Hæstiréttur íslands
Mál nr. 249/2015
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. mars 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar, ásamt þóknun réttargæslumanns í héraði, verði lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína.
Í hinum áfrýjaða dómi var frásögn brotaþola af málsatvikum metin einkar trúverðug og jafnframt vísað til framburðar vitna og annarra gagna sem styddu að hún hafi orðið fyrir slæmri lífsreynslu að morgni 21. ágúst 2013 að [...], [...]. Einnig var þar tilgreint að skýringar og skynjun ákærða á aðstæðum umrætt sinn fengju á engan hátt staðist og var framburður hans um það atriði metinn með miklum óraunveruleikablæ. Til viðbótar þessu staðfesti ákærði framburð brotaþola um að hún hafi orðið ofsahrædd, en taldi það mega rekja til misskilnings hennar eða ímyndunar. Loks var frásögn ákærða varðandi tímasetningar ekki í innbyrðis samræmi. Að þessu virtu og öðru því sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi verða ekki vefengdar forsendur héraðsdóms fyrir mati á trúverðugleika framburðar þar fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, um að ákærði hafi brotið gegn brotaþola umrætt sinn.
Við úrlausn máls þessa verður þó ekki framhjá því litið að brotaþoli og ákærði eru ein til frásagnar um það í hverju brot ákærða gegn henni var nákvæmlega fólgið. Hefur hann staðfastlega neitað sök. Að virtum ákvæðum 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 verður ekki fullyrt að atvik hafi verið með þeim hætti að fella beri háttsemi ákærða undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður því fallist á varakröfu ákæruvaldsins um sakfellingu eftir ákvæðum 199. gr. og 209. gr. laganna. Brot ákærða voru alvarleg og er refsing hans samkvæmt því ákveðin fangelsi í 9 mánuði, en rétt er að binda hana skilorði að hluta eins og í dómsorði greinir.
Brot þau sem ákærði er sakfelldur fyrir eru til þess fallin að valda brotaþola miska. Á hinn bóginn skortir mjög á gögn til stuðnings bótakröfu hennar. Samkvæmt þessu verða miskabætur ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða sakarkostnað í héraði, eins og í dómsorði greinir, en fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram frekari gögn um þann kostnað. Verður þó ekki fallist á að ákærði greiði 46.048 krónur vegna ferðar vitnis á þingstað 23. október 2014, þar sem þinghald féll niður. Fellur sá kostnaður á ríkissjóð.
Með vísan til 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður sakarkostnaður fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Harutyun Mackoushian, sæti fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði A 600.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði greiði sakarkostnað í héraði, samtals 1.288.160 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns eins og þau voru þar ákveðin og þóknun réttargæslumanns brotaþola, 620.000 krónur. Ferðakostnaður vitnis, 46.048 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. febrúar sl., er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru dagsettri 30. maí sl. gegn Harutyun Mackoushian, kennitala [...], [...], [...], aðallega fyrir nauðgun en til vara fyrir kynferðislega áreitni og brot gegn blygðunarsemi, með því að hafa að morgni miðvikudagsins 21. ágúst 2013, með ólögmætri nauðung haft önnur kynferðismök en samræði við A, en ákærði fór í heimildarleysi inn í svefnherbergi íbúðar [...] að [...], [...], þar sem A lá í rúmi sínu aðeins klædd hlýrabol og nærbuxum, og lagðist upp í rúm til hennar nakinn og strauk handleggi hennar, bak, brjóst, læri og rass utan- og innan klæða og snerti einnig getnaðarlim sinn. Er A snéri sér undan ákærða og lagðist á magann lagðist ákærði nakinn ofan á hana og hélt henni niðri, og viðhafði samræðishreyfingar þannig að stinnur getnaðarlimur ákærða straukst við rass A.
Er þetta aðallega talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 199. gr. og 209. gr. sömu laga.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, fæddri [...], [...] ríkisborgara, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 21. ágúst 2013 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins.
Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er krafist sýknu, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Mánudaginn 26. ágúst 2013, kl. 9.14, mætti A, brotaþoli í mái þessu, á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Við það tækifæri var tekin skýrsla af brotaþola og greindi hún þá frá atvikum málsins. Í skýrslu brotaþola kom meðal annars fram að brotaþoli hefði leigt herbergi að [...] í [...]. Að morgni miðvikudagsins 21. ágúst 2013 hafi ákærði komið óboðinn inn í herbergið til brotaþola. Hafi ákærði lagst nakinn upp í rúm brotaþola og strokið brotþola um handlegg, bak, brjóst, læri og rass. Þá hafi ákærði snert getnaðarlim sinn. Er brotaþoli hafi lagst á magann hafi ákærði lagst nakinn ofan á brotaþola og viðhaft samræðishreyfingar. Hafi stinnur limur ákærða strokist við rass brotaþola. Brotaþola hafi tekist að koma ákærða út úr herberginu. Í framhaldi hafi brotaþoli sent vinum sínum skilaboð á fésbókarsíðu sinni þar sem hún hafi lýst því sem fyrir hana hafi komið. Eftir það hafi hún yfirgefið íbúðina og haldið á kaffihús í nágrenninu. Þaðan hafi hún farið heim til vina sem boðið hafi brotaþola að koma heim til sín. Skýrsla var aftur tekin af brotaþola 16. apríl 2014 og þá í gegnum síma þar sem brotaþoli var þá stödd í [...]. Við það tækifæri kom meðal annars fram í framburði brotaþola að ákærði hafi strokið brotaþola um líkamann bæði innan og utan klæða. Heimilaði brotaþoli lögreglu að fara inn á fésbókarsíðu sína.
Á meðal rannsóknargagna málsins er afrit af samskiptum af fésbókarsíðu brotaþola frá 21. ágúst 2013. Samkvæmt því hefur brotaþoli sent B skilaboð að morgni dags, 21. ágúst 2013, kl. 06.36 og aftur kl. 06.54. Þar segir m.a. að maður sem búi á sama stað og brotaþoli hafi hegðað sér einkennilega. Hann hafi komið inn í herbergi til brotaþola um hálfri klukkustund áður og farið nakinn upp í rúm til hennar um leið og hann hafi sagt að hann gæti ekki stillt sig. Hann hafi ekki viljað fara þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hennar þar um. Hann hafi lagst ofan á hana og sagt henni óhugnanlegar sögur jafnframt því sem hann hafi snert hana. Hann hafi að lokum farið og hún læst herberginu. Hún hafi ekki vitað hvað hún ætti að gera. Í rannsóknargögnunum kemur og fram að brotaþoli sendi sambærileg skilaboð kl. 07.19, til annarra vina sinna, þar sem hún falast eftir hjálp. Í boðunum greinir hún frá því að hún sé hrædd og hafi læst að sér í húsinu og í boðum kl. 08.26 kemur fram að hún hafi yfirgefið húsið. Biður hún um hjálp og biður einhvern um að hýsa sig. Kl. 09.20 svarar C brotaþola og býður henni að koma til sín og B að [...] í [...].
Þá er á meðal rannsóknargagna málsins afrit úr dagbók brotaþola. Þar hefur hún skráð niður að ákærði hafi komið inn í herbergi hennar kl. 06.00 eða 6.20. Ákærði hafi einungis verið með handklæði um sig. Hann hafi tekið það af sér og farið upp í rúm til hennar og sagt að hann gæti ekki hamið sig allt síðan hann hafi séð brotaþola á nærbuxum. Hann hafi strokið brotaþola um líkamann og núið líkama sínum við líkama hennar. Þá hafi hann snert lim sinn. Hann hafi farið ofan á brotaþola sem hafi snúið sér undan um leið og hún hafi ítrekað sagt honum að fara. Hún hafi reynt að vera ákveðin, þó svo hún hafi ekki viljað reita hann til reiði. Henni hafi loks tekist að koma ákærða út úr herberginu og hafi hún læst hurð herbergisins að því búnu.
