Hæstiréttur íslands
Mál nr. 513/2012
Lykilorð
- Rán
- Þjófnaður
- Aðalmeðferð
- Skýrslugjöf
|
|
Fimmtudaginn 8. nóvember 2012. |
|
Nr. 513/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Baldri Kolbeinssyni (Björgvin Jónsson hrl.) |
Rán. Þjófnaður. Aðalmeðferð. Skýrslugjöf.
B var sakfelldur í héraði fyrir þjófnaðar- og ránsbrot, sem hann framdi í félagi við meðákærða X, en sýknaður af ákæru um hótunarbrot þar sem ósannað þótti gegn neitun hans að hann hefði gerst sekur um slíkt brot. B neitaði sök hvað ránsbrotið varðaði og taldi sakfellingu sína ekki verða byggða á framburði meints brotaþola þar sem skýrslutaka af því vitni hafi farið fram fyrir dómi án þess að hann væri viðstaddur. Hæstiréttur taldi réttinda B hafa verið nægjanlega gætt, eins og á stóð, þar sem verjandi B hafi verið viðstaddur skýrslugjöf og átti þess kost að beina spurningum til vitnisins. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um 18 mánaða fangelsisrefsingu B að frádreginni gæsluvarðhaldsvist hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. júlí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar á sakfellingu ákærða og að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum sakargiftum samkvæmt ákæru útgefinni 10. maí 2012 og af sakargiftum samkvæmt 3. lið í I. kafla ákæru útgefinni 30. apríl 2012 og að honum verði einvörðungu gerð vægasta refsing vegna brota samkvæmt liðum 1, 2 og 4 í I. kafla síðarnefndu ákærunnar. Til vara krefst hann refsimildunar.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru 30. apríl 2012.
Ákærði neitar sök samkvæmt ákæru 10. maí 2012 og telur ákæruvaldinu ekki hafa tekist lögfull sönnun þess að ákærði hafi framið þá háttsemi sem honum er þar gefin að sök. Telur ákærði að sakfelling hans verði ekki byggð á framburði brotaþola, C, þar sem hann hafi gefið skýrslu fyrir dómi án þess að ákærði ætti þess kost að vera viðstaddur og sé það í andstöðu við 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Aðalmeðferð í máli þessu hófst 11. júní 2012 og gaf ákærði þá skýrslu ásamt meðákærða í héraði og nokkrum vitnum. Ekki náðist í vitnið C og segir í bókun dómara að aðalmeðferð málsins sé „frestað þar til næst í brotaþola ... Tímasetning verður ákveðin í samráði við sækjanda og verjendur.“ Er aðalmeðferð var fram haldið 21. júní 2012 mætti ákærði ásamt verjanda sínum. Í bókun í þingbók segir: „Í þessu þinghaldi stóð til að halda aðalmeðferð málsins áfram og yfirheyra vitnið C en hann hefur ekki mætt og finnst ekki að sögn sækjanda. Sækjandinn kveður að áfram verði reynt að hafa upp á vitninu og er aðalmeðferð frestað þar til í það næst.“ Aðalmeðferð var enn fram haldið daginn eftir og mætti þá vitnið C til skýrslugjafar. Ákærði mætti ekki til þinghaldsins en það gerði verjandi hans sem mótmælti því að vitnið gæfi skýrslu og krafðist frestunar málsins sökum fjarvistar ákærða. Að kröfu verjandans kvað héraðsdómari upp úrskurð þar sem hafnað var að fresta aðalmeðferðinni. Í úrskurðinum segir: „Framhaldsmeðferð málsins átti að fara fram í gær en þá mætti vitnið C ekki. Ákærði Baldur var þá viðstaddur en hann er vistaður á Litla-Hrauni. Vitnið fannst nú í morgun og þar eð veruleg hætta var á því að það myndi ekki mæta ef meðferð málsins yrði frestað frekar var ákveðið að taka skýrsluna núna ... þrátt fyrir að ljóst væri að ákærði Baldur myndi ekki ná í tæka tíð. Verjandi hans er viðstaddur og lítur dómurinn svo á að réttindi hans séu ekki fyrir borð borin þótt vitnaskýrsla sé tekin nú og er því hafnað að fresta málinu.“ Í framhaldi úrskurðarins gaf vitnið skýrslu fyrir dómi.
