Hæstiréttur íslands
Mál nr. 426/2008
Lykilorð
- Húsnæðissamvinnufélag
- Gjaldþrotaskipti
- Fjárnám
|
|
Fimmtudaginn 5. mars 2009. |
|
Nr. 426/2008. |
Þrotabú Gísla Hjálmars Haukssonar(Ásgeir Þ. Árnason hrl.) gegn Búseta húsnæðissamvinnufélagi, Reykjavík (Ásgeir Jónsson hrl.) |
Húsnæðissamvinnufélög. Gjaldþrotaskipti. Fjárnám.
Deilt var um hvort búseturéttur þrotamanns samkvæmt lögum nr. 66/2003 um húsnæðissamvinnufélög væri fjárhagsleg réttindi sem þrotabú tæki við eftir 72. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Talið var að fjárhagsleg verðmæti væru fólgin í búseturéttinum, en ákveðin fjárhæð væri kræf ef búseturétthafi neytti réttar síns til að segja búsetusamningi upp. Hvergi væri í lögum kveðið á um bann við því að búseturéttur gæti orðið andlag fjárnáms. Skorður væru settar í 19. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög við framsali búseturéttarhafa á búseturétti, en honum væri heimilt að selja hann. Ekki væri sérstaklega fjallað um aðilaskipti að búseturétti af öðrum sökum, en húsnæðissamvinnufélag gæti í vissum tilvikum heimilað að réttur til afnota af íbúð færðist í hendur annarra. Ekki yrði annað ráðið af þessu en að aðilaskipti að búseturétti gætu orðið af öðrum ástæðum en með sölu, en þau sættu þá þeim takmörkunum að nýr eigandi öðlaðist ekki afnotarétt af íbúðinni sem búseturétturinn næði til, nema að fullnægðum skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög. Í öðrum tilvikum myndi nýr eigandi eignast réttindi búseta til að segja upp búsetusamningi og krefjast greiðslu endursöluverðs að virtum rétti húsnæðissamvinnufélags til uppgjörs af því á kröfum þess á hendur búsetanum. Væri því fullnægt skilyrðum til að líta svo á að búseturéttur teldist til réttinda sem hafi fjárhagslegt gildi í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þá var ekki talið að búseturéttur teldist til þeirra persónubundnu réttinda sem 49. gr. aðfararlaga undanskilji fjárnámi. Var því fallist á viðurkenningarkröfu um að þrotabú hafi tekið við búseturétti þrotamanns og gæti fengið réttinn seldan.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. ágúst 2008. Hann krefst þess að viðurkennt verði að hann „sé eigandi að búseturéttindum í íbúð 101 við Eiðismýri 24 á Seltjarnarnesi og hafi sem slíkur átt rétt á að segja upp búseturéttarsamningi um þá íbúð, og að stefnda verði gert skylt að selja, jafn fljótt og kostur er, búseturétt að íbúð nr. 101 við Eiðismýri 24 á Seltjarnarnesi og greiða andvirði búseturéttarins til áfrýjanda.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, sem hann krefst úr hendi áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki frekar til álita.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerði Gísli Hjálmar Hauksson búsetusamning við stefnda 4. febrúar 2004 um íbúð nr. 101 að Eiðismýri 24 á Seltjarnarnesi. Við gerð samningsins greiddi Gísli búseturéttargjald að fjárhæð 1.202.345 krónur til stefnda og skuldbatt sig um leið til að inna af hendi mánaðarlegt búsetugjald, sem þá nam 36.958 krónum. Samkvæmt kröfu tollstjórans í Reykjavík var bú Gísla tekið til gjaldþrotaskipta 16. apríl 2007.
Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi er til úrlausnar í málinu ágreiningur aðilanna um hvort búseturéttur, sem Gísli Hjálmar Hauksson öðlaðist með fyrrnefndum samningi, teljist til réttinda sem áfrýjandi hafi tekið við samkvæmt 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Eftir því ákvæði tekur þrotabú við öllum fjárhagslegum réttindum, sem þrotamaður átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti, nema annað leiði af réttarreglum, eðli réttindanna eða löggerningi sem verður ekki hnekkt vegna gjaldþrotaskiptanna. Sé um einstakling að ræða megi þrotamaðurinn þó halda þeim fjárhagslegu réttindum, sem fjárnám verður ekki gert í eða verða undanþegin fjárnámi, nema mælt sé sérstaklega á annan veg í lögum.
