Hæstiréttur íslands
Mál nr. 481/1998
Lykilorð
- Húsbrot
- Eignaspjöll
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 1999. |
|
Nr. 481/1998. |
Ákæruvaldið (Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Ólafi Hallgrímssyni (Sigurður Gizurarson hrl.) |
Húsbrot. Eignaspjöll. Skilorð.
Ó gekk inn í ólæsta íbúð í fjölbýlishúsi að nóttu til en hann var mjög ölvaður. Velti Ó um koll tölvu sem stóð á borði og vaknaði konan X við umganginn. Kom hún Ó út úr íbúð sinni og hringdi á lögreglu. Var Ó handtekinn þar sem hann var að berja að dyrum íbúðarinnar. Ákært var fyrir húsbrot, eignaspjöll og brot gegn blygðunarsemi. Ó var dæmdur fyrir húsbrot og eignaspjöll en sýknaður af ákæru um að hafa brotið gegn blygðunarsemi X með lostugu athæfi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Málinu hefur verið skotið til Hæstaréttar með stefnu 11. nóvember 1998 að ósk ákærða og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu hans.
Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara gerir hann þá kröfu, að refsing verði milduð og jafnframt skilorðsbundin.
Málið er risið af atvikum, sem gerðust laust fyrir kl. 1.30 aðfaranótt laugardagsins 21. mars 1998, þegar ákærði fór í heimildarleysi inn í íbúð á 2. hæð í húsi við Höfðabraut á Akranesi og gerði sig þar heimakominn um stund. Fram er komið, að útidyr hússins hafi verið ólæstar samkvæmt venju og dyr að íbúðinni sjálfri ekki verið læstar, þegar hann hafi leitað inngöngu, en kærandi málsins var þá ein heima ásamt ungum syni sínum. Kveðst hún hafa verið sofandi í svefnherbergi þeirra eftir að hafa svæft drenginn nokkru fyrr, en vaknað við umgang ákærða, sem leitað hafi inn í hitt svefnherbergi íbúðarinnar og síðan fram í eldhús og stofu. Hafi hún mætt honum utan við herbergisdyr sínar, þegar hún fór fram til að athuga, hvað á gengi, en hún hafði haldið í fyrstu, að uppkomin dóttir sín væri komin heim. Henni hafi með lagni tekist að koma honum út fyrir íbúðardyrnar og síðan getað skellt þeim í lás og hringt eftir aðstoð. Var ákærði að banka á hurðina, þegar lögreglumenn komu á staðinn eftir örskamma stund.
Að sögn kæranda og lögreglumanna var ákærði greinilega mjög ölvaður, valtur á fótum og vart viðræðuhæfur. Hann var og ófær um að skýra atburðinn eftir á sakir minnisleysis. Hann var ekki færður á lögreglustöð, heldur óku lögreglumennirnir honum heim til sín.
Samkvæmt gögnum málsins er ljóst, að ákærði gerðist sekur um húsbrot, er varðar við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og er brotið alvarlegs eðlis. Jafnframt gerðist hann sekur um eignaspjöll, er varða við 1. mgr. 257. gr. sömu laga, með því að fella og brjóta tölvu, sem stóð á borði í stofu íbúðarinnar. Ber að fallast á forsendur og niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu fyrir þessi brot.
Um annað atferli ákærða inni í íbúðinni er til þess að líta, að kærandi nefndi ekki við lögreglumenn, er komu tvívegis á vettvang um nóttina, að ákærði hefði sýnt sér lostugt athæfi. Eins og gögn málsins liggja fyrir þykja þau ekki nægja til að sannað verði talið, að atferli hans gagnvart kæranda hafi gengið svo langt, að varði við 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992. Með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður því að sýkna ákærða af þessum lið ákærunnar.
Refsingu ákærða ber að ákvarða á þeim grundvelli, sem lýst er í héraðsdómi. Einnig ber að taka tillit til þess, að húsbrot hans var til þess fallið að valda kæranda ótta og óþægindum, eins og á stóð, jafnvel þótt annað refsivert athæfi kæmi ekki til. Telst refsingin hæfilega ákveðin hin sama og tiltekin var í héraðsdómi, fangelsi þrjá mánuði. Með hliðsjón af fyrrgreindum niðurstöðum og högum ákærða þykir þó rétt að fresta fullnustu tveggja mánaða af þeirri refsivistun, og falli refsingin niður að þeim hluta að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað sakarinnar, svo sem um er mælt í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ólafur Hallgrímsson, sæti fangelsi 3 mánuði. Fresta skal fullnustu á tveimur mánuðum af þeirri refsivistun, og falli refsingin niður að þeim hluta að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi áfrýjandi almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað á að vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 60.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Gizurarsonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 21. október 1998.
