Hæstiréttur íslands

Mál nr. 179/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinghald


Föstudaginn 19

 

Föstudaginn 19. apríl 2002.

Nr. 179/2002.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

X

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Kærumál. Þinghald.

Hæstiréttur hafnaði kröfu X um að þinghöld yrðu háð fyrir luktum dyrum í máli ákæruvaldsins gegn honum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2002, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að þinghöld verði háð fyrir luktum dyrum í máli sóknaraðila gegn honum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að þinghöld í málinu verði háð fyrir luktum dyrum.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Við ákvörðun um hvort þinghald verði háð fyrir opnum dyrum eru ekki efni til að gæta sérstaklega að afstöðu þess, sem kann að hafa uppi einkaréttarkröfu í opinberu máli. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2002.

Málavextir

Með ákæru Ríkissaksóknara 27. mars sl. er ákærði saksóttur fyrir manndráp með því að svipta lífi Finnboga Sigurbjörnsson, f. 22. september 1957, og fyrir kynferðisbrot með því að eiga í tölvu sinni klámmyndir af börnum.  Ákærði gekkst við brotum sínum þegar málið var þingfest 12. þ.m.  Af hálfu hans er þess krafist, með vísan til a-liðar 1. mgr. 8. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991, að þinghöld í málinu verði fyrir luktum dyrum.  Ákæruvaldið krefst þess hins vegar að þinghöldin verði fyrir opnum tjöldum og vísar um það til 1. mgr. 8. gr. oml. og til 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62,1994, en í báðum þessum lagaákvæðum komi fram sú meginregla að réttarhöld skuli fara fram í heyranda hljóði og að mikið þurfi til að koma að víkja megi frá henni.  Undir þetta tekur réttargæslu­maður móður Finnboga heitins og krefst þess fyrir hennar hönd að réttarhöldin fari fram í heyranda hljóði.

Meðal gagna málsins er geðheilbrigðisrannsókn sem Sigurður Páll Pálsson geðlæknir, hefur gert á ákærða vegna málsins.  Kemur þar fram sú skoðun læknisins að ákærði hafi verið ósakhæfur þegar hann framdi brotið og sýni hann örugg merki sturlunarsjúkdóms og ranghugmynda, auk einkenna um persónuleikatruflun og skapgerðarbresti.  Lagt hefur verið fram vottorð Víðis Hafbergs Kristinssonar sálfræðings, þar sem fram kemur að ákærði kvíði því mjög að vera fyrir augliti margra við réttarhöld í málinu og álítur sálfræðingurinn að veruleg hætta sé á því að geðrænt ástand hans myndi versna ef honum yrði gert að þola það.  Þá hefur einnig verið lagt fram vottorð Magnúsar Skúlasonar, geðlæknis á réttargeðdeildinni á Sogni, þar sem ákærði vistast nú.  Segir þar að ákærði sé “haldinn alvarlegum geðsjúkdómi með skerta stjórn á innra lífi, hugsunum og tilfinningum, þjakaður af viðkvæmni fyrir öllu áreiti.”  Telur læknirinn að fjölmennt réttarhald yrði ákærða mikil raun og hefði slæm áhrif á þá meðferð sem hann gangist nú undir.

Niðurstaða

Ljóst er að réttarhöld eins og þau sem fyrir dyrum standa í málinu hljóta yfirleitt að vera þungbær fyrir sakborning og vafalaust er að ákærði kvíðir því að þurfa að sæta því að þau fari fram í heyranda hljóði.  Á hinn bóginn er til þess að líta að sakborningar verða almennt að þurfa að þola það að fjallað sé fyrir opnum tjöldum um sakir sem á þá eru bornar og eins til þess að hagsmunir almennings, og um leið sakborninga sjálfra, af því að rekstur sakamála fari fram fyrir opnum tjöldum, eru mjög ríkir og þeim mun ríkari sem sakirnar í málinu eru meiri.  Byggist reglan í 8. gr. oml. um opinbera málsmeðferð á þessu sjónarmiði.  Í a-lið 1. mgr. þeirrar greinar segir að heimilt sé að halda þing fyrir luktum dyrum til hlífðar sakborningi eða nánum vandamönnum hans þegar sérstaklega stendur á en það skilyrði er hins vegar ekki sett í b-lið þessarar málsgreinar varðandi vitni og brotaþola.  Í 1. mgr. 6. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu segir að sakborningur eigi rétt til réttlátrar og opinberrar máls­meðferðar og að banna megi fréttamönnum og almenningi aðgang að réttarhöldunum að öllu eða nokkru af siðgæðisástæðum eða með tilliti til allsherjarreglu eða þjóðar­öryggis í lýðfrjálsu landi eða vegna hagsmuna ungmenna eða verndar einkalífs málsaðila.  Ljóst er þetta ákvæði sáttmálans er einnig byggt á því að saman falli hagsmunir sakbornings og samfélagsins af því að almenningur og fréttamenn geti gengið úr skugga um að málsmeðferðin sé réttlát.  Loks verður ekki litið fram hjá því að móðir Finnboga heitins, sem gert hefur kröfu um skaðabætur úr hendi ákærða, hefur krafist þess að málsmeðferðin verði opinber.

Þegar alls þessa er gætt er það álit dómsins að ekki standi svo sérstaklega á í málinu að unnt sé verða við kröfu ákærða um það að þinghöld í málinu fari fram fyrir luktum dyrum.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

 Synjað er kröfu ákærða, X, að meðferð málsins fari fram fyrir luktum dyrum.