Hæstiréttur íslands

Mál nr. 359/1999


Lykilorð

  • Skattur
  • Jöfnunargjald
  • Endurgreiðsla
  • Fyrning


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. mars 2000.

Nr. 359/1999.

Dreifing ehf.

(Hreinn Loftsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Skattar. Jöfnunargjald. Endurgreiðsla. Fyrning.     

Í lok árs 1996 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að álagning 190% og 120% jöfnunargjalds af kartöflum og vörum unnum úr þeim, sem lagt var á samkvæmt heimild í reglugerð landbúnaðarráðherra, hefði verið ólögmæt. Félagið D, innflytjandi franskra kartaflna, höfðaði mál gegn íslenska ríkinu til endurgreiðslu vegna umræddrar gjaldtöku og gjaldtöku á grundvelli yngri reglugerðar sem kvað á um 90% jöfnunargjald. Með vísan til dóms Hæstaréttar frá árslokum 1998 var talið að fyrningarfrestur kröfu D væri fjögur ár, sbr. 5. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, og að hann hæfist við hverja greiðslu. D höfðaði mál til endurgreiðslu á ofgreiddum jöfnunargjöldum á hendur ríkinu í október 1997, en málinu var vísað frá héraðsdómi í júní 1998. Hann höfðaði síðan þetta mál í október 1998. Talið var að um sama sakarefni væri að ræða í málunum og ætti að miða upphafstíma fyrningarfrests við höfðun fyrra málsins. Þá var talið að ekki hefði verið sýnt fram á nauðsyn álagningar 90% jöfnunargjalds á innfluttar kartöflur, af ástæðum sem raktar yrðu til sjónarmiða um viðbrögð við innflutningi landbúnaðarvara á óeðlilega lágu verði. Var álagningin hvorki talin hafa samrýmst takmörkunum á heimild ráðherra né kvöðum um málefnalegan grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu og því hafi hún ekki farið að lögum. Var sú álagning jöfnunargjalds sem endurgreiðslukröfur lutu að því talin ólögmæt. Miðað var við að D hefði bætt álagningu ofan á verð vöru, sem jöfnunargjaldið hefði verið fellt inn í og hefðu viðskiptamenn hans greitt hærra verð fyrir vöruna sem nam jöfnunargjaldinu. Var D talinn hafa leitt verulegar líkur að því að samkeppnisstaða hans hefði raskast nokkuð vegna jöfnunargjaldsins og var hann talinn eiga rétt til endurgreiðslu gjaldsins að því marki, sem telja mætti næsta öruggt, að það hefði í raun ekki skilað sér til baka í verðlagningu vörunnar. Var ríkið dæmt til að greiða D hluta hins ofgreidda jöfnunargjalds.

                                                        

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. september 1999. Hann krefst þess, að stefndi greiði 89.005.433 krónur „eða lægri fjárhæð að mati dómsins“ með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 30. júní 1988 til greiðsludags. Til vara krefst hann vaxta af greindum fjárhæðum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar til mikilla muna og málskostnaður látinn falla niður.

Mörg ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Skiptir þar mestu bréf Hauks Gunnarssonar löggilts endurskoðanda 13. júlí 1999. Í bréfinu dregur endurskoðandinn saman helstu tölur úr ársreikningum áfrýjanda frá stofnun félagsins 1987 og þar til það lenti í gjaldþrotaskiptum og nauðasamningum í lok árs 1991. Segir þar, að meira en helmingur af sölu félagsins á þessum árum hafi verið sala á frönskum kartöflum. Þá hafi verndartollar verið lagðir á innfluttar franskar kartöflur og hafi af þeim sökum hvorki náðst eðlileg sala né framlegð á vöruna á þessu skeiði. Tilvitnaðir ársreikningar hafa einnig verið lagðir fram. Af hálfu stefnda hafa verið lagðar fram skýrslur um verðmætisáætlanir úr Árbók landbúnaðarins 1990-1995 og töflur úr verslunarskýrslum Hagstofu Íslands 1992-1996 um innfluttar vörur eftir tollskrárnúmerum og löndum.

I.

         Málavöxtum er skilmerkilega lýst í héraðsdómi. Með dómi Hæstaréttar           19. desember 1996 í máli þrotabús S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu, H.1996.4260, var komist að þeirri niðurstöðu, að álagning 190% og 120% jöfnunargjalds af kartöflum og vörum unnum úr þeim, sem lagt var á samkvæmt heimild í reglugerð nr. 223/1987 um þetta efni, eins og henni var breytt með  reglugerðum nr. 109/1988 og nr. 335/1989, hefði verið ólögmæt. Umrædd vara féll undir tollskrárnúmer 2004.1000, sem breyttist með tollskrá 1993 í 2004.1009. Í málinu krefst áfrýjandi endurgreiðslu vegna gjaldtöku stefnda samkvæmt þessari reglugerð með síðari breytingum auk reglugerðar nr. 468/1993, sem leysti hana af hólmi og kvað á um 90% jöfnunargjald af vörum samkvæmt þessu tollskrárnúmeri.

         Hið sérstaka jöfnunargjald var lagt á samkvæmt heimild í 2. tl. e-liðar 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. 1. gr. laga nr. 25/1986, og síðar d-lið 1. mgr. 30. gr. núgildandi búvörulaga nr. 99/1993, en hún var felld niður með lögum nr. 87/1995 um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Lög nr. 46/1985 veittu landbúnaðarráðherra víðtækar heimildir til afskipta af innflutningi á búvörum. Framangreint ákvæði heimilaði ráðherra að innheimta sérstakt jöfnunargjald af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim. Skyldi það greitt af tollverði vörunnar og renna í ríkissjóð, en nánari ákvæði um álagningu þess og gjaldskyldar vörur skyldi ráðherra setja í reglugerð. Mátti hann ákveða hæð gjaldsins allt að tilteknu hámarki og hafa um það tvo kosti. Var sá fyrri við það miðaður, að samanlagt tollverð og jöfnunargjald yrði ekki hærra en innlent heildsöluverð vörunnar, sem ákveðið væri af svokallaðri fimmmannanefnd samkvæmt 13.-15. gr. laganna. Síðari kosturinn átti við um þær vörur, sem ekki voru háðar slíkri verðlagsákvörðun og mátti gjaldið þá nema allt að 200% af tollverði.

II.

        Í framagreindum dómi var sagt, að jöfnunargjaldið yrði að teljast skattur í skilningi 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Væri lagaheimild til skattlagningarinnar bundin við skilgreindan tilgang laganna og hefði falist mikilvæg afmörkun í þeim skýringum, sem fram komu í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 25/1986 og umræðum á Alþingi. Svigrúm ráðherra til ákvörðunar um gjaldið innan hinna lögfestu marka hefði þannig ekki verið óheft. Með hliðsjón af þessu var ekki á það fallist, að í framangreindum lögum hefði falist óheimilt framsal löggjafans á skattlagningarvaldi. Við úrlausn þessa máls verður sérstaklega að hafa til hliðsjónar þær ástæður, sem Hæstiréttur taldi eiga að leiða til þess, að heimild í þágildandi búvörulögum um allt að 200% jöfnunargjald af innfluttum kartöflum gæti staðist.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 25/1986, er felldi hina umdeildu heimild inn í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 46/1985, er lýst þeim tilgangi búvörulaganna, að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu. Síðan segir: „Vegna náttúrufars og legu landsins er ekki unnt að tryggja nægjanlegt vöruframboð allt árið á vissum tegundum búvara, t.d. garðávöxtum, grænmeti og oft kartöflum. Verður því að flytja þessar vörur inn en í ýmsum tilvikum eru hinar erlendu vörur greiddar niður verulega af þarlendum stjórnvöldum. Þegar innlend framleiðsla er enn á markaði raskar innflutningur þessara vara því mjög samkeppnisaðstöðu innlendu framleiðslunnar og skerðir möguleika innlendra framleiðenda til að tryggja nægjanlegt vöruframboð í framtíðinni. Þessar aðstæður hafa m.a. gert þeim innlendu fyrirtækjum sem vinna úr kartöflum erfitt fyrir í samkeppni við niðurgreidda framleiðslu erlendis frá.“ Loks er í athugasemdunum sagt, að í tillögugreininni sé lagt til, að landbúnaðarráðherra verði veitt heimild til að leggja sérstakt jöfnunargjald á innfluttar kartöflur „sem lið í stjórn búvöruframleiðslunnar og því að ná fram áðurnefndum tilgangi laga nr. 46/1985.“

Þegar þáverandi landbúnaðarráðherra fylgdi frumvarpinu úr hlaði sagði hann, að tilgangur þess væri að jafna verð milli innlendrar og erlendrar framleiðslu og myndi álagið á innflutta vöru þá geta orðið til að lækka verð hinnar innlendu framleiðslu á móti, svo að heildarútkoma fyrir neytendur yrði hin sama. Framsögumaður meirihluta landbúnaðarnefndar sagði í umræðum á Alþingi, að kjarni röksemda fyrir jöfnunargjaldinu kæmi fram í athugasemdum með frumvarpinu. Þáverandi forsætisráðherra lagði í umræðunum á það áherslu, að frumvarpið væri eingöngu flutt til að heimild fengist til að vernda innlenda framleiðslu á kartöflum, þegar um óeðlilega verðfellingu væri að ræða á innflutningi.

Í málinu liggja fyrir þrjú bréf landbúnaðarráðuneytisins til ríkislögmanns vegna óska hans um gögn og upplýsingar, meðal annars um „jöfnunarþörf á þessum tíma, þ.á m. með tilliti til þess hve mikið vægi erlendar niðurgreiðslur höfðu á verðlag vörunnar sem gjaldið náði til.“ Í bréfi ráðuneytisins 23. október 1997 kemur fram, að forsendur þess, að jöfnunargjaldið á innfluttar franskar kartöflur var lækkað í 90% með reglugerð nr. 468/1993 hafi verið þær, að kanadísk stjórnvöld hefðu fundið að því, að lögð væru hærri verðjöfnunargjöld á umrædda vöru en samið hefði verið um af Íslands hálfu í hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti (GATT). Þótt þetta samkomulag hefði ekki verið skuldbindandi fyrir Ísland á þessum tíma, hafi ráðuneytið talið rétt að lækka gjaldið til samræmis við „GATT-bindingar“ á þessum vörum. Í bréfi sama ráðuneytis 8. desember 1998 er sagt um þessa breytingu, að ekki hefði verið talið unnt að fara eftir niðurgreiðslum í einstökum löndum. Ástæða þess hafi verið sú, að niðurgreiðslur í einstökum ríkjum væru allt frá því að vera mjög háar á alþjóðlegan mælikvarða til þess að vera nánast engar. Jöfnunargjöld væru í öllum tilvikum ákveðin sem verðmunur á heimsmarkaði og markaði innanlands, enda væri mismunur á heimsmarkaðsverði og verði vöru í hverju ríki besti mælikvarðinn á niðurgreiðslur í einstökum ríkjum. Sú ákvörðun að leggja 90% jöfnunargjald á franskar kartöflur væri í samræmi við það hámark, sem heimilt væri að nota á þessa vöru samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum um hámark tolla. Í bréfi landbúnaðarráðuneytisins 21. janúar 1999 sagði jafnframt, að eiginlegt heimsmarkaðsverð sé ekki til á vörum í umræddum tollflokkum, enda væri um unnar vörur að ræða. Hins vegar hafi íslenskt verð á ferskum kartöflum verið tvöfalt til fjórfalt hærra en erlent verð síðasta áratug. Ljóst sé, að verðmunur á ferskum kartöflum endurspegli skýrlega þá jöfnunarþörf, sem fyrir hendi sé, enda liggi ekkert fyrir um verðmun á öðrum þáttum í framleiðslukostnaði á þeim vörum, sem falli undir tilgreinda tollflokka. Sérlega lágur hráefniskostnaður fyrir erlenda framleiðendur þýði óhjákvæmilega, að hann sé lítill hluti framleiðslukostnaðar vöru. Það sýni, að þörfin fyrir jöfnun sé í innflutningi á ferskum kartöflum og öllum afurðum, sem unnar eru úr þeim.