II
Samkvæmt 2. tölulið 2. gr. laga nr. 66/2003 um húsnæðissamvinnufélög er búseturéttur ótímabundinn afnotaréttur félagsmanns í húsnæðissamvinnufélagi af búsetuíbúð. Í III. kafla laganna er nánar fjallað um búseturétt, meðal annars um stofnun hans og greiðslur vegna hans, svo og um ráðstöfun réttarins, framleigu íbúðar, uppsögn búsetusamnings og riftun. Í 9. gr. laganna eru ákvæði um búseturéttargjald og segir þar í 3. mgr. að það standi sem trygging fyrir skilvísri greiðslu búsetugjalds samkvæmt 12. gr. þeirra. Í síðastnefndu ákvæði kemur fram að búsetugjald sé mánaðarlegt gjald fyrir afnot af íbúð og skuli fjárhæð þess ákveðin af stjórn húsnæðissamvinnufélagsins með tilliti til þess að í því felist rekstrarkostnaður vegna íbúðar, framlög í hússjóð og viðhaldssjóð og afborganir af lánum ásamt vöxtum. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna er búseturéttarhafa óheimilt að framselja búseturétt sinn eða framleigja íbúð án skriflegs samþykkis húsnæðissamvinnufélags, en félagið getur þó heimilað að réttur til afnota af íbúð færist yfir til maka eða lögerfingja við andlát félagsmanns, hjónaskilnað, kaupmála milli hjóna eða setu í óskiptu búi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Í 5. mgr. hennar er tekið fram að búseturéttarhafa sé óheimilt að veðsetja búseturétt sinn. Í 1. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 25. gr. laganna er mælt svo fyrir að búsetusamningur sé óuppsegjanlegur af hálfu húsnæðissamvinnufélags, en búseturéttarhafi geti á hinn bóginn sagt honum upp með sex mánaða fyrirvara. Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. skal kaupverð búseturéttar, greiðsluform þess og endurgreiðsla andvirðis réttarins ráðast af samþykktum húsnæðissamvinnufélags.
Í samþykktum stefnda, eins og þeim var breytt á aðalfundi hans 12. apríl 2007, segir í 7. gr. að félagið sé öllum opið. Gangi menn í það með því að skrá sig og greiða inntökugjald og síðan árlegt félagsgjald, en félagsmenn fái úthlutað sérstöku félagsnúmeri í þeirri röð sem þeir gangi í félagið. Í 10. gr. samþykktanna eru ákvæði um kaupverð og endursöluverð búseturéttar. Þar segir í 3. mgr. að endursöluverðið sé ákveðið með tvennum hætti, annars vegar sem lágmarksverð sem nemi upphaflegu kaupverði búseturéttar og komi það til greiðslu tólf mánuðum eftir uppsögn búsetusamnings hafi ekki tekist að selja búseturéttinn og hins vegar sem hámarksverð, sem miðist við upphaflegt verð búseturéttarins framreiknað með vísitölu neysluverðs. Þá er eftirfarandi tekið fram í þessari málsgrein: „Við kaup búseturéttar gengur sá félagsmaður fyrir sem býður hæsta verðið innan þeirra marka. Ef fleiri en einn félagsmaður bjóða hæsta verðið ræður félagsröð innan félagsins og gengur sá fyrir sem lægsta félagsnúmerið hefur.“ Í 19. gr. samþykktanna segir meðal annars að búseturéttargjald standi „sem trygging fyrir réttum efndum á búsetusamningi, þ.e. fyrir búsetugjaldi og skaðabótum vegna tjóns á húsnæðinu sem búseturéttarhafi ber ábyrgð á. ... Félaginu er heimilt að ráðstafa búseturéttargjaldinu til greiðslu á vangoldnu búsetugjaldi og/eða viðhaldi húsnæðisins við skil húsnæðis. Jafnframt er félaginu heimilt að ráðstafa búseturéttargjaldinu til greiðslu alls þess kostnaðar sem hlýst af því að rýma íbúðina.“
Í búsetusamningi stefnda við Gísla Hjálmar Hauksson frá 4. febrúar 2004 var í 2. lið mælt fyrir um áðurnefnda fjárhæð búseturéttargjaldsins, sem sá síðarnefndi innti af hendi við gerð samningsins, 1.202.345 krónur, og skyldi hún vera lágmarksverð við endursölu búseturéttarins. Stofn til framreiknings á hámarksverði var að fjárhæð 1.202.868 krónur. Í þessum lið samningsins voru jafnframt efnislega sams konar fyrirmæli um endursölu búseturéttar og fram koma í fyrrnefndri 3. mgr. 10. gr. samþykkta stefnda. Þá sagði meðal annars eftirfarandi í 3. lið samningsins: „Búseta er heimilt að selja búseturétt sinn og skal hann þá um leið segja sig úr búsetufélaginu og tekur úrsögn hans gildi á söludegi búseturéttar. ... Búseti hsf. sér um kaup og sölu á búseturétti, sem falur er, eftir nánari reglum sem Búseti hsf. setur.“ Um ákvörðun kaupverðs var þar vitnað til áðurnefndra ákvæða í 2. lið samningsins.
