Hæstiréttur íslands
Mál nr. 468/2005
Lykilorð
- Misneyting
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
|
|
Fimmtudaginn 23. mars 2006. |
|
Nr. 468/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn A (Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) |
Misneyting. Frávísun frá Hæstarétti að hluta.
A var gefið að sök að hafa í ágúst 2002 notað sér skerta andlega færni C, sem þá var 82 ára gamall, með því að fá hann til að taka lán til að greiða skuldir sínar og leggja fé í stofnun fyrirhugaðs fyrirtækis B, kunningja A. Í málinu naut ekki við samtímagagna um andlega færni C um það leyti sem hann gekkst undir þá fjárhagslegu skuldbindingu í ágúst 2002 sem málið snerist um, en við mat á andlegri færni hans í janúar 2003 hafði komið í ljós „töluverð skerðing á áttun, skammtímaminni, skipulagshugsun og samhæfingu hugsana.“ A hélt því fram að C hefði beðið sig að annast fjármál sín, sem komin hafi verið í ólestur. Hann hafi ekki átt fé til að greiða skuldir sínar og samþykkt að taka umrætt lán til að greiða þær og leggja fé í stofnun fyrrnefnds fyrirtækis. Gegn neitun A, sem þekkt hafði C í skamman tíma, var talið ósannað að A hefði átt að gera sér grein fyrir að hagir C væru með þeim hætti að hann væri ófær um að gera sér grein fyrir skuldbindingu sinni er hann skrifaði undir skuldabréfið. Var A samkvæmt þessu sýknaður af umræddum sakargiftum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. október 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms og þyngingar á refsingu. Í áfrýjunarstefnu krafðist ákæruvaldið þess að ákærði yrði sakfelldur að öllu leyti samkvæmt ákæru 14. desember 2004 og dæmdur til refsingar. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá kröfu sinni um að honum yrði refsað fyrir að hafa dvalið endurgjaldslaust í herbergi í húseign C eins og þar er nánar lýst. Einnig féll ákæruvaldið frá þeirri staðhæfingu í ákærunni að ákærði og B hafi afhent C umræddan víxil með gjalddaga 30. ágúst 2003. Þá tók ákæruvaldið fram að líta bæri svo á að þóknun ákærða að fjárhæð 350.000 krónur, sem nefnd er í ákæru, sé innifalin í fjárhæðinni 2.858.375 krónur, sem þar er sagt að ákærði hafi lánað B.
Í greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar er þess jafnframt krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt framhaldsákæru 1. júní 2005 en henni var vísað frá í héraðsdómi. Með vísan til c. liðar 2. mgr. 153. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinbera mála með áorðnum breytingum verður þessari kröfu ákæruvalds vísað frá Hæstarétti.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvalds en að því frágengnu að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin.
I.
Krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á þeirri forsendu að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Nauðsyn þessa úrræðis ræðst af aðstæðum hverju sinni. Eins og sönnunargögnum í málinu er háttað verður mati héraðsdóms á þessu ekki haggað. Mat á sönnunarfærslu á hendur ákærða sætir hins vegar endurskoðun fyrir Hæstarétti, eftir því sem efni máls gefur tilefni til, þar með talið hvort munnleg sönnunarfærsla, eins og héraðsdómari hefur metið hana, fái nægilega stoð í öðrum gögnum.
II.
Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Ákærða er gefið að sök að hafa í ágúst 2002 notað sér skerta andlega færni C, sem þá var 82 ára gamall, „vegna alzheimer sjúkdóms og báginda hans sökum vínhneigðar og fjárhagsvandræða“ með þeim hætti sem nánar er lýst í ákæru. C var færður á Landspítala-háskólasjúkrahús 24. september 2002 í tilefni af falli í tröppum. Í læknisvottorði Ólafs Þórs Gunnarssonar lyf- og öldrunarlæknis 20. febrúar 2003 kemur fram að C hafi fyrst komið á svokallaða minnismóttöku Landspítala, Landakoti 9. janúar 2003, en beiðni um mat á andlegri færni hans hafi verið sett fram á Landspítala við Hringbraut eftir skoðun öldrunarlæknis 24. september 2002 í kjölfar bráðaveikinda. Við skoðunina í september hafi ekki farið fram formlegt mat á andlegri hæfni hans en hins vegar hafi komið fram í gögnum þá að um „einhverja heilabilun“ hafi verið að ræða en óvíst hversu mikla í ljósi bráðaveikinda hans. Á minnismóttöku 9. janúar 2003 hafi hins vegar verið gert ítarlegra mat á andlegri færni hans og þá hafi komið í ljós „töluverð skerðing á áttun, skammtímaminni, skipulagshugsun og samhæfingu hugsana.“ Í málinu nýtur ekki samtímagagna um andlega færni C um það leyti sem hann gekkst undir þá fjárhagslegu skuldbindingu í ágúst 2002 sem mál þetta snýst um. Er því ekki unnt að slá því föstu að andleg færni hans hafi verið svo skert á þessum tíma að hann hafi ekki gert sér grein fyrir þýðingu skuldbindingar sinnar.
Ákærði heldur því fram að C hafi beðið sig að annast fjármál sín, sem komin hafi verið í ólestur á þessum tíma, þegar til tals kom milli þeirra að ákærði væri nýkominn úr námi í viðskiptafræðum. Börn C hafi ekki aðstoðað föður sinn við að greiða úr fjármálum hans. Hafi C verið snyrtilegur og komið eðlilega fyrir. Hann hafi ekki átt fé til að greiða skuldir sínar og samþykkt að taka umrætt lán til að greiða þær og leggja fé í stofnun fyrirhugaðs fyrirtækis B. Tveir nágrannar C um árabil báru fyrir dómi að hann hafi aukið drykkju eftir lát konu sinnar í ársbyrjun 2001 og farið hafi að bera á elliglöpum hjá honum. Ákærði hefur staðfastlega neitað því að hafa notfært sér fjárhagsvandræði og vínhneigð C til að afla sér og B fjár eins og nánar er lýst í ákæru. Gegn neitun ákærða, sem þekkt hafði C í skamman tíma, er ósannað að ákærði hefði átt að gera sér grein fyrir að nefndir hagir C væru með þeim hætti að hann væri ófær um að gera sér grein fyrir skuldbindingu sinni er hann skrifaði undir skuldabréfið. Er ákærði samkvæmt framansögðu sýknaður af því broti sem honum er gefið að sök í ákæru.
Eftir þessum málsúrslitum ber að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun á báðum dómstigum, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Kröfu ákæruvalds um sakfellingu samkvæmt framhaldsákæru 1. júní 2005 er vísað frá Hæstarétti.
Ákærði, A, er sýkn af kröfu ákæruvalds.
Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans á báðum dómstigum, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, samtals 996.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2005.
Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 14. desember 2004, á hendur A, kt. [...], óstaðsettum í hús í Reykjavík ,,fyrir misneytingu, með því að hafa í ágúst 2002 notað sér skerta andlega færni C (sic), kt. [...], vegna alzeimer sjúkdóms og bágindi hans sökum vínhneigðar og fjárhagsvandræða með því bjóðast til að leysa úr fjármálum C og fá hann undir því yfirskyni til að veita ákærða umboð, dagsett 22. sama mánaðar, til að sjá um fjármál C sem umbeðinn fjárhaldsmaður og til að ráðstafa húseign hans að Skólavörðustíg [...], þar sem C bjó einn, og í framhaldi af því fengið C, þann 27. sama mánaðar, til að veðsetja húseign sína fyrir láni að andvirði 3.500.000 kr., á gjalddaga 23. ágúst 2003, ráðstafað 501.625 kr. af andvirði lánsins til greiðslu skulda C en lánað jafnframt B, kt. [...], kunningja ákærða, 2.858.375 kr. og tekið 350.000 kr. í þóknun til sín þrátt fyrir að ákærða væri fullljóst að C gerði sér ekki grein fyrir þýðingu viðskiptanna, og jafnframt með því að hafa dvalið endurgjaldslaust í herbergi í húseign C frá því ákærði tók það á leigu 1. ágúst 2002 að minnsta kosti til 20. júní 2003 allt gegn víxli að fjárhæð 4.037.162 kr. með gjalddaga 30. ágúst 2003, útgefnum af ákærða A 30. ágúst 2002 og samþykktum af nefndum B, sem ákærði og B afhentu C þrátt fyrir að þeir væru eignalausir en víxillinn er nú allur í vanskilum.
Telst þetta varða við 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Sækjandi gaf út framhaldsákæru dags. 1. júní 2005 svohljóðandi:
,,Að breyta verður ákæru útgefinni 14. desember 2004 á hendur A, kt. [...], óstaðsettum í hús, Reykjavík, með þeim hætti að eftirgreind málsgrein bætist við efnislýsingu brotsins:
Ákærða A er jafnframt gefið að sök að hafa, fyrir gjalddaga víxilsins, hlutast til um að í stað víxilsins var útbúinn nýr víxill sömu fjárhæðar, sem nefndur B samþykkti til greiðslu á gjalddaga 30. nóvember 2003, og fengið C sjálfan til að gefa út víxilinn, dagsettan 30. ágúst sama ár, og komið sér þannig undan fjárhagslegri ábyrgð vegna viðskiptanna.”
Verjandi ákærða krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi málsvarnarlauna samkvæmt framlögðum reikningi.
Málsatvik.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 29. janúar 2003 lagði S fram kæru þann dag á hendur ákærða vegna ætlaðrar misneytingar gagnvart föður S, C. Í kærunni kom fram að faðir hans sæti í óskiptu búi. Kærandi kvað að farið hefði að bera á óreglu hjá föður kæranda eftir andlát móður kæranda, auk minnisleysis. Þá kom fram hjá kæranda að hann hefði farið fram á að faðir hans yrði sviptur fjárræði. Kærandi tjáði lögreglu að þau systkinin hefði komist að því að ógreiddir reikningar hefðu farið að hrannast upp hjá föður þeirra, en um sumarið 2002 hefði faðir kæranda tjáð sér að allt væri komið í lag, en greindi ekki frá því hvernig það hefði gerst. Kæranda hefði þótt þetta undarlegt og farið að kanna með áhvílandi veðskuldir á fasteign föður hans að Skólavörðustíg [...]. Hafi þá komið í ljós að búið var að taka 3.500.000 króna lán, sem tryggt var með 6. veðrétti í fasteigninni. Um hafi verið að ræða skuldabréf, útgefið af C, 27. ágúst 2002 til Frjálsa fjárfestingabankans hf. Bréfið átti að greiðast með einni afborgun, 23. ágúst 2003. Kærandi kvað að hann hefði borið þetta undir C, sem ekki virtist átta sig á að veð hefði verið tekið í íbúðinni. Hann hefði hins vegar gert sér grein fyrir því að hann hefði farið í banka ásamt leigjanda sínum, A viðskiptafræðingi og þar hafði verið tekið lán til þess að greiða upp öll vanskil. C hefði ekki haft nein gögn um lánið og ekki vitað hvað hefði orðið um mismun lánsfjárhæðar og þeirrar fjárhæðar sem notuð var til að koma hans lánum í skil. Þó hefði kæranda virst að C gerði sér grein fyrir því að einhver hluti peninganna, sem teknir voru að láni, ættu að fara til kunningja A, sem væri að setja á laggirnar verksmiðju á Hvammstanga. Við eftirgrennslan kæranda hefði komið í ljós að eftirstöðvar lánsfjárhæðarinnar, þegar búið var að gera upp vanskil C, voru um 3.000.000 króna og höfðu farið inn á reikning nr. 0512-14-602845, sem er á kennitölu ákærða, en auðkenndur sem fjárvörslureikningur.
Í málinu liggur frammi umboð, dagsett 22. ágúst 2002 svohljóðandi:,,Ég undirritaður, C, kt. [...] til heimilis að [...], 101 Reykjavík, veiti hér með A Msc. í viðskiptafræði kt. [...] fullt og óskorað umboð til að sjá um fjármál mín sem umbeðinn fjárhaldsmann. Þar með talið ráðstöfun húseignar minnar að Skólavörðustíg [...], 101 Reykjavík.” Vottar á umboðinu eru B og E. Þá liggur og frammi í málinu framangreint veðskuldabréf og yfirlit yfir ráðstöfun lánsfjárins. Einnig liggur fyrir í málinu að ákærði gaf út tryggingarvíxil að fjárhæð 4.037.162 krónur 30. ágúst 2002, sem samþykktur var til greiðslu af B, með gjalddaga 30. ágúst 2003. Ákærði setti þennan víxil í innheimtu og í innheimtubeiðni hans er kveðið á um að það sem innheimtist skuli lagt inn á reikning ákærða sjálfs við Íslandsbanka nr. 512-14-602845. Samkvæmt gögnum málsins rann mismunur lánsfjárhæðar og þess fjár sem notað var til að gera upp vanskil C, til B, sem var um þessar mundir að festa kaup á húsnæði Mjólkursamsölunnar við Höfðabraut 27, Hvammstanga fyrir Íslenskt lindarvatn ehf. Samkvæmt kaupsamningi dagsettum 9. janúar 2003, nam fyrsta greiðsla 3.000.000 króna. Samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins átti seljandi að halda innborguðu fé, ef vanskil yrðu á greiðslum. Þar sem vanskil urðu, var B tilkynnt með bréfi 5. september 2003 að samningnum væri rift.
Í málinu liggur og frammi umsókn Íslensks Lindarvatns ehf. um lán hjá Byggðastofnun vegna kaupa á Höfðabraut 27, Hvammstanga og svar Byggðastofnunar frá 25. júní 2003.
C var sviptur fjárræði varðandi fasteignina að Skólavörðustíg 38 með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2003 og S skipaður fjárhaldsmaður hans varðandi fasteignina. Lögmaður S ritaði bréf til Frjálsa fjárfestingabankans 22. apríl 2003, þar sem þess var meðal annars farið á leit að upplýst yrði um tilurð ofangreindrar lántöku og veðsetningar íbúðar C, hvernig skilmálar lánsins hafi verið ákvarðaðir og hvort lántakandi hafi verið í beinum samskiptum við Frjálsa fjárfestingabankann hf. vegna lántökunnar. Í svari Frjálsa fjárfestingabankans kom fram að það væri álit bankans að rétt hefði verið staðið að lánveitingunni í alla staði.