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. mgr. og d. lið 3. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, á sakaður maður almennt rétt á að vera viðstaddur þinghöld í máli sínu og fá að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Svo sem að framan greinir var ákærði viðstaddur aðalmeðferð málsins ef frá er talin skýrslutakan af vitninu C. Þar sem verjandi ákærða var við hana staddur og átti þess kost að beina spurningum til vitnisins var réttinda ákærða nægjanlega gætt eins og á stóð. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru 10. maí 2012.
Í ljósi sakarferils ákærða og með vísan til 6. töluliðar 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr., 71. gr., 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er staðfest ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða. Til frádráttar skal koma gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 4. apríl 2012. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað ákærða skal vera óraskað.
Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Baldur Kolbeinsson, greiði áfrýjunarkostnað málsins, 472.090 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2012.
I
Málið, sem dómtekið var 22. júní síðastliðinn, er höfðað með tveimur ákærum. Fyrri ákæran er gefin út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 30. apríl 2012 á hendur „Baldri Kolbeinssyni, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir eftirtalin hegningarlagabrot framin í Reykjavík á árinu 2012, nema annað sé tekið fram:
I.
Fyrir þjófnaðar- og hótunarbrot, með því að hafa,:
1. Mánudaginn 26. mars á bifreiðastæði við verslun [...] við [...], farið inn í bifreiðina [...] og stolið þaðan farsíma að óþekktu verðmæti og kortaveski sem innihélt greiðslukort, skilríki og staðgreiðslukort Olís.
2. Miðvikudaginn 28. mars, brotist inn í íbúð að [...], með því að brjóta upp útidyrahurð íbúðarinnar og stolið þaðan Playstation leikjatölvu, fjórum fjarstýringum auk snúra, Mobile Video HDD sjónvarpsflakkara, Sennheiser heyrnartólum og D&G armbandsúri, allt að óþekktu verðmæti.
3. Föstudaginn 30. mars í búningsaðstöðu að [...], stolið kvenmannsveski að óþekktu verðmæti og stungið því inn á sig en er að honum var komið hljóp ákærði á brott en á eftir honum hljóp A, kt. [...], á hlaupunum sneri ákærði sér tvívegis við og hótaði A því að hann væri með hníf og greip um buxnavasa sinn, en hótanirnar voru til þess fallnar að vekja hjá henni ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð, á hlaupunum missti ákærði veskið.
4. Aðfaranótt miðvikudagsins 4. apríl, brotist inn í húsnæði félagasamtaka [...] með því að brjóta rúðu í útidyrahurð og tvær rúður í glugga og losað opnanlegt fag úr glugga og stolið þaðan sjóðsvél að óþekktu verðmæti.
Teljast brot í öllum liðum ákærukafla I. varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot í ákærulið I.3. að auki við 233. gr. sömu laga.
II.
Fyrir hylmingu, með því að hafa, mánudaginn 2. apríl tekið við farsíma frá B vitandi eða mátt vera það ljóst að um þýfi væri að ræða og þannig haldið farsímanum ólöglega frá eiganda hans en símanum hafði verið stolið á [...] skömmu áður.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Síðari ákæran er gefin út af ríkissaksóknara 10. maí 2012 á hendur framangreindum Baldri Kolbeinssyni og „X, kennitala[...], [...], [...], „fyrir rán með því að hafa laugardagskvöldið 31. mars 2012 í Reykjavík, veist í félagi með ofbeldi, hótunum og ógnunum að C, kennitala [...], við [...], þar sem ákærðu ógnuðu C með hnífum, ákærði Baldur tók hann hálstaki og kýldi hann tvisvar í vinstra auga með krepptum hnefa, skipaði honum að tæma vasana og láta hann fá símann hans og tók því næst af honum veski, sem innihélt greiðslukort og ökuskírteini. Ákærði Baldur hótaði að stinga C ef hann léti hann ekki hafa 10.000 krónur af greiðslukortinu og af ótta við ákærðu fór C með þeim í hraðbanka að [...] og gaf ákærða Baldri upp leyninúmer kortsins, en nær engin innistæða var á kortinu. Á [...] og í porti við [...] héldu ákærðu áfram hótunum og ógnunum með hnífum, auk þess að heimta símann af C, og létu ekki af háttsemi sinni fyrr en lögregla hafði afskipti af þeim, en þá voru þeir staddir í portinu. Afleiðingar af háttsemi ákærðu urðu þær að C hlaut bólgu við vinstra auga.
