Hæstiréttur íslands
Mál nr. 92/1999
Lykilorð
- Þjófnaður
- Skjalafals
- Ákæra
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 3. júní 1999. |
|
Nr. 92/1999. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Skjalafals. Ákæra. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
S var ákærður með fjórum ákærum fyrir þjófnað, skjalafals, ölvunarakstur og akstur án ökuréttinda. Var málinu sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi að því er eina ákæruna varðaði þar sem í henni var ekki gerð krafa um refsingu. Var S sakfelldur fyrir þjófnað, ölvunarakstur og akstur án ökuréttinda, en sýknaður af ákæru um skjalafals. Var hann dæmdur til fangelsisrefsingar, greiðslu sektar og sviptingar ökuréttar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. febrúar 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af ákæruvalds hálfu, sem krefst nú staðfestingar á sakfellingu samkvæmt 1. og 2. tölulið fyrri ákæru frá 6. október 1998, en jafnframt þyngingar á refsingu og að hafnað verði kröfu um að vísa frá dómi bótakröfu Sigurðar Ingva Ólafssonar.
Ákærði krefst sýknu af 1. og 2. tölulið fyrri ákæru 6. október 1998. Þá krefst hann þess að refsing verði að öðru leyti milduð og að bótakröfu Sigurðar Ingva Ólafssonar verði vísað frá dómi.
I.
Í héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir ýmis brot samkvæmt fjórum ákærum, sem gefnar voru út 6. og 20. október 1998 og 10. nóvember sama árs. Í síðastnefndri ákæru var ekki gerð krafa um refsingu, svo sem greina ber samkvæmt d. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hvað þessa ákæru varðar er málinu því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi, þar með talinni skaðabótakröfu Hótels Íþróttasambands Íslands.
II.
Í liðum 1. og 2. í fyrri ákæru 6. október 1998 er ákærða annars vegar gefið að sök að hafa aðfaranótt föstudagsins 12. desember 1997 stolið peningaveski í íbúð í Brekkubyggð 15, Garðabæ, þar sem hann var gestkomandi og hins vegar að hafa falsað tékka úr tékkhefti frá Landsbanka Íslands, sem í veskinu var, og greitt leigubifreiðastjóra fyrir akstur með tékkanum. Sigurður Ingvi Ólafsson bifreiðastjóri á Borgarbílastöðinni í Reykjavík kom til lögreglunnar í Reykjavík 27. febrúar 1998 og kærði notkun falsaðs tékka. Tékkinn hafi verið notaður til greiðslu fyrir akstur í leigubifreið kæranda 12. desember 1997 og gefið hafi verið til baka af upphæðinni, sem var 4.000 krónur. Sá sem þetta hafi gert hafi komið með tékkann útfylltan en framselt hann sjálfur í viðurvist kærandans. Í ljós kom að eigandi tékkheftisins var Jóhanna G. Benediktsdóttir og hafði hún tilkynnt heftið glatað. Hún tjáði lögreglu 6. apríl 1998 að veski hennar, sem í var meðal annars tékkhefti, hefði horfið af heimili hennar aðfaranótt 12. desember 1997. Þá hafi komið þangað maður, sem hún ekki þekkti, í stutta heimsókn. Eiginmaður hennar hafi verið í miðbæ Reykjavíkur þessa nótt og hafi maðurinn ekið honum heim. Eiginmaður hennar hafi boðið manni þessum inn og hafi hann dvalist þar í um tíu mínútur og þegið glas af áfengi en síðan farið. Hún lýsti manninum fyrir lögreglunni og kvaðst trúlega mundu geta þekkt hann ef hún sæi hann aftur. Hún kom til lögreglunnar 16. júlí 1998 og voru henni sýndar níu ljósmyndir í möppu. Hún var beðin um að gefa sér góðan tíma og skoða allar myndirnar vandlega, og sagt að ekki væri víst að mynd af brotamanninum væri á meðal myndanna. Eftir að hafa skoðað myndirnar sagði hún að maðurinn á mynd nr. 2 væri sá, sem hefði komið heim með eiginmanni hennar. Aðra kvaðst hún ekki þekkja. Mynd þessi var af ákærða.