Leigusamningur milli ákærða og C er undirritaður 20. ágúst 2002 og var gildistími hans frá 15. september 2002 til 15. október 2003.
Í lögregluyfirheyrslu 20. júní 2003 kvaðst ákærði ekki gera athugasemdir við yfirlit yfir ráðstöfun lánsfjárins til C, þar á meðal að ákærði hefði greitt í þágu C 501.625 krónur. Þá kvaðst ákærði ekki hafa greitt neina leigu til C, en hann hefði á móti ekki krafið hann um greiðslu vegna fjármálaþjónustu sinnar í þágu C. Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa greitt hærri fjárhæðir en fram kemur í yfirliti lögreglu, í þágu C, þar á meðal leigugreiðslur.
Gefinn var út nýr tryggingarvíxill 30. ágúst 2003 að fjárhæð 4.037.162 krónur, með gjalddaga 30. nóvember 2003. Útgefandi var C, en samþykkjandi B. Samkvæmt bréfi Þrastar Þórssonar hdl., til lögreglunnar í Reykjavík, 1. júní 2995 kom ákærði með víxilinn í innheimtu til lögmannsins 18. apríl 2005 og kvaðst lögmaðurinn hafa fengið þau fyrirmæli að greiða C víxilfjárhæðina ef innheimtan bæri árangur.
Í áliti Ólafs Þórs Gunnarssonar öldrunarlæknis frá 24. september 2002 segir eftirfarandi: ,, 82 ára gamall maður kemur inn vegna pneumothorax, akút. Saga um að hafa dottið í tröppunum heima hjá sér. Í journal er bréf frá fjölskyldu. Er ekki áttaður á stað og stund. Býr einn og er ekkill. Á vinkonu S.A., ættingjar hafa áhyggjur af...Greinilega einhver dementia en óvíst hversu mikil. Ljóst að hann vill sjálfur fara heim og hefur ekki haft mikla aðstoð utan frá...1. Panta tíma á minnismóttöku fyrir útskrift...”
Í læknisvottorði Björns Einarssonar öldrunarlæknis frá 21. apríl 2004 kemur eftirfarandi fram: ,,Það vottast hér með að C er með greindan Alzheimer sjúkdóm á Minnismóttöku Landakotsspítala af Ólafi Þór Gunnarssyni, þann 06. febrúar 2003. Var honum vísað á Minnismóttökuna í framhaldi af innlögn á Landspítalann við Hringbraut eftir byltu. Á vitrænu prófi MMSE (Mini-Mental state examination) skoraði hann 20 stig af 30 mögulegum, en 23 stig eða minna benda til heilabilunar. Smári Pálsson taugasálfræðingur lagði fyrir hann taugasálfræðilegt mat og kom þá í ljós skerðing á almennri vitrænni getu, með skertu minni, verklagi og stýringu. Hann var óáttaður á tíma og með skert sjúkdómsinnsæi. Taldi hann vera með töluverða heilabilun. Myndgreining samrýmdist því með minnkuðu blóðflæði í afturheila Alzheimers-sjúkdómi, en einnig kom í ljós heiladrep hægra megin í framheila, sem útskýrir þá ennfremur dómgreindar- og innsæisskerðingu. Hann mætti síðan ekki í eftirlit á Minnismóttökunni. Einnig vísast til vottorðs Ólafs Þórs Gunnarssonar, lyf og öldrunarlæknis, frá 20. febrúar 2003.
C lagðist síðan inn á Heilabilunardeild L-1 á Landakoti 09.03.2004 vegna vaxandi heilabilunareinkenna. Ekki síst skerts innsæis. Hann hafði ekki yfirlit yfir fjármál, tapaði stærri upphæðum, vissi ekki hvað varð um peningana. Misnotaði áfengi og jafnvel talið að drykkjufélagar hafi haft af honum fé. Sonur mun hafa fengið takmarkað umboð til að sjá um fjármál hans sem sneru að íbúðinni, fyrir einu ári. Það dugði þó ekki til, því C fór illa með það fé sem hann hafði handbært. C sinnti heldur ekki um að fara í eftirlit hjá þvagfæraskurðlæknum vegna blöðrukrabbameins sem hann gengur með. Í dag er C snyrtilegur til fara og kurteis, viðræðugóður kemur vel fyrir ein innihald máls hans er innantómt og ekki í samræmi við veruleikann. Vitræna skerðingin samrýmist vel Alzheimers-sjúkdómi, með afturheila einkennum, en innsæis- og dómgreindar skerðing samrýmist vel skerðingu á framheila starfsemi, þar sem hann fékk heiladrep. Hann er því með töluvert langt gengna heilabilun þar sem hugarheimur hans er í ósamræmi við veruleikann...”
Í læknisvottorði Ólafs Þórs Gunnarssonar, lyf- og öldrunarlæknis, frá 20. febrúar 2003 segir: ,,C hefur komið á minnismóttökuna á LSH Landakoti, en þangað kom hann fyrst 09. janúar 2003. Beiðni þar að lútandi hafði verið gerð á Landspítalanum við Hringbraut, þar sem hann hafði verið skoðaður af öldrunarlækni í kjölfar bráðaveikinda, og óskað hafði verið eftir mati á hans andlegu færni þá. Sú skoðun fór fram 24.09.2002, en eins og áður sagði fór ítarlegri rannsókn á andlegri færni C fram 09. janúar 2003 og áfram. Raunar hafði C átt bókaðan tíma 8.10.2002 en mætti þá ekki. Við skoðun 24.09.2002 fór ekki fram formlegt mat á andlegri færni, hinsvegar kemur fram í gögnum þá, að um einhverja heilabilun sé að ræða, en óvíst hversu mikla í ljósi acut veikinda. (Það er vel þekkt að acut veikindi geta haft veruleg áhrif á andlega færni til skamms tíma, þó að langtíma einkenni þurfi ekki að vera mikil). Hinsvegar er gert færnimat á líkamlegri færni við þá legu, og þá skorar hann á svokölluðum Barthel skala 87 stig af 100 mögulegum, þetta þýðir að hann þurfi létta aðstoð við eigin umhirðu, og jafnvel einhvers konar stýringu, en sé að miklu leyti fær um að sjá um sjálfan sig frá degi til dag hvað varðar athafnir daglegs lífs. Við komu á minnismóttöku þann 09.01.2003 er hinsvegar gert ítarlegra mat á andlegri færni, og einnig fengnar upplýsingar frá syni C varðandi versnum á andlegri færni. Við það mat kemur fram töluverð skerðing á áttun, skammtímaminni, skipulagshugsun og samhæfingu hugsana. Einnig kemur fram skerðing á innsæi, og hæging á hugsun.