Telst háttsemi ákærðu varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Við upphaf aðalmeðferðar féll ákæruvaldið frá ákæru fyrir það sem greint er í II. kafla ákæru lögreglustjóra.
Ákærði Baldur játar sök í 1., 2. og 4. lið í ákæru lögreglustjóra og krefst vægustu refsingar en neitar sök að öðru leyti og krefst sýknu. Ákærði X neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Málavextir varðandi þann þátt málsins þar sem ákærðu neita sök verða nú reifaðir en að öðru leyti er vísað til ákæru, sbr. 3. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.
Málavextir varðandi það sem ákærða Baldri er gefið að sök í 3. lið ákæru lögreglustjóra eru þeir að nefndan dag var tilkynnt til lögreglu um mann sem hefði stolið veskjum úr yfirhöfnum að [...]. Þegar lögreglan kom á vettvang var maðurinn horfinn á braut en hann var sagður hávaxinn, grannur, snoðklipptur með skollitað hár, klæddur ljósri hettupeysu og í rauðum buxum. Lögreglumenn svipuðust um eftir manninum en fundu hann ekki. Grunur beindist að ákærða vegna þess að um svipað leyti og þetta gerðist kom maður í húsið og spurði eftir Baldri. Ákærði var handtekinn og yfirheyrður daginn eftir. Hann kvaðst lítið muna og bar við lyfja- og áfengisneyslu. Hann viðurkenndi þó að hafa verið að [...] daginn áður og eins að hafa fengið hníf að gjöf þann dag. Samkvæmt lýsingu í lögregluskýrslu var ákærði í rauðum íþróttabuxum, svörtum bol og hvítri hettupeysu þegar hann var handtekinn og kvaðst hann hafa verið þannig klæddur daginn áður.
Málavextir varðandi það sem ákærðu er gefið að sök í ákæru ríkissaksóknara eru þeir að nefnt kvöld barst lögreglunni tilkynning um að tveir menn væru að ráðast á þann þriðja við [...]. Lögreglumenn svipuðust um eftir mönnunum og fundu ákærðu og brotaþola í húsasundi við [...]. Við leit á ákærða Baldri fannst vasahnífur og ökuskírteini brotaþola. Brotaþola er lýst svo að hann hafi verið rauður og bólginn við vinstra auga. Lögreglumaður spurði brotaþola hvort ákærðu hefðu veitt honum áverkann og kinkaði hann kolli við því. Hann var spurður hvort ákærðu hefðu fleiri muni hans í vörslu sinni og kvað hann þá hafa tekið bankakort sitt, en það fannst ekki í fórum ákærðu. Við yfirheyrslu hjá lögreglu skýrði brotaþoli svo frá: „Ég var á leiðinni heim og þegar ég var kominn að Hlemmi þá sá ég X en við þekkjumst og ég fór til hans og bað hann um sígarettu. Hann bað mig þá um að koma í hornið við [...]. Þegar við vorum komnir þangað þá tók Baldur mig hálstaki og sagði mér að tæma vasana. Ég sagði nei og þá kýldi Baldur mig í vinstra augað með krepptum hnefa. Baldur leitaði þá á mér og tók veskið mitt. Hann sagði mér síðan að koma með símann og ég sagði nei og þá kýldi hann mig aftur í vinstra augað með krepptum hnefa. Ég reyndi þá að hlaupa í burtu, en Baldur kyrkti mig þá fastar og fastar. Baldur tók síðan upp debetkortið mitt, Landsbankakort, sem var í veskinu og sagði við mig „láttu mig hafa tíuþúsundkall núna eða ég sting þig“ en hann var með hníf í hægri hendi. Ég fór þá með þeim í Landsbankann á [...]i, móti [...]. Baldur setti debetkortið mitt í hraðbankann og ég sagði honum PIN-númerið en ég vissi að það var ekkert inni á kortinu. Baldur stimplaði PIN-númerið og sýndi þá hraðbankinn að 14 krónur væru inni á kortinu. X sagði mér þá að koma með símann minn og hann skyldi redda mér öðrum síma í staðinn og nefndi hann þá einhverja greiðslu um næstu mánaðamót. Ég skildi ekki hvað hann átti við með því. Þeir tóku mig síðan bak við eitthvert hús eftir þetta og ógnuðu mér með hníf og heimtuðu símann minn og þá kom lögreglan.“
