Hæstiréttur íslands

Mál nr. 691/2017

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra (Eyþór Þorbergsson fulltrúi)
gegn
X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. nóvember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. nóvember 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. nóvember 2017.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra krafðist þess í gær að sakborningi, X, kt. [...], [...], [...], yrði gert að sæta gæzluvarðhaldi og einangrun til miðvikudagsins 8. nóvember kl. 16:00. Kröfu um gæzluvarðhald kveðst lögreglustjóri byggja á a lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og kröfu um einangrun á b lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Rannsakað sé brot sem varðað geti 211. sbr. 20. gr. laga nr. 19/1940 eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga.

Sakborningur krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæzluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Lögreglustjóri segir að um klukkan þrjú, aðfaranótt þriðjudagsins 31. október hafi verið óskað eftir sjúkrabifreið á nánar greindan stað á Akureyri. Þar hafi komið í ljós að A, kt. [...], hefði verið stunginn í bak og vinstra megin í brjóstkassa. Lögreglustjóri hefur eftir brotaþola að hann hafi, á vefsíðunni „facebook“, haft samband við persónu er gangi þar undir nánar greindu nafni en sé í raun maður að nafni Y. Af þessari persónu hafi brotaþoli falað gramm af „grasi“ og hafi þeir mælt sér mót við [...]. Brotaþoli hafi farið að [...] og þar séð mann koma gangi og talið sig þekkja Y. Brotaþoli hafi kallað til mannsins og sá svarað. Á sama tíma hafi hann séð annan mann á eftir Y, hávaxinn, grímubúinn og svartklæddan. Þriðja manninn hafi hann svo séð koma sunnan að, væri sá lágvaxinn, grannur og héti Z. Grímumaður hafi haldið á steikarhnífi, 20 til 30 cm löngum með skafti og 4 til 5 cm breiðu blaði. Z hafi og borið eggvopn. Brotaþoli væri nokkuð viss um að grímumaður væri sakborningur en þó væri hugsanlegt að hann væri annar nafngreindur maður, en báðum væri illa við sig. Brotaþoli hafi fyrir sitt leyti dregið upp hníf en Z þá stungið hann í brjóstið. Brotaþoli hafi borið hönd fyrir sig og hlotið fyrir það skurð á fingri. Brotaþoli hafi eftir þetta sparkað í fætur Z og því næst hlaupið heim til ömmu sinnar er þar ætti heima nær. Á leið þangað hafi hníf líklega verið hent í bak hans og hnífurinn staðið í bakinu. Brotaþoli hafi tekið hnífinn úr og kastað honum í nálægan garð. Því næst hafi brotaþoli fallið í götuna en grímumaður þá komið og hoppað ofan á hann svo að hægri helmingur höfuðs brotaþola hafi farið í götuna. Því næst hafi grímumaður slegið brotaþola í bakið með kylfu. Brotaþoli hafi þá náð að koma á hann sparki en maðurinn haft sig á brott þegar amma brotaþola hafi komið í glugga.

Lögreglustjóri segir rannsókn málsins á frumstigi og að miklar líkur séu á að sakborningur torveldi rannsóknina gangi hann laus, svo sem með því að samræma framburð með öðrum sökunautum og vitnum og afmá merki eftir brot. Meintir samverkamenn sakbornings hafi verið handteknir.

Fyrir dómi kvaðst sakborningur ekki hafa komið nálægt málinu. Hann hefði ekki verið á vettvangi og ekkert af málinu vitað fyrr en hann hefði verið tekinn fastur. Af hans hálfu var sérstaklega vakin athygli á því að brotaþoli hefði borið að grímumaður hefði allur verið svartklæddur en sakborningur hefði við handtöku verið í rauðum buxum.

Ljóst er að lögreglustjóri rannsakar nú brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsóknin mun fremur skammt á veg komin. Af framanrituðu og gögnum málsins er ljóst að sakborningur er undir rökstuddum grun um að hafa verið að verki, hugsanlega ásamt fleiri mönnum. Fallast verður á með lögreglustjóra að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot eða hafa áhrif á hugsanlega samseka menn eða vitni, gangi hann laus á þessu stigi rannsóknarinnar. Skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 eru uppfyllt og ber að taka kröfu lögreglustjóra til greina, svo sem hún er úr garði gerð, en hún þykir ekki úr hófi fram. Jafnframt ber að fallast á kröfu um einangrun.

Eyþór Þorbergsson ftr. gerði kröfu þessa af hálfu lögreglustjóra.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Sakborningur, X, sæti gæzluvarðhaldi og einangrun allt til miðvikudagsins 8. nóvember 2017 kl. 16:00.