Í kjölfar þessa viðtals er C sendur í frekari rannsóknir, þar með talið tölvusneiðmynd af heila, blóðflæðismynd af heila, blóðprufur og mat taugasálfræðings. Á tölvusneiðmyndum af heila sést að C hefur fengið heilablóðfall fyrir einhverju síðan, þrátt fyrir að í hans sjúkrasögu sé þess hvergi getið. Þetta er tiltölulega útbreidd skemmd hægra megin í heilavef, það er að segja framheila og í eyrnalappa hægra megin. Ekki merki um önnur heilablóðföll eða skemmdir. Á blóðflæðismyndunum sjást merki um skert blóðflæði á samsvarandi stöðum og sjást skemmdir á tölvusneiðmyndunum, en auk þess breytingar sem benda til Alzheimers sjúkdóms. Þannig fyrst og fremst breytingar sem snúa að skertu blóðflæði vegna heilablóðfalls, en einnig byrjandi Alzheimers breytingar...
Í samantekt á því mati sem gert hefur verið nú og samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir þá, er C með verulega skerta andlega færni, og afar ólíklegt að hann skilji til fullnustu mikilvægi ákvarðana er lúta að fjármálum. Það kemur einnig fram veruleg skerðing á innsæi, sem styrkir í raun þá skoðun að ákvarðanataka um fjármál geti verið afar erfið. Það er hinsvegar afar erfitt að segja til um hvort að hæfni C hafi verið verulega skert í ágúst 2002. Þar verður fyrst og fremst að byggja á sögu ættingja, og raunar sögu C sjálfs, þar sem þeir segja báðir að minnið hafi verið að skerðast undanfarin 1-2 ár. Af myndum teknum af heilanum þann 23. 01 má sjá eins og fram kemur að ofan, að hann hafi fengið heilablóðfall, en það er í raun ómögulegt að tímasetja þann áverka, en hann gæti vissulega hafa verið til staðar í ágúst sl. Þær breytingar sem að benda til Alzheimer´s sjúkdóms, eru hinsvegar vafalítið eldri en sem nemur fáeinum mánuðum, og ólíklegt annað en að þau einkenni hafi verið byrjuð að minnsta kosti ári áður en greining fer fram hér á minnismóttökunni. Það er hinsvegar í ljósi blandaðra einkenna, og blandaðrar heilabilunarmyndunar erfitt að segja til um hvort veruleg heilabilunareinkenni hafi verið til staðar löngu áður en hann var skoðaður af öldrunarlækni þann 24.09.sl., en að minnsta kosti ljóst að við þá skoðun eru allar líkur á að hæfni hans til að meta afleiðingar fjárhagslegra ákvarðana hafi verið verulega skert, líkt og hún er nú.”
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst fyrst hafa kynnst C er hann fór að leigja hjá honum. Undirritaður hafi verið leigusamningur milli þeirra, uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara. C hafi beðið ákærða um að leigugreiðslur yrðu ekki gefnar upp og hafi það orðið að samkomulagi milli þeirra. C hafi verið með sérstakan bankareikning í Landsbanka Íslands, Austurbæ og kvaðst ákærði telja að fyrstu tvær leigugreiðslurnar hefðu runnið á þann reikning. Þá hafi einnig verið stofnaður sérstakur reikningur við Íslandsbanka í þágu C og út af reikningnum hafi verið greiddir reikningar, lífeyrissjóðslán og fleira fyrir C. Ákærði kvað C hafa verið í fjárhagsvandræðum, hann hafi átt í vandræðum með áfengi, en hann hafi komið eðlilega fyrir, að flestu leyti. C hafi að fyrra bragði beðið ákærða um að aðstoða hann í fjárhagsvandræðum sínum. Ákærði hafi vitað að C hafi ekki getað greitt rafmagns- og hitareikninga, einnig hafi ákærði vitað að fasteignagjöld C væru gjaldfallin. Þá hafi lán frá sonum hans og lífeyrissjóðslán verið gjaldfallin.
Ákærði kvaðst hafa verið að vinna fyrir B á þessum tíma. B hafi beðið ákærða um að aðstoða hann við fjármögnun á kaupum á fasteign Mjólkursamsölunnar á Hvammstanga og gerð viðskiptaáætlunar fyrir fyrirtækið Íslenskt Lindarvatn, en B hafi verið eigandi Íslensks Lindarvatns. B hafi ætlað sér að reisa vatnsverksmiðju og verið kominn með skriflegan samning frá Þýskalandi um kaup á vatni, en vélar Mjólkursamsölunnar hafi átt að nota til þess. B hafi farið til Frjálsa fjárfestingabankans í nafni félagsins og óskað eftir láni, en því hafi verið neitað.
Ákærði hafi í kjölfarið kynnt þá B og C og kvaðst ákærði hafa séð einhvern möguleika fyrir báða til að hagnast á ,,þessum viðskiptum”. Frjálsi fjárfestingabankinn hafi óskað eftir því að C væri sjálfur lántakandi, sem eigandi eignar þeirrar sem veðsetja átti. Lánið hafi verið hugsað sem fyrsta greiðsla í kaupverði eignarinnar að Höfðabraut 27 Hvammstanga. B hafi hitt C að máli og borið undir C hvort C væri tilbúinn að veita veð í húseign sinni. Ákærði kvaðst hafa talið að unnt væri að ganga að fasteign B, ef til vanskila kæmi á láninu. Ákærði kvað ástæðu þess að hann hafi útbúið framlagt umboð, hafa verið þá að hann hafi viljað tryggja að börn C vissu af þessu og hafi farið fram á það við C að hann kynnti börnum sínum efni umboðsins. B hafi beðið um að gefinn yrði út einn víxill, með gjalddaga ári síðar til greiðslu á láninu og vöxtum. Víxlinum hafi síðan verið framlengt. Ákærði kvaðst hafa vitað til þess að B ætti vélar og tæki, en ekki fasteignir.
Ákærði kvaðst gera athugasemdir við, með hliðsjón af dskj. nr. 7, að hafa einungis ráðstafað 501.625 krónum af andvirði lánsins til greiðslu skulda C, en viðurkenndi að hafa tekið 350.000 af láninu í þóknun til sín, samkvæmt umboðssamningi við B. Þá kvað ákærði að B hefði fengið í sínar hendur 2.858.375 krónur, gegn víxli. Ákærði kvaðst hafa verið útgefandi á fyrri víxlinum, en ekki þeim síðari. Víxillinn hafi verið framlengdur í ágúst 2003, eftir að ákærði hafði verið yfirheyrður hjá lögreglu vegna þessa máls. Þegar víxillinn var framlengdur hafi C verið útgefandi víxilsins, í stað ákærða á fyrri víxlinum. Ákærði hafi borið málið undir C og sagt honum að eðlilegt væri að C ætti víxilinn, þar sem C ætti kröfuna á B, en ekki ákærði. Ákærði hafi talið að hagsmunum ákærða væri betur borgið með því að C væri útgefandi víxilsins.