Við yfirheyrslu hjá lögreglu bar ákærði Baldur að brotaþoli hefði skuldað meðákærða 30.000 krónur og hefðu þeir sent hann í hraðbanka til að taka út peninga. Ákærði kvaðst hafa potað í bakið á brotaþola og hótað að nauðga honum ef hann borgaði ekki. Ákærði kvaðst ekki hafa kýlt brotaþola heldur hefði verið búið að því þegar þeir hittust. Hann hefði ekki tekið hann kverkataki eða ógnað honum með hnífi, en hann hefði lagt hendurnar yfir axlirnar á honum. Hins vegar viðurkenndi ákærði að hafa tekið veskið af brotaþola af því að hann ætlaði að láta hann fara í hraðbanka.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu bar ákærði X að hann og meðákærði hefðu neytt Rivotril þennan dag og myndi hann lítið eftir því sem hafði gerst. Hann neitaði að þeir hefðu ráðist á brotaþola heldur hefðu þeir reynt að ræna af honum símanum. Þá kvaðst ákærði hafa séð meðákærða kýla brotaþola tvisvar í augað og hefði hann bólgnað við það. Ákærði viðurkenndi að hafa ógnað brotaþola með hníf en kannaðist ekki við að meðákærði hefði gert það. Ákærði var spurður hvort hann hefði séð meðákærða taka brotaþola kverkataki og svaraði hann því til að hann hefði séð hann standa fyrir aftan brotaþola og taka hann kverkataki með því að hafa höndina sína utan um háls brotaþola. Þá kvaðst hann muna eftir því að meðákærði hefði spurt brotaþola um PIN-númerið á korti hans en í ljós hefði komið að innstæðan á kortinu var 14 krónur.
III
Við aðalmeðferð ítrekaði ákærði Baldur neitun sína við því sem hann er sakaður um í 3. lið I. kafla ákæru lögreglustjóra. Hann kvað það rangt sem eftir sér er haft í lögregluskýrslu að hann hefði verið að [...] þetta kvöld. Hann hefði sagt að hann hefði verið á [...]. Þá kvaðst hann ekki hafa verið með hníf þetta kvöld. Ekki kvaðst hann muna eftir að kona hefði elt sig eða að hann hefði hótað konu. Ákærði kvaðst ekki muna hvernig hann var klæddur þetta kvöld en gerði ekki athugasemdir við lýsingu í lögregluskýrslu.
A, sem er í kór sem hafði haldið tónleika að [...] umræddan dag, bar að eftir tónleikana hefði söngfólkið orðið vart við að maður hefði verið að gramsa í yfirhöfnum þess inni í búningsherbergi. Hún kvaðst hafa séð manninn ganga út gang og elt hann út á götu. Þegar hann varð var við eftirförina hefði honum brugðið og misst veski í götuna. Hún kvaðst hafa hlaupið á eftir honum en hann hrópað að henni að hætta að elta sig þar sem hann væri með hníf. Hún kvaðst hafa hætt að elta manninn á horni [...] og [...]. A kvaðst geta ímyndað sér að ákærði væri maðurinn, enda væri hann áþekkur honum. Maðurinn hefði verið í hvítri peysu og annaðhvort í rauðum buxum og köflóttum nærbuxum eða öfugt. Hún kvað hann hafa haldið uppi um sig buxunum eins og hann væri að missa þær niður um sig. Eftir að þetta var um garð gengið hefði maður komið í húsið til að leita að vini sínum sem hann kvað heita Baldur og þess vegna dró A þá ályktun að þjófurinn héti Baldur. A kvaðst hafa heyrt þetta frá öðrum.