Á meðal rannsóknargagna málsins er afrit af tölvubréfi sem brotaþoli sendi leigusala að húsnæðinu að [...], þann 21. ágúst 2013, kl. 13.46. Í tölvupóstinum greinir brotaþoli frá því að hún sé flutt úr húsnæðinu. Hún segir frá því að snemma þennan morgun hafi umboðsmaður leigusala komið nakinn inn í herbergi brotaþola og farið upp í rúm til hennar. Hann hafi snert hana og reynt að fá hana til að hafa við sig kynmök og ekki látið af háttseminni þrátt fyrir að brotaþoli hafi sagt honum að fara út úr herberginu. Hann hafi lagst ofan á brotaþola, sem hafi ekki getað hreyft sig. Henni hafi loks tekist að fá hann til að yfirgefa herbergið og hafi hún þá læst því. Hún hafi síðan flúið úr húsinu og fengið vini til að aðstoða sig við að nálgast hlutina sína í íbúðinni. Hafi hún verið mjög hrædd og sé það enn. Sé það vilji brotaþola að D þekki atvik og sé upplýst um að brotaþoli muni gefa lögreglu skýrslu um málið. Á meðal rannsóknargagna málsins eru ljósmyndir tæknideildar lögreglu er tekið hefur myndir úr íbúðinni að [...], þann 2. september 2013.
Ákærði og brotaþoli gáfu skýrslu fyrir dóminum. Þá komu fyrir dóminn þeir einstaklingar er brotaþoli hafði samband við sama dag og atvik urðu, en um er að ræða C og E. Þá komu fyrir dóminn leigusalarnir, D og F, og G frá Stígamótum. Símaskýrslu gáfu B, vinkona brotaþola, og fyrrum sambýlismaður brotaþola, H. Verður hér á eftir gerð grein fyrir framburðum ákærða og vitna að því marki er máli skiptir fyrir niðurstöðu málsins.
Ákærði hefur lýst atvikum þannig að hann hafi leigt íbúð að [...] í [...] og stundum ,,passað“ íbúðina fyrir eigendurna. Hann hafi dvalið í íbúðinni frá því í janúar 2013 til september sama ár. Í ágúst 2013 hafi ákærði fengið símtal frá leigusala sínum sem beðið hafi hann um að aðstoða stúlku við að komast inn í húsnæðið, en stúlkan hefði leigt þar herbergi. Í samræmi við þetta samtal hafi ákærði hleypt stúlkunni inn í húsið og sýnt henni herbergi sem hún hafi átt að vera í og annað er máli hafi skipt. Er þau hafi hist hafi stúlkan verið með,,flirting“ bros og spurt hvort þau væru ein. Hafi ákærða fundist sem brotaþoli væri að daðra við sig. Brotaþoli hafi síðar farið í sturtu í íbúðinni og skilið bleika rakvél eftir á baðinu. Ákærða hafi fundist brotaþoli vera að senda sér einhver skilaboð með því og að einhver kynferðisleg ,,meining“ lægi að baki því hjá brotaþola. Hann hafi farið út um hádegið þennan sama dag og komið aftur til baka um miðnættið. Hann hafi farið inn í herbergi sitt. Stuttu síðar hafi hann heyrt einhvern opna og loka hurð, eins og viðkomandi væri að vekja athygli á sér. Hann hafi litið fram og séð brotaþola fyrir framan herbergi sitt. Hún hafi sagt eitthvað eins og ,,ert þetta þú?“, líkt og til að vekja athygli á sér. Hafi brotaþoli verið klædd bol og nærbuxum einum fata.
Næsta morgun hafi ákærði farið út og komið til baka um miðnættið. Brotaþoli hafi þá verið í stofunni að vinna í tölvu. Hún hafi þá verið klædd í sama bolinn og nærbuxurnar. Hún hafi verið að drekka bjór úr bjórdós sem hún hafi tekið frá ákærða úr ísskáp íbúðarinnar. Hún hafi sagt að hún hafi fengið sér bjór frá ákærða og ákærði sagt að það væri í lagi og sagt að hann ætti líka vín ef hún vildi. Brotaþoli hafi tekið upp tölvu sína og sagt að þau skyldu fara saman inn í herbergi til hennar og hlusta á tónlist. Þau hafi setið saman á rúmi hennar og drukkið. Ákærði hafi í framhaldi snert hár hennar ,,vinalega“. Brotaþoli hafi þá orðið rauð í framan og sagt ákærða að fara. Hann hafi orðið við því og yfirgefið herbergið strax. Hafi ákærða grunað að brotaþoli hafi orðið hrædd. Hann hafi farið að sofa eftir þetta. Brotaþoli hafi farið út úr húsinu um kl. 2 þessa nótt og ákærði ekki séð hana eftir það. Brotaþoli hafi því einungis dvalið tvær nætur í íbúðinni.