Ákærði kvað C ekki hafa verið dagdrykkjumann, en ákærði hafi vitað til að hann ,,færi á bari”. Ákærði kvaðst hafa orðið þess áskynja að C var í fjárhagsvandræðum, og kvaðst hafa litið svo á að ekkert bannaði fullorðnu fólki að eiga viðskipti: ,,Mér fannst hann ekki vera ,,það illa farinn og það bannar ekkert fullorðnu fólki að eiga viðskipti.” Ákærði kvað að sex mánuðum áður en víxillinn hafi farið í vanskil, hafi S, sonur C, kært ákærða. Málið hafi þá verið á viðkvæmu stigi og kæran haft þau áhrif að B hafi ekki fengið umbeðið lán hjá Byggðastofnun, en lánið hafi átt að nota til þess að endurgreiða C. Þar sem lánið hafi ekki fengist, hafi ekkert orðið úr endurgreiðslunni.
Aðspurður um afstöðu til framhaldsákæru, kvað ákærði þann verknað sem þar er lýst, ekki refsiverðan. Ákærði kvaðst hafa fengið víxil þann sem var undanfari víxils þess sem getið er í framhaldsákæru, afhentan og hafi ákærði sett hann í innheimtu hjá Íslandsbanka. Seinni víxillinn hafi verið endurnýjaður 30. ágúst 2003.
Vitnið, S, sonur C, kvaðst hafa lagt fram kæru í málinu í lok janúar 2003, en hann kvaðst fyrst hafa fengið vitneskju um málsatvik í september-október 2002. Þá hafi faðir vitnisins tjáð vitninu að hann væri búinn að ganga frá sínum fjármálum. Vitnið hafi þá ákveðið að fá veðbókarvottorð íbúðar föður hans og þá komist að því að búið var að veðsetja eignina. Þegar vitnið hafi tjáð föður sínum að á eigninni hvíldi veð, og fjárhæð lánsins, hafi faðir hans komið af fjöllum. Hann hafi hvorki gert sér grein fyrir fjárhæðinni, né hvenær lánið var tekið, né hvernig það skyldi greitt. Hann hafi í raun ekki haft hugmynd um að hann væri búinn að veðsetja íbúðina og engin skjöl haft í höndunum. Vitnið hafi fengið ljósrit af lánsskjölunum í Frjálsa fjárfestingabankanum og sýnt föður sínum. Faðir hans hafi ekki skilið neitt í þeim eða þýðingu þeirra.
Vitnið kvað móður sína hafa andast árinu áður en þessir atburðir gerðust og hafi þá faðir hans dregið sig í hlé frá fjölskyldunni. Hann hafi áður átt við drykkjuvanda að stríða sem hefði ágerst mjög eftir dauða móður vitnisins. Þá hefði faðir hans verið drukkinn nánast á hverjum degi. Vitnið kvaðst eitt sinn hafa reynt að ræða áfengisvandann við föður sinn og hefði faðir hans ávallt neitað að hann ætti við vanda að stríða. Það hafi verið hverjum manni ljóst, sem þekktu föður hans að hann ætti við áfengisvanda að stríða. Vitnið kvað föður sinn ekki hafa haft mikið samband við börnin sín eftir dauða móður vitnisins og ekki leitað til þeirra. Vitnið kvaðst þó hafa haft samband við föður sinn á nokkurra daga eða vikna fresti.
Vitnið kvaðst hafa reynt að fylgjast með föður sínum og hafi hann verið farinn að líta mjög illa út á þessum tíma. Hann hafi verið orðinn mjög grannur og það ástand hafi versnað mjög hratt. Faðir hans hafi alltaf verið snyrtilegur en á þessum tíma hafi hann verið í óhreinum og sjúskuðum fötum. Vitnið kvað föður sinn síðan hafa farið inn á stofnun í byrjun árs 2004. Ástand hans hafi farið stigversnandi og hann sé ekki vel áttaður í dag. Hann þekki ekki barnabörnin sín og fyrir komi að hann viti ekki hver eiginkona hans var. Vitnið kvaðst ekki vita um afdrif víxilsins sem gefinn var út. Þá kvaðst vitnið ekki þekkja til þess að faðir hans hafi gefið út annan víxil, til framlengingar á fyrri víxli.
Spurt um veikindi og áfall sem faðir vitnisins hafði orðið fyrir og getið er um í framlögðu læknisvottorði, kvaðst vitnið minnast þess að hafa eitt sinn komið að föður sínum, liggjandi uppi í sófa, en skömmu áður hefði hann dottið. Faðir hans hefði farið á Borgarspítalann, en vitnið kvaðst ekki vita hvaða áfall eða veikindi það voru, sem getið er um í læknisvottorðinu.
Vitnið kvaðst sjálft hafa lagt fram kæru, þar sem hann hafi talið að faðir hans gengi ekki heill til skógar. Vitnið kvað Kristin Bjarnason hrl. hafa hringt í Byggðastofnun vegna þessa máls, fyrir hönd vitnisins.
Vitnið, B, kvaðst hafa þekkt ákærða í nokkur ár er atvik máls þessa gerðust. Vitnið hafi haft hug á að kaupa Mjólkursamlagið Hvammstanga og gert kaupsamning um fasteignina. Vitnið hafi greitt 1 milljón króna inn á þau viðskipti. Ákærði hafi viljað hjálpa til við að fjármagna kaupin. Ákærði hafi búið hjá C, en vitnið kvaðst ekki hafa þekkt C neitt. Hann hafi þó hitt C að máli, en vitnið kvaðst ekki muna hvort þeir töluðu mikið um fjármál þá. Er borinn var undir vitnið framburður vitnisins fyrir lögreglu í janúar 2004, þess efnis að vitnið og C hefðu hist og rætt um lántökuna, kvaðst vitnið hafa viljað vera þess fullvisst að C skildi hvað um væri að ræða og kvað þá rétt að þeir hefðu í þetta sinn rætt um fjármál. Vitnið kvað C hafa komið ágætlega fyrir, hann hafi virst skýr og skynsamur maður. Vitnið kvaðst þó ekki minnast þess að C hefði rætt um tryggingar fyrir láninu.Vitnið kvað að það sem m.a. hefði verið rætt á þessum fundi þeirra þriggja, ákærða, C og vitnisins, hefði verið það að C ætti að fá ákveðna þóknun fyrir veðveitinguna, þ.e. 500.000 krónur. Vitnið kvað að sér hefði ekkert þótt einkennilegt við þessi viðskipti. Vitnið kvaðst engar eignir hafa átt á þessum tíma. Hann hafi ætlað sér að afla hlutafjár í félaginu Íslenskt Lindarvatn og hafi fjárfestar verið tilbúnir að leggja fé í reksturinn. Greiða hefði átt víxilinn upp með hlutafé í hlutafélaginu og hafi hann rætt það við ákærða.