Ár 1998, miðvikudaginn 21. október, er á dómþingi Héraðsdóms Vesturlands, sem háð er að Bjarnarbraut 8, Borgarnesi, af Finni Torfa Hjörleifssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í héraðsdómsmálinu nr. S-26/1998, ákæruvaldið gegn Ólafi Hallgrímssyni, sem tekið var til dóms 8. október 1998.
Málið er höfðað fyrir dóminum með ákæruskjali ríkissaksóknara dagsettu 18. júní 1998 á hendur ákærða Ólafi Hallgrímssyni, kt. 090857-4369, Heiðargerði 9, Akranesi. Málið barst dóminum 22. júní 1998 og var þingfest 13. júlí sama ár. Fyrirhugaðri aðalmeðferð málsins sem fram átti að fara 28. júlí 1998 var frestað að ósk verjanda ákærða.
Í ákærunni segir, að málið sé höfðað á hendur ákærða ,,fyrir hegningarlagabrot, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 21. mars 1998, farið í heimildarleysi inn í íbúð Lilju Lindar Sæþórsdóttur, kennitala 211056-4299, að Höfðabraut 1, Akranesi, afklæðst að hluta, rutt um koll tölvu af gerðinni Victor, V 386 MX, en af því hlutust töluverðar skemmdir á tölvunni, og í framhaldi af því er húsráðandi kom að ákærða, gripið utan um hana, sleikt hana í framan og farið með höndum um líkama hennar, þ.á m. brjóst.
Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992, 231. gr. hegningarlaga og 1. mgr. 257. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu krefst Jón Haukur Hauksson, héraðsdómslögmaður, skaðabóta fyrir hönd Lilju Lindar Sæþórsdóttur, kennitala 211056-4299, úr hendi ákærða, 374.000 krónur og skaðabóta fyrir hönd Fjólu Lindar Jónsdóttur, kennitala 050280-3579-2729 (svo), úr hendi ákærða, 258.680 krónur. Jafnframt er gerð krafa um lögfræðikostnað við að halda frammi skaðabótakröfunni.”
Við munnlegan málflutning krafist sækjandi málsins þess ennfremur, að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Verjandi ákærða, Tryggvi Bjarnason héraðsdómslögmaður, krafðist þess, að ákærði yrði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandinn þess aðallega, að ákærði verði sýknaður af framangreindri skaðabótakröfu, til vara að bótakröfunni verði vísað frá dómi og til þrautavara að hún verði lækkuð. Þá gerir lögmaðurinn kröfu til hæfilegra málsvarnarlauna.
Málavextir.
Kl. 01:28 aðfararnótt laugardagsins 21. mars 1998 hringdi kærandi, Lilja Lind Sæþórsdóttir í lögregluna á Akranesi og óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna óboðins gests á heimili hennar að Höfðabraut 1, Akranesi. Er lögreglumenn komu á vettvang hittu þeir fyrir karlmann á 2. hæð hússins, ákærða í máli þessu, þar sem hann var að berja á hurð á íbúð kæranda. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var ákærði áberandi ölvaður og vart viðræðuhæfur, en hann hafði klætt sig úr skóm og jakka. Skórnir voru á gólfinu í stigahúsinu en kærandi lét lögreglu hafa jakkann. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu virtist kærandi hálf miður sín. Hún skýrði lögreglumönnunum frá því að hún hefði vaknað við umgang í íbúðinni og haldið ,,að krakkarnir hafi verið að koma heim, en við nánari athugun hafi hún séð að þar var maður sem hún kannaðist ekki við.” Hafi maðurinn ráfað um íbúðina. Var ákærði handtekinn og færður á lögreglustöð og skömmu síðar hringdi kærandi á lögreglustöðina og skýrði frá því að ákærði hefði skemmt tölvu, sem hefði verið í stofu íbúðarinnar. Fóru lögreglumenn aftur á vettvang og sáu að tölvu hafði verið rutt af skrifborði og niður á gólf. Var ekki hægt að kveikja á tölvunni og borðplata hafði rispast.
Ákærði gaf skýrslur hjá lögreglu 26. mars og 6. apríl 1998 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.
Ákærði skýrði svo frá að hann hefði verið á herrakvöldi hjá knattspyrnudeild Íþróttabandalags Akraness í íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum kvöldið fyrir atvikið. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því er hann yfirgaf skemmtunina og næst muna eftir sér er hann vaknaði morguninn eftir. Fyrir dómi kvaðst ákærða ráma í það að hafa verið á veitingastaðnum Langasandi líklega á bilinu kl. 02:00 til 03:00 um nóttina og þaðan hefði hann farið heim til sín. Ákærði kvaðst ekkert muna eftir því að hafa farið inn í húsið að Höfðabraut 1 umrædda nótt en hann kannist við fólk sem býr á neðstu hæð hússins.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu sem vitni kærandi, Lilja Lind Sæþórsdóttir, og lögreglumennirnir Gunnar Hafsteinsson og Guðmundur Hjörvar Jónsson. Lilja Lind gaf skýrslu hjá lögreglu 24. mars 1998.