III
Í málinu liggur fyrir yfirlýsing stefnda 17. september 2007 um að söluverð á búseturétti yfir íbúð nr. 101 að Eiðismýri 24 hafi þá að lágmarki verið 1.202.345 krónur og að hámarki 1.427.654 krónur. Samkvæmt áðurgreindum ákvæðum í lögum nr. 66/2003, samþykktum stefnda og búsetusamningnum 4. febrúar 2004 er fjárhæð á þessu bili kræf úr hendi stefnda ef búseturéttarhafi neytir réttar síns til að segja samningnum upp, en þó að gættri heimild stefnda til að ganga á féð til uppgjörs á kröfum sínum eftir fyrirmælum 19. gr. samþykkta hans. Að þessu leyti eru fjárhagsleg verðmæti fólgin í búseturéttinum, sem deilt er um í málinu.
Með áðurnefndu ákvæði 5. mgr. 19. gr. laga nr. 66/2003 er girt fyrir að búseturéttarhafi veðsetji búseturétt sinn. Fyrirmæli sem þessi standa því ekki í vegi að fjárnám verði gert í þeim réttindum, sem þau taka til, en hvergi er í lögum kveðið á um bann við því að búseturéttur geti orðið andlag fjárnáms. Í 1. mgr. 19. gr. laganna eru settar skorður við því að búseturéttarhafi framselji réttindi sín, en í samræmi við fyrirmæli 4. töluliðar 2. mgr. 11. gr. þeirra er kveðið nánar á um ráðstöfun búseturéttar í samningi stefnda við Gísla Hjálmar Hauksson frá 4. febrúar 2004. Í samningnum kemur sem áður segir fram í 3. lið að búsetanum sé heimilt að selja búseturétt sinn, en um þá ráðstöfun skuli þó stefndi sjá og gilda þá reglur 2. liðar samningsins um fjárhæð endursöluverðs og hver fái réttinn keyptan. Framsal er aðeins ein grein aðilaskipta. Hvorki er í 19. gr. laga nr. 66/2003, samþykktum stefnda né búsetusamningnum 4. febrúar 2004 mælt sérstaklega fyrir um aðilaskipti að búseturétti af öðrum sökum, en í þeim tilvikum, sem um ræðir í 2. mgr. 19. gr. laganna, getur þó húsnæðissamvinnufélag heimilað að „réttur til afnota af íbúð“ færist í hendur annarra, svo sem segir í ákvæðinu. Af þessu verður ekki annað ráðið en að aðilaskipti geti orðið að búseturétti af öðrum ástæðum en með sölu, en þau sæti þá þeim takmörkunum að nýr eigandi öðlist ekki afnotarétt að íbúðinni, sem búseturétturinn nær til, nema að fullnægðum skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laganna. Með aðilaskiptum í öðrum tilvikum en þeim, sem þetta lagaákvæði tekur til, mundi nýr eigandi á hinn bóginn eignast réttindi búseta til að segja upp búsetusamningi og krefjast greiðslu endursöluverðs að virtum rétti húsnæðissamvinnufélags til uppgjörs af því á kröfum þess á hendur búsetanum. Að þessu virtu er fullnægt skilyrðum til að líta svo á að búseturéttur teljist til réttinda, sem hafa fjárhagslegt gildi í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Samkvæmt 49. gr. laga nr. 90/1989 verður fjárnám ekki gert í persónubundnum réttindum, sem gerðarþola er óheimilt að framselja á sitt eindæmi, nema þau standi til tryggingar fyrir kröfu gerðarbeiðanda. Ákvæði þetta getur því aðeins átt við að fullnægt sé meðal annars því skilyrði að gerðarþola hafi verið veitt réttindin, sem um er að ræða, á þeirri forsendu að hann nyti þeirra en ekki einhver annar. Af lögum nr. 66/2003 verður ekki ráðið að búseturéttur sé veittur manni á þeirri forsendu að hann hafi verið valinn til að njóta réttarins af persónulegum ástæðum, en til þess verður jafnframt að líta að eftir samþykktum stefnda er félagið öllum opið og njóta félagsmenn án tillits til persónu þeirra réttar til að kaupa búseturétt samkvæmt reglum, sem þar greinir. Búseturéttur telst því ekki til þeirra persónubundnu réttinda sem 49. gr. laga nr. 90/1989 lýtur að.
