar löggilts endurskoðanda, sem sagðist ekki sjá nein vandamál við slíka skoðun og lýsti sig tilbúinn til að vinna slíka vinnu með stefnanda.

Í vörn stefnda í þessu máli hefur því ítrekað verið haldið fram að málatilbúnaður stefnanda stafi af óvild hans til formanns stefnda og reyndar líka annarra forystumanna stefnda. Þannig segir í greinargerð stefnda að stefnandi hafi ,,mótað sér þá afstöðu að nýta sér aðstöðu sína sem kjörins stjórnarmanns í stjórn stefnda til vinna formanni félagsins allt til bölvunar.” Einnig: ,,Í viðleitni sinni til að koma höggi á formanninn leitaði stefnandi fulltingis Alþýðusambands Íslands og Starfsgreinasambands Íslands, ...”  Þá segir enn í greinargerðinni á einum stað: ,,Stefnandi heldur uppi umfangsmiklu andófi innan stjórnar stefnda. Hann er þar nánast sem stjórnarandstæðingur eftir að samverkamaður hans laut í lægra haldi í formannskosningum og sem slíkur leggur hann alla þá steina í götu félagsins sem honum eru tækir. Varðar það hann öngvu í þeim efnum hvort verið er, til dæmis, að ræða úrlausn á húsnæðisvanda félagsins eða hvort stefndi eigi að standa fyrir skemmtiferð fyrir aldraða félagsmenn. Stefnandi leggst gegn flestum tillögum sem upp eru bornar innan stjórnar stefnda. Virðist honum ganga það helst til að gera félagsstjórnina óstarfhæfa og sýna þannig fram á meint vanhæfi formanns stefnda, sem og annarra starfsmanna félagsins. Af þessu meiði er dómkrafa stefnanda, að fá óheftan aðgang að bókhaldi félagsins til að leita þar lúsa að einhverjum tilefnum til að ala á úlfúð og sundrungu innan stefnda.”  Þessar ásakanir á hendur stefnanda hafa ekki verið réttlættar í þessu máli.

Sýnilegt er að stefnandi hefur staðið höllum fæti í stjórn stefnda. Starfsmenn stefnda eru þrír, formaður, varaformaður og ritari félagsins. Þeir eru allri andsnúnir stefnanda í þessu máli. Þeir hafa aðgang að þeim gögnum sem stefnanda hefur verið meinað að fá að skoða. Þrátt fyrir þennan aðstöðumun þykir dómara 65. gr. stjórnarskrárinnar eða 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu ekki eiga við í þessu máli eins og stefnandi heldur fram.

Af því sem nú hefur verið ritað leiðir að dómari fellst á kröfur stefnanda í þessu máli.

Rétt er að stefndi greiði stefnanda málskostnað. Skal hann vera 550.000 krónur, virðisaukaskattur af lögmannsþóknun innifalinn.

Mál þetta sótti af hálfu stefnanda Ingólfur Hjartarson hrl., en Björn L. Bergsson hrl. hélt uppi vörnum fyrir stefnda.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

Stefnda, Verkalýðsfélagi Akraness, er skylt að veita stefnanda, Vilhjálmi Birgissyni, aðgang að öllum bókhaldsgögnum stefnda fyrir árin 1997, 1998 og 1999 á skrifstofu stefnda að viðlögðum dagsektum, kr. 10.000 á dag.

Stefnda greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað, virðisaukaskattur af lögmannsþóknun innifalinn.