Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-187
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Tollur
- Stjórnarskrá
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 27. maí 2019 leitar Festi hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. sama mánaðar í málinu nr. E-1512/2018: Festi hf. gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenska ríkið leggst ekki gegn beiðninni.
Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta til endurgreiðslu á fé sem hann hafði innt af hendi til gagnaðila á tilteknu tímabili vegna innflutnings á landbúnaðarvörum sem báru toll samkvæmt tollskrá og öðrum viðaukum við tollalög nr. 88/2005. Reisti hann kröfu sína á ákvæðum laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda og taldi að álagning þessara tolla hafi verið andstæð tilgreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda.
Í leyfisbeiðni eru engin rök færð fyrir því að þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti, sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Þegar af þessari ástæðu er beiðninni hafnað.