Ákærði kveður sögu brotaþola vera hreina ímyndun. Brotaþoli hafi verið að senda honum skilaboð með sínu daðrandi brosi, með rakvélinni á baðinu og með því að vera fáklædd frammi. Eins hafi hún vakið sérstaka athygli á sér með því að opna og loka hurð að herbergi sínu. Er ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu bar hann að hann hafi ekki fengið brotaþola til að gera eitt né neitt. Hann hafi ekki sagt neitt rangt við brotaþola eða neitt klámfengið. Hafi brotaþoli verið að nýta sér ákærða og verið að athuga vald sitt yfir honum. Hafi hann gert þau mistök að fylgja henni í þeim leik en hún hafi verið að stríða honum.
Brotaþoli hefur lýst atvikum þannig að hún hafi komið til landsins í ágúst 2013. Hafi hún komið hingað til lands til að stunda rannsóknir. Hún hafi leigt herbergi að [...] í [...]. Þangað hafi hún komið 19. ágúst 2013. Leigusalinn hafi verið í útlöndum en brotaþola verið tjáð að ráðsmaður myndi hleypa henni inn í íbúðina. Er hún hafi komið á [...] hafi hún hitt ákærða. Hafi hann hleypt henni inn og afhent henni lykla. Þau hafi rætt saman í 5 til 10 mínútur. Að því loknu hafi ákærði farið. Brotaþoli hafi á þeim tíma ekki verið búin að átta sig á því að ákærði byggi í raun í sömu íbúð og hún. Hún hafi því í fyrstu haldið að hún væri ein í íbúðinni þetta kvöld. Hún hafi farið í bað og síðan heyrt eitthvað umstang í íbúðinni. Hafi hún aðgætt hvað það væri og séð ákærða í íbúðinni. Hún hafi beðið ákærða afsökunar á því að hún væri léttklædd og farið inn í herbergi til sín. Ákærði hafi sagt að þetta væri í lagi hans vegna. Síðar sama dag hafi ákærði sett miða á hurð brotaþola með orðunum að fegurðin væri ófreskja. Hafi brotaþola fundist það óþægilegt.
Að morgni 21. ágúst, á bilinu kl. 6.00 til 6.30, hafi brotaþoli vaknað upp við það að ákærði var kominn inn í herbergi til hennar. Hann hafi verið nakinn en með handklæði um sig miðjan. Hann hafi tekið af sér handklæðið og farið upp í rúm til hennar. Hún hafi spurt hann hvað hann væri að gera og beðið hann um að fara. Hún hafi áttað sig á stöðu sinni og ekki viljað reita ákærða til reiði. Hann hafi sagt að hann gæti ekki haldið aftur af sér og nuddað líkama sínum upp við líkama hennar og snert hana. Hann hafi strokið henni um handlegg, bak, brjóst, læri og rass. Hafi snertingin verið bæði innan og utan klæða. Þá hafi hann snert getnaðarlim sinn. Brotaþoli hafi haldið áfram að segja ákærða að hann ætti að fara. Hún hafi snúið sér undan ákærða og lagst á magann. Hann hafi þá lagst ofan á hana og haldið henni þannig niðri með þunga sínum. Hafi ákærði viðhaft samræðishreyfingar ofan á brotaþola og stinnur limur hans strokist við rass hennar.