Kærandi, Lilja Lind Sæþórsdóttir, skýrði svo frá að umrædda nótt hefði hún verið sofandi á heimili sínu ásamt fimm ára syni sínum. Hún kvaðst hafa vaknað við að hurð inn í íbúð hennar, sem verið hefði ólæst, hefði verið lokað harkalega og talið að þar væri dóttir hennar komin. Síðan hefði verið gengið inn í svefnherbergi dóttur hennar og viðkomandi virst fara úr einhverju og leggjast upp í rúm. Skömmu síðar hefði verið gengið fram í eldhús og þaðan aftur og í þann mund heyrst skruðningar. Kærandi kvaðst þá hafa farið fram og mætt ókunnugum manni, sem hefði gengið í átt að herbergi kæranda. Maðurinn hefði sagt við hana: ,,Komdu, ég er að heimsækja þig”. Kærandi kvaðst hafa orðið skelfingu lostin, en maðurinn hefði tekið utan um hana, um annað brjóstið á henni og sleikt hana eitthvað í framan. Kærandi kvað þau hafa verið fyrir utan hurðina á herbergi hennar þar sem sonur hennar hefði einnig sofið og hún því reynt að tala lágt til mannsins og beðið hann að koma fram. Henni hafi loks tekist að fá manninn fram á gang fyrir framan íbúðina, en sjálf komist aftur inn í íbúðina og getað skellt í lás. Kærandi kvaðst strax hafa hringt í lögregluna, sem hefði komið mjög fljótt á vettvang, en á meðan hefði maðurinn staðið fyrir framan íbúðina og barið á rúður í hurðinni. Kærandi kvaðst hafa farið inn í herbergi dóttur hennar og þar fundið jakka og skó mannsins og afhent lögreglu. Kærandi kvaðst síðan hafa séð það eftir að lögregla hafði fjarlægt manninn að hann hefði rutt tölvu, sem stóð á skrifborði í stofunni, niður á gólf, og tölvan hefði ekki virkað. Kærandi kvaðst því hafa hringt aftur í lögregluna og hefðu lögreglumenn komið aftur á staðinn til að skoða verksummerki.
Kærandi lýsti því að atvikið hefði haft mikil áhrif á sig og dóttur sína. Hún kvaðst hafa þurft að leita sér læknisaðstoðar og fengið lyf, m.a. til að geta sofið.
Lögreglumennirnir Gunnar Hafsteinsson og Guðmundur Hjörvar Jónsson kváðust hafa farið á vettvang umrætt sinn, og er þeir hefðu komið þangað hefði ákærði verið að banka á hurð á 2. hæð hússins. Ákærði, sem hefði verið áberandi ölvaður, hefði sagst eiga heima í húsinu. Vitnið Gunnar kvaðst hafa rætt við kæranda og hún tjáð þeim að ákærði hefði komið inn í íbúð hennar óboðinn, en hún hefði ekki talað um kynferðislega áreitni af hálfu ákærða. Vitnin sögðu kæranda hafa afhent þeim jakka kæranda og vitnið Guðmundur kvaðst hafa leitt ákærða út úr húsinu og honum hefði síðan verið ekið til síns heima. Vitnin lýstu því að kærandi hafi virst miður sín, en vitnið Gunnar kvað kæranda hafa svarað því neitandi er hún hefði verið innt eftir því hvort ákærði hefði gert eitthvað af sér. Vitnin kváðust hafa farið aftur á vettvang vegna skemmda á tölvu og kvaðst vitnið Gunnar hafa séð tölvu á stofugólfi íbúðarinnar og smáskemmd á borðplötu en ekki hafi verið sjáanlegar skemmdir á tölvunni.
Niðurstaða.
Ákærði kveðst ekki muna eftir atvikum umrætt sinn. Skýrsla kæranda fyrir dómi var greinargóð og trúverðug og framburður hennar mjög á sömu lund hjá lögreglu og fyrir dómi. Þykir dóminum því ekki varhugavert að byggja niðurstöðu málsins á framburði hennar, sem fær stoð í öðrum gögnum málsins, m.a. skýrslum lögreglumanna, sem fóru á vettvang umrætt sinn. Þykir samkvæmt þessu sannað að ákærði hafi aðfararnótt laugardagsins 21. mars 1998 farið í heimildarleysi inn í íbúð kæranda Lilju Lindar Sæþórsdóttur að Höfðabraut 1, Akranesi, rutt um koll tölvu, eins og nánar er lýst í ákæruskjali, tekið utan um kæranda, sleikt hana í framan og tekið með hendi um annað brjóst hennar. Athæfi ákærða, eins og atvikum var háttað, var lostugt og til þess fallið að særa blygðunarsemi kæranda og þannig brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot ákærða varðar einnig við 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. sömu laga.