Ofangreindur tékki úr tékkhefti Jóhönnu G. Benediktsdóttur ber nafn Gunnars nokkurs sem útgefanda, ákærða sem framseljanda og Finnboga Kristjánssonar þar á eftir sem framseljanda. Nægilega er sannað að ákærði hafi sjálfur framselt tékkann. Tékkinn var notaður í viðskiptum daginn eftir að heftinu var stolið af heimili eiganda þess, sem þekkti aftur ákærða sem gestkomanda þá um nóttina. Með þessu verður fallist á með héraðsdómara að lögfull sönnun sé fram komin til þess að sakfella ákærða fyrir þjófnað á tékkheftinu, eins og honum er gefið að sök í 1. lið fyrri ákæru 6. október 1998. Þegar litið er til þess að bifreiðastjórinn gat ekki sagt nánar til um hver hafi látið hann fá tékkann og að tékkinn er síðast framseldur af öðrum en ákærða, er hins vegar ekki nægilega sannað að ákærði hafi notað tékkann til að greiða bifreiðastjóranum og þar með gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ákærði því sýknaður af 2. lið ákæru þessarar. Verður þá ekki dæmt um skaðabótakröfu Sigurðar Ingva Ólafssonar í máli þessu og ber að vísa henni frá héraðsdómi, sbr. 3. mgr. 177. gr. laga nr. 19/1991.
Að öðru leyti verður héraðsdómur staðfestur um sakfellingu ákærða. Að svo búnu telst refsing sú sem ákærða var gerð í héraðsdómi hæfileg. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Verður ákærða gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins að hálfu, en að hálfu greiðist hann úr ríkissjóði, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar ákæru 10. nóvember 1998, þar á meðal skaðabótakröfu Hótels Íþróttasambands Íslands, svo og skaðabótakröfu Sigurðar Ingva Ólafssonar.
Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Ákærði, Sævar Arnfjörð Hreiðarsson, greiði helming alls áfrýjunarkostnaðar af málinu, þar á meðal af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónum, sem greiðast að öðru leyti úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 1999.
Ár 1999, föstudaginn 15. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 935/1998: Ákæruvaldið gegn Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni sem tekið var til dóms í gær að lokinni aðalmeðferð.
Málið er höfðað með fjórum ákærum Lögreglustjórans í Reykjavík á hendur ákærða, Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni, Blönduhlíð 26, Reykjavík, kt. 230954-5939. Í fyrsta lagi er málið höfðað með ákæru, dagsettri 6. október sl. „fyrir eftirgreind brot á almennum hegningarlögum og umferðarlögum:
1.
Þjófnað með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 12. desember 1997 stolið peningaveski í íbúð í Brekkubyggð 15, Garðakaupstað, þar sem ákærði var gestkomandi en í veskinu var tékkhefti frá Landsbanka Íslands, Suðurlandsbrautarútibúi
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
2.
Skjalafals með því að hafa sama dag greitt Sigurði Ingva Ólafssyni, kt. 280229-4749, fyrir leiguakstur með tékka að fjárhæð kr. 4.000, sem hann falsaði með útgefandanafnrituninni Gunnar (föðurnafn ólæsilegt) á eyðublað nr. 1125993 úr ofangreindu tékkhefti.
Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
3.
Mánudaginn 24. ágúst 1998 ekið bifreiðinni HN-242 án ökuréttar um götur í Reykjavík.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu krefst nefndur Sigurður Ingvi Ólafsson, skaðabóta kr. 4.000 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 12. desember 1997 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags”.
Í öðru lagi er málið höfðað með ákæru, einnig dagsettri 6. október sl., „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðum sviptur ökurétti, svo sem hér er rakið:
I.
Bifreiðinni X-912, aðfaranótt miðvikudagsins 29. júlí 1998, að auki undir áhrifum áfengis, frá Blönduhlíð 26 í Reykjavík að BSÍ við Vatnsmýrarveg og þaðan að Hlemmtorgi við Laugaveg.
II.
Bifreiðinni Ö-3323, laugardaginn 5. september 1998, frá Breiðumörk 11 í Hveragerði til Selfoss, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn á mótum Árvegar og Hörðuvalla.
Þetta telst varða við 1. mgr. 48. gr. og brotið í lið I að auki við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48,1997 og 3. gr. laga nr. 57,1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44,1993 og 2. gr. laga nr. 23,1998”.