Af framansögðu leiðir að áfrýjandi hefur samkvæmt 1. mgr. 72. gr., sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991 tekið við búseturétti þeim sem þrotamaður átti. Verður því fallist á kröfu áfrýjanda, sem er um viðurkenningardóm samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennt er að áfrýjandi, þrotabú Gísla Hjálmars Haukssonar, hafi tekið við búseturétti þrotamanns yfir íbúð nr. 101 að Eiðismýri 24 á Seltjarnarnesi og geti fengið búseturéttinn seldan samkvæmt 3. lið búseturéttarsamnings þrotamanns og stefnda, Búseta húsnæðissamvinnufélags, Reykjavík, frá 4. febrúar 2004.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2008.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 14. apríl sl., var höfðað með stefnu birtri 21. nóvember 2007 af þrotabúi Gísla Hjálmars Haukssonar, Skúlagötu 30, Reykjavík, á hendur Búseta húsnæðissamvinnufélagi Reykjavík, Skeifunni 19, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefnandi sé eigandi að búseturéttindum í íbúð nr. 101 við Eiðismýri 24 á Seltjarnarnesi og hafi sem slíkur rétt á að segja upp búseturéttarsamningi um þá íbúð, og að stefnda verði gert skylt að selja, jafnfljótt og kostur er, búseturétt að íbúð nr. 101 við Eiðismýri 24 á Seltjarnarnesi og greiða andvirði búseturéttarins til stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Málavextir eru þeir að Gísli Hjálmar Hauksson er félagsaðili í stefnda, en stefndi er húsnæðissamvinnufélag og starfar á grundvelli laga nr. 66/2003 um húsnæðissamvinnufélög. Hinn 4. febrúar 2004 gerðu stefndi og Gísli Hjálmar með sér búsetusamning um íbúð 01-0101 að Eiðismýri 24, Seltjarnarnesi. Greiddi Gísli Hjálmar búseturéttargjald fyrir íbúðina og síðan mánaðarlegt búsetugjald fyrir afnot hennar.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 16. apríl 2007 var bú Gísla Hjálmars tekið til gjaldþrotaskipta og Árni Ármann Árnason hdl. skipaður skiptastjóri. Hinn 27. apríl 2007 ritaði stefnandi bréf til stefnda þar sem farið var fram á að búseturétti lyki og fjárhagsleg réttindi tengd búseturéttinum greidd stefnanda. Með bréfi stefnda, dagsettu 5. maí 2007, var kröfu stefnanda hafnað. Með bréfi, dagsettu 29. maí 2007, óskaði stefnandi eftir nánari gögnum frá stefnda. Með bréfi, dagsettu 6. maí 2007, hafnaði stefndi kröfu stefnanda en benti á að gögn væru til afhendingar hjá Gísla Hjálmari eða lögfræðingi hans. Með bréfi, dagsettu 11. september 2007, ítrekaði stefnandi kröfur sínar. Með sama bréfi var því lýst yfir að stefnandi segði upp búseturéttarsamningi um íbúðina nr. 101 við Eiðismýri samkvæmt heimild í 96. gr. laga um gjaldþrotaskipti og þess krafist að stefndi færi þá þegar í að selja búseturéttinn og greiða andvirði hans til stefnanda. Sama dag sendi stefnandi jafnframt bréf til Gísla Hjálmars og tilkynnti honum um að farið hefði verið fram á að búseturéttur íbúðarinnar yrði seldur og honum bent á að gera ráðstafanir til að finna sér annað húsnæði. Með bréfi stefnda, dagsettu 18. september 2007, voru umbeðin gögn send til stefnanda. Með bréfi stefnda, dagsettu 15. október 2007, hafnaði síðan stefndi alfarið kröfum stefnanda um uppsögn búsetusamningsins.
