Hæstiréttur íslands
Mál nr. 840/2015
Lykilorð
- Ómerking héraðsdóms
- Játningarmál
- Aðalmeðferð
- Brot gegn valdstjórninni
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. desember 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Verði ekki fallist á sýknukröfu ákærða krefst hann þess að refsing hans verði milduð.
I
Í máli þessu er ákærða gefið að sök brot gegn valdstjórninni með því að hafa laust eftir miðnætti 23. júlí 2014, í fangamóttöku lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu 113 í Reykjavík, hótað nafngreindum lögreglumanni að berja hann og móður hans. Er brotið talið varða við 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 5. nóvember 2015 á grundvelli 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var ákærða gert að sæta fangelsi í 60 daga, skilorðsbundið í þrjú ár.
II
Ákærði reisir frávísunarkröfu sína á því að mál þetta hafi verið „afleitlega rannsakað strax í upphafi“ og að ákæra lýsi ekki rétt atvikum máls. Þá séu orð ákærða ekki rétt eftir honum höfð í ákæru „né heldur við hvaða aðstæður“, en það skipti höfuðmáli. Þá er byggt á því að fyrri deilur milli ákærða og embætta lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara „geri bæði embættin vanhæf – til rannsóknar annars vegar og útgáfu ákæru hins vegar.“ Loks heldur ákærði því fram að til frávísunar málsins leiði að þar sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi, í kjölfar atviks þess sem hér um ræðir, boðið ákærða að gangast undir sektargerð vegna brota gegn 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, 21. gr. áfengislaga nr. 75/1998 og 3. gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkur nr. 1097/2008, en með því hafi brotið verið afmarkað í upphafi. Sé því ótækt að ákæruvaldið söðli um og telji mörgum mánuðum síðar að ákærði hafi framið brot gegn almennum hegningarlögum.
Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi. Ákæruvaldið hefur metið rannsókn málsins fullnægjandi og á grunni hennar gefið út ákæru í málinu. Eins og ítrekað hefur verið slegið föstu í dómaframkvæmd Hæstaréttar sætir slík ákvörðun ekki endurskoðun dómstóla, en sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik honum í óhag hvíla á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Þá uppfyllir ákæra formskilyrði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laganna. Ákærði hefur heldur ekki fært nein haldbær rök fyrir því að ákæruvaldið hafi ekki gætt hlutlægnisskyldu sinnar við rannsókn málsins og útgáfu ákæru. Loks standa lög ekki til þess að ákæruvaldið hafi afmarkað sakarefni málsins við framangreinda sektargerð. Frávísunarkröfu ákærða er því hafnað.
III
Kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms styður ákærði þeim rökum að héraðsdómara hafi ekki verið heimilt að rjúfa aðalmeðferð málsins með því að telja að ákærði hafi þar játað brot sitt og ljúka málinu samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008. Í skýrslutöku við aðalmeðferðina hafi ákærði viðurkennt að hafa „sagt tiltekin hótunarorð“, en alls ekki að hann hafi framið brot. Hafi verjandi ákærða mótmælt að aðalmeðferð skyldi rofin, en héraðsdómari hunsað andmæli hans. Þá hafi héraðsdómari brotið gegn 2. mgr. 166. gr. sömu laga, en þar komi fram að játi ákærði það brot, sem hann er ákærður fyrir, við aðalmeðferð skuli dómari ákveða í samráði við málflytjendur hvort og að hve miklu leyti þörf er á frekari sönnunarfærslu, en með þessu hafi verið brotið gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð.
Við fyrirtöku máls þessa í héraði 28. september 2015 kvað ákærði ákæru vera ranga og krafðist sýknu. Var málinu þá frestað til gagnaöflunar og aftur 6. október sama ár. Í þinghaldi 26. október 2015 lagði verjandi ákærða fram greinargerð og fleiri gögn og var aðalmeðferð ákveðin 5. nóvember sama ár.
Ákærði játaði við aðalmeðferðina að hafa „byrjað að hóta“ lögreglumanni þeim, sem um ræðir, en það hafi hann gert til að „koma honum undir manna hendur“ og þá hafi ákærði verið að „fremja borgaralega handtöku á honum“. Aðspurður um hvort ákærði hafi hótað lögreglumanninum og móður hans svaraði ákærði: „Já. Ég fer ekkert – ég er búinn að játa það alveg. Það hefur komið fram áður.“ Er sækjandi spurði ákærða hvort hann viðurkenndi þá háttsemi sem í ákæru greinir svaraði ákærði: „Eins og ég hef áður sagt, já.“ Bar ákærði því við að um hafi verið að ræða neyðarvörn og neitaði að um refsivert brot væri að ræða.
Í 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 segir að verði máli ekki lokið samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laganna, ákærði játar skýlaust alla þá háttsemi sem honum er gefin að sök og dómari telur ekki ástæðu til að draga í efa að játningin sé sannleikanum samkvæm, taki dómari málið þegar til dóms, nema annar hvor aðila krefjist þess að fram fari aðalmeðferð í því samkvæmt 166. gr.
Svo sem áður greinir neitaði ákærði sök í þinghaldi 28. september 2015 og var því ákveðið að aðalmeðferð færi fram í málinu, sbr. 4. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt 2. mgr. 166. gr. sömu laga skal, eftir að ákærandi hefur gert stuttlega grein fyrir ákæru og hvaða gögnum hún er studd og ákærða hefur gefist kostur á að gera stuttar athugasemdir af sinni hálfu, taka skýrslu af ákærða. Þá segir í málsgreininni að ef ákærði játar að hafa framið það brot, sem hann er ákærður fyrir, ákveði dómari í samráði við málflytjendur hvort og þá að hve miklu leyti þörf er frekari sönnunarfærslu.
Játning ákærða við aðalmeðferð málsins á þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru, var ekki skýlaus í skilningi 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008, þar sem ákærði bar fyrir sig neyðarvörn, sem er refsileysisástæða samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga, en ákærði gaf þá skýringu á atferli sínu að hann hafi verið að koma viðkomandi lögreglumanni „undir manna hendur“ og um „borgaralega handtöku“ hafi verið að ræða. Voru því ekki skilyrði til að ljúka málinu á grundvelli fyrrgreindri heimildar í lögum nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður því ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Ákvörðun sakarkostnaðar bíður nýs efnisdóms, en allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2015.
Ár 2015, fimmtudaginn 5. nóvember, er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 288/2015: Ákæruvaldið (Margrét Rögnvaldsdóttir) gegn X (Gísli Tryggvason hdl.), sem tekið var til dóms í sama þinghaldi.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 8. maí sl. á hendur ákærða, X, kennitala [...], [...], Reykjavík, „fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa laust eftir miðnætti miðvikudaginn 23. júlí 2014 í fangamóttöku lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu 113 í Reykjavík, hótað A lögreglumanni að berja hann og móður hans.
Telst þetta varða við 106. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Málavextir
Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæðis. Ákærði hefur rofið skilorð dóms frá 4. mars 2013. Ber að dæma þann dóm upp og ákveða ákærða refsingu í einu lagi. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Rétt er að fresta refsingu þessari og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Gísla Tryggvasyni hdl., 250.000 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 60 daga. Framkvæmd refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði greiði verjanda sínum, Gísla Tryggvasyni hdl. 250.000 krónur í málsvarnarlaun.