Hæstiréttur íslands

Mál nr. 197/2017

Sante ehf. og Vins Divins s.á.r.l. (Lúðvík Örn Steinarsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Sakarefni
  • Dómstóll
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Í málinu gerðu S og V aðallega kröfu um að tiltekið ákvæði reglugerðar um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni yrði dæmt ógilt, en til vara að þeim væri heimilt, þrátt fyrir umrætt reglugerðarákvæði og með nánar tilgreindum hætti, að afhenda frönsk vín til íslenskra einstaklinga. Héraðsdómur vísaði aðalkröfu S og V frá dómi á grundvelli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með vísan til þess að það væri ekki á færi dómstóla að kveða á um gildi ákvæða reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla án tengsla við úrlausn tiltekins sakarefnis. Þá vísaði héraðsdómur varakröfum S og V frá dómi á grundvelli 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 með vísan til þess að kröfurnar lytu hvorki að tiltekinni stjórnvaldsákvörðun né væru þær settar fram í tengslum við tiltekið sakarefni. Brysti dómstóla því vald til að leggja dóm á þær. Í dómi Hæstaréttar var áréttað að við málflutning um frávísunarkröfu Í hefðu S og V gert breytingar á varakröfum sínum sem Í hefði mótmælt, en samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 skuli vísa frá dómi kröfu, sem ekki komi fram í stefnu, nema stefndi samþykki að hún komist að. Að því gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. mars 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 7. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2017, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Við málflutning í héraði um frávísunarkröfu varnaraðila gerðu sóknaraðilar breytingar á varakröfum sínum, sem mótmælt var af hálfu varnaraðila. Samkvæmt öðrum málslið 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 skal kröfu, sem kemur ekki fram í stefnu, vísað frá dómi nema stefndi hafi samþykkt að hún kæmist að án þess. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Sante ehf. og Vins Divins s.á.r.l., greiði óskipt varnaraðila, íslenska ríkinu, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 10. mars 2017

Mál þetta, sem var höfðað með birtingu stefnu 7. september 2016, var tekið til úrskurðar 6. febrúar sl. Stefnendur eru Sante ehf., Hellusundi 6 í Reykjavík og Vins Divins s.á.r.l., 9B Boulevard Georges Clémenceau, 21200 Beaune, Frakklandi. Stefndi er íslenska ríkið.

                Stefnendur gera báðir, hvor fyrir sitt leyti, þá aðalkröfu að ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2005 um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni, sem útgefin var í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þann 6. september 2005, verði dæmt ógilt.

                Stefnandi Vins Divins s.á.r.l. gerir til vara þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að honum sé heimilt, þrátt fyrir 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2008 um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni, að fela Sante ehf., sem handhafa innflutningsleyfis, að afhenda frönsk vín fyrir sína hönd með póstsendingu til íslenskra einstaklinga sem uppfylla aldursskilyrði 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

                Stefnandi Sante ehf. gerir þá kröfu til vara að viðurkennt verði með dómi að honum sé heimilt, þrátt fyrir 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2008 um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni, að afhenda, í umboði Vins Divins, frönsk vín með póstsendingu til íslenskra einstaklinga sem uppfylla aldursskilyrði 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

                Að auki gera báðir stefnendur í öllum tilvikum, hvor fyrir sitt leyti, þá kröfu að stefndi greiði þeim málskostnað að skaðlausu, eftir atvikum samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðaryfirlitum.

                Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum krefst stefndi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnenda.

                Málflutningur um frávísunarkröfu stefnda fór fram 6. febrúar sl. og var málið að því loknu tekið til úrskurðar.

 

I.

Stefnendur telja að ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni setji innflutningi áfengis ólögmætar skorður og því sé nauðsynlegt að fá framangreindu reglugerðarákvæði hnekkt í því skyni að geta hafið samstarf um innflutning gæðavína með þeim hætti sem þeir ráðgera.