III
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar taki þrotabú skuldarans við öllum fjárhagslegum réttindum sem þrotamaður átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðarins, nema annað leiði af réttarreglum, eðli réttindanna eða löggerningi. Regla þessi komi fram í 72. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Ef um einstakling er að ræða megi þrotamaðurinn þó halda þeim fjárhagslegu réttindum sem fjárnám verður ekki gert í eða verða undanþegin fjárnámi, nema mælt sé sérstaklega á annan veg í lögum, sbr. og 72. gr. laga nr. 21/1991. Í 43. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 séu tiltekin þau réttindi sem undanskilja megi við aðför og sé búseturéttur ekki tiltekinn þar. Búseturétturinn sé því fjárhagsleg réttindi í skilningi 72. gr. gjaldþrotalaga sem ekki séu undanþeginn aðför í lögum. Ef ætlun löggjafans hefði verið sú að undanþiggja búseturétt aðför hefði löggjafanum verið í lófa lagið að kveða á um slíkt í lögum.
Til áréttingar á því að búseturétt verði að telja fjárhagsleg réttindi í skilningi 72. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sé rétt að skoða 6. tl. 2. gr. laga nr. 66/2003 um húsnæðissamvinnufélög, en þar segi að búseturéttargjald sé það gjald sem félagsmaður í húsnæðissamvinnufélagi greiði til þess að kaupa búseturétt. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 66/2003 segi jafnframt að gjald það sem menn greiði fyrir búseturétt sé í upphafi mismunur á áhvílandi langtímaláni og byggingarkostnaði, þ.e. 10 eða 15% hjá félaginu Búseta. Af þessu megi sjá að þegar greitt sé fyrir búseturétt sé það sama upphæð og fólk greiði oft sem útborgun við fyrstu kaup, þ.e. 10-15%.
Þar sem búseturéttur sé hvergi í lögum undanþeginn aðför beri að hafna því að fólk sem kjósi að binda fjármuni sína í búseturétti eigi að standa betur að vígi við gjaldþrotaskipti en þeir sem borgi út sömu upphæð við kaup á íbúð á almennum markaði. Að öðrum kosti gætu einstaklingar sem sæju fram á gjaldþrot keypt búseturétt og haldið honum sem eign utan skipta. Það liggi fyrir að þegar þrotamaður gerði samning við stefnda hinn 4. febrúar 2004, hafi hann þá þegar verið kominn í vanskil með skatta og önnur gjöld sem honum hafi borið, sbr. kröfu Tollstjórans í Reykjavík í þrotabúið.
Í lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, komi fram í 19. gr. að óheimilt sé að veðsetja búseturétt, en þar sé hins vegar ekkert ákvæði sem kveði á um það hvað verði um fjárverðmæti samkvæmt búseturétti við gjaldþrot búseturéttarhafa. Sökum þess að umrædd fjárhagsleg réttindi séu ekki undanþegin aðför falli þau tvímælalaust undir meginreglu 72. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í 91. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sé þrotabúi heimilað að taka við réttindum og skyldum þrotamannsins samkvæmt gagnkvæmum samningi. Stefnandi hafi margoft lýst því yfir gagnvart stefnda að hann vilji ganga inn í samninginn og segja honum upp til að geta innleyst þau fjárhagslegu réttindi sem felist í búseturéttinum. Með bréfi stefnanda, dagsettu 11. september 2007, hafi búseturéttarsamningnum verið sagt upp samkvæmt heimild í 96. gr. laga um gjaldþrotaskipti.
Samkvæmt 3. gr. búseturéttarsamningsins sé gert ráð fyrir því að búseturéttur geti gengið kaupum og sölum eftir nánar tilteknum reglum sem skilgreindar séu í samningnum. Í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 66/2003 sé fjallað um endurgreiðslu búseturéttar og vísað í 20. tl. 2. mgr. 4. gr. laganna, en þar komi fram að í samþykktum húsnæðissamvinnufélags skuli m.a. fjallað um endurgreiðslu búseturéttar. Í 7. gr. samþykkta fyrir Búseta sé kveðið á um að stjórn félagsins sjái um sölu á búseturéttinum. Með slíku ákvæði sé tryggt að stjórn stefnda geti stjórnað framsali á búseturétti.