Vitnið hafi reynt að leita fyrir sér með lán til þess að fjármagna kaupin á fasteigninni á Hvammstanga, en fjármálastofnanir neitað lánveitingu, en þó hafi vitnið fengið það svar að hugsanlegt væri að fá lán með því að útvega veð í fasteign í bænum. Ákærði hafi boðist til að leita leiða út úr þessu og hafi þetta einhvern veginn æxlast milli ákærða og C að C lánaði veð í fasteign C. C fengi svo þóknun fyrir að lána veðið og ákærði einnig þóknun fyrir að koma þessu í kring. Ákærði hafi svo gengið frá þessu. Ákærði hefði tekið fram við B að þetta yrði þó ekki gert nema með samþykki Skorra, sonar C. Vitnið kvaðst ekki vera visst um það að ákærða hefði verið kunnugt um það ákvæði í kaupsamningi um fasteignina að ef greiðslur féllu í gjalddaga, væri fyrsta greiðsla ekki endurkræf.
Vitnið kvað ástæðu þess að það fékk ekki fyrirgreiðslu og lán hjá Byggðastofnun, sem nema átti allt að 20 milljónum króna, hafa verið þá að Kristinn Bjarnason hrl., hefði haft samband við Byggðastofnun og tjáð Byggðastofnun að tilgreind skuld við C ætti að greiðast með láni Byggðastofnunar, en ,,það stóð aldrei nokkurn tíma til.” Þá hafi allt ,,orðið vitlaust” hjá Byggðastofnun og láninu hafi verið hafnað.
Vitnið staðfesti lögregluskýrslu er það gaf hjá lögreglu 20. janúar 2004.
Vitnið, E, kvaðst þekkja B og ákærða. Vitnið kvaðst einnig hafa hitt C, en þá hafi vitnið verið vottur á ,,einhverju skjali”, sem gæti hafa verið umboð. C hafi verið með allt í ólestri í peningamálum, en ákærði hafi ætlað sér að koma peningamálum C í lag. Fyrir það hafi ákærði fengið að leigja húsnæði í fasteign C. Þá kvaðst vitnið vita til þess að B hafi fengið veð í húsnæði C. Í fyrsta skiptið sem vitnið hafi hitt C hafi hann verið allsgáður, en hann hafi komið vitninu fyrir sjónir sem skemmtilegur og sérkennilegur karl. Tveimur vikum síðar hafi hann aftur hitt C og hafi þá verið ,,kaupstaðarlykt” af honum, en hann hafi ekki komið vitninu fyrir sjónir sem vanheill á geði. Vitnið kvaðst hafa hitt C nokkrum sinnum eftir þetta og í þau skipti hafi C verið meira og minna ,,fullur og drekkandi”. Spurt um framburð sinn í lögregluskýrslu, þar sem vitnið segi C ,,snældubilaðan” kvað vitnið að þar væri of sterkt til orða tekið hjá vitninu. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að hafa séð kaupsamning vegna húsnæðis þess sem B ætlaði að kaupa á Hvammstanga.
Vitnið, Ólafur Þór Gunnarsson, læknir kvaðst hafa gefið út læknisvottorð það sem liggur fyrir í málinu, frá 20. febrúar 2003. Vitnið kvað að við skoðun á sjúklingi væri alltaf reynt að komast til botns í því hvort einkenni um heilabilun hefðu varað í skamman eða langan tíma, þar sem það hefði áhrif á greininguna sjálfa. Vitnið kvað að við heilablóðfall eða bráðaveikindi gæti minnisskerðing orðið mjög snögglega. Hins vegar ef um Alzheimer sjúkdóm væri að ræða, væri nánast alltaf hægt að fá fram sögu um skerðingu, árin á undan, eins og verið hefði í tilfelli C. Vitnið kvaðst fyrst hafa hitt C um sumarið 2002 og þá hafi vitnið lagt til að C kæmi í skoðun til þess að meta ástand hans á minnismóttöku, í kjölfar innlagnar. Það væri yfirleitt ekki gert, nema talið væri að einhverjar líkur væru á því að viðkomandi væri farinn að skerðast andlega. Vitnið kvaðst muna nokkuð vel eftir C og kvað mun fleira en minnið hafa skerst hjá C við sjúkdóm hans. Þannig hefði innsæi hans skerst til að átta sig á því að ein ákvarðanataka gæti leitt til niðurstöðu sem ekki væri sýnileg. Vitnið nefndi sem dæmi að einstaklingur taki ákvörðun í dag, skrifi e.t.v. upp á einhverja pappíra, hringi símtal eða eitthvað slíkt, og einstaklingurinn skynji ekki hver áhrifin af því geti orðið. Vitnið kvað að próf hafi verið lögð fyrir C sem leitt hefðu í ljós skerðingu að þessu leyti. Almennt sé talað um að venjulega séu menn komnir með Alzheimereinkenni 3-4 árum áður en greining fari fram. C hafi verið kominn inn á stofnun strax eftir áramót 2003. Tvær skýringar geti verið á því að hann fór svo snemma inn á stofnun eftir greiningu, þ.e. annars vegar að hann hafi komið seint til greiningar, hins vegar að sjúkdómur hans hafi farið hratt versnandi. Vitnið kvað möguleika leikmanns til þess að greina slík einkenni nokkuð háða því hversu vel þessi leikmaður þekkti C.Vitnið kvað það geta verið erfitt fyrir leikmann, sem eingöngu hefði hitt C stopult í 2-3 vikur, að átta sig á þessum einkennum C. Hins vegar benti vitnið á að þegar það hitti C fyrst á Landspítalanum í september 2002 og spjallaði við hann í 15-20 mínútur, hefði vitnið áttað sig á því að líklega væri heilabilun (dementia) til staðar. Þá kvað vitnið að það væri mat vitnisins að ólíklegt væri að leikmaður, sem hefði haft dagleg samskipti við C á þessum tíma áttaði sig ekki á því að honum væri farið að förlast.
Vitnið, K, kvaðst hafa verið nágranni C frá árinu 1996. Vitnið kvað að eftir að eiginkona hans lést í ársbyrjun 2001, hafi C misst tök á lífi sínu. Það hafi hlaðist upp hjá honum ógreiddir reikningar og vitnið kvaðst einnig hafa orðið vör við óreglusemi eftir lát eiginkonu hans. Þá hafi C farið að fara á bari í miðbænum. C hafi stundum komið í heimsókn til hennar og eiginmanns hennar og hafi þau reynt að vera honum hjálpleg. Hann hafi þá stundum verið allsgáður, en stundum drukkinn. Vitnið kvað mjög hljóðbært hafa verið í húsinu, en ekki heyrðust orðaskil nema mjög hátt væri talað. Vitnið kvaðst eitt sinn hafa heyrt samtal milli C og ákærða, þar sem þeim hafi orðið sundurorða. Ákærði hafi sagst ætla að greiða reikninga fyrir C og hafi þeir átt að greiðast upp í húsaleigu ákærða, en vitnið kvaðst ekki hafa heyrt hverju C svaraði, þar sem C hafi legið lágt rómur. C hafi hins vegar oft kvartað við vitnið um að ákærði greiddi ekki húsaleigu. Áður hafði C sagt vitninu og eiginmanni hennar frá því að hann hefði skrifað upp á einhver skjöl fyrir ákærða og hafi þau tjáð honum að þeim þætti það alvarlegt, þar sem um bláókunnugan mann væri að ræða. C hafi ekki gefið mikið út á það. Vitnið kvað C hafa breyst mjög mikið frá andláti eiginkonu sinnar, bæði andlega og líkamlega. Hann hafi hætt að þrífa sig og hann hafi horast. Þá hafi verið farið að slá meira út í fyrir honum en áður og kvað vitnið að sér fyndist vera um greinileg elliglöp að ræða hjá C, samfara aukinni áfengisdrykkju. Þá kvaðst vitnið muna eftir tveimur skiptum þegar C hafði dottið illa, en þá hefði Þorsteinn, eiginmaður vitnisins, farið með hann á slysadeild.
