Hæstiréttur íslands

Mál nr. 5/2021

Vörður tryggingar hf. (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
A (Agnar Þór Guðmundsson lögmaður)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Slys
  • Slysatrygging
  • Uppgjör

Reifun

Ágreiningur aðila laut að uppgjöri bóta úr slysatryggingu launþega sem I ohf. tók hjá V hf. en A varð fyrir fjöláverka af völdum slyss í júlí 2015 þegar hann var starfsmaður I ohf. V hf. taldi að við uppgjör bóta ætti ekki að leggja saman miskastig vegna orkutaps af völdum hvers áverka um sig samkvæmt miskatöflum örorkunefndar heldur beita svokallaðri hlutfallsreglu. A taldi hins vegar að við uppgjörið ætti að leggja saman miskastig samkvæmt þeirri miskatöflu örorkunefndar sem í gildi var þegar örorka hans var metin. Í dómi Hæstaréttar var talið að við skýringu á skilmálum slysatryggingarinnar bæri að beita andskýringarreglu og skýra umdeilanleg ákvæði í samningi þeim í óhag sem samdi þau en ekki hefði annað komið fram í málinu en að um einhliða staðlaða skilmála hafi verið að ræða sem V hf. hefði samið. Í reglunni fælist jafnframt að sá sem hefði átt að tjá sig skýrar yrði að bera hallann af því að hafa ekki gert það. Talið var að V hf. hefði ekki sýnt fram á að skaðabótalög, kjarasamningar, lög um vátryggingarsamninga, skilmálar slysatryggingar launþega, eins og þeir yrðu túlkaðir í ljósi andskýringarreglunnar, eða sú miskatafla örorkunefndar frá árinu 2006 sem í gildi var þegar mat á varanlegri örorku A fór fram styddi málatilbúnað hans. Þá hefði hann ekki heldur með tilvísun til dómaframkvæmdar eða með öðrum hætti sýnt fram á tilvist venju um beitingu hlutfallsreglu við mat á heildarmiska af völdum fjöláverka á grundvelli miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2006. Voru kröfur A því teknar til greina.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2021. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum en ella að málskostnaður verði látinn niður falla.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Ágreiningsefni

4. Mál þetta lýtur að ágreiningi málsaðila um uppgjör bóta úr slysatryggingu launþega sem Isavia ohf. tók hjá áfrýjanda. Stefndi varð fyrir fjöláverka af völdum slyss 4. júlí 2015 þegar hann var starfsmaður Isavia ohf. Krafa stefnda í málinu tekur mið af mismun bóta annars vegar miðað við 45% og hins vegar miðað við 38% læknisfræðilega örorku en bætur voru greiddar eftir lægra örorkustiginu. Áfrýjandi telur að við uppgjör bóta eigi ekki að leggja saman miskastig vegna orkutaps af völdum hvers áverka um sig samkvæmt miskatöflum örorkunefndar heldur beita svokallaðri hlutfallsreglu. Stefndi telur hins vegar að við uppgjörið eigi að leggja saman miskastig samkvæmt þeirri miskatöflu örorkunefndar sem í gildi var þegar örorka hans var metin. Hann telur að hlutfallsreglan eigi sér hvorki stoð í þeirri töflu né skilmálum vátryggingarinnar.

5. Áfrýjandi var sýknaður í héraði af kröfum stefnda. Í hinum áfrýjaða dómi var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði skort að lögum heimild til að skerða bætur til stefnda fyrir varanlega læknisfræðilega örorku með beitingu framangreindrar hlutfallsreglu og var krafa stefnda tekin til greina að fullu.

6. Beiðni um áfrýjunarleyfi var meðal annars studd þeim rökum að með dómi Landsréttar væri komin upp óvissa um beitingu miskataflna örorkunefndar og að dómurinn væri bersýnilega rangur að formi og efni til. Hlutfallsreglan væri reikniregla í tengslum við læknisfræðilegt mat á fjöláverkum eftir að þeir hefðu verið heimfærðir undir ákvæði miskataflna. Reglan byggði á því að einföld samlagning á miska vegna einstakra áverka fæli í sér ofmat á heildarafleiðingum. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að með tilliti til gagna málsins gætu úrslit þess meðal annars haft fordæmisgildi um mat á örorku vegna fjöláverka á grundvelli miskatöflu örorkunefndar.