Kona, sem einnig er í kórnum, bar að eftir tónleikana hefði hún farið inn í búningsherbergið og mætt þar ungum manni sem henni fannst ekki geta hafa verið í hópi tónleikagesta. Hún kvað hann hafa gengið fram hjá sér og í því hefði A komið inn og hefði hún spurt hana hvort hún þekkti hann. Í ljós kom að svo var ekki og hefðu þær því báðar tekið á rás á eftir honum út. Maðurinn hefði haldið um sig miðjan eins og hann væri að fela eitthvað þar. Á leiðinni hefði maðurinn misst veski og kvaðst konan hafa tekið það upp. A hefði haldið á eftir manninum sem hefði kallað eitthvað að henni sem hún kvaðst ekki hafa heyrt. Konan kvaðst ekki þekkja aftur ákærða sem manninn. Hún kvað sig minna að maðurinn hefði verið í hvítri íþróttapeysu og annaðhvort rauðum buxum eða rauðum nærbuxum, en hann hafi næstum verið búinn að missa buxurnar niður um sig á hlaupunum. Hún kvað konu í kórnum hafa komið með þær upplýsingar að maðurinn héti Baldur.
Önnur kona í kórnum bar að eftir tónleikana hefði hún farið inn í búningsherbergið og þá séð þar mann í rauðum buxum og hvítri hettupeysu og var hann eitthvað að eiga við dótið sem þar var geymt. Hún kvaðst hafa gengið beint að sínu dóti, en þar átti sími að liggja efstur. Hann var ekki á sínum stað og kvaðst hún þá hafa litið á manninn og séð hann vera að ganga út úr herberginu með símann í hendinni. Hún kvaðst hafa sagt við hann „hei þú ert með símann minn“. Maðurinn hefði þá snúið sér við, rétt sér símann og sagt „fyrirgefðu, þetta er misskilningur“. Nú kvaðst hún hafa áttað sig á að maðurinn var ekki einn af tónleikagestum, auk þess sem hún hafi séð vasa hans úttroðna og kvenveski stingast upp úr einum þeirra. Hún kvaðst aftur hafa sagt „hei“ og þá hefði maðurinn farið út úr herberginu og hlaupið á brott, en hún hefði elt hann og kallað að hann hefði verið að taka eitthvað. Hún kvaðst ekki hafa elt manninn út. Hún kvaðst vera 95% viss á að ákærði væri maðurinn.
Rannsóknarlögreglumaður sem rannsakaði málið staðfesti skýrslur sínar. Hann bar að ákærði hefði borið við minnisleysi vegna fíkniefnaneyslu. Þegar ákærði var handtekinn hafi hann verið klæddur í hvíta hettupeysu og rauðar íþróttabuxur og hefði sá klæðnaður komið heim og saman við lýsingu vitna á klæðnaði mannsins, sem stal veskinu að [...].
Ákærði Baldur neitaði sök í ákæru ríkissaksóknara en kvað sig og meðákærða hafa talað við brotaþola, en brotaþoli hefði skuldað meðákærða peninga og þar eð þá hefði vantað peninga hefði hann ákveðið að innheimta þá. Ákærði kvaðst hafa ætlað að „tékka“ á því hvort brotaþoli ætti einhverja innstæðu á kortinu, en brotaþoli sagðist ekki eiga innstæðu á því og hefði látið sig hafa kortið til að athuga það. Ákærði kvaðst hafa látið brotaþola hafa kortið aftur þegar hann hafði sannreynt að ekkert var inni á því. Þessu næst kvaðst hann hafa sett höndina á brjóstkassann á honum til að tala við hann, en ákærði kvaðst hvorki hafa kýlt brotaþola né tekið hann hálstaki. Hann kvað brotaþola hafa verið með áverka þegar þeir hittu hann. Þá hefði hvorugur ákærðu beitt brotaþola ofbeldi eða ógnað honum með hnífi, en ákærði kvaðst hafa tekið hníf af meðákærða. Ákærði kvaðst hafa beðið brotaþola um að tæma vasana og hefði hann gert það, en hann kvaðst ekki hafa skipað honum að gera það. Þetta hafi verið gert í þeim tilgangi að kanna hvort brotaþoli ætti einhverja peninga, en engir peningar hefðu komið í ljós. Ákærði kvað brotaþola hafa látið sig hafa leyninúmerið á kortinu sínu eftir að hann hafði beðið hann um það. Tilgangurinn með þessum aðgerðum gagnvart brotaþola hafi verið að kanna hvort brotaþoli ætti peninga til að greiða skuld sína sem ákærði taldi ýmist 20.000 krónur, 30.000 eða 10.000.
