Hæstiréttur íslands

Mál nr. 136/1999


Lykilorð

  • Fjárdráttur
  • Skilorð


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 10. júní 1999.

Nr. 136/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Ingibjörgu Erlu Birgisdóttur

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

Fjárdráttur. Skilorð.

I var ákærð fyrir fjárdrátt en til vara fyrir þjófnað með því að hafa á tveggja ára tímabili dregið sér 3.329.200 krónur af bankabókum konu fæddrar 1901, sem hún vann fyrir heimilisstörf og aðstoðaði meðal annars með sendiferðum í banka. I játaði brotið og var háttsemi hennar talin varða við 247. gr. almennra hegningarlaga. Var I dæmd til fangelsisrefsingar, en hluti refsivistarinnar var skilorðsbundinn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Arnljótur Björnsson og Sigurður Líndal prófessor.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærða krefst þess að refsing verði milduð og að beitt verði ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um skilorð.

Ákærða hefur skýlaust játað þau brot, sem henni eru gefin að sök í ákæru, og hún framdi á tímabilinu frá janúar 1996 til mars 1998. Ákærða dró sér verulega fjárhæð með refsiverðum hætti og hefur ekkert greitt til baka. Eru brot hennar réttilega heimfærð til refsiákvæðis í héraðsdómi.

Ákærða hefur ekki áður gerst sek um brot á almennum hegningarlögum. Að virtum öllum atvikum þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði, en fresta skal fullnustu sjö mánaða af refsivistinni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þrem árum frá uppkvaðningu þessa dóms haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærða skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, Ingibjörg Erla Birgisdóttir, sæti fangelsi í 10 mánuði en fresta skal fullnustu 7 mánaða af refsivistinni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þrem árum frá uppkvaðningu þessa dóms, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærða skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðna Á. Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 1999.

Árið 1999, fimmtudaginn 11. mars er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Gretu Baldursdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr: S-172/1999: Ákæruvaldið gegn Ingibjörgu Erlu Birgisdóttur, en málið var dómtekið 26. febrúar sl. á grundvelli 125. gr. laga nr. 19/1991.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 2. febrúar sl. á hendur: Ingibjörgu Erlu Birgisdóttur, Æsufelli 4, Reykjavík, kennitala 020448-4589,

„fyrir fjárdrátt en til vara fyrir þjófnað með því að hafa á tímabilinu frá janúar 1996 fram í janúar 1998 dregið sér samtals kr. 3.329.200 af bankabókum Sigríðar A. Matthíasdóttur kt. 201201-6839, Háteigsvegi 12, Reykjavík, sem ákærða vann fyrir heimilisstörf sem starfsmaður Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar og aðstoðaði meðal annars með sendiferðum í banka, kr. 905.000 af sparisjóðsreikningi nr. 303-3-64148 hjá Búnaðarbanka íslands hf. og kr. 2.423.300 af sparisjóðsreikningi nr. 517-5-22838 hjá Íslandsbanka hf.

Telst þetta aðallega varða við 247. gr. en til vara við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

Þess er krafist, að ákærða verði dæmd til refsingar.

Stefán Matthías Autrey kt. 100357-7479, krefst skaðabóta fyrir hönd nefndrar Sigríðar Matthíasdóttur kr. 3.329.200 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25,1987 af kr. 259.000 frá 12.09.1996, af kr. 3.267.500 frá 15.12.1997, af kr. 3.329.200 frá 31.03.1998, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.”

Ákærða kom fyrir dóminn 26. febrúar sl. og kvað háttsemi sinni rétt lýst í ákærunni. Af hennar hálfu var bótakröfu hafnað vegna aðildarskorts og ákvað dómari með vísan til 1. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 að synja um að bótakrafan yrði tekin til meðferðar í málinu, þar sem augsýnilegt þætti að það myndi valda verulegri töf á málinu.

Í samræmi við 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, var málið dómtekið 26. febrúar sl. eftir að sækjandi og verjandi höfðu tjáð sig um lagaatriði og viðurlög. Gerði verjandi kröfu um að ákærða yrði dæmd til vægustu refsingar og auk þess krafðist hann hæfilegrar þóknunar fyrir verjendastörf sín.

Málavextir

Ákærða vann við heimilisstörf fyrir Sigríði Matthíasdóttur í tæp fjögur ár. Hún hefur lýst starfi sínu þannig að hún hafi átt að þrífa, búa til mat, sjá um fuglana hennar og jafnframt halda henni „selskap”. Kveður ákærða samband þeirra á milli hafi þróast út í það að þær hafi orðið vinkonur og hafi sér þótt mjög vænt um Sigríði, sem hafi getað hringt til hennar hvenær sem var jafnt á nóttu sem degi. Hún kvaðst hafa farið að sinna fjármálum Sigríðar nánast frá upphafi, að ósk Sigríðar. Hafi ákærða aðstoðað hana með því að greiða reikninga fyrir hana, kaupa í matinn og þess háttar.

Ákærða dró sér samtals kr. 3.329.200 af bankabókum Sigríðar á tímabilinu janúar 1996 til janúar 1998. Á umræddu tímabili fór hún margar ferðir í banka með bankabækur Sigríðar og tók út úr þeim, ýmist tók hún einungis út fyrir Sigríði án þess að draga sér nokkurt fé, eða dró sér hluta af útteknum fjárhæðum, eða dró sér allt sem hún tók út.

Niðurstaða

247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fjallar um þá háttsemi að draga sér fjármuni eða önnur verðmæti, sem maður hefur í vörslum sínum, en annar maður er eigandi að. Eins og atvikum er háttað í máli þessu þykir ljóst vera að ákærða hafi í raun haft vörslur þeirra sparisjóðsbóka sem hún tók út úr. Þykir því sannað, með skýlausri játningu ákærðu, sem studd er öðrum gögnum málsins, að hún hafi framið þá háttsemi sem ákært er fyrir og varðar brot hennar við 247. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærða hefur ekki svo vitað sé sætt refsingum fyrir hegningarlagabrot en samkvæmt sakavottorði gekkst hún undir sátt í Sakadómi Reykjavíkur 16. september 1986 vegna umferðarlagabrota.

Ákærða hefur skýlaust játað það brot sem hún er saksótt fyrir og verið til samvinnu við að upplýsa verknaðinn. Hins vegar sýndi hún styrkan og einbeittan brotavilja, þegar hún margítrekað, á tveggja ára tímabili, misnotaði sér aðstöðu sína og trúnað Sigríðar Matthíasdóttur, með því að draga sér talsvert mikla fjármuni af bankabókum hennar. Hún hefur ekki endurgreitt Sigríði þessa fjármuni og hefur lýst því yfir að hún hafi ekki tök á því að bæta henni það tjón sem brot hennar hefur valdið.

Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið þykir refsing ákærðu, að teknu tilliti til 70. gr. almennra hegningarlaga, vera hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði.

Þá verður ákærða, samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála, dæmd til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talda þóknun verjanda síns, Guðna Haraldssonar hæstaréttarlögmanns sem þykir hæfileg 40.000 krónur.

Dómsorð:

Ákærða Ingibjörg Erla Birgisdóttir sæti fangelsi í 8 mánuði.

Ákærða greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun til verjanda síns Guðna Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.