Ákvörðun refsingar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann á árunum 1975 og 1988 undir sektir fyrir áfengislagabrot, og 1993 gekkst hann undir sekt m.a. fyrir brot gegn siglingalögum. Í febrúar 1992 gekkst ákærði undir sekt fyrir brot gegn 209. og 231. gr. almennra hegningarlaga, og 20. apríl 1998 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn sömu lagagreinum.
Ákærði hefur með þeim brotum, sem hann er nú sakfelldur fyrir, unnið sér til refsingar samkvæmt 209. gr., 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot ákærða er framið áður en dómur frá 20. apríl sl. var kveðinn upp. Eftir reglum 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1995, ber að taka upp dóminn frá 20. apríl sl. og ákvarða refsingu ákærða í einu lagi fyrir brot það sem hann hlaut skilorðsdóm fyrir og það brot sem hann er nú sakfelldur fyrir. Þá ber að ákvarða refsingu ákærða með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot ákærða, sem hann er nú sakfelldur fyrir, var til þess fallið að valda kæranda miklum ótta og óþægindum og með vísan til þessa þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Ákærði hefur þrisvar brotið gegn 209. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga, og þykir dómara því ekki rétt að skilorðsbinda refsingu hans að neinu leyti.
Skaðabætur.
Með bréfi dagsettu 27. mars 1998 hefur Jón Haukur Hauksson héraðsdómslögmaður sett fram skaðabótakröfu á hendur ákærða vegna kæranda Lilju Lindar Sæþórsdóttur og dóttur hennar Fjólu Lindar. Skaðabótakröfuna vegna kæranda sundurliðar lögmaðurinn þannig:
|
Andvirði tölvu |
kr.124.400 |
|
Miski |
kr.250.000 |
|
Samtals |
kr.374.400 |
Skaðabótakröfuna vegna Fjólu Lindar sundurliðar lögmaðurinn þannig:
|
Þjáningabætur |
kr. 3.080 |
|
Vinnutap |
kr. 5.600 |
|
Miski |
kr.250.000 |
|
Samtals |
kr.258.680 |
Þá krefst lögmaðurinn lögfræðikostnaðar án tilgreiningar á fjárhæð.
Til stuðnings kröfuliðnum varðandi tölvuna hefur verið lagt fram bréf Tölvuþjónustunnar þar sem fram kemur að ekki er talið borga sig að gera við umrædda tölvu. Áætlað verðmæti hennar fyrir tjónið er talið vera 30.000 til 40.000 krónur en ný tölva hafi kostað 26. mars sl. 124.400 krónur. Þá hefur verið lagt fram læknisvottorð þar sem fram kemur að sjúkdómseinkenni kæranda hafi versnað eftir umrætt atvik. Lögmaður bótakrefjanda sótti ekki þing dóm við aðalmeðferð málsins og var ekki gerð nánari grein fyrir kröfunum fyrir dómi.
Ákærði hefur samþykkt að greiða sanngjarnt verð fyrir tölvuna hafi hann skemmt hana en hafnað bótakröfunum að öðru leyti. Álitamál er hvert það sanngjarna verð ætti að vera. Til greina kemur áætlað verð tölvunnar fyrir skemmdir eða endurnýjunarverð hennar, eða eitthvað þar á milli. Þar sem bótakrafa Lilju Lindar hefur ekki verið skýrð fyrir dómi að þessu leyti og hvorug bótakrafan að öðru leyti, en dómari telur að þörf sé málflutnings um þær, er rétt að þeim verði vísað frá dómi, sbr. niðurlagsákvæði 172. gr. laga nr. 19/1991.
Sakarkostnaður.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 skal ákærði greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Tryggva Bjarnasonar héraðsdómslögmanns, er þykja hæfilega ákveðin 40.000 krónur auk virðisaukaskatts, og saksóknarlaun í ríkissjóð 40.000 krónur.
Málið flutti af ákæruvaldsins hálfu Ólafur Þór Hauksson sýslumaður.
Dómsorð:
Ákærði, Ólafur Hallgrímsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 40.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Tryggva Bjarnasonar héraðsdómslögmanns, 40.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Skaðabótakröfum Lilju Lindar Sæþórsdóttur og Fjólu Lindar Jónsdóttur á hendur ákærða er vísað frá dómi.