III.

           Mál þetta er höfðað til endurgreiðslu ofgreidds fjár. Í dómi Hæstaréttar          10. desember 1998 í máli þrotabús S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu, H.1998.4180, var því slegið föstu, að fyrningarfrestur kröfu sem þeirrar, er hér er til meðferðar, væri fjögur ár, sbr. 5. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, og hann hæfist við hverja greiðslu. Áfrýjandi höfðaði mál til endurgreiðslu á ofgreiddum jöfnunargjöldum á hendur stefnda með stefnu birtri 30. október 1997. Var því máli vísað frá héraðsdómi með úrskurði 3. júní 1998. Hann höfðaði síðan mál það, sem hér er rekið, með stefnu 15. október 1998. Um sama sakarefni er að ræða og í fyrra málinu og ber að miða upphafstíma fyrningarfrests við höfðun þess, sbr. 11. gr. laga nr. 14/1905. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans, að krafa áfrýjanda allt til 30. október 1993 sé niður fallin fyrir fyrningu.

       Endurkrafa vegna hluta þess jöfnunargjalds, sem nam 120%, er ekki fyrnd samkvæmt framansögðu og krafa vegna 90% jöfnunargjalds er einnig ófyrnd. Ófyrndar kröfur áfrýjanda varða einnig að nokkru tollskrárnúmer, sem báru 50% og 100% gjald samkvæmt reglugerð nr. 335/1989 með síðari breytingum. Hélst það óbreytt eftir reglugerð nr. 468/1993. Varða kröfur áfrýjanda einnig jöfnunargjald þetta samkvæmt þeirri reglugerð. Miðað við áðurnefnt tímamark fyrningar, 30. október 1993, er ómótmælt, að endurgreiðslukröfur áfrýjanda nemi 20.628 krónum vegna 50% gjalds, 33.159.374 krónum vegna 90% gjalds, 136.359 krónum vegna 100% gjalds og 1.496.010 krónum vegna 120% gjalds eða samtals 34.812.371 krónu. Stefndi telur, að frá þessum fjárhæðum verði þá að draga 100.529 krónur vegna misræmis af völdum tvítekningar úttektarbeiðna og endurgreiðslna auk 352.856 króna vegna mánaðanna júlí og ágúst 1995.

IV.

Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar 19. desember 1996 var sagt, að ákvarðanir um álagningu 190% og síðar 120% jöfnunargjalds hefðu ekki verið skýrðar að marki. Afstaða stefnda hefði verið sú, að gjaldinu hefði verið ætlað að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu gagnvart erlendum framleiðendum. Þetta sjónarmið hafi þó aðeins verið eitt af mörgum, sem gæta hafi þurft, og framlagðar upplýsingar í málinu nægðu ekki einar sér til að skýra umrædda jöfnunarþörf. Þá lægju engar skýringar fyrir um tengsl gjaldsins við þau sjónarmið, sem sérstaklega komu fram á Alþingi 1986. Hafi meðal annars ekki verið lagðar fram upplýsingar um vægi erlendra niðurgreiðslna eða styrkja í verðlagi á þeim vörum, sem gjaldið náði til. Í dómi Hæstaréttar 22. maí 1998 í máli íslenska ríkisins gegn Reykjagarði hf., H.1998.2021, var sagt, að framlögð gögn í því máli skýrðu ekki, svo að neinu næmi, þörfina á hinu umdeilda jöfnunargjaldi nánar en þær upplýsingar, sem lágu fyrir, þegar dómur gekk í fyrrnefndu máli 19. desember 1996.

Ekki verður talið, að í þessu máli hafi verið lögð fram skýrari gögn en áður um þörf á 90% jöfnunargjaldi af innfluttum kartöflum, þegar horft er til þeirra sjónarmiða, sem einkum voru talin geta réttlætt skattlagningu landbúnaðarráðherra með hliðsjón af athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 25/1986 og umræðum á Alþingi um það. Þannig hefur ekki verið sýnt fram á, að innfluttar kartöflur hafi verið niðurgreiddar af erlendum stjórnvöldum og engra gagna nýtur heldur um það, að um óeðlilega verðfellingu á þessari vöru hafi verið að ræða. Verður meðal annars ekki séð, hvort eða að hvaða marki slíkar ráðstafanir í öðrum löndum hafi skipt máli við samningsgerð um þær alþjóðlegu skuldbindingar í tollamálum, sem Ísland hafði gengist undir. Af framangreindum bréfum landbúnaðarráðuneytisins til ríkislögmanns kemur og ekki fram, að vægi erlendra niðurgreiðslna eða styrkja hafi verið ráðandi í ákvörðunum um hlutfall jöfnunargjaldsins. Fara skýringar ráðuneytisins í framangreindum bréfum í bága við helsta rökstuðning á Alþingi fyrir heimild til álagningar gjaldsins, sem áður er lýst.

         Þegar allt er virt, sem fram er komið, verður gagnáfrýjandi ekki talinn hafa sýnt fram á, að til álagningar 90% jöfnunargjalds á innfluttar kartöflur hafi verið nauðsyn af ástæðum, sem raktar verða til sjónarmiða um viðbrögð við innflutningi landbúnaðarvara á óeðlilega lágu verði. Verður álagningin því ekki talin hafa samrýmst þeim takmörkunum, sem heimild ráðherra voru settar, og þeim kvöðum um málefnalegan grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu, sem gæta varð. Álagning jöfnunargjalds samkvæmt reglugerð nr. 468/1993 fór þannig ekki að lögum.

         Á sama tíma og jöfnunargjald af vörum í tollskrárnúmeri 2004.1000 var hækkað í 190% var gjald af vörum í tollskrárnúmerum 0710.1000 og 2005.2000 hækkað í 50% og 100%. Var hér annars vegar um að ræða gufusoðnar eða forsoðnar kartöflur, frystar, og hins vegar forsoðnar kartöflur í lofttæmdum umbúðum með takmörkuðu geymsluþoli. Áfrýjandi hefur ekki gert nægjanlega skýra grein fyrir því í málinu, að sömu sjónarmið eigi við um þessar vörur og þær vörur, sem hið ólögmæta jöfnunargjald var lagt á samkvæmt framansögðu. Getur þessi hluti kröfugerðar hans því ekki komið til frekari skoðunar.

VI.

              Samkvæmt framansögðu var ólögmæt sú álagning jöfnunargjalds á innflutning áfrýjanda, sem endurgreiðslukröfur hans lúta að og varða álagningu 90% og 120% jöfnunargjalds, en áður er því hafnað, að hann geti krafið stefnda um endurgreiðslu þess hluta gjaldanna, sem greiddur var fyrir 30. október 1993. Nemur fjárhæð ofgreiddra jöfnunargjalda, sem hér er til skoðunar, þannig 34.201.999 krónum. 

             Eftir málflutningi áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður við það að miða, að hann hafi leyst vöruna úr tolli eftir því, hvenær það hentaði honum, og að álagningu hafi verið bætt ofan á verð vöru, sem jöfnunargjaldið hafði verið fellt inn í. Viðskiptamenn hans hafi því greitt hærra verð fyrir vöruna sem nam jöfnunargjaldinu. Áfrýjandi heldur því aftur á móti fram, að vegna álagningar jöfnunargjaldsins og þeirra ráðstafana, sem samkeppnisaðilar hans hefðu gripið til í því skyni að komast hjá greiðslu þess, hafi samkeppnisstaða hans versnað, en hann hafi ekki gripið til sams konar úrræða. Hefur hann lagt fram gögn þessu til styrktar, en innflutningur franskra kartaflna var verulegur hluti af veltu áfrýjanda. Þegar litið er til þessara gagna, sem stefndi hefur ekki hrakið, þykir áfrýjandi hafa leitt verulegar líkur að því, að samkeppnisstaða hans hafi raskast nokkuð vegna jöfnunargjaldsins. Þar sem ekki var gætt lögmætra skilyrða við álagningu þess þykir áfrýjandi eiga rétt til endurgreiðslu gjaldsins að því marki, sem telja má næsta öruggt, að það hafi ekki í raun skilað sér til baka í verðlagningu vörunnar. Þetta mat er örðugt og hlýtur að fara að álitum. Eftir öllum atvikum þykir hæfilegt, að stefndi endurgreiði áfrýjanda 9.500.000 krónur af hinu ofgreidda jöfnunargjaldi, sem til álita er. Rétt þykir, að hin dæmda fjárhæð beri dráttarvexti frá þingfestingu málsins í héraði, sbr. 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 67/1989.

         Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                              Dómsorð:

            Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Dreifingu ehf., 9.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. október 1998 til greiðsludags og 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. þessa mánaðar, er höfðað með stefnu, áritaðri um móttöku 15. október 1998.

 Stefnandi er Dreifing ehf., kt. 490287-1599, Vatnagörðum, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Stefnandi gerir svofelldar dómkröfur:

1. Að stefndi greiði stefnanda 89.005.433 krónur, eða lægri fjárhæð að mati dómsins, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, ásamt síðari breytingum, samkvæmt töflu hér að neðan. Dráttarvaxta er krafist til greiðsludags, frá síðasta degi hvers mánaðar af þeirri fjárhæð, sem greind er í reitnum fyrir aftan mánuðinn.

Júní 1988

29.712 kr.

ág. 1990

11.273.972 kr.

júlí 1988     

226.243 kr.

sept. 1990

11.858.079 kr.