Brotaþoli hafi áttað sig á því að enginn væri í íbúðinni og hún því ein með ákærða. Allt hafi því snúist um að reita ákærða ekki til reiði. Hann hafi farið að tala um kærustu sem hann hafi átt, og hafi hún verið vændiskona í fíkniefnaneyslu. Að endingu hafi brotaþola tekist að ýta ákærða ofan af sér og standa upp. Ákærði hafi staðið á fætur, beðist afsökunar og yfirgefið herbergið, en hann hafi komið strax aftur. Þannig hafi þetta gengið fyrir sig í nokkur skipti en að lokum hafi ákærði ekki komið til baka og brotaþola þá tekist að læsa herberginu. Brotaþola hafi liðið mjög illa, verið hrædd og reynt að hringja í vinkonu sína B en verið inneignarlaus. Hún hafi því sent henni skilaboð á fésbókina, og nokkrum öðrum einstaklingum að auki. Hún hafi einnig sent kærasta sínum í [...], H, skilaboð um hvað hafi komið fyrir. H hafi hringt til baka og hafi þau rætt saman í stutta stund. Brotaþoli hafi látið sem hún væri að tala við einhvern annan og á almennum nótum ef vera kynni að ákærði væri að hlusta. H hafi sagt henni að hún skyldi snúa sér beint til lögreglunnar. Hafi hún ekki viljað gera það strax þar sem hún þekkti ekkert til aðstæðna hér á landi eða hvernig lögreglan myndi bregðast við. Hún hafi óttast að ákærði gæti hagrætt sögunni strax í upphafi þannig að honum yrði trúað en ekki henni.
Hún hafi dvalið í íbúðinni um stund og beðið þess að heyra frá vinum sínum á Íslandi. Þetta hafi verið árla morguns og enginn vaknaður. Eftir nokkra stund hafi hún tekið peningana sína, vegabréf sitt og hleðslutæki sem vopn ef ákærði myndi reyna að stöðva hana. Hafi hún hlaupið frá húsinu til að komast á almannafæri. Því næst hafi hún haldið á nærliggjandi kaffihús. Þar hafi hún beðið þess að einhver vina hennar hringdi. Eftir um klukkustundu hafi B hringt. B hafi búið að [...] ásamt C. Hafi B boðið brotaþola að koma til þeirra. Hún hafi greint B og C frá því sem gerst hafi. Að því loknu hafi hún spurt hvort hún mætti fara í sturtu, en henni hafi fundist hún finna lykt af ákærða á sér. Eftir sturtuna hafi hún sofnað og þegar hún vaknaði hafi C sagt að þær skyldu fara til lögreglu og kæra verknaðinn og hafi þær pantað tíma hjá lögreglunni. Síðar þennan sama dag hafi brotaþoli nálgast hluti sína í íbúðinni að [...]. Hún hafi ekki viljað fara ein og fengið C og E, er brotaþoli hafi þekkt, til að koma með sér. Þau hafi farið á [...] og náð þar í hluti hennar. Þau hafi ekki orðið vör við ákærða í íbúðinni. Eftir atburðinn hafi brotaþoli fengið að dvelja að [...] í nokkra daga.
Þennan sama dag hafi brotþoli sett sig í samband við leigusalann D og sagt henni hvað hafi komið fyrir. Eftir að hafa sent D skilaboð hafi D hringt og brotaþoli sagt henni alla söguna. Brotaþoli kvaðst hafa óttast um líf sitt á [...]. Viðbrögð hennar hafi miðað að því að reita ákærða ekki til reiði. Hún hafi verið búin að starfa í áfallamiðstöð fyrir þolendur kynferðisofbeldis og því haft þekkingu á því hvernig rétt væri að bregðast við í aðstæðum sem þessum. Hræðslan sem hún upplifði þessa nótt hafi haft mikil áhrif á hana. Í kjölfarið hafi hún meðal annars fundið fyrir þreytu, ekki lengur þorað að vera ein og fyrst á eftir hafi hún ekki getað stundað kynlíf með kærasta sínum. Hún hafi sótt viðtöl hjá Stígamótum og leitað til sálfræðings er hún hafi farið til [...].