Í dóminum var sýnd upptaka úr myndavél við Landsbankann að [...]. Ákærði þekkti sjálfan sig sem mann á hvítri peysu og einnig sáust meðákærði og brotaþoli. Þá kvað hann sig sjást á mynd með kort brotaþola. Einnig sást á myndinni hvar ákærði setti framhandlegg sinn á brjóstkassa brotaþola, en hann hefði gert sig líklegan til að fara í burtu en ákærði kvaðst hafa átt eftir að tala við hann. Ákærði kvaðst hafa tekið ökuskírteini brotaþola til að kanna hvað hann héti.
Ákærði X neitaði sök og kvaðst ekki muna mikið eftir þessu vegna þess að hann hefði verið undir áhrifum Rivotril. Ákærðu hefðu hitt brotaþola sem hefði beðið sig um sígarettu. Brotaþoli hefði skuldað sér smápeninga og gæti verið að hann hafi verið að rukka hann. Brotaþoli kvaðst ekki eiga peninga og fóru þeir í hraðbanka til að sannreyna það. Brotaþoli hefði stungið upp á því og látið meðákærða hafa bankakortið. Ákærði kvað meðákærða ekki hafa tekið þátt í þessu en taldi hann þó hafa skallað brotaþola. Hann kvað þá ekki hafa hótað brotaþola og taldi þá ekki hafa barið hann. Hann kvaðst ekki hafa verið með hníf en taldi meðákærða hafa verið með hníf sem hann hefði þó ekki ógnað með.
Framangreind mynd var sýnd aftur. Ákærði kvaðst kannast við sig á myndinni ásamt meðákærða og brotaþola. Á myndinni sést ákærði skoða í peningaveski og kvað hann það veski brotaþola. Hann hefði rétt sér það til að hann gæti sannreynt að hann ætti enga peninga. Þegar sést á myndinni hvernig meðákærði stendur þétt upp við brotaþola og setur hönd sína fyrir brjóstkassa hans kvað ákærði brotaþola hafa verið með stæla og ákærði verið að segja honum að róa sig niður og stöðva hann í að ráðast á sig. Þá var hann spurður hvað hann sjáist draga upp úr vasa sínum og kvað hann það vera kveikjara. Borið var undir ákærða það sem hann hafði borið hjá lögreglu og kvaðst hann þá hafa verið undir áhrifum efna og þess vegna borið á þennan hátt. Hann myndi ekki eftir að meðákærði hefði slegið brotaþola eða tekið hann kverkataki. Hins vegar hefði hann séð meðákærða leggja höndina yfir háls brotaþola. Hann kvaðst ekki hafa séð meðákærða ógna brotaþola með hnífi.
Brotaþolinn, C, bar að hafa hitt ákærðu og beðið ákærða X um sígarettu, en þeir hefðu sagt sér að koma á bak við eitthvað, eins og hann orðaði það, en þeir hefðu þá verið rétt hjá Hlemmi. Þar hefði ákærði X dregið upp hníf og sagt sér að tæma vasana. Brotaþoli kvaðst hafa neitað og þá hefði ákærði Baldur kýlt hann tvisvar í augað vinstra megin. Einnig hefði ákærði Baldur tekið sig hálstaki. Hann kvaðst ekki hafa tæmt vasana heldur hefði ákærði Baldur tekið veskið sitt. Síðan hefðu ákærðu farið með sig að hraðbanka og þar hefði hann sagt þeim PIN-númerið á kortinu en ekkert hafi verið inni á því. Hann kvaðst hafa farið með þeim vegna þess að þeir voru með veski hans. Eftir þetta hefðu lögreglumenn komið að þeim bak við hús, en þar hefðu ákærðu reynt að taka af sér síma og hótað að stinga sig með hnífi sem ákærði Baldur var með. Brotaþoli kvaðst ekki hafa skuldað ákærðu peninga heldur hefðu þeir búið þá sögu til. Hann kvað lögregluna hafa leitað á ákærðu og fundið þar veski hans og bankakort.