ág. 1988

1.733.963 kr.

okt. 1990

12.541.275 kr.

sept. 1988

2.392.614 kr. 

nóv. 1990

13.094.542 kr.

okt. 1988

2.700.794 kr

des. 1990

13.582.346 kr.

nóv. 1988

3.733.483 kr.

jan. 1991

14.005.015 kr.

des. 1988

4.633.112 kr. 

feb. 1991

14.459.731 kr.

jan. 1989

5.006.344 kr.

mars 1991

14.946.772 kr.

feb. 1989

5.596.641 kr.

apr. 1991

15.394.272 kr.

mars 1989

5.681.392 kr.

maí 1991

15.955.313 kr.

apr. 1989

5.702.594 kr.

júní 1991

16.464.545 kr.

sept. 1989

5.837.798 kr.

júlí 1991

17.173.957 kr.

okt. 1989

5.936.637  kr.

ág. 1991

17.699.733 kr.

nóv. 1989

6.048.134 kr.

sept. 1991

18.081.177 kr.

des. 1989

6.079.277 kr.

okt. 1991

18.414.199 kr.

jan. 1990

6.143.183 kr.

nóv. 1991

18.720.432 kr.

feb. 1990

6.229.054 kr.

des. 1991

19.084.565 kr.

mars 1990

6.566.661 kr.

jan. 1992

19.450.413 kr.

apr. 1990

7.156.668 kr.

feb. 1992

19.876.264 kr.

maí 1990

8.347.531 kr.

mars 1992

20.556.973 kr.

júní 1990

8.795.723 kr.

apr. 1992

21.200.813 kr.

júlí 1990

10.250.056 kr.

maí 1992

22.069.776 kr.

júní 1992

22.924.596 kr.

mars 1994

61.962.529 kr.

júlí 1992

24.302.561 kr.

apr. 1994

63.279.272 kr.

ág. 1992

25.331.798 kr.

maí 1994

64.726.667 kr.

sept. 1992

26.854.809 kr.

júní 1994

66.525.819 kr.

okt. 1992

29.107.234 kr.

júlí 1994

68.613.447 kr.

nóv. 1992

31.476.765 kr.

ág. 1994

70.687.783 kr.

des. 1992

34.422.954 kr.

sept. 1994

72.842.851 kr.

jan. 1993

34.816.247 kr.

okt. 1994

74.449.833 kr.

feb. 1993

36.342.447 kr.

nóv. 1994 

75.933.149 kr.

mars 1993

37.862.466 kr.

des. 1994

77.290.063 kr.

apr. 1993

39.533.329 kr.

jan. 1995

78.493.989 kr.

maí 1993

41.570.933 kr.

feb. 1995

80.003.225 kr.

júní 1993

44.093.847 kr.

mars 1995

82.125.524 kr.

júlí 1993

46.971.240 kr.

apr. 1995

83.999.864 kr.

ág. 1993

49.605.961 kr.

maí 1995

86.253.386 kr.

sept. 1993

51.968.537 kr.

júní 1995

88.652.576 kr.

okt. 1993

54.186.939 kr.

júlí 1995

88.966.735 kr.

nóv. 1993

56.207.920 kr.

ág. 1995

89.005.433 kr.

des. 1993

57.985.186 kr.

 

 

jan. 1994

59.097.343 kr.

 

 

feb.1994

60.389.116 kr.

 

 

 

Til vara er krafist vaxta af greindum upphæðum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga fyrir þann tíma, sem dráttarvextir yrðu ekki dæmdir.

2. Jafnframt er þess krafist, að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, allt í samræmi við 12. gr. vaxtalaga.

3. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins, en til vara, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

I.

Málsatvik.

Stefnandi er innflutningsfyrirtæki og hefur um 30 ára skeið flutt inn til landsins fjölbreytt úrval af vörum unnum úr kartöflum. Að stærstum hluta er um að ræða vöru frá fyrirtækinu McCain Foods, Ltd., Florenceville, New Brunswick í Kanada. Sérstakt jöfnunargjald, eða svokallað U-gjald, var fyrst lagt á þennan innflutning fyrirtækisins með reglugerð nr. 289/1986. Studdist gjaldtakan við 2. tl. e-liðar 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, svonefndra búvörulaga, sbr. 1. gr. 1aga nr.  25/1986, en þar kom fram, að landbúnaðarráðherra væri heimilt að innheimta sérstakt jöfnunargjald af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim. Skyldi það greitt af tollverði hinnar innfluttu vöru og renna í ríkissjóð, en nánari ákvæði um álagningu þess og gjaldskyldar vörur skyldi ráðherra setja í reglugerð. Mátti hann ákveða hæð gjaldsins allt að tilteknu hámarki og hafa um það tvo kosti. Var hinn fyrri þannig, að samanlagt tollverð og jöfnunargjald yrði ekki hærra en innlent heildsöluverð vörunnar, sem ákveðið væri af svokallaðri fimmmannanefnd samkvæmt 13.-15. gr. laganna. Síðari kosturinn átti við um þær vörur, sem ekki voru háðar slíkri verðlagsákvörðun, og mátti gjaldið þá nema allt að 200% af tollverði. Samkvæmt frumvarpi að greindu ákvæði laganna miðaðist heimild til álagningar gjaldsins við þær aðstæður, að niðurgreiðslur erlendis röskuðu samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu.

Samkvæmt reglugerð nr. 289/1986 voru gjaldskyldar vörur þar taldar eftir tollskrárnúmerum og gjald af nýjum eða kældum kartöflum ákveðið 50%, en 40% af unnum vörum. Með reglugerð nr. 451/1986 var því bætt við, að vörurnar væru undanþegnar gjaldi í því tilviki, að þær væru fluttar inn sem hráefni til umtalsverðrar innlendrar framleiðslu. Í maí árið eftir var sett ný reglugerð, nr. 223/1987. Samkvæmt henni var sá vöruflokkur, sem borið hafði 50% gjald, felldur brott, þannig að gjaldið var 40% af öllum vörum, sem þar voru taldar upp. 1. gr. þeirrar reglugerðar var breytt með reglugerð nr. 1/1988 frá 5. janúar, þannig að önnur tollflokkanúmer komu í stað hinna eldri, en ekki var hróflað við sjálfu gjaldinu.

Með reglugerð nr. 109 frá 26. febrúar 1988 gerði landbúnaðarráðherra víðtækar efnisbreytingar á 1. gr. reglugerðarinnar. Var gjald af níu vöruflokkum hækkað í 50% og tveimur í 100%, en í tollflokki 2004.1000 var gjaldið ákvarðað 190%. Það jöfnunargjald hélst til júnímánaðar næsta ár, en þá var gjald af vöru í tollflokki 2004.1000 lækkað í 120%. Gjaldið hélst óbreytt fram að gildistöku nýrrar heildarreglugerðar nr. 468/1993, er gjald af vörunni og nokkrum öðrum var ákvarðað 90%. Nemur sú gjaldhæð því hámarki, sem við er talið eiga samkvæmt ákvæðum Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti (GATT).

Nánari lýsing og flokkun á greindum innflutningi stefnanda, ásamt tilgreiningu viðeigandi tollskrárnúmera, er sem hér segir:

            (1)Tollskrárnúmer 0710-1000. Gufusoðnar eða forsoðnar kartöflur, frystar. Notkun þessarar

vörur hefur verið sem meðlæti í matvælaframleiðsluiðnaði (ORA) og einnig sem meðlæti á diskum

veitingahúsa eða mötuneyta eftir hitunaraðferð.

Gjöld:    U-40% U1-50% U1-50%

Tímabil: 5/1 1988 26/2 1988 22/11 1993

Rg. nr. 1/1988  109/1988    468/1993

(2) Tollskrárnúmer 0712-1000. Þurrkaðar, sneiddar eða þurrkaðar kartöflur. Notkun þeirra hefur verið í iðnaðarframleiðslu og frekari matreiðslu.

Gjöld:    U-40% U1-50% U1-50%

Tímabil: 5/1 1988 26/2 1988 22/11 1993

Rg nr. 1/1988 109/1988468/1993

(3) Tollskrárnúmer 2004-1000 breyttist í tollskrá 1993 í 2004-1009. Ræmuskornar forsteiktar kartöflur (franskar kartöflur) einnig síðar allar kartöfluvörur, sem hlotið hafa olíumeðferð samkvæmt úrskurði tollyfirvalda frá 1990. Um er að ræða fjölbreytilegt úrval skorinna og unninna kartafla. Allar vörurnar þurfa lokahitun fyrir neyslu. Notkun þessarar vöru er aðallega í stóreldhúsum, hótelum, veitingahúsum, skyndibitastöðum og einnig eru smásölupakkningar seldar í verslunum.

Gjöld: U-40% U3-190% U3-120% U2-90%

Tímabil:  5/11 98826/2 1988 26/6 1989 22/11 1993

Rg. nr.     1/1988109/1988 335/1989 468/1993

(4) Tollskrárnúmer 2005-2000 breyttist í tollskrá 1993 í 2005-2009. Forsoðnar kartöflur í lofttæmdum umbúðum, kældar með takmörkuðu geymsluþoli í u.þ.b. 90 daga. Notkun þessarar vöru er aðallega á sjúkrahúsum, mötuneytum hótela og almennum veitingahúsum. Einnig er varan notuð við salatgerð og annan matvælaiðnað og framleiðslu.

Gjöld: U-40% U2-100% U2-90%

Tímabil: 5/1 1988 26/2 1988 22/11 1993

Rg. nr. 1/1988 109/1988 468/1993

(5) Tollskrárnúmer 1105-2009. Kartöfluduft með kaseinbindiefni. Notkun er aðallega í matvælaiðnaði og stóreldhúsum til frekari matvælagerðar og lögunar á kartöflumauki.

Gjöld: U-40% U1-5O% U1-50%

Tímabil: 5/11988 26/21988 22/111993

Rg. nr. 1/1988 109/1988 468/1993

(6) Tollskrárnúmer 2005-2001. Kartöfluduft með íbættri mjólk (Compl.Mix). Þetta er sama vara og í 1105-1009 með íblönduðu mjólkurdufti og bragðefnum og nánast aðeins íbætt vatni við lokamatgerð. Sama notkun og í 1105-1009 og einnig notað í sérstakri mótun sem ,,croquettes”sem þá er einnig húðuð með brauðmylsnu.

Gjöld: U2-90%

Tímabil: 22/11 1993

Rg. nr. 468/1993

Innflutningur sá, sem mál þetta varðar, var að langstærstum hluta kartöflur og vörur unnar úr þeim, sem flokkuðust samkvæmt tollskrárnúmerum 710-1000 (U1-50%) annars vegar og 2004-1000 (U3 190%, þá 120% og loks U2 90%) hins vegar. Frá 1993 heitir þessi síðari flokkur 2004-1009.