H kvaðst hafa verið kærasti brotaþola árin 2009 til 2014. Brotaþoli hafi sent H tölvupóst að morgni 21. ágúst 2013 þar sem hún hafi tjáð honum hvað ákærði hafi gert við hana. Hafi H í framhaldi hringt í brotaþola. Hún hafi greinilega verið mjög hrædd og þóst vera að tala við annan en H ef vera kynni að ákærði væri að hlusta á hana. H hafi verið búinn að ákveða að koma til Íslands nokkrum dögum síðar. Hann hafi hins vegar flýtt för sinni vegna málsins. Brotaþoli hafi tjáð honum að hún hafi talið sig í lífshættu umrætt sinn. Hafi mál þetta haft áhrif á samband þeirra og þau ekki stundað kynlíf í tvo til þrjá næstu mánuði vegna þeirra áhrifa er málið hafi haft á brotaþola.
C kvaðst hafa kynnst brotaþola í gegnum vinkonu sína B. C staðfesti að brotaþoli hafi sent henni skilaboð í gegnum fésbókina, að morgni 21. ágúst 2013, þar sem hún hafi tjáð henni hvað hafi komið fyrir hana í íbúðinni. C hafi séð þessi skilaboð um einum og hálfum tíma eftir að þau hafi verið send. Hafi C sent brotaþola skilaboð um að hún gæti komið til hennar á [...]. Brotaþoli hafi sagt C og B hvað hafi komið fyrir um morguninn. Hún hafi þó ekki greint frá atvikum í smáatriðum. Brotaþoli hafi verið í ,,sjokki“ er hún hafi komið á [...] og liðið mjög illa. Á [...] hafi brotaþoli dvalið í nokkra daga. Hún hafi viljað nálgast dót sitt á [...]. C hafi ákveðið að fá E í lið með þeim og hann farið með brotaþola á staðinn.
B kvaðst hafa kynnst brotaþola á Íslandi og þær verið kunningjar. Að morgni 21. ágúst 2013 hafi C sagt B að skoða fésbókarsíðu sína þar sem brotaþoli væri að biðja um aðstoð. B hafi hringt í brotaþola og boðið henni að koma til sín og hafi hún síðan, ásamt E, aðstoðað brotaþola við að nálgast muni sína í íbúðinni að [...]. Brotaþoli hafi óttast mjög að hitta ákærða í íbúðinni. Hún hafi fengið lánaða peysu á [...], þar sem henni hafi fundist lykt af ákærða í fötum sínum. Á [...] hafi brotaþoli greinilega verið í uppnámi, líkt og hún hefði orðið fyrir áfalli. Hafi hún átt erfitt með að ræða hlutina og verið þögul.
E kvað brotaþola hafa komið til landsins vegna rannsókna á sviði [...]. Hluti af rannsóknarvinnu brotaþola hafi verið að taka viðtal við E. Að morgni 21. ágúst 2013 hafi E séð skilaboð frá brotaþola á fésbókarsíðu sinni. Nokkuð hafi verið um liðið frá því að skilaboðin voru send er hann sá þau og hún hafi verið komin heim til C. E hafi aðstoðað hana og B að nálgast eigur hennar á [...]. Hann hafi ekki þekkt hana að ráði á þessum tíma. Honum hafi þó fundist hún vera í uppnámi þennan dag.
D og F staðfestu að hafa leigt brotaþola íbúð að [...]. D kvaðst hafa fengið bréf frá brotaþola þar sem hún hafi greint frá atvikum að morgni 21. ágúst 2013. Hafi D hringt í brotaþola í kjölfarið og rætt hlutina. Hafi brotaþoli verið í geðshræringu vegna málsins. F kvaðst hafa hringt í ákærða í kjölfar þessa. Hafi ákærði sagt að hann og brotaþoli hafi verið að skemmta sér saman og það endað upp í rúmi. Ákærði hafi sagt að ekkert hafi gerst sem væri ástæða til að kæra.