Í þriðja lagi er málið höfðað með ákæru, dagsettri 20. október sl., „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa fimmtudaginn 17. september 1998, ekið bifreiðinni K-3425 sviptur ökurétti um Hvanneyrarbraut á Siglufirði, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn.
Þetta telst varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57,1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar”.
Loks og í fjórða lagi er málið höfðað með ákæru, dagsettri 10. nóvember sl., „fyrir eftirfarandi brot framin í Reykjavík á árinu 1998:
I.
Þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 20. september stolið úr sendibifreið við Rauðavatn GSM-síma af gerðinni Ericson og plastpoka sem í var tékkhefti frá Landsbanka Íslands, aðalbanka, Austurstræti 11 í Reykjavík, debetkort, ökuskírteini, örorkuskírteini, strætisvagnakort og strætisvagnamiðar.
II.
Skjalafals, með því að hafa að kvöldi sama dags við kaup á vörum framvísað á veitingastaðnum Blásteini, Hraunbæ 102, debetkorti Steingríms Njálssonar, kt. 210442-3679, á reikning Steingríms hjá Landsbanka Íslands nr. 010-26-80055 og falsað þar nafn Steingríms á neðangreindar greiðslukortanótur:
Nótu nr. 1313148, fyrir kr. 2.000.
Nótu nr. 1315209, fyrir kr. 2.000
Nótu nr. 1316700, fyrir kr. 450.
Nótu nr. 1318150, fyrir kr. 1.000.
III.
Þjófnað, með því að hafa að kvöldi sama dags stolið kr. 2.000 af reikningi Steingríms Njálssonar, kt. 210442-3679, hjá Landsbanka Íslands nr. 010-26-80055, með því að hafa á veitingastaðnum Blásteini, Hraunbæ 102, heimildarlaust notað debetkort Steingríms fyrir viðkomandi reikning.
IV.
Skjalafals, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 21. september greitt fyrir tvær gistinætur á Hóteli Íþróttasambands Íslands í Laugardal, með tékka að fjárhæð kr. 7.440, sem hann falsaði með útgefandanafnrituninni Arnar Ágústsson, á eyðublað nr. 7555788 úr tékkhefti frá Landsbanka Íslands, aðalbanka, Austurstræti 11 í Reykjavík.
Brot ákærða í liðum I og III teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, en brotin í liðum II og IV varða við 1. mgr. 155. gr. sömu laga.
Í málinu gerir Hótel Íþróttasambands Íslands kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr. 7.440, ásamt vöxtum frá 21. september, sem er tjónsdagur, samkvæmt 7. gr. vaxtalaga, en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags”.
Við meðferð málsins hefur verið fallið frá saksókn að því er varðar 1. og 3. 4 tl. II. kafla síðast nefndu ákærunnar.
Málavextir.
Fyrsta ákæran:
Ákærði hefur neitað því að hafa verið að verki í Brekkubyggð 15. Tékki úr hefti því sem stolið var hefur komið fram og er hann framseldur með nafni ákærða og réttri kennitölu. Jóhanna Benediktsdóttir sem þarna býr og átti hefti þetta bar kennsl á ljósmynd af ákærða meðal ljósmynda af öðrum mönnum. Kveður hún ákærða hafa komið þarna um nótt með fyrrverandi manni hennar og saknaði hún verðmætanna eftir það. Loks er í málinu rithandarrannsókn Haraldar Árnasonar rannsóknarlögreglumanns, þar sem skriftin á tékkanum er borin saman við rithönd ákærða. Kveður rannsóknarinn miklar líkur vera til þess að ákærði hafi skrifað tékkann. Dómarinn hefur einnig metið gögn þessi og telur ýmislegt vera líkt með rithönd ákærða og skriftinni á tékkanum. Þegar allt þetta er virt þykir ekki vera vafi að ákærði hafi komið í Brekkubyggð 15 og stolið því þar sem ákært er fyrir, og hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga.
Með sömu rökum og hér hafa verið færð fram telst ákærði vera sannur að því að nota fyrrgreindan tékka til þess að greiða með Sigurði Ingva Ólafssyni leigubílstjóra, fyrir akstur og hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði viðurkennir að hafa ekið bifreiðinni HN 242 sviptur ökurétti um götur í Reykjavík. Hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.