                Stefnandinn Sante ehf. kveðst sérhæfa sig í innflutningi og sölu dýrra, franskra gæðavína, aðallega til veitingahúsa og diplómata. Fyrirtækið fékk leyfi til innflutnings áfengis 31. ágúst sl. til eins árs en kveðst áður hafa haft leyfi til heildsölu með áfengi. Sante kveðst ekki selja Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, neinar vörur m.a. vegna þess að innflutningsvörur Sante henti illa fyrirkomulagi viðskipta ÁTVR og geymsluaðstæðum hjá henni.

                Stefnandi, Vins Divins s.á.r.l., kveðst sérhæfa sig í sölu og útflutningi franskra vína frá Búrgúndarhéraðinu, þar sem starfsstöð fyrirtækisins er, í sama gæðaflokki og stefndi flytur inn. Stefnendur kveðast hafa átt í samstarfi um innflutning og sölu vína til Íslands um nokkurt skeið, þeir hafi áhuga á því að auka samstarfið og hyggist gera samning um það samstarf. Í þeim samningi muni verða kveðið á um að Sante selji vín frá Vins Divins, bæði sem sjálfstæður milliliður og sem umboðsmaður fyrirtækisins. Þá kemur fram í stefnu að stefnendur hyggist koma á fót vefverslun með vín. Fyrirætlanir stefnenda geri ráð fyrir því að Sante afhendi vín til kaupenda, eftir atvikum með póstsendingu í skilningi laga um póstþjónustu nr. 19/2002.

                Stefnendur telja að 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2005, um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni, kunni að standa í vegi fyrir ofangreindri fyrirætlan og leiði til þess að Sante geti ekki veitt Íslendingum sams konar þjónustu og erlendir vínkaupmenn geri. Vísa þeir í því sambandi til bréfs innanríkisráðuneytisins til þeirra, sem dagsett er 4. desember 2015. Bréfið er svar ráðuneytisins við minnisblaði lögmanns Sante frá 15. ágúst sama ár þar sem óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til lögmætis fyrirætlana þeirra. Í minnisblaðinu er spurt hvort þeim sem hafi innflutnings- eða heildsöluleyfi með áfengi sé heimilt að setja á fót vefsíðu með upplýsingum um vín sem hann hafi til sölu, hvort honum sé heimilt að taka við og afgreiða (þ.e. samþykkja pöntun og taka við greiðslu) pantanir á víni í gegnum vefverslunina til annarra en taldir eru upp í 5. gr. reglugerðar nr. 828/2005, að því tilskildu að þeir hafi aldur til áfengiskaupa. Loks er spurt hvort þeir sem hafi innflutnings- eða heildsöluleyfi með áfengi megi afhenda það sjálfir eða senda það með pósti til kaupenda eða hvort skylt sé að afhenda áfengið með milligöngu ÁTVR.

                Í svari ráðuneytisins er vísað til takmarkana á sölu áfengis samkvæmt lögum nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak og bent á 7. gr. laganna og 10. gr. áfengislaga nr. 75/1998, þar sem fram komi að ÁTVR hafi einkaleyfi á því að selja og afhenda áfengi í smásölu. Ráðuneytið segir í svari sínu að ekki þurfi leyfi til að opna vefsíðu og jafnframt að ekki sé bannað að einstaklingar panti löglega vöru í gengnum vefverslun. Hins vegar bendir ráðuneytið bæði á ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr. áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum og ítrekar að öðrum en ÁTVR sé ekki heimilt að selja eða afhenda neytendum áfengi. Feli það sem í minnisblaðinu er kallað að „afgreiða pöntun“ á áfengi í sér verslun með áfengi sé það óheimilt til annarra aðila sem taldir eru upp í áðurnefndri 5. gr. reglugerðar nr. 828/2005, óháð því hvort þau viðskipti fari fram í gegnum vefverslun eða með öðrum hætti. Loks er spurningunni um heimild til að afhenda áfengi svarað á þá leið að afhending þurfi að fara fram í gegnum ÁTVR nema til aðila sem með tæmandi hætti eru taldir upp í 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1998.