Vitnið, Þ, kvaðst hafa flutt í húsið sem C bjó í fyrir um níu árum og hafi þeir orðið kunningjar. Eiginkona C hafi algerlega séð um fjármál heimilisins. Þegar hún hafi fallið frá árið 2001 hafi C ekki höndlað það. Hann hafi lagst í drykkjuskap og allir hans peningar farið í það og hafi C farið að leigja hluta af íbúð sinni. Um sumarið 2002 hafi C verið hættur að þrífa sig og ekki greitt neina reikninga og hafi hann horast niður. Vitnið kvað C hafa leitað mjög til þeirra hjóna. Vitnið kvað C hafa eitt sinn komið til vitnisins mjög glaðan og kátan og hafi C talið sig hafa gert mjög góðan ,,díl”. Hann kvaðst hafa ,,lánað nafnið sitt” og ekki talið sig vera í neinni ábyrgð en þetta hafi verið eitthvað á vegum ákærða. Hafi C talið að hann myndi fá mikla peninga eftir um þrjá mánuði. Hafi C ekki gert sér grein fyrir því að hann væri í nokkurri ábyrgð. Þá kvað vitnið að C hefði tjáð vitninu að ákærði greiddi enga leigu. Spurt um það hvort vitnið hefði merkt einhver elliglöp hjá C kvaðst vitnið minnast þess að C hafi sífellt verið að segja sömu hlutina aftur og aftur og þá oftast úr bernsku sinni. Þá kvaðst vitnið hafa farið með C á slysadeild, eftir að hann hafði dottið. Vitnið kvað C jafnframt alltaf hafa verið drukkinn ,,þegar hann gat það”.
Vitnið, R, kvaðst hafa vottað skuldabréf útgefið 27. ágúst 2002, að fjárhæð 3.500.000 krónur sem selt var Frjálsa fjárfestingabankanum. Vitnið kvaðst muna eftir því þegar gengið var frá skuldabréfinu. Vitnið kvað C hafa komið í bankann ásamt ákærða. C hafi sýnt skilríki, en vitnið hafi einungis skýrt út fyrir honum lánsfjárhæðina og lánstímann. Vitnið kvað C hafa komið fyrir sér sjónir sem hrumur og aldurhniginn, en hann virtist hlusta á það sem vitnið útskýrði fyrir honum.
Vitnið, H kvaðst hafa verið starfsmaður Frjálsa fjárfestingabankans, og tekið við umsókn um lán frá B, vegna fjármögnunar á vatnsframleiðslu á Hvammstanga. Vitnið kvaðst hafa séð að B var á vanskilaskrá og því hafi ekki verið hægt að veita honum lánafyrirgreiðslu. Síðar hafi B komið ásamt öðrum manni, en sá maður hafi verið með umboð frá veðþola og lagt fram umsókn um lán. Lánsumsóknin var samþykkt með því skilyrði að veðþoli ritaði undir skuldabréfið. Vitnið kvaðst ekki hafa hitt veðþola.
Niðurstaða.
Framhaldsákæra var gefin út í máli þessu 1. júní 2005, en ljóst er af gögnum málsins að lögreglu var kunnugt um atvik þau er urðu tilefni framhaldsákæru, þegar við höfðun málsins með ákæru dagsettri 14. desember 2004. Framhaldsákæru skal gefa út eigi síðar en þremur vikum eftir að þörfin á henni er kunn og er því samkvæmt 118. gr. laga nr. 19/1991 of seint fram komin. Henni er því vísað frá dómi.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa boðist til að leysa úr fjárhagsvandræðum C eins og í ákæru greinir og að hafa fengið C til að veita ákærða umboð dagsett 22. ágúst 2002 til að sjá um fjármál C og til að ráðstafa fasteign C að Skólavörðustíg [...]. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa fengið C til að veðsetja fasteignina fyrir láni að andvirði 3.500.000 krónur. Jafnframt hefur ákærði viðurkennt að hafa lánað B 2.858.375 krónur af lánsfjárhæðinni og tekið sér í þóknun 350.000 krónur, allt gegn víxli að fjárhæð 4.037.162 krónur með gjalddaga 30. ágúst 2003.
Ákærði hefur neitað því að honum væri fullljóst að C gerði sér ekki grein fyrir þýðingu viðskiptanna. Þá hefur ákærði talið að hann hafi ráðstafað meira en 501.625 krónum af andvirði lánsins til greiðslu skulda C. Jafnframt hefur ákærði neitað því að hafa dvalið endurgjaldslaust frá 1. ágúst 2002 að minnsta kosti til 20. júní 2003 í húsnæði C, og heldur því fram að leigutíminn hafi verið mun styttri, auk þess sem hann hafi ekki dvalið endurgjaldslaust í íbúðinni.
Samkvæmt vottorði Björns Einarssonar öldrunarlæknis frá 21. apríl 2004 greindist C með Alzheimer sjúkdóm 6. febrúar 2003 og var hann þá talinn vera með töluverða heilabilun. Samkvæmt vottorði Ólafs Þórs Gunnarssonar öldrunarlæknis frá 20. febrúar 2003 kom C á minnismóttöku á LSH Landakoti 9. janúar 2003. Í vottorðinu kemur fram að C hafi verið skoðaður 24. september 2002, en þá hafi ekki farið fram formlegt mat á andlegri færni, en hins vegar hafi komið fram í gögnum þá að um einhverja heilabilun hafi verið að ræða á þeim tíma. Við skoðun 9. janúar 2003 kom fram að töluverð skerðing hafi verið á áttun, skammtímaminni, skipulagshugsun og samhæfingu hugsana hjá C. Einnig að komið hafi fram skerðing á innsæi og hæging á hugsunum. Í niðurlagi vottorðs læknisins segir: ,,Af myndum teknum af heilanum 23.01 má sjá eins og fram kemur að ofan að hann hafi fengið heilablóðfall, en það er í raun ómögulegt að tímasetja þann áverka, en hann gæti vissulega hafa verið til staðar í ágúst sl. Þær breytingar sem benda til Alzheimers sjúkdóms, eru hins vegar vafalítið eldri en sem nemur fáeinum mánuðum, og ólíklegt annað en að þau einkenni hafi verið byrjuð að minnsta kosti ári áður en greining fer fram hér á minnismóttökunni. Það er hins vegar í ljósi blandaðra einkenna, og blandaðrar heilabilunarmyndunar erfitt að segja til um hvort veruleg heilabilunareinkenni hafi verið til staðar löngu áður en hann var skoðaður af öldrunarlækni þann 24. 09. sl., en að minnsta kosti ljóst að við þá skoðun eru allar líkur á að hæfni hans til að meta afleiðingar fjárhagslegra ákvarðana hafi verið verulega skert, líkt og hún er nú.”