 Stefnandi greiddi jöfnunargjaldið með skilum. Á hinn bóginn var hann engan veginn sáttur við gjaldtökuna og taldi hana afar óréttláta. Af þeim sökum bar hann fram kvörtun við umboðsmann Alþingis í janúar 1989, þar sem hann meðal annars dró í efa heimildina til álagningar hins sérstaka jöfnunargjalds, sem mál þetta varðar. Álit umboðsmanns Alþingis (mál nr. 85/1989) felur hins vegar í sér þá niðurstöðu, að gjaldið ætti sér ótvíræða lagastoð. Segir umboðsmaður orðrétt í áliti sínu: ,, ... Að mínum dómi hefur ekki komið neitt fram um það, að ólögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar álagningu jöfnunargjalds samkvæmt nefndum reglugerðum. Sérstaklega skal tekið fram, að svonefnt GATT-samkomulag hefur hvorki lagagildi hér á landi né er því ætlað að stofna beinlínis til réttinda til handa einkaaðilum.”

Með dómi Hæstaréttar 19. desember 1996 í málinu nr. 427/1995: Þrotabú S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu var 190% og 120% jöfnunargjald af umræddri vöru dæmt ólögmætt. Með dómi Hæstaréttar 22. maí 1998 í málinu nr. 389/1997: Íslenska ríkið gegn Reykjagarði hf. var hafnað frekari skýringum og gögnum ríkisins varðandi þörf á jöfnun og þannig staðfest niðurstaða fyrrnefnda dómsins um ólögmæti gjaldsins. Var einnig komist að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki á valdi dómstóla að ákveða annað hlutfall jöfnunargjalds í stað þeirrar ákvörðunar, sem metin væri ógild.

Stefnandi sendi stefnda bréf 3. júní 1997, þar sem krafist var endurgreiðslu hins ólögmæta gjalds. Með svarbréfi, dagsettu 7. júlí 1997, hafnaði stefndi því að taka afstöðu til kröfunnar að svo stöddu. Stefnandi höfðaði síðan mál á hendur stefnda með  stefnu, útgefinni 30. október 1997, og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 4. nóvember 1997. Með úrskurði 3. júní 1998 var málinu vísað frá dómi vegna vanreifunnar. 

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að greiðslur hans á sérstöku jöfnunargjaldi samkvæmt reglugerð nr. 223/1987 með síðari breytingum og reglugerð nr. 468/1993 hafi grundvallast á ógildum skattlagningarheimildum og beri stefnanda því endurgreiðsla, ásamt dráttarvöxtum. Styðjist krafa stefnanda við almennar reglur íslensks kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár.

 Með reglugerð nr. 109/1988 og 335/1989 hafi ráðherra farið út fyrir takmörk þeirrar heimildar, sem honum hafi verið veitt í 2. tl. e-liðar 1. mgr. 30. gr. 1. 46/1985 og ekki virt þær kvaðir um málefnalegan grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu, sem gæta hafi orðið, svo notað sé orðalag Hæstaréttar í dóminum frá 19. desember 1996. Í honum hafi verið staðfest, að gjaldtaka samkvæmt greindum reglugerðum hafi verið ólögmæt. Hafi niðurstaða Hæstaréttar meðal annars byggst á því, að þau löggjafarsjónarmið, sem lágu til grundvallar lagaheimildinni, hafi ekki verið virt, þegar gjaldið var ákveðið svo hátt sem raun bar vitni. Reglugerðirnar hafi því skort lagaheimild og setning þeirra þar með brotið í bága við 40. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. þágildandi 77. gr. hennar. Á því er byggt, að álagning hins sérstaka jöfnunargjalds samkvæmt tilgreindum tollskárnúmerum í greindum reglugerðum varðandi innflutning á kartöflum og vörum úr þeim hafi verið háð sömu annmörkum í öllum vöruflokkum, sem gjaldtakan varðaði. Telur stefnandi, að varðandi ógildi reglugerðanna sé dómur Hæstaréttar í greindu máli bindandi fyrir aðila í máli þessu. Sé þetta staðfest í áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 22. maí 1998, þar sem segi, að við niðurstöðu dóms Hæstaréttar í málinu frá 19. desember 1996 verði ekki hreyft. Varðandi það, að skilyrði hafi ekki verið fyrir hendi til setningar reglugerðanna, hafi dómur Hæstaréttar fullt sönnunargildi, sbr. 4. mgr. 116. gr. eml. 91/1991.

 Auk framangreindra röksemda er byggt á eftirfarandi rökum varðandi ólögmæti þeirra reglugerða um sérstakt jöfnunargjald á kartöflur, sem stefna þessi tekur til.

Með reglugerð nr. 223/1987 og síðari breytingum á henni hafi ráðherra farið út fyrir takmörk þeirrar heimildar, sem honum hafi verið veitt í 2. tl. e-liðar l. mgr. 30. gr. laga nr. 46/1985, og ekki virt þær kvaðir um málefnalegan grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu, sem gæta hafi orðið. Heimild ráðherra til álagningar hins sérstaka jöfnunargjalds hafi verið bundin við skilgreindan tilgang laga nr. 25/1986, sem gjaldið sótti heimild sína í, og laga nr. 46/1985, sem þau fyrrnefndu breyttu, sbr. athugasemdir við frumvarp og umræður um lög nr. 25/1986. Í þeim lögskýringargögnum telji Hæstiréttur hafa falist mikilvæga afmörkun á beitingu heimildar til álagningar jöfnunargjalds.

Með hinu sérstaka jöfnunargjaldi hafi ekki verið unnið að tilgangi laganna. Gjaldið hafi virkað samkeppnishamlandi á erlendar kartöflur og því líklega stuðlað að óhagkvæmni hjá íslenskum framleiðendum samkvæmt alþekktum lögmálum hagfræðinnar. Neytendur hafi einnig borið skarðan hlut frá borði, enda hafi þeir þurft að greiða mun hærra verð fyrir vörur, sem báru jöfnunargjaldið, en áður hafði verið.

Tilgangur laga nr. 25/1986 komi fram í greinargerð með frumvarpinu til þeirra laga, en þar segi:

,,Vegna náttúrufars og legu landsins er ekki unnt að tryggja nægjanlegt vöruframboð allt árið á vissum tegundum búvara, t. d. garðávöxtum, grænmeti og oft kartöflum. Verður því að flytja þessar vörur inn en í ýmsum tilvikum eru hinar erlendu vörur greiddar niður verulega af þarlendum stjórnvöldum. Þegar innlend framleiðsla er enn á markaði raskar innflutningur þessara vara því mjög samkeppnisaðstöðu innlendu framleiðslunnar og skerðir möguleika innlendra framleiðenda til að tryggja nægjanlegt vöruframboð í framtíðinni.”

Vægi niðurgreiðslna og styrkja, almennt séð, í verðlagi hinna innfluttu vara hafi verið hverfandi og stefndi ekki sýnt fram á jöfnunarþörf varðandi neinn þann innflutning stefnanda, sem hér er til umfjöllunar. Framleiðsla McCain Foods Ltd. í Kanada hafi ekki og sé ekki niðurgreidd eða styrkt af þarlendum stjórnvöldum.

Þrátt fyrir að verðmunur kunni að hafa verið á innlendum og erlendum kartöflum, réttlæti hann einn ekki sérstakt jöfnunargjald, enda hafi heimild til álagningar þess verið bundin við leiðréttingu vegna niðurgreiðslna eða styrkja. Staðreyndin sé hins vegar sú, að engar niðurgreiðslur hafi tíðkast á kartöflum allt frá 1971, hvorki í Norður-­Ameríku né Evrópu. Þar sem erlendum niðurgreiðslum hafi ekki verið fyrir að fara hafi útreikningur jöfnunar­gjaldsins byggst á ólögmætum forsendum.

Með því að leggja mismunandi gjöld á aðila í sambærilegri stöðu hafi setning ofangreindra reglugerða jafnframt brotið í bága við áður ólögfesta meginreglu íslensks stjórnskipunar­réttar um jafnræði borgaranna, sbr. núgildandi 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Verði komist að þeirri niðurstöðu, að álagning hins sérstaka jöfnunargjalds hafi ekki brotið í bága við lög nr. 46/1985, sbr. 1ög nr. 25/1986, er á því byggt, að svo umfangsmikið framsal og raun bar vitni í þeim lögum, þ.e. heimild til að ákveða gjaldhæðina allt að 200%, hafi brotið gegn 40. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. þágildandi 77. gr. hennar.

 Hinn 8. september 1993 hafi 1ög nr. 46/1985, ásamt síðari breytingum, verið endurútgefin sem lög nr. 99/1993. Í framhaldi af því hafi verið sett ný reglugerð um hið sérstaka jöfnunargjald nr. 468/1993 og hún leyst reglugerð nr. 223/1987, ásamt síðari breytingum, af hólmi. Óveruleg efnisbreyting hafi orðið á gjaldtökunni með hinni nýju reglugerð, nema hvað gjald af frönskum kartöflum hafi lækkað úr 120% í 90% og sömuleiðis hafi gjald lækkað á nokkrum öðrum kartöfluafurðum úr 100% í 90%. Með þessari formbreytingu hafi engin breyting orðið á grundvelli gjaldtökunnar. Sem fyrr hafi hún þurft að vera byggð á löggjafarsjónarmiðum að baki setningu laga nr. 46/1985 og 25/1986. Ekkert liggi fyrir um, að við setningu reglugerðar nr. 468/1993 hafi verið fyrir hendi jöfnunarþörf, sem nam 90%, enda hafi ekki þá, frekar en fyrr, verið um erlendar niðurgreiðslur að ræða. Þrátt fyrir að gjaldtakan kunni að hafa verið innan þeirra marka, sem GATT-samningurinn setti íslenskum stjórnvöldum, breyti það engu, enda sé sá samningur ekki gild skattlagningarheimild að íslenskum rétti.

Stefnandi byggir á því, að krafa hans sé ekki fyrnd að neinu leyti. Samkvæmt fyrningar­lögum nr. 14/1905 verði krafa stefnanda í fyrsta lagi talin gjaldkræf 19. desember 1996, þ.e. er frá uppkvaðningardegi dóms Hæstaréttar í málinu nr. 427/1995. Þá fyrst hafi verið staðfest, að grundvöllur greiðsluskyldu stefnanda á jöfnunargjaldinu væri ólögmætur, en fram að þeim tíma hafi gjaldtaka ríkisins verið byggð á formlega réttri heimild.

Þá bendir stefnandi á, að hann hafi gert allt, sem með sanngirni megi krefjast af almennum borgurum til að mótmæla gjaldtökunni. Þar á meðal hafi hann leitað til umboðs­manns Alþingis árið 1989, en kvörtun hans ekki hlotið hljómgrunn.