Málsatvik

7. Stefndi slasaðist 4. júlí 2015 er hann féll af reiðhjóli á leið heim úr vinnu hjá Isavia ohf. Við fallið hlaut hann ýmsa áverka á höfði og fann einnig fyrir verkjum í hálsi og baki og náladofa í vinstri handlegg og hendi.

8. Isavia ohf. hafði sem fyrr segir í gildi slysatryggingu launþega hjá áfrýjanda sem tók til tímabundinnar og varanlegrar örorku vegna slyss stefnda. Tryggingin var keypt á grundvelli kjarasamnings 29. maí 2012 milli Isavia ohf. og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem framlengdur var til 28. febrúar 2017 með tilteknum breytingum með kjarasamningi 29. apríl 2014 milli annars vegar Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, SFR – Stéttarfélags í almannaþjónustu og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og hins vegar Samtaka atvinnulífsins vegna Isavia ohf. Í kafla 7 í kjarasamningnum var fjallað um tryggingar og í grein 7.1 um slysatryggingar. Í grein 7.1.1 sagði að starfsmenn skyldu „slysatryggðir fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku“ og í grein 7.1.3 kom fram að bætur vegna varanlegrar örorku skyldu greiðast í hlutfalli við tryggingafjárhæðina, 18.102.513 krónur, þó þannig að hvert örorkustig frá 26—50% skyldi vega tvöfalt en frá 51—100% þrefalt. Í grein 7.1.6 var mælt fyrir um að um trygginguna skyldu, að öðru leyti en tekið væri fram í kaflanum, gilda skilmálar viðkomandi tryggingafélags og ákvæði laga um vátryggingarsamninga. Tryggingin skyldi samkvæmt grein 7.1.7 gilda allan sólarhringinn.

9. Stefndi krafði áfrýjanda um bætur á grundvelli fyrrnefndrar tryggingar vegna afleiðinga slyssins. Í kjölfarið óskuðu málsaðilar sameiginlega eftir mati bæklunarskurðlæknis á tímabundinni og varanlegri læknisfræðilegri örorku stefnda. Endanleg matsgerð lá fyrir 9. júlí 2018. Niðurstaða hennar var meðal annars að varanleg læknisfræðileg örorka væri 45%. Ef tekið væri tillit til hlutfallsreglu væri „heildar varanleg læknisfræðileg örorka metin 37%“. Varanleg örorka vegna heilaáverka var metin 20%, vegna breytinga á bragð- og lyktarskyni 5%, vegna raddbreytingar og lömunar á öðru raddbandi 5% og vegna hálseinkenna með taugarótareinkennum 15%.

10. Samkvæmt grein 10.2 í skilmálum vátryggingarinnar skyldi meta örorku í hundraðshlutum samkvæmt þeim töflum örorkunefndar um miskastig sem í gildi væru þegar örorkumat færi fram. Þegar matið fór fram var í gildi miskatafla örorkunefndar frá 21. febrúar 2006. Núgildandi miskatafla örorkunefndar er frá 5. júní 2019.

11. Áfrýjandi greiddi stefnda 10. september 2018 bætur að fjárhæð 10.837.347 krónur og tóku þær mið af 38% varanlegri örorku „að teknu tilliti til hlutfallsreglu“. Stefndi gerði fyrirvara um beitingu hlutfallsreglu og lækkun mats á varanlegri læknisfræðilegri örorku. Hann taldi að óheimilt væri að beita slíkri reglu við uppgjör bótanna og áskildi sér rétt til að bera ákvörðun áfrýjanda undir dómstóla. Krafa stefnda tekur mið af því að fjárhæð bótanna hefði átt að nema 13.824.502 krónum.

Niðurstaða

Hlutfallsregla í ljósi lagafyrirmæla, kjarasamnings og vátryggingarskilmála

12. Þeir skilmálar slysatryggingar launþega sem til umfjöllunar eru í málinu eru hluti af vátryggingarsamningi sem áfrýjandi og Isavia ohf. gerðu með sér til hagsbóta fyrir launþega í starfi hjá síðarnefnda félaginu á grundvelli kjarasamnings sem það var aðili að. Vátryggingarsamningurinn var þannig hópvátryggingarsamningur þar sem stefndi var vátryggður en hafði jafnframt stöðu þriðja manns sem persónutryggður launþegi hjá Isavia ohf.