Niðurstaða:
Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot, með því að hafa að morgni 21. ágúst 2013, með ólögmætri nauðung, haft í frammi önnur kynferðismök en samræði við brotaþola. Er ákærða gefið að sök að hafa snert brotaþola víðsvegar um líkamann innan og utan klæða, snert getnaðarlim sinn og hafa lagst nakinn ofan á brotaþola, sem lá á maganum, og viðhaft samræðishreyfingar þannig að stinnur getnaðarlimur ákærða straukst við rass brotaþola. Ákærði neitar sök. Kveðst hann hafa farið inn í herbergi til brotaþola, eftir að hún bauð honum inn, og setið, ásamt henni, á rúmi hennar. Hafi ákærði snert hár hennar vinalega. Brotaþola hafi mislíkað þetta og sagt ákærða að yfirgefa herbergið. Ákærði hafi gert það.
Frásögn brotaþola hér fyrir dómi, sem og við skýrslugjöf hjá lögreglu, hefur verið á einn og sama veg. Hefur brotþoli verið einkar trúverðug í frásögn sinni af atvikum. Framburður þeirra vitna er gáfu skýrslu fyrir dóminum gefur ótvírætt til kynna að brotaþoli hafi orðið fyrir slæmri lífsreynslu að morgni 21. ágúst 2013 að [...]. Færslur á fésbók brotaþola frá þessum morgni, auk skilaboða sem hún sendi leigusala sínum, leiða hið sama í ljós.
Ákærði hefur haldið því fram að brotaþoli hafi, fyrir þennan atburð, verið að stríða ákærða og athuga hvaða vald hún hefði yfir honum. Hafi hún verið að senda ákærða kynferðisleg skilaboð á ýmsan hátt, með því meðal annars að koma rakvél fyrir á baðinu með tilteknum hætti og vera fáklædd í íbúðinni þannig að ákærði sæi til. Hún hafi vakið athygli ákærða á sér með því að opna og loka hurð margsinnis. Bros hennar hafi verið daðrandi og hún sent ákærða skilaboð með því. Framburður ákærða um þessi atriði er að mati dómsins haldinn miklum óraunveruleikablæ og fær skynjun hans á aðstæðum á engan hátt staðist.
Með hliðsjón af því hvernig ákærði hefur skynjað umhverfi sitt og samskipti við brotaþola er ekki unnt að leggja framburð hans um þau atriði til grundvallar niðurstöðu. Verður að byggja á framburði brotaþola sem, eins og áður var getið, er metinn trúverðugur og ekkert fram komið sem veikir hann. Samkvæmt því er sannað að ákærði hafi óboðinn lagst nakinn upp í rúm til brotaþola, strokið brotaþola, bæði innan og utan klæða um handleggi, bak, brjóst, læri og rass og hafa lagst ofan á brotaþola, sem legið hafi á maganum, og viðhaft samræðishreyfingar þannig að stinnur getnaðarlimur ákærða hafi strokist við rass brotaþola. Þá verður einnig talið sannað að ákærði hafi snert getnaðarlim sinn í herberginu í viðurvist brotaþola. Sú háttsemi ákærða, að liggja ofan á brotaþola og halda henni þannig niðri og viðhafa samræðishreyfingar þannig að stinnur getnaðarlimur straukst við rass brotaþola, var til þess fallin að veita ákærða kynferðislega fullnægingu. Slík háttsemi er nauðgun, sem felld verður undir 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Að þessu gættu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákærða í ákæru.
Ákærði er fæddur í [...]. Hann hefur ekki áður sætt refsingu, svo kunnugt sé. Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir nauðgun gagnvart brotaþola. Á hann sér engar málsbætur. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 2 ár. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.
Af hálfu brotaþola hefur verið krafist miskabóta að fjárhæð 1.200.000 krónur, ásamt vöxtum og málskostnaði. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart brotaþola. Ákærði hefur með ólögmætri háttsemi sinni valdið brotaþola miskatjóni. Með hliðsjón af atvikum máls, vætti brotaþola og vottorðs ráðgjafa hjá Stígamótum eru miskabætur hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.
Um greiðslu sakarkostnaðar, málsvarnarlauna og þóknunar réttargæslumanns fer sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Símon Sigvaldason, Guðjón St. Marteinsson og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómarar kveða upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Harutyun Mackoushian, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði A 1.000.000 króna í miskabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 21. ágúst 2013 til 28. september 2013, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 1.273.520 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 409.200 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, 828.320 krónur.