Ennfremur er á því byggt, að 7. gr. 1aga nr. 14/1905 eigi við, þar sem fram komi, að ef skuldari dregur sviksamlega dul á, eða vanrækir að skýra frá atvikum, er krafan byggist á, byrji fyrningarfrestur að líða þann dag, er kröfuhafinn fékk vitneskju um þau atvik. Stefnda hafi verið skylt að skýra stefnanda frá því, að gjaldtaka stefnda væri ólögmæt, en iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra og embættismenn í fjármálaráðuneytinu hafi vitað, að gjaldtakan væri byggð á afar vafasömum forsendum.

Verði ekki fallist á, að 7. gr. eigi við samkvæmt orðanna hljóðan, byggir stefnandi á því, að rétt sé að skýra hana rýmkandi lögskýringu. Ef sú staða, sem uppi er í máli þessu, hefði verið í ,,huga” löggjafans við setningu fyrningarlaga, sé ólíklegt annað, en að löggjafinn hefði látið sambærilega reglu og 7. gr. gilda um slíkar kröfur. Ekki verði talið, að það löggjafar­sjónarmið hafi verið ráðandi, að girða skyldi svo fyrir lögmætar endurkröfur borgaranna á hendur ríkinu, að ómögulegt yrði fyrir þá að leita réttar síns, eins og hér kynni að vera um að ræða, yrði fyrningarfrestur talinn hefjast við upphaflegan greiðsludag gjaldsins.

 Verði rýmkandi lögskýring ekki talin eiga við, byggir stefnandi á því, að lögjöfnun frá ákvæði 7. gr. leiði til þeirrar niðurstöðu, að fyrningarfrestur hafi ekki byrjað að líða fyrr en 19. desember 1996. Ekki séu rök til annars en að láta mál þetta, sem eigi efnislega samstöðu með þeim dæmum, sem getið er í 7. gr., lúta annarri reglu, en þar kemur fram.

Jafnræðisregla íslensks réttar leiði einnig til þess, að fyrningarfrestur hefjist 19. desember 1996. Það sé ófært, að þeim ,,löghlýðnu”sé refsað fyrir að haga sér í samræmi við fyrirmæli ríkisvaldsins, þegar aðrir fái gjöld niðurfelld, þegar gjaldtakan hefur verið úrskurðuð ólögmæt í málum, sem komi til vegna vangreiðslu viðkomandi á umræddum gjöldum. Orsök þeirra mála sé að minnsta kosti í sumum tilfellum röng tilgreining innflytjenda á innkaupsverði vöru. Væri óeðlileg niðurstaða, ef slíkt refsivert athæfi leiddi til hagstæðari niðurstöðu, en greiðsla gjaldsins með skilum.

Jafnframt er á því byggt, að fyrningarfrestur endurkröfu stefnanda sé tíu ár, sbr. aðalreglu fyrningarlaga nr. 14/1905, sem fram komi í 2. tölul. 4. gr.

Með bréfi fjármálaráðuneytisins, dagsettu 11. júlí 1997, hafi því verið lýst yfir, að ekki yrði borið við fyrningu gagnvart Ekrunni hf., sem eigi í svipuðu máli og stefnandi við stefnda, frá 9. apríl 1997. Stefndi telji, að á grundvelli jafnræðisreglna hljóti þessi dagsetning að marka rof fyrningarfrests í máli þessu. Til vara er byggt á upphaflegum stefnubirtingardegi, 30. október 1997.

 Með vísan til III. kafla vaxtalaga telur stefnandi, að dráttarvexti beri að greiða frá þeim tíma, er hin ólögmætu gjöld voru innt af hendi. Er sérstaklega vísað til 9. gr., sem annað hvort eigi við samkvæmt efni sínu eða lögjöfnun. Endurgreiðsluskylda stefnda skapist, þegar hin ólögmæta gjaldtaka fer fram. Gera verði þá kröfu til handhafa ríkisvalds, að þeim séu ljós takmörk sín. Þeir eigi að þekkja lögin og fara eftir þeim. Stefnda hafi borið að hafa frumkvæði að endurgreiðslu, sbr. reglu þá, er nú hafi verið staðfest í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Þá hafi stefnandi mótmælt gjaldtökunni frá upphafi. Verði ekki talið, að 9. gr. eigi við samkvæmt efni sínu, byggir stefnandi á lögjöfnun frá þeirri grein, enda sé aðstaðan sambærileg og alls ekki ósanngjarnt, að stefndi greiði dráttarvexti vegna ólögmætrar innheimtu sinnar. Borgararnir eigi að geta treyst því, að innheimta opinberra gjalda sé lögmæt og eigi stefndi að bera hallann af því, ef svo er ekki.

Varakrafa um vexti hljóði upp á vexti samkvæmt 7. gr. 1aga nr. 25/1987 frá þeim dagsetningum, sem dráttarvaxta er krafist, til þeirrar dagsetningar, sem dráttarvextir yrðu dæmdir. Til hagræðis sé vaxtafótarins fyrir hvert tímabil ekki getið í kröfugerð í stefnu, enda fullkomlega óljóst yfir hve langan tíma þyrfti að geta hans, auk þess sem upptalningin væri löng og þjónaði ekki hagsmunum réttarins af skilríkri kröfugerð. Þess í stað sé látin fylgja tafla yfir þessa vexti á sérstöku skjali, sem ætti að vera fullnægjandi.

 Krafa stefnanda nái yfir tímabilið júní 1988 - ágúst 1995. Samtölur hinna ólögmætu gjalda séu greindar í kröfugerð. Til einföldunar séu greiðslur innan hvers mánaðar teknar saman og endurgreiðslu krafist frá síðasta degi þess mánaðar. Sé þessi niðurstaða til hagsbóta fyrir stefnda, hvað varðar útreikning dráttar­vaxta.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda.

 Stefndi gerir athugasemdir og ábendingar við málatilbúnað stefnanda og atriði, sem kynnu að valda því, að málinu beri að vísa frá dómi ex officio. Kröfur stefnanda séu til endurgreiðslu á 89.005.433 krónum og byggðar á reglum kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Sé um að ræða háar fjárhæðir, sem saman standi af mörgum atvikum og greiðslum aðflutningsgjalda. Í máli nr. E-5063/1997, sem vísað var frá dómi með úrskurði 3. júní 1998, hafi stefnandi gert kröfur um greiðslu á 107.446.762 krónum. Mismunur fjárhæða virðist meðal annars stafa af kröfum að fjárhæð 10.610 893 krónur, sem nú séu hafðar uppi í öðru máli. Að öðru leyti sé ófært að sjá af hvaða orsökum munurinn sé svo mikill. Í því máli hafi engin gögn verið lögð fram, sem hafi getað sýnt greiðslu gjalda. Í máli þessu virðist að nokkru hafa verið bætt úr, en stefnandi hafi lagt fram innsetningarskýrslur og tengt þær við úttektarbeiðnir. Á úttektarbeiðnum sjáist óljós merki um, að greitt hafi verið í banka, en tollafgreiðslur hafi farið fram í tollvörugeymslu. Að því undanskildu, að grunngögn um innflutning og úttektir hafi verið lögð fram, eigi í raun öll atriði við, sem valdið hafi frávísun málsins nr. E-5063/1997, en stefnandi hafi kosið að gera samantekt á fjárhæðum innan hvers mánaðar, en þar hafi vörur verið flokkaðar eftir því hve álagning jöfnunargjalds var há. Grundvallaratriði við reifun máls um endurgreiðslu krafna hljóti að vera það, að upplýst sé, hvaða dag var greitt og hve mikið. Skýr greiðslukvittun úr bókhaldi sé því það skjal, sem hljóti að ráða úrslitum. Séu engin réttarfarsleg skilyrði til að leggja á stefnda að leysa úr svo mikilli talnaþraut, sem mál þetta sé. Með vísan til þessa sé bent á, að málið kunni að vera svo vanreifað, að það sé ekki tækt til úrlausnar. Þar sem langur tími sé liðinn frá greiðslu gjaldanna og óskýr grein sé gerð fyrir kröfum, sé óhjákvæmilegt af hálfu stefnda að mótmæla þeim sem órökstuddum, þannig að sýkna beri. 

 Af dómi Hæstaréttar í máli þrotabús S. Óskarssonar og Co. hf. frá 19. desember 1996 í málinu nr. 427/1995 verði ráðið, að svigrúm landbúnaðarráðherra til álagningar jöfnunar­­gjalds á franskar kartöflur og vörur unnar úr þeim, hafi ekki verið óheft, en ekki hafi verið á það fallist í dóminum, að framsal löggjafans til ráðherra hafi farið í bága við 40. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. þágildandi ákvæði 77. gr. hennar, eins og þau hefðu verið skýrð. Dómur Hæstaréttar um ólögmæti álagningar jöfnunargjalds í fyrrgreindu máli virðist einkum á því byggður, að ekki hefði þar verið sýnt fram á, að álagning jöfnunargjalds á tiltekinn vöruflokk fengi samrýmst þeim takmörkunum, sem heimild ráðherra voru settar í lögum.

Af hálfu landbúnaðarráðuneytis hafi því verið hafnað, að álagning jöfnunargjalds hafi í einhverjum tilvikum verið andstæð tilgangi búvörulaga eða hagsmunum neytenda. Rangt sé og ósannað, að íslenskar kartöflur hafi verið ónothæfar við framleiðslu hér á landi. Muni innflutt hráefni aðeins hafa verið notað í undantekningartilvikum, þegar skortur hafi verið á innlendum kartöflum til framleiðslunnar. Einnig er mótmælt málsástæðum um, að álagning gjaldsins hafi verið samkeppnishamlandi, enda verði ekki bornar saman atvinnugreinar framleiðslu og innflutnings. Hafi jöfnunargjaldið í raun aldrei náð að tryggja samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu. Því er eindregið mótmælt, að lögð hafi verið á mismunandi gjöld á aðila í sambærilegri stöðu andstætt 65. gr. stjórnarskrárinnar. Engan rökstuðning sé að finna fyrir þessari fullyrðingu í stefnu og ekki reynt að sýna fram á, að jöfnunargjaldið hafi leitt til þess, að stefnandi hafi borið skarðan hlut frá borði vegna álagningar þess. Ítrekað sé, að í engu hafi verið farið út fyrir framsal löggjafans á 200% álagningarheimild, og er því mótmælt, að framsal löggjafans hafi brotið gegn 40. eða 77. gr. stjórnarskrár. Markmið og tilgangur laga nr. 25/1986 hafi verið að gæta hagsmuna innlendrar framleiðslu og jafna samkeppnisstöðu hennar. Landbúnaðaráðherra hafi því hlotið að líta svo á, að álagning jöfnunargjalds væri í lögmætum tilgangi.