13. Ekki er annað komið fram í málinu en að um einhliða staðlaða skilmála hafi verið að ræða sem áfrýjandi hafi samið. Við skýringu á þeim er rétt að beita svokallaðri andskýringarreglu en samkvæmt henni ber að skýra umdeilanleg ákvæði í slíkum samningi þeim í óhag sem samdi þau en í reglunni felst jafnframt að sá sem hefði átt að tjá sig skýrar, í þessu tilviki áfrýjandi, verður að bera hallann af því að hafa ekki gert það.

14. Óumdeilt er að samkvæmt fyrrnefndum kjarasamningi og skilmálum þeirrar vátryggingar sem Isavia ohf. tók hjá áfrýjanda á grundvelli hans skyldu afleiðingar slyss bættar á grundvelli mats á læknisfræðilegri örorku samkvæmt töflum örorkunefndar um miskastig. Ekkert verður hins vegar ráðið af kjarasamningnum hvaða reiknireglu eigi að beita við heildarmat á orkutapi vegna fjöláverka við ákvörðun bóta úr slysatryggingu launþega vegna varanlegrar örorku.

15. Um þann vátryggingarsamning sem krafa um bætur er reist á giltu ákvæði um persónutryggingar í lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga sem nú eru í III. hluta laganna. Af þeim lagaákvæðum verða engar ályktanir dregnar um það ágreiningsefni sem uppi er í málinu.

16. Í skilmálum slysatryggingar launþega sem Isavia ohf. keypti hjá áfrýjanda og tóku til slyss stefnda var fjallað um bætur fyrir varanlega örorku í grein 10. Í grein 10.2 sagði að örorku skyldi meta í hundraðshlutum samkvæmt töflum örorkunefndar um miskastig sem í gildi væru þegar örorkumat færi fram. Meta skyldi skerðingu á líkamlegri færni án tillits til starfs, sérstakra hæfileika eða þjóðfélagsstöðu hins slasaða (læknisfræðilega örorku). Væri áverka hins slasaða ekki getið í töflum örorkunefndar um miskastig skyldi meta örorkuna sérstaklega með hliðsjón af töflunum. Tekið var fram að örorka gæti aldrei talist meiri en 100%. Í grein 10.3 sagði að örorkubætur skyldu greiðast í hlutfalli við vátryggingarfjárhæð samkvæmt fyrirmælum í kjarasamningi. Við útreikning örorkubóta skyldi ekki tekið tillit til örorku sem til staðar hefði verið fyrir slysið. Loks sagði í grein 10.4 að við ákvörðun örorkubóta skyldi að auki fylgja nánar tilteknum reglum svo sem þeirri að missir eða bæklun á útlim eða líffæri sem ónothæft hefði verið fyrir slysið skapaði ekki rétt til örorkubóta. Meta skyldi örorku vegna missis eða bæklunar á útlim eða líffæri sem áður hefði verið bæklað með hliðsjón af fyrri bæklun. Tekið skal fram að í dómi Landsréttar var vísað til greinar 10.3 og ranglega sagt að í henni kæmi fram að við útreikning örorkubóta skyldi tekið tillit til örorku sem til staðar hefði verið fyrir slys.

17. Grundvöllur örorkubóta samkvæmt slysatryggingunni er þannig í höfuðatriðum læknisfræðilegt mat á orkuskerðingu vegna slyss sem er sambærilegt hinu almenna mati á varanlegum miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga. Eins og um önnur sérfræðileg atriði sem ágreiningur er um fyrir dómi skera dómstólar endanlega úr um hvaða miskastig skuli lagt til grundvallar niðurstöðu um bætur.