Önnur ákæran:
Ákærði hefur skýlaust játað þau brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um verknaði þá sem lýst er í ákærunni og réttilega eru þar færðir til refsiákvæða.
Þriðja ákæran:
Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um verknað þann sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar færður til refsiákvæðis.
Fjórða ákæran:
1 - 3. Fyrir liggur að ákærði og Steingrímur Njálsson voru saman að drykkju umræddan sunnudag og langt fram á kvöld. Ákærði neitar því að hafa stolið verðmætunum af Steingrími eða að hafa notað debetkort hans í heimildarleysi. Segir hann Steingrím hafa verið ofurölvi og hann hafi beðið sig að geyma fyrir sig verðmætin sem hann er ákærður fyrir að hafa stolið, sbr. I. kafla ákærunnar. Þá hafi hann ritað nafn Steingríms undir nóturnar í II. kafla og sitt eigið undir nótuna í III. kafla að beiðni Steingríms sem ekki hafi getað skrifað fyrir ölvun. Steingrímur hefur komið fyrir dóm og tekið undir þetta að nokkru leyti. Þykir eins og allt er hér í pottinn búið ekki vera óhætt að fella sök á ákærða fyrir þá verknaði sem greinir í I. til III. kafla ákærunnar og ber að sýkna ákærða af ákæru fyrir þá.
4. Ákærði viðurkennir að hafa greitt fyrir gistingu á hóteli ÍSÍ með tékkanum sem ákært er út af. Kannast hann við að hafa ritað annað nafn en sitt eigið undir tékkann. Hefur hann orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1973 hlotið 31 refsidóm, þar af 26 fyrir hegningarlagabrot, aðallega auðgunar- og skjalafalsbrot. Hann hefur hlotið samtals 18 ára og 1 mánaðar fangelsi með þessum dómum, síðast 5 mánaða fangelsi 18. nóvember 1997 fyrir skjalafals og þjófnað. Þá var ákærði dæmdur í sekt og sviptur ökurétti í 6 mánuði 30. mars sl. fyrir ölvun við akstur. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Auk þess ber að dæma ákærða til þess að greiða 200.000 krónur í sekt og komi 35 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu að telja.
Svipta ber ákærða ökurétti í 2 ár frá dómsbirtingu að telja.
Dæma ber ákærða til þess að greiða skaðabætur sem hér segir:
Sigurði Ingva Ólafssyni, kt. 280229-4749, 4.000 krónur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987, með áorðnum breytingum, frá 12. desember 1997 til dómsuppsögu en síðan dráttarvöxtum til greiðsludags samkvæmt III. kafla laganna.
Hóteli Íþróttasambands Íslands, 7.440 krónur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga, frá 21. september 1998 til dómsuppsögu en síðan dráttarvöxtum til greiðsludags samkvæmt III. kafla laganna.
Dæma ber ákærða til þess að greiða 25.000 krónur í saksóknarlaun til ríkissjóðs, 30.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hrl., og helming annars sakarkostnaðar. Úr ríkissjóði ber að greiða verjandanum 30.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun og helming annars sakarkostnaðar.
Mál þetta sótti Hjalti Pálmason, fulltrúi Lögreglustjórans í Reykjavík.
Dómsorð:
Ákærði, Sævar Arnfjörð Hreiðarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði 200.000 krónur í sekt og komi 35 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði er sviptur ökurétti í 2 ár frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði greiði skaðabætur sem hér segir:
Sigurði Ingva Ólafssyni, kt. 280229-4749, 4.000 krónur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987, með áorðnum breytingum, frá 12. desember 1997 til dómsuppsögu en síðan dráttarvöxtum til greiðsludags samkvæmt III. kafla laganna.
Hóteli Íþróttasambands Íslands 7.440 krónur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga, frá 21. september 1998 til dómsuppsögu en síðan dráttarvöxtum til greiðsludags samkvæmt III. kafla laganna.
Ákærði greiði 25.000 krónur í saksóknarlaun til ríkissjóðs, 30.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hrl., og helming annars sakarkostnaðar. Úr ríkissjóði greiðist 30.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til verjandans svo og helmingur annars sakarkostnaðar.