Ólafur Þór Gunnarsson læknir, kom fyrir dóm og staðfesti efni þessa vottorðs. Hann sagði fyrir dómi að hann hefði fyrst hitt C um sumarið 2002 og hafi þá lagt til að C kæmi í skoðun til þess að meta ástand hans á minnismóttöku, en það væri yfirleitt ekki gert nema líkur væru á einhverri andlegri skerðingu hjá viðkomandi. Þá kvað læknirinn að mun fleira en minnið hefði skerst hjá C. Þannig hefði innsæi hans skerst, að því leyti að hann áttaði sig ekki á því að ákvarðanataka á einu sviði gæti leitt til einhvers sem ekki væri sýnilegt. Jafnframt kvað hann það vera mat sitt að ólíklegt væri að leikmaður, sem hefði haft dagleg samskipti við C á þessum tíma, áttaði sig ekki á því að honum væri farið að förlast.
Vitnið, K, bar fyrir dómi að hún hefði þekkt C, þar sem þau hefðu verið nágrannar um árabil. Hún kvað C stundum hafa verið allsgáðan og stundum drukkinn. Þá kvaðst hún vita til þess að hann færi á bari í miðbænum. Jafnframt kvað hún C hafa breyst mikið eftir að eiginkona hans andaðist. Hann hefði hætt að þrífa sig, horast og hún kvað að sér fyndist C hafa verið haldinn elliglöpum, samfara aukinni áfengisdrykkju.
Vitnið, Þ, bar fyrir dómi að C hefði verið nágranni hans til margra ára. Hann kvað C hafa horast niður um sumarið 2002 og hætt að þrífa sig. Hann kvað C eitt sinn hafa komið til sín og sagst hafa ,,lánað nafnið sitt” en ekki gert sér grein fyrir ábyrgðinni að baki því. Vitnið kvaðst hafa merkt elliglöp hjá C á þessum tíma og kvað hann ætíð hafa verið að segja sömu hlutina aftur og aftur. Þá hafi C verið drukkinn ,,alltaf þegar hann gat það”.
Þegar virtur er framburður ofangreindra vitna fyrir dómi og litið til þeirra tveggja læknisvottorða sem liggja fyrir um heilabilun C, er hafið yfir skynsamlegan vafa, að á þeim tíma er ákæra tekur til, hefur andleg færni C verið farin að skerðast mjög. Jafnframt er í ljósi framburðar vitnisins, Ólafs Þórs Gunnarssonar, fyrir dómi, hafið yfir skynsamlegan vafa að hverjum þeim, sem átti meira en eitt samtal við C á þeim tíma er ákæra tekur til, hlaut að vera ljóst að andleg færni hans var skert, en af gögnum málsins, tilurð og undirbúningi við gerð framangreinds veðskuldabréfs, verður glögglega ráðið að samskipti ákærða og C voru fólgin í fleiri en einu samtali á þeim tíma. Ákærði hefur sjálfur viðurkennt að hann hafi vitað til að C var í fjárhagsvandræðum. Þá bar ákærði einnig sjálfur fyrir dómi að hann hefði vitað til að C ,,færi á bari”. Vitnin, E, K og Þ, hafa öll borið fyrir dómi að C var á þeim tíma er ákæra tekur til, mjög vínhneigður.
Þegar allt framangreint er virt er að mati dómsins fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi notað sér skerta andlega færni C vegna Alzheimer sjúkdóms hans og bágindi hans sökum vínhneigðar og fjárhagsvandræða til þess að fá C til að veðsetja húseign sína fyrir láni að fjárhæð 3.500.000 krónur, lánað B 2.858.375 krónur og tekið sér 350.000 krónur í þóknun, þrátt fyrir að ákærða væri fullljóst að C gerði sér ekki grein fyrir þýðingu viðskiptanna. Þá er fram komið í málinu að hvorki ákærði né B áttu fasteignir er tryggt gætu greiðslu víxils þess er ákærði gaf út 30. ágúst 2002, til tryggingar greiðslu skuldar við C.
Nokkurt misræmi er í framburði ákærða og vitnisins B fyrir dómi um það hvernig átti að endurgreiða lán þetta. Þannig bar ákærði að nota hefði átt lán frá Byggðastofnun til þess, en vitnið B kvað það aldrei hafa staðið til, heldur hefði átt að nota hlutafé í félagi B til þess. Ákærði virðist því samkvæmt framangreindu hafa látið sér í léttu rúmi liggja með hvaða hætti eða hvort lánið væri unnt að endurgreiða.
Ákærði hefur borið á móti því að hann hafi einungis ráðstafað 501.625 krónum af andvirði lánsins til greiðslu skulda C. Við lögregluyfirheyrslu 20. júní 2003 kvaðst hann ekki bera brigður á þá fjárhæð og þau gögn sem ákærði hefur lagt fram, hafa ekki rennt stoðum undir annað en að hann hafi einungis ráðstafað 501.625 krónum af andvirði lánsins til greiðslu skulda C. Því er að mati dómsins einnig sannað að hann hafi einungis ráðstafað 501.625 krónum til greiðslu skulda C.
Með þeirri háttsemi sem að ofan er lýst hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði hefur neitað því að hann hafi dvalið endurgjaldslaust í herbergi húseignar C frá því að hann tók það á leigu. Að mati dómsins renna gögn málsins eða framburður vitna ekki fullnægjandi stoðum undir ákæru að þessu leyti, og er ekki sannað, gegn neitun ákærða að ákærði hafi dvalið endurgjaldslaust í íbúðinni. Þá hefur ákærði neitað því að leigutími hafi hafist 1. ágúst 2002 eins og í ákæru greinir og bar ákærði fyrir dómi að hann hefði ekki dvalist svo lengi í íbúðinni sem í ákæru greinir, þ.e. að minnsta kosti til 20. júní 2003. Samkvæmt leigusamningi um húsnæðið var leigusamningur undirritaður 20. ágúst 2002 og leigutími sagður frá 15. september 2002 til 15. október 2003. Í ljósi þess og neitunar ákærða á því að hafa tekið húsnæðið á leigu fyrr, er ekki fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi dvalist í húsnæðinu þann tíma sem í ákæru greinir og er ákærði því sýknaður af þessum hluta ákærunnar.
Refsiákvörðun.
Ákærði hefur aldrei gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé og hefur það áhrif á ákvörðun refsingar. Til refsiþyngingar horfir að brot ákærða er alvarlegt og beindist gegn sjúkum, öldruðum manni, sem lagði traust sitt á ákærða. Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 4 mánuði.
Sakarkostnaður.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði sakarkostnað málsins 421.501 krónu, þar af málsvarnarlaun verjanda ákærða, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, sem eru ákveðin 400.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti á málsvarnarlaun.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð :
Ákærði, A, sæti fangelsi í 4 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 421.501 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Framhaldsákæru frá 1. júní 2005 er vísað frá dómi.