                Í stuttu máli felur svar ráðuneytisins í sér þá afstöðu að einkaréttur ÁTVR nái til hvers kyns verslunar með áfengi og að hvers konar afhending áfengis í smásölu til neytenda þurfi að fara fram fyrir tilstilli ÁTVR. Stefnendur telja þessa lagatúlkun ráðuneytisins í mótsögn við beina sölu erlendra vínkaupamanna til neytenda hér á landi sem stefnendur segja vera umfangsmikla og fara fram án aðkomu ÁTVR. Stefnendur kveða að hin afdráttarlausa afstaða innanríkisráðuneytisins til þess að einkaréttur ÁTVR nái til þess að afhenda áfengi í smásölu sé tilefni þessarar málsóknar. Afstaða ráðuneytisins sé í samræmi við ákvæði 1. mgr. 5. gr. nefndrar reglugerðar, sem stefnendur byggja á að hafi ekki viðhlítandi lagastoð. Þrátt fyrir þá sannfæringu stefnenda, að lögskýringar ráðuneytisins fái ekki staðist, telja stefnendur ekki koma til álita að hefja samstarfið, að óbreyttu, með þeim hætti sem lýst hefur verið, þar sem búast megi við því að ríkisvaldið beiti margvíslegum valdheimildum sínum til hins ýtrasta af slíku tilefni. Slíkar aðgerðir gætu hugsanlega raskað starfsgrundvelli stefnenda hér á landi, a.m.k. til skemmri tíma. Málsókn þessi sé því óhjákvæmileg.

 

II.

Stefnendur byggja málatilbúnað sinn á því að í einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis, sbr. 10. gr. áfengislaga nr. 75/1998 og 7. gr. laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, felist einkaleyfi til reksturs smásöluverslana, en ekki sé girt fyrir heimild þeirra, sem hafi leyfi til innflutnings eða heildsölu áfengis, að „afgreiða pantanir [...] og afhenda þeim vín, eftir atvikum með póstsendingum í skilningi laga um póstþjónustur nr. 19/2002“, enda séu þeir sem þannig kaupa áfengi orðnir 20 ára gamlir sbr. 18. gr. áfengislaga. Með öðrum orðum byggja stefnendur á því að þeim sé heimilt að selja neytendum áfengi í gegnum vefverslun, þrátt fyrir ákvæði laga um einkasölu ÁTVR á áfengi.

                Stefnendur reisa aðalkröfu sína, um ógildingu 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2008 á því að ákvæðið skorti viðhlítandi lagastoð. Í ákvæðinu er kveðið á um að þeim sem hafi innflutnings- eða heildsöluleyfi á áfengi sé óheimilt að afhenda það öðrum en þeim sem taldir eru upp í ákvæðinu. Afending til neytenda er ekki meðal þess sem talið er upp í ákvæðinu. Byggja stefnendur á því, svo sem að framan greinir, að túlka verði einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis á þann veg að einkaleyfið nái einvörðungu til reksturs smásöluverslana. Til samræmis við þetta beri að túlka ákvæði 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. áfengislaga, þar sem segir að handhöfum innflutnings- og heildsöluleyfis sé ekki heimilt að selja áfengi í smásölu, með þeim hætti að þar sé einvörðungu vísað til sölu í áfengisverslunum. Reglugerðarákvæðið feli samkvæmt orðanna hljóðan í sér víðtækari takmörkun en lögin kveði á um en takmarkanir á atvinnufrelsi, sem njóti verndar samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar, verði að styðjast við skýra og ótvíræða heimild í settum lögum og allan vafa beri að túlka stefnendum í hag.