IV
Stefndi byggir málatilbúnað sinn á því að stefnandi sé ekki eigandi að umræddum búseturétti og hafi ekki getað sagt honum upp. Af því leiði að stefnda sé ekki skylt að selja búseturéttinn að umræddri búsetuíbúð og greiða andvirði búseturéttarins til stefnanda. Stefndi hafnar því að um fjárhagsleg réttindi sé að ræða í skilningi 72. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sem stefnandi hafi yfirtekið. Þá hafnar stefndi því að um sé að ræða réttindi og skyldur samkvæmt samningi, sbr. 91. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sem stefnandi geti yfirtekið og sagt upp.
Stefndi kveðst starfa samkvæmt lögum nr. 66/2003 um húsnæðissamvinnufélög. Stefndi sé þinglýstur eigandi allra íbúða sem félagsmönnum séu látnar í té, með búsetusamningi, sem sé ótímabundinn afnotaréttur félagsmanns í stefnda af búsetuíbúð. Sé stefndi þinglýstur eigandi þeirrar íbúðar sem um ræðir. Ekki séu gerðir búsetusamningar við aðra en félagsmenn í stefnda sem fengið hafi úthlutað búsetuíbúð vegna persónulegrar þátttöku í félaginu, persónubundins félagsnúmers og greiðslu búseturéttargjalds. Við upphaf búsetusamnings greiði félagsmaðurinn búseturéttargjald fyrir íbúðina og síðan mánaðarlegt búsetugjald fyrir afnot íbúðarinnar. Aðilar að umræddum búsetusamningi séu því stefndi og viðkomandi félagsmaður. Byggir stefndi á því að aðild í félaginu sé persónubundin og geti því félagsaðild Gísla Hjálmars Haukssonar og þar með búseturéttur hans ekki færst yfir til stefnanda við gjaldþrotaskipti vegna eðlis réttindanna.
Með viðurkenningu á því að stefnandi geti sagt upp umræddum búsetusamningi sé stefndi að viðurkenna að eigandi búseturéttarins geti verið annar en félagsmaður í stefnda, en slíku sé ekki til að dreifa. Verði fjárnám ekki gert í slíkum persónubundnum réttindum enda sé félagsmanni óheimilt að framselja búseturétt sinn án samþykkis stefnda. Þá sé búseturéttarhafa óheimilt að veðsetja búseturétt sinn og fjárnám hafi aldrei verið gert í búseturétti. Þá falli félagsaðild að stefnda ekki niður við það að bú félagsmanns sé tekið til gjaldþrotaskipta. Fjárnám verði ekki gert í persónubundnum réttindum sem gerðarþola sé óheimilt að framselja á sitt eindæmi, nema þau standi til tryggingar fyrir kröfu gerðarbeiðanda, sbr. 49. gr. aðfararlaga, sem ekki sé í þessu tilviki.
Stefndi byggir og á því að ekki sé um að ræða fjárhagsleg réttindi heldur persónubundin sem ekki sé hægt að gera fjárnám í. Þá sé búseturéttur þrotamannsins, Gísla Hjálmars, óskyldur öðrum fjárhagslegum réttindum sem ganga eigi inn í þrotabú hans samkvæmt fyrri hluta 1. ml. 1. mgr. 72. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Rétturinn til íbúðarinnar sé persónubundinn vegna félagsaðildar hans í stefnda og óframseljanlegur nema með samþykki stefnda. Verði talið um fjárhagsleg réttindi að ræða byggir stefndi á því að um sé að ræða slík fjárhagsleg réttindi sem gangi ekki inn í þrotabúið vegna eðlis þeirra og undanþegin séu fjárnámi, s.s. vegna félagsaðildarinnar, eðlis búsetusamninga og þeirrar staðreyndar að ekki megi veðsetja búseturéttinn. Byggir stefndi á því að ekki verði gert fjárnám í búseturéttinum og/eða búseturéttargjaldinu.
Stefndi hafnar því að skoða beri búseturéttargjaldið sem fjárhagsleg réttindi sem renni til þrotabúsins vegna þess að upphæð þess sé sú sama og fólk greiði sem útborgun við kaup á íbúð. Búseturéttargjaldið standi m.a. til tryggingar skilvísum greiðslum og sem trygging vegna skemmda á íbúð. Þá sé óheimilt að veðsetja það. Í búsetusamningi milli félagsmanns og stefnda felist einungis afnotaréttur. Í lögum sé lagt bann við veðsetningu búseturéttarins sem og framsali hans. Þá sé stefnda óheimilt að segja búsetusamningi upp. Geti búsetusamningi einungis lokið með þeim hætti að búseturéttarhafi segi samningnum upp sjálfur eða honum sé rift. Þegar slíku sé til að dreifa sjái stefndi um að selja búseturéttinn aftur samkvæmt lögum og samþykktum félagsins. Búseturéttarhafinn sé í þessu tilviki Gísli Hjálmar en ekki stefnandi.