18. Töflur örorkunefndar um miskastig sem vísað er til í grein 10.2 í vátryggingarskilmálunum eru samdar á grundvelli fyrirmæla í 3. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í 1. mgr. 4. gr. laganna segir að þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska sé ákveðin skuli litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns séu frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það valdi í lífi tjónþola. Varanlegan miska skuli meta til stiga og miða við heilsufar tjónþola þegar það væri orðið stöðugt. Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum sagði meðal annars að bætur fyrir varanlegan miska væru staðlaðar og að þær skyldi ákveða á grundvelli miskastigs samkvæmt sérstakri töflu. Í athugasemdum við 4. gr. í greinargerðinni sagði jafnframt að við gerð taflnanna skyldi lagt til grundvallar að tiltekinn varanlegur miski bitnaði jafnþungt á hverjum þeim sem fyrir honum yrði þannig að sami áverki eða sams konar líkamsspjöll leiddu að jafnaði til sama miskastigs. Töflurnar ættu því að sýna læknisfræðilega orkuskerðingu eða miska en ekki skerðingu til að afla tekna. Samkvæmt þessu ber að leggja miskatöflu örorkunefndar til grundvallar við þann hluta ákvörðunar um fjárhæð miskabóta samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga sem lýtur að almennu mati á því hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði.

19. Ekkert verður samkvæmt framansögðu ráðið af 4. gr. og 3. mgr. 10. gr. skaðabótalaga eða athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að þeim lögum hvort rétt er að leggja saman miskastig vegna orkutaps af völdum hvers áverka um sig samkvæmt miskatöflum við mat á heildarmiska vegna fjöláverka eða beita annarri aðferð.

20. Þegar örorka stefnda var metin af lækni að ósk beggja málsaðila með endanlegri matsgerð 9. júlí 2018 var í gildi miskatafla sem örorkunefnd hafði gefið út 21. febrúar 2006. Í inngangi töflunnar var vísað til 3. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, og meðal annars sagt að í slíkri töflu væri metin skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni hjá þeim sem orðið hefðu fyrir líkamstjóni. Taflan væri fyrst og fremst leiðbeinandi um mat á miskastigi vegna tiltekinna tegunda líkamstjóns. Þá var þar tekið fram að áverka sem ekki væri getið um í töflunni yrði að meta með hliðsjón af svipuðum áverkum í henni og hafa til hliðsjónar miskatöflur annarra landa sem getið væri um í hliðsjónarritum. Í miskatöflunni var miski fyrir hverja tegund áverka fyrir sig gefinn upp sem hlutfall af hundraði.

21. Í fyrrnefndri miskatöflu var ekki vikið að því með almennum hætti hvernig meta skyldi heildarmiska vegna tjóns á fleiri en einum líkamshluta. Þá var heldur ekki vikið að því hvaða áhrif miski vegna eldra líkamstjóns ætti að hafa við mat á miska vegna síðara orkutaps. Í kafla VII um útlimaáverka var sérstakur liður um miska vegna finguráverka. Þar var gert ráð fyrir að samanlagðan miska vegna missis fleiri en eins fingurs ætti að meta minni en sem næmi samtölu miska vegna missis hvers fingurs fyrir sig. Í töflunni var ekki að finna önnur sambærileg tilvik og engar öruggar vísbendingar eða leiðbeiningar um hvort beita ætti samlagningu eða hlutfallsreglu við mat á heildarmiska vegna orkutaps sem tengdist fleiri en einum líkamshluta.

22. Örorkunefnd gaf út nýja töflu um miskastig í júní 2019 eftir að fyrrnefnd matsgerð var unnin. Í inngangi töflunnar er að finna sambærilegar upplýsingar og í þeirri eldri. Í VIII. kafla er sett fram sú regla að þegar um er að ræða útbreiddar afleiðingar slyss með færniskerðingu og miska frá fleiri en einu líkamssvæði skuli beita svokallaðri hlutfallsreglu og um hana vísað til hliðsjónarrita og tilgreindrar vefslóðar. Jafnframt er vísað til þess að ef tjónþoli hefur orðið fyrir líkamstjóni í eldra slysi og „verið metinn til varanlegs miska vegna þess“ skuli einnig beita hlutfallsreglu með þeim hætti sem lýst hafi verið. Þá kemur fram í kaflanum að frá þessari reglu séu undantekningar bæði til hækkunar og lækkunar og sem dæmi tekið líkamstjón á pöruðum líffærum, svo sem augum, eyrum og nýrum. Í niðurlagi kaflans eru ítarlegar reiknitöflur til að auðvelda útreikninga á grundvelli hlutfallsreglunnar.