Um gjald það, sem ákveðið var samkvæmt reglugerð nr. 468/1993, er gildi tók þann 22. nóvember 1993 og ákveðið var 90%, vísist til útskýringa í bréfum landbúnaðarráðuneytisins. Um lögmæti álagningar þess gjalds, sem ákveðið var á umræddum vörum sem 90%, hafi ekki gengið dómur. Bendi forsendur fyrrgreinds hæstaréttardóms fremur til þess, að sú álagning hafi verið lögmæt og í samræmi við kvaðir um málefnalegan grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu. Ákvörðun um að miða gjaldið við 90% hafi þó ekki náð að tryggja íslenskri framleiðslu jafna samkeppnistöðu miðað við innflutning. Gjaldið hafi verið ákveðið 90% með reglugerð nr. 468/1993 með hliðsjón af Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti (GATT), sem Ísland hefur átt aðild að, en jöfnunargjald af tilteknum kartöfluvörum hafi þar verið ákveðið 90%. Með því að miða gjaldið við 90% á þeim forsendum hafi í raun verið miðað við ígildi á heimsmarkaði gagnvart aðstæðum á Íslandi og ekki unnt að komast nær þeim sjónarmiðum, sem Hæstiréttur hafi talið að leggja hefði átt til grundvallar álagningu jöfnunargjalds samkvæmt heimild í búvörulögum í dómi sínum frá 19. desember 1996. Meðan ljóst sé, að verðmunur á innfluttri vöru og þeirri, sem framleidd er innanlands, sé margfaldur, hafi verið málefnalegt og í samræmi við jafnræðisreglu að miða gjaldið við 90% og í samræmi við GATT­-bindingar, en verðtollur hafi þá ekki verið lengur á vörunni. Þessu til stuðnings sé bent á, að verðmunur, þegar borin eru saman cif verð og innlend verð frá framleiðanda, hafi verið margfaldur. Hafi hann verið um 411% árið 1992, 359% árið 1993, 354% árið 1994 og 390% árið 1995. Þróun verðs milli innlendrar framleiðslu og innflutnings hafi því augljóslega mælt með því, að hin umdeilda heimild búvörulaga yrði nýtt, þótt ekki væri tekið sérstakt mið af niðurgreiðslum í öðrum löndum. Verðmunurinn hafi einnig verið  margfaldur, þegar litið sé til hráefnisverðs og þeirra sjónarmiða, sem gildi almennt samkvæmt bókun 2 við EFTA-samninginn. Ekki sé vitað til þess, að stefnandi hafi nokkru sinni mótmælt því, að miðað yrði við GATT-samninginn við ákvörðun jöfnunargjalds eða mótmælt umfangi gjaldsins miðað við 90%. Verði ekki annað séð, en sátt hafi verið um þá álagningu, sem ákveðin var með reglugerð nr. 468/1993, enda hafi henni þá verið stillt verulega í hóf. Segi í bréfum landbúnaðarráðuneytis, að athugsemd af hálfu kanadískra stjórnvalda hafi komið við það, að hér á landi væru lögð hærri gjöld en samkvæmt GATT-bindingum. Sé upplýst, að stefnandi hafi flutt inn vörur þessar frá Kanada og því líklegt, að félagið hafi átt ríkan þátt að því máli.

Enn sé að nefna, að af hálfu stefnanda hafi því staðfastlega verið haldið fram, að miða ætti við GATT-samninginn við ákvörðun á jöfnunargjaldi af þessari vörutegund, meðal annars í kvörtunarmáli því, er félagið beindi til umboðsmanns Alþingis. Hafi full sátt virst ríkja um þá álagningu af hálfu innflytjenda, þar á meðal stefnanda.

Stefndi telur einnig rétt að benda á verðmun á ferskum og kældum kartöflum, en jöfnunarþörf, miðað við hliðstæða reikniaðferð landbúnaðarráðuneytis og að framan getur vegna áranna 1986-1988, hafi að meðaltali verið 445%. Hafi verðmunur milli innlendrar framleiðslu og innflutnings um árabil verið margfaldur. Stefndi bendi einnig á, að niðurgreiðslur í öðrum löndum séu síður fallnar til að vera vera reikningsleg stærð við rökstuðning verðjöfnunar milli landa, enda um ólíkar aðstæður að tefla. Stefndi hafi hins vegar í þessu máli einnig sannað réttmæti verðjöfnunar með þeim hætti, sem fyrr greinir.  Vörurnar hafi einnig verið niðurgreiddar í ýmsum löndum, en samkvæmt útskýringum landbúnaðar­ráðuneytisins muni ekki hafa verið litið til þess, þar sem hráefnisverð á helstu mörkuðum erlendis hafi verið langt undir því, sem jafna mætti til heimsmarkaðsverðs.

Varðandi vörur í öðrum tollflokkum en 2004.1000, síðar 2004.1009, vísar stefndi til eftirfarandi:

Útreikningar sýni, að lögmætur grundvöllur hafi verið fyrir álagningu 100% jöfnunargjalds á vörur, t.d. í tollflokki 2005.2000, 2005.2001 og síðar 2005.2009, en kröfur stefnanda séu að nokkru vegna innflutnings á þeirri vöru. Vísist ennfremur til gagna um raunverulegan verðmun á verði innanlands og innflutnings. Eftir að jöfnunargjaldið á þeim vörum hafi verið ákveðið 90%, hafi það sama gilt og viðmiðun við GATT-bindingar, svo sem útskýrt sé í bréfum landbúnaðarráðuneytis. Álagning 40-50% jöfnunargjalds á vörur í tollflokki 0710.1000 og 0712.1000 hafi því augljóslega verið langt innan eðlilegra marka, enda í raun um sömu vöru að ræða og ferskar og kældar. Hafi þar ekki verið um að ræða stórstígar hækkanir á álagningu eða straumhvörf á ferli gjaldsins, sem Hæstiréttur taldi óeðlilegar eða óútskýrðar með dómi sínum þann 19. desember 1996 og áttu sér eigi aðra forsögu en ágreining um innflutninginn almennt. Beri því að leggja sönnunarbyrði á stefnanda um, að álagningar í þeim tilvikum hafi ekki verið innan eðlilegra marka. Það mál sé engan vegin bindandi fyrir stefnda varðandi aðra vöruflokka, en það mál tók til. Sama gildi um aðrar vörur, sem báru 50% gjald, þar sem hráefnið var hið sama.

Af hálfu stefnda er á því byggt, að þótt talið verði, að álagning hins umdeilda jöfnunargjalds hafi verið ólögmæt, sé ekki fyrir hendi réttur til endurgreiðslu. Ljóst sé, að vara sú, sem sætti álagningu jöfnunargjalds, hafi verið flutt inn og leyst út úr tolli eftir því, hvenær það var talið hyggilegt af stefnanda. Hafi jöfnunargjaldið verið lagt á vöruna sjálfa. Augljóst sé, að þegar svo margar sendingar voru fluttar inn og í svo miklu magni og á löngum tíma, hafi eftirspurnin hlotið að vera mikil. Í öllum tilvikum hafi stefnandi getað selt vöruna, án þess að álagning jöfnunargjalds hefði nokkur áhrif á arð af þeim viðskiptum, nema ef vera skyldi til hækkunar. Þá hafi álagning jöfnunargjaldsins í engu raskað jafnræði milli innflutnings eða íslenskrar framleiðslu stefnanda í óhag, hvort sem litið sé til verðs á vörunni almennt eða álagningu gjalda og skatta. Hafi stefnandi til að mynda ekki leitt rök að því, að verð á innlendri framleiðslu hafi verið lægra. Hvort sem stefnandi seldi vöruna í heildsölu eða smásölu hafi álagningu verið bætt ofan á verð vörunnar, er þegar innihélt jöfnunargjaldið. Þannig séu löglíkur og viðskiptavenja fyrir því, að stefnandi hafi velt jöfnunargjaldinu yfir í verðlagið og látið viðskiptamenn sína greiða það að fullu og þar með fengið gjaldið endurheimt úr þeirra hendi. Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir öðru. Stefndi hafi því ekki hagnast á kostnað stefnanda, og yrði á endurkröfuna fallist, væri stefnandi betur settur, en ef ekki hefði komið til álagningar jöfnunargjalds. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir tjóni vegna álagningarinnar og því ekki verið sýnt fram á, að álagningin hafi haft neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu stefnanda gagnvart íslenskri framleiðslu. Jafnvel þótt talið yrði, að álagningin hafi haft neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu stefnanda, hafi hann ekki reynt að sýna fram á hvert tjón hans af þeim sökum hefur verið. Sé engan veginn unnt að halda því fram, að það hafi numið nákvæmlega fjárhæð álagðs jöfnunargjalds. Sé sitthvað fjárhæð gjalds, sem lagðist á vöruna, og hins vegar hugsanlegt tekjutap stefnanda vegna minni sölu á vörunni, ef því væri að skipta. Um framangreint vísar stefndi einnig til réttarþróunar í Danmörku, sbr. dóma Hæstaréttar þar í landi (UfR. 1994, bls. 430 og 450), en líta beri til þess til fyllingar óskráðum reglum kröfuréttar til endurgreiðslna.

Þegar allt framangreint er virt telur stefndi, að ekki sé fyrir hendi réttmæt krafa til endurgreiðslu jöfnunargjalds samkvæmt almennum reglum kröfu­réttar, enda myndi stefnandi auðgast með ósanngjörnum hætti á kostnað stefnda og þar með skattborgara, yrði á endurkröfuna fallist að hluta til eða í heild. Þá myndi stefnandi auðgast með ósanngjörnum hætti gagnvart viðskiptamönnum sínum, sem hann hafi látið bera gjöldin að fullu og ekki svo vitað sé heitið þeim endurgreiðslu eða sótt kröfuna í umboði þeirra. Er einnig á því byggt í þessu sambandi, að í raun sé um aðildarskort að ræða, þar sem viðskiptamenn stefnanda hafi í raun staðið skil á jöfnunargjaldinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Ennfremur telur stefndi, að með vísan til þessa hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af endurgreiðslum þeim, sem krafið er um.

Um innheimtu jöfnunargjaldsins skyldi fara eftir tollalögum nr. 55/1987, sbr. 30. og 33. gr. laga nr. 46/1985 og síðar ákvæði laga nr. 99/1993. Gjaldið hafi verið sérstaks eðlis og greitt af tilteknum vörum. Í tollalögum sé ekki kveðið sérstaklega á um endurgreiðslu tolla við þær aðstæður, að innflytjandi hefur greitt toll og selt vöruna. Þar sem ekki séu sérstök ákvæði um endurgreiðslur í tollalögum við þessar aðstæður, telur stefndi, að krafa stefnanda sé ekki lögvarin og beri því að sýkna af henni. Þar sem ekki liggi fyrir sönnum um, að stefnandi hafi endurgreitt viðskiptamönnum sínum gjaldið, verði að hafna því, að hann eigi kröfu á hendur stefnda nú. Þessu lagasjónarmiði til stuðnings og lögjöfnunar byggir stefndi meðal annars á 22. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. önnur sérákvæði í þeim lögum varðandi endurgreiðslur.