Þá byggir stefndi á því að vegna eðlis þeirra réttinda sem um ræði þá renni þau ekki til stefnanda við það að bú Gísla Hjálmars hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.
V
Í máli þessu snýst ágreiningur aðila um það hvort búseturéttindi þrotamanns, Gísla Hjálmars Haukssonar, séu fjárhagsleg réttindi sem stefnandi taki við samkvæmt 72. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Samkvæmt 5. tl. 2. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, er búseturéttargjald það gjald sem félagsmaður í húsnæðissamvinnufélagi greiðir til þess að kaupa búseturétt. Um búseturéttargjald er nánar fjallað í 9. gr. laganna. Samkvæmt 2. tl. 2. gr. laganna er búseturéttur ótímabundinn afnotaréttur félagsmanns í húsnæðissamvinnufélagi af búsetuíbúð. Nánar er síðan fjallað um búseturétt í 10. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram að enginn geti átt búseturétt nema hann búi jafnframt í því íbúðarhúsnæði sem búseturéttinum fylgi, sbr. þó ákvæði 19. gr. sömu laga. Skilgreiningar þessar eru áréttaðar í 2. gr. samþykkta stefnda.
Samkvæmt 72. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 tekur þrotabú skuldarans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti, með þeim undantekningum sem greinir í ákvæðinu. Ef um einstakling er að ræða má þrotamaðurinn þó halda þeim fjárhagslegu réttindum sem fjárnám verður ekki gert í eða verða undanþegin fjárnámi, nema mælt sé sérstaklega á annan veg í lögum.
Samkvæmt 49. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 verður fjárnám ekki gert í réttindum sem gerðarþola er óheimilt að framselja á sitt eindæmi, nema þau standi til tryggingar fyrir kröfu gerðarbeiðanda. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 90/1989 er tekið fram varðandi 49. gr. að ákvæðinu sé ætlað að taka til réttinda sem gerðarþoli má ekki framselja án atbeina þess sem þau hefur veitt. Þá er og tekið fram að réttindin þurfi að hafa verið veitt gerðarþola á þeirri forsendu að hann njóti þeirra en ekki einhver annar.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög nr. 66/2003 er búseturéttarhafa óheimilt að framselja búseturétt sinn eða framleigja íbúðina án skriflegs samþykkis húsnæðissamvinnufélags. Er og ljóst samkvæmt 2. mgr. 19. gr. að samþykki húsnæðissamvinnufélags þarf fyrir því að réttur til afnota af íbúð geti færst yfir til maka eða lögerfingja. Ákvæði þessi eru áréttuð í 16. gr. samþykkta stefnda. Samþykki stefnda er því ávallt áskilið ef búseturéttur á að geta flust til annars aðila frá upphaflegum búseturéttarhafa.
Krafa stefnanda lýtur m.a. að því að viðurkennt verði að hann sé „eigandi“ að búseturéttindum þeim er Gísli Hjálmar Hauksson eignaðist á grundvelli búsetusamnings síns við stefnda, dagsettum 4. febrúar 2004. Af 19. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög nr. 66/2003, sem og 16. gr. samþykkta stefnda, má ljóst vera að framsal búseturéttarins er með öllu óheimilt án samþykkis stefnda. Er því uppfyllt það skilyrði sem sett er í 49. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, um að þau réttindi séu undanþegin fjárnámi sem gerðarþola sé óheimilt að framselja á sitt eindæmi. Samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 72. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 er þrotamanni heimilt að halda þeim fjárhagslegu réttindum sem fjárnám verður ekki gert í eða verða undanþegin fjárnámi. Með vísan til þessa, sem og til þess sem að ofan hefur verið rakið, verður því þegar af þessari ástæðu ekki hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Með vísan til atvika málsins þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómorð:
Stefndi, Búseti húsnæðissamvinnufélag Reykjavík, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, þrotabúi Gísla Hjálmars Haukssonar.
Málskostnaður fellur niður.