23. Svo sem fyrr greinir segir í grein 10.2 í vátryggingarskilmálunum að örorku skuli meta í hundraðshlutum samkvæmt töflum örorkunefndar um miskastig sem í gildi eru þegar örorkumat fer fram en ekki vikið að því hvaða reiknireglu beri að beita ef slys hefur valdið orkutapi sem tengist fleiri en einum líkamshluta eða líffæri. Orðalag greinar 10.3 um að við „útreikning örorkubóta [skuli] ekki tekið tillit til örorku sem var til staðar fyrir slysið“ verður samkvæmt orðanna hljóðan skilið með þeim hætti að ekki skuli miða greiðslu miskabóta vegna slyss við lægra miskastig en samkvæmt töflum örorkunefndar þótt tjónþoli hafi áður orðið fyrir líkamstjóni sem metið hafi verið til miska. Frá þeirri meginreglu er hins vegar gerð sú undantekning í grein 10.4 að missir eða bæklun á útlim eða líffæri sem ónothæft var fyrir slys skuli ekki hafa í för með sér bótarétt og að missir eða bæklun á útlim eða líffæri sem áður var bæklað skuli meta með hliðsjón af bæklun fyrir slys. Ekki er útfært í skilmálunum hvernig reikna eigi slíka lækkun miska vegna forskaða. Í ljósi andskýringarreglunnar og þeirrar meginreglu sem kemur fram í grein 10.3 í vátryggingarskilmálunum um að hlutfallsreglu verði ekki beitt þegar um forskaða er að ræða stóð það áfrýjanda nær að kveða á um það með skýrum hætti í skilmálunum ef hann taldi að beita ætti hlutfallsreglu við læknisfræðilegt heildarmat á miska af völdum fjöláverka. Samkvæmt því verður áfrýjandi að bera hallann af því að ekkert í skilmálum slysatryggingarinnar styður málatilbúnað hans um beitingu hlutfallsreglu.

Hlutfallsregla sem meginregla í matsfræðum við mat á miska vegna fjöláverka

24. Hvað sem líður framangreindu er því jafnframt haldið fram af hálfu áfrýjanda að sú hlutfallsregla sem kemur fram í miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2019 hafi verið viðurkennd meginregla í þeim matsfræðum sem læknar hafi unnið eftir við mat á læknisfræðilegri örorku vegna fjöláverka á grundvelli miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2006.

25. Í 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga segir að bætur fari eftir aldri tjónþola á tjónsdegi og skuli vera í samræmi við töflu sem fram kemur í greininni „fyrir algeran, 100 stiga, miska“. Í 3. mgr. 4. gr. laganna er heimild til að ákveða allt að 50% hærri miskabætur en samkvæmt umræddri töflu. Ekki verður lagður rýmri skilningur í ákvæði 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga um að alger miski samsvari 100 stigum en að það teljist hámarksmiski og bætur verði ekki greiddar umfram það ef 3. mgr. 4. gr. er ekki beitt. Umrædd ákvæði geta því ekki talist vísbending um að beita beri hlutfallsreglu þegar afleiðingar fjöláverka eru metnir til miska og samanlagður miski nær ekki 100 stigum.

26. Í miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2006 eru ákvæði um finguráverka eins og áður hefur verið rakið. Regla þessi er í ætt við hlutfallsregluna og hefur sérstöðu í þessari miskatöflu. Þrátt fyrir upptöku hlutfallsreglunnar í miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2019 er sérregluna um áverka á fleiri en einum fingri einnig þar að finna. Tilvist þessarar reglu í eldri miskatöflu frá árinu 2006 getur því ekki stutt þá málsástæðu áfrýjanda að hlutfallsreglan hafi verið meginreglan við læknisfræðilegt mat á miska í gildistíð þeirrar miskatöflu enda hefði sérreglan þá verið óþörf.

27. Í framkvæmd hefur verið litið til mats á varanlegum miska samkvæmt dönskum miskatöflum þegar hinum íslensku sleppir og hefur sú framkvæmd stoð í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga, sbr. dóm Hæstaréttar 14. mars 2013 í máli nr. 608/2012. Í þeim dómi var fjallað um mat á varanlegum miska vegna líkamstjóns. Í honum sagði meðal annars að miskatafla örorkunefndar frá árinu 2006 svari að stórum dráttum til sambærilegrar danskrar töflu um mat á varanlegum miska sem þó hafi í ýmsum efnum verið ítarlegri. Í dóminum var því aftur á móti hafnað að styðjast mætti við bandaríska töflu um mat á varanlegri örorku.