                Jafnframt byggja stefnendur á því að það fari í bága við ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar að banna íslenskum handhafa innflutningsleyfis að gera sams konar samninga um sölu og afhendingu víns við íslenska neytendur, sem erlendum vínkaupmönnum er heimilt að gera en í stefnu er staðhæft að slíkur innflutningur og sala sé heimiluð. Þá fari það í bága við 16. gr. EES-samningsins að mismuna vínkaupmönnum, sem eru með starfsstöð hér á landi, miðað við þá sem eru annars staðar á EES-svæðinu og sé auk þess brot á meðalhófsreglu þar sem viðskipti sem stefnendur hyggjast bjóða upp á, raski á engan hátt því markmiði löggjafar um áfengismál, að koma í veg fyrir misnotkun áfengis. Sömu reglur eigi að gilda um heimild þessara aðila til að selja neytendum áfengi í gegnum vefverslun. Stefnendur byggja á því að sú starfsemi sem þeir fyrirhuga, sbr. málsgr. nr. 7 og 8 í stefnu þessari, teljist innflutningur í skilningi áfengislaganna, og af þeim ástæðum sé fyrirhuguð starfsemi ótvírætt heimil Sante sem handhafa innflutningsleyfis. Telja stefnendur að ekki fái staðist að íslenskum neytendum sé heimilt að panta frönsk vín beint frá Frakklandi, en óheimilt að fela íslenskum víninnflytjanda að hafa milligöngu um innflutninginn frá sama aðila.

                Varakröfur sínar byggja stefnendur á sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkröfuna. Tilgangurinn með varakröfum sé að fá viðurkennt með dómi að Sante geti haft milligöngu um afhendingu franskra vína í tengslum við innflutning Vins Divins, og þar með hafið, a.m.k. að hluta, það samstarf sem stefnendur í máli þessu hafa í undirbúningi. Framangreint sé meðal annars mikilvægt til þess að stefnendur geti hafið sameiginlegan rekstur á vefverslun, með þeim hætti að Sante hafi með höndum afhendingu vörunnar á Íslandi.

                Þá er í stefnu gerð grein fyrir því að stefnendur krefjist þess að dómurinn afli álits EFTA-dómstólsins um skýringu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að því leyti sem samningurinn hefur þýðingu fyrir mál þetta, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1994, um öflun álits EFTA-dómstólsins, og leggja stefnendur til að tilteknar spurningar verði lagðar fyrir dómstólinn

 

III.

                Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að kröfugerð og málatilbúnaður stefnenda standist ekki formskilyrði laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, stefnendur skorti lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kröfur sínar, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 auk þess sem málið sé svo vanreifað að ekki verði lagður á það dómur, sbr. einkum e- og f-lið 1. mgr. 80. gr. laganna. Enn fremur telur stefndi að skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki fyrir hendi.

                Hvað kröfugerðina varðar þá geri stefnendur sameiginlega þá aðalkröfu að ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2005 um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni verði dæmt ógilt. Þessi krafa sé sett fram án tengsla við raunhæft úrslausnarefni og sé því í raun lögspurning sem ekki verði með réttu lögð fyrir dómstóla. Í málinu liggi ekki fyrir nein ákvörðun stefnda um rétt eða skyldu stefnenda og úrlausn dómstóla um kröfuna hefði ekkert raunhæft gildi fyrir réttarstöðu þeirra. Í lið 1 í stefnu sé kveðið á um að stefnendur þurfi að hnekkja ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2005 „í því skyni að geta hafið samstarf um innflutning gæðavína með þeim hætti sem þeir ráðgera“. Undirstriki þessi málatilbúnaður að kröfugerð stefnenda sé lögspurning. Raunverulegir, virkir hagsmunir stefnenda af niðurstöðu málsins séu ekki fyrir hendi. Kröfur þeirra lúti ekki að úrlausn um ákveðna kröfu heldur feli í sér óljósar ráðagerðir um samstarf þeirra í framtíðinni. Sjáist þetta víða í stefndu, m.a. þar sem fjallað er um fyrirhugaðan sameiginlegan rekstur á vefverslun stefnenda. Sé því ljóst að málið varðar hagsmuni sem ekki eru orðnir til, sbr. einnig 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991.

