Hæstiréttur íslands

Mál nr. 560/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 27

 

Föstudaginn 27. október 2006.

Nr. 560/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 31. október 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að að X, [kt. og heimilisfang] sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 31. október 2006, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglunnar segir að ávana- og fíkniefnadeild embættisins rannsaki tilraun til innflutnings á miklu magni af fíkniefnum til landsins frá Danmörku.  Fíkniefnin hafi verið falin í tölvum sem afhentar hafi verið til sendingar hjá Y í Danmörku og merktar tæknideild Glitnis, Kirkjusandi, Reykjavík.  Lögregla í Danmörku hafi lagt hald á fíkniefnin þann 18. þ.m. og komið upplýsingum um málið áleiðis til lögreglu hér á landi.  Tölvurnar hafi síðan verið sendar áfram til Íslands með Y flugleiðis og komið til Keflavíkurflugvallar þann 20. þ.m.  Grunur lögreglu hafi beinst að því að starfsmaður eða starfsmenn hjá Y á Íslandi kynnu að vera viðriðnir málið, mögulega kærði, sem sé starfsmaður fyrirtækisins.  Upplýsingar hafi fengist um að kærði mundi sækja sendinguna á flugvöllinn ásamt öðrum sendingum á vegum fyrirtækisins sunnudaginn 22. þ.m.  Sé nánar vísað til greinargerðar Kristjáns Ó. Guðnasonar, aðst. yfirlögregluþjóns, dags. 20. þ.m.

Við eftirlit í gær hafi orðið ljóst að kærði fór með tölvusendinguna ásamt öðrum sendingum í útkeyrslu til móttakenda.  Hafi kærða verið fylgt eftir þar sem hann hafi farið að starfsstöð Glitnis að Kirkjusandi en afhent aðra sendingu, ótengda tölvusendingunni.  Kærði hafi lokið starfsdegi sínum síðdegis sama dag og skilið tölvurnar eftir í bifreiðinni sem lagt hafi verið fyrir utan starfstöð fyrirtækisins í Hafnarfirði.  Í tölvukerfi fyrirtækisins við lok starfsdags hefði kærði skráð sérstaka athugasemd vegna tafa á afhendingu sendingarinnar.  Skv. upplýsingum frá áreiðanlegum tengiliði lögreglu innan Y muni það vera brot á reglum fyrirtækisins að sending sé skilin eftir í bifreið fyrirtækisins með þessum hætti.  Einnig þykir það óvenjulegt að sendingin hafi ekki verið afhent og skráð með þessum hætti.  Við eftirlit í gærkvöldi hafi lögreglumenn orðið þess varir að kærði hafi komið ásamt öðrum manni að starfsstöð fyrirtækisins.  Kærði hafi verið handtekinn skömmu síðar við fyrirtækið þegar hann hafi verið kominn inn í umrædda bifreið fyrirtækisins þar sem tölvurnar hafi verið geymdar.  Samferðamaður kærða, sem hafi beðið álengdar í annarri bifreið, hafi líka verið handtekinn og hafi það reynst vera A.  Sé nánar vísað til upplýsingaskýrslna Húnboga Jóhanns­sonar, rannsóknar­­lögreglumanns, dags. 23. og 24. þ.m, og upplýsinga­skýrslu Kjartans Ægis Kristinssonar um eftirlit, dags. 23. þ.m.. 

Kærði hafi verið yfirheyrður í kvöld en hann neiti allri aðild að málinu.  Sé nánar vísað til framburðarskýrslu kærða.  Kærði þyki vera undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti en svo virðist sem kærði hafi ætlað að flytja tölvurnar frá starfsstöð fyrirtækisins og þyki líklegt að það hafi verið í því skyni að móttaka fíkniefnin.  Fyrir liggi upplýsingar frá Glitni um að bankinn hafi ekki verið að kaupa tölvur frá Danmörku. 

Rannsókn málsins sé á frumstigi en nauðsynlegt sé að upplýsa nánar um einstaka verknaðarþætti hinna grunuðu og meinta aðild kærða að brotinu og tengsl við aðra meinta vitorðsmenn sem tengist málinu, hérlendis sem erlendis, sem séu óþekktir á þessu stigi en tengist fjármögnun, kaupum og sendingu og ætlaðri móttöku fíkniefnanna hér á landi.  Framundan séu frekari yfirheyrslur af vitnum og sakborningum, þ.m.t. kærða.  Nauðsynlegt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hann eða kærði geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á.  Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknar­hagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus. 

Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Samkvæmt því sem að framan segir svo og rannsóknargögnum sem liggja fyrir dóminum liggur rökstuddur grunur á því að kærði eigi aðild að fíkniefnabroti sem getur varðað fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.  Rannsókn málsins er á frumstigi og telur dómarinn að skilyrði a- liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina eins og hún er fram sett.

Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 31. október 2006, kl. 16:00.