28. Þau almennu viðmið í dönsku miskatöflunni frá 1. febrúar 2017, sem vísað hefur verið til í málinu, gera meðal annars ráð fyrir að við mat á heildarmiska þegar um fjöláverka af völdum sama slyss er að ræða verði ekki sjálfkrafa beitt samlagningu á miska vegna hvers áverka fyrir sig. Nánar tiltekið er þar gert ráð fyrir að heildarmiski vegna fjöláverka geti ýmist verið metinn til fleiri, jafnmargra eða færri miskastiga en samanlagður miski vegna hvers áverka um sig. Það ræðst af því hvort einstakir áverkar magna upp afleiðingar hinna, afleiðingar hvers þeirra um sig séu óháðar afleiðingum hinna eða einkenni fleiri en eins áverka skarist. Svipuð viðmið koma þar fram um mat á miska þegar um forskaða er að ræða. Danska miskataflan mælir því ekki fyrir um beitingu hlutfallsreglu við mat á fjöláverka með eins afdráttarlausum hætti og miskatafla örorkunefndar frá árinu 2019 þótt í henni segi að frá hlutfallsreglunni geti verið undantekningar bæði til hækkunar og lækkunar. Hún rennir því heldur ekki stoðum undir þá ætluðu meginreglu um beitingu hlutfallsreglu sem áfrýjandi styður málatilbúnað sinn við. Af hálfu áfrýjanda hefur heldur ekki verið sýnt fram á með hvaða hætti sambærilegar töflur í öðrum löndum renni stoðum undir þá meginreglu í matsfræðum sem hann byggir á í máli þessu.

29. Af hálfu áfrýjanda hefur verið vísað til dóms Hæstaréttar 17. maí 2018 í máli nr. 488/2017. Í því máli var um að ræða kröfu um miskabætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga en þar sem ekki var ágreiningur um aðferðafræði við mat á miska hefur dómurinn ekki fordæmisgildi í máli þessu.

30. Af hálfu áfrýjanda hefur jafnframt verið vísað til nokkurra úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála sem varða kröfur á hendur Sjúkratryggingum Íslands um bætur fyrir varanlega læknisfræðilega örorku af völdum slysa á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Áfrýjandi dregur þá ályktun af þeim að þótt ekki sé í umræddum lögum kveðið á um hvernig meta skuli læknisfræðilega örorku hafi sú venja skapast í framkvæmd á því sviði að beita hlutfallsreglu við slíkt mat.

31. Sem fyrr segir er bótakrafa stefnda í þessu máli reist á vátryggingarsamningi sem gerður var við áfrýjanda af hálfu vinnuveitanda stefnda á grundvelli kjarasamnings sem stéttarfélag hans átti aðild að. Réttarstaða stefnda gagnvart áfrýjanda er því önnur en þeirra sem krefja Sjúkratryggingar Íslands um bætur.

32. Samkvæmt öllu framangreindu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að skaðabótalög, kjarasamningar, lög um vátryggingarsamninga, skilmálar slysatryggingar launþega, eins og þeir verða túlkaðir í ljósi andskýringarreglunnar, eða sú miskatafla örorkunefndar sem í gildi var þegar mat á varanlegri örorku fór fram styðji málatilbúnaði hans. Þá hefur hann heldur ekki með tilvísun til dómaframkvæmdar eða með öðrum hætti sýnt fram á tilvist venju um beitingu hlutfallsreglu við mat á heildarmiska af völdum fjöláverka á grundvelli miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2006.

33. Þar sem skilmálar fyrrnefndrar slysatryggingar launþega mæltu fyrir um að meta skyldi örorku í hundraðshlutum samkvæmt töflum örorkunefndar um miskastig sem í gildu væru þegar örorkumat færi fram er ekki tilefni til þess að taka til þess afstöðu í málinu hvort miskatafla örorkunefndar frá árinu 2019 á sér lagastoð svo sem gert var í dómi Landsréttar.

34. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

35. Um málskostnað og gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi fer eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 króna.