                Stefnendur krefjast þess síðan hvor um sig til vara að viðurkennt verði með dómi að þeim sé heimilt, þrátt fyrir framangreint reglugerðarákvæði, að afhenda frönsk vín með póstsendingu til íslenskra einstaklinga sem uppfylla aldursskilyrði 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Erfitt sé að átta sig á innihaldi þeirra dómkrafna og óljóst sé hvort stefnendur séu að óska eftir heimild dómstólsins til þess að ganga gegn ákvæðinu eða virða það að vettugi og þá á hvaða grundvelli. Þá sé alls óljóst hvað sé átt við með „afhendingu með póstsendingu“. Stefnendur hafa ekki heimild til reksturs póstþjónustu í samræmi við ákvæði laga nr. 19/2002 um póstþjónustu og vandséð hvernig dómstóllinn getur veitt þeim slíka heimild. Ef marka megi málatilbúnað stefnenda virðast áform þeirra um samstarf snúast um að stefnandi Sante ehf. reki einhvers konar vefverslun með áfengi stefnanda Vins Divins s.á.r.l. Að mati stefnda endurspeglast þetta hins vegar ekki í kröfugerðinni. Sé tilgangur málsóknarinnar sá að fá úr því skorið hvort milliganga stefnanda Sante ehf. um afhendingu innflutts áfengis til neytenda sé heimil sé ljóst að fjölmörg ákvæði laga og reglugerða hljóti að koma til skoðunar. Gildi ákvæðis 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2005, sem stefnendur fara fram á að verði ógilt með dómi, ráði þannig ekki úrslitum um hvort háttsemin teljist í samræmi við gildandi rétt.

                Þá byggir stefndi á því að ekki sé uppfyllt í málinu sú meginregla íslensks einkamálaréttarfars að kröfugerð þurfi að vera svo ákveðin og ljós að unnt sé að taka hana upp óbreytta sem ályktunarorð í dómsorði ef efnisleg skilyrði eru fyrir þeim málalokum. Við mat á því hvort kröfugerð sé nægilega ákveðin og ljós, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, verði að líta til þess að enda þótt ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2005 verði ógilt standi eftir önnur lagaákvæði sem varði stefnandann Sante sem handhafa innflutningsleyfis. Ef fallist yrði á kröfur stefnenda yrði með öðrum orðum engin breyting á réttarstöðu stefnenda. Að því er lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins varðar bendir stefndi einnig á að stefnandinn Vins Divins s.á.r.l. sé ekki handhafi innflutningsleyfis og því muni úrlausn dómstóla ekki hafa bein áhrif á réttarstöðu hans.

                Samandregið eru aðal- og varakröfur stefnenda að mati stefnda í raun ekki annað en lögspurningar; þar er með öðrum orðum velt upp álitaefnum um tilvist eða skýringu réttarreglna sem tengjast ekki úrslausn um ákveðna kröfu. Þá er það álit stefnda að tilgreining málsástæðna og atvika sem málsóknin er byggð á sé svo óskýr og ruglingsleg að ómögulegt sé fyrir stefnda að átta sig á hvert sakarefnið raunverulega sé og grípa til efnislegra varna.

                Stefnendur byggja sameiginlega aðild sína á 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 án þess að það sé rökstutt frekar. Samkvæmt ákvæðinu er fleiri en einum heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Sú aðstaða sem stefnendur vísi til sé að þeir hyggist gera með sér samning þar sem Sante taki að sér að afhenda vín sem viðskiptavinir panta í vefverslun sem stefnendur virðast ætla að koma á fót í sameiningu. Sante hafi innflutningsleyfi samkvæmt 8. gr. áfengislaga og njóti réttinda sem slíkur. Vins Divins sé hins vegar erlendur birgir Sante ehf. sem hafi í huga að gera viðskiptasamning við Sante ehf. sem muni, að minnsta kosti að hluta, byggjast á því að réttarstaða Sante verði sú sem málatilbúnaður þeirra gengur út á. Af þessu sé ljóst að aðstaða Sante ehf. og Vins Divins s.á.r.l. sé ekki hin sama og því sé skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 ekki uppfyllt. Óljóst sé hvaða sérstöku hagsmunir hvors stefnenda um sig kalli á aðild þeirra beggja að málinu og sérstakar varakröfu hvors þeirra um sig. Málsatvik og málsástæður í stefnu varpi engu ljósi á þetta og enga aðgreiningu málsástæðna fyrir kröfum hvors þeirra um sig sé að finna í stefnu. Sé málið verulega vanreifað að þessu leyti.

