Hæstiréttur íslands

Mál nr. 630/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


Þriðjudaginn 29. nóvember 2011.

Nr. 630/2011.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanna.

Felld var úr gildi ákvörðun innanríkisráðherra um að X skyldi framseldur til Póllands.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2011, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðherra 6. september sama ár um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði hafa pólsk yfirvöld krafist framsals á varnaraðila vegna ætlaðra fjársvika í janúar 2001. Sú háttsemi sem varnaraðila er gefin að sök í heimalandi sínu myndi hér á landi varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við slíku broti liggur allt að sex ára fangelsi og því fyrnist sök á 10 árum, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 er framsal óheimilt ef sök er fyrnd samkvæmt íslenskum lögum. Þegar beiðni berst frá ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu skulu lög þess ríkis gilda um rof fyrningarfrests, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Pólland á aðild að nefndu samstarfi og gilda því lög þess lands um rof sakarfyrningar. Af hálfu ákæruvaldsins hafa verið lögð fram gögn um reglur pólskra refsilaga þar sem fram kemur að fyrningarfrestur rofnar og lengist um 10 ár við ákvörðun yfirvalda um að bera grunaðan mann sökum. Ákvörðun af því tagi lá í síðasta lagi fyrir 30. september 2009 þegar gefin var út handtökuskipun í Póllandi á hendur varnaraðila. Samkvæmt því stendur fyrning sakar ekki í vegi fyrir framsali.

Af ákvörðun innanríkisráðherra 6. september 2011 verður ekki ráðið að metnir hafi verið annars vegar hagsmunir pólskra yfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan með tilliti til grófleika brotsins sem beiðnin er reist á og hversu langt er um liðið síðan það var framið og hins vegar hagsmunir varnaraðila af því að synjað verði framsals. Verður talið að ráðherra beri að leggja mat á þessi atriði þegar hann leysir úr því hvort mannúðarástæður standi framsali í vegi, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1984. Vegna þessa annmarka á ákvörðun ráðherra verður hún felld úr gildi.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákvörðun innanríkisráðherra 6. september 2011 um framsal varnaraðila, X, til Póllands er felld úr gildi.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 180.000 krónur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2011.

Með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 22. september 2011, var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu varnaraðilans X um að úrskurðað yrði um það hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi vegna ákvörðunar innanríkisráðuneytisins, sem dagsett er 6. september 2011, um að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila til Póllands. Er í þessu sambandi vísað til II. kafla laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar á ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 6. september 2011, um að framselja varnaraðila til Póllands.

Varnaraðili krefst þess að framsalskröfunni verði hafnað. Þá er krafist réttargæsluþóknunar úr ríkissjóði að mati dómsins.

Með bréfi pólska dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 6. maí 2011, barst innanríkisráðuneytinu framsalsbeiðni sóknaraðila í Suwalski í Póllandi, dagsett 15. apríl 2011. Samkvæmt beiðninni og gögnum sem henni fylgja er framsals varnaraðilans beiðst vegna gruns um refsiverða háttsemi með því að hafa þann 19. janúar 2001 í Suwalski í Póllandi gert samning við dreifingaraðilann CYFRA+ með því að falsa undirskrift Stanislaw Krysztoik og nota ljósrit af gögnum í hans nafni. Þannig hafi hann fengið í sínar hendur stafrænan gervihnattamóttakara og loftnet. Þá hafi hann ekki greitt gjöld sem honum bar samkvæmt samningnum, auk þess sem hann hefur ekki skilað framangreindum búnaði þrátt fyrir riftun samningsins, allt eins og segir í kröfugerð ríkissaksóknara. Ætluð brot varnaraðila skv. framsalsbeiðninni eru talin varða við tilgreind ákvæði pólskra hegningarlaga. Í beiðninni segir að varnaraðili sé grunaður um háttsemina á grundvelli gagna sem aflað hefur verið við rannsókn málsins og að meðferð þess hafi ekki lokið þar sem varnaraðili hafi leynst yfirvöldum í nokkur ár. Hann hafi verið eftirlýstur frá 2. október 2009. Gefin var út handtökuskipun á hendur varnaraðila hinn 30. september 2009 og þann 20. apríl 2010, var gefin út evrópsk handtökuskipun á hendur honum. Hinn 11. apríl 2011 bárust upplýsingar frá SIRENE-skrifstofunni á Íslandi um að varnaraðili væri staðsettur hér á landi.

Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 13. maí 2011. Hann kannaðist þar við framsalsbeiðnina og að hún ætti við hann en kvaðst mótmæla henni.

Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins með bréfi dagsettu 8. júlí 2011. Þar eru skilyrði framsals talin uppfyllt sbr. einkum efnisskilyrði 1. og 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. sbr. 1. mgr. 9. gr. sem og formskilyrði 12. gr. laga nr. 13/1984.

Innanríkisráðuneytið tók ákvörðun með bréfi, dagsettu 6. september 2011. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að aðstæður varnaraðila væru ekki með neinum hætti þannig að mannúðarsjónarmið 7. gr. laga nr. 13/1984 stæðu í vegi fyrir framsali. Að virtum málsatvikum og að teknu tilliti til ákvörðunar ráðuneytisins í sambærilegum málum þótti ekki réttmætt að synja um framsal á grundvelli ákvæðisins. Féllst innanríkisráðuneytið þannig á beiðni pólskra yfirvalda um framsal varnaraðila.

Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila 16. september sl. hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og krafðist hann úrskurðar héraðsdóms samdægurs.

Í greinargerð varnaraðila kemur fram að hann hafi komið til Íslands í atvinnuleit í október 2007. Þá er í greinargerðinni rakinn brotaferill ákærða í Póllandi og að hann hafi fengið reynslulausn í 3 ár í janúar 2001. Áður en varnaraðili hélt til Íslands sótti hann um og fékk vegabréf og nafnskírteini frá pólskum yfirvöldum. Varnaraðili stundaði vinnu á Íslandi þar til í mars 2008 er hann varð fyrir alvarlegu vinnuslysi. Þá segir að það hafi komið varnaraðila í opna skjöldu þegar lögreglan á Íslandi hafði samband við hann og tilkynnti að hann væri eftirlýstur af pólskum yfirvöldum. Í greinargerðinni eru rakin samskipti varnaraðila við skilorðseftirlit í Póllandi. Þar kemur fram að varnaraðili hafi haldið til Íslands með vitneskju og samþykki pólskra yfirvalda og hafi aldrei farið huldu höfði eftir það. Þá segir einnig að dráttur sá sem orðinn er á málinu af hálfu pólskra yfirvalda vegna brots sem talið er framið í janúar 2001 sé slíkur að hann fari gegn ákvæðum 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en sáttmálinn er lögfastur í báðum löndunum. Taldi réttargæslumaðurinn að meðferð málsins hjá pólskum yfirvöldum, og drátturinn sem orðinn sé á því sé slíkur að rétt sé að líta til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafna fram kominni framsalskröfu auk þess sem hann vísar til 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Niðurstaða

Framsals er krafist á varnaraðila vegna rannsóknar sakamáls í Póllandi og er hið ætlaða brot talið framið á árinu 2001. Ætluð brot varnaraðila myndu varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en refsing samkvæmt því getur varðað fangelsi í allt að 6 ár. Ætluð brot varnaraðila eru því ekki fyrnd sbr. IX. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þótt verulegur dráttur sé á máli þessu af hálfu pólskra yfirvalda hefur hann ekki áhrif á niðurstöðu málsins, sbr. hæstaréttarmál nr. 456/2011. Ekkert er annað fram komið í málinu en að innanríkisráðherra hafi farið að lögum við úrlausn máls varnaraðila og eru því ekki efni til að hnekkja mati hans á því hvort skilyrði 7. gr. laga nr. 13/1984 séu uppfyllt, sbr. hæstaréttarmál nr. 407/2011. Að öllu ofanrituðu virtu og öðrum gögnum málsins eru uppfyllt skilyrði laga nr. 13/1984 um framsal varnaraðila og ber samkvæmt því að staðfesta ákvörðun um framsal hans til Póllands.

Réttargæsluþóknun Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 326.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði að meðtöldum virðisaukaskatti. Auk þessa greiði ríkisjóður lögmanninum 25.692 krónur vegna útlagðs kostnaðar hans.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun innanríkisráðherra frá 6. september 2011 um framsal varnaraðila X kt. [...] til Póllands er staðfest.

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 326.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði að meðtöldum virðisaukaskatti. Auk þess greiði ríkissjóður 25.692 krónur vegna útlagðs kostnaðar.