Lögreglumaður, sem ritaði frumskýrslu málsins varðandi ákæru ríkissaksóknara, staðfesti hana. Hann kvað að tilkynnt hefði verið um tvo menn að veitast að þeim þriðja á [...]. Lögreglumenn hefðu farið á vettvang en ekki fundið mennina fyrr en við [...]. Hann kvaðst hafa þekkt ákærða Baldur sem hefði framvísað vasahníf og ökuskírteini brotaþola. Þá kvaðst hann hafa tekið eftir að einn mannanna var með áverka. Lögreglumaðurinn kvaðst hafa spurt brotaþola hvort ákærðu hefðu veitt honum áverkann og hefði hann kinkað kolli því til samþykkis og eins hefði hann sagt þá vera með bankakort sitt. Mennirnir voru fluttir á lögreglustöð þar sem hann kvaðst hafa rætt við brotaþola. Brotaþoli hefði lýst því að hann hefði verið á göngu austur [...] og mætt ákærðu. Hann kvaðst hafa þekkt ákærða X og beðið hann um sígarettu, en hann hefði ekki þekkt ákærða Baldur. Ákærðu hefðu beðið hann um að ræða við sig í húsaskoti og er þangað var komið hefði ákærði Baldur gripið um háls hans, ýtt honum upp að hliði og kýlt hann tvisvar sinnum með krepptum hnefa. Ákærðu hefðu krafið hann um peninga sem ákærði X hefði sagt að brotaþoli skuldaði sér. Þetta væri ekki rétt en ákærði X hefði áður búið til sögu um að hann skuldaði sér peninga. Brotaþoli sagðist hafa reynt að komast undan en ákærði Baldur hefði haldið honum og ógnað með hnífi. Ákærðu hefðu síðan leitt hann að [...], fengið hjá honum PIN-númerið og reynt að taka út peninga, en aðeins hafi verið 14 krónur inni á kortinu. Þeir hefðu síðan farið með hann í innkeyrsluna þar sem lögreglumennirnir komu að þeim, en þá hefðu ákærðu verið að ógna honum með hníf og krefja hann um síma. Lögreglumaðurinn kvað brotaþola hafa verið rauðan og eins og hann væri að byrja að bólgna við vinstra augað. Hann kvað brotaþola hafa virst mjög hræddan.
Annar lögreglumaður kvaðst hafa fengið tilkynningu um þrjá menn í átökum við [...] og farið á vettvang. Mennirnir höfðu verið farnir en þeir hefðu séð þrjá menn í húsasundi við [...] þar sem tveir þeirra voru að ógna einum með hníf. Lögreglumaðurinn kvaðst ekki hafa séð það en hinn lögreglumaðurinn hefði séð það. Mennirnir tveir hefðu verið handteknir og fluttir á lögreglustöð ásamt brotaþola. Hann kvaðst ekki hafa rætt við mennina eftir það.
Rannsóknarlögreglumaður sem rannsakaði málið staðfesti skýrslur sínar. Hann kvað ákærða Baldur hafa verið frekar æstan og viljað ljúka yfirheyrslunni sem fyrst eins og hans væri vandi. Ákærði X hafi hins vegar verið rólegur eins og hann væri venjulega. Þá kvað hann sjást á myndinni að ákærði X taki upp hníf eins og hann lýsti í skýrslutöku.
IV
Ákærði Baldur hefur skýlaust játað það sem honum er gefið að sök í ákæruliðum 1, 2 og 4 í ákæru lögreglustjóra og verður hann sakfelldur fyrir þau brot sem eru rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákærði hefur neitað sök í 3. ákærulið. Hér að framan var rakinn framburður þriggja kvenna sem allar voru að [...] umræddan dag. Allar bera þær að maðurinn, sem stal þar kvenveski hafi verið klæddur eins og ákærði var klæddur þegar hann var handtekinn. Þá báru tvær þeirra að skömmu eftir atburðinn hefði komið maður í húsið og spurt eftir Baldri, en þær höfðu þetta þó eftir öðrum. Loks kvaðst ein þeirra vera 95% viss um að ákærði væri þjófurinn. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi verið þarna að verki eins og honum er gefið að sök í ákærunni. Hann verður því sakfelldur fyrir þjófnað og varðar brot hans við 244. gr. almennra hegningarlaga. A ber ein um að ákærði hafi hótað henni eins og honum er gefið að sök í ákærunni. Gegn neitun hans er því ósannað að hann hafi hótað henni og verður hann sýknaður af ákærunni hvað það varðar.