Stefndi telur, að framangreindar málsástæður eigi í heild að leiða til sýknu af kröfum stefnanda. Séu engin rök til að heimila endurgreiðslu, nema að því marki, sem samsvara myndi tjóni stefnanda af álagningu gjaldsins, þótt um endurgreiðslumál sé að ræða. Engin sönnun um tjón hafi hins vegar komið fram.

Verði ekki á sýknukröfu fallist, byggir stefndi á því, að í ljósi framangreindra málsástæðna verði einungis fallist á endurkröfur stefnanda að álitum og í samræmi við það tjón, sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna jöfnunargjaldsins gagnvart samkeppnisvörum innlendrar framleiðslu. Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir umfangi þess tjóns, en ekki hefur verið sýnt fram á það.

 Stefnandi hafi greitt jöfnunargjöldin athugasemdalaust og án fyrirvara, svo sem viðurkennt sé í stefnu. Stefnandi hafi lagt fram nokkur skjöl, sem ætlað sé að sýna áritanir um fyrirvara. Sá fyrirvari hafi á engum stigum verið gerður við lögmæti jöfnunargjalds, heldur hafi hann eingöngu lotið að hækkun tollverðs, en stefnandi virðist ekki hafa nýtt kæruheimildir tollalaga þar að lútandi og unað við það tollverð, sem hann gerði í einhverjum tilvikum fyrirvara við. Þar sem stefnandi hafi ekki gert fyrirvara við lögmæti jöfnunargjaldsins telur stefndi, að sýkna beri af öllum kröfum, en svo hátti til í málinu, að um sé að ræða torskýrða lagareglu, sem sætt hafi dómi Hæstaréttar þann 19. desember 1996. Við þessar aðstæður sé meginregla að kröfurétti, að hafna beri endurgreiðslu, hafi ekki verið greitt með fyrirvara. Beri líka að líta á tómlæti stefnanda í þessu samhengi og hversu oft gjöldin voru innt af hendi og þeim velt yfir á aðra.

 Stefnandi hafi höfðað mál þetta þann 15. október 1998. Upphafstími fyrningar endurgreiðslukrafna sé greiðsludagur þeirra, enda hafi stefnanda í öllum tilvikum verið unnt að endurkrefja gjöldin upp frá þeim degi. Allar endurkröfur, sem sprottnar eru af greiðslum jöfnunargjalds fyrir 15. október 1994, séu fallnar niður fyrir fyrningu, þar sem meira en fjögur ár hafi verið liðin frá greiðslu þeirra gjalda, er málið var höfðað. Jöfnunargjaldið hafi verið greitt athugasemdalaust um árabil og án fyrirvara, bersýnilega í þeirri trú, að stefnandi væri skuldbundinn til þess, svo sem raunar sé viðurkennt í stefnu. Með vísan til 5. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfu­réttinda, sbr. 1. og 11. gr. sömu laga, telur stefndi því, að krafa stefnanda til endurgreiðslu á jöfnunargjaldi sé fallin niður fyrir fyrningu og tómlæti og beri því að sýkna af allri endurgreiðslukröfu stefnanda, að því leyti sem talið yrði, að um ólögmæta álagningu hafi verið að ræða. Hafi ákvæði 5. tölul. 3. gr. fyrningarlaga ætíð verið talið eiga við um endurkröfur vegna ofgreidds fjár, þar á meðal vegna greiddra skatta og tolla, og sé reglan endurtekin nú í 4. gr. laga nr. 29/1995. Engin efni séu til að skýra greint ákvæði fyrningarlaga sem undantekningu, eins og stefnandi haldi fram. Vísist hér meðal annars til dóms Hæstaréttar frá 10. desember 1998 í málinu nr. 146/1998. Er því eindregið mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að ákvæði 5. tölul. 3. gr. um sviksamlegt atferli móttakanda greiðslu eigi við. Af framangreindu leiði einnig, að ekki séu skilyrði til greiðslu dráttarvaxta af þeim kröfum, sem niður séu fallnar fyrir fyrningu, auk þess sem kröfur til greiðslu vaxta lúti sama fyrningarfresti, sbr. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905.

Miðað við samanburð á úttektarskýrslum og fjárhæðum í yfirlitum stefnanda sé unnt að sjá, hve mikið hafi verið greitt í jöfnunargjöld af innflutningi eftir 15. október 1994. Skipting gjaldsins innan októbermánaðar 1994 hafi reynst vera sú, að frá 1. - 14. dags hafi verið greiddar 881.787 krónur, en frá 18.-31. dags 725.195 krónur. Í öllum tilvikum hafi verið um að ræða 90% gjald, en í einu tilviki 50% gjald að fjárhæð 184 krónur  þann 18. október. Það, sem greitt hafi verið eftir 15. október 1994 til ágúst 1995 samkvæmt úttektarskýrslum, sé því sem hér segir:

Af vörum sem báru 50% gjald: 5.569 kr.

Af vörum sem báru 90% gjald: 15.275.374 kr.

Frá þessum fjárhæðum beri að draga misræmi, sem stafi af úttektarbeiðni, sem dagsettar eru 31. janúar 1995, alls 71.246 krónur, sem ekki sé greidd í tolli, en skýrsla vegna sömu vöru hafi verið greidd (svo í greinargerð). Þá beri að taka tillit til þess, að þann 17. febrúar 1995 hafi verið endurgreiddar 20.870 krónur og þann 16. mars 1995 8.413 krónur, í báðum tilvikum vegna innsetningar nr. T95-75. Beri því að draga frá 29.283 kr. Í báðum tilvikum sé um að ræða 90% gjöld.

Það sem ófyrnt kynni að vera sé því:

Af vörum sem báru 50% gjald: 5.569 kr.

Af vörum sem báru 90% gjald: 15.174.845 kr.

Ennfremur beri að draga frá gjöld, sem stefnandi segist hafa greitt í júlí og ágúst 1995, enda hafi reglugerð nr. 468/1993 fallið úr gildi þann 1. júlí með reglugerð nr. 359/1995. Kröfur vegna júlí og ágúst 1995 nemi samtals 352.856 krónum (314.158 + 38.698).

Stefndi mótmælir því eindregið, að 7. gr. laga nr. 14/1905 eigi hér við. Fráleit sé sú málsástæða stefnanda, að stefnda hafi borið að tilkynna stefnanda á einhverjum tíma, að álagning jöfnunargjalds væri ólögmæt. Sé engri réttarreglu til að dreifa þess efnis, að stefnda hafi verið skylt að tilkynna stefnanda um grundvöll álagningar jöfnunargjalds eða að það hafi verið ólögmætt. Verði 7. gr. fyrningarlaga ekki beitt, nema um sviksamlega launung hafi verið að ræða, en engri slíkri háttsemi sé til að dreifa af hálfu stefnda. Þá verði ákvæðinu ekki beitt, nema á þeim tíma, þegar skemmra er eftir af kröfunni en 4 ár. Hinn 19. desember 1996 verði því ekki lagður til grundvallar sem upphafsdagur fyrningar þeirra krafna, sem féllu niður fyrir fyrningu á fjórum árum. Álagning jöfnunargjalds samkvæmt reglugerðum landbúnaðar­ráðherra hafi ekki byggt á svikum og sé slíkum málatilbúnaði eindregið vísað á bug sem röngum og ósönnuðum.

Mótmælt er, að nefnd 7. gr. verði skýrð rýmkandi lögskýringu til stuðnings kröfum stefnanda eða lögjöfnun og ekki verði lögjafnað frá reglu, sem eftir orðan sinni eigi alls ekki við um tilvik. Þá hafi engu jafnræði verið raskað milli löghlýðinna og annarra eins og stefnandi byggi á. Verði að gera þá kröfu til borgaranna, að þeir leiti tiltækra úrræða í tíma. Hafi stefnanda verið í lófa lagið að bera kröfur sínar undir dóm, áður en kröfur voru fyrndar.

Því er mótmælt að jafnræðisregla styðji þau sjónarmið að upphaf fyrningarfrests skuli telja 19. desember 1996, en engin fyrnd krafa hafi verið viðurkennd af hálfu stefnda þann dag gagnvart öðrum aðila.

Um kröfu stefnanda, að því leyti sem hún stafar af greiðslum jöfnunargjalda eftir að fjögur ár voru til málshöfðunar, byggir stefndi á tómlæti, en síðustu greiðslur séu sagðar hafa farið fram í ágústmánuði 1995. Hafi stefnandi höfð mál þetta meira en þremur árum síðar.

Verði ekki fallist á algera sýknu af kröfum stefnanda, krefst stefndi þess, að endurgreiðslukrafa stefnanda verði stórlega lækkuð og vísar stefndi til allra framangreindra málsástæðna um fyrningu.

Í öllu falli beri að sýkna af kröfuliðum stefnanda, þannig að einungis komi til álita þær kröfur, sem ófyrndar eru og inntar voru af hendi eftir 15. október 1994. Beri því að sýkna af öllum öðrum kröfum í máli þessu, að því marki sem talið verði, að jöfnunargjald hafi verið ólögmætt. 

Verði sú niðurstaðan, að miða beri rof fyrningar við 30. október 1997, byggir stefndi á, að einungis komi til álita þær greiðslur, sem innheimtar hafi verið á grundvelli 120% gjalds, er  dæmt hafi verið ólögmætt.

Stefndi mótmælir því eindregið, að fallist verði á þá málsástæðu stefnanda, að fyrning hafi verið rofin 9. apríl 1997. Málsástæða þessi sé í engu rökstudd nánar eða tölulega. Ekkert hafi gerst í samskiptum stefnanda við stefnda þennan dag og krafan ekki verið viðurkennd af stefnda.  Í svarbréfi við erindi stefnanda frá 7. júlí 1997 hafi stefnanda verið gerð grein fyrir því, að ráðuneytið væri reiðubúið til viðræðna, en stefnandi hafi síðan höfðað mál. Stefndi hafnar því, að jafnræðisregla geti veitt stefnanda rétt, sem ekki eigi sér stoð í lögum. Geti jafnræðisregla því ekki leitt til þess, að réttur stofnist, sem ekki eigi sér stoð í lögum eða lögmælt tilkall standi til. Ekkert jafnræði hafi verið brotið á stefnanda við meðferð á kröfum Ekrunnar ehf., enda aldrei komið til þess af hálfu stefnanda, að beðið yrði með málsókn gegn því, að ekki yrði borin fyrir fyrning að hluta eða í heild. Engin sambærileg mál hafi verið til úrlausnar, þannig að jafnræði væri brotið. Stefnandi hafi ekki sett fram rökstuddar kröfur í bréfum sínum til stefnda, frekar en í máli því sem félagið höfðaði. Hafi því verið ófært að taka nokkra afstöðu til krafna. Stefnandi hafi síðan farið fram á við stefnda, að miðað yrði við 9. apríl 1997 í bréfi frá 28. apríl 1998, eða löngu eftir að hann hafði höfðað mál og greinargerð hafði verið skilað af hálfu stefnda og afstaða mótuð til krafna, eftir því sem unnt hafi verið.