 

IV.

Í máli þessu krefjast stefnendur þess aðallega að ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2005 verði ógilt með dómi. Byggja stefnendur þá kröfu á því að ákvæðið skorti viðhlítandi lagastoð og í stefnu er sú málsástæða rökstudd nánar svo sem rakið hefur verið. Til vara gerir hvor stefnenda um sig kröfu um að viðurkennt verði með dómi að Sante ehf. sé heimilt að afhenda íslenskum einstaklingum sem hafa aldur til vín frá Vins Divins s.á.r.l. með póstsendingu. Fallast verður á það með stefnda að kröfugerð aðila sé ekki í samræmi við áskilnað laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                Með aðalkröfu sinni krefjast stefnendur þess að dómurinn ógildi ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2005. Það er ekki á færi dómstóla að kveða á um gildi ákvæði reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla án tengsla þess við úrlausn tiltekins sakarefnis. Niðurstaða dóms um gildi framangreinds ákvæðis í reglugerð 828/2005, hefði því ekki í för með sér annað en að dómurinn veitti svar við þeirri lögfræðilegu spurningu hvort umdeilt ákvæði færi í bága við lög eða hefði ónóga lagastoð. Dómstólar verða ekki krafðir álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem það er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveða kröfu í dómsmáli skv. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Aðalkrafa stefnenda fer í bága við þessa reglu og verður henni af þeim sökum vísað frá dómi.

                Með varakröfum sínum krefjast stefnendur þess að viðurkenndur verði réttur Sante ehf., þrátt fyrir 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 828/2008, til að afhenda einstaklingum, sem uppfylla aldursskilyrði 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998, vín með póstsendingu. Annars vegar er krafan sett fram af hálfu Vins Divins og þess krafist að Sante geti fyrir þeirra hönd afhent áfengi og hins vegar er af hálfu Sante krafist viðurkenningar á því að þeir sjálfir geti afhent áfengi í umboði meðstefnanda. Með hliðsjón af málavöxtum, eins og þeim er lýst í stefnu, verður að skilja varakröfur stefnenda þannig að í þeim felist krafa um að viðurkennt verði að Sante ehf. sé heimilt að selja neytendum áfengi í smásölu í gegnum vefverslun sem fyrirtækið hyggst setja á fót á grundvelli samnings við meðstefnanda. Vefverslun þessari hefur þó ekki verið komið á fót og engir samningar þar að lútandi enn verið gerðir milli stefnenda.

                Stefnandinn Sante ehf. hefur leyfi til innflutnings á áfengi. Varakröfur málsins lúta í reynd að því að dómstólar skýri hvaða heimildir felist í innflutningsleyfinu. Það er hvorki hlutverk dómstóla að veita leyfi sem stjórnvöldum er lögum samkvæmt falið að veita sbr. 8. gr. áfengislaga nr. 75/1998, né heldur að kveða á um þær heimildir sem leyfinu fylgja. Samkvæmt 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er unnt að bera ákvarðanir stjórnvalda undir dómstóla að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Varakröfur stefnenda lúta hins vegar ekki að tiltekinni stjórnvaldsákvörðun og eru heldur ekki settar fram í tengslum við tiltekið sakarefni. Breytir það engu í þessu efni þótt fyrir liggi bréf frá innanríkisráðuneytinu þar sem lýst er afstöðu þess til lagalegra álitaefna sem tengjast deiluefninu. Dómstóla brestur því vald til að leggja dóm á varakröfur stefnenda og verður þeim vísað frá dómi sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Er því ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort stefnandi Vins Divins hafi sjálfstæða lögvarða hagmuni af því að dómurinn afmarki inntak innflutningsleyfis meðstefnanda.

                Með framangreindum rökstuðningi verður öllum kröfum stefnenda vísað frá dómi. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skulu stefnendur greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnendur greiði stefnda óskipt 350.000 krónur í málskostnað.