Hér að framan var rakinn framburður brotaþola og lögreglumanna sem komu á vettvang og lýst því sem sést á myndbandi af vettvangi við hraðbankann að [...]. Frásögn brotaþola er í samræmi við það sem hann skýrði lögreglumanni frá á vettvangi. Þá staðfesti lögreglumaður að brotaþoli hefði verið rauður eins og hann væri að byrja að bólgna við vinstra auga. Ákærði Baldur hefur borið að brotaþoli hefði skuldað meðákærða peninga sem hann hefði ákveðið að innheimta og var í kaflanum að framan rakið hvernig ákærði lýsti aðgerðum sínum við innheimtuna. Þá var í II. kafla rakinn framburður ákærðu hjá lögreglu, en þar viðurkenndi ákærði Baldur að hafa tekið veskið af brotaþola, potað í bakið á honum og hótað að nauðga honum ef hann greiddi ekki hina meintu skuld. Ákærði neitaði hins vegar að hafa tekið hann hálstaki eða kýlt hann. Ákærði X kvaðst fyrir dómi mest lítið muna eftir þessu og bar við neyslu Rivotril. Hann kvaðst þó telja að meðákærði hefði skallað brotaþola. Hjá lögreglu hafði ákærði borið að meðákærði hefði tvisvar kýlt brotaþola í augað. Hann viðurkenndi að hafa ógnað brotaþola með hnífi en kvað meðákærða ekki hafa gert það og þá kvað hann þá hafa reynt að ræna síma hans. Þegar allt framangreint er virt telur dómurinn sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærðu veittust að brotaþola með ofbeldi, hótunum og ógnunum eins og þeim er gefið að sök í ákærunni. Þá er og sannað á sama hátt að ákærði Baldur hafi kýlt brotaþola eins og honum er gefið að sök en ósannað að hann hafi tekið hann hálstaki, enda er brotaþoli einn um að bera það. Þá er og ósannað að ákærði Baldur hafi ógnað brotaþola með hnífi, en með játningu ákærðaX hjá lögreglu er sannað að hann ógnaði brotaþola með hnífi. Með framburði brotaþola og að hluta til viðurkenningu ákærðu, eins og rakið var, telur dómurinn sannað að ákærðu hafi með framangreindu ofbeldi og hótunum haft af brotaþola fjármuni þá sem í ákæru greinir. Samkvæmt framansögðu verða ákærðu því sakfelldir fyrir rán eins og þeim er gefið að sök í ákærunni og er brot þeirra þar rétt fært til refsiákvæðis.
Ákærði Baldur var dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundna, 2007 fyrir margvísleg brot. Árið 2008 var hann dæmdur í 15 mánaða fangelsi og var skilorðshluti fyrri dómsins dæmdur með. Honum var tvívegis veitt reynslulausn úr fangelsi vegna þess dóms en rauf skilyrði hennar og lauk afplánun 10. nóvember 2009. Ákærði var aftur dæmdur í 5 mánaða fangelsi 22. febrúar 2010. Honum var, líkt og fyrr, veitt reynslulausn en rauf skilyrði hennar og lauk afplánun 17. júlí 2010. Hann var dæmdur í 4 mánaða fangelsi 6. júlí 2010 og lauk afplánun þeirrar refsingar 18. desember sama ár. Síðast var ákærði dæmdur í 15 mánaða fangelsi 18. mars 2011 og lauk afplánun þeirrar refsingar 21. mars 2012. Við ákvörðun refsingar ákærða verður höfð hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga auk sakaferils hans. Þá er og til þess að líta að hann byrjar að brjóta af sér nánast um leið og hann er látinn laus úr fangelsi. Samkvæmt þessu verður refsing hans ákveðin 18 mánaða fangelsi. Til frádráttar skal koma gæsluvarðhald sem hann hefur sætt eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærði X var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi 23. mars 2012. Hann var dæmdur í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi 8. júní síðastliðinn og var fyrri dómurinn dæmdur með. Skilorðsdómurinn verður nú tekinn upp og dæmdur með þessu máli, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði er 16 ára og framdi brotið, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, með sér eldri og reyndari brotamanni. Refsing hans nú verður ákveðin með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga og er hún hæfileg 6 mánaða fangelsi og skal hún bundin skilorði eins og í dómsorði greinir.
Loks verða ákærðu dæmdir til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Baldur Kolbeinsson, sæti fangelsi í 18 mánuði en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 4. apríl 2012.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dómsins, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði Baldur greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Inga Freys Ágústssonar hdl., 489.450 krónur. Þá greiði hann þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Páls Kristjánssonar hdl., 225.900 krónur.
Ákærði X greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Björgvins H. Björnssonar hdl., 316.887 krónur.