Auk þeirra gagna, sem lögð voru fram við þingfestingu málsins, hafi stefnandi lagt fram bréf, dagsett 15. desember 1998, þar sem aukið sé við málsástæður og kynntar aðrar kröfur frá því sem greinir í stefnu. Samkvæmt 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skuli málsástæður og kröfur koma fram í stefnu. Mótmælir stefndi, að málsástæður í nefndu bréfi fái komist að, en mótmælir þeim jafnframt efnislega. Í bréfinu komi önnur málsútlistun, en í stefnu greini, þar sem stefnandi virðist þar reka málið sem skaðabótamál. Valdi það frávísun málsins ex officio, þar sem stefnandi hafi með þessu raskað algjörlega grundvelli málsins.

Stefndi mótmælir öllum dráttarvaxtakröfum og vaxtakröfum stefnanda, verði þeim ekki sérstaklega vísað frá vegna vanreifunar. Er bent á, að dráttarvaxtakrafa stefnanda, svo og varakrafa um vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga, séu vanreifaðar og ódómhæfar, þar sem kröfurnar uppfylli ekki það lágmarksskilyrði, að vaxtadagur sé tilgreindur. Beri því að vísa kröfum um dráttarvexti eða vexti samkvæmt 7. gr. frá dómi ex officio, sbr. l. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er einnig á því byggt, að vaxtakröfur séu við þessar aðstæður órökstuddar og af þeim beri að sýkna.

Verði að einhverju leyti fallist á endurgreiðslukröfur stefnanda telur stefndi ekki skilyrði til greiðslu dráttarvaxta eða vaxta, nema frá dómsuppkvaðningardegi, eða í fyrsta lagi frá þingfestingardegi.

Stefndi mótmælir einnig vaxtakröfum, byggðum á 7. gr. vaxtalaga, enda séu kröfur stefnanda ekki skaðabótakröfur. 

Stefndi byggir allt að einu á því, að kröfur til vaxta eða dráttarvaxta af ofgreiddum gjöldum séu fyrndar á sama hátt og kröfur til endurgreiðslu jöfnunargjaldsins, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905. Vextir eða dráttarvextir verði undir engum kringumstæðum reiknaðir, nema frá 15. október 1994, eða í fyrsta lagi frá 30. október 1993.

IV.

Niðurstaða.

Að áliti dómsins er kröfugrundvöllur stefnanda nægilega skýr, til þess að dómur verði lagður á málið að efni til.

Með bréfi, dagsettu 15. desember 1998, boðaði stefnandi, að hann hygðist gera kröfu til greiðslu skaðabóta vegna hinnar umdeildu gjaldtöku á grundvelli almennu skaðabótareglunnar, að svo miklu leyti, sem ekki yrði fallist á endurkröfu stefnanda. Samkvæmt e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu málsástæður, sem stefnandi byggir málsókn sína á, koma fram í stefnu, svo og önnur atvik, er þarf að greina, til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Þá kemur fram í f-lið nefndrar greinar, að í stefnu skuli vera tilvísun til helstu lagaákvæða eða réttarreglna, sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á.

Enda þótt stefnandi hafi boðað ofangreinda kröfugerð með umræddu bréfi, hefur hann ekki látið af henni verða, hvorki með framhaldsstefnu né sérstakri bókun þar um. Eru því ekki efni til að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi af þeirri ástæðu, að stefnandi hafi lagt málið fyrir dóminn á öðrum grunni, en í stefnu greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda telst fyrningarfrestur frá þeim degi, er krafa varð gjaldkræf. Ráðið verður af dómafordæmum, að 5. tölul. 3. gr. fyrningarlaga var talin gilda um endurkröfur vegna ofgreiddra tolla og gjalda, áður en lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda öðluðust gildi í janúar 1996. Í 4. gr. þeirra laga kemur fram, að fyrningarfrestur er fjögur ár frá því að greiðsla átti sér stað. Segir í greinargerð með lögunum, að fyrningarfrestur á kröfum þeim, er lögin taka til, sé óbreyttur frá því, sem áður gilti. Með vísan til þessa er ótvírætt, að hinn fjögurra ára fyrningarfrestur 5. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 gildir um kröfur þær, er mál þetta snýst um.

Eins og atvikum málsins er háttað eru engin efni til að fallast á með stefnanda, að svik hafi verið höfð í frammi af hálfu stefnda, þannig að 7. gr. fyrningarlaga eigi hér við, eða brotið hafi verið að einhverju leyti gegn jafnræði þegnanna af hálfu stefnda. Þá er ekki fallist á röksemdir stefnanda fyrir því, að miða beri upphaf fyrningarfrests við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar 19. desember 1996 í málinu nr. 427/1995: Þrotabú S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu. Ber því að leggja til grundvallar, að upphaf fyrningarfrests sé sá dagur, þegar krafa stefnanda varð gjaldkræf hverju sinni.

Stefnandi höfðaði mál til endurgreiðslu á ofgreiddum jöfnunargjöldum á hendur stefnda með stefnu, birtri 30. október 1997. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði 3. júní 1998. Enda þótt stefnukrafa hafi verið lækkuð úr 107.446.762 krónum, svo sem hún var í því máli, sem var réttilega höfðað, í 89.005.433 krónur í þessu máli, er engum vafa undirorpið, að um sama sakarefni er að ræða í báðum málunum. Af því leiðir, að miða ber upphafstíma fyrningarfrests í máli þessu við þann dag, er hið fyrra mál var höfðað, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905. Samkvæmt því er krafa stefnanda allt til 30. október 1993 niður fallin fyrir fyrningu.

Með vísan til forsendna ofangreinds dóms Hæstaréttar í máli réttarins nr. 427/1995 þykir eigi vera sá eðlismunur á 120% jöfnunargjaldi, sem dæmt var ólögmætt með þeim dómi, og  90% sams konar gjaldi, er lagt var á með reglugerð nr. 468/1993 og sett var með heimild í d-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, að til annarrar niðurstöðu leiði um lögmæti gjaldsins, en í dóminum greinir. Er það því mat dómsins, að ekki hafi verið sýnt fram á það af hálfu stefnda, að málefnalegur grundvöllur hafi verið fyrir hendi til álagningar 90% jöfnunargjalds, frekar en 120% sams konar gjaldheimtu. Skiptir eigi máli í því sambandi, að gjaldið hafi verið innan marka svonefnds GATT-samkomulags, enda hefur það hvorki lagagildi hérlendis né er ætlað að stofna með beinum hætti til réttinda til handa einkaaðilum. Var 90% álagning jöfnunargjalds því einnig ólögmæt að mati dómsins.

Af hálfu stefnda er á því byggt, að þótt talið verði, að álagning hins umdeilda gjalds hafi verið ólögmæt, sé ekki fyrir hendi réttur til endurgreiðslu. Ljóst sé, að vara sú, sem sætti álagningu gjaldsins, hafi verið flutt inn og leyst út úr tolli eftir því, hvenær það var talið hyggilegt af stefnanda, og jöfnunargjaldið verið lagt á vöruna sjálfa. Hvort sem stefnandi seldi vöruna í heildsölu eða smásölu hafi álagningu verið bætt ofan á verð vörunnar, er þegar innihélt jöfnunargjaldið. Þannig séu löglíkur og viðskiptavenja fyrir því, að stefnandi hafi velt jöfnunargjaldinu yfir í verðlagið og látið viðskiptamenn sína greiða það að fullu og þar með fengið gjaldið endurheimt úr þeirra hendi. Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir öðru. Stefndi hafi því ekki hagnast á kostnað stefnanda og yrði á endurkröfuna fallist, væri stefnandi betur settur, en hefði ekki komið til álagningar jöfnunargjalds. Sé því ekki fyrir hendi réttmæt krafa til endurgreiðslu jöfnunargjalds samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, enda myndi stefnandi auðgast með ósanngjörnum hætti á kostnað stefnda og þar með skattborgara, yrði á endurkröfuna fallist að hluta til eða í heild. Þá myndi stefnandi auðgast með ósanngjörnum hætti gagnvart viðskiptamönnum sínum, sem hann hafi látið bera gjöldin að fullu og ekki, svo vitað sé, heitið þeim endurgreiðslu eða sótt kröfuna í umboði þeirra. Ennfremur séu engin rök til að heimila endurgreiðslu, nema að því marki, sem samsvara myndi tjóni stefnanda af álagningu gjaldsins, þótt um endurgreiðslumál sé að ræða. Engin sönnun um tjón hafi hins vegar komið fram.

Í greinargerð sinni skoraði stefndi á stefnanda að leggja fram alla sölureikninga úr bókhaldi eða önnur gögn, sem sýndu, hvernig verðmyndun á vöru þeirri, er hér um ræðir, var háttað til viðskiptamanna stefnanda og hvort jöfnunargjaldið var inni í vöruverði til þeirra.  Áskorunin var áréttuð í þinghaldi 8. mars síðastliðinn, en stefnandi varð ekki við henni.

Í máli þessu er ekki byggt á skaðabótasjónarmiðum af hálfu stefnanda og leitast við að sýna fram á, að hann hafi beðið tjón af álagningu jöfnunar­gjaldsins, heldur er það höfðað til endurgreiðslu oftekinna opinberra gjalda. Verður að ætla, að stefnanda hafi verið í lófa lagið að leggja fram ofangreind gögn samkvæmt áskorun stefnda yfir það tímabil, sem krafa stefnanda er ófyrnd samkvæmt framansögðu. Hefur stefnandi ekki gefið neina skýringu á því, hvers vegna hann varð ekki við áskoruninni eða borið við ómöguleika. Með vísan til 3. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 er það mat dómsins, að jafna megi höfnun stefnanda á að leggja umrædd gögn fram við viðurkenningu á því, að ofangreind fullyrðing stefnda, um að jöfnunargjaldi hafi verið velt út í vöruverð til viðskiptavina stefnanda hverju sinni og stefnandi sé þannig búinn að fá gjaldið að fullu greitt, sé á rökum reist. Eins og málið er lagt fyrir dóminn verður því fallist á með stefnda, að um ólögmæta auðgun af hálfu stefnanda væri að ræða, yrði endurgreiðslukrafa hans tekin til greina.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Dóminn kveða upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari sem dómsformaður og meðdómendurnir Anna Kristín Traustadóttir, viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi, og Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Dreifingar ehf., í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.